Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Júlí

29.07.2009 14:47

Það er spurning hver dregur mann upp úr skítnum

    Það er svo margt sem við mennirnir þurfum að glíma við dag hvern og þá á ég við að konur eru líka menn. Þegar við vöknum eftir misjafna drauma eða draumlausa nótt blasir hversdagsleikinn við. Þetta er staðreynd sem ekki verður umflúin. Það sem gerir hverdagleikann svo merkilegan er að hann er ekki eins hjá öllum , en hversdagsleiki engu að síður nema menn bryddi upp á einhverju nýju hvern einasta dag en svoleiðsis fólk þekki ég ekki. Þeir siðir sem menn temja sér dag hvern miðast í flestum tilfellum að þörfum hvers og eins og mótast af reynslu genginna ára. Þeir einstaklingar sem spranga um veröldina og halda það að heimurinn lagi sig að þeim vaða villu og svíma og mega þakka fyrir að sleppa óskaddaðir frá hversdagsleikanum.

    Mig langar að segja ykkur smá sögu sem undirstrikar þetta sem ég er að segja og varpar skýru ljósi á það að fari menn ekki eftir gangi himintunglana, hitanum frá eldinum og umhverfi sínu þá getur farið illa.

    Heiðlóa ein sem hafði þvælst í mörg ár fram og til baka vor og haust til landsins í misjöfnum veðrum og árum, ákvað það að vera um kyrrt á landinu þegar aðrar lóur tóku sig upp og flugu suður á bóginn. Hún sagði við sjálfa sig að þetta hlyti að blessast því vetur á Íslandi væru ekki svo slæmir. Þetta gekk ágætlega fram eftir hausti því tíðarfar var gott. En svo kom fyrsta alvöru hausthretið og lóu litlu varð kalt og lítið var til að borða. "Æi" hugsaði hún með sér. " Mér hefði kannski verið nær að fylgja ættingjum mínum suður á bóginn fyrr í haust. Það er ef til vill ekki orðið of seint" hugsaði hún með sér og hóf sig til flugs af túninu við Hérðashælið. Hún var ekki búinn að fljúga lengi þegar ísing gerði vart við sig á vængjum hennar og hún varð að nauðlenda á túninu í Sauðanesi. Það varð henni til happs að Palli var enn með kýrnar í fóðurkálinu og lóan lenti rétt hjá þeim. Huppa gamla jórtraði spekinglega lyfti hala og skeit á umkomulausa lóuna sem var beint fyrir aftan hana. Eins og gefur að skilja þá hlýnaði lóunni skyndilega við þessa himnasendingu og hóf hún upp söng mikin " dýrðin, dýrðin, dýrðin" söng hún hástöfum. Þessi óvænti gleðisöngur lóunnar barst Brandi, ketti Páls í Sauðanesi til eyrna og var hann satt best segja undrandi í fyrstu, því hann hafði ekki heyrt lóusöng í langan tíma eins og gefur að skilja. Brandur gerði meira heldur en að sperra eyrun því hann lagði leið sína suður fyrir fjós og fór að huga að því af hvaða toga þessi söngur væri. Ekki var hann lengi búinn að ganga þegar hann kom að lóunni fastri í kúadellunni. Það verður bara að segjast eins og er að þau urðu bæði mjög hissa á því að sjá hvort annað og Brandur gerði það sem hann kann best í samskiptum við fugla. Hann dró lóuna þar sem hún sat föst upp úr skítnum og gerði sér hana að góðu.

    Þessi saga kennir okkur það í fyrsta lagi að hlutirnir lúta ákveðnum lögmálum og það þýðir ekkert að berja höfðinu við stein gagnvart staðreyndum lífsins. Lóur fara suður á bóginn á haustin. Í öðru lagi segir þessi saga okkur það að vera ekki að blása það út um allt þó manni líði vel og hafi það gott um stundarsakir heldur lifa lífinu sáttur og af hógværð því ýmsir sem þú kærir þig ekki um geta heyrt í þér. Ennfremur er það nokkuð ljóst að það eru ekki alltaf óvinir þínir sem skíta þig út. Og síðast en ekki síst á eru það ekki endilega vinir þínir sem draga þig upp úr skítnum og koma þér til hjálpar þegar mest á reynir. Svo mörg voru þau orð.

    Hér við Aðalgötuna gengur lífið eins og venjulega sinn vanagang. Nonni dregur Stebba, hótelið blómstrar, Ívar Snorri dregur líkt og Sighvatur, 3 þorska úr hafi hverja nótt og svo mætti lengi telja.


            Þriggja þorska útgerðamaðurinn Ívar Snorri

    Jónas Skafta hefur ekki verið nú um nokkra hríð til staðar til að hella upp á kaffi á Ljóninu því hann er að þvælast um landið með föngulegan finnskum konum sem eru á ábyrgð  Magnúsar frá Sveinsstöðum. Heyrst hefur að þeir kapparnir séu nú komnir upp á lag með að yrkja á finnsku, að minnsta kosti segja þeir sjálfir frá því að konurnar hefðu gert góðan róm að kveðskap þeirra. Norðanáttin er eins og annað hér á Vesturbakkanum söm við sig og fuglarnir sem komu í vor eru búnir að koma ungum á legg og eru að þjálfa þá fyrir framtíðina. (Vona bara að einhver lesi þetta fyrir lóurnar).

    Þegar ég renni svona yfir það í huganum þá man ég eftir því að hafa skrifað á sínum tíma um gæsirnar sem gleymdu sér eitt haustið fyrir margt löngu á túninu við Héraðshælið. Ingvi Þór veiddi þær nær dauða en lífi (þ.e. gæsirnar) í sparijakkann sinn sem Sigga Baldurs eyddi síðan þremur dögum í að þrífa og kom þeim í fóstur fram á Kleifum. Um þessa uppákomu gæsanna skrifaði ég í Morgunblaðið frétt undir fyrirsögninni "gæsirnar sem gleymdu sér". Hjálmar Freysteinsson hagyrðingur orti um þennan atburð:

Til suðrænu landanna flestar þær fljúga/ þótt förin sé torsótt og erfið./ En sumar í einlægni og barnaskap trúa/ á íslenska heilbrigðiskerfið.

Það sem ég sagt vildi hafa í stuttu máli er ekki flóknara en þetta:

Á lífsins bók er leikur einn að læra,
þú leggur hana á minnið eftir vild.
En til að þrauka fórnir þarf að færa
og ferðalagið verður eintóm snilld.

 

22.07.2009 13:39

Norðanáttin kemur alltaf úr sömu átt

    Nú verður lítið fært í letur því orka undirritaðs hefur öll farið í Húnavökumyndir og þið sem kíkið hér inn getið skroppið á myndasíðuna og rennt augum yfir myndir frá hátíðinni.


Undirritaður á heimleið eftir velheppnaða kvöldvöku og því tilvalið að birta hér textann og hljómana við lag Birgis Marinóssonar "Á heimleið"
C
                        G7
Lýsa geislar um grundir, glóir engi og tún.
                       C
Unir bærinn sér undir, ægifagurri brún.
                C7    F              Fm
Þar ég ungur að árum, átti gleðinnar spor.
C
Hljóp um hagana, heilu dagana,
G7                   C    C7
bjart er bernskunnar vor. 

    Það er allt með kyrrum kjörum á Vesturbakkanum, jafnvel svo kyrrum að ég hef ekki séð Nonna hund í nokkra daga. Sólin skín og norðanáttin kemur alltaf úr sömu megin átt nema nú spá þeir að norðanáttin verði naprari næstu daga.

    En hvað sem öðru líður þá ætla ég að gera það sem ég hef lofað sjálfum mér en það er að berja sama vísu hvað sem það kostar.

            Ég er víst talin síðasta sort
            og sökum þess verður víst lítið ort.
            Fyrst mun ég sitja við skjáinn
            og storma svo beint út í bláinn.

15.07.2009 13:25

Kartöflur í annað kerið og gulrætur í hitt

    Ég er kominn með nýtt þak yfir höfuðið án þess að fara nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ágætis byrjun á pistli sem ég veit ekkert hvaða stefnu tekur en ég er lagður á stað.

    Eitt hef ég ákveðið en það er að hafa þessi skrif svona í styttra lagi bæði ykkar og þá sérstaklega mín vegna. Ástæðan er einföld því ég veit ekkert hvað ég á að segja. Auðvitað hvílir margt og mikið á mér en það er bara þess eðlis að það væri að bera í bakkafullann lækinn. Icesave og ESB er svo margþvælt og allir orðnir skemmdir á sálinni út af þessu öllu saman og eins er að ég hef lofað að ræða ekki þessi mál á þessari síðu og eru þau hér með úr sögunni.

    Meðan ég man þá lenti ég á spjalli við hann Mumma meiriháttar um daginn en sumir kjósa að kalla hann meinhorn en hann er bara svona venjulegur Haraldsson. Við fórum að ræða nýju tröppurnar við Grunnskólann og kerin sem eru sitt hvoru megin við þær. Mummi var með það á hreinu hvað ætti að setja í kerin og sagði hann mér orðrétt á íslensku hvað hann sagði við skóla- og bæjaryfirvöld um þessi mál. "Þið eigið að hætta þessu helvítis væli alltaf hreint! Þið setjið kartöflur í annað kerið og gulrætur í hitt og nýtið uppskeruna í skólamötuneytið". Mummi kann svörin og hvernig best er að koma þeim á framfæri. Til að taka af allan vafa þá er þessi Mummi ekkert hættulegur og ef hann væri hestur þá væri hann barnahestur.

    Úr gamla bænum er allt gott að frétta. Jói Sauður (frá Sauðanesi) og Sölufélags Siggi reyna hvað þeir geta að ná tröppunum á Aðalgötu 11 niður á jörðina. En eins og þeir vita sem fylgst hafa með þessum skrifum gegn um tíðina þá þá nær stiginn sem settur var á norður hliðina ekki alveg niður á jörð.

    Svo er líka mjög ánægjulegt að segja frá því að töluvert er um að vera á hótelinu og er það skemmtileg breyting á sögu þessa mikilvæga húss frá því hvernig hún var að skrifast nokkur undangengin ár.

    Gæsirnar dafna vel. Það er með hreinum ólíkindum hvað litlu sætu gæsarungarnir verða fljótt stórir og ekki eins sætir. Núna eru þeir farnir að kjaga um tjaldvæðið hans Jónasar líkt og foreldrarnir en það er svo stutt síðan þeir trítluðu um saklausir og auðgleypanlegir.

    Af þeim Jóni Sigurðssyni hundi og Stefáni er frekar lítið að frétta. Það er rétt að maður sjái þá skjótast hjá. Mér finnst Nonni hundur hafa mannast svo mikið síðustu misserin. Hann er nánast hættur að gelta og mér sýnist hann láta betur að stjórn. Þetta leiðir hugann að manni sjálfum, maður er ekki ungur að eilífu og tekur sönsum með tímanum a.m.k. finnst mér það.

    Ég er farinn að stilla kassagítarinn minn sem ég keypti á Spáni fyrir nokkrum árum svo ég verði samhljóma hinum kassagítarleikurnum á Bakkagleðinni á laugardagskvöldið. Ég er búinn að renna yfir lögin og hljómana einu sinni og búinn að gera mér grein fyrir því hvenær ég á ekki að slá á strengina á gítarnum. Assskoti væri nú gaman ef svona 50 lútuleikarar mættu á svæðið og harmoneruðu í húnvetnskri hamingju, Herranum og héraði til heilla. Þið hafið vonandi tekið eftir að þetta var ofstuðlað en hver er þess megnugur að segja að eitthvað sé of eða van nema sá sem það segir.

    Ég lofaði að hafa þessi skrif stutt í dag enda ekki frá mörgu að segja. Mig vantar alveg upplýsingar frá Skógarbóndanum um nágrana hans. Það er enginn Gluggi til að kveikja upp í skepnunni sem í manni býr og Rúnar lætur ekki sjá sig. Svona er lífið á Aðalgötunni í dag, hvorki né og annaðhvort eða nú eða bara, ég veit ekki hvað.

    Ég veit ekki hvað fékk mig til að sjóða saman neðangreinda limru. Það gæti verið gleðin í brjósti mínu og hin óhefta hugsun um frjómátt sumarsins. En fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Gísli sá sem nefndur er til sögu í vísu, frjótæknir í héraðinu og má með réttu kallast holdgervingur frjómáttarins og því tilvalinn í þessa samsuðu.

Kát bakvið skýin er sólin,
Skjalda er mætt uppá hólinn.
Þá dregur hann frá,
Börnin mín smá
Svo kemur hann Gísli með tólin.

11.07.2009 17:16

Hún á afmæli hún mamma........

    Hún móðir mín Ásta Jónsdóttir á afmæli í dag. Hún er búin að lifa 93 ár og þekkir tímanna tvenna. Í dag er þessi gamla kona sem hefur skilað 5 börnum í heiminn til heimilis að Sóltúni í Reykjavík. Undanfarin ár hefur Alzheimer sjúkdómurinn verið að yfirtaka líf hennar og í dag þekkir hún ekki lengur börnin sín en hún veit að þau eru til. Það er í sjálfu sér ekkert erfitt að eiga móður sem þekkir mann ekki þegar maður veit að henni líður vel. Hún er glaðsinna, jákvæð og ekki bitur út einn né neinn nema þá helst þann sem stjórnar því hver er kallaður til starfa í himnaríki. Hún segir alltaf að það sé ekki enn pláss fyrir hana í himnaríki og hún segir enn að ég sé fallegur maður og spyr mig hvort ég þekki ekki hann Nonna sinn þegar ég kem til hennar og segi að ég eigi heima á Blönduósi.
     Þessi kona sem alltaf var heima og til staðar þegar ég var að alast upp, tilbúinn að leysa öll heimsins vandamál ungs manns er farin að lýjast en minningarnar yfirgnæfa allt. 
    Móðir mín býr í sínum eigin heimi í Sóltúni þar sem vel er um hana hugsað og  hún er jákvæð í sinni. Fyrir þetta þakka ég um leið og flyt henni afmæliskveðjur frá okkur sem elska hana hér frá Blönduósi. Jafnframt þakka ég öllum sem nær henni búa og sinna henni af kostgæfni nær daglega kærlega fyrir ástúð og skyldurækni. Þetta fólk gerir svo ótrúlega mikið fyrir mig og mína sem svo fjarri búa. Þau létta á samvisku minni og gera líf mömmu bærilegra.


Nöfnurnar Jónsdætur á 90 ára afmæli mömmu

08.07.2009 11:16

Af kjóum, kríum og hlaupara

    Fyrir utan gluggann minn hafa undanfarna daga sveimað ungmenni með ýmis verkfæri til að vinna á fíflum og öðru illgresi. Það er gaman að fylgjast með þessu unga fólki. Það hangir ekki fram á hrífusköftin eða hangir í gemsunum. Þetta unga fólk sinnir sínu hlutverki af kostgæfni og alúð. Þegar ég horfi á þetta fallega dugmikla fólk sem á að erfa landið þá fer um mig ónota hrollur því, ...... já því þau þurfa ef allt fer á versta veg að borga skuldir örfárra óreiðumanna. Mikið déskoti er erfitt að tæma hugann af þessu leiðinda máli sem hangir yfir þjóðininni. Þetta er mara sem svo auðveldlega verður ekki flúinn en ég hef lofað mér því að flækja ekki þessum andskota mikið inn á mína síðu. Það eru nógu margir sem skrifa út og suður um þetta allt saman og enn fleiri sem tala í sömu áttir.

    Aftur að krökkunum og afrekum þeirra. Þau eru búinn að slá Sýslumannsbrekkuna, gömlu kirkjulóðina og fíflabeðið fyrir utan hjá Siggu Gríms. Þau eru búin að uppræta alla spillingu sem er að finna milli kantasteina og gangstéttar í gamla bænum. Geri aðrir betur.

    Það eru litlar fréttir af skúramálum og svo er eins og ég sjá minna og minna af nafna mínum Jón Sigurðssyni hundi. Ekki veit ég hvað veldur en það gæti verið að hann sé orðin prúðari í allri framkomu eftir að hann hitti forkunarfagra og velættaða hefðartík fyrir utan hótelið um helgina.



    Baráttan fyrir tilverunni er óvægin úti í hinni óspilltu náttúru þar sem lög og reglur samfélagsins hafa engin áhrif. Kjóinn hagar sér eins og versti útrásarvíkingur. Hann stelur síli af kríunni sem hefur haft fyrir að veiða það til þess að bera það í svanga unga sem heima bíða í hreiðri.. Í fyrstu lítur þetta út fyrir að þarna sé rænt frá hinum vinnandi stéttum, því getur kjóinn ekki bara veitt sjálfur alveg eins og krían? En munurinn á kjóanum og útrásarvíkingnum er sá að kjóinn kemur hreint fram og liggur fyrir hvað hann ætlar að gera. Afleiðingarnar koma strax fram en ekki löngu seinna og með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Á meðan ein kría er rænd þá eru margar aðrar að veiðum með ágætum árangri. Svo er ekki hægt að segja að kjóinn hafi ekkert fyrir hlutunum því flughæfni hans og kríunnar er með hreinum ólíkindum. Þetta heitir sérhæfing en ekki er því að neita að manni finnst samt hegðun kjóans svolítið fantaleg og ósanngjörn en svona er lífið í hinni frjálsu náttúru.

    Ég hitti rétt áðan einn gamlan skólabróðir frá Hvanneyri en hann er á hlaupum frá Reykjavík til Akureyrar. Tilgangurinn með hlaupinu er að styðja við bakið á Grensásdeildinni sem og að minnast Jóns H Sigurðssonar frá Úthlíð. Það var gaman að hitta Gulla og tjáði hann mér að hann hefði meðal annars rekist á Steina á Reykjum í Hrútafirði og sagði Gulli að Steini hefði verið kátur.


Gulli djéskoti flottur fyrir utan kirkjuna á Blönduósi. Það er hvergi fitututlu á honum að finna enda hleypur hann og hleypur. Það hefur eitthvað hlaupið í hann.

    Hvernig væri að skella í eina vísu þó ekki væri nema til að gera eitthvað sem fær mann til að gleyma hversdags dægurþrasi.

Sólin skín á lofti hátt
syngja fuglar títt og dátt.
virðum bæði stórt sem smátt
í sálarkytru verður kátt.

05.07.2009 20:38

Síðasta merkta gæsin SLN er enn að

  
    Þessa frétt sendi ég Mogganum fyrir þó nokkru síðan og hélt að hún væri svolítið spes. Hún hefur ekki enn birst svo ég birti hana hér svo þeim sem þessa síðu lesa gefist færi á að meta hvort hún sé einhvers virði.
     
    Nú eins og mörg síðustu árin að hefur grágæsin SLN sem mun vera frægasta gæs Blönduóss skilað af sér ungum í hagana við Héraðshælið. Gæsin hefur ætíð komið heim á Blönduós í kringum 14. apríl ár hvert og þá alltaf á lóðina við Hælið.

    SLN er að öllum líkindum síðasti fulltrúi þeirra gæsa sem merktar voru á Blönduósi árið 2000. Margir eru á því að merkja þurfi gæsirnar á ný til að fylgjast megi með ferðum þeirra og hegðunarmynstri því þó margir elski að hata þær fyrir að skíta á almanna færi eru mjög margir sem hafa gaman af að fylgjast með atferli þeirra.

01.07.2009 14:01

Miðsumarblús

    Dagarnir líða einn af öðrum. Sólin er farin að lækka á lofti og sumar að komast í hámark. Bygginganefnd vill kofa Jónasar Skafta burt en bæjarráð segir allt í lagi fram á haust. Jónas segir ýmislegt um þessi mál sem óþarfi er að fara frekar út í hér. Svona er þetta nú bara, hver hefur sinn kofa að draga. 
    Ég veit ekki hvað það er en það er eins og það vanti í mann neista, neista til að kveikja þó ekki væri nema smá bál í sálararninum. Kannski er þetta bara eðlilegt allt saman. Það er ekki alltaf hægt að vera uppfullur af hugmyndum og iðandi í skinni eftir að hrinda einhverju í framkvæmd. Menn eiga sínar hæðir og lægðir. Reyndar er verið að skipta um járn á þakinu á mínu heimili og endurnýja sjónvarpsloftnetið og framundan er að mála sólpallinn en svoleiðis lagað telur maður ekki með.

    Síðusta daga hafa kvatt þennan heim sem ég lifi og hrærist í, þrír mætir menn. Fyrst dó Jón Ísberg fyrrverandi sýslumaður og heiðursborgari Blönduóss. Þá kvaddi Gestur Guðmundsson á Kornsá og í fyrradag andaðist Stefán Á Jónsson á Kagaðarhóli. Alla þessa menn þekkti ég ágætlega en með misjöfnum hætti. Jón Ísberg og Stefán þekkti ég afar vel og af góðu einu í gegnum félagsmálin en Gestur á Kornsá skipaði sérstakan sess í huga mínum því hann prýðir eina hlýlegustu og jafnframt sterkustu mynd sem sem ég hef tekið. Þetta voru allt saman heilir og traustir menn, ólíkir persónuleikar en menn sem skiptu máli. Menn sem tilheyrðu kynslóð sem skynjaði á hverju þjóðin byggði sína afkomu. Samfylgd við þá vil ég þakka og bið góðan Guð að styrkja þá sem sakna og blessa minningu þessara heiðursmanna.

    Ég læt fylgja með myndina af Gesti Guðmundssyni á Kornsá þar sem hann stendur beinn í baki og beinir fénu sem er að koma af Haukagilsheiðinni niður afleggjarann að Undirfellsrétt.

    Aðgerðarleysið í veðrinu er svona eins og ég er þessa dagana. Lognið allt um lykjandi og líkt og skaparinn haldi niðri í sér andanum. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir biðukollurnar sem bíða eftir því að komast að heiman. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir þá sem vilja vita hvaðan á þá stendur veðrið. Þetta veðurlag er ekki gott fyrir þá sem fjárfest hafa í skjólveggjum. Þetta sem hér er ritað er svona tilraun til að vera neikvæður yfir því jákvæða. Þegar maður er kominn í svona hugleiðingar þá er gott að renna yfir einræður Starkaðar eftir Einar Benediktsson. Birti hér eitt erindi úr 3 kafla ljóðsins. Það er hvert orð þrungið meiningu og krafti.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,
sem brast við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

    Núna er Glugginn kominn í sumarfrí þannig að enginn Rúnar er með í spilinu.

    Það hljóp heldur betur á snærið hjá þeim Erlendi Magg, Bjössa smið og Jónasi Skafta í gærkveldi. Um þrjátíu konur sem núna eru að ljúka hannyrðanámskeiði í Kvennaskólanum fóru um gamla bæinn og litu m.a. í heimsókn til Erlendar og nutu veitinga á Ljóninu hjá Jónasi og undu þær hag sínum vel við söng og sólarlag.

    Endum þetta á ljóðrænum og sumarlegum nótum hafandi í huga að enginn er fullkominn og hóf er best í hófi.

Æ hvað það er gott að getað
gullna veginn stundum fetað.
Og farið síðan víða veginn,
værukær og rauðvínsleginn.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 111
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56621
Samtals gestir: 10452
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 22:32:59