Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Apríl

29.04.2009 15:00

Vorgyðjan og hundalógík

    Miðvikudagur og dagurinn gengur sinn gang kvað skáldið á sínum tíma. Þetta virðist eiga við um þennan miðvikudag líkt og alla hina. Að hafa sinn gang er gangur lífsins og það er töluvert undir manni sjálfum komið hvernig sá gangur verður.
   Í gær byrjuðu þeir Borgarvirkismenn að aka grjóti í sjóvarnargarðinn fyrir neðan Brekkuna. Leið grjótflutningabíla mun eðli málsins samkvæmt liggja fram hjá mér á Aðalgötunni sem og fram hjá þeim heiðurshjónum Siggu Gríms og Eyjólfi á Brimslóðinni. Grjótið sem fer í garðinn er ættað frá Uppsölum og sama gildir um allt það grjót sem liggur í núverandi sjó- og brimvarnagörðum bæjarins. Hvað skildu vera komin mörg tonn af Uppsalalandi til Blönduós í gegnum tíðina.
   Þegar maður fer að hugsa um efnisflutninga hverskonar til Blönduóss fer ekki hjá því að leiða hugann að Torfalæk. Vart er til það græna svæði í bænum að það sé ekki ættað frá Torfalæk. Til að fara ekki út í langa sálma þá nægir að nefna íþróttavöllinn. Það er orðið drjúgt yfirborðið sem Blönduós hefur yfir að ráða sem er ættað úr Húnavatnshreppi hinum nýja. Þessi staðreynd ætti að vera gott innlegg inn í umræðuna um sameiningu sveitarfélagana því ekki geta þeir menn sem byggja Húnavatnshrepp borið fyrir sig að þeir þekkji ekki aðra hverja þúfu og stein í bænum.
   Hundalógík er skemmtileg lógík og þá á ég við hana í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem þekkja til skrifa á þessari síðu þekkja allvel til Nonna hunds og eiginleika hans. Það er annar hundur sem dvelur endrum og eins hér í Aðalgötunni. Hann heitir Fúsi og ég vissi það ekki fyrr en í gær að hann væri elsti hundur landsins. Það sagði Erlendur Magnússon mér að minnsta kosti. 23 ár hefur hann lifað og má glöggt sjá á svip hans að lífið hefur gefið honum reynslu. Ef maður horfir á hann einkum og sér í lagi í augu hans þá fyllist sálin trega og umhyggju. Hann hefur lifað lengur en ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins og segir það sína sögu. Þessi tregasvipur Fúsa hefur ekkert vikið til hliðar þó svo Jóhanna Sigurðardóttir hafi komist til valda. Fúsi og Nonni hundar eiga sitt hundalíf á sínum forsendum og húsbænda sinna líkt og við hin.
   Ég hitti einnig í gær einn aldraðan Blönduósing sem lifað hefur níu tugi ára og rúmlega það. Imma Karls sem fyllti níu áratugina fyrir skömmu varð á vegi mínum og það get ég sagt með sanni að svipurinn á henni var mun djarfari en á Fúsa, það lá vel á Immu. Hún sagði mér að hún hafi gengið í gegn um margt í lífinu en það hefði aldrei náð að leggja þunga á sál né huga. Ég er nokkuð viss um að sá sem varðveitir gleðina í hjarta sínu og kastar jafnóðum út leiðindum úr sálarkistunum, leggur grunn að farælu lífi. Margt getur truflað þetta ferli en þessi grunnur er þess verður að byggja á.
En núna nokkrar myndir úr fortíðinni:


              Hér má sjá mikilvirka athafnamenn fyrir nokkrum árum þá Hjörleif Júlíusson og Vilhjálm Egilsson   Bjarnasonar frá Sauðárkróki




Hér eru á ferðinni merkir kappar úr yngri flokkum knattspyrnudeildar Hvatar. Ég á þarna einn son, Ámundi Grétar, Páll Ingþór Vignir, Gummi Ingþórs og vafalaust fleiri eiga þarna afkvæmi

"Þú markvissi miðvikudagur,
miðlægur, kemur og fer.
Þú máttugi miðvikudagur,
mættur ert hér hjá mér."
   Varð mér á orði þegar þegar ég sá Rúnar koma inn úr sunnan strekkings vindi með Glugga vikunnar í hendi. http://www.huni.is/files/3/20090429000323565.pdf
Nafni Rúnars sá  er á Skagaströnd býr rennir stoðum undir þá margþekktu kenningu í vísu vikunnar að konur og þögn fara ekki saman. "Því gegn því mælir sérhver sögn að saman fari kona og þögn" segir hann og við Rúnar horfumst í augu og lútum höfði.
   Ljón norðursins er vaknað eftir vetur og opnar fyrir gesti og gangandi þann fyrsta maí. Jónas Skafta býður kjarakjör á barnum og svo geta menn (enn og aftur, konur eru líka menn) sungið með undirleik stórsveitar, ekki amalegt það. Það er komið vor, ljónið er vaknað.
   Maggi á Hnjúki ætlar selja hitakútinn sinn. Hann treystir því sem haft var eftir öðrum okkar, sérstaklega mér að vora myndi snemma á Hnjúki en hann er ekki eins viss um að svo muni vera hjá öðrum, sérstaklega sauðfjárbændum þessa lands. Nú er spurningin þessi. Hver mun kalla á kútinn á Hnjúki?
   "Vilja ekki allir eiga flugulaust sumar?" spyr Hjalti meindýraeyðir í Huldugilinu. Við Rúnar erum klárir á því að svo sé ekki. Til að mynda maríuerlan, skógarþrösturinn og hver á að bera frjókornin á milli blóma. Það er ekki einfalt þetta líf.
Auður Andrésar og Arður frá Brautarholti hljóma svo velsældarlega í eyrum. Takið eftir því hvað eitt ell skiptir miklu máli í samhengi hlutanna.
   Auður og Arður eru auglýst í Glugganum og aldrei að vita hverju þau skila í veraldlegu tilliti.
   Vorgyðjan sem Karlakór Reykjavíkur ætlar að koma með norður í 15 gráðu hita úr súldinni fyrir sunnan er á baksíðu Gluggans en Ljón norðursins er á forsíðunni. Þetta eitt kallar á ljóðræn hughrif sem gætu hljómað eitthvað á þessa leið


Hér vorgyðja svífur úr suðrænum geim
og Skaftasons ljónið býður þér heim.
Svo kemur kórinn
strax oní bjórinn
og syngur oss kvæði með glaðbeittum hreim.

22.04.2009 15:10

Slóða- og vísnagerð í vetrarlok

    Síðasti sumardagur er ekki hafður í eins miklum hávegum og síðastidagur vetrar. Og vetradagurinn fyrsti er ekki sá dagur sem skátar arka um víðan völl und blaktandi fánum bláir af kulda líkt og á sumardaginn fyrsta. Hvað skyldi standa í veginum. Hitaveitur hafa fulla ástæðu til að halda upp á þessi tímamót sem og rafveitur, 66 gráður norður sem og félag umfelgunarmanna. Enski boltinn er allan veturinn og veit ég ekki betur en margir hlakki til að fylgjast með honum. Kvenfélög, kórar og ég veit ekki hvað og hvað hefja starfsemi sína af fullu. Jól, áramót og þorrablót eru yfirleitt á vetrum að minnsta kosti hér á norðurhveli jarðar.  Hversvegna er ekki haldið upp á vetrardaginn fyrsta? Spyr sá sem ekki veit en tilefnin eru ærin. Með sumrinu kemur grasvöxtur og maður neyðist til að slá garðinn minnst einu sinni í viku. Ekki er óhætt að fá sér göngutúr á Bakkakotsmelum fyrir hettumávum og kríum sem steypa sér í höfuðið á manni. Það er sem ég segi að jafnræðisreglan er ekki í hávegum höfð hvað varðar sumar og vetur.

    Lífið hér á Aðalgötunni gengur sinn vanagang en það á líklega eftir að breytast töluvert því fyrir dyrum stendur að leggja út heilmikinn sjóvarnargarð fyrir neðan okkur og inn með Brekkunni. Það sást til mælingamanna í morgun sem voru að taka út stöðuna. Við Sigurjón Guðmunds höfðum nokkrar áhyggjur af ástandinu því þverleggja þarf vínflutningabíl Vörumiðlunnar þvert yfir Brimslóðina meðan losun á sér stað.  Þetta leiðir til þess að við stöðvum svona þrisvar í viku, 10 mínútur í senn, grjótflutninga í garðinn góða.
    Talandi um Sigurjón frá Rútsstöðum þá sagði hann mér ágæta sögu af einum ágætum bónda hér í sýslu sem við getum bara kallað Björn jr frá Löngumýri. Þessi Björn er auk þess þekktur fyrir að þekkja vel til skógarbóndans Erlings á Hamri en það er önnur saga. Björn leitaði ekki fyrir svo löngu til dýralæknisins vegna krankleika í smalahundinum sínum. Dýralæknirinn sagði si svona við Björn " Mér sýnist að þú ættir að gefa honum meira". "Ég gef honum hálfan sláturkepp á dag" sagði Björn, svona eins og sá sem örlátur má teljast. " Þú ættir að prufa að gefa honum heilan kepp og sjá hvort hann hressist ekki" sagði dýri. Björn horfði spurnaraugum á dýralækninn og mátti  sjá bregða fyrir örlítilli angist í svip hans þegar hann sagði. "Hvað á ég þá að borða".
  Hér á eftir fylgja nokkrar myndir frá þessum gömlu góðu dögum þegar vinstri grænir, samfylking og útrásarvíkingar voru ekki til og Ísland var ekki orðið "stórasta land í heimi" og öll vitleysan var eins.



     Hér á ferðinni Benni Blöndal að kyssa Umhverfis Kolbrúnu Halldórs og Jón Ingi faðmar Vilborgu Valgarðsdóttur

       Skrifstofutæknar að loknu námskeiði: Núna megið þið glíma við nöfnin



    Birgitta Hrönn og Soffía Jóhannesdóttir skáldkonur

    Rogast nú ekki hann Rúnar blessaður inn úr dyrunum með loforðahlaðinn
Gluggann í farteskinu. Veðrið er litlaust og grátt, aðgerðalítið og maður fær það á tilfinninguna að þetta sé lognið á undan storminum.  http://www.huni.is/files/3/20090422003210218.pdf

    Við Rúnar nennum ekki að fjalla neitt um auglýsingar stjórnmálaflokkana nema þær auglýsingar frá flokkum sem ekki birta auglýsingar í Glugganum. Reyndar ætlum við bara að fjalla um eina auglýsingu sem ekki birtist í Glugganum en það er auglýsingin um flokkinn sem hann Þeysi er í. Reyndar munum við ekki hvaða flokkur það er þannig að við hættum hér með að fjalla um þessa auglýsingu sem ekki birtist.

    Útboð - Slóðagerð! Hvernig býður maður í slóða. Bíður manni við slóða eða bíður maður bara eftir að slóðinn hætti að vera slóði. Reyndar er hér um vegslóða að ræða en slóðaskapur á vegum úti er ekki eftirsóknarverður eða hvað? Þeir eru margir slóðarnir.

    Harmonikkuliðið verður með sitt árlega hagyrðingamót í kvöld. Það er lofað átökum á milli Borgfirðinga, Húnvetninga og Skagfirðinga og svo munu þau Elín og Hermann leika fyrir dansi. Skyldu þetta vera þau Hemmi Ívars og Elín í Sölufélaginu sem leika fyrir dansi. Hemmi gæti líka verið liðtækur í átökum við nærsveitunga því eins og frægt er orðið þá varð hann maður ársins fyrir margt löngu fyrir það að bera fimm manna fjölskyldu á bakinu úr bíl úti í á í land. "Þetta er ekki þau" sagði Rúnar harmonikkuleikari og hagyrðingur.

    Það verða fermingar á Blönduósi um helgina, nánar tiltekið á sunnudaginn, daginn eftir kosningar. Við Rúnar efumst um að umræðuefni skorti og í versta falli geta umræður orðið það heitar að fermingarveislurnar verði með styttra móti en við vonum að  til þess komi ekki.

    Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvað þeir hafi nú gert af sér þeir Maggi sveitó og Dolli því Skagstrendingar ætla að ganga um bæinn og þylja bænir við helstu stofnanir sem þar er að finna.

    Við Rúnar veltum vöngum yfir hver þessi G I G er sem á vísu vikunnar og erum engu vísari annað en það að bláa höndin er honum töm. Hann ætti bara að fara í kaffi til Jónasar Skafta og sjá bláu hendurnar tvær sem prýða veitingasalinn á Ljóni norðursins. Og við vitum  að gæsirnar hans Jónasar eru hvergi smeykar.

Þá er komið að síðasta hnoði vetrarins m.ö.o. ljóðrænt samhengi hlutanna.

Vinstri grænir kinn við kinn
Kommar, framsókn, fylkinginn.
Íhaldsins forherti flokkurinn
Fannst þetta allt í Glugga.
Fátt er oss að hugga,
elsku besti drottinn minn

15.04.2009 14:54

En svo kemur gleðin

    Mig langar að skrifa um gæsirnar, lífið, dauðann og lognið sem umvefur allt í mínu nánasta umhverfi. Mig langar að skrifa um það hvernig við getum leyst öll heimsins vandamál á einni nóttu. Í raun er þetta síðast nefnda auðveldast viðfangs því, ef allir gerðu öðrum það sem þeir vildu að aðrir gerðu þeim þá væru enginn vandamál til. En einhvern veginn klikka menn alltaf á þessu einfalda atriði. Sumir vilja gefa meira en aðrir hafa hreinlega áhuga á að þiggja og svo er það þekkt að sumir hafa einungis áhuga á því að þiggja. Það er með ólíkindum hvernig hægt er að klúðra jafn einföldu atriði og hér að undan er nefnt. Æ! Ég nenni ekki að ergja mig mikið lengur á þessu heldur drífa mig í það að skrifa um grágæsirnar sem komu í stórum hópum til Blönduós um páskana.

    Þessir einkennisfuglar bæjarins eru einstakar skepnur sem hafa svipaðan mátt og veðrið því um þær má alltaf ræða þegar annað umræðuefni þrýtur. Já þær eru núna flestar búnar að skila sér í heimahagana, líka frægasta gæsin SLN sem var merkt á Blönduósi sumarið 2000. Hún er líklega sú síðasta af 120 gæsum sem þá voru merktar með hálsmerki sem en er á lífi. Það skemmtilega við þessa gæs er að hún kemur svo að segja alltaf um 14. apríl ár hvert og það má jafnframt ganga að henni vísri á lóð Héraðshælisins. SLN er kvenfugl og hún hefur ávallt haft með sér karl og ég er nokkuð viss um að hún heldur sig æ við þann sama. Þessi frægasta gæs bæjarins hefur þá eiginleika sem margur mætti vera stoltur af. Í fyrsta lagi þá er hún einbeitt og staðföst og heldur tryggð við sitt umhverfi. Hún er stundvís og öguð og síðast en ekki síst þá elskar hún sinn eiginmann gegn um þykkt og þunnt. Þau hjónin vinna að sínu og hafa það eitt að markmiði að hafa efni á einni utanlandsför á ári fyrir sig og börnin. Öðrum auði safna þau ekki en þau skilja eftir sig áburð sem sumir kalla skít og ómældri ánægju til handa okkur sem þetta samfélag byggjum. Ánægjan getur verið fólgin í því eins og ég kom að áðan að ræða kosti þeirra og galla. Það er stórkostlegur tími þegar fyrstu gæsirnar renna sér með ungahópana út á Blöndu oftast nær í kring um 1. júní og þá er eins og það verði sprenging í náttúrunni. Á örfáum vikum verða ungarnir stórir og sældarlegir og þeir ásamt foreldrum leggja bæjaryfirvöldum lið í að halda niðri grasvexti á grænum svæðum bæjarins. Reyndar bíta þær svolítið gras hjá frístundabændum en það gera þær bara í frístundum. Það er gaman af gæsum og hægt að skrifa um þær langar greinar en læt ég hér staðar numið en áskil mér rétt til að fjalla um þær seinna.

    Maður fæðist og deyr. Tíminn sem maður fær er mislangur og það sem gerist hjá hverjum og einum frá vöggu til grafar er misjafnt og er það jafn breytilegt og mennirnir eru margir. Það sem í rauninni skiptir höfuð máli í lífi hvers manns eru minningarnar sem hann skilur eftir. Í mínum huga skilur minn ágæti félagi Ævar Rögnvaldsson sem lést á föstudaginn langa eftir harða baráttu við krabbamein, eftir sig góðar minningar. Fyrir þær þakka ég og ég bið góðan Guð að styðja og styrkja ættingja og ástvini hans. Guð blessi minningu Ævars Rögnvaldssonar.
 


    Mig langar í framhaldi af þessu að birta hér mynd sem var tekin á uppgangsárum rækjuveiða í Húnaflóa en hún sýnir þá Særúnarfélaga Gunnar heitinn Ólafsson, Kára Snorrason og Ævar Rögnvaldsson á brúarvæng Gissurar hvíta ræða landsins gagn og nauðsynjar.

Hér væri kannski viðeigandi að setja punkt en lífið heldur áfram hvað sem hver segir.


    Nú er Íslandsbanki aftur orðinn Íslandsbanki og því tilvalið að birta þessa mynd. Á myndinni eru Baldur Daníelsson, Svandís Ása Sigurjónsdóttir (takk Auðunn), Eysteinn Pétur Lárusson og Rósa Margrét Sigursteinsdóttir.

    Núna í þessum töluðu orðum kemur Rúnar inn úr dyrunum með Gluggann í báðum höndum svona til þess að forðast pólitískan ágreining því sjáfstæðisflokkur er í bak og vinstri grænir í fyrir á útsíðum Glugga vikunnar. http://www.huni.is/files/3/20090415112444159.pdf

    Vinstri græn (Vg) eru svona kinn við kinn á forsíðunni og Jón Bjarna virkar svolítið feiminn, soldið svona Kári litli í sveitinni. Sjallarnir á baksíðunni standa saman í hóp og undir þeim loforðum sem þau hafa fest á blað. Frambjóðendur Vg eru ekki saman á hópmynd heldur koma þau fyrir hvert fyrir sig. Ef ég vissi ekki betur þá líta Vg út fyrir að vera flokkur sem byggir á einkaframtakinu en sjálfstæðisflokkurinn lítur út eins og heilagur alþýðuflokkur.

    Enn og aftur ætlar Maggi á Hnjúki að þeytast með kúabændur í héraðinu út um gráa grundu. Ætlunin er að borða skyr á Akureyri og ís í fjósi á Holtseli. En það skemmtilega við þetta, að þegar við Rúnar vorum að fara yfir Magnúsar þátt á Hnjúki birtist þá kappinn ekki í eigin persónu í gættinni. En svo skelfingu var hann lostinn þegar hann sá okkur og hvað við vorum að bralla að við sáum undir iljarnar á honum út um dyrnar því hann vildi í Guðs almátugustu bænum komast hjá frekari umfjöllunn.

    Gluggamenn hafa loksins áttað sig á því að það eru tvö GÉ í glugga út á hlið.

    Ekki er að spyrja að samfylkingarfólkinu , það er með velferðarbrú í smíðum. Við Rúnar vitum um aðra velferðarbrú (gamla Blöndubrúin) sem var smíðum fyrir svo ofsalega löngu og liggur nú gagnslaus upp í krús. Væri ekki tilvalið að dusta rykið af þessari brú áður en ráðist er í brúarsmíði fyrir Jóhönnu Sig.

    Jón Bjarna og félagar ætla að opna kosningaskrifstofu í gömlu skrifstofu kaupfélagsins. Þarna getur nafni teygað að sér gamla samvinnuloftið og rifjað upp gamla daga.

    Söngur um sumarmál, hagyrðingamót hjá harmonikkuliðinu og kosningar standa fyrir dyrum, þess ber Glugginn merki og ekki má gleyma því að hún Imma blessunin Karls verður 90 ára á morgun. Við Rúnar viljum nota tækifærið og sendum henni okkar bestu óskir.

    Við Rúnar lögðumst í djúpar pælingar hvernig við ættum að ljúka þessum pistli og duttum strax niður á hvellibjölluna, Magga á Hnjúki. Ætlunin var að kvelja hann ögn svona eins og hann ætti skilið en það var sama hvað við reyndum. Það var líkt og yfir honum vektu helgar vættir því allur óhróður vað að blessunar- og blíðuorðum um þennan mann og þess vegna sitjum við uppi með þetta:

Stundum er samtíðin litlaus og grá
stútfullur hausinn af fortíðar þrá.
En svo kemur gleðin,
alls óumbeðin
er Hnjúksbóndinn einbeittur skaust okkur frá.

08.04.2009 14:59

Í peysufötum undir hrjúfu yfirborði

    Ég held að við íslendingar séum vorsins börn í hjartanu. Að minnsta kosti er ég það og ég byrja alltaf að hlakka til vorsins um leið og síðasta haustlaufið fellur til jarðar. Veturinn líður og veður misjöfn eins og gengur og einhvern veginn lætur maður það sig litlu skipta nema maður þurfi að ferðast milli landshluta eða veit af einhverjum nákomnum á ferðinni. Vetrasólstöðum fagnað þegar sólin fer að hækka á ný. Vorjafndægrum fagnað þegar dagur og nótt eru jafn löng. Maður finnur sér allt sem er í boði til að færa vorið nær í tíma.  Svo kemur vorið sem búið er að bíða svo lengi eftir. Þá koma fram á sviðið ýmis tilbrigði í veðrinu sem skella á sálartetrinu sem bæði gleðja og hryggja. Ef eitthvað hik kemur  á vorið fer maður að agnúast út í það og hefur uppi ýmis orð sem hæfa hverju sinni. Svona líður vorið; ekki svona með reglulegri stigvaxandi hitastigshækkun heldur í rikkjum og skrikkjum allt eftir því hvort hæð eða lægð er yfir hennar hátign Betu og Pusa í bretaveldi. En vorið kemur en maður er bara ekki alveg viss hvaða dag það byrjar og hvaða dag sumarið tekur við. Og svo er eitt sem ekki bregst en það er að maður gleymir alltaf Húnaflóaþokunni allan veturinn þangað til hún birtist allt í einu bara si svona.
    Í dag eru nákvæmlega liðin 3 ár síðan mitt litla hjarta fór á yfirsnúning. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá fór hjartslátturinn í 240 slög á mínútu og engin teikn um að hann færi að hægja á sér. Eðli málsins samkvæmt var ég tekinn úr umferð og fékk að kynnast áhrifum rafmagnsins til annara nota en ál- og ljós framleiðslu. Í stuttu máli fékk ég stuð og er það mesta stuð sem ég hef lent í á allri minni margslungnu ævi. Enn man ég höggið, skerandi ópið, og brunalyktina af sviðnuðum bringuhárum og fólkið sem var í kringum mig á þessu augnabliki. Líkast til hefur þetta stuð lífs míns verið stuð lífs míns því án þess væri ég ekki að velta vöngum yfir þessu. Þetta stuð hefur dugað í þrjú ár. Takk fyrir það.



    Þær eru oft sniðugar tilviljanirnar. Svona blasti minn ágæti vinur Jón Bjarnason þingmaður við mér þegar ég tók póstinn upp af flísalögðu forstofugólfinu, heima um daginn. "Kallin með hattinn borgar ekki skattinn því hann á ekki aur" datt mér í hug en varð svo eina auknabliksstund hugsað til alvörunnar því þessi kall ætlar ásamt félögum sínum að leggja á skatt komist hann til valda. Glöggir samfélagsrýnar sem þekkja pólitíska litrófið ofan í kjölinn segja að Jón Bjarnason sé sósíaldemókratískur framsóknar kommi en þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti.
 
    Ekki gengur að vera bara með kosningamyndir af vinstri grænum, maður verður að gæta "hlutleysis" og læt því fylgja með eina mynd af þeim félögum Erlendi G. Eysteinssyni og Ófeigi Gestssyni syngja sjálfstæðismönnum baráttuanda í brjóst fyrir all nokkrum árum. Þessi söngur dugði vel í þrjá þingmenn.
    Einn ágætur félagi minn sagði á dögunum eftir að ég datt inn á félagslegu samskiptasíðuna Facebook. "Ég vissi það alltaf að þú værir í peysufötum undir þínu hrjúfa yfirborði." Af því tilfelli þá er tilvalið að birta hér mynd af minni ágætu vinkonu,  konu sem vinnur í sama húsi og ég, Helgu Jónínu Andrésdóttur.


    Myndin heitir "fjallkonan handtekin" og sýnir Helgu Jónínu í fylgd Kristjáns Þorbjörssonar og ? á góðum þjóðhátíðardegi sem haldinn var hátíðlegur í Fagrahvammi fyrir margt löngu.
Svo svona í blálokin áður en sá sem eflir með mér andann í ríkinu kemur með Gluggann er rétt að birta mynd af knattspyrnuliði Hvatar þegar það var að mestu skipað heimamönnum og gerði jafnframt  garðinn frægann. Ég læt ykkur eftir að koma með nöfn á þessa kappa.

Kristinn Guðmundsson í Staðarskála sendi upplýsingar um þessa mynd:    Þeir sem eru á myndinni eru í aftari röð frá vinstri: Garðar Jónsson þjálfari og leikmaður, Ásgeir Valgeirs, Hrafn Valgeirs, Stefán Logi Haraldsson, Kristinn Guðmundsson, Baldur Reynis, Guðmundur Sveinsson og Ásmundur Vilhelmsson. Neðri röð frá vinstri; Sigurður Davíðsson, Hörður Sigurðsson, Valgeir Baldursson, Hermann Arason,Haraldur Jónsson (frá Borgarnesi), Auðunn Sigurðsson og Hermann Baldursson. 
 
Þrútið er loft og þungur sjór þegar Rúnar kom inn með Gluggann í hægri hendi með þumalinn á páskatónleikunum og hina fingurna á frambjóðendum sjálfstæðisflokksins. http://www.huni.is/files/3/20090408103245475.pdf
    Í kjölfar Rúnars kom lífskúnstnerinn Jónas Skaftason  og hafði yfir gamla kviðlinga sem ekki verða hér færðir til bókar en Rúnari varð á orði:

Af gömlum bæði og góðum sið
við göngum oss til bóta.
Um Jónas síðan yrkjum við
eina vísu ljóta.
    
    Jónas varð eins og þrútið loftið sem fylgdi Rúnari inn úr dyrunum eftir að hafa hlýtt á þetta og fannst lítið fara fyrir lýðræðinu þegar við vorum ekki tilbúnir að birta gömul ljóð eftir Jónas.
    Páskatónleikar! Rúnar mun að eigin sögn leika andskotann í þessu verki og bíð ég spenntur eftir því að sjá hann veifa halanum og sletta úr klaufunum og setja hornin í menn.
    Domusgengið hefur bjargfasta trú á því að verðbólgan sé á niðurleið og úr fari að rætast í fasteignaviðskiptum. Það vonum við svo sannarlega svo Magnús geti farið að snúa sér að einhverju öðru en yrkja um konur á Blönduósi og Bessastöðum.
    Messur og tónleikar eru fyrirferðarmiklir í Glugga vikunnar enda eru að koma páskar .
    Rúnar á Skagaströnd yrkir um að bjartsýn hugsun eigi að losa um málbeinið á konum sýslunnar eftir tveggja vikna þagnarákall Magnúsar Ólafs til þeirra.
    "Hvað er þetta! Ætlar þú ekki á fundinn í kvöld" sagði Jónas Skafta við mig þegar hann sá Gluggann. "Það fær ekki nokkur skapaður hlutur hreyft mig frá skjánum í kvöld" sagði ég " því ég ætla að horfa á leik Liverpool og Tjélsí" Fundurinn sem Jónas átti við var fundur með sjálfstæðismönnum við opnun kosningaskrifstofu miðvikudaginn eftir viku. Ég benti honum á þetta. 
    Núna í þessum töluðu orðum kemur klósettepappírsalinn Vignir Björnsson frá Hvöt með blóm í fötu og hyggst hann selja þetta viðskiptavinum vínbúðarinnar sem og viðskiptavinum TM þessi gulu fötublóm. 
    Við ræddum lítillega um þær vörur sem Hvöt hefur til sölu og kom þar m.a. fram að klósettpappírinn væri misjafn að gæðum. Vignir sagði að hann hefði ekki getað hugsað sér að bregða gæðaminni pappaírnum að sínum úrgangs-enda og því varð Rúnari þetta að orði:

Vignir segir margt við mig
Sem ekki er illa meint
Með gömlum Gluggum getur sig
Gaurinn sjaldan skeint.

Það skal tekið fram að Hvöt hefur hætt sölu á klósettpappír sem Vignir getur ekki notað.
    
    Nú er komið að hinni angurværu og ljóðrænu úttekt á atburðum vikunnar. Með öðrum orðum smyrjum við sálarlími á hlutina svo þeir megi betur festast í sinni.

Um Jesú er ætlun að syngja
og eflaust gera menn meira.
Eggjum og öðru svo kyngja
og aðrir fara út að keyra.





01.04.2009 14:47

Betra að konur þegi?

    Í dag er 1. apríl um land allt eins og einn ágætur Hafnafjarðarkrati sagði á sínum tíma svo það sé nú á hreinu í þessu upphafi. Og í dag söng skógarþrösturinn í Árbrautinni fyrir okkur degi seinna en hann á venju til.

    Það er langt síðan ég hef fengið fyrirmæli frá öðrum en sjálfum mér. En eins og allir vita þá eru fyrirmæli hinn endinn á eftirmælum. Síðustu fyrimælin sem ég geymi í brjósti mér og fer með yfir um leið og ég nudda úr mér stírurnar fyrir framan spegil morgun hvern, hljóða svona í Birgittu nafni :

Fágætur og fyndinn líka,
fyrirmenni í sjón.
Gott ef ættum aðra slíka
eins og þennan Jón.

    Jæja nú get ég arkað fram minn veg þennan daginn nokkuð sáttur við lífið og tilveruna.

    Meðan ég man þá var ég lítið var við hann nafna minn hund á efri hæðinni á Aðalgötunni í síðustu viku. Það settist örlítill uggur að í sálinni þegar ég, að minnsta kosti í tvo daga heyrði ekki boffs í nafna. Hann svaraði ekki einu sinni kalli bakarahundsins á Brekkunni og Stefán var aldeilis einn á ferð. Þessi tilfinning var eins og bæjarlækurinn hefði þagnað skyndilega, væri hættur að renna og maður vaknaði upp við þessa skyndilegu þögn. Þessari nagandi óvissu var eytt í gær þegar ég mætti þeim Stefáni og Jóni hundi á göngu. Jón hundur fagnaði mér eins og honum einum er lagið. Reis upp á afturfæturna og viðhafði sjálfsögð kurteisishljóð. Mér fannst hann hress og nokkuð líkur sjálfum sér en þegar Stefán var búinn að fá lánaða hjá mér skófluna og kústinn sagði hann mér í óspurðum fréttum að Jón hundur hefði verið lasinn að undanförnu en sé nú allur að koma til. Sem sagt Jón Sigurðsson hundur hefur verið lasinn og það skýrir þessi rólegheit á hæðinni fyrir ofan mig í vinnunni undanfarna daga.

    En það eru ekki nein lognmolla að öðru leyti í Aðalgötunni því verið er að breyta Sæmundsenhúsinu í lúxusvillu. Samkvæmt áræðanlegum heimildum er verið að setja upp billiardstofu og saunabað í kjallara og lúxusíbúðir á hæðum þar fyrir ofan.

    Einnig hefur heyrst að búið sé að ráða mann til að stýra hótelinu og mun sá maður bera sama nafn og fyrri hótelstjóri en föðurnafnið er annað samkvæmt sömu heimild.

    Og ekki eru allar sögur enn sagðar úr Aðalgötunni því heimildir segja að Lárus Krákur ætli að fara að leggja í og það í Krútt bakaríi. Lárus ætlar ekkert að fara á bak við Bjarna sýslumann því ölið í krúsum Kráksins verður allt blessað af þar til bærum yfirvöldum og því öruggt að Sigmundur Davíð veit hvar hann getur keypt ölið. Þetta er allt saman grá upplagt því þegar ölið er á kútunum klárt þá er bara að trilla því yfir og fá frú Margréti til að selja  það í Vínbúðinni. Heimildarmaður minn í þessu máli tók það reyndar fram að timburmenn koma a.m.k. við sögu í nýjum verkefnum á Aðalgötu 9.

    Ég ætlaði að segja frá því þegar við Árbakkabræður vorum truflaðir af Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins í nýliðnum mánudagshádegisverði Árbakkabræðra á Pottinum og pönnunni. Lúðan var góð en við einhvernveginn gátum ekkert rætt um lífið og tilveruna því orðið "Við framsóknarmenn" barst okkur stöðugt með digrum karlaróm yfir matarborðið. Á næstu borðum mátti sjá menn (konur eru líka menn) sem létu sér þetta vel líka og sötruðu súpuna sína sælir og glaðir undir verndarvæng flokksformannsins. Þegar við Árbakkabræður báðum um 20% flatan niðurskurð á reikningum fyrir lúðunni vegna áðurgreindra ástæðna, fengum við það svar að það væru ekki margir sem fengju það tækifæri að sjá alla framsóknarmenn í sýslunni samankomna á einum stað. "Nokkuð til í þessu" sögðum við, greiddum uppsett verð og gengum út, reynslunni ríkari.

    Svona rétt áður en Rúnar kemur er rétt að smella inn einni eða tveimur augnabliksmyndum úr fortíðinni


Jón Jóhannsson kenndur við Beinakeldu

Friðgeir Halldórsson  (takk Aðalbjörg), Sunna Gests, Palli Svavars, Lárus B. Jóns, Hafsteinn Pétursson og Gunna Blö

    Núna líður Rúnar inn úr vorblíðunni með Glugga vikunnar í hendi.http://www.huni.is/files/3/20090401195853572.pdf

    Við veltum því fyrir okkur við Rúnar hvers vegna vísa vikunnar eru sú sama og síðast. Eitthvað virðist mönnum brýnt að konur hafi hljótt þessa dagana því enn og aftur er bent á þá vafasömu staðreynd að betra sé að konur þegi. Er ekki allt í lagi heima hjá þessum mönnum sem standa að þessum gjörningi.

    Pöbb kvissið verður í kvöld á Pottinum. Það vekur athygli að spyrlar að þessu sinni verða þeir Ágúst Þór og Auðunn Steinn. Þessir kumpánar hafa mætt á hvert einasta pöbba kviss í vetur og aldrei náð að bera sigur úr býtum. Nú hafa þeir verið fengnir til að búa sjálfir til spurningarnar svo þær ættu einhverja möguleika á sigri.

    Listi framtíðar boðar til fundar á Húnavöllum. Líkast til verður þar rætt um sameiningu sveitarfélaga, fjallskilamál og önnur framtíðarmál.

    Glugginn er svona á heildina litið, lítið auglýsingablað í A5 broti sem segir frá ýmsu sem gagnlegt er að vita en ekki mikið meira en það. Engin meiri háttar afglöp er þar að finna sem hægt er að nærast á og snúa út úr nema vísan hans Magga frá Sveinsstöðum.

    Nú er bara eftir að varpa ljóðrænum helgiblæ á þessar hugleiðingar svo einfaldleikinn fái notið sín á notalegan og mannlegan hátt:

  



Frá Sveinstöðum sagður er Mangi.
Þessi sótrauði fasteigna prangi.
Segir konum að þegja
sem satt best að segja
þrá allar að sjá að hann hangi. (á afturfótunum auðvitað)

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 826
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 63103
Samtals gestir: 11244
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 17:56:30