Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2007 Júní

27.06.2007 23:03

Síðasti Gluggi fyrir sumarfrí

    Þeir eru ansi misjafnir miðvikudagarnir til mannlegra samskipta. Þegar Rúnar* kom með Gluggann í síðasta sinn fyrir sumarfrí var ég nær stanslaust í símanum að ræða við mann og annan. Gafst mér heldur lítill tími að kanna sálina í Rúnari en hann sat hljóður í stólnum sem hann sest venjulega í þegar hann kemur í heimsókn og hugsaði sitt. Ég leit hratt yfir Gluggann og las brýnustu skilaboðin sem eiga að endast okkur í heilan mánuð og ansaði símanum inn á milli. Sem von er þá leiðist þeim sem koma í heimsókn og fá slíkar móttökur sem Rúnar. Kall gafst upp að lokum, skildi eftir sig blað og kvaddi

Nú síðasta vísan samin er
því sumarfrí skal standa.
Jón við símann situr hér
og segir margt að vanda.
    
    Glugginn er kominn í frí, Rúnar er kominn í vísna frí og ég fer líklega í frí þegar þessir tveir eru búnir í fríi. Núna er að renna upp og raunar runninn upp sá tími sem íslenkst samfélag lamast töluvert því margir eru í fríi. Því eru það einföld skilaboð út til ykkar. Í Guðanna bænum farið varlega og vel með ykkur þannig að ég þurfi sem minnst af ykkur að vita í tjónalegu tilliti. 
    
    En svona að lokum þennan miðvikudag þá er gaman að segja frá því að Faktorinn** og Kallinn*** smíða fyrir mig pallinn og það gengur déskoti vel ef ég held kjafti og styggi ekki Kallinn.

* Magnús Rúnar Agnarsson harmonikkuleikari og starfsmaður Samkaupa

** Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp starfsmaður Stíganda og svili minn

*** Stefán Pálsson starfsmaður Stíganda, lúsiðinn útgerðarmaður véla og verkfæra

20.06.2007 16:41

Í höndunum á Gvendi


"Sigurjón hérna sentist inn

með sjö kassa í hendi.

Nú hefst við kallinn Hávi minn

í höndunum á Gvendi."

    Þessi vísa eftir Rúnar segir alveg gersamlega hvað um er að vera í okkar meinlausa samfélagi þessa dagana. Vísan varð að sjálfsögðu til við hina vikulegu afhendingu Gluggans Sigurjón Guðmundsson kenndur við Rútsstaði kom með sjö kassa af víni í morgun í Ríkið og Guðmundur Bratti er tekinn við af Erlendi að yrkja um Hávarð Sigurjónsson legsnyrti. Rúnar var ekkert sérlega upprifin af þessari vísu sinni en ég fullvissaði hann um að með slarkfærri ljóðaskýringu mætti notast við hana. Þessar miðvikudagsstundir okkar Rúnars er okkur svolítil "innspírasjón" og hef ég af því nokkrar áhyggjur hvort andinn muni yfirgefa okkur báða í júlífríi Gluggans.

Sigurjón opnaði augu mín fyrir því eftir að hafa lagt frá sér kassana sjö að margt býr í orðinu jarðfræðingur. Þetta orð er að sögn Sigurjóns notað um þá sem detta af hestbaki og lenda í jörðinni. Það er margt sem býr í tungunni.

15.06.2007 18:16

Þessir föstudagar

    Þessir föstudagar eru þessir föstu dagar í tilverunni þegar venjulegri vinnuviku lýkur og helgin blasir við. Þetta eru þessi föstu tímamót sem maður ætlar að gera svo ofboðslega mikið. Maður ætlar sko að skemmta sér, taka til í bílskúrnum, vera almennilegur við fjölskylduna svo eitthvað sé nefnt. Í stuttu máli þá ætlar maður ekki að missa af neinu og gjörnýta þessa föstu frídaga í botn, ekkert má fara til spillis. Þegar maður vaknar til vinnu á mánudegi og fer yfir helgina í huganum. Gekk allt upp; skemmti ég mér alveg hreint ofboðslega þannig að næringarástand sálarinnar er í góðu ástandi. Gerði ég allt sem væntingar mínar og annara stóðu til? Reyndar hef ég ekki hugsað svona yfirleitt en byrjaði á því seinnipartinn í dag. Þessir föstu dagar í lífi sérhvers manns eru hver öðrum líkir. Leitin að litla manninum sem lendir undir í samfélaginu heldur áfram. Hann er söluvænn og skilar arði því við sem nærumst á lífsreynslu hans höfum svo margt um það að segja hvernig farið er með hann og hjálpumst í sameiningu að segja frá vonsku heimsins. Leitin að litla manninum er lofsverð ef hún skilar þeim ágæta manni eitthvað áleiðis. Vegna þess að ég byrjaði að hugsa svona í dag hef ég ákveðið að hætta því næsta föstudag og halda bara áfram að hlakka til þess að láta Guðmund Andra Thorsson svæfa mig á sunnudagskvöldum með Andrarímum.

13.06.2007 14:15

Miðvikudagar færa frið og ró

    Enn er kominn miðvikudagur og Rúnar búinn að koma með Gluggann. Ekkert orti kall að þessu sinni heldur bar hann mér vísu eftir hann Erlend G Eysteinsson á Stóru-Giljá. Vísan fjallar um "Giljárundrið" hann Hávarð sem einhver hugvitsamur maður gaf á sínum tíma starfsheitið legsnyrtir. Þarf endilega að fá vísuna sem tengist þessu starfsheiti Háva. Hér þarf ég í hendingskasti að gera bragabót því Rúnar rukkaði mig um vísu  í miðju bloggi og sagði ég honum sem var að ég væri orðin andlaus á þessu sviði. Þar sem ég hnaut um kirkjugarðinn í tvígang í vísu Erlendar segir Rúnar. " Ég er hræddur um að þú verðir að breyta þessum pistli þínum því ég hef sett saman vísu:

Hér hjá Jóni um stund ég sat
og horfði á ísbjörnshúna.
Áður vísur ort hann gat
sem hann ekki getur núna.


Það var nefnilega það!  Hávi heitir Hávarður og því hægt að kalla hann Varða sem hirðir kirkjugarða. Mér datt þetta nú bara svona í hug eftir tæklinguna frá Rúnari. 
    Rúnar orti, Glugginn kom, sumarið heldur áfram og sem betur fer gægist annað slagið inn til mín sála með anda í brjósti. Miðvikudagar eru ekki sem verstir.

06.06.2007 14:22

Miðvikudagur og dagurinn hefur sinn gang

"Miðvikudagur og dagurinn gengur sinn gang" var ort á sínum tíma og er þó nokkur sannleikur í því fólginn. Á miðvikudögum kemur okkar ástsæla auglýsingablað Glugginn út og nýt ég þeirra forréttinda að fá hann til mín inn á borð án þess að þurfa að lyfta fingri. Hann Rúnar sem reyndar heitir Magnús hefur alltaf látið mig hafa eitt eintak um leið og hann fer með Gluggann í Ríkið. " Jæja Rúnar minn góður " sagði ég si svona þegar hann kom með Gluggann " Hefur þú ekkert ort nýlega". " Nei" sagði Rúnar. Taldi ég þetta heldur slaka frammistöðu og hafði á því orð. Rúnar hugsaði sig um í smástund meðan ég las yfir Gluggann og rak augun í það að VÍS væri lokað á föstudaginn og auglýsingu frá kirkjugarði Blönduóss strax í kjölfarið. Ég hrökk aðeins við en bara smá stund þegar ég áttaði mig á hlutunum. Þegar ég var kominn að Kaspar frá Kommu á baksíðu Gluggans var ég skyndilega truflaður.

"Jón situr við sinn TM sjóð
í skjölum er að blaða.
Segir: ef ég yrk' ei ljóð
sé engin frammistaða"

Rúnar kvittaði fyrir sig, bað mig að hafa góðan dag og hélt áfram sinn veg á sínum fjallabíl. Það jafnast ekkert á við andann í Aðalgötunni

05.06.2007 21:50

Farnir að eldast en góðir

    Það  er stundum gott að þegja. Sumir segja að það sé bara helvíti gott því þá geti maður verið álytin hálfviti en með því að ljúka upp munni þá taki maður af allan vafa. Það er margt til í þessu og á við rök að styðjast en mín loka niðurstaða í þessu máli er sú að betra er að  vera vitlaus en vera álitin það. Um helgina hitti ég fyrrum skólafélaga mína sem ég útskrifaðist með á Hvanneyri fyrir 30 árum. 30 árum hugsið ykkur það. Þá urðum við áttmenningarnir kandidatar frá Hvanneyri og höfðum öðlast mennt til að leiðbeina bændum eða gera bara eitthvað gott af okkur. Við vorum komnir með skírteini upp á vasann að við værum bara nokkuð merkilegir menn og framtíðin væri okkar. Við hittumst allir að Hrísum í  Fitjárdal á laugardegi og snæddum þar gúllassúpu og töluðum heil ósköp. Dagskráin var þétt en vegna þess hve hissa við vorum að þekkja hvern annan án fyrirhafnar duttum við í fyrra far og nutum dagsins. Farin var hringur í Miðfirði með viðkomu á Bjargi og síðast en ekki síst hjá Jóni og Sigurbjörgu á Búrfelli í sama dal. Ef einhver er léttgeggjaður og kemst upp með það þá er það Jón á Búrfelli. Geggjunin er í því fólgin að vera gersamlega laus úr álögum tíðarandans og lifa lífinu eins og það kemur fyrir. Þetta atriði þarf ég að skoða nánar og jafnvel fjalla um það. Við félagar ásamt mökum heilsuðum upp á þau hjón Ólöfu og Skúla á Tannstaðabakka í Hrútafirði og sjá jafn samstæð hjón með jafn mikinn kjark í brjósti og einbeittan lífsvilja var afar ánægjulegt og  lífssýn þeirra að minnsta kosti fyllti mig baráttugleði. Eftir að hafa hitt þessi yndælu hjón snæddum við saman kvöldverð á Gauksmýri og héldum áfram samræðum langt fram á nótt. Það var gott að gista Gauksmýri. Þar voru samhent hjón með ríka þjónustulund sem hýsti í það minnsta okku hjónin í Tröllakirkju heila nótt án nokkurra aukaverkana. Þau sem tóku þátt í þessari 30 ára uppákomu búfræðikandidata frá Hvanneyri voru: Karl Friðiksson og hans kona Hafdís afar tengd Hrísum í Fitjárdal. Jón Eiríksson og Sigurbjörg á Búrfelli í Miðfirði. Þorvaldur Þórðarson og og Rósa frá Stað  í Súgandafirði, Rögnvaldur Ólafsson frá Flugumýrarhvammi í Skagafirði, Pétur Jónasson Vaðlaheiðarjarðgangnavörður, Guðmundur Jónsson fyrrum hænsna- og kalkúnabóni á Reykjum, Róbert Hlöðversson hvergerðingur sem hefur eftirlit með bændum og síðast en ekki síst við hjónin frá Blönduósi Margrét og ég.  Þetta voru góðir endurfundir með góðum félögum á góðum stað.
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 162
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 63365
Samtals gestir: 11293
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 11:10:51