Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Febrúar

24.02.2010 14:40

Af Stefánum, stokköndum og Lalla lánlausa

    Það er kominn vetur um það er ekki lengur neinn ágreiningur. Allt er orðið hvítt og strákústurinn okkar í jarðhæðinni á Aðalgötu 8 er kominn aftur í notkun allt í kring um húsið. Snjótitlingarnir flljúga um í flokkum ef þeir eru nægilega margir (tilvitnun í Svantes lykkelige dag) í fæðuleit. Á eftir titlingunum fljúga síðan smyrlar og í leyni liggja velsældarlegir heimiliskettir. Svona er lífið.

   
    18 bræður öskudags virðast vera mættir til leiks. Að minnsta kosti eru 7 þeirra búnir að leika lausum hala að undanförnu og sér ekki fyrir endan á leik þeirra bræðra.


    Stefánar stinga saman nefjum í Aðalgötunni í góubyrjun. Annar er Hafsteinsson en hinn Pálsson

    Það snjóar jafnt í gamla bænum sem og fyrir utan á og stokkendurnar dorma á Blöndu svona eins og til þess að minna okkur á að það er til eitthvað annað og meira en fyrir utan og innan á, það er eitthvað þar á milli.

    
    Ég hef ekki séð gæsirnar fjórar í þó nokkurn tíma og hið sama má segja um vertinn á Ljóninu. Hann hefur ekki verið á svæðinu í langan tíma en þó sá ég honum bregða fyrir í Kringlunni fyrir rúmri viku þar sem hann sat í sínum station leigubíl og beið eftir viðskiftavini.  Sama er að segja um Erlend, hann hefur horfið á braut um stundarsakir til mikilvægra verkefna í öðrum héruðum. Ívar Snorri er líkt og svo margir aðrir í lámarki þessa dagana en hundurinn á Aðalgötu 2 er afar líflegur í bæjarmyndinni. Nonni hundur og Stefán eru á ferðinni líkt og venjulega og má segja að þeir séu hið eina fasta í tilverunni um þessar mundir.

    Þá rennir Rúnar í hlað á Súkkunni sinni og hinn eini og sanni Kostervals streymir frá honum með hjálp "Harmonikadrengene"  hinum líklega  dönsku.  Þetta var vel til fundið hjá Rúnari því hvað er kostulegra en kostervals  á frostköldum miðvikudegi í lok febrúar. Þetta yljar.

    Gluggi vikunnar er stútfullur af spennandi efni. Má þar nefna tónleika í kirkjunni til styrktar orgelsjóði og Blönduvision söngvakeppnin verður á sínum stað á árshátíðardagskrá í væntanlegum Blönduskóla.

    Karlakór Eyjafjarðar verður með söng- og hagyrðingaskemmtun í Félagsheimilinu á laugardaginn og verður þar telft fram nokkrum landsfrægum hagyrðingum. Bólhlíðingar ætla á næstunni að fara að syngja um Björn heitinn á  Löngmýri. Ekki er að efa að þar verði margt fróðlegt og skemmtilegt að finna, því fyrir þá sem ekki þekkja til þá hafði Björn Pálsson á Löngumýri ætíð lögin sín meginn í lífinu.

    Oddviti Skagabyggðar minnir okkur á  hinn áþreifanlega veruleika að fyrir dyrum stendur þjóðaratkvæðagreiðsla þann 6. mars um eitthvað sem í þessum pistlum er helst ekki nefnt á nafn. Kjörskrá sveitarfélagsins mun liggja frammi á Örlygsstöðum II frá og með 27. febrúar fram að kjördegi. Það er íhugunarefni hvers vegna aðrar sveitastjórnir á svæðinu auglýsi ekki líkt og Skagabyggð.

    Vísa vikunnar að þessu sinni er eftir hið margfræga spurningarmerki og fjallar um  limrusnillinga. Þetta segir okkur Rúnari bara eitt að það sé tími til kominn að setja saman svo sem eina limru til þess að glata ekki hinu dásamlegu tilfinningu og takti sem í henni býr. Hvernig væri bara að yrkja þetta algjörlega út í bláinn en með hliðsjón af því að góan er genginn í garð

Hinn lánlausi Lalli á Króki,
var látlaust í þoku og móki.
Þetta er síðasta sort
og eingöngu ort,
í algjöru gáleysi og djóki

    En við Rúnar verðum nú sem endranær að koma með samhengið sem heldur öllu spilverkinu saman og leyfum okkur þann munað að kasta þessu hér út í hrollkaldan veruleikann:

Fuglarnir fljúga  í haugum,
farinn er einhver á taugum.
Látlaust við spaugum og spaugum
svo sér ekki út úr augum.

 

17.02.2010 14:22

Óumbeðinn skilnaður

    Það er lítið að frétta af Vesturbakkanum þessa dagana og helgast það af því að ég hef lítið verið þar undanfarna daga. Þetta þýðir ekki það að ekkert hafi gerst þar því ég næsta viss um að svo hefur verið.

    Í morgun gerðist það að í fyrsta sinn á þessu ári að ljósin sem loga við útidyrnar voru slokknuð  þegar ég kom til vinnu.  Ljósin sem tengd eru nema sem skynjar birtuna af mikilli næmni voru sem sagt slökkt og segir það manni eitt að birtan sækir stöðugt á og af sama skapi hörfar myrkrið undan út í ystu myrkur.

    Að týna tölvunni sinni er ekki eftirsóknarvert, það er eitthvað svo vert að maður finnnur ekki orð til að setja framan við. Fyrst fer maður að hugsa um hið efnahagslega tjón en því get ég lofað að sú hugsum víkur smátt og smátt fyrir hinum miskunarlausu tilfinningum sem bærast innra með manni. Til dæmis tilfinningunni að hafa týnt ótölulegum fjölda af hugverkum sem ekki fást keypt í verslun. Þetta þekki ég núna á eigin skinni því fartölvan og ég urðum viðskila síðastliðinn föstudag í Reykjavík og höfum við ekki sést síðan. Þessi skilnaður var sár og algjörlega óumbeðinn en kannski má rekja hann til þess að vera ekki vakandi fyrir því sem manni er kært. Þegar maður týnir svona þá er eins og eitthvað tapist úr sálinni og má ugglaust líkja þessu við afar vægt áfall sem tengist missi vinar. Ég veit samt ekki hvort það er rétt, jafnvel boðlegt  að tengja svona atburði en þetta er engu að síður áfall sem ég varð fyrir og er þess valdandi að andinn, viljinn til að gera eitthvað skapandi sljóvagast mikið, það myndast eitthvað tóm sem maður veit ekki hvernig á að fylla. Sem dæmi um það þá verður þessi pistill í styttra lagi í dag en ég vona að eitthvað hressandi verði undir geislanum hjá Rúnari þegar hann kemur með Gluggann á eftir.

    Rúnar er kominn með Gluggann en ég missti algjörlega af því hvað Rúnar var að spila því ég var svo upptekinn af  því að koma Hafsteini Péturssyni í mynd eða réttara sagt að koma einhverri mynd á Hafstein. En þetta kom ekki að sök því einhver mesti polkadansari bæjarins og féhirðir á Skinnastöðum  fylgdi Rúnari sem skugginn inn um dyrnar á Aðalgötu 8. Svona menn bera skynbragð á takt og sveiflu og því algjörlega treystandi til að segja satt og rétt frá um gæði polkans.  Í mínum huga þá þýðir þetta bara það eitt að polkinn sem Familien Brix lék var ekki af verri endanum þegar saman fara inn um dyrnar Kristófer Sverris og Rúnar. En polkinn sem hljómaði um Aðalgötuna daginn fyrir afmælið mitt og daginn sem Jónas fer til útlanda,  var hinn eini sanni "Höggeröd polka" sænskur og seiðandi.

    En hvað segir Glugginn í dag?  Fréttatilkynning er frá biskupi þar sem hann biður um  að safna saman öllum  skjölum sóknarnefnda til að halda megi sem best utan um kirkjusögu landsins.   

    D-listinn, kúabændur,  Jón frá Torfalæk og golfarar ætla að funda  næstu daganna og svo verða söngskemmtanir og sitthvað fleira mætti frá segja.

    Vísa vikunnar  er á sínum stað og eftir Rúnar á Skagaströnd. Við Rúnar á Blönduósi tökum undir hvert orð í vísunni og teljum að yfirvöld eigi langt í land til að komast á stall með kúm.

    Rúnari varð töluvert um þegar ég sagði honum frá áföllum mínum og kom hann með þessa vísu á einu augabragði og studdi sig við vísubyrjun  sem honum  er einkar töm, jafnvel kær:

    Margt er það sem miður fer, 
    hjá mörgum Húnvetningum.
    Á morgun eldist einhver hér, 
    einn af  Blönduósingum.

    En samhengi hlutanna er og verður okkar skylda og undan henni verður ekki vikist. Sjálfhverfan ræður ríkjum að þessu sinni og því segjum við :

    Allt er hér í tómu tjóni,
    tilgangslaust að fjalla um það.
    Hörmung er þó mest hjá Jóni,
    hérna er það fest á blað.

10.02.2010 14:04

Á fallegum febrúardegi

    Þegar ég mætti til vinnu í morgun birtist skyndilega í ljósgeislanum frá bílljósunum, skjóttur hundur af einhverju skosku smalakyni. Ég varð að hafa á mér alla gát til þess að keyra ekki yfir greyið og þegar ég stöðvaði bílinn fyrir utan Aðalgötu 8 þá var sá svartskjöldótti kominn til þess að vingast við mig. Þegar ég sagði hvutta að fara til síns heima þá heyrði ég skyndlega hundgá mikla úr fjaska og greindi ég þá annan hund á gatnamótum Aðalgötu og Hnjúkabyggðar. Sá hundur var örlítið stærri og gulleitur að sjá í morgunskímunni og ekki eins mannelskur og sá svartflekkótti. Þegar dyrnar lokuðust á eftir mér og hundarnir á bak og burt þá heyrði ég gamalkunnugt gelt frá vini mínum Nonna hundi á hæðinni fyrir ofan. Svona getur nú mildur morgun í febrúar byrjað ef vel er að gáð.

Hundurinn á Aðalgötu 2 er vingjarnlegur og á örugglega eftir að gleðja gesti sem sækja hann heim

    Í gær var haldinn bæjarstjórnarfundur á hótelinu sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að litlu munaði að E-listinn þyrfti að kalla inn 14. og síðasta mann á lista til að sitja fundinn.  Ég var satt að segja nokkuð spenntur hvort af  þessu yrði því ég taldi að þetta hefði orðið einsdæmi í Íslandssögunni og því stórfrétt. En þegar klukkan sló fimm í gær og aðeins rúmlega það þá birtist skyndilega Þórhallur söngvari  Barðason 10. maður á E-lista á bifreið sinni í Aðalgötunni. Hann lagði bifreiðinni í innkeyrslunni að smíðaverkstæði Kráks sem áður gengdi hlutverki kryddverksmiðu og þar áður brauðgerð. Allur var Þórhallur vafin værðarvoðum og stefndi hægt en örugglega að dyrum hótelsins til móts við bæjarstjórnarfundinn. "Þar fór það" hugsaði ég með mér en velti samt yfir því vöngum hvort það hefði ekki verið öruggara að hafa gamla lækninn hann Sigurstein á fundinum þó ekki væri til annars en að hlú að Þórhalli blessuðum sem er búinn að vera lengi frá vegna einhvers krankleika.

    Það hefur lítið farið fyrir höfuðpersónum gamla bæjarhlutans síðustu daga. Það ég síðast veit er að Ívar Snorri á enn skúrinn góða sem hann keypti af Jónasi. Erlendur hefur lítið verið á ferðinni og skýrist það líkast til af því að hann er að vinna að skilti fyrir hinn nýja skemmtistað á Aðalgötu 2 sem nú er við það að verða að veruleika. Jónas Skafta sést lítið og er hann líklegast að undirbúa Evrópuferð sína sem mun hefjast sama dag og ég fagna afmæli mínu.  

    Rúnar rennir núna í þessum töluðu orðum í hlað með Gluggann. Hann er á rólegu nótunum að þessu sinni og hljómar úr laginu "Einlægni" eftir Svavar frá Öxl hljóma yfir kyrrláta Aðalgötuna. Menn verða stundum að slá af hinni kerfjandi sveiflu,  róa hugann og hugsa um eilífðina.

    Glugginn í dag er óvenju innihaldsríkur og greinir frá mörgu áhugaverðu. Bóthildur fer fyrir undirskriftarhópnum sem berst gegn miklum niðurskurði á fjármagni til Hælisins og kallar fólk til mótmæla fyrir utan sjúkrahúsið á föstudaginn kl 14.

    Mikið verður um að vera fyrir utan slökkvistöðina á Blönduósi á laugardaginn í tilefni af 112 deginum.  Ekki er að efa að Einar Óli mætir með gínuna sína og leyfir mönnum að hnoðast á henni. Nú og þarna ætti að gefast upplagt tækifæri til að sjá nýja slökkviliðsstjórann svo eitthvað sé nefnt.

    Hestamenn verða mikið á ferðinni næstu daga bæði á fundum og í keppni og það ætla konur í A-Húnavatnssýslu líka að gera en þó ekki fyrr en í mars.  Konurnar ætla að sletta úr klaufununum og í boði verður morgunmatur og sprell og máltíð þriggja rétta.

    Nýr þreksalur við íþróttamiðstöðina verður opnaður formlega á föstudaginn og segja mér fróðir menn að megin leiðarstefið í æfingaráætlunum verði það að koma Mumma (Guðmundi Haraldssyni) úr sporunum án þess að nota tunguna. Hinir sömu fróðu menn segja þetta eina metnaðarfyllstu æfingaráætlun sem hægt sé að ráðast í því erfitt sé að hagga Mumma sé sá gállinn á honum. En aðstaða til æfinga er svo sannarlega glæsileg og hún ein og sér ætti ekki að standa í vegi fyrir því að Mumma verði haggað.

    Eitthvað misfórst vísa vikunnar í síðustu viku þannig að vísa vikunnar er sú sama og síðast en bara rétt að þessu sinni. Nú ætti Guðmundur Valtýsson að geta tekið gleði sína á ný nema þessi vísa sé líka eitthvað mis með farin en Óla vegna vonum við Rúnar að svo sé ekki.

    Það sem einkennir okkur Rúnar er það að við förum aldrei vitlaust með vísurnar okkar þó svo þær geti verið vitlausar en það er nú allt annað mál og á hér ekkert erindi inn í umræðuna. En það sem við þurfum núna að gera á þessum milda miðvikudegi  er hið endalausa verkefni að finna samhengi hlutana því eins og flestir vita getur verið býsna snúið að finna það svo vel sé.

Senn verður sundlaugarverðinum haggað
og sællegar konur í suðurveg stefna.
Í baráttu-Bótu seint verður þaggað
og blessaða hundana verðum að nefna.

    Rúnar var mildur í geði og yfirvegaður í dag og yfir honum stóískur tregi. Meðal annars vegna þessa þá lögðumst við í andlegar "pælingar" og niðurstaðan var þessi:

Á fallegum febrúardegi,
friðurinn leitar á mig.
Ég skrifa það eins og ég segi,
skoðaðu sjálfan þig.

03.02.2010 14:24

Sólin, skipulag og afmælisvísur

    Sólin skein í fyrsta sinn á þessu ári inn um gluggan til mín kl 1053 í gær. Hún náði að lyfta sér yfir gamla Krútt bakaríð og senda mér geisla sína með kærleiksríku brosi og þakklæti fyrir síðast. Í dag skein sól aftur inn um gluggann  og þá örlítið fyrr og benti mér jafnframt á að úti væri kalt en en ákaflega stillt og fallegt veður. Ef ekki væri fyrir Þorsteinshús þá hefði  sólin líka hellt geislum sínum yfir Jack Daniels, Jameson og þá bræður svo þeir gætu betur notið sín í sínum gullbrúna lit .

    Það var ekki eingöngu sólin sem kom í heimsókn í gamla bæinn í gær því það gerði einnig nýtt skipulag fyrir Blönduós. Þessu skipulagi fylgdi allnokkur mannsöfnuður, sumir til að útskýra aðrir til að hlusta og leggja eitthvað til málanna.  Fundurinn fór rólega af stað og voru menn upplýstir um helstu breytingar sem á skipulaginu verða.

    Margt athyglisvert kom fram en það sem hryggði mig mest er að búið er að blása af þá hugmynd að setja göngubrú á ósinn. Það er sem sagt búið að girða fyrir að tengja saman á skemmtilegan hátt, bæjarhlutanna sitt hvoru meginn við Blöndu. Ég trúi því samt að það hljóti að vera hægt að blása aftur lífi í þessa hugmynd.

    Vegagerðin kynnti nýjan Skagastrandarveg sem liggja mun nokkru austan við núverandi Neðribyggðarveg. Vegagerðin kynnti líka hugmynd um hina svokölluðu Húnavallaleið en hún gengur út á það að stytta vegalendina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 13,7 km .  Þessi stytting felur líka í sér að færa þjóðveg eitt frá Blönduósi og hefst þessi afvegaleiðing við bæinn Brekkukot undir Axlaröxl. Í stuttu máli þá má segja það að heimamenn tóku þessari hugmynd afar fálega og er þá vægt til orða tekið. Óþarfi er að rekja þennan fund mikið meira en rétt að geta þess að helstu forkólfar og baráttumenn í gamla bænum voru mættir og héldu hagsmunum bæjarhlutans vel á lofti.


    Hér má sjá eins og fyrr er getið helstu forkólfa og baráttumenn í gamla bænum þá Erlend Magnússon, Friðrik vert á Aðalgötu 2 og Ívar Snorra útgerðar- og tónlistarmann á skipulagsfundi í gær. Fleiri góða menn má sjá á myndinni en þeir búa ekki á hinum eiginlega Vesturbakka sem telst láglendið fyrir neðan Brekkuna og verða ekki nafngreindir að sinni.

Það er gaman að segja frá því að rétt áður en Rúnar kom birtist í gættinni hjá mér Erlendur þúsunþjalasmiður svona til að tryggja það að ég myndi ekki gleyma honum í umfjöllun dagsin. Reyndar sagðist hann hafa áhyggjur af því hvað ég myndi segja en ég held að það sé nú bara yfirvarp.

    Hér má sjá forseta vorn hann Valgarð Hilmarsson fara yfir skipulagsmálin með Erlendi Magnússyni.Greinilegt er á öllu að málin eru rædd af mikilli alvöru og festan í fyrirrúmi.  Í baksýn eru höfuðstöðvar AA á Blönduósi sem Erlendur vill breyta í fuglaskoðunarhús.
 
    En Rúnar er kominn og með honum í för voru líkt og í síðusu viku, Harmonika drengene en þeir léku "En sang fra Tyrol" að þessu sinni. Það var  vel við hæfi því fjöllin allt í kring minna á Alpana uppljómaða í vetrarsólinni.

    En hvað er segir blessaður Glugginn í dag, daginn eftir hreinsunardag Maríu.

    Samfylkingin, framsóknarflokkurinn og hið eina sanna leikfélag Blönduóss boða til funda. Það er ekki laust við það að við gleðjumst töluvert innra með okkur við Rúnar þegar við sjáum að Leikfélagið ætlar að setja aukinn kraft í starfsemina. Við kjósum báðir  Leikfélagið til forystu í leikhúslífi bæjarbúa.

    G.V. sem við Rúnar höldum að sé enginn annar en hinn landsþekkti hagyrðingur, hestamaður og lífskúnstner Guðmundur Valtýsson kenndur við Bröttuhlíð, sé höfundur vísu vikunnar.  Þar fjallar Guðmundur á þjóðlegan og hrifnæman hátt hvernig leikið er með sjálfstæði þjóðarinnar.

    Hreppaþorrablótið verður haldið laugardaginn 13. febrúar.  Við vitum það við Rúnar að þar verður engum sveitamanni hlíft og menn barðir að þolmörkum.  Það er afar skynsamlegt af undirbúningsnefnd að fá síðan hljómsveit sem ber nafnið í sjöunda himni til að ljúka blótinu.

    Rúnar var svo "inponeraður" þegar hann kom og sagðist vera búinn með vísnakvótann því hann hefði ort svo fallega vísu í Samkaupum í morgun. Tilefnið var að  Arna  á afmæli í dag og Vallý á morgun. Rúnar orti undir veisluborðum í Samkaupum uppljómaður og tendraður með súkkulaðikrem um allt neðanvert andlitið og rjómaklessu á hægri augabrún.

Arna og Vallý unglegar
eru um þessar mundir.
Ljúfar, hressar, laglegar
og léttar þeirra lundir.

    Vissulega er þetta fallegt hjá Rúnari og lýsir honum vel en einhvernveginn finnst mér þó að hann ætti að eiga eins og efni í eina visu til viðbótar því bæði er að veðrið gefur tilefni til og síðast en ekki síst þá bara finnst mér það.

    En hvað um það við verðum að koma auga á samhengi hlutanna, leggja saman tvo og tvo og fá út þá útkomu sem hentar okkur.

Guðmundur Valtýsson varpar fram stöku
um vammlausa þjóð í vanda.
En Rúnar étur af afmælisköku
í upphöfnum hátíðaranda

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 826
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 63109
Samtals gestir: 11248
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 19:41:39