Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Febrúar

25.02.2009 15:11

Af hækjum og fimmgangi barna

    Sprengidagur var í gær og bar nafn með rentu því margar pólitískar spregjur féllu og sníkjudýradagurinn er í dag. Sníkjudýradaginn kenni ég við litlu sníkjudýrinn sem rölta uppábúinn milli fyrirtækja og syngja fyrir sælgæti. Það er nú afar misjafnt hvað börnin leggja á sig til að vinna fyrir sælgætinu og mættu sumir að ósekju leggja sig örlítið meira fram. Það er ekki öllum gefið að halda lagi en þá gætu þau til dæmis farið með ljóð eftir okkur Rúnar eða einhver önnur stórskáld. Þetta er ekki svo galin hugmynd þegar ég heyri sjálfan mig segja hana í huganum. Sníkjdýradagurinn er að sjálfsögðu kallaður öskudagur.

    Þó svo að litlu dýrin sem syngja fyrir sælgæti hafi umvafið okkur hér í Aðalgötunni með söng, brá fyrir fleiri söngfuglum. Sigurjón frá Fossum nýkominn úr söngfrægðarför af Suðurlandi var aldeilis í skýjunum. Hann hitti meðal annars Hreppamenn og komust margir úr Bólhlíðingakórnum á baksíðu Moggans fyrir bragðið fyrir það eitt að verða á vegi Hreppamannsins Sigga í Syðra (Sigurður Sigmundsson frá Syðra-Langholti)

Sigurjón hafði yfir vísu sem hann orti eftir að hafa kynnst þessu mönnum sem þekkjast vel hversu vel þeir eru aðlagaðir vætu og þúfnagöngulagi.

Hreppamenn ég hefi talið,
hressa þó að lægðir gangi.
Orðspor þeirra er svo galið,
ofarlega á Suðurlandi.

    Söngfuglinn Maggi á Hnjúki kom hér með allar búsafurðir síðastliðns árs og fór hann ótrúlega hratt yfir miðað við allt það magn sem hann var með. Þessir dagar í lífi mínu markast örlítið af því að bændur þurfa að standa í skilum við skattstjórann á virðisaukaskattinn nú um mánaðarmótin.

    Ég vil heldur fá eitt blóm og hlýleg orð meðan ég lifi heldur en helling af blómum þegar ég dey. Þessi fallegu orð ásamt fleirum fékk ég frá Birgittu á Löngumýri í dag og fylgja þau hér: Gæfan gerir þig fallegan, erfiðleikar styrkja þig, sorgin gerir þig mannlegan og að mistakast gerir þig auðmjúkan. Árangur veldur því að þú geislar og vinirnir fá þig til að þrauka.

    Eftir að hafa lesið þessi hlýlegu orð þá hef ég horfið frá því að skrifa sjálfur minningagreinina um sjálfan mig því lengi vel hef ég gengið með það í huganum að ég sé best til þess fallinn. Svona til að tryggja það að allt komi nú fram sem máli skiptir.

    Kemur ekki söngfuglinn og harmonikkuleikarinn Rúnar Agnarsson með Gluggann í hendi syngjandi Volare ó, ó. Contare og svo frv. http://www.huni.is/files/3/20090225222344156.pdf

    Fimmgangur og tölt barna og unglinga, mót í reiðhöllinni? Við Rúnar höfum orðið varir við tölt barna um bæinn, syngjandi í von um sætan mola í munn. Reyndar eiga börnin ekki að tölta um bæinn heldur í reiðhöllinni í Arnargerði en það er bara miklu einfaldara og þægilegra á allan hátt að fóðra blessuð börnin á einum og sama staðnum.

    Hækkjur- hækjur- hækjur oft er þörf en nú er nauðsyn. Við Rúnar lásum ekki mikið lengra en þetta í auglýsingunni frá Hælinu því okkur varð svo mikið um. Við erum svo vitlaust þenkjandi að við lásum þetta með hugafari hins breyska manns. Við erum ekki með neinar hækjur frá hælinu en við rákumst á dögunum á svipaða auglýsingu frá konu frá Akureyri og mun það mál vera í rannsókn og alls óvíst hver málalok verða. Og svo það sé á hreinu þá er hún Magga mín er sko engin hækja þó hún vinni þarna fyrir hádegi. Hún er mín stoð og stytta og ég skila henni ekki baráttulaust.

    Bændur athugið og það vel. Áburðurinn frá Kaupélagi Skagfirðnga er vaxtalaus. Við Rúnar erum nú bara eins og við erum og viljum meina að áburður eigi að skila sem mestri ávöxtun.

Lífið það er bras og brölt,
"bags" á vegi förnum.
Fimmgangur og fallegt tölt,
fer svo vel hjá börnum.

18.02.2009 15:18

Ég sjálfur og Gammur frá Steinnesi

 

    Þessi dagur er svolítið sérstakur í mínum huga og hefur verið það undangengin 57 ár (eða eins lengi og ég man, látið ekki svona). Einhvern tíma í kringum þjóðhátíðardag Norðmanna árið 1951 fóru foreldrar mínir þau Sigurður Móses Þorsteinsson og Guðrún Ásta Jónsdóttir að huga að því að búa til dreng og létu verða af því. Reyndar segja mér kunnugir að foreldrar mínir hafi aldrei ætlað sér þetta en skipun hafi komið frá Hákoni 7. Noregskonungi til föður míns heitins þess efnis að þau hjón ættu að hefjast handa á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Þessu til staðfestu þá sæmdi Ólafur 5. Noregskonungur sonur Hákons, föður minn orðu frá norsku krúnunni. Þetta þótti mér vænt um en þess má og geta að faðir minn fékk líka orður frá öðrum þjóðhöfðingum Norðurlandanna. 
    Það má kannski segja það að það sé nokkuð mikið í lagt að sæma heiðursmanninn hann föður minn orðum fyrir það eitt að hafa lagt í einn dreng fyrir tæpum 58 árum. Þessi hugsun er afar sjálfhverf og ég vil trúa henni en innst inni segir mér svo hugur að eitthvað annað og ef til vill meira hafi þarna legið að baki, en ég fæddist engu að síður þennan dag fyrir 57 árum.

    Þennan sama dag fyrir 57 árum var líka frumflutt í ríkisútvarpinu lag Sigfúsar Halldórssonar Litla flugan, lag sem lifað hefur með þjóðinni líkt og ég. Það sem greinir þarna á milli er að litla flugan hefur elst til muna betur og grun hef ég um það að talsvert fleiri þekki til hennar og þyki vænna um hana en mig "þó víða sé Jón þekktur" eins og einn ágætur nafni minn sagði fyrir margt löngu.

    Það hefur ýmislegt annað gerst þennan ágæta dag í gegnum tíðina og margir lands- og heimsþekktir menn hafa fæðst og komið við sögu þennan dag. Nægir að nefna að John Travolta, Stefán Jón Hafstein, Yoko Ono, Ferrari og Garry Neville eru öll fædd þennan dag. Ég rak líka augin í það í Morgunblaðinu í morgun að Ingibjörg Pálmadóttir á líka afmæli í dag. Af þessu má sjá að það er misjafn sauðurinn í þeirri hjörð sem kom í heiminn þann 18. febrúar.

    Margir merkir atburðir hafa líka gerst þennan dag og kýs ég með vilja að sneiða hjá að greina frá hörmungum og stórslysum sem dunið hafa yfir þjóðina þennan dag en minninguna um þá sem hlut eiga að máli geymi ég með mér.

    Einn af þeim atburðum sem ég gróf upp og tengjast 18. febrúar er reynsla kýrinnar Elm Farm Ollie en hún varð fyrsta kýrin sem flaug í flugvél og var mjólkuð í háloftunum. Þetta átti sér stað árið 1930 og veit ég ekki hver nytin var en eitt er víst að hún var hámjólkuð. Þennan dag árið 1959 varð Fidel Castro forsætisráðherra Kúbu en 413 árum fyrr dó Marteinn Lúther maðurinn sem ber ábyrgð á siðaskiptunum sem aftur leiddu til þess að nafni minn Arason var hálshöggvinn ásamt tveim sonum sínum í Skálholti 7. nóvember árið 1550.

    Af þessu sjá menn að þessi 49.dagur ársins er afar merkilegur fyrir margra hluta sakir og ekki síst fyrir það að brúa bilið á milli 17. og 19. febrúar ár hvert. Þeir sem fæðast þennan dag eru á síðasta "séns" með að verða vatnsberar því fiskar taka við daginn eftir.

    Svona til að ljúka umfjöllun um þennan 49. dag ársins þá er rétt að geta þess að síðast liðin átta ár hefur hitinn á hádegi á Blönduósi aðeins tvisvar farið undir frostmark en það voru árin 2002 og 2005 . Árin 2004 og í fyrra skera sig úr hvað hita varðar en 2004 fór hitinn í 10 gráður og í fyrra í 8 gráður. Árið 2009 bætist í hóp þeirra ára þar sem hitinn var vel yfir frostmarki í hádeginu.

    Ég fór í klippingu í morgun hjá henni Bryndísi og það fór eins og fyrri daginn og mig grunaði, ekki hin minnsta smuga til að kíkja í "Séð og heyrt". Reyndar leit ég eldsnöggt á eitt blaðið sem lá efst í blaðabunkanum meðan Bryndís renndi debitkortinu í gegnum lesarann og sá að Skari skrípó og Eva María eru skilin. Það var nefnilega það.

  

 
     Birtist ekki Rúnar þar sem ég stend í dyrunum og er að reyna að ná mynd af Jónmundi í Kambakoti og varð óvart fyrir linsunni og varð fórnarlamb sjálfur.

    http://www.huni.is/files/3/20090218204959588.pdf
Glugginn í dag. Hvað skal segja; slátursala, Domusgengið er með lífsmarki og áburðarverð komið fyrir almenningssjónir.

    Gammur frá Steinnesi verður á seinna gangmáli á svæðinu segir í auglýsingu frá samtökum hrossabænda. En við Rúnar finnum ekki auglýsinguna frá vinstri grænum þar sem sagt er frá Gammi á fyrra gangmáli en eins og allir vita þá líður senn að kosningum.

    Hrafnhildur blómadrotning hvetur karlana til að kaupa matjurtafræ handa einkonunum svo þær geti ræktað kál og rófur í sumar. Snjöll kona Hrafnhildur.

    Auglýsingin frá Samfylkingunni er stórbrotinn. Þar er auglýst eftir kjörgengum konum og körlum á framboðslista sem vinna samkvæmt bestu samvisku og eigin sannfæringu að hugsjónum jafnaðarstefnunar á Alþingi Íslendinga fyrir hönd íbúa Norðvestur kjördæmis og íslensku þjóðarinnar. Það munar ekki um minna.

    Skagastrandar-Rúnar er nokkuð góður núna í vísu vikunnar og nefnir til sögunnar framagrein, grein sem margir stefna á þessa dagana.

    Lítil kisa er í óskilum en ég veit ekkert um hana þó svo ég sé í guðatölu hjá auðnutitlingunum en það sakar ekki að spyrja E-listann um köttinn.

    Bolla, bolla segja Krúttararnir enda ekki seinna vænna því senn líður að bolludegi.

    Við Rúnar erum eins og klipptir út úr auglýsingu frá samfylkingunni og förum eftir eigin samvisku þegar við setjum Glugga vikunnar í ljóðrænt samhengi:

Um samfylkingu sagt margt er
þá sálnahjörð og frelsisher.
Á merar glaður Gammur fer
graður eins og vera ber.

Ps

Þess ber að geta að skáldkonan frá Löngumýri kom meðan við Rúnar vorum að rembast við að berja eitthvað "gáfulegt" saman og rukkuðum við hana um vísur. Ekki gat hún orðið við því á staðnum enda umhverfið lítt spennandi og því síður uppörvandi. Birgitta frá Syðri-Löngumýri brá á það ráð að hraða sér heim og yrkja í hvelli og hér koma "Vísur Löngumýrar Birgittu" og þarf ekki að taka það fram að gott þykir okkur hólið.

Hann Nonni gerði mér greiða
Svo glaður í sinni hann var.
En Rúnar var vísur að veiða
Og vesælan Glugga inn bar.

Í Ríkinu rækta þeir andann
og reyna að spæla frú.
Alveg sko allan fjandann
Þeir eru að skálda nú.  

Svo yrkir hann Rúnar rjóður
Og réttir svo vísu mér.
Og Nonni er næs og góður
Í nærmynd sem vera ber.

Ég ætla að auðga trúna
og ef til vill fer í geim.
Svo baka ég bollur núna
Og Birgitta er komin heim.

Þarf að muna þetta: Í ríkinu rækta þeir andann

11.02.2009 14:40

Að þekkja ekki leiðina

    Sólin kemur enn upp á morgnana, Blanda brýst í klakaböndum til sjávar, Hörður Torfa veit ekki hvað bankastjórar seðlabankans heita og er enn reiður. Það er allt við það sama í náttúrunni og meira að segja Malla mús sem ég hélt að Höskuldur köttur hefði étið í fyrra er enn að berjast fyrir tilveru sinni líkt og svo margir aðrir.
 

    Karlarnir halda áfram að kúga konurnar, jafnvel í ríkara mæli sem sést best hvernig farið er með veslings Jónu Fanneyju fyrrverandi bæjarstjóra sem skilin er út undan í bæjarstjórn. Það er allt við það sama, þannig að fullyrðingin að allt gangi sinn vana gang á enn fullan rétt á sér. Kannski er ég að fara fram úr mér með þessari fullyrðingu. Miðað við stöðu Jónu Fanneyjar í bæjarstjórninni þá er konan í okkar samfélagi sett á þann stall sem Guðni Ágústsson orðaði svo haglega á sínum tíma: "Staða konunnar er bak við eldavélina". Við erum líkast til komnir á þann stað í tilverunni þegar allt lék í lyndi. Mæðurnar heima til að sinna börnum og eiginmanni. Vandamálin ekki svo flókin að menn komust af með að tóra án hjálpar herskara af sérfræðingum á öllum sviðum. Menn eyddu ekki meira en þeir öfluðu og Morgunblaðið, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn voru helstu hornsteinar lýðræðisins.

    Töluvert var fjallað um hinn ljóta leik, einelti í þættinum"samfélaginu í nærmynd" á rás 1 í útvarpinu í gær og kom þar margt merkilegt fram. Líkast til hef ég sperrt eyrun eftir þessari umræðu vegna þess hve vinur minn (Davíð er vinur minn orti Hallbjörn á sínum tíma) Davíð er eineltur af fyrrum eineltum mönnum. Ég tel ekki Jónu Fanneyju með því hún er bara skilin útundan sem er ekki fallegt í sjálfu sér. Það var fjallað um rafrænt einelti, ekki einelti með pottum og pönnum. Strákar voru sagðir vitlausari en stelpur í eineltinu því þeir eru ennþá í hinu hefðbundna einelti. Stelpur eru klókari því þær hafa betra vald á málinu og hvernig best er að nota það á andstyggilegan hátt. Reyndar kom það fram að krakkarnir eru ekki slæm í eðli sínu heldur er þetta vegna þess að þau vita ekki hvað þau eru að gjöra. Að síðustu kom fram að líkast til hafa krakkarnir sem einelti beita eða verða fyrir einelti þetta frá foreldrum sínum sem ekki þekkja sín siðferðilegu mörk, bæði heima fyrir og í bloggheimum. Að minnsta kosti vonuðu sérfræðingar þeir sem um þessi mál fjölluðu að krakkarnir læsu ekki það sem foreldrarnir skrifuðu á blogginu um þessi mál því orðbragðið og efnistök voru slík að það væri börnunum ekki hollt. Það þarf ekki alltaf langt að leita til að finna svörin.

    Má til með að segja eina litla sögu úr samfélaginu. Um kl 6 að laugardagsmorgni hringir dyrabjalla á Hælinu og starfsmaður svarar í dyrasíma. " Er þetta á hótelinu?", er spurt" Nei þetta er á sjúkrahúsinu". "Nú! en getur þú nokkuð sagt okkur hvar við við eigum að fara til að komast til Akureyrar? Við erum hérna fjórir strákar sem þurfum að komast þangað en þessi leið er svo andskoti illa merkt". " Viljið þið ekki koma aðeins inn fyrir, á klósett eða svoleiðis". Nei, nei við erum góðir en við finnum ekki leiðina til Akureyrar." "Þið keyrið bara sömu leið til baka og beygið til hægri og farið svo yfir brúnna og haldið sem leið liggur eftir þjóðveginum, þá ættuð þið að komast." Takk fyrir sögðu piltar og óku til baka en beygðu eins og fyrir var lagt strax til hægri og inn á Flúðabakkann . Litlu síðar sást til þeirra koma Flúðabakkann til baka og yfir brúna. Ekki fylgir sögunni hvernig ferðin hafi gengið en engar fréttir hafa borist um neitt óeðlilegt á leiðnni Blönduós Akureyri síðustu sólarhringa Guði sé lof (reyndar var keyrt á staurinn í hringtorginu um helgina). Það er allt eins á þessu landi. Það vita allir hvert á að fara en þekkja bara ekki leiðina.

    Guð auðnutitlingana er stórt orð jafnvel stærra en Hákot en vel meint af mínum góða vin Hafþóri Erni en músarindill mundi hæfa mér betur því mér finnast mýs fallegar í fjaska en skelfilegar í návígi.

    Einar Óli, þessi á sjúkrabílnum (ofvirki sjúkraflutningamaðurinn sem greint er frá í kaflanum "engine workshop") gerði mér hverft við rétt upp úr eitt þegar ég var að mæta til vinnu. Haldiði ekki að hann hafi komið með öll björgunatæki sýslunnar í Aðalgötuna til mín. Ég segi nú bara eins og Skrámur: "Er þetta nú ekki tú mödds" Reyndar fylgdi þessari bílalest töluverð mengun og hefur stuðullinn líklega farið yfir heilsuverndarmörk og því gott til þess að vita að sjúkrabíll var með í för.

http://www.huni.is/files/3/20090210200210510.pdf . Dettur nú ekki hann Rúnar inn úr harðindunum með fjölbragða Glugga í hönd. Fjölbragða! hvá menn en það er einmitt fjölbragðahátíð á Pottinum á föstudaginn og sagt frá því á forsíðu Gluggans. Við Rúnar söknuðum þess að ekki hafi verið auglýst fjölbragðaglíma en reyndar hefur það oft gerst eftir góðar hátíðir að menn efni til fjölbragðaglímu gersamlega óbeðnir.

    Fimm aura brandararnir eru úr sögunni. Goodheart hlátur er hlátur sem byggir á því að hægt er að hlægja að öllu sem ekki er fyndið en það kostar 1.000 kr. Við Rúnar höfum ekki enn fengið krónu fyrir skrif okkar en ef menn (konur eru líka menn) mæta vel á hláturnámskeiðið þá er aldrei að vita nema við Rúnar förum að auðgast í harðærinu.

    Okkur Rúnari finnst það áhugavert að auglýstur sé áhugaverður fundur þar sem konur koma saman til að spjalla. Okkur Rúnari finnst það líka áhugavert og erum þakklátir fyrir að mega ekki mæta á spjallfund kvenna, í þessu tilfelli sjálfstæðiskvenna.

    Samfylkinginn ætlar að halda aðalfund sinn fyrir árin 2007 og 2008 og má sjá í þessu vott af hagsýni, óþarfi að vera með of marga aðalfundi eða fundi yfirleitt, þjappa þessu saman. Það er hagsýni sem þjóðin þarf á að halda. Við veltum svolítið vöngum yfir því hvers vegna félagar væru hvattir til að fjölmenna. Væri ekki eðlilegra að hvetja menn til að mæta og dæma svo eftirá hvort fjölmenni hafi verið á fundinum.

    Viltu fisk frá Eyjum? Við Rúnar viljum fisk en þarf að flytja hann alla leið frá Eyjum. Getur ekki Ívar Snorri nú eða bara Skagstrendingar útvegað okkur fisk, það er um mun styttri veg að fara. Obb! Obb! Obb! gleymdum því að Siggi og félagar í Flytjanda hafa af þessu tekjur og þær skila sér inn í samfélagið. Það er rétt að hugsa áður en maður talar.

    Við Rúnar skiljum ekkert í því hversvegna Rúnar á Skagaströnd er að hnýta í frænda sinn í Seðlabankanum í vísu vikunnar því "Davíð er besta skinn" eins og frændi hans Hallbjörn Hjartarson söng á sínum tíma.

    Nú er bara að setja þetta í ljóðrænt samhengi með mildilegu orðbragði hins miskunsama manns sem er tilbúinn að fyrirgefa þeim sem vita hvað þeir gjöra eða gjöra ekki.

Yfir voru ættarlandi,
allt er nú stórri steik.
Áður landsins forni fjandi,
fellur undir barnaleik.

Menn kjósa að komast til valda
og klöngrast yfir heiðina.
Og vita hvert eiga að halda,
en þekkja ekki leiðina.

04.02.2009 14:54

Tappadekk og þrívíddarþæfing

    Tíminn æðir áfram. Í dag fer sólin að skína um kl hálf ellefu inn um gluggann til mín á skrifstofunni í Aðalgötunni. Það er ekki svo langt síðan að sólin skein bara ekki neitt inn um gluggann. Og hugsið ykkur, það eru ekki nema rétt um 2 mánuðir þar til fyrstu grágæsirnar fara að koma frá mr. Brown og félögum í Norðymbralandi. Þá getum við aftur farið að velta því fyrir okkur hvort gæsirnar skíti of mikið á almanna færi og hvort við eigum að láta það fara í taugarnar á okkur. Er þetta ekki allt saman skemmtilegt til að hugsa um , til að hlakka til. 
    Þegar maður leiðir hugann að því að maður er það sem maður hugsar eða hugsar ekki, þá kemst maður að því að lífið er svona upp og ofan eins og það hefur verið um tölvert langan tíma. Allavega eins lengi og ég man eftir. 
    
Hvort sem það er réttlæti eða ekki þá byrjar sólin fyrr að skína á Dimmuborgir (hótelið) á morgnana. Fyrst fannst mér þetta ekki sanngjarnt en þegar ég fór að hugsa aðeins lengra þá komst ég að því að þörfin til að lýsa upp Dimmuborgir er meiri en að upplýsa mig. Svo einfallt er það nú.

    Mummi Haralds kom hér í morgun og tókum við spjall saman. Mumma var litið út um gluggann í átt til Dimmborga og spurði ; "Veistu hvað á að gera við hótelið?" "Ég hef heyrt að búið sé að ráða hótelstjóra" sagði ég en vissi bara ekki hvern né hvar ég heyrði það svo við felldum þetta tal niður. Mumma fannst mikið til snjókornanna koma sem svifu kyrrlát til jarðar og lögðust í samfelldri breiðu yfir gaddfreðna jörðina. "Það á einhver eftir að glepjast af þessu og detta flatur því menn átta sig ekki á hálkunni undir nýju mjöllinni" sagði ég. "Það þarf að kenna fólki að ganga í hálku" sagði Mummi. "Fólk á ekki að tipla á tánum heldur stíga vel í hælana þá dettur það ekki á hausinn" áréttaði Guðmundur Haraldsson af sinni alkunnu hæversku.

    Síðustu dagar hafa verið kaldir en bjartir og hefur sést vel yfir á Strandir. Þeir Nonni hundur og Stefán notfærðu sé þessa sýn á dögunum líkt og margir aðrir eins og hér má sjá.


http://www.huni.is/files/3/20090203184559713.pdf
er slóðinn inn á Glugga vikunnar sem Rúnar kemur nú með inn úr fimmbulkuldanum

    "Ég hef tekið við störfum markvarðar í A-Hún. Jóhann Guðmundsson Holti" Það er alveg makalaust hvað eitt lítið a getur skipt miklu máli í samhengi hlutanna. Það sem við lásum og hér er ritað á undan stóð alls ekki í auglýsingunni þannig að það er ekkert mark á okkur Rúnari takandi. Það hefði nú samt verið svolítið svalt að Jói í Holti yrði markvörður fyrir alla sýslunna, núna þessu síðustu og verstu. Við yrðum ekki hissa þó margir yrðu hissa að sjá Jóhann verja mark Hvatar í annari deildinni í sumar.

    Auglýsingin frá 4x4 Húnvetningadeild er áhugaverð. Tappadekk og sjóða með rafgeymum er eitthvað sem við Rúnar þurfum að kynna okkur en peysukaup og þorrblót þekkjum við. Tappa dekk, hvað er nú það? Nagladekk, heilsársdekk og tappatogari er kunnuglegt. Kannski er þetta myndlíking , þannig að tappinn sé stytting á happatappa og dekkið sé eitthvað sem tengist dekki á skipi; samanber "hvað vilt þú upp á dekk" Semsagt hvað vill tappinn upp á dekk. Með öðrum orðum þá gæti orðið tappadekk verðið einhverkonar getnaðarvörn. En hvað vitum við Rúnar.

    "Pöbb Quiz" er nýjung hjá Pottinum og pönnunni. Spurningakeppni og verðlaun og einn kaldur fyrir þann sem hefur bjórspurninguna á hreinu. Hvað er tappadekk? GETNAÐARVÖRN! og maður hefur unnið einn kaldann.

    Maggi á Hnjúki ætlar að skondrast með alla þá sem séð hafa beljurass, suður í Borgarfjörð milli mjalta og messu, því opna á nautastöð á Hesti eftir nokkra daga. Nautastöð á hesti hváði maðurinn en hann vissi ekki um stóra stafinn.

    Ástæða er að minna á guðþjónustuna á sunnudaginn því við rákumst á Óskar í Meðalheimi tautandi fyrir munni sér þessa vísu:

Fjöldi manna finnst mér sé
farinn út af sporinu.
Ákallandi ESB
á undan Faðirvorinu.

    Ef einhverjir eru búnir að gleyma í hvaða röð hlutirnir eru þá er rétt fyrir þá að líta við hjá sóknarpresti á sunnudaginn og fá röðina á hreint.

    Að öðru leyti er Glugginn bara fínn. Hægt að teygja lopann og þæfa, prjóna, fara á reiðnámskeið og gera góð kaup í Kjalfelli.

    Ein bjórspurning: hvað er þrívíddarþæfing? Svar: þegar maður kemur heim af Quiz kvöldi og hefur svarað öllum bjórspurningum rétt en getur ekki alveg útskýrt það fyrir konunni . Maður teygir lopann og þæfir eins lengi og stætt er, eða er það ekki?

    Við Rúnar settum okkur í ljóðrænar stellingar til að höndla sem best visku okkar og uppgötvun með tappadekkið og hér sjáið þið árangurinn:

Allt og ekkert getur skeð,
ef menn eru með hrekki.
Tappadekkið takið með
svo tappinn leki ekki.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 872
Gestir í dag: 436
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 62153
Samtals gestir: 11206
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 18:14:41