Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Mars

25.03.2009 15:05

Best væri bara að þegja

    Boðunardagur Maríu meyjar er í dag 25. mars. Þá tilkynnti Gabríel erkiengill að hún skyldi ala son Guðs, enda eru þá níu mánuðir fram að jólum en það er eitthvað hik á vorinu. Ég taldi það víst að það væri hægt að reiða sig á að vorið kæmi á morgun eða hinn því páskatungl kviknar á morgun í SV. En svona er þetta nú bara þó erfitt sé að kyngja því. Maður var alveg sáttur við það að síðasti tunglmánuður væri leiðinlegur einfaldlega vegna þess að þá kviknaði tungl í norðri. En hvað sem öðru líður þá eru álftirnar farnar að streyma í heimahagana frá Bretlandseyjum. Sá nokkra hópa í gær á leið minni til og frá Reykjavík. Fyrst var ég var við þær á Torfalækjartúninu. Síðan sá ég nokkra álftir á flugi yfir þjóðveginn við Hnausa og svo loks nokkrar við Gauksmýri.

    Skógarþrösturinn hefur nánast upp á dag byrjað að syngja fyrir okkur á Árbrautinni þann 31. mars en það varð á því töf í fyrra. Hinsvegar bætti hann það upp í ár því hann söng hástöfum í grenitrénu hjá Hauk Ásgeirs nágranna mínum í fyrradag . Grun hef ég um að þessi ágæti fugl muni hafa hægt um sig næstu daga og einbeita sér að því að halda á sér hita.

    Eins og stundum hefur komið fram hjá mér þá erum við að minnsta kosti tveir í götunni sem höfum áhuga á fuglum. Höskuldur köttur er ekki síðri í áhuga en ég og fer hann mun gætilegar yfir og horfir fuglana allt öðrum augum en ég. Ég verð töluvert var við Höskuld kött þessa dagana því nægilegt framboð er af auðnutittlingum og svo hefur rjúpan bæst í hópinn.

    Við Rúnar erum núna komnir á FACEBOOK og orðnir gildandi í samfélagi mannanna. Maður er búinn að eignast fjölda vina hina síðustu daga og veit nú orðið alveg hvað þeir eru að hugsa, hverjum þeir eru líkir sem og hversu ungir þeir eru í anda. Það er hægt að senda fólki blóm og kransa, páskaegg, já bara nefna það.

    Það eru flestir mjög jákvæðir á þessari bók sem mig langar að kalla "sálarspegil". Ég hef ekki enn rekist á neinn sem lemur konuna sína eða stundar einelti. Ef maður rækist á slíka færslu og ætlaði að blanda sér í umræðuna gæti maður óvart ýtt á "líkar þetta" og þá sæju allir vinar manns hjá sér " Jón Sigurðsson líkar þetta". Svo hef ég ekki rekist á neinn sem hefur stofnað hóp um að standa við bakið á nýrri reglugerð um það að sælgæti eigi ekki að vera í sjónhæð barna, a.m.k. hefur mér ekki verið boðið þann hóp. En engu að síður, með því að sína andlit sitt í sálarspeglinum þá grefur maður upp gamla vini sem maður lék sér við í æsku og það er svona þægileg "nostalgía".

    Það er annars með hreinum ólíkindum hvað hægt er að ganga langt í því að hafa vit fyrir öðrum. Nú ætlar hið opinbera að taka þann kross af foreldrum að þurfa að segja nei við við börnin sín þegar þau sjá sælgæti úti í búð með því að skylda verslunareigendur til að færa sælgæti úr augsýn barna. Hvað verður næst. Verður leikfangaverslunareigendum gert að mála búðarglugga sína svarta svo börnin sjái ekki leikföngin. Er foreldrum ekki treyst til að segja nei eða já við börnin sín. 
    Í sumum skólum er börnum bannað að ganga með leikfangabyssur og sverð á grímuböllum svo þau verði ekki ofbeldinu að bráð. Ég man eftir því í þá gömlu og góðu daga þegar maður, stubburinn kom heim úr Austurbæjarbíói með strætó nr 3 nýbúinn að sjá Roy Rogers afgreiða bófana á glæsilegan hátt sitjandi á Trigger, vopnaður tveimur skammbyssum líklega Colt. Vagninn iðaði af lífi og menn földu sig á bak við sætisbökinn og skutu hver á annan af hjartans list og þegar maður fór úr vagninum á Laugarnesveginum voru fjölmargir "fallnir í valinn". Ekki minnist ég þess að þeir félagar mínir sem stóðu að þessum "ofbeldisleikjum" séu eitthvað verri menn fyrir bragðið. Ég læt öðrum eftir að dæma mig.

    Svona í lokin áður en Rúnar kemur með Gluggann, nokkrar "gagnlegar" upplýsingar: Fyrsta heimsmeistaramót í bananaáti var haldið þennan dag árið 1979. Nokkrir merkir tónlistarmenn eru líka fæddir þennan dag og nægir að nefna ungverska tónskáldið Bela Bartok (1881), Arethu Franklin (1942) og Elton John (1947).

    Nú læðist inn um dyrnar á lognkyrrum, köldum miðvikudegi Rúnar Agnarsson með helstu viðburði í sýslunni falda í Glugganum.
http://www.huni.is/files/3/20090325193502442.pdf

    Þeir eru óborganlegir þessir hestamenn í sýslunni. Á laugardaginn ætla þeir að standa fyrir sýningu á sjálfum sér eða eins og segir í auglýsingu. "Í ár höldum við 10. sýninguna en Reiðhöllin er 9 ára um þessar mundir. Að þessu sinni er sýningin borin uppi af almennum hestamönnum og konum (eins og konur séu ekki menn) á öllum aldri og u.þ.b. 50 börnum og unglingum. Markmiðið er að sína þá miklu breidd sem er í iðkendahópnum." Við Rúnar erum nokkuð vissir um það að hestamenn eru misbreiðir og allt það og vafalaust afar gaman að sjá þessa breidd.

    Við Rúnar erum mikið að velta vísu vikunnar, sem að þessu sinni er frá Magga frá Sveinsstöðum, fyrir okkur. Gæti verið að Björg hans Magga hafi sagt eitthvað í tveggja daga afmælinu hans Óla sem verðskuldar þessa vísu? Ekki vitum við það

    Það er spurning hversu girnilegur og bragðgóður hann er þessi 3ja rétta tilboðsseðill sem boðið verður uppá á Pottinum og pönnunni.

    Svo sé ég það í Glugganum að Einar Örn Jónsson ætlar að vera hjá foreldrum sínum um páskana og vonandi hefur hann með sér börnin og konuna.

    Hvernig er það eiginlega með þá Gluggamenn. Er ekki með nokkru móti hægt að koma því inn hjá þeim að það eru tvö G í Gluggi hvort heldur orðið er skrifað á hlið eða lárétt.


    Það eru ekki allir sem eiga eins harðsnúinn bæjarstjóra og við Blönduósingar sem stendur vörð um sitt samfélag. Þessi mynd er ekki úr Amerískri hasarmynd heldur er hér á ferðinni hinn geðþekki og einbeitti bæjarstjóri Arnar Þór Sævarsson á vaktinni.

    Þá er bara eftir að setja þetta allt saman í vinjettuform en það versta er að við kunnum það bara alls ekki svo gamla góða aðferðin verður bara að duga.

Það er erfitt hvað nú ætti segja
um þennan Glugga í dag.
En best væri bara að þegja
og blístra eitt angurvært lag.

Og loks þegar lagið er búið
og löng verður tómrúms bið.
Þið ráðið hvort þessu þið trúið
því Glugginn er eins út á hlið.

18.03.2009 15:04

Í andrými hins hugumstóra manns eða lóan er komin

    Vorið er að koma það er næsta víst. Þetta skynjar maður þegar ein og ein fiskifluga er farin að suða í glugganum hjá manni. Annað vorboðamerki sem ekki bregst en það er koma farfuglanna. Það sáust lóur á Buddutúni á mánudaginn eða það sagði Stefán Hólm að minnsta kosti og innan um þær var töluverður fjöldi skógarþrasta. Þessir fuglar eru til þess að gera mjög snemma á ferðinni og vorum við Stefán Hólm sammála um að lóan væri óvenju snemma á ferðinni. Vonandi er þetta ávísun á það að nú vori snemma á Íslandi og skógarþrösturinn verði farinn að syngja ástarljóð sín eigi síðar en 31. mars.

    Daginn sem sást til lóunnar á Blönduósi hringdi minn kæri nágranni og fuglaáhugamaður Þórður Haukur Ásgeirsson í mig og sagði mér frá stórum hópi fallegra fugla á sundi á sjónum fyrir neðan RARIK. Þetta er frábært myndefni sagði hann og þegar þú ert búinn að mynda fuglana þá er heitt á könnunni í RARIK.

    Ég, náttúrulega af stað með mína kameru og renndi úteftir og kom fljótlega auga á slatta af æðarfugli á sundi. Ég skimaði um allan hafflötin til að reyna að sjá þessa undrafugla sem Haukur nefndi í símann við mig. Víst er æðarfuglinn fallegur svo ég splæsti einni mynd á fuglahópinn. Fór svo í kaffi í RARIK og komst að því sanna í málinu en það var gaman að hitta fuglana á sjónum fyrir neðan og í RARIK og þiggja kaffi og smá spjall.

    Ég var búinn að lofa því að koma endrum og eins með gamlar myndir úr svarthvíta myndasafninu mínu og hér koma nokkrar myndir:

    Prófkjör eru oft tákn um vorkomu. "Ég er ekki sjálfstæðismaður en ég ann minni heimabyggð" sagði einn ágætur vesturbæingur á Húnahorninu sem við getum bara kallað Mugga og hleður síðan lofi á flokkinn og sérstaklega hinn skellega Sigurð Örn Ágústsson sem við munum nú brátt sjá mynd af ásamt fleirum ágætum kempum á uppskeruhátíð Hvatar fyrrir allnokkrum árum.


Hér má sjá: Svanhvíti, Jóstein, Jakobínu, Orra, Elsu, Hallstein, Erlu, Sigga Geit og Ara Guðmund

    Hvar skyldi Muggi annars vera í pólitík? Mér fannst hann flottur málshátturinn sem hann kynnti til sögunnar og er eignaður Sigurði Erni "Ef Geitin getur það ekki - þá er það ekki hægt"

    Annað sem hefur tengst vorinu í gegnum tíðina er uppsetning leikrita hjá leikfélagi Blönduóss (þetta kalla ByggingaBjartur fruss en í þessu tilfelli er ósinn í eignarfalli). Hér má sjá þekkta einstaklinga úr samfélaginu í indíánaleik.

Á mynd: Benni Blö, Jón Ingi, Kalli og Gugga
    
    Blönduvision er söngkeppni sem hefur verið tengd árshátíð Gunnskólans á Blönduósi svo lengi sem elstu menn muna. Hér koma tvær myndir tengdar þessari hátíð frá fyrri tíð.
 


                Á mynd: Una, Anna og Ragnar Z


        Sirrí með hóp aðdáenda

    Ég ætla að leyfa mér að fjalla örlítið um einn þeirra sem er á þessum Blönduvision myndum en það er Ragnar Z. Guðjónsson (RZG) einn af máttarstólpum Húnahornsins. Eftir mjög áræðanlegum heimildum, þá bar hann þetta höfuðfat daglega á sínum æskuárum á Blönduósi . Hatturinn var viðurkenndur sem eitt af hans auðkennum líkt og freknur á nefi og fékk hann að hafa hattinn á höfði í kennslustundum. Með þessu hefur RZG skipað sér í flokk manna sem ég þekki sem hafa hlotið álíka viðurkenningu þ.e að hatturinn sé hluti af persónueinkennum. Þeir menn sem skipa þennan flokk ásamt RZG eru Guðmundur Valtýsson kenndur við Bröttuhlíð, Kristján Pálsson frá Hvíteyrum og síðast en ekki síst Ferdinand í Mogganum.

    En nóg um þetta því núna fýkur enn og aftur Rúnar Agnarsson inn um dyrnar með sunnan vindinn í bakið og Gluggann í fanginu.
http://www.huni.is/files/3/20090319000100766.pdf

    Sjálfstæðismenn prýða forsíðu og bak Gluggans í dag og reiknum við Rúnar með að Einar Kristinn hafi valið bakið með tilliti til vísu vikunnar þar sem fjallað er um baklandið og mikilvægi þess. 
    Domusgengið er farið að selja gröf . Þetta verður að teljast bráðsnjallt í kreppunni því eina vistarveran sem ekki er offramboð af er einmitt gröfin.

    Glugginn sjálfur klikkar ekki á því að klikka. Gluggamenn eru nokkuð brattir á láréttu nótunum en ef þeir prenta út á hlið þá verða þeir linskrifanndi nema Géin renni bara saman í vélum þeirra þegar prentað er út á hlið. En við Rúnar gefum það ekki eftir að Gluggamenn verða að hafa hugann við Gluggann en ekki Glugann.

    Hún er einstaklega eggjandi og karlmannleg auglýsinginn frá karlareið Neista. Flengriðið verður í botni frá Orrastöðum eftir Svínavatni endilöngu fram í Stekkjardal. Gísli Hólm Geirsson verður fyrri til að ríða en Ægir, fyrir hópnum enda ekki nema von því Gísli er þaulreyndur frjótæknir.

    Að öðru leyti er Gluggi vikunnar hófstilltur og upplýsandi eins og honum ber.

    Til að koma þessu öllu saman í ljóðræn klæði er gráupplagt að setja saman einhverja hugljúfa og alltumliggjandi vísu sem lýsir andrúmi hins hugumstóra manns sem skilur hvorki upp né niður í hlutunum.

Á baki Gluggans brosir hann Einar
og biðlar til sjálfstæðismanna.
Renna um Svínavatn ríðandi sveinar,
reiðskjóta sína að kanna.

    Rúnar vildi ólmur koma með tvíræðar vísur um Eydísi og Einar og tengja það eitthvað við bakið og svoleiðis en ég áréttaði og undirstrikaði við Rúnar að þetta væri síða fyrir alla fjölskylduna.





11.03.2009 15:16

Þegar amma var ung

    Lífið er einstaklega margslunginn rennireið; kannski mætti segja sjálfrennireið (reyndar var þetta orð notað um fyrsta bílinn sem kom til landsins) því hver er sinnar gæfu smiður og ræður töluverðu um hvernig rennireiðin gegnum lífið verður.

    Þegar maður lítur yfir rennireið lífs síns er af mörgu að taka. Minn betri helmingur ákvað það á dögunum að draga fram í dagsljósið skjalakassa sem hafði að geyma þó nokkurn fjölda af "gömlum" svart hvítum ljósmyndum. Þessar myndir eru að líkindum frá 1986- 1990 og margar hverjar allrar athygi verðar. Flestar myndirnar eru teknar við einhverja misáhugaverða atburði hér á Blönduósi en ætíð af áhugaverðu fólki. Sjá má andlit sem tekið hafa út að minnsta kosti 20 ára þroska við ýmsa leiki og störf. Þegar mín ágæta kona rakst á mynd af sjálfri sér hvar með henni á mynd voru synir hennar tveir og systir, fór um hana einhver sælu tilfinning. Glampinn í augunum var þannig að maður sá veröld sem var.


    
    Það er hægt að skoða þessar gömlu myndir með að minnsta kosti tvennum hætti. Annarsvegar hvað það var gaman í "den" og hvað heimurinn hefur farið versnandi nú eða bara sleppa hinu síðast talda. Það var déskoti gaman í "den" og byggist það líklega á því að maður var ekki búinn að safna saman eins mikilli reynslu til að byggja upp þröskuldinn í sjálfum sér.

Eins og ég sagði áður þá sá ég í augum konunnar veröld sem var þegar hún sá sjálfa sig 20 árum yngri.

Ég ætla mér að svona annað slagið að skjóta hér inn á síðuna myndum úr þessari möppu og varpa örlitlu ljósi á árin sem nú eru horfin í aldana skaut. Það er gaman að sjá myndir af krökkum sem nú eru á aldur við mann þegar myndirnar voru teknar.

Lítum á Þessa mynd:



    Hér eru á ferðinni fræknar stúlkur sem sýna kraftmikinn dans á árshátíð Grunnskólans á Blönduósi fyrir einhverjum árum. Ein þeirra er hér enn starfandi og það ég best veit gerir hvað hún getur til að halda ömmu barnabarna minna ungri. Þið megið velta vöngum örlitla stund yfir þessari mynd og reyna að sjá hverjar hér eru á ferðinni en ég hef ekki endalausan tíma til að bíða eftir svari þannig að ég uppljóstra núna hverjar þær eru. Lengst til vinstri er Una Marsibil Lárusdóttir, þá Magdalena Berglind Björnsdóttir og Anna Sveinsdóttir.

    Það er alltaf gaman að rekast á eitthvað nýtt í fari manna einkum og sér í lagi þegar það er til að auðga andann. Öll þekkjum við limmósíu eigandann Kristján Pálsson manninn sem vill hafa steinana í kringum sig. Einn dag þegar synfónískur niður hafsins sem norðanáttin bar með sér í öldum Húnaflóans þegar þær brotnuðu við strönd Húnafjarðar, bárust Kristjáni til eyrna varð honum samstundis að ljóði:

Húnaflói þú heillar mig og kætir
og hressir dag hvern andans kraftinn minn.
Ég held þú geðið Blönduósinga bætir,
er Blanda kyssir öldufaldinn þinn.

    Núna á þessum frostlausa miðvikudegi fýkur hann Rúnar inn með sunnanvindinn í rassinn og Gluggann í hægri hendi og strunsar beint til Helgu áður en hann kemur til mín.http://www.huni.is/files/3/20090312090728744.pdf

    Hvað boðar blessaður Glugginn í dag. Nú er bara að fletta.

    Strax á forsíðu Gluggans rekum við Rúnar hornin í það að gleymst hefur að segja frá því hvenær árhátíð Grunnskólans verður haldinn sem og hvar en ljóst er að hún hefst klukkan 19:30. Sem sagt við vitum að árshátíð verður haldin en ekkert meir.

    Domus gengið auglýsir Húnabraut 3 efri hæð til sölu. Gott útsýni og lánið sem hvílir á eigninni er gott og yfirtakanlegt. Þeir hefðu átt að nota sér markaðsfræðina og segja "Stutt í næstu lánastofnun".

    Pöbb Quiz mánaðarins er einfalt. Hvar og hvenær verður árshátíð Grunnskólans á Blönduósi?

    Ólafur bóndi á Sveinsstöðum hagar sér líkt og Gissur jarl á Flugmýri og boðar til margra daga veislu í tilefni afmæli síns. Það er von okkar Rúnars að veislulok verði með blíðari hætti en á Flugmýri forðum en enga athugasemd gerum við Rúnar við það að menn kíki í sýrutunnurnar á Sveinsstöðum.

    Bestu þakkir fá allir sem að Ís-landsmótinu á Svínavatni komu. Okkur Rúnari hefði nú fundust allt í lagi að senda hestunum sem þátt tóku örlítin þakklætisvott þó svo þeir sé lítt læsir.

    Óskar í Meðalheimi leit hér inn og tjáði okkur að hann væri farinn að endurvinna gömlu barnagælurnar því nútímabörnin skilja ekkert í þeim lengur svo sem eins og að "mjólka ána sín", svo hann kom með bragabót:

Sigga litla systir mín
sést nú ekki lengur.
Hún gleypti vitlaust vítamín
og visnaði eins og gengur.

Pétur Þorláksson sat hjá okkur yfirfullur af gömlum vísum og og gömlum  húsgöngum og lagði hann okkur til eina vísu sem kjörið er að birta á þessum vettvangi á seinni hluta góu:

Góa er slyng að snuða út hey,
snjónum kyngir niður.
Frostið þvingar mann og mey,
má um syngja fagurt ei.

Þessi vísa er eftir Ellert Bergsson pabba hennar Heddu (Herdísi Ellertsdóttur) sagði Pétur okkur. Sagði hann að til væru eftir hann margar vísur en það vissi bara engin hvar þær eru niðurkomnar.

Að lokum þetta eftir að hafa verið umvafnir ljóðrænum "erkibjálfum" líkum okkur.

Hér verður ekki bætt um betur
í bragfræðinni á þessum degi.
Hér áðu bæði Óskar og Pétur
Ótæmandi á förnum vegi.

04.03.2009 15:08

Augnablikið

    Að njóta augnabliksins eru gríðarleg verðmæti sem ég veit ekki hversu mörgum er gefin. Þetta eru verðmæti sem ekki verða mæld með mælistikum veraldargengisins. Augnablikið er á stöðugri hreyfingu og aldrei eins en samt getur maður gefið sér tíma til að staldra við það, meðan tíminn líður hjá. En það er misjafnt hvernig maður meðhöndlar þetta fyrirbæri sem kallast augnablik. Eins og fyrr greinir njóta sumir þess, aðrir missa af því, en aðrir hnýta í það eða láta sér fátt um finnast. Líkast til blandast þetta allt saman hjá venjulegum manni; sitt lítið af hverju en þegar maður fangar augnablikið, smjattar á því og dæsir síðan, þá er maður ríkari. 
    
    Það var eitt augnablik fyrir skömmu að ég fékk senda vísu í tilefni þess að ég velti því fyrir mér að skrifa minningargreinina mína sjálfur. Sá sem sendi mér vísuna sem brátt verður hér á skjá fest, benti mér á að minningargrein er eftirmæli og það sem ég væri að hugsa væri því fyrirmæli. Hún Birgitta á Löngumýri sendi mér þessi frábæru fyrirmæli sem mér er afar ljúft að leyfa lesendum að njóta með mér. Njóta augnabliksins með mér. Ekki er ólíklegt að ég komi til með að rifja þessa vísu upp endrum og eins svona til að minna mig og ykkur á mig en fyrirmælin eru svona:

Fágætur og fyndinn líka,
fyrirmenni í sjón.
Gott ef ættum aðra slíka
eins og þennan Jón.

Hugsið ykkur ef ég hefði fengið senda vísu eða fyrirmæli sem hljómuðu eitthvað á þessa leið:

Önugur og undinn líka,
afleitur í sjón.
Slys ef ættum aðra slíka,
eins og þennan Jón. 

    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvernig mín viðbrögð hefðu orðið. Ég hefði orðið dapur og sagt si svona við sjálfan mig. "Það fór sem mig grunaði að það er engum betur treystandi en mér sjálfum að fjalla um mig sjálfan." En fyrirmælin frá Birgittu lýstu upp heiminn minn um stund og lögðu til eitt augnablik sem ég naut til fulls. Ég er ekki frá því að við gætum gert örlítið meira af því lýsa upp heiminn í kringum okkur og er þá hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann fer að. Einn ágætur maður benti á það fyrir margt löngu þegar á honum dundu leiðinleg fyrirmæli. "Dauðasyndirnar hafa oftast nær verið taldar sjö en áttunda syndin er til og hún er sú að vera leiðinlegur." 
    
    Mig langar bara svona í lokin að birta eina augnabliksmynd sem ég á. Guðmundur nokkur Valtýsson kenndur við Bröttuhlíð varð á vegi mínum fyrir skömmu þá nýkominn úr velheppnuðu söngferðalagi með Bólhlíðingakórnum suður yfir heiðar. Það lá vel á Guðmundi og gaukaði hann að mér vísu sem hann kallaði hakabrag og hafði m.a kynnt fyrir sunnlendingum við góðar undirtektir. Þessi vísa, þessi hakabragur fannst mér skemmtilegur og vel til þess fallinn að fleiri en nú gera, geta tjáð sig í ljóði. En vísan sem Guðmundur fór með fyrir mig er svona: 

Þórunn mín ég þakka þér
fyrir kaffisopann.
Hérna leit hann frændi þinn inn,
rétt að gamni sínu. 

    Núna ratar Rúnar inn um gáttina og í áttina til mín með fyrsta Glugga marsmánuðar. Glugga sem varpar ljósi á atburði komandi daga.http://www.huni.is/files/3/20090303194309382.pdf 
    
    Hún er ansi losandi auglýsinginn frá Blönduósbæ. Ef maður þarf að losa mikið þá er bara að hafa samband við Villa Harðar og það veit ég að ef losað er of mikið á stuttum tíma í of þröngt rými þá er líka haft samband við Villa Harðar. 
    
    Nú er hætt að keppa í tölti og fimmgangi barna og fyrir dyrum stendur stórmót á Svínavatni þar sem gæðingarnir verða teknir til kostanna. 

    Við vorum að velta því fyrir okkur hvort hún væri tilviljun auglýsingin frá Kjalfelli þar sem auglýst er tilboð á vírushreinsun á tölvum sem og uppfærsla . Þetta tilboð kemur á sama tíma og samfylkinginn býður upp á rafrænt prófkjör. Við teljum mjög mikilvægt að hreinsaðir verði sem flestir vírusar úr tölvu netbankastjórans Vignis Einarssonar svo prófkjörið geti farið sem best fram og sem fæstir vírusar komist á þing. 

    Þeir fara öðruvísi að framsóknarmennirnir og ætla að treysta Kára Kára póstmeistara fyrir prófkjörsatvæðum sínum. Í stuttu máli þá gæti Kári Kára verið vírusvörn framsóknar í komandi prófkjöri. 
    
    Stóru-Giljár Elli er engum líkur þegar hann dregur upp mynd af lífi sínu á freðmýrinni. Hér áður fyrr meir var haft á orði: "Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar" en héðan í frá má með töluverðri sanngirni segja. "Nú falla flest vötn til Smárabrautar 10". 

    Það kemur sér vel að hafa frjótækni á næsta bæ. Auðvitað veit Gísli manna best í hvaða stráum kvígukálfarnir eru og smellir þeim í kýrnar á Geithömrum. Er nú svo komið að ekki er pláss fyrir fleiri kvígur í fjósinu svo eina ráðið í stöðunni að auglýsa þær til sölu. 

    Við Rúnar höfðum lagt alveg gríðarlega mikið á okkur til að koma þessu öllu saman í ljóðrænt samhengi en þegar við vorum í þann mund að ná endum saman birtist þá ekki Jóhannes Guðmundsson á Blöndubyggðinni í dyrunum og fékk okkur til að hugsa smá stund um eitthvað allt annað. Reyndar var Rúnar býsna tómur andlega þegar hann kom og skýrist það af erfiðum morgni. Tjáði hann mér að bæði jeppinn og andlegi þátturinn hafi setið fastir í skafli skammt frá Lindarbrekku 1 í morgun og sæti andlegi þátturinn þar enn fastur. Okkur Rúnari er ljúft að geta þess að Sigurjón Guðmundsson löngum kenndur við Fossa kom á ögurstundu neðangreindrar vísu.

Með misjöfnum hætti menn raða á lista.
Margir með tölvu þótt sumir sig signi.
Óþarfi að láta óttan sig hrista,
þú átt bara að fara og kjósa hjá Vigni.
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56586
Samtals gestir: 10450
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 15:15:55