Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2008 September

24.09.2008 15:10

Engin hopp og molakaffi selt á staðnum

    


    Byrjum á mynd af meistarflokki knattspyrnuliðs Hvatar sem endaði í fjórða sæti 2. deildar í knattspyrnu. Dágóður árangur það. Þeir stóðu sig vel og voru eins og skáldið sagði "Sprækir eins og lækir".

    Það hafa kannski einhverjir heyrt söguna af bóndanum sem réð til sín fjóra fílelfda karlmenn til að bera son bóndans í burðarstól um akurinn. Ástæðan var sú að sonur bóndans átti að reka krákur og annan fénað sem sóttist í kornið en gallinn var bara sá að stígvél drengsins voru svo stór að þau tróðu svo mikið niður kornið á akrinum og því var gripið til þessa ráðs. Ég veit það ekki en þessi saga kom upp í huga mér þegar verið var að ræða málefni lögreglunnar á dögunum. Maður fékk það einhvern veginn á tilfinninguna að það þyrfti tiltölulega marga yfirmenn til að stjórna hverjum lögreglumanni.

    Athugasemdir við myndir á síðuni eru vel þegnar því ég þekki ekki nærri alla sem ég tek myndir af.

    Ég er í félagsskap sem kallar sig Árbakkabræður. Árbakkabræður er bræðralag sem kemur saman hvern einasta föstudag nema á sumrin, eftir vinnu á veitingastaðnum Við árbakkann til þess að setja saman getraunaseðil í enska boltanum. Hópurinn er vel mannaður og er þar að finna hverja mannvistbrekkuna upp af annarri. Við höfum vit á öllu og höfum alltaf rétt fyrir okkur og ekkert er svo smátt í samfélaginu að það fái ekki tilhlýðilega umfjöllun. Þó svo styrkleiki hópsins sé mikið mannvit þá er það jafnframt hans veikasti hlekkur. Þar sem koma saman margir vitringar þá vill það oft æxlast svo að það verði vitsmunalegir árekstrar. Þessi eiginleiki endurspeglast kannski best í því að við erum afar sjaldan með mjög marga leiki á seðlinum rétta. Bara til að það komi fram þá er 16 raða seðillinn minn sem ég geri persónulega, oftast með fleiri rétta en 400 raða seðill Árbakkabræðra. Af þessu geta menn auðveldlega séð hver hefur mesta vitið í hópnum en enginn má við margnum.

    Ástæðan fyrir því að ég fór að ræða um Árbakkabræður er sú óumflýjanlega staðreynd að um áramót verður veitingarekstri hætt á Árbakkanum þannig að við félagarnir stöndum uppi heimilislausir. Félagsskapur sem kennir sig við Árbakkann á eðli samkvæmt að vera við árbakkann. Ég reikna með að við munum senda bæjarstjórn formlegt erindi ekki innan svo langs tíma um að komið verði fyrir í nágrenni Árbakkans, vistlegu getraunaskýli sem við gætum kallað Árbakkabræðraborg. Ég vona að erindinu verði vel tekið á réttum stöðum. Reyndar er til ein lausn í þessu máli en hún er sú að hópurinn færi að hittast við árbakkann fyrir innan á, nánar tiltekið á sveitakránni Ljóni norðursins eða Blöndubóli öðru nafni.

    Það er fleiri fyrirtæki en Árbakkinn sem hætta rekstri um áramót. Starfsemi Mjólkurstöðvarinnar verður hætt og hverfur þá starfsemi sem hefur verið mikil þungmiðja í atvinnusögu sýlunnar til 60 ára. Ég get ekki neitað því að dálítil sorg sest í sálina. Mjólkurstöðin hefur alltaf verið til staðar og sent til himins reyk sem oftast er hvítur en á einstökum dögum gat orðið kolsvartur. Þessi reykur hefur verið til merkis um það að innan dyra eru menn að störfum. Þetta fyrirtæki hefur verið vottur þess að við sem sýsluna byggjum erum til hvort fyrir annað. Þarna voru Blönduósingar að vinna úr afurðum bænda, þarna mættist þéttbýli og dreifbýli. Um áramót hættir að rjúka og menn ganga frá borði sumir eftir áratuga starf fyrir fyritækið og kannski vita menn ekki hvert för skal heitið. Það er söknuður í mínum huga.

    Í gættinni Rúnar stendur með hendur fullar af Glugga. Það er hlýtt í veðri, fuglarnir í ósnum eru kvikir og hugsa um það eitt að komast af.

    Hún er athyglisverð auglýsingin frá Ólafi á Sveisstöðum. " Er að fara af stað með tamningar haustsins, hef laus pláss" og bætir svo við " tökum einnig hross í þjálfun" Við Rúnar erum sammála því að þörf er á því að temja haustið svolítið a.m.k. hina vindasömu daga og alveg tilvalið hjá Óla að þjálfa hrossin í leiðinni. Gott framtak.

    Lionsmenn eru að leggja í hann með ljósperurnar sínar. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá hefur pakkinn lækkað umtalsvert. Sem dæmi þá kostaði 12 peru pakki í fyrra 17,4 evrur en í dag kostar sami pakki 10,7 evrur. Nú er bara að taka upp evruna og borga glaður fyrir perupakkann.

    Það verða enginn hopp hjá sjúkraþjálfurunum í vetur enda kostar bara hver tími 450 kr en eftir molasopa og gúlsopa af gosi geta menn hoppað og skoppað að vild með harmonikkuklúbbnum en það kostar reyndar 1.000 kr. Það er eins og karlinn sagði: "Það kostar minna að halda sig á jörðinni".

    Ekki getur hún Bebe minn kæri nágranni tilkynnt sveitarfélaginu að girðingin hennar sé í lagi en nokkuð er ég viss um að viðgerð ljúki innan tíðar. Þannig að Vegagerðin verður að bíða með úttekt á girðingunni á Árbraut 14 eitthvað lengur sbr auglýsing frá Vegagerðinni.

Ekki er kyn þó bændur á Sveinstöðum brosi
og brjóstgóðir þjálfar um stirnaða vöðvana losi
Ég líkamann strekki
og hoppa alls ekki
En hoppa með nikkunni birgur af kaffi og gosi.

    Þegar við vorum í djúpum þönkum birtist hjá okkur Elín, konan sem passar upp á handverk kvenna í Heimilisiðnaðarsafninu. Elín brosti allan hringinn þegar hún sá okkur og bar fram erindið sem var eins og svo oft áður tengt hennar þrotlausu baráttu fyrir starfsemi safnsins.

    Rúnar orti að bragði vísu og var eins og slokknaði ljós í augum Elínar. Rúnar, þetta góðmenni sá strax að vísan var ekki ættuð frá hjartanu þannig að hún lenti í ruslafötunni:

Geislandi af gleði
Gekk hún inn af götunni
Og ráðdeild því réði
Að Rúnar lenti í fötunni

17.09.2008 14:47

Ef vel er að gáð eru til nokkur ráð

    Það er margt sem hrjáir okkur menninna og misjafnt er það. Sumir eru í þyngri kantinum, aðrir eiga við handþurrk að stríða og enn aðrir við fótraka. Hár í nösum, fótleggjum og víðar. Úthaldsleysi í kynlífinu, inngrónar neglur, skakkar tær svo ekki sé talað um hina margfrægu appelsínuhúð. Hrotur eru vandamál á mörgum heimilum þannig að hjón keppast við að sofna á undan hvort öðru. Lengi mætti áfram telja og væri að æra óstöðugan að halda mikið meira áfram í þeim málum. Vöðvabólgur hafa margan manninn plagað gegnum tíðina en hér læt ég staðar numið í upptalningu á hversdaglegri áþján hins venjulega manns.

    Ástæðan fyrir því að þetta er reyfað hér er sú að á fjörur mínar rak um daginn þessi líka frábæri bæklingur. Bæklingur sem hefur lausn á öllum þeim vanda sem að framan er talinn og ýmsu öðru sem ég hef ekki haft orð á. Þessi bækingur er frá Belís heilsuvörum og hefur hann að geyma lausnir sem frelsa oss frá hversdagslegum kvölum. Þær eru ófáar pillurnar sem boðið er upp á og hægt er að innbyrða svo maður verði grannur og fallegur og appelínuhúðarlaus. Ef maður er með einhverja verki þá getur maður gripið til Acu-Reflex pennans.

    Gigaman kremið er hreint út sagt bráðnauðsynlegt þeim sem vilja láta líta á sig sem alvöru karlmann því með reglulegri notkun getur happatappinn stækkað heldur betur, öllum til ómældrar ánægju. Þegar maður hefur brúkað Gigaman-kremið nægilega lengi er full ástæða til að bera á sig Bandex úthaldskrem svo maður verði til einhvers dugandi því ekki er nóg að vera með mikið undir sér en hafa ekki þrek og þor til að vingsa slátrinu sér og sínum til gagns. Ef Bandexið er ekki að gera sig þá er bara að grípa til Iron Mans speysins og þá verða ástaratlotin aldrei sem fyrr. Ég velti því fyrir mér ef ég síðan makaði mig allan með Tingel geli, hvað þá myndi gerast. Ég get ekki hugsað þá hugsun almennilega til enda. Maður sem hefði notað allt þetta sem hér er að framan talið til að duga betur í ástarlífinu, rækist á konu sem hefði smurt sig með Happy Lady olíu myndi svo sannarlega rekast á hana, það er næsta víst.

    Reyndar fannst mér ekki sterkt hjá Belís mönnum að auglýsa buxnastrekkjarann í sama bækling og allar töflurnar sem eiga að gera mann grannan. Það segir í buxnastrekkjara-auglýsingunni að með strekkjaranum geti maður auðveldlega bætt við 1-2 númerum. Þannig getur maður notað buxurnar lengur og þarf ekki að kaupa nýjar þó maður bæti á sig nokkrum kílóum. Mér hefði fundist eðlilegra að reyna að selja eitthvað efni sem þrengdi buxnastrenginn eftir að hafa innbyrt allar megrunartöflurnar.

    Ég fór í gegnum Belís bæklinginn með nokkrum félögum mínum í gærkvöldi. Þetta voru svona karlar sem fúlsa ekki við buxnastrekkjurum og Gigamanskremi enda búið að nýta þá flesta í þó nokkra áratugi. Sem sagt menn með reynslu en farnir að lýjast örlítið. Mér fannst þetta hreinlega vera kærleiksverk að kynna þennan bækling fyrir þessum félögum mínum. Einn úr hópnum sem við getum bara kallað Magnús Ólafsson, hvarf inn í eigin hugarheim og horfði á sjálfan sig í spegli í huganum eftir að hafa smurt sig með Gigamans kremi og orti þetta:

Belis vörur ber hann á
brattur er að vonum
Gíka tappinn gerðist þá
geysi stór á honum.

    Ike æðir hér fyrir utan og hefur m.a. rifið niður fyrir mér TM skiltið og innan skamms kemur Rúnar inn úr vindinum með nýjustu Glugga tíðindi.

    Þegar ég las þetta sem að framan greinir fyrir Rúnar starði hann tómum augum út í bláinn og sagði si svona. "Þetta dugar mér ekki kerlingarlausum karlinum". " Bíddu nú aldeilis hægur Rúnar minn" sagði ég að bragði. " Þú gæti reynt Gigamans kremið og Iron man spreyið og þá er aldrei að vita hvað gæti gerst. Og þegar þú ilmar allur af Tingel geli þá gæti fjandinn orðið laus".

    Glugginn er á rólegu nótunum í dag . Það er einhver hreyfing á Berglindi og fannst okkur Rúnari það bara gott. Óskilahross í Skrapatungurétt og ekkert meira um það að segja.

    Hestamönnum gefst kostur á haustbeit í kúagirðingu. Til að komast í beitarhólfið þurfa menn að gefa upplýsingar um sjálfan sig og síðast en ekki síst símanúmer þar sem hægt er að ná í menn. Athyglisvert! Það er náttúrulega vita gagnslaust að gefa upp símanúmer sem ekki er hægt að ná í mann. Skynsamlegt hjá Tæknideild bæjarins.

    Spurningamerkið er farið að yrkja í skugga kreppunar og er það vel.

    Calúna, og einhverjir óróar frá Gogga Jens verða í bæjarblóminu. Við Rúnar mælum með Lofnarblóma olíukjarna sem kostar aðeins 1.999 kr til að róa óróana í bæjarblóminu eða eins og segir í Belísbæklingnum Ilmurinn virkar slakandi á líkama og sál.

    Að lokum viljum við benda fólki á slátursöluna hjá SAH. Þar má fá 1 kg af lifur fyrir 140 kr og borin fram steikt með Selvíkurkartöflum er vart hægt að fá ódýrara hráefni í matinn . Hugsið um þetta í kreppunni.

Er rakst inn úr dyrunum Rúnar minn greyið,
ráðlaus en brúkaði fussið og svei-ið.
Ef vel er að gáð
eru til nokkur ráð.
Eins og gígamankremið og Ironmans spreyið


Það eru alltaf til ráð og ekki er verra að búa undir regnboganum
 

 

 

11.09.2008 11:51

Hamingjudagurinn 11. september

    Í dag er 11. september um allt land. Þennan dag muna flestir sem eru komnir til nokkurs þroska sem daginn sem hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á tvíburaturnana í Nýju Jórvík. Í stuttu máli þá tengja flestir þennan dag við voðaverk. Þennan dag fyrir 32 árum gekk ég að eiga Margréti Einarsdóttur í gömlu kirkjunni fyrir innan á. Veður var bjart og fallegt og Húnaflóinn sem og við Margrét skörtuðum okkar fegursta. Þennan sama dag, einnig í sömu kirkju fyrir jafnmörgum árum gekk Ólafur Þorsteinsson að eiga Bergþóru Hlíf Sigurðardóttur. Dagurinn hjá Óla og Hlíf var sem sagt jafn fallegur og dagurinn hjá okkur Möggu. 
    Þó nokkuð mörgum árum seinna þennan sama dag, nánar tiltekið árið 1993 gekk hann svili minn hann Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp að eiga hana Gróu Maríu Einarsdóttur í nýju kirkjunni. Dagurinn þeirra fyrir fimmtán árum var ekki síður fallegur en 11. september 1976.

    Vert er geta þess að þennan dag fyrir 60 árum var í heiminn borinn Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson skólastjóri tónlistarskólans. Skarphéðinn er mikill gæfumaður og það er gæfa fyrir héraðið að eiga hann að, það vita allir sem til þekkja.

    Því er þetta hér rifjað upp að dagurinn í dag er góður dagur og við hann tengdar margar góðar minningar. Ég held að ég geti sagt með töluverðri vissu að allir þeir sem hér eru nefndir og tengjast okkar bæjarfélagi hafi reynt að feta lífsins veg í sátt við sitt samfélag. Við látum ekki skugga voðaverka úti í heimi skyggja á mikilvægi þessa dags í lífi okkar. Húrra fyrir okkur.


    Mig hefur lengi langað til að sýna traustum lesendum þessarar síðu mynd sem mér áskotnaðist af afmælisbarni dagsins Hjartanlega til hamingju með sextíu farsæl ár Skarphéðinn H. Einarsson

Í fögnuði fellum við tárin,
hve fast þú heldur í hárin.
Þú er tónlistar tröll
svo við tröllum það öll.
"Til lukku með sextíu árin".

10.09.2008 15:02

Sitjandi - Lurkur og Gapandi - Gúli

    Stundum koma þannig dagar að maður er í engu skapi. Skaplaus, geðlaus, æsir sig ekki út af einu eða neinu, bara þvælist svona í gegnum daginn tilfinningalaust. Ég er einhvern veginn í svona skapi núna þegar ég sest fyrir framan lyklaborðið.

    Ég fór suður til Reykjavíkur í gær til þess að láta hlera í mér hjartað. Þetta geri ég fjórum sinnum ári. Í stuttu máli þá sagði hjartað í mér allt gott eins og það hefur gert undanfarin tvö ár. Á leiðinni heim úr Höfuðborginni þá kíkti ég inn í Vatnsdalinn og áði örlitla stund í Vatnsdalshólunum í 15 stiga hita og lognkyrru veðri. Að setjast niður við Flóðið og hlusta á lúðrablástur álftana, vægjaslátt þeirra og horfa á þær fleyta kerlingar við það hefja sig til flugs er mér góð hvíld. Það er kannski vegna þessarar álftablásturs kyrrðarstundar við Flóðið að ég er eitthvað svo kyrr í huga þennan daginn. Þetta getur nú allt breyst þegar Rúnar kemur með Gluggann til mín eftir hádegið.


    Mín kona sagði að ég hefði ´"misst" af því í gær þegar Örn Ingi fjöllistamaður kom í heimsókn á vinnustað konu minnar. Örn Ingi er eins og flestir vita listamaður frá Akureyri og hann er að gera heimildarmynd um stóðréttir í Skrapatungu og smalamennsku tengda þeim. Það var því ekki svo galið að byrja heimildarmyndina í Aðalgötu átta þar sem galna vatnið er að finna. Indíánar kölluðu viskí hvíta mannsins "crasy water" og því vel við hæfi að kalla þenna vökva sama nafni og hinir miklu hestamenn á sléttum Ameríku.     
    Það verður fróðlegt að sjá hverjir muni fara með aðalhlutverk í mynd Arnar Inga. Líkast til fer Valli Fremsti með eitt af helstu aðalhlutverkunum og ef við höldum okkur við Indíánana og setjum okkur inn í það hvernig þeir gáfu mönnum nöfn þá gæti hugsast að Valli fengi nafnið " Sitjandi Lurkur" í myndinni. Ekki efast ég um að Haukur á Röðli muni fara með lykil hlutverk og fengi nafnið " Gapandi Gúli" eða " Litli Hvellur" hver veit. Svona gætum haldið lengi áfram en ég treysti því að Örn Ingi sem sumir kalla Gjörn-Inga vegna hinna fjölmörgu gjörninga sem hann hefur gert um ævina, finni hentug nöfn á persónur myndar sinnar.
    
 Nú er runnin upp sú stund að Rúnar lýkur upp dyrum Aðalgötu 8 og ber með sér inn úr logninu stútfullann Gluggann. Hvað skyldi Örn Ingi kalla Rúnar ef hann léki í Skarapatungumyndinni. Líkast til yrði Rúnar kallaður " Miðviku Andinn ( Midweek spirit). Þetta held ég að geti verið rétt hjá Erni Inga. Þetta er eitthvað svo assskoti passandi.
    
Reyndar lét Rúnar bíða töluvert eftir sér í dag því Magnús á hótelinu tafði hann með kaffi og hljóðfæraleik svo mikið að þetta varð til.

Frá hótelinu heyrast ómar.
því Hótel-Mangi Rúnar gómar.
Hann vissi að átti að vitja mín,
verkefnin bíða ansi brýn
og vísnakistur allar tómar.

    Óli í Fróða kemur fyrir í vísu vikunnar hjá Önnu Árna og hvetur hún menn til að henda í hann einhverju bitastæðu yrkisefni. Hendum í Óla einhverju góðgæti úr ljóðakistunni.

    Búið er að fjalla um ævintýrið norðursins, stóðgöngur í Laxárdal en þar verða í aðalhlutverki eins og fyrr greinir þeir Sitjandi - Lurkur og Litli - Hvellur.

    Reyndar gleymdum við því í umfjöllum um síðasta Glugga að fjalla svolítið um hinn óútreiknanlega og einstaka Magga bónda sem ætlaði að troða upp í Víðihlíð. Í okkar huga getur enginn annar en Maggi á Hnjúki átt í hlut. Reyndar er Maggi í Steinnesi óútreiknanlegur sem og nafni hans í Miðhúsum. En samt, þetta er eitthvað svo Hnjúkslegt. Ef við höfum rangt fyrir okkur í þessu máli þá verðum við leiðréttir.

    Gæsir beint í pottinn og ný tínd ber er hægt að fá fyrir lítið. Spurningin er bara þessi hvort gæsirnar sem týndu lífiunu hafi áður tínt berin sem fá má fyrir 1000 kr kg. Það er ekki svo galið að láta það sér um hug fara.

    En við erum á ljúfu nótunum í dag einfaldlega vegna þess að veröldin er svo blíð en samt má finna í undirtóninum að skjótt geta veður skipast í lofti.

Áður flugu hátt til heiða
Heiðblá berin löngu sprottin
Allar gæsir á að deyða
áður en þær fara í pottinn.

Berjabláum í berjamó,
berast allir haustsins ómar.
Mér verður alltaf um og ó,
ef einhver fugla himins gómar.

03.09.2008 14:21

Sofðu unga ástin mín og stigamenn frá Skagaströnd

    Það er alltaf eitthvað að gerast í Aðalgötunni. Mikið að gera hjá Magga hótelstjóra, búið að mála gömlu kirkjuna og stigamenn frá Skagaströnd standa í stórræðum í Aðalgötu 11. Ekki má gleyma því að Ívar Snorri er fluttur eða er við það að flytja yfir á Brimslóðina við hliðina á Gústa P. Stefán á hæðinni er byrjaður á að mála girðinguna umhverfis mig hvíta en eitthvað hafa þær framkvæmdir tafist þannig að girðingin er að hálfu gul og hálfu hvít en þó er erfitt að finna eitthvað mynstur í verkinu. Það má segja að girðingin sé svona reglulega flekkótt eins og nafni minn Jón hundur. Líkast til gleymi ég einhverju en langt er síðan ég hef séð Eyjólf fara ríðandi heim til sín til henna Siggu sinnar bara svona til þess eins að koma heim með óvenjulegum hætti.

    Jón Gunnarsson á Aðalgötu 7 betur þekktur sem Jonni flugkapteinn er kominn heim eftir langt úthald í fjarlægum heimsálfum. Þeir Jonni og Magnús hótelstjóri höfðu um margt að spjalla eftir langan aðskilnað og það get ég sagt með sanni að þeir voru glaðir í sinni og sáttir með lífið og tilveruna.


    
    Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvers vegna kirkjueigendurnir þeir Sveinn og Atli og Jonni flugkapteinn sem allir eru kunningjar Helga Árna skuli hafa komið sér upp athvarfi hér nyrðra eftir að Helgi flutti suður. Ég trúi því ekki að þetta hafi neitt með Helga að gera því ég þekki hann mæta vel og hann hefur meira að segja hjálpað mér við að setja saman gasgrill. Kannski er þessi atburðarás bara Helga að þakka því vinirnir hafa líkast til komið í heimsókn til Helga þegar hann bjó hér með Ingibjörgu sinni og kynnst töfrum bæjarins. Ég kýs að trúa þessari kenningu.

    Núna er búið að fjarlægja vinnupalla við Aðalgötu 11 og smiðir frá Skagaströnd með Helga Gunnars í farabroddi eru núna að setja stiga á húsið. Reyndar velti ég því svolítið fyrir mér að stiginn á norðvestur hliðinni nær ekki alveg niður á jörð en það getur eflaust átt sér ýmsar skýringar. Þetta getur verið handhægt til að bægja frá fótalúnum útburðum af ýmsu tagi. Kannski er þetta verklag þekkt á Skagaströnd og má draga þá ályktun að Skagstrendingar séu skreflengri en Blönduósingar, m.ö.o. hærri til hnésins eða klofsins. En þó stiginn nái ekki alveg niður á jörð þá nær húsið alveg upp og er það að verða mikil bæjarprýði.


Hér er ró og hér er friður.
Hér er á ferðinni Helgi smiður.
Halda honum engin bönd,
hagleiksmaður frá Skagaströnd
sem hannar stiga er ná ekki niður.

    Ég segi ykkur við tækifæri frá nýju græjunni minni, ryksugu sem sér um sig sjálf og æðir um húsið og þrífur. Reyndar skunda ég alltaf á eftir henni þannig að enn sem komið er veitir hún mér enga hvíld.

Því aldrei aldrei ég gleymi
er meindýr voru á sveimi.
Svo kom Óskar í Meðalheimi
eins og vera úr öðrum geymi.

    Þetta datt okkur Rúnari hug þegar Óskar bóndi í Meðalheimi birtist í dyrunum meðan við lásum meindýrapistilinn í Glugganum. Þorsteinn Sigurjónsson sat hugsi á meðan yrkingar áttu sér stað og þrátt fyrir mikinn þrýsting af okkar hálfu fékkst ekki ein einasta vísa út úr kalli.

    Vísa vikunar er þvílík himnasending að okkur setti hljóða. Þarna fer ekki á milli mála að mikill hugsuður með háleit sjónarmið heldur á skáldapenna. Það olli okkur samt örlitlum kvíða að allur heimurinn þurfi að vera vakandi þegar vísurnar okkar verða til. Kannski erum við full sjálfhverfir að halda það þetta tengist eitthvað okkar kveðskap líkast til vakir aðeins heimurinn þegar Erlendur yrkir.

    Því segjum við:

Svefn er sálu hverri brýn,
svefnlaus vera grætur.
Sofðu unga ástin mín
þó Elli yrki um nætur.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 52
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 155
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 60769
Samtals gestir: 10687
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 16:19:34