Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Október

27.10.2010 11:09

Hrópandinn í eyðimörkinni



    Ég held að þessi vísa sem hér fylgir sé eftir Lúðvík Kemp og fjallar um hvað veðurfar hefur mikil áhrif á geðsmuni manna og athafnir.  Hún gæti líka átt við hið pólitíska veður sem nú gengur yfir þjóðina:

Úti er hríð og algert bann
á öllu er þíðir geðið.
Skammir og níð um náungann
nú er víða kveðið.

    Það hefur verið grundvallarregla í þessum skrifum að halda hinu pólitíska dægurþrasi í sem mestri fjarlægð. Það hefur stundum verið ansi erfitt þegar mest hefur gengið á en með því að þvælast örlítið um bloggheima á hinum ýmsu netmiðlum þá verður manni ljóst að rödd úr þessum ranni væri lík rödd hrópandans í eyðimörkinni. Ef að einhver greinir pólitískan ilm úr þessum skrifum þá bið ég ykkur í guðanna bænum að tengja vin minn Rúnar Agnarsson ekki þar við því ópólitískari mann þekki ég vart. Hann hefur sínar skoðanir á lífinu og tilverunni og er sammála mér að Guðsorð og góðir siðir skaða ekki nokkurn mann og ef eitthvað er þá eru þeir til bóta.
    Lífið í mínun friðsæla bæ hefur einkennst töluvert af því undanfarna daga að bregðast við niðurskurði í velferðarkerfinu. Menn halda fundi, safnast saman, já og standa saman og láta í sér heyra. Baráttumenn eins og t.d. Jónas Skafta sem barið hafa á bæjarapparatinu, byggingafulltrúum og slökkviliðsstjórum árum saman eru víðsfjarri. Jónas hefur góða fjarvistarsönnun því hann þarf eins og flestir að hafa í sig og á og er því fjarri sínum heimahögum í þeim erindagjörðum.  
    
    Reyndar er það svo að það er svolítið einkennandi við þessi mótmæli sem nú ganga yfir landsbyggðina að mótmælendur eru flestir konur. Kannski hafa ráðamenn áttað sig á því að þörfin fyrir kynjagreind fjárlög sé bráðnauðsynleg í ljósi ofanritaðs.
    Það er gaman að geta þess fyrst minnst var á Jónas Skafta hér að framan þá mun hann koma norður um helgina og hafa opið á föstudag og laugardag og ætlar hann m.a.  að kynna fyrir gestum og gangandi starfsemina á Ljóninu næsta sumar og klikkir út með því að segja: "Ljónið með allt á hreinu". Nágranar hans í norðri á Kiljunni ætla líka að vera með húllumhæ og bjóða upp á andlegar sem veraldlegar veitingar. Tekið verður á móti matargestum með glasi af freyðivíni og léttri músik. Forréttur er tartalettu rækjukokteill.
Svo er boðið upp á tómatsúpu með núðlum og spæsí með rjómatopp. Puru svínasteik með kartöflum, salati, sósu og sultutaui er aðalrétturinn og Jollu vöfflur með ís, rjóma, ávöxtum, sósu og kaffi verður í eftirrétt.

    Á föstudaginn hefst rjúpnaveiðitímabilið. Ég veit það að þónokkrir hér á Blönduósi sem og brottfluttir bíða spenntir eftir því að komast til fjalla og veiða sér fugl í jólamatinn. Þetta gerði ég á sínum tíma og gekk á hin ýmsu fjöll í sýslunni. Oftast var ég einn á ferðinni og líkaði mér það vel. Það er eitthvað svo kyngimagnað að vera einn með sjálfum sér efst í hlíðum fjalla og setjast niður og hvíla lúin bein og fá sér samloku með þykkri sneið af lifrapylsu, kaffi í krús og horfa yfir byggðina og sjá hversu smáir við mennirnir erum í umhverfinu.
 
    Þá er Rúnar blessaður mættur enn og aftur með Gluggann á þrjúhundraðasta degi ársins og ljúfur vals hljómar um Aðalgötuna. Hvort sem þið trúið því eður ei þá var það hinn margfrægi Snevals með Harmonika Drengene sem var undir geislanum. Þetta er vel við eigandi því Rúnar hefur líkt og ég hlustað á veðurspánna og þar er gert ráð fyrir því að senn fari að snjóa.
    Hvað segir Glugginn blessaður í dag. Fyrir utan gleðina á börum gamla bæjarhlutans kennir ýmissa grasa. Má þar nefna að Domusgengið er að selja nánast öll hesthús í bænum og menn geta fengið sprautu við inflúensu á Heilsugæslustöðinni.
    Ekki má veiða rjúpur í Langadalsfjalli utanverðu og búgreinasamtökin eru farin að minna á uppskeruhátíð sína sem haldin verður eftir mánuð. 
    Vísa vikunnar er á sínum stað og þarf ekki lengur að segja frá því að hún er eftir hinn magnaða hagyrðing Rúnar frá Skagaströnd. Hann er við sama heygarðshornið og sendir hildarleik stjórnmálanna kveðjur og við Blönduós-Rúnar tökum bara undir og segjum eins og stórskáldið forðum " Ég bið að heilsa".
    En á þessum grámyglulega en heillt yfir ágæta miðvikudegi þarf að gera upp og koma auga á samhengið. Það gæti verið eitthvað á þessa leið:
   
Inn um gengur dyr með Gluggann
galvaskur Rúnar, árans kjóinn.
Varpar ljúfur  ljósi á skuggann
með líflegum valsi um vetrarsnjóinn.

20.10.2010 09:55

Hófstilltir í haustblíðunni

    Það hefur gránað aðeins í fjöll og veturinn farinn að minna á sig en vindurinn er til friðs. Hér gæti ég látið staðar numið því ég hef í sjálfu sér ekkert merkilegt að segja og þessi frásögn af veðrinu er upplýsandi og flestir hér um slóðir sammála mér um hana. Sumir gætu sjálfsagt sagt að fullmikið væri að segja gránað, þetta væri svona frekar hélugrátt eða þaðan af minna en það er nú bara eðlilegt að menn komi sér ekki alveg saman um mál sem engu máli skifta í samfélagsumræðunni. 
    Það gerist ekki margt hér í gamla bænum og á Brekkubrúninni fyrir ofan. Þó má geta þess að tveir hrafnar gerðu sér að leik um daginn að hrekkja hund einn svartan  með ljós í skotti. Þeir létu hann hlaupa og hoppa um alla Brekkubrúnina í dágóða stund og flugu svo á braut í stóískri ró þegar þeir voru búnir að gera hann að fífli, örþreyttan og kominn á rassinn í brekkunni fyrir ofan gömlu kirkjuna. Nonni hundur tók ekki þátt í þessum leik enda sýnist mér sá hundur orðinn nokkuð upplýstur og vel upp alinn.
    Það má til gamans geta þess að nú fyrir skömmu tókst loksins að ná stiganum á norðurhlið Stefánshúss alveg niður á jörð og þurfti ekki minni mann en Stefán Pálsson og Jobbuna hans til að svo mætti verða.  
    Húnaflóinn er fallegur í dag. Sólin skín á hann og einn og einn selur rekur upp kollinn svona til átta sig á veröldinni og einmana mávar flúga ýmist til austurs eða versturs með ströndinni svona eins og þeir hafi eitthvað sérstakt í huga. Æðarfuglinn vaggar sér á mildum öldum nærri flæðarmálinu og leitar eftir æti. Það er ekkert óeðlilegt við hina óbeisluðu náttúru hún rúllar svona áfram af gömlum og góðum vana og er í eðli sínu íhaldssöm. Hún lýtur sínum lögmálum og lætur okkur mannskepnunni eftir að streytast og þjást .


    Núna kemur Rúnar með Gluggann þennan bjarta og stillta októbermánuð og það heyrist ómur frá Súkkunni hans , einhver lagstúfur sem minnir töluvert á lagið sem Baldur og Konni fluttu um árið og var einhvern veginn á þessa leið. "Ha, ha, ha, hlustaðu á nú hef ég sögu að segja frá" Mig minnir að þetta hafi fjallað um einhverja þjóðþekkta Búkollu  og einhvern öskrandi bola en lagið er kunnuglegt.  
    Glugginn í dag er óvenju efnismikill og kennir þar margra grasa. Það er farið að minna okkur á að ekki megi skjóta rjúpur um allar koppagrundir án leyfis og allskonar námskeið eru í boði. Gospel-tónlist og bændafundir eru einnig á boðstólum og ekki má heldur gleyma hinu árlega styrktarsjóðsballi hvar hinn heimsfrægi Geiri frá Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð mun leika fyrir dansi.
    Vísa vikunnar er enn á sínum stað og enn er það Rúnar hinn hagmælti frá Skagaströnd sem segir okkur frá ógnarskepnunum, þeim ESB og AGS. Hvar skyldi Erlendur stórskáld frá Stóru-Giljá halda sig um þessar mundir. Maður er farinn að sakna vísnagerðar hans því úr þeim ranni veit maður aldrei hvar á mann stendur veðrið. Reyndar sagði sjúkrahús Valbjörn mér að hann ætti vísu eftir Erlend sem hann lofaði að senda mér eins fljótt og auðið væri. Fannst mér þetta hvalreki.
    
    En við Rúnar erum sem fyrr komnir upp að vegg með samhengi hlutanna í lausu lofti og nauðbeygðir til að hafa á þeim stjórn og koma á þá böndum og það gerum við best með eftirfarandi vísu:

Á Brekkunni hrafnarnir hundinum stríða,
hafið er fallegt og blátt.
Í haust hefur staðið hér stórbrotin blíða
sem nær bara alls engri átt.

13.10.2010 11:37

Móðir í mótlæti en óbugaðir

    Að minnsta kosti 300 manns komu saman við Héraðshælið á Blönduósi í gær og héldu fylktu liði í Félagsheimilið til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar á framlögum til heilbrigðismála í A-Húnavatnssýslu. Mikill einhugur ríkti meðal funadarmanna og var greinilegt á öllum að þeim var verulega brugðið. Það var samdóma álit fundarmanna að þessi niðurskurður væri algjört rothögg fyrir samfélagið. Fólkið væri svift örygginu og það þýddi bara að grafið væri undan grunnstoðunum  samfélags okkar. Ekkert samráð hefur verið haft við heimamenn um þennan niðurskurð og ef hann gengur eftir þýðir það einfaldlega að um 17 manns  missa atvinnuna á sjúkrahúsinu og það hefði síðan áhrif út í allt samfélagið og nefndu sumir að þetta þýddi að 70 - 80 manns hyrfu af atvinnumarkaði í héraðinu. Margir tóku til máls á fundinum og lýstu áhyggjum sínum og komu sumir fram með þá frómu ósk að fá að fæðast, lifa og deyja í sinni heimabyggð.
Pálmi Jónsson fyrrverandi ráðherra og reynslubolti í fjárlaganefnd lýsti því yfir að hann hefði aldrei orðið vitni að annarri eins aðför að að landsbyggðinni " Mér gjörsamlega blöskrar" sagði hann að lokum

    Samþykkt var samhljóða  svohljóðandi ályktun í lok fundar
    "Íbúafundur sem haldinn er á Blönduósi þann 12. okt. 2010 mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði á Heilbrigðisstofnunni

á Blönduósi (HSB) og birtist í fjárlagafrumvarpi 2011. HSB hefur á undanförnum árum þurft að sæta miklum niðurskurði og er nú svo komið að vegið er illilega að lögboðinni grunnþjónustu og velferð íbúa A-Húnavatnssýslu. Við þetta verður ekki unað og skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka þessa aðför að HSB."
    Þetta skrifaði ég í gær og er upplifun mín af fundinum. Ég leyfi mér að segja að sjaldan eða aldrei hef ég skynjað eins mikinn einhug meðal A-Húnvetninga og gott til þess að vita að menn geta staðið saman þegar á bjátar. 

    Rúnar er kominn með Gluggann  á mildum miðvikudegi og lag nr 16 af 13 laga diski hljómar út í daginn. Um er að ræða fjörugan mars sem við vitum ekkert hvað heitir enda er hann ekki nefndur á plötuumslagi sem einungis gefur upp nöfn á þrettán lögum. Kannski að Rúnar ætti að spyrja þann sem seldi honum hann, því eins og komið hefur fram hefur hann keypt fleiri lög en hann átti von á.
    Athyglisvert er að sjá að Domusgengið hefur breytt auglýsingunni um húsið góða á Urðarbrautinni og tekið út að sólpallur sunnan við húsið snúi móti sól en í staðinn er komið barnaleikhús sem teljast verður gott fyrir stóra barnafjölskyldu.
    Glugginn er að öðru leiti á eðlilegum nótum, þunnur en fullur af fróðleik. Fólk getur látið bólusetja sig fyrir flensu en mikið væri nú gott að geta fengið bólusetningu gegn leiðinlegum fréttum sem nú tröllríða samfélaginu.
    Nokkrar hryssur verða boðnar upp í Skrapatungurétt og nóg er um að vera á Textílsetrinu.
    Vísa vikunnar er eins og venjulega eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar á hnitmiðaðan hátt um það sem ég fer nokkrum orðum um hér að framan í þessum pistli.

    En það er þetta sígilda verkefni okkar félaga að koma auga á hið gullvæga samhengi hlutanna. Þjappa tilverunni í hnitmiðað form þannig að veröldin sé eins og vel flakaður þorskur á vinnsluborði fiskverkandans.

Óánægja er í mörgum
enda ekki skrýtið.
Sama hversu þétt við þvörgum
það kemur fyrir lítið.

En áfram veginn einbeitt göngum
enda ekki skrýtið.
Því ef við bar´ á hökum höngum
harla gerist lítið.

05.10.2010 17:35

Undir suðurvegg mót suðri

    Haustið er komið, ég er kominn heim og Atli kirkjueigandi er farinn suður og heldur til Ameríku á föstudag. Menn eru alltaf að koma og fara, það er bara einhvern veginn þannig og líkast til verður því ekki breytt. Við komum í heiminn og við förum úr honum eftir mislangan tíma, þetta er bara gangur lífsins. En frá því við komum og þar til við förum gerist alltaf eitthvað, mismikið eins og gengur. Sumir fara syngjandi gegnum lífið en aðrir hafa óþægileg horn sem alltaf eru að rekast utan í ; eins og ég segi, þannig er þetta bara. 
    En ég er kominn heim eftir misvel heppnað ferðalag til Tenerife en góða dvöl með minni konu og yndislegu samferðafólki þeim Gróu mágkonu og Mumma svila. (kalla hann stundum svakasvila).  Það er óþarfi að segja ferðasöguna í smáatriðum þó svo ég hafi skráð hana í dagbók mína en tel svona mér til minnis að rifja upp síðasta daginn okkar á Tenerife. Við hjónin vöknuðum upp svona um kl. 8 miðvikudaginn 29.sept. Ég var seinni fram úr því ábyrgðartillfinning kvenna er víst meiri hvað varðar pökkun í ferðatöskur. Við áttum að skila íbúðinni kl. 12 og við vissum að ferð okkar heim hafði seinkað  töluvert vegna allsherjar verkfalls á Spáni. Upphaflega stóð til að við yfirgæfum hótelið kl 12:45 en það frestaðist til kl 19:20. Við vorum sátt við það því við græddum einn sólardag og enn var töluvert eftir af rauðvíni og mat á Tenerife. Við nutum dagsins í botn í stuttu máli. Önnur af tveimur flugvélum  Iceland Express lagði af stað um kl 22 og í þeirri vél vorum við sem að framan greinir. Fljótlega eftir flugtak er spurt í í hátalarakerfi flugvélar hvort læknir væri um borð. Svo reyndist vera og var hljótt í flugvélinni um stund en tilkynnt að flogið yrði styðstu leið til Íslands, yfir hafið og heim. Eftir tæplega tveggja tíma flug var tilkynnt að lenda þyrfti í Lissabon vegna þess að einn farþegi um borð væri alvarlega veikur. Þetta skyldu allir um borð og er hinn veiki farþegi hér með úr sögunni. Eftir mikla skriffinnsku og reglugerðaverk hélt förin áfram en okkur tilkynnt að lenda þyrfti í London Gatwick til að skipta um áhöfn því komið var fram yfir vinnutímareglur flugáhafna samkvæmt flugstöðlum. Flug 526 frá Tenerife til Keflavíkur kom til London um kl 6 morguninn 30. september og biðum við róleg eftir því að skipt yrði um áhöfn. Áður en við vorum beðin um að yfirgefa flugvélina þá var okkur tilkynnt að engin áhöfn væri til staðar í London og yrðum við að bíða í flughöfninni fram til kl 11:30 er okkur var skipað út í rútu sem flutti okkur að flugi nr eitthvað annað en flugið sem við lögðum uppí frá Tenerife. Þegar klukkan í Big Ben sló 12:30 hófst  áætlunarflugflug Iceland Express: London - Keflavík. Í Keflavík var lent um kl 15 samkvæmt Evrópskum tíma en við gátum fært klukkuna aftur um klukkutíma og grætt þar með tíma sem því nam. Til að vera jákvæður þá var boðið upp á hálft vatnsglas frá Lissbon til London og frá London til Keflavíkur var öllu áfengi haldið frá okkur og sjá allir að þar var forvarnarstarf í áfengismálum í hávegum haft. Þetta kom sér afar vel fyrir mig því ég átti eftir að keyra heim á Blönduós eftir þetta mikla ferðalag um ríki Evrópusambandsins. Þegar við hjónin komum heim á Blönduós um kl 19:15 í steikta lifur og nýjar kartöflur úr Selvíkurgarðinum sem hún tengdamóðir mín framreiddi voru liðnir um 35 klukkustundir frá því við vöknuðum í þessa miklu heimferð. Núna bíð ég bara eftir aukaareikningi frá Mattíasi Imsland fyrir aukalendingar hingað og þangað um Evrópu og vatnsglasið sem við þáðum milli Lissabon og Lundúna.


    Mig langar aðeins að undirstrika það að Atli Arason kirkjueigandi sem fyrr er hér nefndur hefur unnið gott starf við endurreisn gömlu kirkjunar í sumar og má segja að hún sé komin í það form að sómi er af. Hafðu þökk Atli fyrir þitt framlag, gamli bærinn er betri eftir veru þína þar. 
    Að öðru leiti fjalla ég lítið um lífið í gamla bænum því eins og lesendur sjá hef ég lítið verið þar undanfarnar vikur. Reyndar rak Ívar Snorri hér inn nefið og lofði að gefa skýrslu áður en mjög langt um liði.
    Núna kemur Rúnar í haustrigningu á nýju Súkkunni sinni og leikur líka þennan eldfjöruga polka sem Kristófer Sverris og Anna Gunna væru fullsæmd að dansa eftir. Rúnar var með Milan Koren undir geislanum og Meeresrauschen hét lagið sem þessir þýsku listamenn léku. Við Rúnar gældum við það að þetta lag héti upp á íslensku "merarrásin" eða bara "merarsprettur" en líkast til er þetta ekki rétt þýðing.

    Glugginn er kominn út. Þar kennir fárra en gamalla grasa. Reyndar ætlar Guðrún Pálma að hjálpa okkur til þess að hlú að okkur sjálfum og er það vísast hið þarfasta verk. Reyndar er mér sagt að ég geri það daglega og svíkist ekki undan svo neinu nemur. 
    Athygli vekur að gamla Sýslumannssetrið er til sölu, húsið á hæðinni sem blasir við öllum bæjarbúum og þar var alltaf hægt að sjá hvort einhver hefði dáið eða eitthvað mikið stæði til því það var alltaf flaggað á stóru flaggstönginni þegar eitthvað var að gerast.     
    Einnig kemst Domusgengið skemmtilega og upplýsandi að orði þegar þeir segja að sólpallur við eitt húsið sem þeir eru að selja sé sunnan við húsið mót suðri.
    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar um það sem við Rúnar reynum að forðast.

    Samhengi hlutanna er einfallt þegar maður gleymir Mattíasi Imsland og Iceland Express.

Í þessum skrifum er lítið af snuðri
samt féllust okkur þó hendur.
Því sólpallur sem veit móti suðri
sunnan við húsið víst stendur.

Eitt svona lítið fagnaðarljóð sem Rúnar hefði hæglega getað sett saman ef hann hefði ekki þurft að þurft að fara skyndilega til að sinna brýnni erindum.

Nonna ég næstum var búinn að gleyma
en niður kinnarnar tárin nú streyma.
Því kallinn er mættur
úfinn og tættur.
Ótrúlegt hvað, getur gerst hérna heima.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 718
Gestir í dag: 381
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 61999
Samtals gestir: 11151
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 02:27:17