Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2008 Desember

24.12.2008 17:15

Gleðileg Jól

    Nú ganga senn í garð heilög jól. Þögnin á Rás eitt fer að byrja og upp úr því fara klukkurnar að hringja inn jólin. Ég og mitt fólk erum á leið til tengdó á Árbraut 1 sem við höfum gert í áratugi til að eiga saman hátíðlega stund með rjúpum, "möndlugraut" og jólapökkunum. Við förum samt ekki fyrr en við erum búinn að hleypa jólunum inn í sálina með jólaguðspjallinu og nokkrum jólasálmum í útvarpinu.

    Ég sendi ykkur öllum sem lagt hafa leið sína inn á þessa síðu síðast liðið ár sem og fjölskyldum ykkar hugheilar óskir um gleðileg jól . Megi andi jólanna leggja leið sína inn í sál ykkar, umvefja hana og blessa. Í Guðs friði.

19.12.2008 09:43

Vantar hjálp til að velja myndir

Vænt þætt mér um ef þeir sem heimsækja þessa síðu hjálpuðu mér við að velja myndir sem verða síðan sýndar í Perlunni um miðjan febrúar og Ráðhúsinu í maí. Myndirnar eru inni í myndaalbúmi undir nafninu "Ljósmyndasýning í Perlunni". Ég þarf að senda 12-14 myndir á sýningu og þeir sem vilja aðstoða mig við val mynda geta skoðað myndir á myndaalbúmi og komið með uppástungu um 5 myndir. Ef það eru einhverjar myndir sem ekki eru í ljósmyndasýningaralbúmi en eru annarsstaðar á síðunni mega óhikað koma með aðrar hugmyndir. Nægilegt er að nefna bara númer á myndum, en ef þær eru annarstaðar í albúmi þá er nauðsynlegt að greina frá nafni myndalbúms og nr myndar. Með von um góð viðbrögð og góða hjálparhönd.

17.12.2008 15:40

Hver er þessi Grín?

    Sverrir Stormsker var spurður að því fyrir skömmu , ef hann mætti breyta einum hlut í heiminum, hverju hann myndi breyta? Sverrir svaraði án umhugsunar: " Kolbrúnu Halldórsdóttur". 
    Ef ég stæði frammi fyrir þessari spurningu mundi mér vefjast tunga um tönn sem og gerðist. Eftir vandlega yfirlegu þá hef ég komist að einni niðurstöðu, niðurstöðu sem ég einn get höndlað og enginn annar, nefnilega það að breyta sjálfum mér. En þetta er hægara sagt en gert og oft auðveldara að benda á aðra sem mætti breyta líkt og Stormskerið gerði. Það er sem sagt einbeittur ásetningur minn að breyta mér en ég hef bara ekki enn ákveðið hvenær ráðist verður í það verkefni en það kemur að því fyrr eða síðar og þá spurning hvort ég verði hafður með í ráðum.

    Þau heiðurshjón Guðmundur og Erla eru að hætta rekstri Árbakkans um áramótin. Mér líður næstum því eins og náinn ættingi sé á förum. Þetta kaffihús sem margir hafa heimsótt á undangengnum árum hefur skipað stóran og góðan sess í hugum fólks. Þetta gildir jafnt um heimamenn sem og ferðalanga sem eiga leið um bæinn. Flestir ef ekki allir hafa bara góða sögu að segja um þjónustuna, veitingarnar og síðast en ekki síst viðmót eigenda og starfsfólks þó svo að Mummi sé eins og hann er. En eins og sagt er allt hefur sitt upphaf og endi. Nú líkur starfsemi bláa hússins á austurbakkanum en kaffihús bláu handanna á vesturbakkanum hefur starfsemi á annan í jólum. Þarna á ég að sjálfsögðu við kaffihúsið Ljón Norðursins ( hægt er að sjá bláu hendurnar í myndaalbúmi) í eigu Jónasar Skaftasonar.

    Nú eru bara fjórir dagar þangað til norðurhvel jarðar hættir að mjaka sér frá sólinni. Á sunnudag þann síðasta í aðventu rétt um það leyti sem hádegisfréttir í útvarpinu byrja byrjar möndull jarðar að snúa norðuhluta jarðarinnar í átt til sólar. Með öðum orðum, dag fer þá að lengja. Þessi dagur er mér afar kær og ég býð alltaf spentur eftir því að finna hnykkin þegar möndull jarðar stöðvast og fer að halla sér í hina áttina. Reynar hef ég ekki enn fundið þennan hnykk nema þá í sálinni.

    Núna þegar sólin er hæst á lofti en það er nú ekki nema 1,3 gráður fyrir ofan sjóndeildarhring birtist skáldið, harmonikkuleikarinn, söngvarinn og Gluggaútburðurinn Rúnar með hnausþykkann Gluggann í fórum sínum.

    Nú er um margar síður að fara. Jólakveðjurnar svoleiðis streyma til manns af síðum Gluggans og maður finnur hlýja strauma hríslast um sálina.

    Reyndar hrösuðum við Rúnar um eina jólakveðjuna sem er frá Krúttinu en þar kemur þetta fram " Vonum að mister Green láti af öllum ósæmilegum aðgerðum gagnvart okkur, við erum bara venjulegt fólk" Við Rúnar þekkjum engan mister Green en mister Brown hefur heldur betur verið að "bögga" okkur síðustu mánuðina og kunnum við honum litlar þakkir fyrir. Það skyldi þó aldrei vera að þau bakarahjón hafi ruglast á grænu og brúnu.

    Auglýsing Lionsmanna vakti okkur einnig til umhugsunar. Þessir ágætu kallar ætla að selja blóm í anddyri Samkaupa á Þorláksmessu undir því skemmtilega slagorði "lífgaðu upp á tilveruna og færðu konunni eða unnustunni fallegan blómvönd". Við Rúnar þekkjum þessa kalla vel og vitum að þeir eru ekkert nema kærleikurinn og ljúfmennskan en okkur finnst eins og jafnréttisumræðan hafi farið fram hjá þeim. Gæti ekki verið að unnustan, eiginkonan, sambýlismaður, vinur, bróðir eða systir vildu gefa falleg blóm til einhvers annars en getur um í auglýsingu. Okkur Rúnari finnst t.d. ekkert athugavert við það að einhver vilji gefa viðhaldinu falleg blóm nú eða bara sonur færði móður sinni fallegan blómvönd sem þakklætisvott fyrir þolinmæði, matseld, móðurást eða bara eitthvað sem í brjóstinu býr. Það þarf ekki að taka það fram að eiginmaður færir konunni blóm fyrst og fremst fyrir þetta sem að framan greinir. Við Rúnar förum ekki fram á það að Lionsmenn hefðu átt að setja í auglýsinguna að hommar og lesbíur mættu gefa hvort öðru blóm.

    Skarphéðinn sextugur er spennandi dagskrárliður og erum við Rúnar vissir um að fjömenni verður í Félagsheimilinu á annan í jólum. Flott myndin af Skarpa. Mig sýnist að þessi mynd sé tekin í fyrstu stofunni sem ég deildi með frú Margréti mín fyrstu ár á Blönduósi sem sagt Húnabraut 30 kjallari.

    Domus gengið er ekki í nokkrum vafa um að fólk þurfi að eiga gott heimili þrátt fyrir ólgusjó í banka- og fjármálakreppu. Þeirri fullyrðingu erum við Rúnar hjartanlega sammála en viljum bæta því við að það er nú bara svona yfir höfuð þrátt fyrir allt og allt, gott að eiga gott heimili.

    Björgunarsveitin er á sínum stað í Glugganum og auglýsir flugelda af miklum móð sem og jóltrén. Styðjum Björgunarsveitina því það er aldrei að vita hvenær maður týnist eða týnir sjálfum sér og þá er gott að vera búinn að leggja eitthvað inn á leitarreikninginn.

    Krakkarnir á Húnavöllum eru samir við sig og koma í kaupstað með Grís . Þau standa fyrir sínu.

    Gamli Krákur fer mikinn á síðum Gluggans að þessu sinni og kemur það fáum á óvart. Það var ekki síður skriður á honum í gær þegar hann geystist um bæinn með 5 sumarhús í eftirdragi. Drjúgur maður, Lárus.

Við Rúnar reyndum hvað best við gátum að fanga Gluggann í ljóðræna heild og þetta er niðurstaðan:

Í skammdegis ógnþrugna gráma,
einn hundur fór í sig að háma.
Súkkulaði snúð
í alnæstu búð
við hliðina á Hrafnhildi Páma


Úr bænum ein glitfögur perla
oss hverfur í aldana skaut.
Þar eljuðu Mummi og Erla,
ávallt á réttri braut.

Þau bakstur af mikilli bjartsýni stunda,
þá bæjarbúar í rúmunum blunda.
Ein spurning er brýn.
Hver þessi Grín?
sem "böggar þau Helgu, Brynjar og Munda

03.12.2008 15:11

Það sem fer upp þarf ekki endilega að koma niður aftur

    Fullveldisdagurinn er liðinn og sólin lækkar enn á lofti, en aðventan er gengin í garð og æ fleiri ljós kvikna í gluggum og á húsum íbúanna. 
    Ljós hefur verið tendrað á spádómskertinu og er það vel. Ekki veit ég nú hvað nafngiftin á þessu kerti ber með sér en það veit ég eitt að það er ekkert erfitt að spá nema um framtíðina. Reyndar "gúgglaði ég um þetta kerti og fékk þessa niðurstöðu: Fyrsta kertið er kallað Spádómskerti og minnir á spádóma Gamla testamentisins um frelsarann sem koma skyldi.

    Um framtíðina veit maður harla lítið annað en að hún kemur og flestir sæmilega gerðir menn ala í brjósti sér, von um bjarta framtíð, sér og sínum til handa. Þær spár sem maður hefur hvað mest fylgst með í gegnum tíðina eru veðurspár og það get ég sagt með sanni að þegar spáð er góðu veðri sem svo ekki verður, þá mislíkar manni en ef spáð er leiðinda veðri sem svo einhverra hluta kemur ekki, þá er maður nokkuð sáttur. Sem sagt maður er afar vakandi fyrir því sem hentar manni sjálfum. Guð sé oss næstur segir maður þegar "útlitin eru dimm" og aðstæður þannig að þær eru ekki á manns valdi. Hver er sjálfum sér næstur er sagt þegar maður hefur spilað rassinn úr buxunum algjörlega hjálparlaust. Þetta líf er ekki flókið þegar öllu er á botnin hvolft.

    Einn ágætur maður sagði einhverju sinni að það væri bara ein hlið á hverju máli og það væri sú hlið sem snéri upp. Reyndar er það svo, að síðustu misserin hafa margir sjálfskipaðir vitringar haft þessa kenningu að leiðarljósi og virðast bara hafa náð dágóðum árangri en á því eru reyndar tvær hliðar eins og annar ágætur maður sagði. Að fitja upp á þessu hér er efni í heila heimspeki grein og vangaveltur sem seint fengist botn í þannig að ég skil ykkur eftir með þessa vangaveltu fram að því að kveikt verður á Betlihemskertinu næstkomandi sunnudag og jafnvel lengur ef þess gerist þörf.

    Það er frekar rólegt á Aðalgötunni þessa dagana. Í Dimmuborgum (hótelinu) er dimmt eins og venjulega og verður seint sagt að það kæti mig, en líkast til breytir það engu um gang himintunglanna hvað mér finnst um hlutina.    
    Það er ró yfir þeim feðgum á hæðinni fyrir ofan mig á Aðalgötu 8 og ljós er í gluggum trésmíðaverkstæðis Kráks í Krútthúsinu a.m.k. þegar ég er við störf. Þakviðgerðum á Aðalgötu 3b er lokið þannig að allt er hér miklu rólegra en oftast nær.

    Reyndar var hér merkis viðburður á Fullveldisdaginn þegar Jónas Skafta opnaði kaffihúsið Ljón norðursins. Það komu til hans þó nokkrir gestir og þáðu veitingar í tilefni dagsins. Ég tók nokkrar myndir af þessu tilefni og þær má sjá í myndaalbúminu. Jónas hyggst ekki opna kaffihúsið aftur fyrr en á annan í jólum og þá gefst fólki tækifæri til að njóta veitinga, tónlistar og síðast en ekki síst að sjá bláu hendurnar sem þar prýða veggi.

    Rúnar kemur í þessum svifum inn úr jólatrésnæðingnum með Glugga vikunnar, gluggasýn okkar út í komandi viku. Æ, það hljóta allir að skilja þetta með jólatrésnæðinginn en ég vona bara að hann lægi með kvöldinu svo næði ekki um fólk á kirkjuhólnum þegar kveikt verður á jólatrénu frá Moss kl hálf sex.

    Í Glugganum eru tilmæli, uppskriftir, jólaauglýsingar hverskonar og kynning á ýmsum uppákomum. 
    Við Rúnar rákum augun í dagskrá Félagsheimilisins þar sem m.a. er kynnt að haldnir verði tónleikar annan í jólum sem bera nafnið Skarphéðinn Einarsson sextugur. Nú verður blásið og bumburnar slegnar segjum við Rúnar og tilhlökkun settist við það sama í sálir okkar beggja. Tilhlökkun um að fá að sjá og heyra tónlist tileinkaða Skarphéðni flutta af honum sjálfum og öllum þeim fjölda nemenda sem hann hefur átt samleið með í gegn um tíðina. Kannski verður sýningin Skarpi sextugur ekki síðri en Laddi sextugur.

Ljúft gegnum lífið hefur hann flengst,
líkt og refur í æðarvarpi.
Svona menn skulu sem allra lengst
vera sextugir eins og hann Skarpi.

    Rúnar rakst á snillinginn Skarphéðinn sextuga í Samkaupum og þótti Rúnari hann undarlega til fara. Þessi vísa hraut af vörum Rúnars við þessa undarlegu sjón:

Ég skrýtin sá og skondinn mann
skjótast hjá augum mínum.
Hestamyndir hafði hann
á herðablöðum sínum.

    Rúnar hafði af því miklar áhyggjur að fánar Samkaupa skyldi ekki vera dregnir niður þegar verslun var lokað um kl 19 í gærkvöldi. Það er nefnilega þannig að Rúnar dregur fána að húni morgun hvern en öðrum er ætlað að draga fánana niður að kveldi. En það er nefnilega þannig hjá Samkaupum að sumt sem fer upp kemur ekki alltaf niður aftur og því varð Rúnari að orði:

Nú fánar blöktu um blakka nótt,
fyrir búálfa og tröll.
En Gísli* svaf svo sætt og rótt
í sinni draumahöll.

* Gísli er verslunarstjóri Samkaupa á Blönduósi

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 345
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 167
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 61229
Samtals gestir: 10762
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 15:29:02