Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Október

28.10.2009 15:29

Rugl og lausatök

    Það er hverjum manni mikilvægt að velta vöngum, fram og til baka, upp og niður eða í hverja þá átt sem hugurinn leitar. Það er ágætt að stunda vangaveltur á rölti meðfram Blöndu á fallegum haustdegi þegar
 
stokkendurnar dóla sér á lygnu fljótinu. Einn og einn mávur flýgur með jöfnum vængjaslætti í átt til sjávar og hrafnarnir rjúfa haustkyrrðina með einu og einu krunki. Hvað skyldu þau öll vera að hugsa, hugsa ég með mér en svo er svosum ekkert meira um það að segja.

    Ég sá þá ekki þegar ég gekk heim seinni partinn í gær þá Stefán Pálsson og Jónas Skafta. Þeir voru á bak við Blönduból þegar ég var á ferðinni. En ég sá þá þegar ég var kominn yfir á austurbakkann. Þeir voru eitthvað að bauka kapparnir, annar vopnaður skóflu en hinn dráttarvél. Þegar maður veltir vöngum þá dettur manni ýmislegt í hug og það sem kom upp í huga minn bara svona á "augabragði" var að þeir væru að gera skotgröf.

Af hverju datt mér það í hug. Jú, Jónas ætlar í mál við bæjarfélagið eða það las ég á huni.is "Ég undirritaður, Jónas Skaftason er orðinn langþreyttur á lausatökum og rugli hjá Blönduósbæ og hef því ráðið mér lögmann til að sækja rétt minn", stóð skrifað skýrum stöfum.

    "Hvernig er það Jón minn. Er ekkert stríð á vesturbakkanum núna?" spurði Bóthildur mig á dögunum þegar ég hafði engar stríðsfréttir að segja en núna sjá allir að stríð er skella á.

    Ég fór að velta vöngum yfir réttmætri spurningu Bóthildar og komst þá að því að friðurinn á vesturbakkanum var bundinn við norðuhlutann en stríðið væri að færast suður eftir bænum. Hvern sá ég ekki í sjónvarpinu fyrir skömmu aðra en hana Bóthildi þar sem hún nánast lýsti yfir stríði við stjórnvöld vegna niðurskurðar á fjármagni til Héraðshælisins. Bóthildur sá til þess að stríðið hélt áfram. Það er frábært hvernig henni og hennar samherjum tókst að þvæla sjónvarpinu út fyrir höfuðstað Norðurlands núna á þessum síðustu og verstu tímum og alla leið til Blönduóss. Það er rétt sem ég hef alltaf sagt að Bóta er til bóta, áfram Bóthildur.

    Á vangaveltugöngu minni í gær þar sem hugurinn reikaði um allt litróf sálarinnar og hverjum steini velt við, til þess að gera áreynslulaust áttaði ég mig allt í einu á því að ég hafði gengið fram hjá heimili mínu og fór því af göngustígnum á móts við kvennaskólann.

    Áður en ég segi frá því hverja ég hitti á leið frá skólanum var ég að hugsa um það hvernig Jónas myndi líta út ef hann gerði eins og Jóna Fanney og litaði dökkt á sér hárið. Hann ætlar í málaferli við bæinn líkt og hún Jóna þannig að væri svolítið "kúl" ef þau hefðu svona dulítið dökkt yfirbragð meðan á þessu öllu saman stæði. Þetta væri hægt að kalla " nú er það svart" línan og ég efa ekki að þetta myndi "lúkka" nokkuð vel.

    En aftur að þeim sem ég hitti á leiðinni frá kvennaskólanum. Þar voru á ferðinni sómakonurnar Elísabet Finnsdóttir (Bebe), Ástdís Guðmundsdóttir, Jósefína Ásgeirsdóttir og Ásdís Friðgeirsdóttir.

Þær voru að koma frá því að skoða handverk á Textílsetrinu og léku við hvern sinn fingur þegar ég hitti þær. Bebe sagði si svona "Veistu það Jón að það eru 60 ár síðan ég var í þessum skóla". Svona líður tíminn.

    Rúnar er kominn með Gluggann og það er logn á þessum haustdegi og sænsku víkingarnir sungu hástöfum "Anna og Rúnar" eða svo sagði Rúnar a.m.k. og Aðalgatan titraði af gleði. Takturinn í laginu var svo þéttur og fínn að mann langaði helst til að hlaupa út í haustið og dansa Aðalgötuna á enda.

    Það er greinilegt á Glugganum að rjúnavertíðin er að hefjast því nokkrar auglýsingar eru um að allar veiðar séu bannaðar á hinum og þessum stöðum innan sýslunnar.

    Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvaða hlutverki þessi eldspúandi hestur sem skilur eftir sig sviðna jörð eigi að gegna undir auglýsingu um stofnfund verkalýðsfélaga sem haldinn verður á Staðarflöt. Getur það verið að hesturinn eigi að tákna bálför stöðugleikasáttmálans.

    Hvöt er á sínum stað með WC pappírinn og og sama gildir um Domus gengið, það er á sínum stað með hinn fljúgandi umboðsmann fasteigna hann gsm Magnús.

    Búgreinafélögin ætla að halda uppskeruhátíð í næsta mánuði og Rúnar á Skagaströnd yrkir um inngöngu okkar í ESB.

    Svo má geta þess að kvenfélagið Vaka er að hefja vetrarstarfið og gleður það okkur Rúnar mikið því þá getum við farið að hlakka til þorrablótsins.

Þá er bara eftir ljóðræna samhengið sem við Rúnar vitum að margir bíða spenntir eftir.

Vökukonur vaskar nú
vetrarstarfið byrja.
Maddama, kerling, fröken frú,
flatkökurnar smyrja

    Í framhaldi af því að Jónas er að fara í mál gegn Blönduósbæ vegna lausataka og rugls hjá Blönduósbæ þá datt okkur þetta í hug. Orðið Gráni er skáldamál eða líking og þýðir í þessu tilfelli Jónas.

Langþreyttur á lausatökum
leggur hann í stríð.
Geysist fram með gildum rökum
Gráni alla tíð.

21.10.2009 14:44

Listin er horfin úr hurðinni

    Í dag er kalt, í dag fer sólin að skína inn um gluggann minn klukkan 9:15 og ég veit að á morgun veður þessi atburður eitthvað seinni á ferðinni. Já það dimmir og kólnar á Ísalandi og bara ekkert við því að gera. Í dag eru 64 dagar til jóla og 61 dagur þar til sól fer aftur að hækka á lofti. Þetta er eitthvað til að hlakka til.

    Margumræddur Jónas Skafta kom hér í morgun til að herða mig líkt og hann gerir reglulega við bæjarstjóra, byggingafulltrúa og sveitarstjórnarmenn og er ekkert nema gott um það að segja. Hver er svo skapaður sem Guð vildi og uppeldið gaf og út frá því vinnur maður dag hvern. Nánar verður fjallað um Jónas í tengslum við auglýsingu frá honum í Glugganum í dag.

    Þessir dagar sem nú líða eru tíðindalitlir og renna hjá líkt og lygn móða. Stefán er búinn að mála bílskúrshurðina og hefur hið listræna yfirbragð horfið en við blasir ljósbrún hversdagsleg bílskúrshurð sem horfir tómum augum út á Húnaflóann. Hurð sem ekki nokkur einasti maður mundi láta sér detta í hug að ræða um. Ef satt skal segja þá finnst mér eitthvað hafa horfið úr lífi mínu. Þorvaldur Skúlason er horfin úr hurðinni. Þegar ég legg bílnum mínum á bak við hótelið og labba sundið milli hótels og Aðalgötu 8 þá veit hugurinn ekkert hvað hann á að gera. Það er merkilegt hvað listræn bílskúrshurð getur haft mikil áhrif. Maður hættir að hugsa um rimana á girðingunni umhverfis húsið sem sumir eru alhvítir, aðrir gulir og nokkrir með báða þessa liti. Maður hættir að hugsa um það hvort Bjössi stórsmiður sé að fræsa glugga í trésmiðju Kráks. Maður meira að segja hættir að heyra óánægjugeltið í Nonna hundi.

    Þá er Rúnar kominn með Glugga vikunnar http://www.huni.is/files/3/20091020195718560.pdf og er hann aðeins efnismeiri þ.e.a.s. Glugginn en hann var fyrir viku. Rúnar reið í hlað á Súkkunni sinni við undirleik Arnt Haugen sem þandi nikkuna af miklum móð og lék fjörugan polka sem kallast Go´blonken sem við Rúnar höldum að þýði " að verða blankur". En lagið er of fjörugt til þess að lýsa því ástandi en við höfum bara ekki betri þýðingu.

    Vart vorum við Rúnar lagðir af stað í vitleysisgangi þegar legsnyrtir bæjarins hann Hávarður Sigurjóns birtist í dyrunum. Við rukkuðum hann um vísu og kom hann umsvifalaust með gamla vísu sem Auður Hauksdóttir orti um Rúnar þegar hann týndi bíllyklunum í Stafnsrétt fyrir margt löngu: Rúnar fór í réttirnar/ og ráðvilltur hann sýndist./ Láku út ljótu fréttirnar/ og lykillinn hann týndist.
 

    Eins og fyrr er greint frá þá er auglýsing frá Ljóni Norðursins í Glugganum þar sem segir að opið verði í haust, vetur og að sjálfsögðu næsta sumar. "Þú ætlar sem sem sagt að vera heima við næsta árið" sagði ég si svona. "Ef" sagði Jónas að bragði án þess að skýra það nokkur nánar. "Ef maður ætlar að bjóða þjónustu og auglýsir það þá verður maður ætíð að vera til staðar" sagði ég og bætti við" annars hætta viðskiptavinir að treysta á þig og leita annað". "Þú talar nú eins og Helgi Ho Ho vinur minn" sagði Jónas og lét í veðri vaka að hann ætlaði að afsanna þessa kenningu. Nú er bara að sjá hvort viðskiftin hjá Jónasi blómstri á Ef kenningunni. En þetta EF þýðir einfaldlega hjá Jónasi að kaffihúsið verður opið ef hann er heima. Persónulega þá finnst mér orðið þegar falla betur að setningunni en hið margbrotna orð EF.

    Við Rúnar veltum því fyrir okkur í algjöru ábyrgðarleysi hvort það væri tilviljun að auglýsing frá Hjalta meindýraeyði væri fyri ofan auglýsingu kaffihússins en það er staðreynd að tilviljanir eru tilviljanakenndar.

    Afmælishátíð FNV er fyrirsögn á einni auglýsingunni. Það er smá galli við þessa auglýsingu að það eru ekki allir sem vita hvað FNV stendur fyrir. Einn ágætur maður skaut því að mér hvort þetta stæði fyrir félag náttúrulausra vinstrimanna en við nánari eftirgrenslan þá kom á daginn að hér um að ræða Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra og má sjá það í merki skólans sem er fyrir ofan fyrirsögnina, merki sem hverfur í skuggann af fyrirsögninni sjálfri.

    "Þjóð í mannlífs sálarsorgum" segir Rúnar á Skagaströnd í vísu vikunnar og segir hana dæmda til setu í Dimmuborgum. Vel má það vera en ég og Rúnar á Blönduósi forðumst það eins og heitan eldinn að að leika okkur með kreppueldinn.

    Menn geta keypt hálm af þeim Brúsastaðahjónum og jafnframt selt þeim kvígukálfa. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum að fara að skifta um hálm í toppstykkinu en komum okkur fyrir rest niður á það að líklega væri sá gamli sem við notumst við óbætanlegur.

    Sjálfstæðismenn blása til fundar og Óli Magg auglýsir að hann taki að sér hross í tamningu og þjálfun í haust og vetur. Það er spurning hvort Óli á Sveinsstöðum beiti sömu markaðsfræðum og Jónas Skafta.

    Þá er bara eftir að blessa yfir skrifræði vikunnar og koma því í hið óumflýjanlega ljóðræna samhengi:

    Rúnari varð á orði þegar Bíla-Bjarni á Skagaströnd birtist í dyrunum beint ofan í Hávarð og gleðin var við völd þrátt fyrir undirliggjandi alvarleika lífsins.

Úti ber nú ekki á hjarni
Þó alltaf nálgist jólin.
Hér legsnyrtir og Bíla-Bjarni
brostu eins og sólin.

    Og svona ein í lokin fyrir þá sem eru heima á sama tíma og Jónas og nenna ekki að hella uppá er hér ein saklaus vísa:

Þeir sem ekki eru í straffi
og sálar enn eiga krafta.
Ættu að kíkja í kaffi
til kappans Jónasar Skafta.

 

14.10.2009 13:47

"Menn eru nú mis heppnir með veður"

    Það leika um okkur sunnan vindar þessa dagana og bera með sér hlýju. Þetta er kærkominn sumarauki og kemur sér auk þess vel fyrir lóurnar sem enn eru að þvælast á túnum hér í kring. Ég hélt satt best að segja að þessi fuglategund væri fyrir löngu lögð af stað suður á bóginn til að segja bretum og frökkum frá því að við höfum það ekki sem verst hérna þrátt fyrir allt. En allt um það, þá held ég að þetta eigi eftir að hefna sín því við sem eldri og reyndari erum vitum að á "einu augabragði" getur veður breyst til hins verra og þá er slæmt að vera lóa norður í Dumbshafi. Þá mun einhver eflaust segja "of seint lóa, of seint."

    Það er kyrrð yfir gamla bænum þessa dagana þó svo Jón Sigurðsson hundur hafi gelt óvenju mikið í morgun.



Jónas Skafta er fyrir sunnan, Ívar Snorri búinn að taka upp bátinn og Erlendur hefur lítið sést. Atli kirkjueigandi er iðinn við að sinna viðhaldi á gömlu kirkjunni og Stefán á hæðinni fyrir ofan fer sér hægt að mála bílskúrshurðina. Þið getið séð bílskúrshurðina hans Stefáns ef þið skrollið neðar á síðuna. En talandi um þessa bílskúrshurð þá eru menn að komast á það að hún sé hreinasta listaverk og hafa virtir hönnuðir frá L.A nefnt Þorvald Skúlason í í sömu andránni en ég sem er nú bara venjulegur alþýðumaður vil nú ekki taka svo djúpt í árinni. Því er ekki að neita, eins og komið hefur áður fram á þessari síðu að hinn almenni ferðamaður sem virt hefur fyrir þér dýrð Húnaflóans af fjörukambinum og hyggst snúa til baka rekur án nokkurs vafa augun í bílskúrshurðina og verður fyrir algjörlega nýjum áhrifum.

    Ég fór núna um daginn yfir listaverkið á bílskúrshurðinni með listamanninum Stefáni að viðstöddum þriðja aðila. Var svona að leiða hugann að því hvert listamaðurinn væri að fara, hvað hann væri að tjá.

    
Það eru svona hæðir og lægðir í strokunum á neðri hluta hurðarinnar og hélt ég að það hefði einhverja sérstaka skírskotun. Ekki taldi Stefán það vera heldur réð það mestu hversu mikil málning var í penslinum við hverja einstaka stroku. Málið var nú ekki flóknara en það.

    Þar sem við stóðum þarna og ræddum málin þá kom gamla kirkjan inn í umræðuna því áður umræddur Atli var þar innan dyra að sinna viðhaldi. "Ég held nú barasta að þessi gamla kirkja hefði alveg getað þjónað söfnuðinum í staðin fyrir he... steypuklumpinn sem plantað hefur verið upp á hæðina, austan ár." Sagði sá sem var með okkur Stefáni þennan milda októberdag. "Það getur nú verið gott að hafa rúmgóða kirkju til að sinna stærstu jarðaförunum" sagði ég og taldi mig hafa afgreitt málið með sterkum rökum og bætti við að þegar héraðshöfðingjar falla frá þá er nú varla pláss í nýju kirkjunni. "Þeir sem ekki komast inn geta þá bara staðið úti" sagði hinn úræðagóði og nægjusami samborgari. Þá sagði Stefán þessi spaklegu orð sem eyddu þessari "uppbyggilegu" umræðu sem fór fram á bak við Aðalgötu 8. "Menn eru nú mis heppnir með veður"

    Talandi um þessa bílskúrshurð sem menn líkja við allt frá því að vera hreinsiflötur fyrir málningarpensil upp í það að vera listaverk í sama klassa og verk eftir Þorvald Skúlason, mun senn vera hleri milli alheimsins og jeppa Höfðingjans. Samkvæmt áræðanlegum heimildum hefur Snjólfur sem kallar sig líka Höfðingjann fengið athvarf fyrir jeppan sinn í skúrnum hjá Stefáni. Það er sem ég segi , það er alltaf eitthvað að gerast á Aðalgötunni.

    Núna kom Rúnar á eðlilegum tíma með Gluggann en hitastigið var ekki "normal". 16 gráður á Celsíus og komið haust. Ég heyrði óm af sama polka og síðast hjá Rúnari "paa gyngende gulv" og hafði orð á því að ekki væri fjölbreytninni fyrir að fara hjá honum í lagavali. Hvernig væri eiginlega með snevalsen og öll hin lögin. Reyndar spilar Rúnar bara snevalsen um hásumar þannig að um þetta þýðir ekki að fást.

    Glugginn þessa vikuna er með alþynnsta móti. Það er minnt á styrktarsjóðsballið og Hvöt auglýsir sínar hefðbundnu vörur, harðfisk, lakkrís og klósettpappír. Það er tilboð á pizzu hjá Pottinum og pönnunni og Domus gengið er á sínum stað.

    Vísa vikunnar sem ég held að sé eftir Óskar í Meðalheimi er á sínum stað. Vísan hlýtur að vera eftir Óskar því það stendur Ó.S. undir vísunni. Við Rúnar erum að reyna að átta okkur á því hvar Óskar hafi gist og misst taumhald á sjálfum sér eins og glögglega má lesa út úr vísunni. Það kemur okkur náttúrulega ekkert við en það hefði geta verið gaman að smjatta svolítið á því.

    Berglind íþróttakennari er að fara af stað með ungbarnasund og efum við það ekki að það verður eins og pistillinn hennar um vorið á huni.is bæði grænt og hlýtt.

    Það er með þennan pistil sem og alla hina að hann verður að taka endi og það hefur verið ófrávíkjanleg regla að enda þá með vísu við mismikla hrifningu. Við látum alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta og ríðum ávallt á hið tæpa vísnavað fullvissir að ná landi, misjafnlega hraktir.

Lífið er líkt og að grafa skurð.
Í lífinu mennirnir púla.
En listin leynist á bílskúrshurð
sem líkt er við Þorvald Skúla

Einhver vildi hafa vísuna svona:

Lífið er líkt og að grafa skurð
Í lífinu mennirnir þrátta.
En listin er víst á bílskúrshurð
á Aðalgötu 8.

Í tilefni að spakmælum Stefáns Hermannssonar um það að allir eru ekki jafn heppnir með veður á sínum útfarardegi varð þetta til.

Allir enda sitt ævistreð.
Hver einn sinn samtíma kveður.
Misjafnt hve menn eru heppnir með
sitt hinsta jarðvistar veður

 

07.10.2009 15:37

Kornið sem fyllti mælinn er til sölu

    Eins og þeir vita sem heimsækja þessa síðu þá er ég titlaður stríðsfréttaritari á vesturbakka Blöndu. Það er ekki að ástæðulausu sem ég gegni þessu hlutverki, því þó hér búi til þess að gera friðsamt fólk eru engu að síður baráttuglaðir einstaklingar innan um sem ástæða er að fjalla um. Einn þessara seinþreyttu "stríðsmanna" er Jónas Skaftason sem nú hefur flutt sinn margumtalaða skúr af Einarsnesinu á hlutlausa beltið milli hans og Hreins Ingvarssonar á Blöndubyggðinni. Jónas hefur sagt mér ýmislegt um þessi mál í óspurðum fréttum og hef ég reynt að miðla því til alþýðunar svona þegar tækifæri og aðstæður leyfa.

    Það nýjasta í þessu máli er það að Jónas hefur óskað eftir fundi með bæjarstjórn til að ræða sín ferðamála mál, mál sem eiga sér upphaf en virðast engan endi ætla að taka. Jónas sagði mér á dögunum að hann hefði átt ágætt spjall við bæjarstjórann okkar hann Arnar Þór og hefði Arnar komist að þeirri niðurstöðu að sögn Jónasar að hann, sem sagt Jónas hlyti að hafa orðið fyrir einhverju í uppeldinu en Jónas þvertók fyrir það og vísaði því til föðurhúsana. Mér fannst þetta snjallt hjá Jónasi að vísa þessu til föðurhúsanna því hvar annarsstaðar liggur hinn uppeldislegi grunnur.

    Þessi mynd var tekin þegar ég var að ræða við Jónas um stöðu mála á Vesturbakkanum og sýnir konur sem hætta sér inn á "átakasvæði" Hér eru á ferðinni Ragnheiður Blöndal, Sigríður Helga, Ásta María og Anna Margrét


    Undirstöður Einarsnesskúrsins hafa líka verið fjarlægðar og eru núna komnar á lóðina hjá Ívari Snorra útgerðarmanni og eiga að gegna grunnhlutverki fyrir garðhýsi. Vonandi hefur Ívar Snorri sótt um leyfi fyrir garðhúsið til byggingarnefndar til að forðast frekari stríðsátök á vesturbakkanum.

    Samfylkingin hélt fund á hótelinu fyrir skömmu og mættu þar fyrir hönd Samfylkingar þau Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir og Guðbjartur Hannesson. Ekki gaf ég mér tíma til að mæta á þennan fund en eins og svo er um margt hjá hjá mér þá fékk ég upplýingar um fundinn í óspurðum fréttum. Samkvæmt heimildum mættu nú ekki mjög margir en vöskustu "stríðsmenn" vesturbakkans ásamt einhverjum eðalkrötum og einum íhaldspung sáu sér fært að mæta. Efir að hafa fengið óspurðar fréttir af fundinum þá dauðsá ég eftir því að hafa ekki mætt því Róbert hershöfðingi mun hafa flutt afar fróðlegt erindi um Davíð Oddsson og Ólína Þorvarðardóttir mun hafa fyllt upp í það erindi sem á vantaði hjá Róbert. Guðbjartur mun hafa talað um eitthvað annað en Davíð þannig að farið var yfir afar breitt svið.

    Svona áður en haldið er inn í Glugga vikunnar þá er rétt að geta þess að mér voru að berast í hendur bókin "Haukur á Röðli í fúlustu alvöru" ritaða af Birgittu Hrönn Halldórsdóttur. Bókin var árituð af skrásetjara og þeim sem afhenti mér bókina, Hauki sjálfum. Ég var glaður og þakklátur í hjarta þegar mér var færð bókin með hlýjum kveðjum og ég hlakka mikið til að leggjast yfir bókina og komast enn betur að því hvernig maður á að "lifa lífinu lauslega" eins og Haukur kemst svo skemmtilega að orði.

    Núna skoppar Rúnar í hlað undir svellandi polkatakti harmonikku Arnt Haugen og er það hvorki meira né minna en lagið "paa gyngende gulv" sem er grunnurinn í þessu öllu. Við höldum að þetta þýði "gólf sem svignar undan dansinum."

    Ragnar Þórarinsson birtist allt í einu í horninu hjá okkur Rúnari áður en við náðum okkur á strik og rukkuðum við hann umsvifalaust um vísu. "Vísu" sagði hann og "já" sögðum við. "Við yrkjum alltaf á miðvikudögum við Rúnar" sagði ég og þá sagði Ragnar. "Ef ég hefði vitað það þá hefði ég komið betur undirbúinn." "Það vita það nú allir húnvetningar á netinu að við yrkjum á miðvikudögum" sagði ég drjúgur með mig. "Ég á ekkert net ekki einu sinni silunganet" sagði Ragnar og þar með var málið útrætt.

    Glugginn í dag er af ýmsum toga. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Leið ehf blása til fundar í Húnaveri um málefni sem Blönduósingum, já og reyndar A-Húnvetningum öllum hefur verið svona heldur á móti skapi en það er breyting á legu þjóðvegar 1 fram hjá Blönduósi. Það vekur athygli okkar hversvegna fundurinn er haldinn í Húnaveri en ekki Blönduósi. Hugsanlega er ástæðan ekki önnur en sú að það er styttra í Húnaver en til Blönduóss frá Akureyri og um það snýst kannski heila málið

Hér kemur mynd í tilefni af haustinu og vísum vikunnar og dagsins

    Grösin fölna, grána fjöll,/ glöggt er haustsins letur./ Svona hverfa sumrin öll,/senn er kominn vetur. Segir Óskar í Meðalheimi í vísu vikunnar og víst er um að það er komið haust því kórarnir eru að fara af stað og styrktarsjóðsballið stendur fyrir dyrum. Allt saman einkenni um haustið. Sama má segja um inflúensubólusetninguna.

    Siggi á Hnjúki auglýsir korn til sölu. Þarna gefst mönnum einstakt tækifæri til að kaupa það sem þá helst vantar og lengi hafa beðið eftir en það er hið eina sanna korn sem getur fyllt mælinn. Svo lengi sem við munum hefur verið reynt að selja manni ýmsa hluti sem eiga að gegna því hlutverki að vera kornið sem fyllti mælinn. Ef ég færi að telja það upp þá væri ég farin að blanda hruninu mikla inn í pistilinn en við Rúnar reynum að forðast það eins og heitan eldinn. Nei hér er korn til sölu sem er korn og ekkert annað.

    Nú er bara eftir að ná sér í nokkurn korn til að fylla hinn ljóðræna miðvikudagsmæli, mæli sem mælir samhengi hlutanna í því óljósa samhengi sem við erum í.

    Við erum að hugsa um að byrja á hinni klassísku ljóðlínu " margt er það sem miður fer" en erum samt ekki allveg vissir. Réttast væri að segja, bara mjög óvissir en einhversstaðar þarf að byrja og einhverstaðar þarf að enda.

Margt var það sem miður fór
og mátti fara betur.
Bráðum kemur blautur snjór,
bráðum kemur vetur.

Sá sem þessar línur sér,
skráðar hér í letur.
Sér að mikið miður fer
og mætti fara betur.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 86
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56720
Samtals gestir: 10459
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 11:45:25