Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Júní

30.06.2010 10:03

Einn hommi og enginn lax

    Það er farinn að laumast að mér smá ótti. Þessi nagandi ótti um að "þetta eigi eftir að hefna sín". Nú erum við búin að hafa svo gott veður í langan tíma að eitthvað hlýtur að fara að gerast. Við getum bara ekki átt þetta skilið. Þetta á eftir að hefna sín annað getur bara ekki verið. 
    Reyndar hefur þetta hefnt sín á mér að hluta til því engan fékk ég laxinn í Blöndu á föstudaginn og það sem meira er þá var mér vísað af veiðisvæðinu eftir tæplega 15 mínútna veiðar. Þeir ágætu félagar, Árni í Lax-Á og hans hjarðsveinar höfðu víst selt sömu stöngina tvisvar og þar sem við félagarnir frá Blönduósi sem mættir vorum til veiða á svæði III vorum álitnir geðbetri en veiðimennirnir sem fengu að halda áfram veiðum á umræddu svæði. Við þurftum að fara á svæði II fram að hádegishléi til að leysa vandann.     
    Þessi nýja lífsreynsla að vera vísað á bug er svolítið sérstök. Ég hugsaði með mér " Hvernig gat Laxár Árni gert mér þetta. Ég veit ekki til þess að hann hafi vísað Eric Clapton burt af veiðisvæði. Þvert á móti þá veit ég til þess að hann gerði allt sem í valdi hans stóð til að halda Clapton kjurrum á veiðisvæði eftir að Gísli Einarsson féttamaður hafði styggt hann lítillega.  Þessi lífsreynsla hefur í það minnsta kennt mér að ekki er sama Jón og sir Clapton.
    Ekki er öll sagan sögð úr þessari annars ágætu veiðiferð . Þannig var að hann Guðmundur svili minn (sem ég kalla stundum Mumma svakasvila) bauðst til að keyra og freistaðist ég til að taka með mér eina litla bjórdós ( 33 cl ) svona til að svala þorstanum í lok veiðiferðar. Þar sem sem við sitjum í rólegheitunum á árbakkanum neðan við Ártún að kveldi dags, kemur þá ekki aðvífandi N1 Kristján nokkur Jónsson en hann var með með okkur Mumma í holli og sagði án nokkura vífillengja " Ertu bara með homma". Ég hváði að sjálfsögðu því ég sá ekki nokkurn homma í næsta nágreni. "Homma" segi ég. "Já! Veistu ekki að lítill bjór er kallaður hommi" sagði hann. "Hvað er þá hálfs líters bjór kallaður?" spurði ég. "Station" (lesist steisíjón) svaraði Kristján að bragði. Ég fékk það á tilfinninguna að ég hafi þennan ágæta dag verið algjör bjálfi. Hafa bílstjóra í veiðiferð og klára bara einn homma, það er frammistaða sem einungis aular segja frá.

    Nú er ég búinn að fara í nýju laugina! Hvílík pardís sem komin er í bæinn. Ég hafði líkt og ég lýsti áðan haft af því örlitlar áhyggjur að Mummi yfirbaðvörður myndi gera einhverja kúnstir þegar ég kæmi í fyrsta sinn. Hann hafði í það minnsta heitið því að gera mikið úr því þegar ég kæmi. Nú, ég kem í miðasöluna og borga mínar 400 kr og spyr eftir Mumma yfirbaðstjóra. Engin vissi hvar hann var svo ég fór mína hefðbundnu leið í gegnum búningsklefa og sturtur og renndi mér hljóðlega út í laug. Synti ég um stund, sólin brosti og veröldin var yndisleg. Þegar ég er búinn að synda í dágóða stund þá mæti ég manni í miðri laug sem beitti fyrir sig skriðsundtökum og mér fannst ég eiga að þekkja hann. "Þetta er Mummi" hugsa ég og ákveð að bíða eftir honum á bakkanum og taka á móti "kauða". Í stuttu máli þá sá ég það á gleraugnalausu andliti Guðmundar Haraldssonar að hann fannst hann vera svikinn og misst af tækifærinu til að gera mér smá hrekk við fyrstu heimsókn mína í sundlaugina hans. Hvort þetta eigi eftir að hefna sín veit ég ekki en eftir stendur að það var ég sem tók á móti Mumma í sundlauginni en ekki öfugt.

    Kemur ekki Rúnar Gluggaútburður með síðustu lesningu fyrir sumarfrí. Og ekki nóg með það. Hann var með í pússi sínu spánýjan disk með þeim harmonikkufélögum Kristian og Jens Peter. Lagið sem var undir geislanum var eldfjörugur polki sem heitir einfaldlega Coquette polka. Ég skammaði Rúnar fyrir nafnið á polkanum en áttaði mig fljótlega að það er ekki honum að kenna en polkinn var góður og þeir félagar fóru á kostum.
    Hvað skyldi nú Glugginn segja á þessum Drottins dýrðar degi. Heimilisiðnaðarsafnið er með forsíðuna og sáum við Rúnar strax að meinlega villu var þar að finna hvað varðar dagsetningu en að öðru leiti er auglýsingin áhugaverð. Á baksíðunni gerir USAH vart við sig og þau mót sem verða á þess vegum í sumar.
    Hún er nokkuð sein á ferðinni auglýsingin frá Hvöt hvað varðar pylsuboðið í leik Hvatar og KV sem var víst í gær en það er aldrei of seint að þakka. Við Rúnar teljum að þeim sem að Smábæjarleikunum stóðu verði seint fullþakkað fyrir frábært framtak.
    Rúnar á Skagaströnd á vísu vikunnar að þessu sinni og er hún svo sannarlega okkur að skapi og í okkar anda.: Lifðu í sátt við land og þjóð/ léttu önn með gríni./ Syngdu fram þitt sólarljóð/ svo að öðrum hlýni.

    Þá er komið að því óumflýjanlega en það er samhengið sjálft.

Hjá okkur er alltaf sá siður
að yrkja okkur ljúflega niður.
Nú verður smá hlé
ekkert spjátur né spé
Fylgi´ ykkur eilífur friður
.


 

23.06.2010 09:22

Eins og fyrri daginn

    Í morgun var þoka. Fuglarnir komu fljúgandi út úr henni og hurfu svo inn í hana aftur og maður vissi ekkert hvert þeir voru að fara eða hvaðan þeir komu. Þeir komu bara og fóru svona eins og lífið sjálft. Nonni hundur gelti eins og venjulega á hæðinni fyrir ofan og þar sem ekki var sól heldur þoka þá fengu menn sér ekki sæti á steinbekknum á Aðalgötunni til að baða sig í ljóma sólarinnar og láta ljós sitt skína. 
    Í dag er dagurinn fyrir Jónsmessu og um miðnætti er tækifærið til að baða sig upp úr dögginni sem féll úr þokunni. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga - sú venja gæti átt sér vísindalega stoð því efnasamsetning jurta er auðvitað breytileg eftir árstíma .
    
    Ég má til með að koma með nærmynd af varðhundinum hans Ívars Snorra og er myndin tekin af bekknum sem fyrr er greint frá . Þessi litli varðhundur var uppsigað við mig í fyrstu en eftir að við höfðum kynnst persónutöfrum hvors annars gekk dæmið upp.

    
    Rúnar kom aldrei þessu vant fyrir hádegi með bílrúðuna gersamlega niðri og út um gluggann streymdu harmonikkutónar  í hressilegri kantinum. Það sem ég heyrði fyrst hljómaði líkt og lag með Baldri og Konna, lag sem ég heyrði, lítill drengur á Laugarnesveginum í gömlu Gufunni. Það var einhvernveginn svona: Hah, hah, ha, hlustið á nú hef ég skrítnu að segja frá og sv. frv. og strax á eftir hljómaði "ég er hinn glaði (eða káti) förusveinn". Það get ég með sanni sagt að það var rífandi fjör í Rúnari og og maður hreinlega lyftist í stólnum og það get ég svarið að þokunni létti. 
    
    Glugginn er heldur rýr í roðinu að þessu sinni. Ef ekki væri fyrir að fara auglýsingu frá Harmonikkufélögunum í Húnavatnssýslu og Skagafirði, áminningarlestur frá bæjarstjóra og heilsíðu leiðbeiningar frá Mumma í  sundlauginni hvernig maður fer í sund, væri lítill Gluggi enn minni. Þó ég minnist ekkert á Domus gengið og ódýra wc - pappírinn frá Hvöt þá er það ekki vegna þess að mér þyki ekki vænt um þessi fyribrigði, heldur vegna þess að ég nenni því ekki. Hvers eiga þá Meindýravarnir MVE, Heilbrigðisstofnunin, Bændaþjónustan og Heyrnartækni að gjalda ef farið væri að mismuna auglýsendum. 

    Vísa vikunnar er föðurlaus eins og svo oft áður :
Konurnar ég mikils met
og margar þekki.
Og heldur vil ég hafa ket
en hafa það ekki.
    Ef ég væri meðal öfgafullur femínisti þá myndi ég segja að þessi vísa væri karlrembuleg en þar sem ég er ekki meðal öfgafullur femínisti segi ég bara : Undir þessa vísu má taka en sá sem yrkir er nokkuð góður með sig.  Það er sagt í mörgum sjálfshjálparbókum að mikilvægt sé að vera góður með sig en ég er sammála þeim vitra manni sem sagði að á því þyrfti að vera nokkurt hóf.
    
    En Baldur og Konni og förusveinninn fóru svo vel í okkur og þá sérstaklega Rúnar að þetta hrökk út úr honum  til þess að gera í góðu samhengi við lífið og tilveruna:
Mjög nú lítið miður fer
margt oss snýst í haginn
Ég og Jón víst erum hér
eins og fyrri daginn.

16.06.2010 09:37

Stóri sundlaugardagurinn

    Dagurinn í dag er dagurinn sem margir hér um slóðir hafa beðið eftir. Í dag mun sundlaugin verða tekin í notkun og er næsta víst að ég fæ ekki að stinga mér til sunds fyrstur manna um það hef ég traustar heimildir. Stjörnuspáin sagði líka "  Einhver reynir að gera þér lífið leitt svo nú reynir verulega á þolinmæðina. Reyndu að skipuleggja þig betur. Passaðu þig á að láta minnimáttarkennd ekki ná tökum á þér. " Það skal engum takast að gera mér lífið leitt en þetta með skipulagninguna má alveg ræða og verður sú umræða aðeins einræða. Þetta með minnimáttarkenndina getur verið snúið en ég reyni að bera mig vel á nýju sundskýlunni minni í nýju lauginni.



Ég get bara ekki orðið bjánalegri heldur en Mummi meiriháttar yfir baðstjóri á Blönduósi þó ég sé ekki eins góður í skriðsundi og hann. Að minnsta kosti segir hann að hann sé betri án þess að hafa nokkurn tíma séð mig synda skriðsund. Ég er viss um að ég slæ honum við  í bringusundinu þó svo Mummi segi að það sé nú bara sund fyrir kellingar. Baksundið ætti ekki að há mér nema að Mummi standi á sundlaugarbakkanum og segi að ég syndi eins og dautt hornsíli sem hrekst undan straumi í litlum læk. Nei minnimáttarkenndin verður sko tekin í nefið því ég og nýja sundskýlan látum ekki slá okkur út af laginu.

    Núna kemur Rúnar við undirleik Grettirs Björnssonar og er Kænupolki undir geislanum. Hörku innkoma hjá Rúnari og með þessum orðum er ég rokinn í sundlaugina til að taka myndir af krökkunum sem fyrstir fá að stinga sér til sunds.



    Rúnar elti mig í laugina og gaukaði að mér þessari vísu í tilefni af því að á morgun verður enn og aftur haldið upp á þjóðhátíðardaginn, daginn sem hann nafni minn frá Hrafnseyri á svo stóran þátt í. 

    Á morgun ekkert miður fer
    meðal Íslendinga.
    Þá hátíð verður haldin hér
    að hætti Blönduósinga.

     Hef þetta ekki mikið lengra en leyfi myndum frá opnun sundlaugar að tala (sjá myndaalbúm) um leið og við Rúnar óskum öllum gleðilegar þjóðhátíðar. 

09.06.2010 14:16

Lopinn teygður

    Í dag verður lítið skrifað og við því lítið að gera. Lítið er betra en ekki neitt  nema lítið sé til lýta. Ástæða þessa er að það sem mér finnst vera saklaust mal út í bláinn hefur valdið óþægindum og það finnst mér alveg grábölvað.  Meðal annars vegna þessa þá verður bara fjallað um stóðhesta í þessum pistli og stuðst við Glugga dagsins í meginatriðum.

    Hryssur héraðsins eiga möguleika á að kynnast eftirtöldum stóðhestum í sumar.

    Sólon frá Skáney,  Pilti frá Hæli,  Þey frá Prestsbæ og Bjarti frá Sæfelli.  Allt saman úrvalshestar og með góða dóma nema Piltur frá Hæli sem er ódæmdur . En með Pilti fylgir þó sú trygging að fái Piltur ekki 1. einkunn í dómum á næsta ári þá verður folatollurinn endurgreiddur en hann er núna kr 25.000 kr á hverja hryssu.  Ég velti því fyrir mér ef hægt væri að fá svona eins og 100 hryssur undir Pilt hvort ekki væri snjallt að éta hann í haust því ólíklega má telja að kynbótadómur Lykla Péturs verði nokkurn tíma birtur. Ég segi nú bara svona

    Ekkert er sagt frá ætterni Sólons en þau afkvæmi sem undan honum eru og hafa komið til dóms lofa mjög góðu enda eins gott því einn skammtur úr Sólon kostar litlar 69.00 kr. Sólon frá Skáney verður  að finna á Torfalæk í sumar.

    Þeyr frá Prestsbæ er skrokkmjúkur hestur sem býr yfir fjaðurmögnuðum og

taktöruggum gangtegundum. Jafnvígur á allar gangtegundir, flugvakur og

efnilegur keppnishestur. Þoka móðir hans frá Hólum er að sanna sig sem gæðingamóðir. Þetta er fallega sagt.

    Bjartur frá Sæfelli er fimm vetra og hefur aðaleinkunn uppá 8,15. Hann  er leirljós, glófextur og sagður gullfallegur. Bjart verður að finna í Litladal í sumar. Það verður ekki ónýtt að hafa Bjart yfir hryssunum í sumar.

    Svona til að bjarga andlitinu þennan miðvikudaginn þá stal ég eftirfarandi sögu af  Fésbókinni frá Þórarni Sigvaldasyni ættuðum frá Marðarnúpi:  Kennarinn í fimmta bekk lét krakkana fá heimaverkefni. Þeir áttu að fá foreldra sína til að segja sér sögu með boðskap.
    Daginn eftir komu börnin í skólann og hvert á fætur öðru sögðu þau sína sögu.
    Kata litla byrjaði:- Pabbi minn er bóndi og við eigum fullt af hænum. Einu sinni vorum við á leið á markaðinn og höfðum sett öll eggin í eina stóra körfu í framsætinu, þegar pabbi keyrði ofan í holu brotnuðu öll eggin.
Og hver er boðskapur sögunnar ? sagði kennarinn.
Maður á ekki að setja öll eggin í sömu körfu, svaraði Kata.
Mjög gott, sagði kennarinn.
    Næst kom að Lárusi:- Pabbi sagði mér sanna sögu af Möggu frænku. Hún var flugvirki í Flóabardaganum hinum síðari og flugvélin hennar var skotin niður. Hún þurfti að forða sér í gegnum óvinasvæði og það eina sem hún hafði meðferðis var Whiskyflaska, vélbyssa og sveðja. Hún drakki Whiskyið svo það glataðist ekki ef flaskan brotnaði og æddi svo gegn 100 manna her. Hún drap 70 af þeim með vélbyssunni og þegar hún var búin með skotin drap hún 20 með sveðjunni og þegar blaðið brotnaði drap hún 10 síðustu með berum höndum.
Guð minn almáttugur, sagði kennarinn hneykslaður.- Og hverslags boðskap sagði pabbi þinn að væri að finna í þessari sögu ?
Maður á að halda sig frá Möggu frænku þegar hún er full.

    Þar sem nú liggur fyrir að Rúnar hefur ekki tíma til að sinna mér í dag og skilur bara eftir vísur á hurðarhúninum (Margt er það sem miður fer/ er menn hér fara í mat./ Einhver um þá ekur hér/ og gerir í þeim at.)  ásamt Glugganum auk þess sem ég hef ekkert meira að segja um graðhesta í bili er best að hætta. Þessi vísa hjá Rúnari er nú ekki sú dýrasta sem hann hefur ort en viðleitni samt. Ég hefði bara haft vísuna svona: Margt er það sem miður fer/ ef maður fer í mat./  Linur Rúnar  laumast hér/ og lýsir í mig frat(i).

    Þetta er svo samhengislaust og út í bláinn allt saman þannig að niðurstaðan verður bara þessi:

Ég lýsi því yfir og læt það flakka
ég lopann er að teygja.
Og þessvegna er sérstök ástæða að þakka
að þurfa ekki meira að segja.

02.06.2010 15:59

Við hús númer tvö

    "Betra er að vefjast tunga um tönn en tala of mikið" segir ókunnur höfundur í vísu vikunnar. Kannski er eitthvað til í því. En einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þeim sem vefst tunga um tönn séu nú einmitt þeir sem tala of mikið. Sá sem þegir og hefur hljótt um sig vefst ekki tunga um tönn því hann er ekkert að nota hana.  Af þessu má einfaldlega draga þá ályktun að ég væri í áhættuhóp um að vefjast tunga um tönn. Og ef satt skal segja þá hefur það oft komið fyrir mig og er í sjálfu sér ekkert hættulegt fyrirbrigði. Það er svolítið pínlegt meðan á því stendur en gleymist til þess að gera fljótt. Einhver ágætur maður (konur eru líka menn) sagði einhverju sinni að betra væri að þegja og vera álitin bjáni en tala og taka þar með af allan vafa. Hann er vandrataður hinn gullni meðalvegur í þessum málum og ég verð að játa það að mér finnst það fara sumum mönnum afar vel að þegja. Jafnframt finnst mér að sumir mættu tala meira og leggja sitt af mörkum til gróandi mannlífs.

    Fyrst  farið er að tala um það hversu mikið á að segja og kunna sér hóf í því og einnig að skólarnir eru núna að ljúka vetrarstarfinu er tilvalið að rifja hér upp eina góða sögu af stúdentsefni við Menntaskólann á Akureyri.  Nemendurnir áttu einhverju sinni að skrifa ritgerð á prófi og voru ritgerðarefnin fjögur: Líkamsrækt, Hallgrímur Pétursson. Fiskar og Gróðurmold.  Vitaskuld átti hver nemandi bara að velja eitt af þessum viðfangsefnum, en einn þeirra kom þeim öllum fyrir í sinni ritgerðarsmíð og var hún svohljóðandi:"Líkamsrækt Hallgríms Péturssonar var aldrei upp á marga fiska enda er hann löngu orðinn að gróðurmold."



    Vesturbakkinn er á sínum stað og gæsirnar eru byrjaðar að skila ungum inn í tilveruna. Þetta hafa þær gert undangengin ár án tillits til yrti aðstæðna. Brölt mannanna hafa þar lítil áhrif. Kosningabarátta, kosningar og niðurstöður þeirra skipta engu.

    Jónas Skafta hélt almennan fund á Ljóninu daginn fyrir kosningar og fór yfir samskifti sín við Blönduósbæ. Að sögn Jónasar var hann afa ánægður með fundinn og sagðist  hann að hafa séð andlit á fundinum sem hefðu komið honum skemmtilega á óvart.  

    Þegar ég fór að heilsa upp á náttúruvænu garðslátturvélina með afkvæmi sitt, sem sagt hryssu með folaldi,  




rakst ég á Frikka vert á Aðalgötu 2. Hann bauð mér í heimsókn og sýndi mér Aðalgötu 2 frá kjallara og upp úr. Það skal bara sagt að þessi tunga sem ég nota stundum vafðist um tönn og rúmlega það. Það er búið að útbúa nokkur herbergi uppi í risi og á fyrstu hæðinni er kominn veitingasalur fyrir um 30 manns. Kjallarinn er ófrágenginn en það bíða hreinlætistæki eftir því að verða sett upp. Það er ýmislegt sem á enn eftir að ganga frá en það sem komið er lofar svo sannarlega góðu. Það er hreint ótrúlegt að sjá þykktina á veggjunum í kjallaranum og líkast því að maður sé kominn inn í kastala frá miðöldum . Ef þeir sem þarna ráða málum halda áfram og fullgera húsið er komin þarna frábær aðstaða til að taka á móti ferðamönnum á einum fallegasta stað á Blönduósi.

    Glugginn er uppfullur af  þakklæti frá frambóðendum  og Textílsetrið í Kvennskólanum auglýsir eftir "mubblum"  en miklar endurbætur hafa verið gerðar innandyra í skólanum að undanförnu. Þau sem sinna þessum skóla og starfinu sem þar fer fram finnst vera heldur tómlegt í herbergjum og óska eftir aðstoð við að gæða skólann lífi sem hæfir umgjörð hans.

    Rúnar kom en ég var ekki til staðar svo ég verð aleinn og yfirgefin að reka smiðshöggið á þessi skrif og grafa upp samengið í hlutunum.  En ég sakna þess að hafa ekki heyrt hvaða harmonikkuhljómar fylgdu Rúnari á þessum hversdagslega miðvikudegi þar sem norðaustan áttin hefur yfirhöndina. Reyndar var Rúnar svo elskulegur að skilja eftir vísu sem vafið var utan um Gluggann sem beið okkar umkokomulaus á hurðahúninum á Aðalgötu 8.

Ég hef núna ætlað mér
á Akureyri að keyra.
Margt hjá þér þá miður fer
með vísur, blogg og fleira.

    Það má kannski til sanns vegar færa að Rúnar hafi rétt fyrir sér en niðurstaðan er þessi. Þorvaldur Bö sem nefndur er í limrunni hér að neðan, er vegamálastjóri húnvetninga og það kom mynd af honum í Mogganum í morgun og fær hann að fljóta með rímsins vegna . Jónas á í stríði við bæjaryfirvöld og ég er búinn að skoða Aðalgötu 2.  

Í morgun var mynd  af vegmaster Þorvaldi Bö
í Mogga og Jónas á ekki sæla dagana sjö.
En sú saga er sönn
mér vafðist tunga um tönn
í Aðalgötunni minni við hús númer tvö.

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 103
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56613
Samtals gestir: 10452
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 20:55:28