Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Nóvember

24.11.2010 10:56

Sjö, níu, þrettán

    Hvað hafa menn svona yfirleitt að segja á síðasta miðvikudegi nóvembermánaðar. Þetta er nokkuð stór spurning og í sjálfu sér ekkert skrýtið að henni sé varpað fram í hjartans einlægni. Ef maður væri frambjóðandi til stjórnlagaþings hefði maður líklega frá einhverju mjög merkilegu að segja en líklega væri það mjög misjafnt eins og frambjóðendurnir eru margir. Nú er verið að varpa út skoðunum þessa ágæta fólks á Rás 1 til landsmanna til að tryggja jafnræði, lýðræði og líklega eitthvað fleira sem ég hef bara steingleymt enda ekki vel að mér í jafnræðisreglunni miklu. Ef ég væri í framboði þá hefði ég viljað geta valið mér tölu og þá er mjög líklegt að ég hefði valið 7-9-13 því ég er frekar slakur í því að muna tölur en svona sæmilegur í því að tengja saman hluti og einkanlega þá sem geta orðið mér að gagni. Ég er nokkuð viss um að þeir sem álpast til að kjósa fái þá hvatningu frá þeim sem heima sitja. "Mundu nú að kjósa rétt" og slá síðan í tréborðið þrjú létt högg og segja síðan: "7-9-13" svona til að tryggja öryggi þess sem heldur af stað út í ys dagsins. Gaman væri að fara út í pælingar hvað liggur að baki þessum tölum sem að framan greinir en ég læt það  nægja að vísa í http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6386  fyrir þá sem áhuga hafa.

    Fyrst að það er kominn miðvikudagur og brandarinn um öndina er búinn að ganga á Húnahorninu (huni.is)  síðan 7. ágúst þá finnst mér í góðu lagi að segja eina litla sögu um hve námið á Bifröst  hér áður fyrr meir var gott og árangursríkt: 
     Nemandi í samvinnuskólanum á Bifröst sótti um vinnu sem afgreiðslumaður í Kaupfélagi út á landi. Þetta var svona alvöru kaupfélag þar sem hægt að var fá allt milli himins og jarðar. Kaupfélagsstjóranum leist vel á unga manninn þótt hann væri óreyndur og ákvað að ráða hann til reynslu. Hann sagði unga manninum að mæta næsta morgun og um kvöldið myndi hann síðan ákveða hvort hann fengi vinnuna eða ekki.

    Kvöldið eftir spurði kaupfélagsstjórinn unga manninn hvernig hefði gengið og hvað hann hefði afgreitt marga. "Bara einn" sagði drengurinn. Þetta fannst kaupfélagsstjóranum ekki mikið og spurði hvað hann hefði selt fyrir mikið. "Átta miljónir, eitthundrað níutíu og þjúþúsund" sagði afgreiðslumaðurinn við kaupfélagsstjórann.

    "Hvað seldir þú honum eiginlega", spurði kaupfélagsstjórinn hissa? "Jú, sjáðu til" sagði drengurinn. "Fyrst seldi ég honum lítinn öngul, síðan seldi ég honum miðlungsstórann öngul, þá stóran öngul, svo veiðistöng og síðan spurði ég hann hvar hann ætlaði að veiða. Hann sagðist ætla að veiða í vatninu og þá sagði ég honum að hann þyrfti  bát og seldi honum plastbát með 40 hestafla utanborðsmótor. Þá sagði maðurinn að hann gæti aldrei flutt bátinn á Daihatsuinum sínum svo að ég fór með hann í véladeildina og seldi honum nýjan Land Rover".

Nú var andlitið hálfdottið af kaupfélagsstjóranum og hann sagði: "Maðurinn kemur hér inn til að kaupa einn litinn öngul og þú selur honum bæði bát og bíl!" 

"Nei, nei" sagði strákurinn. "Hann kom hingað til að kaupa dömubindi handa konunni sinni og ég sagði við hann að fyrst helgin væri hvort eð er ónýt hjá honum væri eins gott fyrir hann að fara að veiða....

Mér datt þessi saga í hug því ég ætla ekki að kjósa um næstu helgi og því má segja að næsta helgi sé ónýt hjá mér. Reyndar verð ég í faðmi barnabarna minni í Reykjavík þannig að þetta er ekki alveg rétt hjá mér, en það kemur í ljós. 7 - 9 - 13.


Ískaldur Húnaflóinn á björtum og fallegum miðvikudegi í lok nóvembermánaðar   



     Hvað á betur við í vetrarstillunni heldur en Strekkbuksepolka með harmonikkusnillingnum Arnt Haugen. Þetta vissi Rúnar og lét þennan hrífandi polka flæða um Aðalgötuna. Það var ekkert sem rauf þessa harmonikkutóna og hrifning okkar var slík að við sáum ekki bara Önnu Gunnu og Kristófer svífa um í polka, heldur höfðu bæst í hópinn Björn og Heiða á Hólabaki. Þetta kom nú bara svona upp í hugann því Rúnar hafði séð Björn og Önnu Gunnu á sýsluskrifstofunni fyrir örfáum andartökum.
Sem sagt þá er Glugginn kominn í hús og kennir þar töluvert fleiri grasa en oft áður og bendum við mönnum (konur eru líka menn) að hægt er að kynna sér efni hans inni á huni.is.

    
    Það sem vekur sérstaka athygli við Glugga vikunnar er að vísa vikunnar er ekki eftir Rúnar frá Skagaströnd og Hrafnhildur í Blómabúðinn hikar ekki við að nota hæsta stig í auglýsingu sinni og segir fullum fetum að hún selji fallegustu og ódýrustu kortin í bænum.
     Húnvetningar geta skellt sér á jólahlaðborð og sótt sér andlega næringu í Heimilisiðnaðarsafnið. Jólabasar verður í Skagabúð og markaður í Húnaveri og svona mætti lengi telja. 
    Vísa vikunnar að þessu sinni er eftir að við teljum víst, Óskar Sigurfinnsson í Meðalheimi og kemur hann því ágætlega til skila að maður kýs ekki eftir á.
    En nú er komið að því sem fæstir bíða eftir en okkur þykir afar mikilvæt en það er að finna hið gullna samhengi hlutanna, hlutanna sem er límið í samfélaginu og gerir okkur að þessum sundurlausa lýð sem veit ekki hvert skal halda en hefur sitt eigið rassgat sem leiðarstef í lífunu. Rúnari fannst þessi síðasta athugasemd svolítið kaldranaleg og vildi freka segja að hver maður væri sjálfum sér næstur ásamt Guði.

Menn setja á líf sitt allskonar liti
og lifa í tómi líkt og frétt án
sögu sem segir ekkert af viti, 
7, 9, 13

Þraut stundum reynist að þrýsta á rofann
sem ræsir hugmyndahvel.
Þessvegna er stakan  hér stutt fyrir ofan, 
styrfin og lýsir oss vel.


17.11.2010 13:09

Ef yrkja þarf vísu um konu

    Æi já! Það er víst kominn miðvikudagur og ég hef ekki hina minnstu hugmynd hvað hægt er að fjalla um hér á Vesturbakkanumu annað en helgarheimsóknir lögreglunnar til Jónasar Skafta á Ljónið. Þetta er farið að verða svo hversdagslegt og telst vart orðið til tíðinda þannig að nauðsyn mikil er að verða á því að víkka sjóndeildarhringinn og leita víðar fanga.  
    Ef farið er út fyrir hið þrönga svið sem gamli bærinn er þá er maður ansi fljótur að finna bitastæðar fréttir. Er skemmst frá því að segja að hér rétt fyrir utan bæjarmörkin, nánar tiltekið á Torfalæk í Húnavatnshreppi þá er unnið af fullum krafti í jarðabótum þessa dagana og samkvæmt áræðanlegum heimildum þá liggja þrjátíu hektarar undir þar sem unnið er land fyrir væntanlega kornrækt. Ég sé alveg fyrir mér allan Torfalækjarflóann, já og Kolkumýrarnar allar sem einn nánast samfelldan kornakur. Það yrði glæsilegt að aka þar um seinni part sumars og horfa yfir óravíddir kornakra með gulleitum þroskablæ. Sjá kornið bylgjast í suðaustan golunni og syngja hástöfum eitthvað fallegt lag úr söngleiknum Oklahoma. Ég segi það satt að það setur að mér sæluhroll við þessa tilhugsun.
 
    Í þessum rituðu orðum kemur Rúnar með Gluggann og fylgja honum eins og ævinlega harmonikkutónar, Aðalgatan ljómar án þess að hitinn lækki úr 4 gráðum. Nú eins og í síðustu viku er það Familien Brix sem slær á léttar nótur og töfrar fram seiðandi polka sem fjallar um Jämtgubben. Það hlýtur að þýða drengurinn frá Jämtalandi nema þetta þýði jafnaðarmaðurinn sbr. jämt = jafn og gubben = maður en nóg um það. Málið sem nú tekur völdin er það hvað stendur í Glugganum. 
    Að venju kennir þar margra grasa og má t.d. nefna það að frambjóðandi til stjórnlagaþings nr 7341 mun opna kosningaskrifstofu á Blönduósi í dag. 
    Uppskeruhátíð húnvetnskra bænda og hestamanna verður haldin eftir rúma viku og er boðið upp á glæsilega veislurétti á hátíðinni og nægir bara að nefna Murg Afgani og Navarathan Khurma til að bragðlaukarnir missi hreinlega meðvitund. Stulli siglfirðingur og Dúi leika fyrir dansi og veittar verða viðurkenningar fyrir góðan árangur. Það er ég viss um að Kristófer og Anna Gunna hljóta að fá verðlaun fyrir þéttan og taktfastan polka, rými og fótaburð.
    Svo sáum við Rúnar að auglýst er til sölu Atlas Copco bútasög og teljum við það gráupplagt fyrir stelpurnar í bútasaumsfélaginu Bútós að festa kaup á þessari vél því þær eru að verða svo fjandi afkastamiklar í bútasaumnum.
    Ýmis tilboð eru í gangi og fara þar fremst N1 og Potturinn og Pannan með girnilegar pizzur og gosdrykki í farteskinu.
    Fleira mætti nefna svo sem vísu vikunnar sem nú eins og svo oft áður er eftir Rúnar á Skagaströnd og fjallar um skyndibitafæði.

    Magnús Rúnar orti eina vísu um hana Birgittu Hrönn skáld- og töfrakonu frá S-Löngumýri í morgun en gat ekki fyrir sitt litla líf munað hana þegar á hann var gengið þannig að hann þarf að fá á sig leiðbeiningarvísu hvernig eigi að yrkja og muna.

Ef yrkja þarf vísu um konu með glans
sem alþýðu landsins má bjóða
hún hrynjanda þarf, líkt og heillandi dans
en helst þarf að haf´ ana góða.

    En við Magnús Rúnar verðum að koma hlutunum í það horf að alþýðan skilji alvöru lífsins og tilgang svo ekki sé nú talað um skynsemina í samhengi hlutanna. 

Á  bændanna hátíð  víst höfð verður saft
því heilmikið trall skal þar vera.
Murg afgani  mun verða á boðstólum haft
og meðlætið aloo je-era.

Ps: þetta barst eftir lokun og það frá konunni sem Rúnar orti ljóð um en gleymdi

Yrkja kunna mætir menn
Magnús gleymdi dáldið.
Lengi vill þó lifa enn,
Löngumýrarskáldið!!!

Afskaplega göfug grjón,
geymir Blöndupleisið.
Semdu vísu seinna Jón
og sendu mér á facið.



10.11.2010 13:22

Að koma eða fara

    Við lifum á tímum þar sem tekist er á um allt milli himins og jarðar og erfitt getur verið að henda reiður á öllu saman. Sumum finnst allt í himnalagi, öðrum þykir ekkert miða og enn aðrir telja allt vera á leið til andskotans. Þessi litla dæmisaga sem hér fylgir á eftir, varpar vonandi einhverju ljósi á ástandið og verður kannski þess valdandi að menn gleyma hinu yfirþyrmandi og andlega slítandi dægurþrasi hversdagsins, augnabliksstund.
    
    Maður í loftbelg sá að hann var að missa hæð. Hann tók eftir konu á jörðinni, lækkaði flugið aðeins meira og kallaði til hennar: "Afsakið, geturðu hjálpað mér?  Ég lofaði að hitta vin minn fyrir klukkutíma, en veit ekki hvar ég er". Konan svaraði: "Þú ert í loftbelg sem svífur í 10 metra hæð, milli 40. og 41. Norðlægrar breiddargráðu og milli 59. og 60. Vestlægrar lengdargráðu". "Þú hlýtur að vinna við tölvur", sagði loftbelgsmaðurinn. "Það geri ég", svaraði konan. "Hvernig vissirðu það ?"
"Nú", svaraði maðurinn, "allt sem þú sagðir mér er tæknilega rétt, en ég hef ekki hugmynd um hvaða gagn er af þeim upplýsingum, og reyndar er ég enn villtur. Satt að segja þá hefur ekki verið mikil hjálp frá þér.  Ef eitthvað er þá hefurðu helst tafið ferð mína".Konan svaraði: "Þú hlýtur að vinna við stjórnun"."Já", sagði maðurinn." En hvernig vissir þú það?" "Nú", sagði konan, "þú vissir hvorki hvar þú ert né hvert þú ert að fara. Eintómt loft hefur komið þér þangað upp sem þú ert. Þú gafst loforð sem þú hefur ekki hugmynd um hvernig á að efna og þú ætlast til þess að fólk fyrir neðan þig leysi þín vandamál. Reyndar ertu í sömu stöðu og þegar við hittumst, en nú er það einhvern veginn mín sök."

    Inn úr hörkufrosti kemur nú Rúnar og inn um útidyrnar og út yfir Aðalgötuna hljómar líka leiftrandi polki sem heitir því einfalda nafni "Höggeröd Polka" sem Familien Brix leikur af miklu öryggi. Við vitum ekki hvað það er en alltaf þegar svona taktfastur og hressilegur polki hljómar þá kemur alltaf upp í hugann, Kristófer Sverris og Anna Gunna.  Þau eru bara svo polkalega vaxin og þannig í framgöngu að þessi hugsun brýst fram. Menn gætu alveg eins spurt hversvegna okkur dytti ekki í hug menn eins og Valbjörn sjúkrahúsforstjóri eða Maggi á Hnjúki sem auðveldlega má flokka undir eldhressa menn með mikla yfirferð þá er því til að svara að við vitum aldrei hvort þeir eru að koma eða fara.

    En hvað segir Glugginn í dag? Hann segir reyndar sitt lítið af hverju og má þar nefna að á næstu vikum verður jarðbor að störfum í sýslunni. 
    Óli á Keldulandi bannar alla rjúpnaveiði á landi sínu. Óli sagði það á sínum tíma að lítið hefði þýtt að stjórna rjúpnaveiðum í landi sínu því ef hann hætti sér út á hlað til þeirra verka ætti hann á hættu að yfir hann væri ekið þannig að hann hélt sig innanbæjar meðan rjúpnaveiðitímabilið gekk yfir eða brá sér á aðra bæi.
    Margir vinningar eru enn ósóttir í happdrætti knattspyrnudeildar Hvatar og sitthvað fleira mætti nefna en við vísum sem fyrr á hlekk á huni.is. 
    
    Vísa vikunnar er á sínum stað og og fjallar að þessu sinni um konuna sem varð heimsfræg á Íslandi þegar hún réð til sín tvo fullvaxna karmenn til að berja mús í húsi hafnarvarðarins á Skagaströnd.
    
    En í þessum kulda sem nú gengur yfir bjarta sýsluna verður að finna samhengi hlutanna og það er eins og menn vita oft snúið og torfundið. Þetta verkefni hefur samt aldrei vafist fyrir okkur Rúnari og tökum við það verk í okkar hendur, óttalausir og einbeittir:

Í harðdrægum heimi menn færa oft fórn
halda í punginn og spara.
Því er það svo mikilvægt sérhverri stjórn
að sjá  hvert hún ætlar að fara.

03.11.2010 10:12

Það skelfur víðar en undir Blöndulóni

Það er kominn vetur. Um það getur engin villst lengur því nú er allt orðið hvítt og svolítið snúnara að fara á milli staða. En á þessu áttu menn von, sérstaklega þeir sem eiga í fórum sínum dagatal sem þeir horfa reglulega á. 
    Það skelfur víðar en undir Blöndulóni þessa dagana. Um helgina stóð Vesturbakkinn svo sannarlega undir nafni því samkvæmt áræðanlegum heimildum (Jónas sjálfur) bankaði lögreglan uppá hjá Ljóninu á laugardagskvöldið og bað gesti að yfirgefa svæðið. Samkvæmt Jónasi þá gaf lögreglan ekki upp neina ástæðu fyrir þessum gjörningi en hann hafði þó grun um að meintar ófullnægjandi brunavarnir væri ástæðan. Rýming hússins gekk vel að sögn Jónasar enda gestir sem voru hjá honum vanir rýmingu (
http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=6842)  . Jónas sagði að þeir sem hafi verið þarna hjá honum á þessu rýmingarkvöldi hafi aðallega verið menn sem hefðu verið á námskeiði í brunavörnum hjá slökkviliðstjóranum á Blönduósi. Reyndar sagði hinn margreyndi baráttumaður Jónas á Ljóninu að lögreglan hefði litið inn hjá honum á föstudagskvöldið en ekkert aðhafst. Er mjög líklegt að það hafi verið vegna þess að þeir fáu gestir sem þá heimsóttu Jónas væru ekki eins liprir í rýmingu og þeir sem komu kvöldið örlagaríka.  Sem sagt, það ríkti nánast stríðsástand á Vesturbakkanum og því skal ekki neitað að Jónasi var mikið niðri fyrir er hann sagði þessar fréttir og allsendis ósáttur við vinnubrögð yfirvalda í málinu. Verst þótti honum að lögreglan gaf enga skýringu á útrýmingu gesta ( hefði getað orðað þetta "rýmingu út af ....) af kaffihúsinu Ljóni norðursins og er næsta víst að síðasta orð í þessu stríði hefur ekki verið sagt.
    Á meðan lögregluaðgerðir á Ljóninu áttu sér stað var í svo til næsta húsi, nánar tiltekið á veitingahúsinu Kiljunni, haldin heljarinnar veisla  sem samkvæmt áræðanlegum heimildum stóð eitthvað fram eftir nóttu. Myndir frá herlegheitunum vorum komnar á " Feisbókina" nánast daginn eftir og á þeim má glöggt sjá að margir skemmtu sér konunglega. Það er engu logið að lífið fer hraðar yfir vestan við  ós Blöndu þó allt virðist fellt og slétt á yfirborðinu.

    Rúnar stígur núna út úr rauðu Súkkunni sinni með Gluggann undir hendinni. Rauða Súkkan  fer ákaflega vel við nýfallin snjóinn. Svona líkt og blóðdropi fallinnar rjúpu  í drifhvítri mjöllinni. Honum fylgja látlausir valshljómar frá Harmonikkudrengjunum margfrægu og lagið sem líður út í miðvikudaginn ber það frumlega nafn Laugardagsvalsinn. 
    Glugginn er þunnur að þessu sinni en innihaldsríkur. Það vekur athygli að Gluggamenn hafa komið með brennivínsvísu eftir Pál Ólafsson sem vísu vikunnar í framhaldi af því að Heilbrigðisstofnunin tekur núna einungis blóðsýni fyrstu þrjá daga vikunnar milli kl 8 og 9. Menn geta svo sem lesið hvað sem er út úr þessu og líka því að Domus gengið er aðalega í því að selja hesthús þessa dagana. 
    En hvað sem þessu líður þá þarf að reka endahnút á þessi skrif og koma þeim í rökkrétt samhengi líðandi stundar og það hefur okkur sárasjaldan mistekist.

Um Jónas á Ljóninu stendur oft styr.
Stundum menn setj´ ann  í hlekki.
 Og slökkviliðsmönnum er skutlað á dyr
Jah!, söm veður veröldin ekki.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 112
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56746
Samtals gestir: 10461
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:19:42