Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2009 Desember

30.12.2009 14:41

Þúfurnar á lífsleiðinni

    "Það er upplyfting að lesa þig Jón og hefja með þér hina árlegu hringferð um sólina sem kostar ekki neitt." Þessi orð skrifaði einn vinur minn á þessa síðu og ef satt skal segja þá yljuðu þau. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir dauðlegir menn, nokkuð viss um að við erum öll svolítið hégómagjörn en við verðum líka að kunna að taka hrósi sem og einhverju öðru.
    
    Þetta ár sem svo margir hafa tjáð sig um er við það að hverfa í aldanna skaut og við getum verið örugg um að það kemur ekki til baka þannig að leiðin liggur bara fram á við.
    
    Leiðarljósið sem ég hef haft í mínum skrifum er einfalt og gengur út frá því að sjá hið skondna, óvenjulega og gleðilega sem lífið hefur upp á að bjóða. Ef einhver hefur lesið eitthvað annað út úr þessum ritæfingum mínum kann ég ekki við því nokkur svör.  
    
    Ég hef eignast, tapað, glaðst og grátið þetta ár sem senn kveður. Ég hef fyrir mikið að þakka og í mínum huga er ekkert annað til en framtíðin.

    Það er enginn Gluggi í dag og það þýðir líka að það er enginn Rúnar á ferð með mér. Það þýðir líka að ég veit ekki hvaða vals, polki eða skottís er í spilun í Súkkunni hans Rúnars. Ég hef samt trú á því að Arnt Haugen sé undir geislanum hjá mínum góða vini þenjandi harmonikkuna en hvort það er Snevalsen eða eitthvað annað veit ég alls ekki. Þegar aðstæður manns eru svona verður bara að virkja ímyndunaraflið og láta sér detta eitthvað í hug.

    Samhengi hlutanna hefur verið okkur félögunum nokkuð tamt undanfarin ár. Ég held að við Rúnar höfum komist að því að samhengið hangi allt á sömu spýtunni en það er misjafnt hvernig spýtan er nýtt. Kemur þar margt til greina og nægir að nefna eldivið, smíðavið. kurl, ónýttan rekavið eða eitthvað annað. Velji nú hver þann við sem hentar sínu samhengi en ég  þarf að ljúka með einhverjum hætti án aðstoðar míns kæra vinar Rúnars Agnarssonar að finna samhengi þessara skrifa.

Um mismargar þúfur á árinu hnaut
og allnokkrar klöngraðist yfir.
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og árinn í sálinni lifir.

    Gleðilegt ár öll sömul og megi nýja árið fara vel með ykkur. Hittumst hress á nýju ári.

26.12.2009 18:24

Takk fyrir að vera til

    Það er góður siður þegar jólin eru að ganga yfir að óska öllum gleðilegra jóla. Þessa ósk sendi ég til ykkar allra af heilum hug sem lesa þessa síðu og vona að þið öll hafið átt og megið eiga gleðilega jólahátíð.
    Eins og þið vitið sem hingað ratið hefur ýmislegt drifið á daga okkar og það finn ég í hlýjum kveðjum bæði hér á netinu sem og í hinni daglegu umgengni við fólk. 
    Það er ómetanlegt að finna hlýhug og góðar kveðjur sem felast í svo mörgu. Hlýlegum skrifum, þéttu handtaki, fallegum orðum eða óvæntu faðmlagi. Allt þetta segir manni það eitt að maður er aldrei einn. Í þessu felst samúð, gleði og sú vissa að maður er samferðamaður margra á lífsleiðinni.
   

Tvær Ástur Jónsdætur á góðri stund fyrir þremur árum. Kynslóðir koma og kynslóðir fara 

 Móðir mín hefur kvatt þennan heim södd lífdaga en sátt við almættið og okkur hin. Hún var jákvæð kona og lagði aldrei illt til nokkurs manns. Hún þakkaði fyrir hvern dag, hún þakkaði fyrir fjölskyldu sína þó svo hún væri hætt að þekkja hana í sjón. Alsheimer svifti móður mína sýn á nútímann en aldrei gleðinni.
    Öllum sem sent hafa hlýjar kveður sama hver hátturinn er  þakka ég og bið þeim guðs blessunar.

22.12.2009 15:04

Kátt nú verður brátt í hverjum hól

    Þegar jólin eru við það að ganga í garð er vel við hæfi að geyma stríðsfréttir af vesturbakkanum því af nógu öðru er að taka.

    Síðustu dagar hafa verið afar viðburðaríkir í lífi mínu og minna nánustu. Á laugardaginn var yngsta barnabarnið mitt, sonur Einars Arnar og Huldu Birnu skírður og fékk hann nafnið Gabríel. Séra Hjálmar Jónsson leysti þetta verkefni með gleði og hlýju og stóra systir hans Gabríels hún Margrét hélt á barninu undir skírn og Baldur stóri bróðir sagði hátt og skírt hvað barnið ætti að heita.

Þessi atburður átti sér stað um hádegið og um kl 14 vorum við mætt í Borgarholtsskóla til að vera viðstödd þegar yngsta barnið mitt hún Ásta Berglind útskrifaðist sem stúdent.

    Meðan á öllu þessu stóð fjaraði líf móður minnar aldraðrar hægt og hljótt út og hún fékk hægt andlát að morgni sunnudags á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Það má segja að síðustu dagar hafi spannað stórt bil á mælikvarða tilfinninganna. Hugurinn hefur reikað um allt ævisviðið og minningarnar streyma inn í hugann. Maður getur á svona stundu sagt með sanni. "Svona er lífið"

    En lífið heldur áfram för og allt í einu er Rúnar kominn inn úr kuldanum með síðasta Glugga ársins. Ég náði ekki að heyra hvaða harmonikkutónar hljómuðu úr Súkkunni hans en ég trúi ekki öðru en að það hafi verið Snevalsen með Haugen gamla. Reyndar þegar ég gekk á Rúnar með þetta þá sagði hann að það hefði verið einhver vals undir geislanum hjá sér.

    Glugginn er undirlagður af jóla- og nýjárskveðjum frá hinum og þessum til hinna og þessa og tökum við Rúnar þó nokkuð af kveðjum til okkar. Meira að segja Blönduóslöggan sendir kveðjur og þakkar fyrir ánægjuleg samskipti á árinu. Það er líklegt að einhverjir hafi ekki átt ánægjuleg samskipti við lögguna en við Rúnar vitum að þeir eru margfallt fleiri sem hafa haft hin bestu samskipti við þessa kappa.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og þar óskar Rúnar á Skagaströnd þess að bræðra og systra bönd megi búa að styrk um heilög jól.

    Á baksíðu Gluggans eru auglýstir dansleikir í Félagsheimilinu og mun Von verða á annan í jólum og Geiri um áramótin.

    Þessi síðustu skrif fyrir jól verða í styttri kantinum en gerir bara ekkert til. En við þurfum að koma frá okkur sæmilegri jólakveðju til ykkar sem lesið þessar línur. Hvernig væri að hafa kveðjuna eitthvað á þessa leið:

Kristilegu kærleiksblómin spretta,
kátt nú verður brátt í hverjum hól.
Við hæverskir úr horni segjum þetta.
Hafið það gott og eigið gleðileg jól.

16.12.2009 14:52

Bréfið sem breytti deginum

    Það er enginn dagur öðrum líkur þó svo erfitt sé að tala um daga þessa dagana því myrkrið er allt um kring og töluvert af því. Einn morgun getur þú vaknað snemma og heyrt hljóðið úr bréfalúgunni þegar Erlendur og Helga skila af sér Morgunblaðinu. Þú áttir von á dagblaði en þegar þú tekur blaðið upp af forstofugólfinu sérðu lítin bréfmiða sem liggur aðeins til hliðar við blaðið sem sumir elska að hata og jafnvel segja upp þó þeir hafi aldrei verið áskrifendur. 
    Einhvern veginn svona byrjaði einn morgun hjá Kristjáni Pálssyni sem margir þekkja undir gælunafninu Steinríkur því honum þykir svo vænt um steina og finnst gott að hafa þá í kringum sig. Þessi morgun hjá Kristjáni varð allt í einu allt öðru vísi en sá sem var á undan . Hann var búinn að fá sér í nefið og leyfði sér að njóta áhrifanna og hlusta eftir því hvort öldur Húnaflóans hefðu frá einhverju að segja, því Húnaflóinn nær betur eyrum fólks þegar lognið er allt um lykjandi og enginn á ferð til að trufla þá rödd. Það var sem sagt ekkert sem benti til annars en að þessi dagur þegar litli miðinn datt inn um bréfalúgunu yrði eins og morgunin í gær. 
    En litli miðinn breytti heilmiklu. Kristján beygði sig eftir honum og las á hvítt A4 blaðið sem hafði að geyma þrjár hendingar eftir E.G.E. sem þýðir bara það að hér var á ferðinni kveðskapur eftir Erlend G. Eysteinsson frá Stóru-Giljá. Kristján Pálsson sagði mér frá þessu öllu saman og einhvern veginn svona sá ég atburðarásina fyrir mér. 
    Kristján kvaðst hafa hitt Erlend fyrir skömmu og kastað að honum fyrri parti sem var svona: Stóru - Giljá stímum hjá/ styttist leiðin óðum. Þessi fyrripartur varð varð að heilu ljóði sem datt inn um lúgu, gladdi og breytti degi.

Þegar Stóru - Giljá streymi hjá
styttist leiðin óðum.
Þar himnaríki helst má sjá
hugsa þeir í ljóðum.

Ljóðlínurnar liprar tvær
léðst þú mér að botna.
Ekki má ég muna þær
meina svona aðskotna.

Fyrriparturinn flækti mig
fyrst ég varð að skrifa.
Hann minnti svona mest á þig
að maður þarf að lifa.

    Kristján Pálsson sagði eftir þessa upplifun. "Mér þykir vænt um Erlend hann er góður maður. Þekkir þú hann Hávarð ? "Já" sagði ég. "Hann er líka góður maður" sagði Kristján að lokum.

    Það er helst til lítið að frétta af Vesturbakkanum annað en að kominn er ein heljar mikil hola í Blöndubyggðina skammt fyrir sunnan helstu átakasvæðin. Ekki hef ég grænan grun um hvaða tilgangi þessi hola á að gegna. Þegar ég hef ekki grænan grun þá fer ég alltaf að "spekúlera" og því fór ég að velta því fyrir mér hvort hér væri á ferðinni það sem kallað er skotgröf og er ágætt að halda sig við þá hugmynd þangað til eitthvað annað kemur í ljós. Svo er líka spurninginn hver gróf þessa skotgröf því hún er nánast mitt á milli Blöndubóls og Bæjarskrifstofu. 
    Fyrst maður er farinn að skrifa á annað borð um vesturbakkann og gamla bæinn þá þætti mér það ekki goðgá þó sett væri svo sem eitt aðventuljós í Þorsteinshús og ekki skemmdi það fyrir ef eigendur Aðalgötu 9 gerðu slíkt hið sama. Það er eitthvað svo notalegt að sjá ljós í glugga því ljósinu fylgir líf. Það er ljós í gömlu kirkjunni og það ljós gleður og vísar veginn að minnsta kosti fyrir Siggu Gríms og Eyjólf Guðmunds.

    Það er enn þessi himnablíða sem leikur um okkur. Þessi blíða er svo máttug að hún gerir fánana máttlausa og Rúnar nokkuð öruggan um að Glugginn geti haldist óhaggaður á hurðarhúninum á Aðalgötu 8 þangað til ég kem til vinnu eftir hádegið.

    Í dag þurfti ekki að geyma Gluggann á hurðarhúninum því Rúnar beið mín í Súkkunni fyrir utan og lék hástöfum Fölungen sem er svo hress polki að næstum dauðir rísa.

    Glugginn í dag er svona hefðbundinn jólaGluggi og í sjálfu sér óþarfi að eyða í hann mörgum orðum. Vert er að vekja athygli á því að fólk getur sótt sín eigin jólatré í skógræktarreitin að Fjósum í Svartárdal.

    Anna Árna yrkir um Blönduósrjúpuna hina vingjarnlegu villibráð og segir hana elskulegan nágranna sem enginn velviljaður maður á aðventu mun láta sér til hugar koma að mótmæla.

    Jólaböll, stjörnukíkjar, afslættir hverskonar, jólakveðjur og jólaglaðningur allskonar er auglýstur og lýkur hér með umfjöllun um þennan næstsíðasta Glugga ársins.

    En hið mikla vandaverk að koma hlutunum í samhengi bíður okkar Rúnars og undan því verður ekki flúið hvernig svo sem andinn hefur það í brjóstum okkar.

    Hvernig væri að orða hlutina svona í tilefni blessaðrar blíðunnar og komu jólanna:

Erlendur gleður og Erlendur er
Elskulegasti maður.
Erlendur er eins og hvern einn fær séð
Eldhress og oftast nær glaður.

    Svona er nú samhengi hlutanna hjá okkur Rúnari í dag og má ýmsan lærdóm af því draga, standi vilji manna til þess.

09.12.2009 15:15

Að leyfa vitleysunni að líða út í veröldina

    Það er eins með mig og sólina þessa daganna að við förum ekki hátt en erum engu að síður til. Það er eins með mig og veðrið þessa allra síðustu daga, það er yfir okkur ró og friður. Þetta allt saman gildir líka um Aðalgötuna og gamla bæinn þar sem atgerfið kraumar undir án þess að nokkur sjái það. Það er alltaf eitthvað að gerast, jafnvel án þess að ég sjái það.

    Einn ágætur íbúi í Aðalgötunni hann Walter Jónsson hefur nýlega kvatt þessa jarðvist, blessuð sé minning hans. Ég þekkti hann ekki mikið en ég spjallaði við hann fyrir ekki svo löngu síðan og ræddi meðal annars við hann um hundinn hans fjörgamla, hann Fúsa. Við sátum á tröppunum við Aðalgötu 2 á lognkyrrum haustdegi og Fúsi lét fara vel um sig við fótskör húsbónda síns meðan við spjölluðum saman og ég segi það satt að veröldin beið á meðan. Ég tók af þeim mynd og sendi hana og smá glefsur úr spjalli okkar í Morgunblaðið þar sem hvorutveggja fékk virðulegan sess. Þessi mynd er mér hugstæð þó svo tónninn í henni sé mjög grár. Þessi grámi er spegill þess að allt er í heiminum hverfullt. Þessi grámi var mynd reynslu og góðra minninga sem mikilvægt er að eiga í sínu ranni.

    Hið gráa getur tekið á sig margar myndir því einn þekktasti grákollur á Vesturbakkanum ætlar að gera aðra tilraun við Einarsnesið næsta sumar. Fyrir þá sem lítið þekkja til þá var fyrirhugað að starfrækja tjaldsvæði með þjónustuhúsi á Einarsnesinu sem er á vesturbakka Blöndu síðastliðið sumar. Þessi tilraun tókst ekki sem skyldi og kunna að vera á því margar skýringar en grágæsirnar sem lengi hafa nýtt þetta svæði sem uppeldisstöðvar fyrir unga sína kunnu vel að meta þetta. En sem sagt, Vertinn á Ljóninu ætlar að gera aðra tilraun að vetri loknum og hefur uppi hugmyndir um að hafa þjónustuhús með öðru sniði en skúrinn fræga sem nú gistir í sátt við alla menn upp í svokallaðri Krús skammt sunnan við bæinn.

    Nú skal "brúkað" þjónustuhús á hjólum. Þetta hús verður ekki á tjaldsvæðinu heldur mun það birtast á tjaldsvæðinu í hvert eitt sinn sem einhver þarf á því að halda. Ég hef gert tilraun til að fá frekari útskýringu á því hvernig þetta þjónustuhjólhýsi og fyrirkomulag við notkun þess muni virka og nýtast gestum á tjaldsvæði sem best. Það hvílir mikil leynd yfir þessu máli þannig að maður verður bara að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Trúlegt er að þegar gestir koma á svæðið og þurfi að ganga erinda sinna þá verði á miðju tjaldsvæðinu svokallaður "náðarhnappur" sem hægt verði að þrýsta á og þá muni Jónas hinn grái koma hlaupandi með náðhús á hjólum frá höfuðstöðvunum, brókum til bjargar. Líklega er hægt að hafa fleiri útfærslur á þessu og gef ég mönnum góðfúslegt leyfi til að velta sínum eigin vöngum um þetta mál.

    Það kom til mín í gær málsmetandi maður hér í bæ sem hafði fengið fyrirspurn um það frá velmenntuðum og málsmetandi Afríkubúa hvort hann gæti ekki sent honum póstkort frá hinu "bjútífúla sittí" Blönduós. Málsmetandi maðurinn varð að játa sig sigraðan því hann vissi ekki um neitt póstkort sem sýnir Blönduósbæ þannig að vinur hans í Afríku þarf að bíða enn um sinn eftir að bæta mynd í safn sitt af okkar fögru borg Blönduósi. En þessi fyrirspurn frá Afríku vekur mann til umhugsunar um það hversvegna ekkert framboð er af póstkortum frá okkar fallega bæ.

    Og hver andsk... hugsaði ég með mér þegar ég kom til vinnu eftir hádegismat og sá Gluggann hanga umkomulausan í algjörum einstæðingsskap á hurðarhúninum á Aðalgötu 8. Nú hefur verið fart á mínum hugsaði ég með mér og átti að sjálfsögðu við Rúnar útburð, vin minn. En þegar allt virðist svart og vonleysið við það að taka völd þá er oft hjálpin komin áður en maður veit af. Á þessum líka fallega degi þegar skaparinn heldur niðri í sér andanum og leyfir hljóðinu að berast óhindrað um allar koppagrundir barst mér til eyrna þessir líka hressulegu harmonikkutónar. Þið megið giska einu sinni en þetta þýddi bara eitt að Rúnar var endurkominn og lék þennan líka hressilega Muckarpolka fá familien Brix. Reyndar hef ég aldrei fyrr heyrt Rúnar leika lög með þessari ágætu fjölskyldu en alltaf gaman að heyra nýjungar.

    En núna er það Glugginn sem við snúum okkur að Smárabær er ný verslun á gömlum grunni segir í auglýsingu á forsíðu Gluggans og Zophonías Ari , Hávi og Siggi bjóða menn velkomna. Hér mun að öllum líkindum vera um að ræða verslun byggða á grunni Kráks ef okkur skjöplast ekki. Bestu óskir um velfarnað sendum við Gluggarýnar þeim sem að þessari endurreisn standa.

    Skúr til sölu (flakkarinn) má lesa í Glugganum. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er skúrinn hans Jónasar sem í upphafi átti að gegna hlutverki þjónustuhúss á Einarsnesi. Hann þ.e.a.s. skúrinn hefur flakkað frá Reyljavík á Einarsnesið, þaðan á hlutlausa beltið og loks í krúsina þar sem hann nú dvelur.

    Árbakkinn minnir á sig og verður eitthvað opinn á aðventunni. Að sjá líf í veitingahúsinu Við árbakknum gleður alltaf sálina og minnir á gamla tíma.

    Lúsíuhátíð, upplestur og pízzatilboð má einnig finna á síðum Gluggans sem og margt annað sem menn geta lesið þegar þeir fá auglýsingablaðið í hendurnar eða bara eða á netinu.

    Allt tekur enda og það þurfa þessi skrif líka að gera og aðeins liggur fyrir að finna hið mis augljósa samhengi hlutanna og koma því fram á skilmerkilegan hátt svo alþýðan megi skilja.

Nú börnin brátt fá langþráð frí úr skólum,
því farið er að líða að kristnum jólum.
En með rísandi sól
fer vertinn á ról
og rogast með náðhús á hjólum.

    Rúnar var eitthvað svo andsk. andlaus í dag eftir að hann rak hnéð í hurðina á Súkkunni sinni í gleðidansinum Muckarpolka og er líklega bólginn og marinn eftir það og þessvegna er við hæfi að láta einhverja tóma vitleysu líða út í veröldina.

Hann kom hérna inn eins og dansandi dúkka
Það dunaði í græjunum polki um Múkka
En nú er hann farinn
Bólginn og marinn
Já nú er hann farinn og líka hans Súkka.

02.12.2009 14:54

Af pólitík og týndum vísum

    Ég hef lagt mig fram um það að blanda ekki efnahagslegum og pólitískum þrætumálum inn í þessa pistla og ef satt skal segja þá á maður stundum ansi bágt með sig en þetta hef ég sagt svo oft áður. Mig langar samt að nálgast þetta umræðuefni en frá öðrum sjónarhóli og segja ykkur dæmisögu sem getur skýrt nokkurn veginn út á hvað þetta allt saman gengur án þess að verða of pólitískur. Það gæti þurft að skýra þessa sögu út fyrir yngri en 12 ára en að öllu leiti á þessi saga að vera innan ramma hins siðlega.

    "Nonni litli var aðeins farinn að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og einn daginn fór hann til pabba síns og spurði: "Hvað eru stjórnmál?" Pabbi hans svaraði: "Jú sjáðu til, það er kannski best að ég útskýri það fyrir þér á þennan hátt: Ég vinn fyrir fjölskyldunni og þess vegna skulum við kalla mig Auðmagnið. Mamma þín stýrir heimilinu og ræður útgjöldunum og þess vegna skulum við kalla hana Stjórnvöld. Við erum til þess að sinna þörfum þínum svo við skulum kalla þig Fólkið. Við getum síðan haldið áfram og kallað barnfóstruna Öreiga. Litla bróður þinn skulum við kalla Framtíðina. Farðu nú og veltu þessu fyrir þér og athugaðu hvort þetta kemur ekki allt heim og saman." Með þetta veganesti fór Nonni litli í háttinn og hugsaði stöðugt um það sem pabbi hans sagði honum.

Um nóttina vaknar hann upp við grátinn í bróður sínum. Þegar hann kemur inn í herbergi hans finnur hann fljótt að bleian hans er blaut og vond lykt af henni. Hann fer inn í svefnherbergi foreldra sinna og finnur mömmu sína sofandi en vekur hana ekki. Þá fer hann að herbergi barnfóstrunnar og finnur að hurðin er læst. Hann kíkir inn um skráargatið og sér föður sinn í rúminu með barnfóstrunni.

Nonna litla fannst þetta allt mjög undarlegt og svona ekki alveg að ganga upp í hans huga og fór  því aftur inn í herbergi sitt og sofnaði. Næsta morgun segir hann við föður sinn. "Pabbi, ég held núna að ég skilji hvað stjórnmál ganga út á." Gott segir faðirinn, segðu okkur frá því Nonni litli: " Jú sjáðu til, á meðan Auðmagnið riðlast á Öreigunum er Ríkisstjórnin steinsofandi. Fólkið er hundsað og Framtíðin er í djúpum skít...

    Veröldin hér fyrir innan á hefur verið tíðindalítil undanfarið. Lítið hefur borið á burðarviðum mannskynssögu vesturbakkans og má segja að þeir séu eins og björnin skriðnir í hýði. Reyndar rakst hér inn ársgamli vertinn sem var með óskiljanlega tilboðið á Ljóninu um helgina og gaf það skýrt til kynna að ekki væri útlit fyrir frið á vesturbakkanum í bráð. Ég fór ekkert frekar út í þau mál því ég er friðarins maður og vona bara að friður jólanna laumi sér inn í sál hans áður en langt um líður svo hann geti kvatt vopnin sem fyrst

    Kemur ekki í þessum töluðu orðum hann Rúnar á Súkkunni sinni og leggur henni fyrir utan hjá mér. Eitthvað er hann að bauka í bílnum svo ég lagði leið mína að útidyrunum og opnaði þær. Um leið og það gerðist skall á mér norðankófið og lagið "Reinlender I Busserull" (sem mætti þýða á leifturhraða: Hreinlyndir í Brussel) sem samkvæmt mínu tónlistarviti er skottís. Að venju var það Arnt Haugen hin norski sem þandi nikkuna. Eftir smá skottíshopp hoppaði Rúnar inn úr dyrunum með fangið fullt af Glugga og handlegginn heilan eftir svínaflensusprautuna sem lagði hann að velli fyrir viku.

    Þá er ekki eftir neinu að bíða, heldur en að einhenda sér í gegnum Gluggann og glefsa í þá bita sem stæðir eru.

    Ljóðakaffi í bókasafninu, stjörnukíkir í Kjalfelli og síðast en ekki síst þá er hægt að fá spákonu á markaðnum í Ósbæ fyrir 1.500 kr. Spáið í það!

    Séra Hjálmar og Haukur á Röðli ætla að lesa úr bókum sínum í Heimilisiðnaðarsafninu. Ekki er að efa þar munu kristilegu kærleiksblómin spretta í kringum hitt og þetta.

    Við Rúnar rákum augun í það að það verður eitthvað sem kallast opið pókermór í félagsheimilinu. Við fórum náttúrulega strax að velta vöngum og datt fyrst í hug að nú væri farið að selja eitthvað sem heitir pókermór og hægt væri að fá pókermóreykt hangikjöt hjá Sölufélaginu. En þegar við sáum hvernig lyklaborð tölvunnar er uppbyggt þá áttuðum við okkur á því að R og T er samhliða þannig að líklega hefði setjari síðunnar átt að leita örlítið meira til hægri í næstefstu röð lyklaborðsins.

    Í Glugganum má sjá að Lýður einhver ætlar að halda fyrirlestur um eitthvað sem heitir "Crashdiet". Við Rúnar leyfðum okkur að þýða þetta orð og fannst koma afar vel út að nefna þetta Hrunrétt . Þá hlýtur þetta að vera einhverskonar naglasúpa sem hægt er að elda fyrir lítið meðan hrunð gengur yfir. Líkast til er þessi súpa eða grautur það næringarlítill að aukakílóin hrynja líka af manni þannig að minnsta kosti tvær flugur verða slegnar í einu höggi.

Það á að kveikja á jólatrénu frá Moss á sunnudaginn og þá má alltaf búast við hvelli í veðrinu. Reyndar er hvellurinn skollinn á og við Rúnar gefum okkur smá tíma til að renna yfir fallegustu hugsanirnar okkar, jólatrénu til halds og trausts

    Vísa vikunnar er enn og aftur eftir framsóknarfélag Skagastrandar F.S. Við Rúnar hefðum viljað hafa endi vísunnar þannig: Ein er eftir mig/ eigðu þig en við höfum bara ekkert um það að segja hvernig framsóknarfélag Skagastrandar yrkir hverju sinni.

    Margt fleira mætti tína til en einhversstaðar verður að setja punktinn og leggja upp í leitina að samhengi hlutanna. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi í jólahlaðborði í hádeginu í dag að sitja við hliðina á henni Gerði frá Kringlu og jafnframt rakst ég á hana Bóthildi (hún er Jóhanna af Örk Héraðshælisins) við sama tilefni og sagði hún að þau Rúnar væru búinn að setja saman vísu sem hér mun koma á eftir. Þegar ég skellti þessari staðhæfingu framan í Rúnar kom líka þessi fölleiti blær yfir ásjónu hans og má með sanni segja að fátt hafi verið um svör hjá þessum annars prýðispilti. Þegar að blóðið fór aftur að renna til höfuðsins hjá honum þá kom þessi líka frumlegi fyrripartur:

Margt er það sem miður fer
Og mætti fara betur.

Þar sem ég áttaði mig á því að kauði hafði týnt vísunni sem þau Bóthildur höfðu lagt í fyrr í morgun þá kom ég með þennan björgunarhring.

Dottinn er á desember
Drottinn, Jesús, Pétur.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 834
Gestir í dag: 427
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 62115
Samtals gestir: 11197
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 06:36:43