Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2007 Febrúar

28.02.2007 21:06

Leitin að Möllu mús og haltasta manninum

  Ég er kominn heim frá Kaupmannahöfn að ég best veit óskaddaður. Um þessa ferð er það helst að frétta að að við hjónin skemmtum okkur vel og það var afar kærkomið að fá svolitla hvíld frá kapphlaupi fjölmiðla um að finna haltasta manninn á Íslandi. Það gæti verið án þess þó að vita það, fróðlegt að vita hvað var efst á baugi ekki Baugi á þessum tíma fyrir ári. Einhvern veginn finnst mér að leitin að haltasta manninum hafi ekki verið eins magnþrunginn og í dag. Reyndar fer jafnframt fram þessa dagana leitin að grænasta flokknum og keppast menn og málgögn í svifrykinu og útblæstrinum syðra við þá leit. Eitt er þó jákvætt við þá umræðu að umhverfisverndin og leitin að gróðurhúsloftinu er farin að haldast meira innan borgarmarkanna en verið hefur. Nægir þar að nefna Heiðmörk, Álafosskvosina og Straumsvík svo eitthvað sé nefnt. Það laumast í mitt lítilvirka heilabú að þessi umræða öll sem er svo niðurdrepandi, yfirborðsleg og vita gagnslaus fyrir þá sem þurfa virkilega á hjálp að halda nema að sjálfsögðu fyrir þá sem nærast á lýðskrumi, tengist á einhvern hátt komandi þingkosningum. Æ hvað það verður gaman þegar kosningum lýkur og umræðan kemst á svolítið hærra plan. Þá gætum við hafið leitina að Guðsvolaðasta landsbyggðarmanninum sem ekur um á nagladekkjum étandi snakk sem löngu er útrunnið. Ekki mundi það nú skemma ef hægt væri nú að kreista út úr honum tár alþjóð til þunglyndisörvunar, ekki veitir af því þá gætum við farið að leita að gráttleiknasta meðalmanninum veifandi ginistuðlum og normalkúrfum og já að sjálfsögðu tökum við tillit til meðalfráviks sem virkar bara í aðra áttina.  
    En svona til bregða birtu á hið örsmáa í lifinu sem er svo mikils virði, þá er orðið ansi langt síðan ég sá nágrana minn hana Möllu mús. En ég sá köttinn í næst næsta húsi í hádeginu, ég held hann heiti Höskuldur eða eitthvað svoleiðis. Höskuldur var sem sé kominn í heimsókn og lét lítið fyrir sér fara á þaki heimili Möllu og skammt þar frá sem fuglunum er gefið. Hjá mér stendur núna yfir að ég held leitin að gráttleiknustu músinni í minni litlu músarveröld. Vonandi er Malla óétin af Höskuldi en líklega fæst aldrei svar við því frekar en svo mörgu öðru.
 

22.02.2007 18:24

Danmörk framundan

   Það eru svo dæmalaust góðir vetrardagar sem leika um Húnaþing þessa dagana. Flóinn hefur skartað logninu svo langt sem augað eygir og elstu menn þakka fyrir þessa tíð. Horfandi á mitt næsta umhverfi svona allveg við það að fara í heimsókn til Margrétar Þórhildar í Danmörku þar sem kyngir niður snjó hleypur örsnöggt  um hugann  " Þarf maður orðið að fara utan til að sjá snjó" Ég og mín kona ætlum að eyða helginni og mánudeginum líka í höfuðborg Danaveldis og veðurspár gera ráð fyrir því að hitinn í Danmörku fari í það minnsta í 4 gráður á sunnudag þannig að fært verður á milli kráa og ef til vill verslana líka. Talandi um þessa góðu tíð í Húnaþingi eystra þá hefur vindur verið að leika aðra landsmenn grátt en gert svo vel að láta okkur hér á Blönduósi og í  nærsveitum algjörlega í friði. Takk fyrir það. En nú liggur leiðin til Danmerkur og reynsla mín af því landi er góð og á vonandi ekki eftir að breytast.

21.02.2007 23:09

Liverpool er hjálpræðið

Það var eins og við manninn mælt þegar farið var fram á hvatningu þá kom hún sem himnasending. Segið svo að ákall um hjálp og golfæfingar skili sér ekki. Liverpool vann og deginum er bjargað og rúmlega það. nú er bara að fara að halla sér og takast síðan á við veruleika morgundagsins.

21.02.2007 18:34

Við þurfum hvatningu

   Stundum koma þeir dagar sem maður er orkulausari en venjulega og hefur það á tilfinningunni að maður gæti gert betur. Það sem af er þessari viku hefur lífið verið svolítið á þennan veginn hjá mér og velti ég því fyrir mér hvað gæti valdið. Enga augljósa ástæðu er hægt að finna svona í fljótheitum en líklega er hér um samspil margra þátta að ræða. En það er svo með alla þessa þætti að spurningin er hver þeirra vegur mest og ræður úrslitunum. Ekki er borgargnýrinn og svifryksmengunin að þjaka mig. Segja má að öræfakyrrð ríki hér um slóðir nema þegar grjótflutningabílar sturta grjóti í gamla bænum í brimvarnargarð eða hvinurinn frá Blöndu þegar hún í miðjum febrúar tekur upp á því að ryðja sig. Þessi ruðningsáhrif segja mér kunnugir menn framan úr Svartárdal að eigi ekki eingöngu við Blöndu heldur hefur Svartá rutt sig nokkrum sinnum og líklega drepið slatta af laxaseiðum. Þessum seiðum hefur verið forðað frá því að verða stór og bíta á öngul þeirra sem þurfa að flýja svifryksmengunina, gatnagerð í Mosfellsbæ eða bara stækkun álvers í Straumsvík. Kannski væri bara ráð að virkja Svartá og koma þannig í veg fyrir þessi ruðningsáhrif og þannig skapa öruggt hæli fyrir gnýþjakaða og kyrrðarneytendur.   Líklega er hér um svartsýnisraus að ræða, manns sem hefur að eigin áliti til þess að gera gott geð. En hvers vegna verður, til þess að gera geðgóður maður svolítið minni í sinni þessa síðustu daga þegar sólin hækkar á lofti og Kristinn H Gunnarsson er kominn í framboð fyrir Frjálslynda. Gæti ekki verið að hluti skýringa sé að leita í þeim umræðum sem eru í samfélaginu þar sem fremstir fara þeir  sem segja að allt sé að fara til fjandans. Sá sem á bágt og sá sem hefur til hnífs og skeiðar og jafnvel sá sem kallast má á sæmilegri grein er farin að trúa því að við búum við slæm skilyrði og að allir séu að gera það gott nema við. Þessi umræða er heilsuspillandi og löngu kominn tími til að hefja umræðuna á það plan að hvergi sé betra að búa en á Íslandi. Ég held að helsti geðheilbrigðisvandi þjóðarinnar sé að finna á Alþingi Íslendinga. Við þurfum hvatningu en en ekki niðurdrepandi lýðskrum.

19.02.2007 11:43

Júróvision og óvænt afmæli

Nú er skemmtileg og viðburðarík helgi að baki. Hún byrjaði með því að á föstudagskvöld komu börnin mín sem eru búsett á Akureyri þessi misserin til helgardvalar. Það vantaði bara að Lára Sóley væri með í þessum hóp en þessi indæla stúlka brá fyrir sig betri fætinum og lagði Cardiff að fótum sér. Laugardagurinn rann upp eins og aðrir dagar, það birti og birti eftir því sem á morgunin leið og þegar birtan var í hámarki þá komu barnabörnin með foreldrum sínum inn um dyrnar og á einu augnabliki breytist hin kyrrláta veröld Jóns og Margrétar. Já veröldin breyttist og fór að minna á gamla daga þegar hlátrasköll, grátur og eðlileg náttúruhljóð venjulegrar fjölskyldu fóru að berast um húsið. Ég nenni ekki að trufla þessa ljúfu upprifjun helgarinnar með olíuleka á Aðalgötunni og er hann hér með úr sögunni. Laugadagurinn hélt áfram að líða og það stefndi í það sem gert hafði verið ráð fyrir þ.e.a.s. Jóróvísíonkvöld með góðu fólki á Árbraut 12. Upp úr kl 20 fór að fjölga í húsinu frá því um miðjan dag og áður en nokkur vissi af var orðið júróvisonpartýhæft. Mikil spenna ríkti og voru menn hreint ekki á einu máli hvaða lag eða flytjandi ætti skilið að fara til Finnlands. Þegar úrslit lágu fyrir varð einum vina minna á orði " Jón við eigum ennþá sjéns" Þennan skildi ég. Annar vinur minn hafði á orði að eldri kynslóðin hefði tekið miklum framförum frá því í fyrra því núna hefði hún lært á gemsana og komnir fram úr krökkunum í notkun þeirra. Þessi dægurlagakeppni var spennandi og ekkert gefið fyrirfram líkt og í fyrra þegar úrslit lágu fyrir löngu fyrir keppni. Þegar þessu partýi lauk tók við annað upp úr miðnætti en það var svolítið á öðrum nótum en hið fyrra . Nú tók við samstund sem einkenndist af því að taka sköpunina í eigin hendur og hætta að þiggja eitthvað frá samfélaginu í gegn um sjónvarp. Hljóðfærasláttur, söngur, og sögur lyftu samkomunni á æðra plan og gleðin og gáskinn einn réð ríkjum. Það er svona til að ljúka þessari upprifjun helgarinnar að svo skemmtilega vildi til að mitt í allri þessari uppákomu álpaðist ég til að eiga afmæli. Það væri svo sem ekkert í frásögur færandi nema fyrir það að ég fékk frábærar gjafir í ýmsu formi. Það hefur aldrei verið mér auðvelt að játa mig sigraðan en barnabörnin í Garðabæ gerðu það sem afar fáum hefur tekist þau gjörsigruðu mig með frábærum afmælissöng. Ég segi bara að lokum. Takk kærlega fyrir mig!

16.02.2007 16:02

Hvernig auka má afköstin í því að gera ekki neitt

Ég hélt að það væri hámark letinnar að gera bara alls ekki neitt. Ég hef komist að því að það er hægt að margfalda afköstin í því að gera ekki neitt og með markvissri ástundun má ná þó nokkrum árangri í því. Til er mælieining sem a.m.k. sjúkraþjálfarar nota sem kallast ef mig misminnir ekki MET. Þannig er algjört aðgerðarleysi eitt MET og ef maður gengur með 5 km hraða á klukkustund upp 5 gráðu halla mun maður líklega afreka það að ná markinu 5,5 MET. Í stuttu máli þá afrekaði ég það í dag að gera ekki neitt 5,5 sinnum á 20 mínútum og geri aðrir betur. Þetta er að minnsta kosti algjört met í mínu lífi hin allra síðustu misseri. Markmiðið er að ná enn betri árangri í því að gera ekki neitt og láta sér líða vel. Allt fyrir mig! Ekki veit ég hversu mörg met það eru að ganga frá getraunaseðlinum með táknunum 1-2-1-1-2-1-1-1-1-1-1-X-1

15.02.2007 22:52

Heilög þrenning

Hér á eftir fylgir svolítið sem er kannski á mörkunum en það eru vísur sem til urðu á hagyrðingakvöldi á Blönduósi líklega árið 2005 og mynd sem kom í Morgunblaðinu nokkru fyrr. Allt hangir þetta saman þ.e parið, vísan og myndin, heilög þrenning.

Fremur traustum féll úr söðli

frú að sunnan æði þreytt.

Að hanga í sleik við Hauk á Röðli

hefur engum gleði veitt.

Konunni er ljúft að lá

því lítið hafði séð´ann.

En eitt var gott við athöfn þá

að hann þagði á meðan

Þessar vísur eru eftir Pétur Pétursson ættaðann frá Höllustöðum. Tilefnið er þessi mynd sem með fylgir og er tekin af undirrituðum. Það er svo með mannanna verk að komi þau fyrir almennings sjónir er aldrei að vita hvað gerist. Ef ekkert verra hlýst af þá er þetta í lagi en við Pétur verðum samt að fara varlega.

14.02.2007 18:31

15 ára í dag

Þessi dagur er merkilegur í lífi mínu og vonandi þeirra sem næstir mér standa. Þennan dag fyrir 15 árum var ég hirtur upp fyrir utan hótel Sögu nær dauða en lífi því nokkrar kransæðar til hjartans stífluðust skyndilega. Ekki var talið útilokað að þessi dagur væri sá síðasti í mínu lífi en svo er Guði fyrir að þakka að það gekk ekki eftir. Sem sagt ég á 15 ára afmæli í dag þó svo að árin frá fæðingu séu nokkuð fleiri. Gárungarnir í mínu lífi sögðu þá þegar sýnt þótti að karl mundi lifa þetta af að þetta væri ekkert nema stórmennskubrjálæði að taka eitt stærsta hús landsins til að halda upp á fertugsafmælið. Ég mæli með því að menn haldi upp á fertugsafmælið en Borgarspítalinn er ekki eftirsóknarverður staður til þess. Það er eins og mig minni að hún Mæva á Litla-Búrfelli eigi líka afmæli í dag og allveg tilvalið ef svo er að óska henni til hamingju með daginn. Það gerist ýmislegt á Valentínusardaginn. 

13.02.2007 16:54

Dægurlagakeppnin lögst í dvala eða kannski dáin

"Tekin hefur verið ákvörðun um að halda ekki dægurlagakeppni á Sauðárkróki í ár en keppnin hefur verið haldin við góðar undirtektir til fjölda ára. Þess í stað stendur til að setja upp í Sæluviku sýningu eða öllu heldur tónlistaveislu.

Líkt og í fyrra munu þeir Sigurpáll Aðalsteinsson, Ellert Jóhannsson og Magnús Svavarsson hafa umsjón með föstudagskvöldinu á Sæluviku og lofa þeir strákarnir dúndrandi stuði." Þessi fyrirsögn blasti við augum þeirra sem lesa Feyki og fara inn á vefinn skagafjordur.com. Þetta var okkur hér vestan Vatnsskarðs sem höfum töluverða ánægju af þessari uppákomu sem Dægurlagakeppnin er, mikið áfall. Kvenfélagið sá lengi um þessa keppni en hún (keppnin) mun hafa farið í einhverskonar einkarekstur fyrir ekki svo margt löngu. Við þessa kappa sem að tilgreindir eru hér að framan kannast maður lítillega. Fyrst hélt ég að Magnús Svavarsson væri hinn eini og sanni Vörumiðlunarkóngur en svo fóru að renna á mig tvær til þrjár grímur hvort hér gæti verið átt við Magnús Svavarsson meindýraeyði. Þar sem ég þekki ekki Magnús meindýraeyði þá gæti hugsanlega verið um sama manninn að ræða en hvort heldur sem er þá vorum við nágranarnir Haukur og ég tilbúnir með lög í fyrsta og annað sætið í þessari keppni. Af framanskráðu úr Feyki verður ekkert af því að við Haukur verðum frægir í ár og er þar m.a. annað hvort meindýraeyðinum eða flutningaforstjóranum  nema hvorutveggja sé, að kenna. Eftir stendur þetta: Af flutningi laga okkar Hauks verður ekki en hvort meindýrum hafi verið eytt skal ósagt látið en það kemur ár eftir þetta ár og meindýrum verður aldrei útrýmt.

12.02.2007 16:51

Rauður og Búkkarauður á besta stað í bænum

Það er ekki að spyrja að því þegar blikkbykkjurnar "velja" sér haga þá er vandað til valsins. Þar sem hið þekkta hús  Dýralæknisbústaður stendur ( reyndar er enginn dýralæknir þar lengur) er víðsýnt og útsýni yfir bæinn er fagurt. Frá þessu sögufræga húsi blasir við Langadalsfjallið, Blanda og bæirnir allt í kring. En þar sem útsýni er gott til allra átta þá verða menn að átta sig á því að það er líka gott að sjá útsýnisstaðinn úr fjarska. Sá sem býr yfir slíkri auðlind verður því að vanda val á útilistaverkum og hverjir veljast til langrar hagagöngu. Engum vafa er undirorpið að Rauður og Búkkarauður hafa komið sé fyrir á besta útsýnisstaðnum og Guð einn veit og kannski örfáir aðrir hversu lengi þeir verða. En ekki er erfitt að ætla að einhverjir munu gleðjast þegar hagagöngu þeirra lýkur

11.02.2007 19:08

Köld slóð

Það er afar áhugavert og vel þes virði að fara í bíó og þekkja næstum alla leikarana persónulega og prívat. Reyndar léku  þessir leikarar ekki  burðar hlutverk í "Kaldri slóð" en samt mikilvægir. Það er býsna skondið að sitja fremstur í salnum og það skiptir ekki máli hvort þú lítur aftur fyrir þig eða starir á tjaldið, það eru sömu andlitin. Ég er afar ánægður með hlut húnvetnskra leikara sem koma úr Austur-Húnvetnskum veruleika. Reyndar var einn leikarinn sem jafnframt er starfsmaður Blönduvirkjunar og fyrrum bóndi í sýslunni afar sannfærandi sem læknir. Já Kristmundur Valberg stóð fyrir sínu. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað á prjónunum og það sannaðist í Kaldri slóð í Blönduósbíói í dag

09.02.2007 16:41

Malla mús og grænu gildin

Það er lítil mús sem býr í bakgarðinum hjá okkur hjónunum og hefur hún komið sér fyrir í safnkassa. Þetta er afar hentugur bústaður fyrir mýs því ylur berst frá rotnandi jurtaleifum og  rétt hjá er smáfuglunum gefið. Það er afar þægilegt  fyrir Möllu mús en svo heitir músin, að draga björg í bú og má segja að hún hafi það nokkuð gott. Nú vill svo til að hýbýli Möllu eru beint fyrir framan eldhúsgluggann en þar hefur konan mín afar hentugt aðsetur. Í hádeginu horfðust þær í augu Margrét kona mín og Malla. Ekki veit ég hvað músin hugsaði eða sagði en ég vona að Malla hafi ekki heyrt hvað kona mín sagði. " Jón ég ætla að fá hann Kristján í vor með kranann og láta hann fjarlægja safnkassann. Það er óþolandi að hafa þessa skelfingu fyrir augunum alla daga" Jesús minn varð mér á orði. Veistu ekki að með því að skapa músinni almennileg búsetuskilyrði þá leitar hún ekki inn í hús til okkar! Við getum bara ekki kippt fótunum undan framtíð þessa litla dýrs, Það er alveg nóg um slíkt þessa síðustu og verstu daga. Músin verður að eiga sér öruggt byrgi. Hvort þessi rök hafi dugað gagnvart konunni og kveikt í huga hennar græn gildi veit ég ekki en ég hef tíman fram á vor til að sannfæra hana um ágæti safnkassans

09.02.2007 14:00

Hugmynd að atvinnutækifæri

Það eru um það þekkt dæmi  að fólk af öllum gerðum safni í kringum sig og jafnvel aðra úrsérgengnum bílum sem er svona ef vægt er til orða tekið heldur hvimleitt. Þetta vandamál má eflaust leysa með því að einhver röskur og fullfrískur maður tæki að sér að koma þessum bílum á viðeigandi stað og sendi eiganda hins úrsérgengna bíls reikninginn.  Bara svona til að koma með tillögu að auglýsingu sem snjallt væri að koma í Húnahornið þá gæti auglýsingin hljóðað eitthvað á þessa leið: "Hef áhuga á að taka að mér alskonar viðvik eða viðgerðir. smávægilegar bílaviðgerðir, trévinnu eða járnvinnu, fyrir bændur jafnt sem aðra. Er með vírsuðu og einnig trans (ef þú þarft einhverskonar hjálp endilega hafðu samband og við ræðum málin)" Flóknara þyrfti þetta ekki að vera.
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 167
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 61091
Samtals gestir: 10747
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:38:17