Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Mars

30.03.2010 15:30

Vorboðinn ljúfi og lille sommerfuglen

    Fréttir úr gamla bænum eru af skornum skammti að þessu sinni, einfaldlega vegna þess að lítið er að frétta. Jónas vert er reyndar nýkominn norður sem og Erlendur Magg  þannig að nú fara hlutirnir að gerast.
 

    Ívar Snorri útgerðarmaður er enn bátlaus eða eins og segir í vísunni okkar, kænusnauður. Þessi margreyndi sægreifi er kominn í hundana eins og glöggt má sjá á þessari mynd sem hér fylgir. Þeir félagar hafa ekki enn náð að smala gráa kettinum hans Einars Ara og má ólíklegt teljast að það takist í bráð því varðhundur sægreifans þarf að stækka tölvert svo af því geti orðið

    Lille sommerfugl með harmonikka drengene var það eina sem ég heyrði þegar ég tók beygjuna af Hnjúkabyggðinni inn á Aðalgötuna. Var ekki Rúnar mættur með Gluggann á þriðjudegi og ég gersamlega óundirbúinn með ritningu vikunnar. En spila lille sommerfugl og jörð alhvít og og vetur í kortunum. Það er enginn nema Rúnar sem lætur sér svona lagað til hugar koma og það er einmitt þessvegna sem hann getur umborið mig. Aðspurður um þessa hegðun þá sagðist hann hafa heyrt að lóan væri komin til landsins og örfáar gæsir eru farnar að sjást.

    En hvað segir Glugginn sem er degi fyrr á ferðinni en venjulega. "dagur húnvetnskrar náttúru" er kynntur til sögunnar og er ekki vafi á að margir muna þar hafa af bæði gagn og gaman því fátt er leiðinlegra en náttúrulaus húnvetningur.

    Sonur minn og nokkrir piltar í svörtum fötum ætla að leika fyrir dansi í félagsheimilinu á laugardaginn og efumst við Rúnar ekki um að þeir félagar munu taka eitthvað af uppáhalslögunum okkar með Harmonikka drengene og Familien Brix.

    Maggi á Hnjúki ætlar að leggja í enn eina ferðina með kúabændur út fyrir sýslumörkin. Nú er ferðinni heitið í Dalina og er engin efi í okkar Rúnars huga að lagið undir dalanna sól verður sungið að minnsta kosti tvisvar og mjög líklegt að Magnús muni að minnsta kosti einu sinni syngja einsöng í laginu með sinni hreinu og björtu fjallatenórsrödd.  Ekki er ólíklegt að hann muni ennfremur segja eina til tuttugu sögur af bændum og búaliði sem búa við veginn sem rútan fer um.

    "Á svið" verður sýnt um páskana og er enginn svikin af því verki og hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið til að sjá krakkana skila prýðisgóðum farsa til áhorfenda.


    Vísa vikunnar er á sínum stað og núna er það einhver E.A. sem yrkir. Við Rúnar gengum á Bebbí sem reyndar ber skammstöfunina E.Á. og spurðum hana. "Nei, ég vil ekki eiga hana" sagði hún og er hér með úr sögunni. Kannski er þessi vísa eftir Einar Arason í Aðalgötunni  en hann ber millinafnið Sigurbergur en látum það liggja milli hluta í bili. En E.A.  leggur fyrir hönd þjóðarinnar brauð í greipar lýðsins. Okkur datt nú bara Einar í hug því í vísunni er lagt út frá fiskum og brauði og um þetta er fjallað þegar Jesú mettaði 5.000.

    Og sjá! Þegar við lítum yfir baksíðuna þá trónir ljónið þar efst á síðu undir sæmdarheitinu "Vorboðinn ljúfi" . Um Jónas á Ljóninu er endalaust hægt að fjalla og datt okkur Rúnari í hug þegar við sáum að Blönduósbær auglýsir eftir starfsmanni til sumarafleysinga hvort  ekki væri tilvalið fyrir Jónas vert að sækja um. Þetta mundi hafa í för með sér mikið hagræði að minnsta kosti fyrir Jónas því stutt væri í bæjarstjórann og byggingafulltrúann og hann gæti þar að auki  skrifað bréf til bæjarins og vistað þau innan húss.

    En nú skal á að ósi stemma og koma böndum á samhengið sem að þessu sinni gæti orðið nokkuð snúið.  Kemur þar margt til og geta þeir sem nenna að lesa þetta skilið það og þann mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir. En kjarkmenn eins og við Rúnar erum, ríðum á vaðið alls óhræddir.

    Við Rúnar horfum fram á veginn  en tökum mjög alvarlegt tillit til vísu vikunnar þegar við yrkjum þetta í limruformi :

        Landið  er skorið af sænum,
        og sægreifinn snauður af kænum.
        En frið fær í sál
        og það leysast  öll mál
        er Jónas fær vinnu hjá bænum

    Gleðilega páskahátíð óskum við ykkur öllum.

24.03.2010 14:39

Súsanna, Sigríður og Berlína

    Núna er það staðreynd að dagurinn er lengri en nóttin og einmánuður er byrjaður. Við erum sem sagt búin að þreyja þorrann og góuna. Í gær var heitdagur sem mun vera áheitsdagur í vetrarlok þegar erfiðlega áraði. Þessi dagur var afnuminn með tilskipun árið 1744 sem ég held að hafi verið mistök því ég er viss um að gott hefði verið að eiga svona dag inni til þess að eygja einhverja von þegar stöðugleikasáttmálinn lekur út í buskann í skötuselslíki.

    En einmánuður er byrjaður og það þýðir bara eitt að sumarið nálgast og Jónas Skafta kemur norður með grágæsunum. Jónas vert á Ljóninu er á leiðinni og það er ávísun á stanslaust fjör á Ljóninu yfir páskana. Ég sá Jónas í skötulíki á mánudaginn og harmaði hann mjög fyrir hönd bæjarstjóra að þeir hefðu ekki hittst en það það koma víst aðrir dagar eftir þennan mánudag sagði minn maður.  Jónas bað mig sérstaklega að koma því á framfæri að hann yrði heima yfir páskana og gleðin og þjóðlegir siðir yrðu við völd  á Ljóninu á meðan dvöl hans stæði. Nefndi hann meðal annars að "Ekkert málbandið" myndi standa fyrir uppákomu á miðvikudagskvöldið fyrir skírdag. Ég spurði Jónas hvort Ívar Snorri væri í bandinu en hann sagði svo ekki vera því Ívar væri ekki enn kominn með bongótrommur og því væri ekkert pláss fyrir hann á Ljóninu með trommusettið.  Þannig að nú liggur ljóst fyrir að Ívar Snorri þarf að fara að fjárfesta í litlum trommum svo hann verði gjaldgengur skemmtikraftur á Ljóninu.

    Talandi um skemmtanir í gamla bænum þá flaug í gegnum hugann eina augnabliksstund hvort baðkarið sem stendur fyrir utan hjá Siggu Gríms eigi að gegna einhverju skemmtana hlutverki. Það var í gamla daga þegar við vorum ekki orðin eins meðvituð um hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að sjá berrassaða konu og þá einkum og sér í lagi fyrir konur sem aldrei hafa séð karla horfa á berrassaðar konur. Mér kemur út af þessu í hug ein ágæt kona sem fór fáklædd um landið og baðaði sig. Mig minnir að hún hafi borið nafnið Súsanna og gert það bara nokkuð gott. 
    Já það er baðker fyrir utan hjá Siggu Gríms og þar sem fara núna í hönd miklir gleðidagar í gamla bænum í tengslum við viðveru Jónasar Skafta á Blönduósi yfir páskana er ekki ólíklegt að af þessu tilefni muni Sigríður baða sig á Brimslóðinni líkt og Súsanna forðum . Mér finnst nú allt í lagi að hugsa þetta upphátt því ég veit að þetta mundi vekja örlitla athygli en þegar maður fer að hugsa þetta lengra þá gæti þetta haft þær afleiðingar að Ejólfi bónda yrði stungið inn fyrir mansal því það er víst búið að banna allt svona með lögum.

    Þetta minnir mig á það að fyrir lifandis löngu þá kom hér fljóð sem kallaði sig Berlínu og fór að dansa léttklædd fyrir mig, Ella frá Giljá og þó nokkuð fleiri á hótelinu.  Einhverra hluta vegna voru nú eiginkonurnar ekki með og getur það stafað af því félgsstarfi sem við vorum viðriðnir. Berlína dansaði og fékk hún einn og einn út á gólfið til að dansa við sig. Sérstaklega man ég eftir einum sem dansaði af  slíkum fimleika að jafnvel Berlínu þótti nóg um, þá varð einum áhorfanda að orði:

Hún Berlína oss berlega kenndi
er blíðlega hendinni renndi
um malir og hupp
og allt lauslegt fór upp,
að gott væri að taka til hendi.

    En ekki meira um skemmtanahald í gamla bænum að sinni heldur er rétt að fara að snúa sér að alvöru lífsins því það er nú hún sem gefur gleðinni gildi.

    Þegar þessar línur eru ritaðar fer ég að velta því fyrir mér hverjir skyldu nú vera undir geislanum hjá Rúnari þegar hann kemur með Gluggann eftir hádegi. Harmonikka drengene,  Familien Brix eða einhverjir aðrir stórbrotnir listamenn? Þegar ég velti þessu fyrir mér þá er ég ekki frá því að fyrrnefndir harmonikkuleikarar hafi nær einokað geislaspilarann í Súkkunni hjá Rúnari undanfarna mánuði. Það verður spennandi að hlusta á eftir hvort kallinn bryddi upp á einhverri nýjung, hvort hann hafi fundið nýja listamenn til að auðga gleðina í gamla bænum. 
    Og viti menn, detta ekki allar dauðar lýs úr höfði mér. Hér er Rúnar mættur  með
"allra meina bót" eftir Bjarka Árnason í flutningi Bátsmansstríósins frá Siglufirði. Þetta kom virkilega skemmtilega á á óvart og og tengist því líklega að Rúnar er nýbúinn að eiga afmæli. Ég færði þetta í tal við hann og svaraði hann að bragði

Margt er það sem miður fer
og margir ættu að vita.
Einstakur ég alltaf er,
ég segi það og rita.

    En hvað segir Glugginn í dag? Tónleikar verða í kirkjunni á laugardaginn til styrktar orgelinu og leikfélagið verður þá búið að frumsýna leikritið "Á svið" Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar um meyjuna fríðu sem er farin full af blíðu og trega. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort þetta tengist eitthvað baðinu hjá Siggu og nýsettum lögum um að ekki megi lengur dansa nakin.  En hvað vitum við um það aum karlrembusvínin sem ekkert sjáum nema naflan á okkur sjálfum. En hver er þessi T.S sem yrkir, það vitum við ekki með vissu en það má svo sem giska út í loftið. Við vörpum því svona fyrst í stað út að þetta sé vísa ættuð úr Svartárdal og Torfi sé höfundur hennar.

    En samhengið hangir  yfir okkur eins og hvolpafull tík svo ekki verður undan því komist. Samhengið að þessu sinni hlýtur að vera eitthvað á þessa leið um leið og við rennum niður gómsætri pítsunni frá honum Vigni í ríkinu.

Jónas er þannig úr garði gerður,
grár og fullur af allskonar gátum.
Í Ljóninu fögnuður vegna þess verður
að viðstöddu fjölmenni í gleðilátum.

 

17.03.2010 14:29

Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör

    Vorið er að koma á því leikur engin vafi. Þetta sést m.a. af því  að straumöndin er farin að leita úr brimrótinu  upp í Blöndu og farin að sjást í hópum við flúðirnar þar sem Kastionklöppin er mitt á milli austur- og vesturbakkans.  Annað merki þess að vorið er í nánd  er að álftirnar eru farnar að koma og það sem meira er þá er skógarþrösturinn farinn að syngja. Þetta finnst mér nú vera helst til of snemmt fyrir minn smekk því við hjónin erum vön því að skógarþrösturinn fari að syngja þann 31. mars ár hvert. Eitt er þó gott við þetta allt saman en það er að jörðin hún snýst og vorið kemur aftur í dal með öllum sínum fjölbreytileika  þrátt fyrir misgáfulegt veraldarbrölt okkar mannanna.

    "Yfirskegg eru eins og druslulegar mottur framan í andliti hins dæmigerða íslenska karlmanns. Hann verður fremur ófrýnilegur á að sjá og konur forðast að horfa lengi á andlit hans. Skyndilega verður ljóst að skegglausir karlmenn eru hin sönnu karlmenni. Það sést í andlit þeirra, sem skiptir óneitanlega máli. Og þetta eru yfirleitt fremur greindarleg og snotur andlit, ekki sauðarleg eins og andlit mottumannanna."  Þetta las ég í laugardagsmogganum mínum og ef satt skal segja fannst mér þetta ekki sérstaklega skemmtileg byrjun á annars meinlausum degi. Ekki bætti úr skák að konan hafði nýlega spurt mig hvort hún mætti ekki henda náttbuxunum mínum sem ég hef átt í 15 ár. Jánkaði ég því eftir töluverða eftirgangsmuni en þá sagði minn betri helmingur alveg upp úr þurru. "Það má nota buxurnar í klúta til að bóna bílinn. Þú ert svo gasalega duglegur við það". Ég átti víst að skilja sneiðina en ákvað að snúa mér alfarið að brauðsneiðinni sem ég var að borða með morgunteinu og skammast við Kolbrúnu Bergþórsdóttur  út af viðhorfum hennar til skeggvaxtar á efri vör karlmanna. 
    Það er með hreinum ólíkindum hvernig hægt er að leika einn sára saklausan karlmann á sextugsaldri við morgunverðarborðið, grátt og það á laugardegi.  Í stuttu máli stóð ég frammi fyrir því að vera álitinn fremur ófrýnilegur maður sem konur forðast að horfa lengi á og þar að auki slaklegur bónmaður. Látum það liggja milli hluta að vera talinn slakur með bóntuskuna en sauðarlegur og ófrýnilegur sem konur forðast að horfa á það er eitthvað sem þungbært má teljast. Ég hef borið mitt yfirskegg svo lengi sem ég man og alltaf talið mig vera augnayndi. Það sama hefur konan að mig minnir einhvern tíma sagt og gott ef dóttir mín ekki líka. En það verður ekki sagt um mig að ég láti erfiðleikana slá mig út af laginu og þennan laugardagsmorgun komst ég í gegnum eins og alla hina með Guðs og góðra manna hjálp en það skyldi Kolbrún hafa í huga þegar ég horfi á Kiljuna í kvöld að það er einn þarna úti með snotra mottu sem tautar fyrir munni sér. "Assskoti myndi Kolla fríkka ef hún safnaði skeggi".

    Í fundargerð bæjarstjórnar fyrir skömmu mátti lesa að Þórhalli Barðasyni var þakkað sérstaklega fyrir Húnahátíð.  Bókunin var svona "Bæjarstjórn þakkar Þórhalli Barðasyni gott starf við skipulagningu Húnahátíðar sumarið 2009. Samþykkt 7:0" Þeir sem eitthvað fylgjast með bæjarlífinu, já svona lífinu yfirleitt ráku í þetta augun og fóru að velta þessu fyrir sér. Hér hefur verið haldin Húnavaka undanfarin sumur en enginn sem ég þekki kannast við fyrirbrigðið Húnahátíð. Þetta gekk svo langt að rata í nokkra héraðsfréttamiðla og að minnsta kosti einn Baugsmiðil.  En það skemmtilega við þetta allt var það að þessi uppákoma varð til þess að Ágúst Þór Bragason bæjarfulltrúi fór að yrkja og sendi Auðni Húnahorni (huni.is) eftirfarandi vísu.

Villan þín ratar um víðan völl,
aðrir miðlar eftir taka.
Losum nú Húnahornið við þann hroll,
að vera úti að aka.

    Eigi skal vísu dæma heldur virða viljan fyrir verkið og er Ágúst hér með boðinn velkominn í hóp okkar sem látum allt flakka í þágu fögnuðar og frelsis.


    Núna rennir Rúnar í hlað á rennilegum jeppa og hefur í hendi fréttablað hvar í er engin kreppa. En Rúnar var samur við sig og úr bifreið hans hljómaði sem fyrr tónar frá Harmonikka drengene og spiluðu þeir aldrei þessu vant lagið "Snart er du mer end 17 år" sem er eldfjörugur polki sem Kristófer og Anna Gunna gætu hæglega snúist eftir og ef í harðbakkan mundi slá þá væri hægt að marsera eftir laginu.

    Fundir og kórsöngur eru farnir að setja svip sinn á allt mannlíf, enda vorboðar líkt og hækkandi sól og vaxandi fuglalíf. Um þetta má lesa í nýjasta Glugganum sem nú er kominn í hús eins og fyrr greinir.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar í stuttu máli um þá sem slöfruðu í sig gróða af mikilli fíkn og er þeim líkt við gufugleypa. Reyndar kemur Rúnar á Skagaströnd þessu fyrir í orðum á mun smekklegri hátt  í dýrt kveðinni vísu.

    Við Rúnar erum menn ábyrgðarinnar og festum ávallt hönd á samhengi hlutanna og í hlutarins eðli hlýtur það að felast að þessu sinni í skegginu á efri vörinni. En spurningar lífsins eru margar og er mörgum þeirra erfitt að svara eins og Ari komst að á sínum tíma.

Kunn er sú spurning er kraumar á vör,    
kemur hænan á undan egginu.
Þegar stórt er spurt er oft fátt  um svör,
sagði Jón og strauk eftir skegginu.

    En eins og flestir vita þá felst hamingjan í því að vita hvert skal halda og stjórna sinni för að mestu án þess að hlaupa eftir skoðunum og tískustraumum  misviturra manna. Hver er sinnar gæfu smiður og sá sem hefur sálarþrek að fara sína leið með sjálfsvirðingu og bjartsýni að leiðarljósi getur ráfað um meðal alþýðunnar með skegg á efri vör.

Það sannast og sýnist oft best,
að stýra sjálfur förinni.
Og vita að þinn styrkleiki sést
í skeggvexti á efri vörinni.

10.03.2010 15:21

Að eiga vin og forðast pytti

    Vertinn á Ljóninu gerði vart við sig í gær og leitaði frétta af Vesturbakkanum.  Eins og liggur í hlutarins eðli þá sagði ég honum fátt því lítið er að frétta. Ég sagði honum reyndar að þeir væru að æfa hljómsveitina "Ekkertmálbandið"  á sportbarnum þeir Ívar Snorri, Rúnar og Árni Þorgils og væru bara orðnir fjandi góðir. Það runnu nú tvær grímur á leigubílstjórann og vertinn á Ljóninu og fékk hann það á tilfinninguna að nú væri Árni og félagar að bregðast sér því fyrir dyrum um páskana stendur að halda mikið húllumhæ á Ljóninu og var hugmyndinn að Ekkertmálbandið væri uppistaðan í því. "Nei! Árni bregst mér ekki" sagði Jónas loksins og bætti  svo við. "Þær fara nú að gerast fréttirnar á Vesturbakkanum þegar ég sný heim á ný um páskana". "Ætlar þú að fara að atast eitthvað í bæjarstjórninni" sagði ég si svona og byggði á fyrri reynslu minni af Jónasi. "Það getur vel verið Jón, en fyrst og fremst ætla ég að einbeita mér að gleðinni og uppákomum á Ljóninu" sagði þessi  bjarthærði vert og bætti við áður en samtali lauk. "Ég ætla að fá mér kött fyrir afastelpurnar mínar með vorinu".

    Ég sagði frá því fyrir skömmu að ég hefði eignast leynivin nánast bara upp úr því að segja þurru. Þessi leynivinur virtist vera starfandi á Héraðshælinu og hann færði mér gjöf. Það verður bara að játast að þetta litla vinarþel úr óvæntri átt gladdi hreint ótrúlega mikið. Minn betri helmingur sem vinnur á sömu stofnun og leynivinur minn komst að því hver hann var og spurði mig við kvöldverðarborðið um daginn hvort ég hefði einhvern grun um hver minn leynivinur væri.  Ég hugsaði mig um í smástund og sagði síðan. "Þetta hlýtur að vera hún Bóta. "Hversvegna heldur þú það "  sagði kona mín og sá ég vegna áratuga reynslu á svipbrigðum hennar og hvað þar liggur á bak við að ég hefði farið nálægt sannleikanum. "Nú einfaldlega vegna þess að ég held að Bótu þyki pínulítið vænt um mig". Þetta var svo ekkert rætt frekar og ég fékk mér aftur á diskinn, þessa líka yndislegu gúllassúpu.

    En allar sögur hafa endi og þessi saga um leynivinin fékk skemmtilegan endi í gærdag. Ég var í óðaönn að gera ekki neitt þegar Bóthildur Halldórsdóttir, baráttukona og Húnvetningur ársins 2009  birtist í dyrunum sposk á svip. Til að gera langa sögu stutta þá sagði ég Bóthildi hvað ég hafði sagt minni konu og Bóthildur sagði einfaldlega að allt væri þetta satt og rétt hjá mér. Af þessu tilefni kveikti hún á einu kerti á skrifborðinu hjá mér og smellti á mig einum kossi, kvaddi og hvarf sömu leið og hún kom. Nú var leynivinurinn opinber og búinn að leggja væna fúlgu inn í gleðibanka minn. Ég er orðinn nokkuð viss um að svona lagað sé uppskrift að góðum degi. Gjöfin sem leynivinurinn færði mér og þið getið séð mynd af í pistlinum á undan hefur fengið sess við hliðina á Liverpoolkönnunni uppi á hillu fyrir ofan eldhúsvaskinn. Það er staður við hæfi því þá hefur maður góða  ástæðu til að lyfta höfðinu upp frá uppvaskinu og hleypa notarlegheitum inn í sálina.

    Litlu munaði að stórslys yrði þegar ég kom til vinnu eftir hádegið. Ég var örlítið seinn fyrir og þegar ég kom, beið mín bifreið frá Vörumiðlun og sat Sigurjón nokkur ættaður frá Rútsstöðum undir stýri með 7 kassa af víni með sér. Henti hann í mig bunka af Gluggum sem Rúnar hafði beðið hann fyrir í Aðalgötu 8. Hafði hann uppi þau orð við Rúnar að ég væri veikur heima og fór Rúnar heim til sín dapur í bragði  með þau tíðindi.  Ég lét það vera mitt fyrsta verka að hringja í Rúnar og kalla hann á minn fund því ég væri í fullu fjöri á skrifstofunni og miðvikudagshugvekjan biði . Ég hringdi í gemsann hans sem hann geymdi út í bíl náttúrulega  og heyrði því eðlilega ekkert í honum. Hringdi ég þá í góða gamla heimilissímann í Sólheimum og náði fyrir rest í skottið á Rúnari og hann kom kallinn líkt og byssubrenndur  og öllum á óvart hafði hann með sér "Höggeröd polkann" sem Familien Brix leikur af svo mikilli list. Það er þó eitthvað sem segir mér að ég hafi heyrt þetta lag áður á mildum miðvikudegi.

    Glugginn er með látlausu yfirbragði þessa vikuna en þó rákum við Rúnar augun í orðið "bætiefnafötur" fyrir ýmis húsdýr  á góðu verði. Yfir þessu veltum við vöngum smá stund og létum okkur detta í hug hvort ekki mætti fara að selja bætiefnadiska fyrir mannskepnuna því með því ynnist að minnsta kosti tvennt. Maður fengi vítamín í kroppinn og losnaði við uppvaskið.

    Það er mikið um að vera í Bæjarblóminu. Það hrúgast þar inn sálmabækur, gestabækur og von er á vorlaukunum  og E-listin hugsar sér til hreyfings en ekki í Bæjarblóminu það best við vitum.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og getum við Rúnar okkur þess til að hún sé eftir Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli.  Þetta er hlýleg vísa ort um tunglið og hreinleika þess í til þess að gera gruggugu umhverfi nútímans.

    En alvaran fer ekkert og samhengi lífsins  ekki heldur. Hérna sem við sitjum með gúlann fullan af pítsu sem Ríkis-Vignir færði okkur,  verðum við að koma auga á alvarleika lífsins og koma honum til skila til alþýðunnar.

Ætíð við forðumst  pyttinn þann fúla
sem felst í leiða og sút.
En yfir pítsu með gapandi gúla
úr gosflösku súpum af stút.

04.03.2010 13:52

Ljúft er að eiga leynivin


     "En þó við Rúnar eigum enga leynivini sem ku vera mikilvægt að eiga til að efla andann innan fyrirtækja, blása fólki kapp í kinn jafnframt því að þroska kærleika og umburðarlyndi í starfi þá þurfum við samt að finna samhengi hlutanna. Ástæða þess að ég á engan leynivin er sú að ég starfa einn en ég gæti nú hugsanlega komið mér upp leynivini utan starfsins en ég er ekki viss um að það væri vel liðið heima hjá mér."
    Þetta sem að framan er ritað skrifaði ég í pistli mínum í gær og í framhaldi af þessum skrifum kom þetta:




    Sem sagt nú er ég búinn að eignast leynivin og það sem meira er, þá veit konan mín ekkert hver hann er. Þetta fékk ég frá mínum leynivini í morgun eftir krókaleiðum. Konan mín sem á leynivin bar mér þetta út úr Héraðshælinu með þessa líka yndislegu utanáskrift.  Þó ég væri vís með að hafa gert þetta allt sjálfur í þeim augljósa tilgangi að sletta framan í alþýðuna sjálfbirgingshætti, þá er svo ekki í þessu tilfelli.   
    Ef satt skal segja þá er bara gaman að eiga leynivin sem veit hvar hjarta mitt slær í enska boltanum og hefur um mig hlý orð og nú mun ég sæll og glaður bryðja sykurlausar Liverpoolmintur meðan konan mín snæðir leynivinakvöldverð á hótelinu á morgun.
Takk leynivinur, ég er hrærður! og læt þetta líða út í loftið:

                Ljúft er að eiga leynivin
                og láta hugann reika.
                Í sjálfumgleði vís´ upp styn
                um sjálfs míns eiginleika.

03.03.2010 14:08

Góður miðvikudagur

    Ég hitti þá feðga Jón Sigurðsson hund og Stefán fyrir utan gömlu kirkjuna þegar ég kom til vinnu í morgun. Það voru nokkrar hitagráður í suðvestan vindinum sem lék um vangana og ef satt skal segja þá lá bara nokkuð vel á okkur.  Jón hundur eða Nonni eins og við köllum hann var yfirvegaður og laus við öll óþarfa gleðilæti og tók mér eins og hverjum öðrum miðvikudagsmanni. Við Stefán vorum sammála um það að myndataka að morgni miðvikudags sem þar að auki er Jónsmessa Hólabiskups  á föstu, væri góð byrjun á degi. Með þetta veganesti axlaði ég myndavélina og hélt inn í mitt "kammersi" til þess að takast á við verkefni dagsins.


    Það var aðeins liðið á morguninn og ég búinn að skrifa innganginn að þessum pistli þegar hið óvænta gerðist. Rafmagnið fór og inngangurinn líka. Ég hélt ég væri búinn að fá minn skammt af því að týna gögnum undangengna daga en svo reyndist ekki vera. Núna ýti ég á "save" takkann á tölvunni til að vista gögnin reynslunni ríkari og held áfram með pistilinn þar sem frá var horfið.

    Af vesturbakkanum er lítið að frétta að minnsta kosti sem flokka má sem stríðsfréttir en það er alltaf líf í kringum þær Gunnu og Bryndísi á Hótelinu og svona í framhjáhlaupi má geta þess að eldriborgara kórinn ætlar að syngja fyrir nokkra höfuðborgarbúa á hótelinu á föstudaginn. Nokkuð er ég viss um að hundarnir í Aðalgötunni muni legga við hlustir og hætta að veitast að bifreiðum sem um veginn fara meðan á tónleikum stendur. Það skal strax tekið fram að Nonni hundur á þarna engan hlut að máli en hundarnir sem tengjast hinum nýja sportbar á Aðalgötu 2 eru ekki eins veraldarvanir.

    Talandi um sportbar á Aðalgötu tvö er vert að geta þess að einhver gálaus maður sem leið átti upp í Vörumiðlun um daginn sá að verið var að byggja eitthvað inni í  vörumóttökunni og spurði í einfeldni sinni hvað væri verið að smíða. "Við erum að byggja kaffistofu" var svarið. Hinn gálausi maður sem varpaði fram spurningunni var litið í rúmgott fiskiker sem stóð við hliðina á hinni væntanlegu kaffistofu og sá að það var hálffullt af bjórdósum og það óopnuðum. "Það verður líklega drukkið eitthvað fleira en kaffi á nýju kaffistofunni"  sagði sá gálausi af algjöru gáleysi og uppskar eins og hann sáði. Þær rísa víða bjórstofurnar í bænum þessa dagana.

    Það er orðið dálítið síðan ég sá gæsirnar fjórar á túninu vestan við Ólafshús og var ég farinn að óttast svolítið um þær. Í fyrradag hitti ég ágætis mann sem sagðist hafa séð þær um helgina en þá hefðu þær einungis verið þrjár. Ég fór nú að skammast í huganum út þá þá öskudagsbræður. Þeir hefðu stútað fyrir okkur 25% af vetrar gæsastofni okkar og var bara nokkuð þungt í kalli. Þá álpaðist ég til þess að fara að hugsa sem sumir segja að ég geri of lítið af og komst þá að því að þeir öskudagsbræður hefðu að flestu leiti hagað sér vel þó svo nokkrar undanteknir hafi verið þar á. Niðurstaðan var því sú að ósanngjarnt væri að varpa sök á veðurfarið að undanförnu heldur væri skýringa á hvarfi gæsarinnar annarsstaðar að leita. Þetta kenndi mér það að maður á ekki að hrapa að niðurstöðu og fella dóma að óathuguðu máli. Hér með bið ég þá öskudagsbræður afsökunar á því að hafa um stundarsakir haft þá fyrir sök. Við þetta er að bæta að ég sá gæsirnar þrjár á leið til vinnu eftir hádegið svo það er alveg satt að það vantar eina gæs í stofninn.

    Hvort sem þið trúið því eður ei þá er Rúnar mættur með Gluggann og um Aðalgötunna líða hljómar frá Harmonika Drengene sem leika að þessu sinni hið geysi fjöruga lag um "Per spillemand". Rúnar og Per spillemand eru ekki síðri en Stefán og Nonni hundur til að gera þennan miðvikudag góðan.

    Glugginn í dag flytur okkur tíðindi komandi daga og þar fer svolítið fyrir auglýsingum um væntanlega þjóðaratvæðagreiðslu en innan um má finna önnur boðuð tíðindi.

    Bólstaðarhlíðarkórinn ætlar að bjóða okkur upp á dagskrá um Björn heitin Pálsson frá Löngumýri í tali og tónum. Ekki er að efa að þar komi margt skemmti- og athyglisvert fram. Þáttur Skagstrendinga hlýtur að verða drjúgur því þeir reyndust honum vel í baðmálinu fræga og fengu þar að auki að bragða á grautnum góða í tukthúsinu. Ekki kæmi mér á óvart þó Lukku-Láki og fleiri gullmolar frá Hallbirni hljómi um  Húnaþing og Skagafjörð á næstunni Birni til heiðurs.

    Karlareið hestamannafélagsins Neista verður á Svinavatni eftir rúma viku. Vonandi verða þeir kappar óhræddir á ísnum því stundum hefur ísinn verið þunnur undir þeim og hin mestu karlmenni nötrað af ótta í upphafi ferðar.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og sýnist okkur að höfundur hennar sé enginn annar en Erlendur G. Eysteinsson löngum kenndur við Stóru-Giljá.

"Þegar drottning mín drýpur höfði

djarfmannlega hugsar hún,"

segir skáldið frá Stóru- Giljá og á þarna við Góuna sjálfa og heldur áfram:

Þó spenntur verði sérhver vöðvi

með sigurbrosi hún lyftir brún.

Okkur Rúnari létti þegar við lásum niðurlag vísunnar því það liggur í augum uppi að drottningin Góa endaði ekki með vöðvabólgu eftir alla þessa vöðvaspennu.

    En þó við Rúnar eigum enga leynivini sem ku vera mikilvægt að eiga til að efla andann innan fyrirtækja, blása fólki kapp í kinn jafnframt því að þroska kærleika og umburðarlyndi í starfi þá þurfum við samt að finna samhengi hlutanna. Ástæða þess að ég á engan leynivin er sú að ég starfa einn en ég gæti nú hugsanlega komið mér upp leynivini utan starfsins en ég er ekki viss um að það væri vel liðið heima hjá mér. Það álpaðist út úr Rúnari að hann ætti leynivini á feisbókinni og væru það skáldmæltar konur sem sendu honum vísur sem hann svaraði jafnharðann.

Hann Erlendur Eysteins á Giljá,
yrkir um það sem að skilj' á.
Ef skilur þú ekki
allt hleypur í kekki,
þá yrkir hann bar´ um sem hylj´á

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 64
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56574
Samtals gestir: 10449
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 13:32:40