Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Nóvember

24.11.2009 17:24

Óskiljanleg tilboð á Katrínarmessu

    Messa til minningar um Katrínu píslarvott frá Alexandríu er haldin í dag þó ekki hér á Blönduósi. Margar sögur eru til um hana, en engar áreiðanlegar og óvíst hvort hún hefur verið til en það skiptir í sjálfu sér engu máli heldur það að sögur eru til um hana. Sem sagt Katrínarmessa er í dag 25 nóvember. Katrín þessi  var frá Alexandríu. Sagt er að Katrín hafði neitað að giftast Rómarkeisara því hún væri brúður Krists. Hún lagði svo fjörutíu heimsspekinga að velli í rökræðum um kristindóminn. Katrín var síðan sett í fangelsi eða dýflissu eins og það er stundum kallað. Dúfa kom á hverjum degi og færði henni mat. Katrín var síðan líflátin á hroðalegan hátt sem ég segi ekki frá því þetta er síða fyrir alla fjölskylduna. Svona geta miðvikudagar byrjað án þess að nokkuð sérstakt hafi gerst annað en maður vaknar les Moggann og rýnir örlítið í almanak Háskóla Íslands.
    Það væri hægt að leggja út frá þessari sögu á svo marga vegu að það væri að æra óstöðugan að byrja einhversstaðar, þess vegna leyfi ég ykkur að hefja ykkur til flugs og spinna ykkar eigin sögu. 
    Í dag nær sólin að gægjast um 3,3 gráður yfir sjóndeildarhringinn og er enn á niðurleið. Skammdegið er í algleymingi og ræður sér vart fyrir kæti því menn keppast hver sem betur getur til að lýsa það upp. Rétt er þó að benda skammdeginu á að brátt fer langdegið að að ná yfirhöndinni.
    Núna get ég með góðri samvisku sagt upp áskriftinni að Stöð 2 sport því Liverpool hefur lokið þátttöku í Meistaradeidinni í knattspyrnu. Það er eins og ég segi alltaf "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott". Þarna gafst okkur hjónum fágætt tækifæri til að spara svolítið í kreppunni. Núna getur maður einbeitt sér meira að Mogganum og skemmt sér konunglega yfir Staksteinaskrifum og flett hratt yfir íþróttasíðurnar. 
    Um daginn þá bað ég vini mína á "feisbókinni" að hjálpa mér svolítið við örlitla ritsmíð og spurði Ef þið þyrftuð að skrifa eitthvað um Blönduós og nágrenni (helst jákvætt), hvað kæmi fyrst upp í hugann? Svörin voru af ýmsum toga en við skulum sjá nokkur: "Á Blönduósi býr mamma !!"  "Mér finnst gott fólk búa þar, góður leikskóli, góður skóli svona ef ég nefni eitthvað." " Gott veður, gott fólk, og bara besti staður í heimi :)."  "Þaðan er gerð út langbezta löggæzla landsins."  "Fallegt svæði, einstaklega fallegur bær Blönduós í alfaraleið og yndælis fólk sem þar býr." " Fagrihvammur og Bakkastígur - vel geymd leyndarmál - en allir velkomnir;o)."  "Nafli alheimsins. Stutt í allar áttir. Góð, nauðsynleg þjónusta, heilsugæsla og sjúkrahús á staðnum. Hafið innan seilingar með fiski sem má veiða, veiðiár margar og gjöfular. Mörg söfn. Góður styrkur að hafa grösugar sveitir allt um kring. Slatti af furðulegu fólki sem litar bæjarlífið sínum litum."  "Tölum líka um stressleysið sem maður tekur eftir eftir að hafa búið í "stórborginni" og keyrt síðan norður. Öll þjónusta og mannleg samskipti miklu betri." Þegar maður les þetta þá lyftist á manni brúnin og maður segir við sjálfan sig. "Ja hver andskotinn er þetta virkilega svona gott".
Núna kemur Glugginn inn úr dyrunum en í höndum Óla. "Hvar er Rúnar spyr ég" og lái mér hver sem vill. "Hann liggur útaf eftir flensusprautu sem hann fékk í gær" sagði Óli með hluttekningu í röddinni. Ég veit ekki hvort það hafi verið vegna þess að Rúnar var veikur eða að ég þyrfti að standa einn í því að kryfja Gluggann en látum það liggja milli hluta. Rúnar er fjarri og það er sú staðreynd sem við mér blasir. Enginn polki, enginn ískrandi hlátur aðeins einn maður með einn Glugga og stórmerkilega auglýsingu á baksíðu sem verður vikið að síðar.
Það er byrjað að auglýsa þorrablótin og er ég afar sáttur við það því fátt veit ég skemmtilegra en gott þorrablót.
Það kennir ýmissa grasa í Glugga dagsins og má þar nefna jólabasar, ljóðakaffi, kerrunámskeið og stefnt er að markaði í Ósbæ. Vísa vikunnar er á sínum stað  sem og Hrafnhildur í blómabúðinni og Domusgengið.
    En það er síðasta auglýsingin í Glugganum sem toppar allt og þarf að glugga í marga Glugga til að finna eitthvað sambærilegt. "Nú árið er liðið" er fyrirsögnin á auglýsingunni og svo er haldið áfram. Ljón norðursins eins árs 1. desember nk. Svo kemur setning sem er torræð svo ekki sé meira sagt. Í tilefni þessara tímamóta verða "óskiljanleg tilboð á barnum föstudag og laugardag" og "lifandi tónlist báða dagana" og undir þetta er skrifað "kveðja Vertinn". Það eru þessi óskiljanlegu tilboð sem í boði verða sem ég skil ekki enda segja sumir að ég skilji stundum ekki sjálfur það sem ég segi eða geri. En maður getur látið hugann reika og velt því fyrir sér hvernig hin óskiljanlegu tilboð líta út. Til dæmis gæti verið boðið upp á tvöfaldann vodka úr flösku sem er óopnuð. Einnig gætu verið skilaboð á barnum sem segðu að Vertinn væri enn í Reykjavík og hægt væri að fá ódýt far með Norðurleið til að hitta hann þar. Ekki kæmi heldur á óvart að boðið verði upp á skemmtiatriði í þjónustuhúsinusem nú er staðsett  á hlutlausa beltinu á vesturbakkanum en sjón er sögu ríkari
    Samhengi hlutanna án Rúnars er harðsótt en  maður verður að reyna

Nú árið er liðið hjá öldurhús þjóni
og ófáir drykkir runnu um tregt
Þetta er  þraut að verða hjá Jóni
þetta er með öllu óskiljanlegt.
                                              

18.11.2009 14:35

Kúba og konukvöld

    Þá er lokið viðhaldi á gömlu kirkjunni þetta árið.


    Atli Arason hönnuður, kirkjusmiður og kirkjueigandi hefur verið býsna iðinn við að ditta að og styrkja innviði hins gamla húss þannig að líklega hefur það ekki verið í betra ástandi síðastliðin þrjátíu ár, eða síðan ég gifti mig í kirkjunni 11. sept árið 1976. Hugmynd þeirra Atla og Sveins M. Sveinssonar sem eiga kirkjuna, er að koma á laggirnar lista- og menningarhúsi. Allt er undir í því sambandi og er engin listgrein undanskilin. Í þessari vinalegu kirkju með stóru sálina er hægt að vera með litla tónleika, myndlistarsýningar hverju nafni sem þær nefnast og svo mætti lengi telja. Það eina sem er takmarkandi í því sem þarna verður hægt að gera áður en svo langt um líður er fyrst og fremst hugmyndaflugið.

    Til gamans má geta þess að fyrsti menningarviðburður átti sér stað í kirkjunni í síðustu viku þegar sýnd var kvikmyndinn "I am Cuba" sem mun vera kúbönsk mynd og var hún með enskum texta og talað á rússnensku ofan í spænkt tal. Frítt var á sýninguna og var gestum boðið upp á popp korn þeim að kostnaðarlausu. Þótti þessi viðburður hafa tekist vel þó að um 25% gesta hafi gengið út í hléi. Að sögn Atla kirkjusmiðs sem stóð fyrir þessari sýningu kom þessi útganga í hléi ekki á óvart því sá sem gekk út er þekktur mótmælandi.

    Ég fór í klippingu í gær til hennar Bryndísar sem ekki er svo sem í frásögur færandi nema fyrir það að nú kom ég um 5 mínútum fyrir pantaðan tíma og hugði gott til Séð og heyrt glóðarinnar. En það er eins og það eigi ekki fyrir mér að liggja að fá að lesa Séð og heyrt á hárgreiðslustofu Bryndísar þannig að ég veit lítið og kann ekki nýjustu sögurnar um Simma og Jóa, Ásdísi Rán, og fleiri fræga. Reyndar var mér sagt (það var sagt mér) svona í framhaldi af umræðunni um gömlu kirkjuna að tekin hefði verið nektarmynd af Audda fyrir framan kirkjuna ekki fyrir svo löngu og kannski á sú mynd eftir að koma í Séð og heyrt.

    Kjörin eru svo kyrr hér fyrir innan á þessa síðustu daga að jaðrar við alkul. Reyndar hefur kólnað töluvert frá því sem verið hefur en kyrrðin og róin er nánast áþreifanleg þannig að maður þarf nánast að olnboga sig í gegnum hana ef maður hættir sér út fyrir dyr. Það eina sem hreyfist er hinn aldraði hundur Fúsi sem fer sinn hefðbundna hring um gamla bæinn og lyftir sinn gigtveiku löpp til að míga yfir það sem Nonni hundur hefur áður migið á. Bjössi stórsmiður sést ekki lengur, Erlendur er lítið á ferli eftir kvikmyndasýninguna í gömlu kirkjunni og afi Bítlanna og vert á Ljóninu er að heiman. Reyndar er rétt að geta þess að örlítið lífsmark er með Ívari Snorra útgerðarmanni því samkvæmt áræðanlegum heimildum er hann að selja Addý sína til Noregs.


Reyndar var það svo þegar Mummi meiriháttar kom í hornið til okkar Rúnars núna rétt áðan þá sagði hann okkur frá stórviðburðum á lóð útgerðarmannsins. Addý var að leggja í hann austur um haf en það verður spennandi að sjá hvernig skip Ívar Snorri fær í staðinn því bágt á ég með að trúa því að hann verði skiplaus maður mjög lengi. Þessi síðustu orð segja aðeins það að kyrru kjörin á vesturbakkanum geta á einu augabragði breyst í ókyrr kjör.

    Þá er Glugginn kominn í hús og kennir þar ýmissa grasa. Núna beið Rúnar fyrir utan Aðalgötu átta í björtu vetrarveðri með bílrúðuna niðurskrúfaða og 5 stiga frostið liðaðist inn og lagðist yfir tóna í polka eftir Göbergs-Johann sem Anders Larson lék á sína harmonikku. Reyndar er rétt að miðstöðin í Súkkunni hans Rúnars gerði hvað hún gat til að hita upp heiminn en hún mátti síns lítils.

    Fyrst ber að geta vísu vikunnar en hún er einföld og skýr. Vísu vil ég fá/ vinur minn og þá./ Þú glaðan gerir mig,/ Guð blessi þig. Vísan er eftir eftir einhvern FS sem gæti staðið fyrir "falinn snillingur" en hver er þessi faldi snillingur. Með því að fara hratt yfir sögu, hver gæti verið hér að baki þá dettur manni í hug Fanndal Skaftason, Fisk Seafood. Framsóknarfélag Skagastrandar nú eða bara að þetta sé vísa eftir þá Óla og Hédda á Fjölritunar-Stofunni. Þetta eru allt saman vangaveltur og þegar þetta fer á veraldarvefinn þá er ekkert ljóst í stóra vísu málinu

    Linda á Steinnýjarstöðum auglýsir framleiðslu sína en hún rekur fyrirtækið Ísaum sem eins og nafnið bendir til, saumar ýmislegt í hinar og þessar flíkur. Býsna seig hún Linda og full ástæða til að kíkja á framleiðslu hennar og sjá hvað hún getur gert til að auðkenna hina ólíklegustu hluti.

    Potturinn og pannan auglýsir jólahlaðborðin og kennir þar ýmissa rétta sem vaflítið kitla bragðlaukana og er töluverð tilbreyting frá gömlu góðu soðningunni.

    Hjaltalín, Snorri Helga, Sigríður Thorlacíus og Heiðurspiltar verða með tónleika í Félagsheimilinu í kvöld. Ef okkur skjátlast ekki þá á Sigríður Thorlacíus ættir sínar að rekja til Blönduóss, nánar tiltekið Kleifa en við höldum að Ásdís Kristinsdóttir sé móðir hennar og móðurforeldrar hennar því þau Ingileif Sæmundsdóttir og Kristinn Magnússon. Vonandi er þetta allt saman satt og rétt því platan hennar "Á ljúflingshól" er afar ljúf og gaman að geta tengt hana við okkar litla samfélag.

    Hvernig er best að hnýta hin lausa enda í samhengi hlutanna þegar sólin skín, frostið bítur og gamla kirkjan bíður eftir því að vorið komi með frekari endurbætur og enn fleiri listviðburði. Reyndar kom upp úr dúrnum eftir að Helgi verslunarstjóri rak hér inn nefið að Samkaup verða með opið hús fyrir konur í kvöld og er körlum meinaður aðgangur. Rúnar rekkavörður í Samkaupum er gríðarlega spenntur og má segja að spennustigið sé að fara með hann því hann hefur lítið gert annað hérna hjá mér en að líta á klukkuna. En samhengi hlutanna verður að liggja fyrir í vísuformi og hér kemur það:

Rúnar er glaður og glenntur
gálaus og yfir sig spenntur.
Hann nemur við loft
sér á klukkuna oft.
Hann veit hverju´ í hann er lentur

Með kellum um búðina kjagar,
kátur hann neglurnar nagar.
Honum líður svo vel
þessum syndlausa sel,
þegar renna upp konudagar.

 

11.11.2009 15:04

Flugurnar þrjár og kötturinn sem dó

    Síðustu dagar í lífi mínu hafa tengst Reykjavík meira en Blönduósi. Ástæðan fyrir því er einföld vegna þess að ég er búinn að vera í Reykjavík síðan á föstudag. Þessi ástæða réttlætir fullkomlega að lítið hefur verið hægt að fylgjast með stríðsfréttum á vesturbakkanum.

    Það er ekki sama hvernig menn segja fréttir. Að þessu komst ég í Reykjavík á laugardaginn þegar ég sat aðalfund fréttaritara Morgunblaðsins. Mig langar að deila með ykkur einni sögu sem skýrir þetta afar vel:

    "Leikari einn í Reykjavík fékk tækifæri til að leika í nokkra mánuði við konunglega danska leikhúsið. Þessi leikari var einhleypur en átti einn kött sem honum þótti afar vænt um. Jafnframt bjó öldruð móðir hans skammt frá honum og hann heimsótti hana nokkrum sinnum í viku og þótti líka afar vænt um hana. Leikarinn fékk kunningja sinn til að annast fyrir sig köttinn og hafa auga með móður sinni meðan hann væri við störf í Danmörku. Leikarinn fór til Danmerkur og eftir tvo mánuði hringir hann heim í kunningja sinn og spyr helstu tíðinda. "Hvernig hefur kötturinn það spyr leikarinn og fær stutt og laggott svar. "Kötturinn er dauður" Kunninginn í Reykjavík heyrir að eitthvað mikið er um að vera á Danmerkurenda línunnar og nær ekki sambandi við leikarann í langan tíma. Um tveimur tímum seinna hringir leikarinn aftur í kunningja sinn og hellir yfir hann óbóta skömmum og segir hann vera ónærgætinn og tillitslausan. Hann hefði vel getað nálgast frásögnina að dauða kattarins með meiri alúð og nærgætni. "Þú hefðir getað sagt að kötturinn hefði sloppið út og klifrað upp í staur og svo hefði slökkviliðið komið en þegar þeir nálguðust köttinn í staurnum hefði hann farið á taugum og hrapað til bana. Vinurinn jánkaði þessu hjá leikaranum og sagði að vissulega hefði hann getað sagt öðruvísi frá þessu og undirbúið leikarann betur undir þau válegu tíðindi sem kattardauðinn var. Þegar þessum orðaskiptum var lokið spyr leikarinn kunningja sinn að því hvernig móðir hans hafi það. "Sko! mamma þín klifraði upp í staur ...."

    Það er ekki sama hvernig sagan er sögð en þessa sögu sagði okkur einn umtalaðasti maður þessa lands á þann hátt að ekki gleymist. Hér er átt við Davíð Oddsson ritstjóra Morgunblaðsins og talandi um Davíð þá dettur mér í hug enginn annar en Jónas Skaftason. Þannig vildi til að á mánudaginn þegar ég var að yfirgefa Kringluna eftir að hafa átt þar viðskifti og var að nálgast bifreið mína á bílastæði 1C heyrði ég kallað: "Hvaða ferðalag er á þér?" Ég leit snöggt til vinstri og sá þann sem átti röddina. Hvort sem þið trúið því eður ei þá var þarna kominn enginn annar er helsti stríðsmaður vesturbakkans hann Jónas Skafta. Ég veit ekki hvað olli því en mér datt bara í hug að svara honum á þessa leið. Það kom eiginlega ekkert annað svar til greina. "Ég er á leið upp í Hádegismóa til að hitta Davíð ritstjóra." Svaraði ég. Það var eitthvað sem brást innra með Jónasi og það var eins og ég hefði sagt eitthvað verulega slæmt við hann því honum var næstum öllum lokið og sagði "Þú ert alltaf trúr þínum" og kvöddumst við þar með og hélt hvor í sína áttina.

    Jæja þá er Rúnar mættur á svæðið á fallegum vetrardegi ásamt Carli Jularbo(lesið: Jú-larbó). Það eru eflaust nokkrir sem ekki þekkja þennan Carl en hann er sænskur harmonikkusnillingur og var þessi ágæti maður undir geislanum, hjá Rúnari þegar hann kom og lék Hjort- Anders polka af mikilli list. Jularbo karlinn spilaði einnig fyrir okkur Havörnsvalsen áður en hurðin lokaðist á eftir Rúnari.

    Undir Havörnsvalsinum lét ein fiskifluga lífið er hún varð fyrir þvottamoppu Margrétar og höfðum við Rúnar orð á því vegna þess að við erum þekktir fyrir að gera ekki flugum mein. Þorsteinn Sigurðsson sem hjá okkur var staddur sagði okkur frá fiskiflugunum þremur sem eiga heima hjá Sigurjóni frá Orrastöðum og hafa það fyrir sið að sitja á skallanum á honum og ræða málin. Ef Sigurjón færir sig á milli herbergja þá fylgja flugurnar honum eins og tyggir hundar. Sigurjón hefur greint Þorsteini frá því að ekki megi gera flugunum mein því það sé óheilla merki. Sigurjón er góður maður og líkur Rúnari en eitt eigum við þrír sameiginlegt að við gerum ekki flugum mein.

    En Gluggi vikunnar er viðfangsefnið og þar rís hvað hæst vígsla nýja orgelsins á sunnudaginn.


    Það vekur athygli okkar Rúnars að bæði Grettir og Hárgreiðslustofa Bryndísar ætla að hafa lokað föstudaginn 13. Nóvember. Gæti verið að þau sé svolítið hjátrúarfull og ef svo er þá verður bara svo að vera.

    Hótelið auglýsir ítalska jólastemningu og Bebbý segir okkur í vísu vikunnar að óhætt sé að fara að skreyta fyrir jólin.

    Töluvert er um tamninga auglýsingar og karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps óskar eftir því að fá að temja nokkrar húnvetnskar raddir. Svona í framhjáhlaupi þegar minnst er á raddir þá heyrist óvenju mikið í nafna mínum honum Jóni Sigurðssyni hundi og erum við ekki frá því að honum veitti ekki af einni allsherjar tamningu.

    Rúnar varð á orði þegar einn ágætur maður tjáði undirrituðum frá því að heimilishundurinn hefði étið allar jólaseríurnar á heimilinu og hvernig hann stæði tryggingarlega í því máli:

Jón nú vinnur vandaverk
á vinnustaðnum sínum.
Því hundar fremja hryðjuverk
á helgiljósum fínum.

    Nú er komið að því sem deilt er um hversu margir bíði eftir en það er að finna hið gullna samræmi hlutanna í hringiðu alheimsglundroðans.

Sögur af flugum og feigum köttum,
fer tvennum sögum.
Svo er verið að vefja okkur sköttum,
á vorum dögum.

    Núna svífur Rúnar út í miðvikudaginn á vængjum hafarnarvalsins hans Jularbos, laus við mig og pistilinn.

 

 

 

 

05.11.2009 11:52

Miðvikudagur á fimmtudegi og ég stálsleginn

    Það fer að verða erfiðara með hverjum deginum sem líður að minnast ekki á atburði sem tengjast efnahagshruninu mikla í hinum svo kallaða  miðvikudagspistli sem nú er skráður á fimmtudegi en ég held í mér svo lengi sem ég get því ég trúi enn að í því sé sáluhjálpin falin.

    Nú er svo komið að maður er farinn að öfunda fuglinn sem flýgur um frjáls og hefur einungis um það að hugsa að hafa í sig og forða sér undan háska. Hann þarf ekki annað en fara eftir lögmálum hinnar bláköldu náttúru þessa heims en ekki lögmálum misviturra manna. Ég öfunda ekki kindurnar í Tálkna sem fóru ekki að landslögum og brutu lögin um útigang búfjár. Ég fór að velta því fyrir mér afhverju þessum blessuðu kindum var ekið fram hjá að minnsta kosti þremur sláturhúsum til þess að deyja. Eftir töluverða hugsun þá komst ég að því að blóðugstu átökin í sögu þjóðarinnar hafa átt sér stað í Skagafirði og nægir að nefna Örlygsstaðabardaga og Flugumýrarbrennu og því er það í anda þeirra atburða sem blóð Tálknakindanna var látið renna á Króknum.

    Mér finnst alltaf gaman að hlusta á morgunleikfimi Halldóru Björnsdóttur í útvarpinu. Það eru svo margar setningar í í leikfimifræðunum sem má heimfæra upp á hversdagleikann og í framhaldi af því má leika sér með orðin. Nægir bara að nefna "teygja kálfana, kreppa hnefana, halla undir flatt og snúa öxlunum í hringi. Spennum greipar og teygjum hendurnar niður fyrir rass og lítum um öxl. Það er margt sem ég sé fyrir mér í þessu ef ég legg fyrir mig orðhengilshátt t.d. þetta með kálfana. Ég er stundum að rifja þessar setningar upp fyrir konunni og fer með heilu leikfimiþættina fyrir hana en hún er ætíð skjót til svara. "Hversvegna eyðir þú ekki tíma þínum í það að gera æfingarnar með Halldóru heldur en að snúa alltaf út úr og æfa bara kjálkavöðvana" segir hún og lýkur yfirleitt umræðum um þetta með þessum orðum.

    Veðrið hefur leikið við okkur síðastliðna daga og ekki skemmdi að tunglið var fullt á þriðjudaginn. Ég læt hér fylgja með eina mynd þegar hið húnvetnska tungl var fullt og sjónarhornið er það sem mér finnst einna skemmtilegast yfir Blönduós.


    Það virðist vera vopnahlé á vesturbakkanum því rólegheitin sem hér ríkja eru nánast ógnvekjandi. Ég er nokkuð viss um það að þeir sem upplifa svo rólega tíð bæði í veðurfarslegu og andlegu tilliti hljóta að taka undir með manninum sem sagði þessi spaklegu orð á sínum tíma við svipaðar aðstæður: Þetta á eftir að hefna sín.

    Í gær gerði ég það sem ég hef ekki gert áður en það er það að vera ekki til staðar þegar Rúnar kom með Gluggann. Ég veit ekki hvaða lag hann var að spila í bílnum sínum en ég geri ráð fyrir að það hafi verið eitthvað með Arnt Haugen. Ég gef mér það að það hafi verið Snevalsen þó svo alautt sé á lálendi. Það getur svo sem vel verið að sænsku víkingarnir hafi verið undir geislanum en um þetta fæ ég ekki að vita því ég var ekki til staðar.

    En Glugginn er kominn hvað sem öllu líður og segir manni bara það að maður er ekki ómissandi í framgangi lífsins þótt ótrúlegt sé.

    Þegar maður flettir Glugga þessa vikutímabils þá stendur hæst að senn er komið að vígslu pípuorgelsins í kirkjunni. Það er í raun óþarfi að hafa um það mörg orð önnur en þau að það er hreint út sagt frábært að þessi draumur margra safnaðarmeðlima kirkjunnar er að rætast. 
    Einnig er að nú gefst Húnvetningum kostur á að rata og og Heimsýn mun þar m.a. leggja lóð á vogarskálarnar ásamt Björgunarfélaginu. Ekki má heldur gleyma því að Þórdís hefur haft hendur í hári Húnvetninga í tvö ár og ætlar að standa uppi í hárinu á fólki með 10% afslætti út allan nóvember.

    Það er lofsvert að bjóða upp á námskeið í rötun og eiga þeir Björgunafélagsmenn heiður skilinn fyrir það. Það er margur maðurinn villuráfandi á hinu hála svelli lífsins sem óskar eftir námskeiði í rötun. Ég veit nú ekki fyrir víst hvort að Björgunarfélagið kenni mönnum mikið meira en að rata aftur heim þegar þeir hafa farið að heiman en það er grundvallaratriði í lífinu að komast heim að lokum. Að rata rétta leið er svo víðtæk setning að það er nánast ómögulegt að halda utan um alla þætti hennar. Biblían er kennslubók í því að feta hinn þrönga veg dygðarinnar. Reyndar eru margir kallaðir til þess að vísa manni veginn til betra lífs og er stundum ekkert til sparað svo vel megi takast. Ég komst að því um daginn hversu ófullkominn ég er þegar ég greip næst nýjasta tölublað Séð og heyrt á biðstofu Palla tannlæknis á Sauðárkróki. Ástæðan fyrir því að ég sá ekki nýjasta tölublaðið var sú að Hulda systir hans Rúnars, meðhjálpara míns, þessa sem leikur lög með Arnt Haugen, hafði tekið blaðið með sér heim til að leysa nokkrar Soduku þrautir en þetta kemur málinu bara ekkert við. Málið er að ég sá í Séð og heyrt að Gulli (45) og Solla (43) höfðu gert eitthvað æðislegt og litu svo vel út og voru svo hamingjusöm út af því að þau gerðu eitthvað sem ég gerði ekki. Þau voru sem sagt að kenna mér ratanum að rata í heimi sem vandratað er um. Það voru auglýsingar um hvað maður ætti að setja ofan í sig til að verða fallegur uppúr og niður úr. Það eru svo margir sem vilja kenna manni að rata hina réttu slóð í lífinu og ég er ekki í vafa að margir gætu beint mér á betri leið en þá sem ég arka núna. Sumir segja að erfitt sé að fylgja mér á minni veggöngu því það sé svo erfitt að klifra yfir þvergirðinarnar sem á vegi þeirra verður og stundum taki ég svo óvænta stefnu án þess að gefa stefnuljós að menn verði að hafa sig allan við. Mér finnst þetta ekki en það eru sumir sem segja þetta.

    En núna sit ég einn með skáldagyðjunni og saman reynum við að koma þessum pistli í ljóðrænan búning sem er svo mikilvægt svo hið hárfína samhengi hlutanna fái notið sín.

Eftir ævinnar veg
arkar kallinn hann ég.
Oft er kjarkurinn við það að bresta.
En langsótt er leið,
löngum ströng, stundum breið,
samt ég reyni að gera mitt besta.

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56595
Samtals gestir: 10452
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 16:03:44