Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 September

30.09.2009 14:27

Næstum því hér um bil satt

Miðvikudagur. - Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta skrítið, en samt er það satt,
Því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. - Þannig er lífið.

    Þessi tvö fyrstu erindi í ljóði Steins Steinarrs "Miðvikudagur" eru sígild og varpa áreynslulaust, ljósi á hversdaginn. Það er ekki sjálfgefið að þvælast í gegnum lífið án þess að reka sig á. Það er misjafnt hvernig menn höndla þessa lífsgöngu en eins og segir í kvæði Steins þá göngum við líkast til flest um með sama svip og í gær. Þannig er lífið.

    Það er eins með haustið og miðvikudagana - lífið gengur sinn gang og þannig hefur það verið. Það kólnar og sólin lækkar á lofti.

    Ég ætlaði að vera svo déskoti hress í dag og geisla af gleði og hleypa léttu lundinni á sprett en ég datt bara allt í einu inn í þetta ljóð eftir Stein og sá þá bara, hversu hversdaglegir miðvikudagar eru, nákvæmlega eins og Guð sjálfur hefur í öndverðu hugsað sér. En sem betur fer er svo margt falið í hversdagnum sem vert er að gefa gaum og þessvegna gengur lífið sinn gang.

    Lífið hér um slóðir gengur í stórum dráttum út á það að bíða eftir því hvort verði af netþjónabúi eður ei. Menn þora ekki að nefna þetta hátt heldur nánast hvíslast á : "Hefur þú eitthvað heyrt af netþjónabúinu" "Nei en líkurnar eru töluverðar að það komi. Við erum sterklega inni í myndinni" svara þeir sem mest vit hafa á. Menn hvísla ósjálfrátt til þess að þetta heyrist ekki út fyrir héraðið og verkefninu verði stolið frá okkur. Við þekkjum söguna af lóunni sem var étin fyrir það eitt að hún söng svo hátt af gleði þegar kýrin skeit á hana, skítkalda. Kötturinn heyrði sönginn, rann á hljóðið, dró lóuna upp úr skýtnum og át hana. Þessa sögu þekkjum við og höfum vit á því að tala í hálfum hljóðum um þessi stóru tækifæri sem gætu verið handan við hornið. Við viljum helst ekki vera étin af kettinum sem ávallt vakir yfir bráð sinni.

    Árni Þorgilsson sem sumir kalla Árna ekkert mál og Erlendur Magnússon fóru í róður um daginn. "Það var steindauður sjór" sagði Erlendur mér. Það var engan fugl að sjá þegar komið var út frá ströndinni og hvergi lóðaði á fisk. Erlendur sagði að þeir félagar hefðu fengið einn titt sem var ekki stærri en þetta og hélt lófunum í lóðrétti stellingu svo ekki var meira en 25 cm á milli. "Við gáfum múkkanum hann" sagði Erlendur sem að öðru leyti var ánægður með sjóferðina þó svo honum fyndist Árni sigla full hratt upp í ölduna.

    Glugginn er kominn inn úr kuldanum eftir að hafa beðið mín á hurðarhúninum. Nei hver andskotinn hugsaði ég með mér. " Nú hefur Rúnar stungið af frá sinni miðvikudagsábyrgð" sagði ég við sjálfan mig en varla var ég búinn að sleppa þessu út í loftið þá birtist Rúnar með svelgjandi harmonikkutóna allt um lykjandi. Að þessu sinni var það polkinn "Fölungen" sem við höldum að þýði föli unginn eða hinn föli unglingur en hugsanlega er þetta dregið af danska orðinu fölelse sem þýðir tilfinning en við látum það liggja milli hluta.

    Glugginn er heilsusamlegur að þessu sinni og boðar m.a. aukna hreyfingu. Eldri sem yngri borgurum býðst nú að sækja leikfimi í vetur og Sunna Gests ætlar að koma frjálsíþróttafólki í gott form.

    Samfylkingin boðar til fundar undir heitinu sókn til betra samfélags ( nú eða leitin að Jóhönnu). Annars verður fróðlegt að vita hvað þetta fólk hefur að segja eftir nýjasta útspil Ömma frænda

    Enn og aftur bendum við fólki á að nýta sér slátursölu SAH því hvergi á íslensku byggðu bóli má fá ódýrari matvörur.

    Svæðisbundin matargerð er ofarlega í huga Nýsköpunamiðstöðvar Íslands. Er eitthvað hér á svæðinu sem teljast mætti sérstakt í matargerð fyrir Húnavatnsýslur. Einhver sagði að það væru skóhælar og því til sönnunnar væri það  þekkt fyrirbæri að narta í hælana á hinum og þessum en okkur kom saman um að þetta væri alþjóðlegur réttur. Blöndulaxinn er engum lax líkur og sjálfsagt að markaðsetja hann. Ekki má svo gleyma heimsins bestu sviðasultu sem framleidd er á Blönduósi. Frægir voru líka réttirnir sem fengust á Sauðaþjófnum sáluga (veitingasalur á hótelinu fyrir ári síðan) eins og Fjalla_Eyvindur í baði og fleira í þeim dúr en nóg um húnvetnska matargerð.

    Lionsklúbburinn og Hvöt dingla laus inni í miðjum Glugga og kalla eftir aðstoð. Lions vill fá fleiri félaga og Hvöt vill selja íbúum sinn hágæða WC pappír.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar hún um skattheimtu á Skagaströnd, tengdri köttum.

    Við Rúnar leggjum nú það sem okkur er mislagið að nota í bleyti og gerum hvað við getum til að færa þetta sem að undan er ritað í ljóðrænan búning.

Lífið er oftast nær hvikult og assskoti bratt.
Og alltaf í nánasta umhverfi sálar er statt.
Aldrei af okkur drögum
í vitleysu og sögum.
En allt sem við skrifum er næstum því hér um bil satt.

En um þetta kjaftæði má svo sem karpa og þæfa.
Kalla okkur asna sem réttast væri að kæfa.
En það breytir ei því
að við vinnum mest í
verkum sem teljum helst stundinni hæfa.

23.09.2009 09:25

Vorfuglar og Kremlarfræði

    Nú eru fjallatopparnir orðnir eins og toppurinn á mér. Komið í þá haust, farnir að grána en eru  engu að síður fjallmyndalegir.

 
Þetta er víst gangur tímans og eins og skáldið sagði þá stöðvar enginn tímans þunga nið. Það er samt misjafnt hvað niður tímans hljómar sterkt í hlustum hvers og eins. Kúnstin er að að láta þennan nið hljóma eins og bæjarlækinn, eitthvað sem er sjálfsagt án þess að trufla.

    Húnahornið eða huni.is er frétta- og upplýsingaveita fyrir húnvetninga og hefur maður fyrir sið að líta þarna reglulega inn. Einn af föstu liðunum sem Húnahornið býður upp á eru tilfinningar Húsfrúarinnar. Inngangsorð Húsfrúarinnar hafa létt mér lundina lengi og munu líklega gera  það fram eftir hausti : " Þessa dagana skella á manni hinir ýmsu vorboðar og ósjálfrátt léttist brúnin."  Hvað er yndislegra en varðveita vorið í brjósti sér og um það stendur Húsfreyjan svikalaust vörð.

    Svona til að varpa hlýju ljósi á vesturbakkann áður en farið er í stríðsfréttirnar þá er rétt að byrja með mynd af húsi Jóhannesar og Sigrúnar á Blöndubyggðinni sem og gamla pósthúsinu sem nú gegnir hlutverki gistiheimilis. Það er Langadalsfjall sem er í baksýn og í forgrunni má greina horn af auglýsingaskilti Hafísseturins.
 

    Af Vesturbakkanum eru þær fréttir helstar að Bygginganefnd fjallar löngum stundum  um hin mörgu bréf Jónasar Skafta og skúrinn. Jónas Skafta sagði mér reyndar í óspurðum fréttum í gær að hann hyggðist flytja skúrinn eftir skamma stund á hlutlausa beltið milli hans og Hreins. Þegar ég kom til vinnu í morgun í suð suð austan 5 metrum á sekúndu og 5 stiga hita og skýjuðu veðri var skúrinn enn á sínum stað þannig að það hefur ekki gengið á með skúrum í gær en það var samt veður til að færa skúra. 
    
    Þessir dagar eru eitthvað svo undarlega rólegir á yfirborðinu að það hlýtur bara að enda með ósköpum. Það bara getur ekki gengið að allt gangi svona hægt og rólega fyrir sig. Þetta á eftir að hefna sín! 

    Bjössi smiður kom til mín líkt og Jónas gerði í gær og sagði mér frá því helsta í gagnavers-  og og sorphirðumálum á Norðurlandi. Bæjarstjórn kom líka saman saman til skyndifundar á Hótelinu í gær. Maður reyndi svona eins og góður Kremlarfræðingur að rýna í svip bæjarstjórnarmanna þegar þeir yfirgáfu fundinn. Er gagnaverið úti eða inni?  Kári Kára settist upp í bílinn og ók greitt af vettvangi en Gústi græni stjáklaði um stéttina fyrir framan hótelið og talaði í farsímann. Allt í einu sáum við bros á andliti hans og réðum við af því að gagnaverið væri enn inni í myndinni. Kári hefði ekki átt að aka svona hratt af fundarstað því óneitanlega skaut það manni smá skelk í bringu en brosið hans Gústa breytti dimmu í dagsljós, ljós vonar.
Þegar ég gekk heim frá vinnu í gær  þá varð hinn margumtalaði Jónas Skafta á vegi mínum. Var hann í óða önn að koma bát sínum Skafta Fanndal í stand fyrir veturinn því hann hyggst taka hann með sér suður til Reykjavíkur í vetur og sækja á góðviðriðsdögum út á sundin blá og veiða sér í soðið


Reykurinn sem umlykur bátinn stafar af því að Jónas gangsetti vélina. Ég get svarið það að ég beið í dágóðan tíma til að geta fangað augnablikið þegar Jónas mundi gægjast út yfir stjórnborðssíðuna en það gekk ekki eftir. 

    Nú fer að líða að Glugga. Skyldi Rúnar laumast með Gluggann til mín núna eins og hann gerði síðasta miðvikudag, eins og þjófur að nóttu eða koma í eiginn mynd með vísukorn í handraðanum og létta mér lífið.
Það fór sem mig grunaði. Ég sá í skósólana hjá Rúnari þar sem hann var að laumast inn til sín þegar ég kom til vinnu eftir hádegið. Ég þeytti bílflautuna látlaust og snaraði kappann við útidyrnar og náði honum inn til mín og hér sitjum við með Gluggann fyrir framan okkur.
    Þetta varð til út af þessu

Hann sá mig í fjarlægð og lagði á flótta.
Ég flautuna þeytti af heilmiklum þótta.
Þá breytti hann för
og þaut eins og ör
nú situr hann hjá mér með smákeim af ótta
 
 
    Eins og vísan segir þá var Rúnar var pínu skömmustulegur en tjáði mér að hann hefði beðið eftir mér í drjúga stund og leikið sem óður maður harmonikkupolkann "Hoppla-hej. Reyndar kom ég óvenju seint til vinnu eftir matinn en það skýrist af því að ég fór út í slátursölu til að kaupa mér lifur í matinn.

    En aftur að Glugganum sem býður ekki upp á stórbrotnar vangaveltur því Glugginn er eins og dagarnir, á rólegu nótunum en hvort þetta eigi eftir að hefna sín skal ósagt látið. Dýrt er kveðið í vísu vikunnar en gallinn er bara sá að ekki er getið höfundar þessarar dýru vísu.

    Farskólinn og umsóknir um styrki til atvinnusköpunnar frá Impru og vaxtarsamningi Norðurlands vestra taka töluvert pláss og Domus gengið er á sínum stað. Bólstrari býður þjónustu sína og aðalsafnaðarfundur kirkjunnar er á næstu grösum. 

    Lionsmenn eru að fara af stað með sína árlegu perusölu og fylgja í kjölfar Kára Kára og félaga sem farið hafa um bæinn með klósettpappír til sölu. Þetta skilja Lionsmenn því hvað er óþægilegra en að vera ljóslaus á salerninu með klósettpappír frá Hvöt í höndunum? Fátt!

    Þá er bara að slá botninn í þetta allt og finna hinn eina og sanna ljóðræna tón sem límir saman hin óborganlega hversdagsleika.

Það er lofsvert að líta til baka
því landið leggst brátt í klaka.
Ei dýrara sel
en mér líður svo vel
þegar vorfuglar húsfrúar kvaka. 

16.09.2009 18:02

Samhengi hlutanna

    "Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt" segir í Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson. En er það svo? Ég hitti á dögunum eina fróma frú sem hafði orðið fyrir því að til hennar var  brosað svona til þess að gera að tilefnislausu . Samkvæmt öllu þá hefði þetta bros átt að breyta öllu í dagsljós fyrir frúnna en svo varð ekki. Sá sem til frúarinnar brosti var karlmaður á óræðum aldri. grásprengdur og ekki ómyndarlegur. Þetta bros varð til þess að hin sómakæra frú fór að hugsa með sér: "Á ég að þekkja þennan mann?, hvar hef ég séð hann áður?" Allskonar svona hugsanir fóru að hrúgast upp í höfði blessaðarar konunnar og tóku að trufla hana. Sem sagt þetta eina bros minnkaði annars mjög gott birtustig konunnar og var hún að hugsa um þetta í nokkra daga. Þegar hún svo var búin að gleyma þessu og ná upp fyrra birtustigi í sálinni varð þessi ágæti maður aftur á vegi hennar og tók upp á því að brosa til hennar svona eins og áður segir, að tilefnislitlu. Mín ágæta vinkona sem varð fyrir brosinu er kona á miðjum aldri, rifjaði nú aftur upp fyrri hugsanir um hvort hún ætti að þekkja manninn og svo framvegis. Það var sama hvert hún leitaði í minningasjóði hugans þá fann hún ekkert um þennan mann. Það er nú oft þannig þegar öll sund virðast vera að lokast þá rakst þessi kona á mig og lýsti fyrir mér þessum manni. Með hjálp minni og fleirri góðra manna (konur eru líka menn) komumst við að því hver þetta var. Þetta var maður á miðjum aldri sem bar lesgleraugun ávallt á andliti sínu og staðsetti þau mjög framarlega á nefbroddinum. Til þess að sjá lengra þá þarf hann að lúta höfðinu töluvert og við það slaknar á kjálkavöðvunum og myndast við það örlítill sorgarsvipur. Málið var leyst. Hér var ekki um eiginlegt bros að ræða heldur ranga notkun á lesgleraugum á almannafæri. Því þegar hann sér einhvern nærri sér þarf hann að lyfta höfði og rýna í gegn um lesgleraugun til að sjá viðkomandi. Við þetta strekkist á kjálkavöðvunum sem er þess valdandi að það er líkt að maðurinn brosi. Ég efast ekki um að sett verði fljótlega í lög að menn megi ekki bera lesgleraugu á almannafæri ef það veldur strekkingu á kjálkavöðvum sem aftur leiðir til þess að alþýðan sem á vegi verður getur skilið þessa strekkingu sem áreitni. Eftir þessar vangaveltur stendur enn fast í mínum huga að vel útfært bros með lesgleraugun staðsett á réttum stað á andlitinu, eigi ennþá fullkomlega rétt á sér.

    Af vesturbakkanum er það helst að frétta að kirkjueigandinn Atli Arason og hundeigandinn Stefán sinna viðhaldi hvor á sinni lóð. Atli mokar út morknuðum gluggum í gömlu kirkjunni en Stefán málar bílskurshurðina hjá sér hvíta eftir



 ákveðnu mynstri sem ég ekki alveg skil. Þó svo ég skilji það ekki, þá efast ég ekki um að Stefán meinar eitthvað með þessu. Vissulega, þegar menn hafa farið niður á fjörukambinn og horft yfir til Stranda og dáðst að fegurð þeirra geta þeir staldrað við og velt vöngum yfir bílskúrshurðinni hjá Stefáni, þegar þeir snúa höfðinu aftur í sömu átt og þeir komu úr.
    
    Ég hef lítið séð til Erlendar Magg, Jónasar Skafta og Ívars Snorra hina síðustu daga en þó hef ég séð til ferða Dagbjartar Ingu á siglingu fyrir neðan höfuðból Erlendar eigi langt frá þeim stað sem hafið verður kannski leitt í pípum upp á land til að kæla hið margumrædda gagnaver.

    Set hér inn eina mynd af Bjössa stórsmið þar sem hann gaf sér tíma til að líta upp frá verki á trésmíðaverkstæði Kráks núna í morgun.



    Hver röndóttur hrökk upp úr mér þegar ég stöðvaði bílinn fyrir utan Aðalgötu 8 eftir hádegismat. Var ekki búið að troða Glugganum á bak við hurðarhún og enginn Rúnar sjáanlegur. Þetta er ekki líkt kalli og bara hundfúllt. Það er miklu minna gaman að sitja einn með Gluggaskjattann fyrir framan sig og reyna að vinna úr honum eitthvað fóður. En úti er grenjandi rigning og svolítil súld í sálu minni en eigi þýðir að vola heldur hefjast handa og bögglast í gegnum Gluggann.

    Stóðgöngur á Laxárdal verða á laugardaginn og réttað í Skrapatungu á sunnudag segir í forsíðuauglýsingu en eitt vekur athygli í henni en það er setningin " Barinn opinn, 18 ára aldurstakmark. Valli Fremsti verður að vanda ferðamannafjallkóngur.

    Enn og aftur stendur kúagirðingin hestamönnum opin á haustdögum en nú er vakin á því athygli að menn þyrftu e.t.v að taka hross sín fyrr en ella. Þetta þýðir bara það að ef gagnaverið (netþjónabúið) verður sett á koppin þá er tíma hrossa í kúagirðingu lokið.

    Mikið er um að vera á Textílsetri Íslands og Guðmundur Valtýsson rúllar upp vísu vikunnar eins og ekkert sé og fjallar um þá sem elska að fara árum saman upp á heiðina.

    En Rúnarslaus Gluggayfirferð er ekki eins gefandi og yfirferð með Rúnari harmonikkuleikara.

    En berja verður saman vísu því hvað er lífið án hins ljóðræna hamhengi hlutanna og þessa eina prósents þjóðarinnar sem unnir forsetanum
.
Hvernig væri að byrja svona :

Ei verður í þankanum þurrð
þrotlaust menn brýna kutana.
Og blettótt bílskúrshurð
er brothætt í samhengi hlutanna.


09.09.2009 19:02

Eins og ofsogin konubrjóst

    "Það verður enginn friður á Vesturbakkanum" sagði Jónas Skafta við mig í gær, nýkominn frá því að "transportera" með danska stútenta um landið á rútunni sinni. Ég hélt að Jónas hefði verið að ferðast með franskar hefðarmeyjar um landið og hef fyrir mér Himma Snorra í því. En hvað með það. Enginn friður á Vesturbakkanum eru ekki ný tíðindi. Í óspurðum fréttum sagði Jónas mér að hann hefði sent bæjarstjórn bréf um sín mál. Bréf sem gefur sterkt til til kynna hvar Davíð keypti ölið og hann skúrinn. Reyndar sá ég bifreið Erlendar Magg fyrir utan bæjarskrifstofurnar í fyrradag og reikna ég með því að hann líkt og Jónas Skafta hafi verið að herða starfsmenn bæjarskrifstofu. Rétt er þó að hafa í huga að þetta eru getgátur einar en mikilvægt innlegg í málefni vesturbakkans.
    
    Áður en lengra er haldið er rétt að birta hér mynd af austurbakkanum þar sem friðurinn einn ríkir. Hér má sjá á ferð eftir Bakkastíg, gönguhóp Kaupþings banka og er hópurinn staðsettur beint fyrir neðan hús formanns gönguhóps Sölufélagsins hennar Elínar.

    
    Eitt er það sem ég geri stundum fyrir konuna mína en það er að fara út í búð. Þetta geri ég þegar hún sér ekki fram á að komast í verslun fyrir lokun. Fyrir skömmu fór ég í búðina og hafði það verkefni að kaupa gulrófu. Ekki mjög stóra og ekki mjög litla. Þegar ég birtist í búðinni varð fljótt á vegi mínum ágæt vinkona til margra ára og varð henni að orði er hún sá mig. "Þú sést nú ekki oft hér." Ég átti ekkert svar betra en að segja. "Satt segir þú Hlíf mín." og bætti svo við. "Veistu hvar gulrófurnar eru í þessari verslun." Greiðlega gekk að finna rófurnar og þegar ég tók á þeirri rófu sem ég taldi að mundi henta okkur hjónum með kjötinu í karríinu fór um mig smá ónota tilfinning. Rófan var svo lin viðkomu og var ég nokkuð viss um að svona ættu gulrófur ekki að vera. Nú voru góð ráð dýr hugsaði ég með mér. Kallaði ég til að minnsta kosti þrjár vel þekktar og reyndar húsmæður og einn vátryggingamiðlara mér til aðstoðar. Eftir til þess að gera stutta rannsókn var mér ráðlagt að kaupa ekki þessa rófu. "Þessi rófa er eins og ofsogið konubrjóst" varð einni húsmóðurinni að orði og og náðist góð samstaða um þá niðurstöðu. En til þess að vera viss um að fá ekki skömm í hattinn fyrir að skila ekki gulrófu heim í búið greip ég til farsímans og hringdi í konuna og lýsti atburðum og einkum og sér í lagi niðurstöðunni að rófan væri eins og ofsogið konubrjóst.  Ég fékk leyfi til að fara tómhentur heim. Ég bætti upp þessa áranguslausu verslunarferð skömmu síðar þegar ég brá mér í búðina á leið í réttirnar og keypti mér kók og Prince Póló.

    Núna standa sem hæst göngur og réttir og því tilvalið að rifja upp smalaraunir Óskars Sigurfinnssonar í Meðalheimi


Ég labbaði af stað til að leita að fé
í leðurstígvélum upp að hné
og sólin hún skein milli skýja.
Með húfu og trefil og fleiri föt
og vettlinga næstum því nýja
og flösku af Finnlandía.

Ég gekk upp á margan grýttan hól,
gáði og raulaði heims um ból,
það glampaði á stígvélin bæði.
Það er svo gaman í góðri tíð
að ganga um landið í næði
og lifa á fljótandi fæði.

En dagurinn leið, það dimmdi af nótt
ég datt í polla og sagði ljótt
og stígvélin fóru að fyllast.
Ég forina óð í feikna ham
en færðin tók óðum að spillast,
ég hélt ég væri að villast.

Ég álpaðist loks út í fúafen,
þar fannst mér nú lyktin ekki pen,
ég hljóp eins og byssubrendur.
Að síðustu þarna ég seig á kaf,
sokkinn upp undir hendur.
Kannski dálítið kenndur.

Í svarta myrkri ég sá ekki neitt,
svangur og skítugur, vítt og breitt
um foraðið fór ég að sveima.
Loks þekkti ég staðinn sem stóð ég á
en staðnum ég helst vildi gleyma.
Ég var fastur í fjóshaugnum heima!

    Núna kemur blessaður drengurinn hann Rúnar með Glugga næstu 7 daga. Skyldi Glugginn hafa gildnað eitthvað? Skyldi hann hafa vísu vikunnar? Skyldi hann vera innihaldsríkur? Strekkbuksevalsinn ómar í eyrum og Glugginn er þunnur en kominn í hús. 

    Á forsíðu má lesa gleðitíðindi því slátursala SAH er hafinn. Við Rúnar hvetjum alla sem sláturafurðum geta valdið að nýta sér þetta tækifæri og gera góð kaup á hollum og góðum mat.
    
    Okkur Rúnari er létt því vísa vikunnar er á sínum stað og erum við að reyna að skilja hana í þessum rituðu orðum . "Skaðar víða skiptin hlý/ sköpuð vá með orðum" segir í byrjun.

    Kobbi í Léttitækni auglýsir hjálpartæki atvinnulífsins sem flest eru á hjólum eða stillt upp við vegg.
    
    Síðast en ekki síst þá leikur Sambandið en og aftur fyrir léttgeggjaða húnvetninga og í þetta skiftið á réttardansleik í Víðihlíð.
    
    Enn og aftur er sú stund upp runnin að setja hlutina í skáldlegt og ljóðrænt samhengi. Enn og aftur reynir á hæfileika okkar Rúnars til að skapa hið ómögulega.

    Nú húmar og haustar um norðurhvel,
    harðdrægt  í veraldar geimi.
    En Óskar í fjóshaugnum unir sér vel
    alsæll í Meðalheimi. 

    Núna stjáklar Rúnar út frá mér með hendurnar á kafi í  buxnavösunum staðráðinn í því að láta ekki gulrófur raska ró sinni.

02.09.2009 17:49

Sjálfbær miðvikudagur

    Þriðjudagurinn líður samkvæmt venju og miðvikudagur tekur við. Svona hefur þetta gengið ansi lengi án þess að maður sé sérstaklega að velta því fyrir sér. Þegar ég rölti heim eftir vinnu á þriðjudögum svona um 1.700 metra velti ég ýmsu fyrir mér. Reyndar geri ég það aðra dag líka og safna í sarpinn en enginn getur neitað þeirri staðreynd að dagarnir líða hver á fætur öðrum og í réttri röð. Fyrst hugsa ég si svona; vinnudagur að baki og leiðin liggur heim. En það er svo margt sem verður á vegi manns þessa 1.700 metra þannig að lífið getur tekið breytingum fyrirvaralaust.

    Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þegar maður heyrir dyrnar á Aðalgötu 8 skellast á eftir sér er, "nú er ég frjáls". Samt rennir maður huganum yfir daginn og spyr sig í laumi: Hvað hef ég eigilega gert eða ekki gert? Stundum verður fátt um svör og maður yptir bara öxlum en suma daga er maður bara svo déskoti ánægður með sig að maður gengur heim í einum sæluhrolli og tekur ekki eftir einu né neinu nema sjálfum sér. 
    
    Dagurinn í gær líkt og hinir dagarnir var merkilegir. Í gær rakst ég á hinn 24 ára Fúsa hund
á röltinu um gamla bæinn

   
með reynslusvipinn, svipinn sem fær mann til að hugsa um þjáningar heimsins. Því næst sá ég á sandeyrinni í Blöndu nokkrar gæsir æfa flugtökin og tveir dílaskarfar þurkuðu vængi sína í félagi við þær.  
    
    Gústi P er farinn til Akureyrar, Jónas Skafta til Reykjavíkur, skúrlaus og Erlendur Magg sker hvönn á Blöndubökkum. Gústi P sem er afar merkilegur bátur fór sömu leið og Húni II, eins og áður sagði til Akureyrar. Sibbi á Skagaströnd hýfði Gústa svo lúin bifreið frá Akureyri með tengivagn gæti flutt Gústa á áfangastað sem tókt samkvæmt áræðanlegum heimildum þ.e. Ívari Snorra.
 


    Fúsi hundur og Nonni hundur una hag sínum vel á Aðalgötunni og  míga reglubundið nokkurn veginn ætíð á sömu staðina, hvor yfir annars bunu.

    En skyndilega eins og hendi væri veifað birtist í gær heill her af kvikmyndatökufólki fyrir utan gluggann minn.



Þetta er svolítil árás inn í hversdaginn en kemur ekki á á óvart fyrir "stríðsfréttaritara" á Vesturbakkanum. Ég spurði í sakleysi mínu "hver eruð þið" "Við erum Pegasus að taka upp Rokland" "Hvað er þetta Pegasus" spurði ég og dæmdi mig á augbragði úr leik í hinu menningarlega upplýsta samfélagi. 
    
    "Sjálfbær ræktun á kannabis sem fólk er orðið vant en finnst samt óþægilegt að sé í nágrenninu" sagði okkar ágæti lögregluforingi Kristján Þorbjörnsson í fréttunum í gær. Það er mikið talað um sjálfbærni á öllum sviðum og heldur talið af hinu góða en í þessu tilfelli er sjálfbærnin illa séð og þá sérstaklega af lagabókstöfum landsins  og því voru fengnir til þess bærir menn til að uppræta þessa sjálbæru ræktun.

    Nú stormar Rúnar inn með Gluggann í höndunum en sleppur við að leggja bílnum aðeins lengra frá aðaldyrum vegna bifreiðar sem var gersamlega sprunginn vinstra meginn þ.e.a.s á á báðum og dvaldi við aðaldyr Aðalgötu 8 fram að háhegi. http://www.huni.is/files/3/20090901221953687.pdf

    Það sem fyrst vekur athygli er að það er enginn vísa vikunnar. Hvað er eiginlega að húnvetningum? Það hafa sko verið mörg yrkisefnin  sl. 7 daga svo ekki getur það verið afsökun. Það kemur örlítill tómleiki í sál okkar Rúnars. Það getur ekki verið að það sé búið að ræna okkur andanum þó svo gengið hafi verið á ýmsa höfuðstóla.

    En Glugginn ber líka með sé birtu og gleði því nú fer að færast fjör í leikinn hjá eldri borgurum því félagsstarfið fer að bresta á. Sextíu ára og eldri hafa að þessu starfi aðgengi. Sextíu ára hugsa ég með mér því Rúnar þarf þess ekki því hann er orðinn sextugur. Sextíu ára, það er nefnilega það.

    Við höldum að engu sé logið að það sé nýbreytni hjá þeim í Svínavatnshreppi hinum forna að halda réttardansleik í Dalsmynni að kveldi réttardags í Auðkúlurétt. Ef svo er ekki eru örugglega einhverjir til að reka þetta ofan í okkur.

    Nú og svo má ekki gleyma aðalfundi kirkjugarðs Blönduóss sem verður haldinn eftir tæpa viku. Við Rúnar létum hugann reika en bara örskotsstund og það sem út úr því kom var dagskrá aðalfundar: 1. Venjuleg aðalfundarstörf. 2. Hávarður Sigurjónsson legsnyrtir greinir frá legnámi hvít-rússa í kirkjugarðinum fyrr í sumar. Ekki orð um þetta meir enda óvarlegt að hafa svona mál í flymtingum.

    Þá er bara eftir að leggja loka hönd á skrifin og þefa uppi hið ómótstæðilega ljóðræna samhengi hlutanna. Við vitum að Nonni hundur og Fúsi er glúrnir að þefa hlutina uppi en nú reynir á okkur:

Við lúkur höfum í hárinu á föntum
sem hald' uppi sjálfbærri ræktun á plöntum.
Við líðum það ekki
að lögguna blekki,
lúðar með gras í nösum og tröntum.


  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63161
Samtals gestir: 11261
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 08:21:36