Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2008 Febrúar

28.02.2008 13:40

Jón Sigurðsson hundur í Kraká?

    Lífið er fullt af tilviljunum, á það rekum við okkur nær daglega. Tilviljanir eru til þess fallnar að hafa af þeim gaman og gera úr þeim lítil ævintýri. Starfsmenn Stíganda á Blönduósi og fylgifiskar þeirra fóru fyrr í vetur til Póllands, nánar tiltekið til borgarinnar Kraká. Að öllum líkindum hefur tilgangur ferðarinnar verið sá að komast í smástund burt frá hversdaglífinu á Blönduósi. Sjá framandi menningu, þroska og næra sálina. Sjá sjálfan sig og sína í nýju umhverfi. En það er sama hversu langt þú ferð að heiman, aldrei hverfur hið einstæða úr þínu gamla umhverfi og fyrr eða síðar fer maður að sjá útundan sér það sem betur mætti fara í hinu nýja og framandi umhverfi. Þetta henti einmitt Blönduósinginn og Krakáfarann Sigurlaugu Þóru Hermannsdóttur og til allrar hamingju var hún með í fórum sínum myndavél til að festa tilviljunina á filmu. Um leið og hún tók þessa mynd hrópaði hún (Sigurlaug) upp yfir sig. " Er það sem ég sé! Er ekki Jón Sigurðsson hundur kominn til Kraká."

27.02.2008 14:57

Brúnn, Grigory Nestor og ísfirski sundmaðurinn

    Það birtist grein á Húnahorninu eftir einhvern sundmann á Ísafirði sem heitir Benedikt þar sem hann varar okkur við útisundlaug. Ekki veit ég hvað manninum gengur til en hann óskar okkur engu að síður alls hins besta og það merkilega er að hann skrifar frá Bolungarvík þann 25. febrúar en þeir ágætu menn ( konur eru líka menn) sem þar ráða hafa nýlega ráðist í útrásina og byggt við innilaugina sína útivistarbaðgarð og hefur aðsókn aukist við það til muna. Það sem mér finnst einna skemmtilegast við bréfið frá ísfirðingnum sem skrifar frá Bolungarvík er þetta "Ég tala af reynslu því ég hef staðið á sundlaugarbakkanum og/eða verið ofan í lauginni s.l. 25 ár og lifað og hrærst í þessum málum." Einnig finnst mér þetta skemmtilegt: Við búum á Íslandi og erum mjög háð veðri og vindum sem ekki er gott fyrir þann sem hyggst efla sund sem íþrótt." Ég fór svona að velta því fyrir mér hvort þetta gæti ekki verið gott fyrir þann sem vill synda sér til yndis og heilsubótar. Það var og, segi ég nú og skrifa. Málið virðist vera það hjá þessum ágæta manni að byggja yfir þá sem standa á sundlaugarbakkanum. Það má alltaf klæða af sér kuldann og lopapeysa og kuldagalli bjarga því. Málið snýst um það að drífa sig ofan í sundlaugina og taka sundtökin. Bæjaryfirvöld á Blönduósi hafa ákveðið að drífa sig ofaní en það eru einhverjir sem vilja norpa á bakkanum og reyndar verða að gera það og þá er bara að klæða sig, taka lýsi og narta í kanil (sjá síðar).

    Það er til fullt af fólk sem vill okkur hinum allt hið besta og er óþreytandi við að gefa holl ráð varðandi heilsu og hamingju, samanber ísfirski Bolvíkingurinn og við sauðsvartur almúginn vitum ekki alltaf hverju við eigum að trúa.     
    Eitt dæmi um þetta eru niðurstöður rannsóknar sem ég rakst á um daginn og fór fram, reyndar innan dyra : "Eftir að hafa rannsakað 3.500 Skota hafa rannsóknarmenn við háskóla í skoska bænum Edinburgh sýnt fram á þessa niðurstöðu: Hjón eða pör sem stunda kynlíf þrisvar í viku á efri árum, litu út fyrir að vera 10 árum yngri en jafnaldrar þeirra sem stunduðu sjaldan eða aldrei kynlíf."     
    Svo rakst ég á þetta viðtal eða frétt við Grigory Nestor geitahirði þar sem hans niðurstaða er "Ekkert kynlíf er lykillinn að lengra lífi" Hér kemur fréttin: "Hinn 116 ára gamli geitahirðir Grigoriy Nestor, sem býr rétt fyrir utan Úkraínsku höfuðborgina Kiev, segir að leyndarmálið að lengra lífi sé að vera hreinn sveinn og vita ekki neitt. Trú hans kemur í veg fyrir að hann stundi kynlíf fyrir hjónaband. Hann hefur ekki enn fundið eiginkonu þannig að hann hefur ekki enn stundað kynlíf. Hann segir að gift fólk rífist sem er ekki gott fyrir heilsuna og þess vegna lifir ógift fólk lengur. Hann segir líka langt líf sitt vera tilkomið vegna heimsku sinnar og segir það gott að draga aldrei neitt í efa. "Það er betra að vera heimskur og spá ekki of mikið í hlutunum." sagði hann í viðtali. Hann hefur verið geitahirðir allt sitt líf." 
    Þegar maður stendur frammi fyrir svona aðstæðum þá veit maður ekki sitt rjúkandi ráð. Eitt er víst að Grigory kallinn lítur ekki út fyrir að vera tíu árum yngri en hann er og svo væri honum alveg sama um það og eins hvort það væri inni eða úti sundlaug á Blönduósi. 
    Svona í lokin smá upplýsingar í tilefni af því að kominn er kryddverksmiðja í bæinn. Ég er viss um að Gummi Sveins og félagar geta gefið mun fyllri upplýsingar um þessi mál.

Lárviðarlauf: Eru bólgueyðandi, sveppa- og sýklaeyðandi og hafa reynst vel við þvagfærasýkingu.Lárviðarlauf örva meltingu,matarlyst og insúlínframleiðslu.

Kanill:Örvar meltinguna og styrkir meltingarfærin og eykur framleyðslu meltingarsafa. Hann er bæði krampastillandi og verk og vindeyðandi. Kanill er hitagefandi og má nefna að Frakkar hita oft rauðvín og krydda með kanil og negul á köldum vetrarkvöldum og er sá drykkur talinn góður við kvefi (gott fyrir þá sem norpa á sundlaugarbakkanum). Hann hefur hreinsandi áhrif og er þess vegna góður við niðurgangi.

Negull: Negull er ótrúlega áhrifaríkur sem staðdeyfing við tannpínu auk þess að vera verk-og vindeyðandi og sýkladrepandi.

    Þetta sem hér á undan er ritað er skrifað í trausti stjörnuspár Morgunblaðsins en þar segir: "Þú ert tilbúinn til að mæta áskoruninni, sérstaklega ef hún er stærri en þú. Sumum finnst þú klikkaður, en þú ert í raun sá sem er heill á geðsmunum."

    Það fyrsta sem sat eftir í huga mínum eftir að hafa hlaupið yfir Gluggann var nafn Baldurs Valgeirssonar sem skráð var undir auglýsingu um breytt heimilsifang SSNV. Þetta er í mínum huga stórkostlegt að sjá og undirstrikar enn og aftur að allt er hægt ef viljinn og trúin á lífið er fyrir hendi.

    Domusgengið hefur fengið samkeppni og ég reyndar líka því Sóla ljósmyndari býðst til að taka myndir af hundum sem og öðrum fjölskyldumeðlimum. Ég þarf að sannfæra Nonna hund um það að hann eigi traustan ljósmyndara að og þurfi ekki að leita annað eftir myndatöku.

    Anna Árna sendir inn vísu vikunnar og hvetur menn til yrkinga fyrir Gluggann og rifjar upp gamla nafnið á Þverbraut 1 en það var lengi kallað Fróðahúsið eftir trésmiðjunni sem þar var.

    Auglýsing frá þeim Mosfellshjónum um hvarfið á Brún gamla vekur óneitanlega athygli. Í fyrsta lagi sýnir hún ótrúlega þolinmæði og langlundargeð eigenda hins tæplega 18. vetra brúna hests. Þetta hross sem flestum er gæfur hefur verið að heiman í næstum ár. Í öðru lagi er markið nokkuð sérstakt, fimm bitar víðsvegar um eyrun, sést illa en finnst. Þetta getur Gísli sett í auglýsingu því hann veit að við vitum að hann markaði ekki hrossið á sínum tíma (skildi tengdafaðir hans ekki hugsa honum þegjandi þörfina). Í þriðja lagi og í lok augýsingar kemur fram að hestsins sé sárt saknað enda með albestu frúarhestum. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort að Sísu hafi nýlega verið fleygt af baki og þau hjón hafi hugsað með sér að Brúnn hefði aldrei borið slíkt við og þá áttað sig á því að hann var horfinn. Við frekari persónugreiningu á ábúendum á Mosfelli varð þetta niðurstaðan hjá okkur Rúnari:

Ollið hefur ykkur raun,
andvaraleysi og slór.
Fyrir Brún í fundarlaun,
fæst aðeins kassi af bjór.

22.02.2008 10:32

Draumaráðning

    Þar sem ég á sínum tíma dreymdi draum um köflóttann jakka og komið hefur á daginn að ég er berdreyminn er ég ekki hissa á því að fá senda snúna drauma til að leysa úr. Reyndar réð ég ekki minn köflótta draum hjálparlaust en fékk grun minn staðfestann. Ég ætla mér ekki að leggjast í draumaráðningar en geri hér undantekningu.

    Bóthildur Halldórsdóttir spyr hvað það tákni að dreyma Sigga storm í jakkafötum með heiðblátt bindi og klút í stíl?

    Kæra Bóthildur. Að dreyma karlmann í fötum hefur mjög tvíræða skýrskotun. Það skiptir afar miklu máli á hvaða aldri dreymandinn er og hvort hann sé í góðu hormónajafnvægi. Þar sem ég hef grun um að spyrjandi sé nýlega komin úr barneign þá gæti þetta þýtt að gott sé að hafa eitthvað utan um sig þegar naprir vindar vetrarins næða um stræti og torg . Með öðrum orðum, spyrjandi þiggur hlýtt viðmót frekar en kalt. Ef við tengjum hálsbindið og klútinn við þetta allt þá vitum við að hálsbindi og klútur eru ekki nauðsynjavara , heldur notuð til skrauts (prjál). Ég held, þegar þetta allt er tekið saman, óháð aldri, kyni og hormónajafnvægi dreymanda þá segir þessi draumur okkur eftirfarandi. Siggi Stormur, dreymandi eða einhver sem hann þekkir er ekki allur sem hann er séður, hann hefur eitthvað að fela. Svo skreytir hann sig með andlegum jafnvel göfuglyndum hlutum en blái liturinn (á bindi og klút) gefur það sterklega til kynna.Þetta gæti líka verið að blálituð bæjaryfirvöld í hans næsta nágreni gætu legið honum mjög á hálsi og jafnvel íþyngt hjarta hans. Ef þú Bóthildur hefðir dreymt Sigga Storm nakinn þá værum við að horfa á draum sem sýndi manninn eins og Guð skapaði hann. Að dreyma Sigurð er alltaf fyrir góðu og er það öðrum táknum í þessum draumi yfirsterkara. Vonandi svarar þetta fyrirspurn þinni að fullu.( draumaráðningar skal ætíð taka með fyrirvara því ef t.d litur á jakkafötum Sigga hefði komið fram í draumi þá hefði geta blasað við allt önnur mynd og eins ef einhver annar hefði ráðið drauminn)

20.02.2008 15:54

Enn einn pistill um sálarháska Rúnars

    Þegar maður hefur ekki hugmynd  hvað maður á að skrifa um er talið afar farsælt að skrifa ekki neitt því það er frá engu að segja og líkurnar á því að verða sér til skammar minnka til muna. Þetta ástand að hafa ekki nokkra einustu hugmynd til að moða úr hefur á sér að minnsta kosti tvær hliðar. Ef maður hefur ekki hugmynd um neitt þá er það dæmi um að harði diskurinn (heilinn) er ekki að gera sig eða þá að hann er í hvíld fyrir frekari notkun. Þegar maður fer að hugsa um heilabúið líkt og það sé samsvarandi harða disknum á tölvunni þá fer nú að vandast málið og það bara töluvert. Það er talið heldur til bóta og eykur skilvirkni tölvunnar að hreinsa af og til á disknum. Það skapar rými fyrir ný gögn og jafnvel eykur úrvinnsluhraða. Þegar maður veltir þessu sama fyrir sér og setur hausinn á sér inn fyrir harða diskinn þá er það talið þroskamerki að taka sem mest inn á harða diskinn og því meira sem upp er tekið því betra, maður er talinn safna í reynslubankann. Vandinn er bara sá að mér er sagt að ég hafi tekið inn á minn harða disk allskonar vitleysu sem ég gæti vel verið án. Þessu er ég bara alls ekki sammála því ég hef í mínum reynslubanka sem er mikill að vöxtum þá bjargföstu trú að konur eigi að hugsa um heimilið og er þá átt við allan pakkann þ.e þrif (ryksugan innifalin) , uppþvott , matseld og svona ýmislegt annað smálegt sem til fellur á heimilinu og of langt mál hér upp að telja. Þessi útprentun af mínu harða diski er bara lítið brot og tekur ekki mikið pláss. Margt annað og nytsamlegra er þarna að finna og má þar nefna að ég er góður við dýr og börn og svo hef ég gaman af enska boltanum og þeim dönsku félögum Kasper og Hvam í sjónvarpsþáttunum Klovn. Á þessu geta menn séð að mér er margt vel gefið á hinn harða disk heilans og er þá ekki allt upp talið. Áður en lengra er haldið þá er rétt að rifja upp hinn einstæða málshátt "að á endanum skyldi maður upphafið skoða" og í þessu tilfelli er málið þetta. Ef þú hefur ekkert að segja skaltu þegja.

    Rúnar anginn er nú kominn með Gluggann og mátti segja að hann væri nánast miður sín. Reyndar sá ég það strax á honum þegar að hann birtist í dyrunum að eitthvað væri að. Rúnar sagði sínar farir ekki sléttar því hann hefði hitt frú Guðbjörgu fyrrverandi samstarfsmann sinn í Samkaupum sl. mánudag og hún var ekkert farinn að vinna í N1 og það stæði ekki til og kom hún því skýrt til skila við Rúnar þannig að sálin í honum bognaði örlítið. Eins og glöggir lesendur þessarar síðu muna þá flutti Rúnar þær fréttir fyrir viku að Guðbjörg væri á leið í N1 skálann en það var víst ekki rétt og er því hér með komið á framfæri. Rúnar vildi svona í iðrunarskyni og sér til sáluhjálpar yrkja smá yfirbót:

Í góðu stuði á góðri stund,
ég gerði vísu um Samkaupshrund.
Hún óþakklát kom á minn fund,
ei var hún létt í sinni lund.

    Glugginn í dag er í okkar huga nokkuð "passívur" sem segir okkur það að sýslusálin er í góðu jafnvægi og ekkert er á leið til fjandans nema gallinn hans Rúnars á Skagaströnd með góðri aðstoð kuldans á þorra sem kyrkir gleði sérhvers manns.

    Vantar eignir á söluskrá segja þeir í Domusauglýsingunni. Það vantar fleira en eignir hugsuðum við Rúnar með okkur því við söknum líka annars í auglýsingunni og er algjör óþarfi að fara lengra út í það mál eða eins og starfsmaður á plani sagði "Sæll! Þarf að ræða það eitthvað nánar". 
    Margir komu við í heimspekihorninu hjá okkur Rúnari meðan við létum hugann reika um óravíddir Gluggans og lögðu okkur mismunandi lið í vangaveltum en hvorki Jóhann í Holti né Sigurður Þorsteins vildu yrkja vísur.

    Hrafnhildur minnir okkur strákana á konudaginn og Gísli Gríms og co koma með athyglisverða auglýsingu hvernig losna má undan skattinum með einföldum hætti. Bara að segja upp áskriftinni.

    Svona í lokin þá tókum við eftir því að Anna Karlsdóttir verður 100 ára á laugardaginn og ef allt gengur eftir verður við hana viðtal í Morgunblaðinu á laugardaginn kemur og hefur hin bráðhressa aldargamla kona frá ýmsu að segja.

18.02.2008 14:27

Stefán og Jón eru komnir heim

    Tilveran er óðum að komast í eðlilegt horf hér á Aðalgötunni. Þegar ég kom til vinnu í morgun sá ég að komið var ljós í íbúðina fyrir ofan minn vinnustað. Það gat bara þýtt það að einhver væri kominn í íbúðina sem verið hefur líflaus síðan á þorláksmessu. Og þessi ályktun mín fékk fékk örugga staðfestingu þegar ég var á leið til vinnu eftir hádegismat því þá mætti ég þeim Jóni Sigurðssyni hundi og Stefáni Hermannssyni á leið suður Hnjúkabyggðina. Þeir félagar eru loksins mættir aftur á Blönduós eftir gott jólafrí og hafa leiðrétt aftur götu- og bæjarmyndina . Og ekki skyggði það á gleði mína að það skildi bera upp á afmælisdag minn þegar ég sá þá félaga í fyrsta sinn á nýju ári.


Jón hundur og Stefán eru komnir heim úr jólafríi


    Ég las frásögn af tveimur pörupiltum, bræðrum norðan úr Eyjafirði sem uppi voru á 18. öld í 24 stundum núna um helgina. Það merkilega við þá bræður var að þeir hétu báðir Jón Sigurðsson og örlög þeirra voru ekki gæfuleg. En það get ég fullyrt að þessir tveir Jónar Sigurðssynir sem tengjast Aðalgötu 8 eru bestu sálir og meina vel hvað sem öllu líður, þó ég segi sjálfur frá. 
    Þetta er góður dagur, Jón á efri hæðinni er kominn heim og með honum félagi hans. Veri þeir velkomnir.

13.02.2008 14:49

Ólafur Blómkvist kominn fram í dagsljósið

    Í nóvember sl. dreymdi mig draum um að ég væri að máta köflóttan jakka í verslun í S-Afríku en ég vaknaði áður en ég festi á honum kaup. Einn af mínum traustustu lesendum réð þennan draum í þá veru að þetta væri fyrir risjóttu tíðarfari í vetur. Hálf var ég efins um þessa draumaráðningu og skýldi mér á bak við það að ég hefði aldrei keypt jakkann. Nú hefur komið á daginn að ég er berdreyminn því eins og allir vita þá hefur veðurfarið verið köflóttara en allt sem köflótt er. Og ef ég á að segja alveg eins og er þá verð ég alltaf þakklátari og þakklátari fyrir það að hafa ekki keypt helv?. jakkann því þá er ég viss um að veðrið hefði verið mun verra og er þá varla á það bætandi. Eftir þessa uppgötvun mína hef ég reynt á hverri nóttu að dreyma einlitan fölgrænan jakka og ljósbláar síðar terlynbuxur því ég tel þá víst að veðrið fari að lagast. Ef ég hugsa þetta aðeins lengra, væri snjallara dreyma ljóbláar stuttbuxur heldur en síðbuxur, maður færi nú ekki út fyrir dyr á stuttbuxum nema sæmilegur ylur væri í lofti. En hvað um það, þá er sama hvað ég reyni að dreyma þessar flíkur, ekkert gengur. Þeim bregður ekki einu sinni fyrir þá sjaldan mig dreymir eitthvað. 
    Reyndar dreymdi mig fyrir ekki svo margt löngu að sonur minn og tilvonandi tengdadóttir hefðu eignast lítinn dreng, svona líka fallegan og ljúfan og fannst mér einhver segja "mikið er hann líkur afa Jóni á Blönduósi" og mér hlýnaði eitthvað svo innra með mér. Þetta indæla par á reyndar von á barni í lok mars og ég veit ekkert hvers kyns það er og hef óskað eftir því að vera ekkert upplýstur um það. Ég vil hafa eitthvað til að hlakka til. Það er svo spennandi þegar barnið kemur í heiminn og maður heyrir kannski. " Fæddur er lítill heilbrigður drengur 16 merkur og 54 cm alveg eins og afi á Blönduósi" ( ég er nú reyndar stærri en þetta) eða " fædd er lítil heilbrigð og þroskamikil stúlka með geðslagið hans afa á Blönduósi". Það má ekki ræna þessari tilhlökkun frá manni. Ég held að þessi draumur sé fyrir því að í lok mars verði tilvonandi tengdadóttir mín léttari og skili í heiminn dásamlegum einstakling. En ég get lofað ykkur að ég held áfram að reyna að dreyma græna jakkann og bláu buxurnar hvort heldur síðar eða stuttar.

    Það er búið að nota orðið, loksins,loksins svo oft þannig að "ja hérna hér!" verður að duga. Birtist ekki Ólafur Blómkvist Jónsson fram á snjónarsviðið með Domus genginu. Við Rúnar erum himinn dottnir yfir þessu og fögnum því af sannri hjartans gleði að loks skuli hulunni svift af Óla. Við sáum það reyndar að þetta gerðist eftir að gsm Magnús var sendur í fríið og látin yrkja yfirbót um leið og Ólafur var leiddur fram í dagsljósið. Þetta er gott framtak hjá Domus genginu og fá þau ágætt fyrir viðleitni en glöggir lesendur(þ.e.a.s þeir sem sjá Gluggann í lit á huni.is) sjá fljótt að hnökrar eru á jafnræðisreglunni títtnefndu. Domusarnir eru í lit en Óli er svarthvítur. Okkur Rúnari, svona til að vera sanngjarnir, finnst að vísan undir myndinni varpi svona ákveðnum fölgrænum ljóma á Ólaf. En! Óli í lit væri betra og svo er myndin af Óla mun meira á þverveginn heldur en af þeim Stebba, Ólöfu og Magnúsi. Skáldagyðjan tók 

Hér er Ólafur Blómkvist í lit. Myndin er í boði okkar Rúnars



örlítinn kipp við þetta og hrökk í gírinn: Það er í sjálfu sér allnokkur synd/ að sýna okkur þvílíka takta./ Að birta í Glugganum svarthvíta mynd/ af Óla hjá Intrum og Packta
. Hvað sem öðru líður þá er gleðin yfir að sjá Ólaf Blómkvist loksins tekinn í hópinn, allri gagnrýni yfirsterkari og við syngjum núna hástöfum Rúnar og ég "Óli, Óli vertu velkominn! Vissulega ertu kóngurinn."

    Það er "þorrafílingur" í Bebbý í vísu vikunnar og gleðilegt til þess að vita að það er stuð í stelpunum á Flúðabakkanum.

    Aðeins stöldruðum við Magnús Rúnar við auglýsinguna frá Leikfélaginu. Er það virkilegt að þeir eigi ekkert utan um sig þeir Egill og Kalli fyrir páskana. Við hefðum talið eðlilegra að þessi ósk hefði birst á forsíðu með Rauða kross auglýsingunni en greinilegt á öllu að Leikfélagið gengur í góð verk og vonandi að þeir fá jakkaföt sem fyrst en þeir geta nú alveg verið náttsloppslausir strákarnir. Eitthvað var hún Margrét mín að nefna það við mig um daginn hvort ég ætti nú ekki að fara að hætta að ganga í fermingafötunum. Maður hugsar sitt þegar svona auglýsingar birtast.

    Þegar við tókum eftir því að auglýst var messa í Holtastaðakirkju datt okkur Rúnari strax í hug að Holti á Holtastöðum hefði séð sér leik á borði og auglýst kvígu til sölu. Eins og allir vita þá er Holti "praktískur" og hefði getað hugsað með sér að það væri gráupplagt að taka kvíguna heim með sér eftir messu. En við frekari eftirgrennslan er kvígan frá Geithömrum en þar mun hafa verið hálfkirkja til forna.

    Alltaf hleypur í mann spenningur þegar maður sér að Blönduvision nálgast. Grunnskólinn á Blönduósi hefur staðið fyrir þessari söngvarakeppni í tugi ára og hafa margir nemendur sem þátt hafa tekið gert garðinn frægann á tónlistarsviðunu. Takið frá föstudagskvöldið 22. febrúar og fylgist með, því stjarna eða stjörnur framtíðar gætu leynst í hópi Blönduvisionkeppenda .

    Þeir eru en á því hestamennirnir að ríða upp á hendur og gerum við Rúnar enga athugasemd við það sýni menn lit og hafi aldur og hendur í þetta.

    Rúnar sagði mér í óspurðum fréttum að Guðbjörg Þorleifsdóttir ættuð frá Hvammi í Svartárdal væri á förum úr Samkaupum og hyggðist taka til óspilltra málanna í N 1 á næstunni. Fannst mér sem Rúnar væri hálf klökkur þegar hann greindi mér frá þessu og vildi hann koma á framfæri þessu saknaðarljóði:

Hún Guðbjörg úr kjötinu hverfur
Nú koma í lífinu skil.
"Ef sulturinn að ykkur sverfur
ég N eina pulsu á til."

10.02.2008 22:38

Réttlætisvaktin og Björn S. Blöndal

    Langvarandi bið á enda!  Kristinn H. Gunnarsson hefur aftur náð fyrsta sætinu á vinsældarlista pistlhöfunda Húnahornsins. Satt best að segja var mér farið að líða hálf illa út af þessari grafarþögn Kristins. Maður hefur þurft að horfa upp illviðri feykja burt þaki vatnstanksins, mannréttindabrot bæði á kvótalausum veiðimönnum og sártleiknum föngum undanfarna daga. Fjölmiðlar heimta blóð í REI málinu , kjarnfóður og áburður hækka og þorrinn rétt hálfnaður. En þögnin er rofin og réttlæti heimsins er ekki týnt og tröllum gefið og sæll mun ég sofna í kvöld því ég veit að Kristinn H stendur réttlætisvaktina. Nú er bara spurning hvort Jón vinstri grænn Bjarnason sé líka á vaktinni til varnar réttindum okkar sem byggjum þetta samfélag. Bændur gráta sáran yfir mikilli hækkun aðfanga og í mínum huga er það réttlætismál að þeir fái að hækka framleiðsluvörur sínar í takt við það sem á þeim dynur. En það sem einum finnst réttlæti finnst öðrum ranglæti og því er bara að vona að nornaveiðum og hneykslismálum linni ekki í bráð þannig að bændur geti hækkað afurðaverð sitt átakalaust og þeir hafi vit á því að gera það í hringiðu pólitískara hjaðningavíga. Eða eins og karlinn sagði þegar að mikið gekk á í þjóðfélaginu." Nú eru aðstæður til að hækka mjólkurverðið"

    Svona bara í blálokin til að fá smá aðstoð frá þeim sem lesa þessa síðu þá skrifar Guðrún nokkur Blöndal í gestabókina hjá mér og segir að skemmtilegt væri ef vísur eftir afa henna Björn S Blöndal birtust á síðu minni. Ég þekki Gunnu Blöndal á bæjarskrifstofunni og einn Björn Blöndal þekki ég af lestri bóka sem var sýslumaður og bjó í Vatnsdal líklega þegar að síðast aftaka á Íslandi átti sér stað. Ef einhver getur upplýst mig um þetta allt og lagt okkur Guðrúnu lið þá væri það vel þegið. Ef þetta er Björn frá Ásbrekku í Vatnsdal þá er ein vísa sem þekkt er eftir hann svona:

Að sér gáði ei æskan bráð
ástar kljáði vefinn.
Þar var áð og unað náð
atlot þáð og gefin.

Höfundur:

Björn S. Blöndal Ásbrekku Hún. f.1893 - d.1980. Björn þessi er fæddur að Hvammi í Vatnsdal en fluttist að Ásbrekku 1954.

06.02.2008 15:03

Stjörnuspár og vinir Gluggans komir fram í dagsljósið

    Ég hef verið að velta fyrir mér gildi og gagnsemi stjörnuspáa fyrir sjálfan mig. Stjörnuspáin í Mogganum er það sem ég les alltaf áður en ég held út í lífið hvern einasta dag jafnvel þó tíminn sé knappur. Þetta gengur algjörlega fyrir, síðan les ég önnur atriði í blaðinu eftir því sem tími vinnst til. Þó svo að ég skrifi endrum og eins í Morgunblaðið og hef verið fréttaritari þess frá árinu 1985 veit ég ekki hver er stjörnuspámaður Moggans. Svona ykkur að segja þá gætu margir á þessu ágæta blaði komið til greina. En aftur að mikilvægi stjörnuspáa. 
    Vatnsberi: "Þín tegund bjartsýni er blind - það er betra en fullkomin sjón. Þannig sérðu meira en aðrir í aðstæðum. Gerðu ráð fyrir að allt muni ganga upp og það mun." Hver fer ekki glaður út í daginn með spá sem þessa í farteskinu. Reyndar fór ég í blóðprufu þennan dag en fékk engar niðurstöður vegna þess að vélin sem les úr blóðsýnunum bilaði. Einnig átti ég að fá nýtt lyf þennan sama dag en pósturinn komst ekki norður vegna ófærðar þannig að ekki kom lyfið. Reyndar áttaði ég mig á því að Mogginn var ekki kominn þegar ég fór í blóðprufuna því hann tafðist vegna ófærðar en hann var hinsvegar kominn þegar ég kom heim úr blóðprufunni. Þetta skýrir náttúrulega það sem hér er að framan ritað því ég fór ólesinn á stjörnuspánna út í daginn. Rétt er að taka það fram að læknir sá sem átti að lesa úr blóðsýninu og taka ákvarðanir um frekari aðgerðir um framgang heilsu minnar verður hættur störfum þegar niðurstöður blóðsýna liggja fyrir. Þessi litla saga undirstrikar svo ekki verður um villst að óráðlegt er að halda út í daginn án þess að lesa í stjörnurnar. 
    Nú er kannski full langt gengið í að draga ályktanir því dagurinn er rétt rúmlega hálfnaður og þar sem ég las stjörnuspánna aftur á mbl.is strax eftir hádegi þá gæti nú eitthvað ræst úr málum. Viti menn, ég var rétt búinn að skrifa þetta og lesa stjörnuspána yfir einu sinni enn þá hringir síminn. Lyfið var komið í apótekið. Varla var ég búinn að leggja tólið á þegar síminn hringdi aftur og var méð tjáð af til þess bærum lækni að blóðsýnavélin væri komin í lag og niðurstöður sýna lægju fyrir. Niðurstöðurnar voru eins og við var búist og hægt að taka ákvarðanir. Þetta sýnir bara að þó að maður missi af stjörnuspánni áður en maður fer út á morgnana er ekki fokið í öll skjól. En mín niðurstaða í þessu máli er sú að betri er góð stjörnuspá en slæm. Ég reikna með því að hið sama gildi um það að betra er að víkja góðu að náunganum en illu. Ennfremur ráðlegg ég fólki að lesa um stúlkuna sem stjörnurnar eltu vegna þess að þær höfðu hug á sleikibrjótsykri hennar en þá sögu er að finna á Húnahorninu. Stjörnur eru stórmerkilegar og gaman að spá í þær.

    Glugginn er kominn og á honum heldur betur bragabót og það í orðsins fyllstu merkingu. Fjórar eru vísur vikunnar skal ég segja ykkur og hefur slíkt ekki gerst síðan í maí árið 1986. Nú hefur heldur betur hlaupið á snærið hjá þeim Óla og Hédda. Við Rúnar vissum það að Glugginn ætti vini og þeir brugðust ekki þegar neyðin var mest. "Lítið bæði og lúið blað, löngum sama tuggan" eru orð sem lagt er af stað með en HÖS er eins og flestir menn, réttsýnn og jákvæður og sér að Glugginn þarf uppörvun í smæð sinni og umkomuleysi og bætir um betur. "Ljúft er þetta litla blað, lífgar vetrarskuggann". Hugsandi um vetrarskuggann rákum við Rúnar augun í að það á að fara að herða innheimtuna hjá Blönduósbæ og má búast við því að einhverjir verði hraktir út úr vetraskugganum eftir 20. febrúar. 
    
Merkilegt fannst okkur að sjá íbúð auglýsta til sölu án afskifta Domus gengisins. Svona uppákoma vekur alltaf forvitni og fórum við Rúnar að sjálfsögðu inn á ja.is og komust að því að verið var að selja ofan af skrásetjara, sem sagt hæðina fyrir ofan ríkið. Það verður að segjast eins og er að gegnum hugann fóru margar minningar tengdar Stefáni og Nonna hundi og þær langflestar mjög góðar. Það væri sjónarsviftir mikill ef þeir hyrfu úr götumyndinni, já úr bæjarmyndinni allri eða eins og skáldið sagði: Svo virðist að Stefán og Nonni hundur/ séu á förum./ Sár og sorgleg eru þau undur,/ saltbragð á vörum.

    Harðfiskur í bitum er nýjung í tekjuöflun hjá Hvöt og skemmtileg viðbót við lakkrísinn sem við Rúnar höldum að sé svolítið losandi. Ef okkur bregst ekki þekking á efnasamsetningu matvæla þá kemur harðfiskurinn til með að auka til muna prótín í Hvatarfæðinu. Reyndar er komin inn einhver aukaskýring á WC-pappírnum hjá þeim Kára og Vigni en það er 25 m á 2.000 kr og 35 m á 4.000 kr. Spurningin er þessi, ef þetta m stendur fyrir metra er þá hver rúlla 25 eða 35 metrar eða allur pakkinn? Þetta getur skift máli og engin hægðaleikur fyrir leikmenn eins og okkur Rúnar að átta sig á svona.

    Menn ætla að tölta þ.e.a.s. ætla að reyna að fá fákana til að tölta í Reiðhöllinni nk. föstudagskvöld og ekki að efa að keppni verður hörð og skemmtan góð. Okkur Rúnari finnst eðlilegt að menn gefi upp aldur og lit og allt það áður en keppni hefst en upp á hvað hönd verður riðið kom okkur eins og ódýrt frí á Spáni fyrir sjónir. Helvíti verður spennandi að sjá menn ríða upp á hægri höndina á Hirti hestamanni. Eflaust verður það sárt en Hjörtur ræður við það vegna þess að hann er handlaginn og hagorður.

    Við Rúnar urðum sammála um það að ljúka þessum pistli á þessari samantektarvísu um leið og við lýsum ánægju okkar með að vinir Gluggans eru komnir fram í dagsljósið:

Það er svo margt sem menn þurfa að vita
þá sól gyllir húnvetnska ströndina.
Þá er handhægt að fá sér einn harðfisksbita
og hraðtölta upp hægri höndina.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 626
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 63829
Samtals gestir: 11307
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 20:02:10