Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2010 Desember

29.12.2010 18:39

Sársauki

    Þegar margir ábyrgir aðilar tjá sig um hið hörmulega bílslys skammt frá Húnaveri þar sem ungur maður lést á mánudagskvöldið þá leggur maður við hlustir.

    Þessi umræða er afar tilfinninganæm, tengd sársauka og sorg sem er eðlilegt. Ég vil aðeins segja við þá sem þekkja mig ekki,  þá er ég sá sem tók myndir fyrir Morgunblaðið á vettvangi eftir að hinn slasaði var farinn með þyrlu  og var öll mín nærvera og myndataka í fullu samráði við lögreglu og björgunaraðila. Rétt er að geta þess að allar þær myndir sem ég tók fékk  slökkviliðstjórinn á Blönduósi til afnota á samráðsfundi daginn eftir  fyrir alla þá sem að þessu slysi komu.  Ég hef tekið margar myndir í gegn um tíðina af atburðum af ýmsum toga en aldrei upplifað umræðuna á þann veg að ég væri einhver sökudólgur fyrr en nú. Ef til vill er ég allt of viðkvæmur fyrir svona umræðu en þá verður bara svo að vera. 
     Í lokin vil ég aðeins segja það að tilgangur minn er og verður ætíð sá að segja fréttir og lýsa atburðum af virðingu fyrir því umhverfi sem ég er í  en ekki að velta mér upp úr óhamingju annara, þetta vita þeir sem mig þekkja

    Guð blessi minningu hins látna og styðji og styrki þá sem sjá á eftir látnum ástvini.

29.12.2010 11:14

Flísin og bjálkinn í árslok

    Nú er mjög farið að styttast í árinu 2010, svo mjög að aðeins eru tveir og hálfur dagur eftir. Áramót eru hjá mörgum tími uppgjörs við lífið og tilveruna. Farið er yfir sviðið og mismörgum steinum velt og sumir sjá bara flísina í auga náungans en er lífsins ómögulegt að sjá bjálkann í eigin auga. En bjálkarnir eru mis alvarlegir og ég þekki marga sem eru með skrautlega bjálka í augunum og sumir þeirra setja skemmtilegan brag á tilveruna. 
    Þegar maður sest niður til að gera upp við sjálfan sig og samtímann þá er það einhvern veginn þannig að maður hefur bara eitt sjónarmið að leiðarljósi og það er eins undarlegt og það hljómar, manns eigið álit. Með öðrum orðum, maður sér heiminn út frá sínum bjálkabyggða sjónarhóli. 
    Hinn fullkomni maður er ekki lengi að fara í gegnum árið en við hin sem mismiklum syndum erum hlaðin afgreiðum uppgjörið með misjöfnum hætti. Maður eins og ég veit um þá galla sem mínir nánustu telja að ég hafi en er nú ekki alltaf tilbúinn að gangast við þeim öllum. Einn er þó sá ókostur við mig sem ég verð að fara að viðurkenna að sé á rökum reistur en það er að klúðra einföldum matarinnkaupum.
 Fyrir jólin var ég sendur út í búð til að kaupa 2 kg af hveiti. Ég spurði í einfeldni minni hvort það væri einhver sérstök tegund sem ég ætti að kaupa og fékk þau svör að svo væri ekki. Reyndar kom smá fyrirlestur um að Pillsbörrí hefði verið keyptur mikið á fyrri árum og Robbinn Húdd hveiti væri nú hætt að framleiða. Ég af minni einstöku glöggskyggni spurði hvort ekki væri til eitthvað sem héti Kornax hveiti og fékk ég leyfi til að fjárfesta í því. Gekk ég af festu og öryggi inn í Samkaup sem flestir kalla kaupfélagið og stormaði beint að hveiti rekkanum líkt og ég væri daglegur gestur í versluninni. Þarna var tveggja kílóa poki hvar á stóð Kornax hveiti. Tók ég pokann tafarlítið og setti stefnuna að afgreiðsluborðinu og greiddi fyrir 399 kr (gæti verið 368 kr). Mér var tekið fagnandi þegar heim var komið og konan gat haldið áfram að baka. Að kvöldi annars dags jóla hugðist minn betri helmingur gera sósu úr rjúpnasoði og notaði afganginn af hveitinu góða. Kom þá í ljós að ég hefði átt að kaup kornaxhveiti með rauða merkinu því það hentaði betur í sósur. Sem sagt mér tókst að klúðra hveiti innkaupum þegar mjög var liðið á tveggja kílóa hveitipokann. Reyndar er rétt að geta þess að sósan með rjúpulærunum var góð þó hveitið í henni hefði hentað betur til pizzugerðar. Þessi saga er ekki sögð til að meiða neinn heldur til þess að benda á að alltaf er hægt að læra jafnvel þegar sósa er gerð til rjúpnalæra.


    Þessi mynd er af síðustu kartöflunum sem teknar voru upp í Selvíkurgarðinum í haust. Með kartöflunum á myndinni er fólk sem er mér mjög mikilvægt á göngu um  lífsins táradal. Talið frá vinstri: Gróa María Einarsdóttir mágkona mín, Margrét Einarsdóttir eiginkona mín og síðast en ekki síðstur, Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp svili minn (stundum kallaður svakasvili)

    Þessi síðasti pistill ársins er að verða svolítið sjálfhverfur og mætti halda að ég væri búinn að gleyma stríðshetjunum á Vesturbakkanum. Svo er aldeilis ekki og án þeirra hefði ég aldrei fengið innblástur til að láta láta hugann reika um óravíddir snillingana sem umleika mig á virkum dögum allt árið. Einn þessara snillinga hefur óskað eftir því að ekki verði um hann fjallað og hef ég orðið við því allt frá þeim degi sem óskin var fram borinn. Sumir segja að þetta sé þrælsótti og ég hafi gefist upp gegn sagnfræðilegri skyldurækni. Má vel vera að þetta sé rétt en ég hef þá tilfinningu í brjósti að telji einhver að ég hafi gert honum rangt til þá held ég ekki áfram með hann í sögunni. En það er erfitt að segja sögu af  atburðum líðandi stundar á Vesturbakkanum þegar ein af persónunum óskar eftir því að vera undanskilin. Maður segir ekki góða sögu þegar  meginn þráðinn vantar nema breyta svolítið áherslum.  Ég veit að Jónas Skafta, Ívar Snorri , Fikki vert, Stefán nágranni, Nonni hundur og ef til vill fleiri vilja ekki að einn snillingur geti dæmt fjölda snillinga úr leik á sögusviði Vesturbakkans. Hver maður er mikils virði en sú virðiseinkunn ein má ekki verða til þess að þeir sem vilja vera með í sögunni endalausu sem við öll erum hluti af verði hundsaðir. Þessvegna óska ég öllum sem vilja vera með (og líka þeim sem vilja það ekki) í þessari sögu minni um óravíddir míns nánasta umhverfis velfarnaðar sem og öllum þeim sem líta hér inn, Guðs blessunar á nýju ári.
    Mig langar svona í lokin að nefna það að hann Siggi Hermanns er orðinn sá eini sem skilur eftir sig spor í gestabókinni og fyrir það er ég óumræðilega þakklátur. Hann kom til mín í sumar jákvæður og hlýr og hafði frá mörgu að segja af sínum æskuslóðum í Aðalgötunni.  Svona fólk vil ég fá í heimsókn og sem oftast.

    Það er enginn Rúnar í dag og enginn Gluggi og það þýðir bara að maður hefur ekki hugmynd um hvaða polki fylgir manni árið á enda. En eitt veit ég að Rúnar biður fyrir kveðjur til allra þó svo ég þurfi einn og óstuddur að koma þessum samhengisvísum á framfæri.

    Á leiksviði lífsins er margt um að vera
    litbrigðin stórbrotinn hvert sem ég lít.
    Og þeir sem bjákana í augunum bera
    bera það með sér að vaða í djúpu lauginni.

    Ekki við þurfum úrkul´að bíða,
    ekkert fær stöðvað tímans nið.
    Dagarnir einn af öðrum líða
    enn eitt árið tekur nú við.
 
        Gleðilegt ár, farsæld ykkur fylgi á nýju ári.

22.12.2010 10:35

Gleðileg jól með hækkandi sól

    Nú fer sólin hækkandi á himni og brátt munu heilög jól ganga í garð. Þetta eru allt kunnar staðreyndir sem hafa endurtekið sig í aldanna rás. Ég hét því á feisbókinni í gær að ég myndi skrifa um skötu , hækkandi sól  og allt sem mig langar ekki í, í jólagjöf. Ég sagðist ætla að skrifa um gamla fólkið, unga fólkið og þá sem þvælast þar á milli. Ég sagðist líka ætla að skrifa um hvað það er merkilegt hvernig allt endurtekur sig ár eftir ár. Ég lofaði líka að skrifa um óréttlæti þess að árið 2011 verður árið sem verkalýðurinn þarf að vinna myrkrana á milli og meira að segja 1. maí er á sunnudegi. Ekki nóg með það þá verða jólin á næsta ári bara svona venjulegt helgarfrí. Svo talaði ég eitthvað um ríkisstjórnina í þessu samhengi en trúr sjálfum mér á þessari síðu þá læt ég það ógert að blanda því fólki inn í þessi skrif. Þau loforð sem ég gaf í gær eru svo yfirgripsmikil að ég læt að mestu duga sem ég hef núna skrifað um þau málefni. 
    En daginn er tekið að lengja og það er stór áfangi í átt til ljóss og hlýju. Það er alltaf eitthvað spennandi við þau tímamót. Lífið er á uppleið og hægt að hlakka til svo margra hluta og hugsa um það allt sem maður ætlar að gera betur með hækkandi sól. Allt sem er á uppleið er hvetjandi og heldur voninni vakandi.

    Rúnar kom óvenju seint með Gluggann að þessu sinni enda er hann þ.e.a.s Glugginn óvenju þykkur. Um leið og hann svipti upp hurðinni á Súkkunni barst út í napran miðvikudaginn leiftrandi polki, leikinn af skoskum listamönnum og bar hið hlýlega nafn  "Bluebird polka". Þetta var vel við hæfi hjá Rúnari því hann var á litinn eins og fuglinn í polkanum, blár og kuldabólginn.
    
    Glugginn er hlaðinn jólakveðjum frá fólki og fyrirtækjum. Það er ekkert nema gott um það að segja en það er reyndar einn örlítill galli á þessu fyrirkomulagi því í þeim hópi sem sendir kveðjur með þessum hætti eru vinir mínir sem ég er vanur að senda jólakort ár hvert. Það er a.m.k. regla á mínu heimili að fara yfir jólakortin frá fyrra ári og senda þeim sem þar fyrirfinnast, kort til baka. Gallinn við þetta er sá að þeir sem senda kveðjur í Glugganum  eru ekki í jólakortabunkanum frá fyrra ári og geta því hreinlega gleymst. Sérstaklega var hætt við þessu þegar fólk sem alltaf hafði sent manni jólakveðju með korti fór allt í einu að senda kveðju með Glugganum. Ég held að við hjónin séu loksins búinn að leysa þetta vandamál en það geta alltaf átt sér stað slys og þeir sem ekki fá jólakort frá okkur þessi jól hafa örugglega orðið fyrir Gluggatjóni.

Að paufast í myrkri er mörgum þraut
en margt er vandamál stærra.
En loksins er sólin lögð á þá braut
að lyfta sér hærra og og hærra.
 
    Að þessari samhengisvísu lokinni er gráupplagt að senda öllum þeim sem líta hér inn hugheilar óskir um gleðileg jól og það gerum við Rúnar hér með

14.12.2010 20:30

Nú er nóttin löng og morgnarnir miklir

    "Morning has broken" er lag eftir Cat Stevens sem er í hávegum haft hjá mér. Ég hef oft hugað um þennan magnaða titil og hvernig honum verði best  fyrirkomið á íslensku. Ég held að þessi enska setning skáki íslenskunni svolítið því vandfundin er setning sem lýsir því þegar morguninn sem tekur við af nóttininni, rýfur tengsl dags og nætur. Þetta er eitthvað í þá átt þegar hljóðmúrinn er rofinn en ekki eins skýrt. "Morning has broken" er setning sem enn er óþýdd að mínu viti.




    Á þessari mynd er verið að brjóta upp morguninn og hleypa deginum inn í tilveruna. Þetta gerist hvern einasta dag allt árið um kring en á misjöfnum tíma allt eftir því hvar við erum stödd á árstíðinni


    Þar sem ég stakk af til Akureyrar í gær og skildi Rúnar eftir úti í kuldanum með alla sína miklu harmonikkusnillinga verð ég að reyna  að klóra í bakkann og koma með bragabót á fimmtudegi.
    Það er gaman að segja frá því að búið er að kveikja á jólatrénu frá vinum okkar í Moss í Noregi og svo skemmtilega vill til að þetta fallega jólatré sem stendur uppljómað við kirkjuna hefur stytt sér leið frá Noregi og tekið upp á því að vaxa og falla í Gunnfríðarstaðaskógi 14 km sunnan við Blönduós. 
  
    Ég sé í nýjasta Glugga að Jólatrésala Björgunarsveitarinnar er í skötulíki og ekkert í samanburði við það sem verið hefur í gegnum tíðina og ég sé líka að ungmennafélagið Vorboðinn hefur ákveðið að leggja af þrettándabrennuna. Ég er gamall þverhaus og íhaldshundur og segi hiklaust að hér er orðinn viðsnúningur á hefðbundu jólahaldi og ég sakna þessara þátta sem eru við að líða undir lok. En rétt er að benda á að Skógræktafélag A-Hún gefur fólki  tækifæri að fella sitt eigið jólatré og þiggja heitt kakó að verki loknu. Þetta er vafalítið hin besta fjölskylduskemmtun og kærkomin tilbreyting þegar dagurinn á í hinu mesta basli við að brjóta morguninn á bak aftur svo ekki sé talað um nóttina.
    Það er gaman að sjá að farið er að auglýsa þorrablótin, því þó ég sé áhugamaður um jól og þá einkum og sér í lagi jólafrí þá er ég algjör þorrafíkill og þá einkum er viðkemur matarvenjum þess tímabils sem nær yfir þorrann. Ég hef lengi velt því fyrir mér í landi þar sem konur ráða öllu, allt frá barnsfæðingum upp í matseld og skúringar að ekki sé til neitt sem heiti góumatur eða góublót. En þetta er vafalítið verkefni fyrir doktorsnema í kynjafræði að athuga og kryfja til mergjar og skila okkur niðurstöðu sem vafalítið skilar okkur marineruðum fitusnauðum kjúkingabringum í lífrænni paprikusósu með léttbrúnuðum hrísgrjónum með "dass" af soyjasósu.
    En þar sem miðvikudagurinn er liðinn og séra Hjálmar er búinn að skipta um forsíðumynd á feisbókinni og er þar kominn með asna sér til fulltingis er mál að linni og tilraun gerð til að kasta fram samhengisstöku þegar áttunda vika vetrar er hálfnuð. Eftir situr þó að við vitum ekki hvaða polki var í boði hjá Rúnari en það kemur annar miðvikudagur með eldhressum polka eftir þennan dag þó ekki sé imbudagur í dag þó hann hafi verið í gær og verði á morgun og hinn.

Stuttur dagur er kominn að kveldi
senn koma jólin til oss.
Vafalaust góða vísuna teldi
væri ég hálfur í Moss.

08.12.2010 13:54

Samhengislausir á aðventunni

Ef ég kíki undir jólatréð
þá get ég ekki inn í pakkann séð.
Það er allt of mikið streð
að missa ekki þetta góða geð.

það er gott að eiga einhvern að
og ég er þakklátur fyrir það.
Að eiga bjartan og hlýjan stað,
en eða hvað?
(Baldur Einarsson 2010)

    Þessi dagur er ansi sögulegur bæði hvað mig og mína varðar sem og heimssöguna alla. Þennan dag fyrir 35 árum fæddist okkur hjónum okkar fyrsta barn sem var vatni ausinn og skírður Einar Örn. Hann hefur síðan skilað af sér 4 heilbrigðum börnum og er ljóðið hér að ofan eftir næst elsta barn hans sem heitir Baldur og er 8 ára. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þessar vísur því þær skýra sig alveg sjálfar. Þessi átta ára drengur er mjög virkur og hreyfanlegur með gullhjarta og auk þess alls óhræddur við heiminn. Hann á það til að gleyma einföldum hlutum en þeir mikilvægustu eins og heiðarleiki, einlægni og samúð  eru inngrónir sál hans eins og ofanritað ljóð sýnir. 
    Annar atburður í sögunni er að sjálfsögðu morðið á John Lennon fyrir nákvæmlega þrjátíu árum. Þennan atburð man afmælisbarnið í minni fjölskyldu vel þó svo að hann hafi aðeins verið 5 ára þegar þessir hörmulegu atburðir áttu sér stað.

    Af Vesturbakkanum er svona heldur fátt að frétta. Það er svolítið líf á Kiljunni og lögreglan er flutt í Aðalgötuna. Þetta merki ég á því að lögreglubíll er hér allan sólahringinn og má fullyrða að aldrei hafa jafn fáir á eins litlu svæði haft eins mikla löggæslu. 
    Jónas enn í ógnarbasli á við sýslumann líkt og pabbinn forðum með flibbahnappinn. Mér fannst svona á Jónasi fyrir skömmu að hann vonaðist eftir leyfi til veitingareksturs á Ljóninu áður en mjög langt um liði og ætlaði að hafa kránna opna á Þorláksmessu.

Að öðru leyti er hér lítið að gerst. Hrafnar flögra þó á milli ljósastaura og húsmæna og krúnka og þegar vel liggur á þeim gefa þeir frá sér kostuleg kokhljóð sem gera mig kátan en nafna minn hund snælduvitlausan. 


    
    Rúnar er kominn með Gluggann og lét sig ekki hverfa eins og síðasta miðvikudag. Og þegar Rúnar kemur án þess að hvefa strax, skilur hann ætíð eftir sig harmonikkutóna og að þessu sinni var hann með skoska listamenn með sér í eftirdragi. Ekki veit ég hver var flytjandi Plaza Polkans sem hvarf út í dánardægur John Lennons en takturinn var góður og lagið skemmtilegt.


    Héðinn Sigurðsson, (Silla) Sigurlaug Markúsdóttir og Sædís Gunnarsdóttir að skreyta biðstofu heilsugæslunnar á niðurskurðartímum. Nota þau í skrautið trjáafklippur sem Einar Óli hefur nagað af hríslum umhverfis Hælið. Gott framtak hjá starfsfólkinu.

    Glugginn er svona eins og Jólagluggar eiga að vera, fullur af jólaauglýsingum hverskonar. En það sem vekur sérstaka athygli er að vísur vikunnar eru tvær að þessu sinni og eru að öllum líkindum eftir Laufeyju Dís listamann á Brekkunni. Vísurnar eru jólalegar og fjalla um börn sem að geisla og neista sem skreyta sæinn. Gaman þegar nýjar raddir kveða sér hljóð í vísnahorni Gluggans.
    Okkur Rúnari finnst líka fengur í því að nýtt fyrirtæki sé að hasla sér völl í bænum og búið að opna verslun á Efstubrautinni. Seigur maður Hans Vilberg og óskum við honum og hans liði, velfarnaðar.
    Það eru reyndar fleiri sem eru að seiglast áfram í lífinu eins og Hrefna Ara með alla trékarlanna sína og líklega eru fleiri sem þokast áfram í lífsins amstri og láta hvergi bugast.

    En það er með okkur líkt og flesta sem enn eru óbugaðir að við verðum að koma auga á hið gullvæga samhengi sem límir saman alla hluti og gerir veröldina svona eins og hún er, samhengislausa í öllu sínu samhengi.

Spilverkið í okkar stórbrotna haus
starfaði vel þar til allt saman fraus.
Það er út af þessu
sem allt er í klessu, 
þessvegna er vísan hér samhengislaus.

01.12.2010 09:52

Ákaft og stöðugt lífið fram streymir

    Fullveldisdagurinn er í dag hafi það farið fram hjá einhverjum. Vonandi auðnast okkur að fagna honum um ókomin ár. Ég veit það líka að Guðbjartur Guðmundsson fyrrverandi ráðunautur, frú Þórhildur Ísberg og Júlíus Árni í Meðalheimi eiga afmæli í dag og fá þau árnaðaróskir frá mér. 
    Í mínum huga hefur þessi dagur lengi verið afar sérstakur og þá vegna fæðingar nýs bragarháttar sem kenndur er við Stóru - Giljá.  Ég þori ekki að nefna árið nákvæmlega en það eru um 30 ár síðan þessi landsfræga vísa var flutt á árshátíð hjá Lionsklúbbi Blönduós sem haldin var á Hótelinu einmitt þennan dag. Það vill þannig til eins og framan er skráð að Guðbjartur og frú Þórhildur Ísberg sýslumannsfrú eiga afmæli 1. desember og Erlendur G. Eysteinsson flutti þeim ljóð í tilefni dagsins á áðunefndri hátíð Lions. Þessi vísa er til í tveimur útgáfum og þori ég ekki að fara með það hvor þeirra er sú upprunalega en báðar útgáfurnar eru tær snilld og líkast til hefur það verið á þessari stundu sem ég gerði mér grein fyrir því að kveðskapur væri ekki fyrir fáa útvalda heldur væri sauðsvörtum almúganum nú tryggður frjáls og óheftur aðgangur að þessu tjáningarformi.

Vísurnar eru svona:

Afmæli eiga bæði tvö,
varla nokkur trúir þessu.
Guðbjartur er sjötíu og sjö
og sýslumannsfrúin eitthvað undir þessu.

Hin útgáfan er þessu lík:

Afmæli eiga bæði tvö,
það er framar öllum vonum.
Guðbjartur er sjötíu og sjö
en sýslumannsfrúin eitthvað undir honum.

    Tveir menn á Vesturbakkanum þeir Jónas Skafta og Ívar Snorri tjáðu mér áðan að þeir væru í hjarta sínu lukkulegir með Fullveldisdaginn en stæðu engu að síður í fullveldisbaráttu fyrir sig sjálfa. Jónas fær ekki fullveldi yfir sínum veitingarekstri og Ívar fær ekki fullveldi yfir  nýsmíðuðu "bíslagi" við heimili sitt. Höfuðandstæðingurinn hjá Jónasi eru bæjaryfirvöld og sýslumaðurinn en bæjaryfirvöld eru eini andstæðingur Ívars Snorra. Grun hef ég um það að hægt sé að leysa mál þessi ef þau verða tekin kærleiksríkum tökum og umvafin ást og kærleika og blandað saman við opin og jákvæðan huga. Það væri kannski reynandi fyrir þá að koma þessum baráttumálum sínum til Þorvaldar Gylfasonar og fá inni fyrir þau í stjórnarskránni.
    Óskar í Meðalheimi leit hér inn og lagði fyrir mig einfalda spurningu sem ég svaraði á einfaldan hátt. Síðan spurði ég hann einfaldlega hvort hann hefði ekki handa mér vísu því meðhjálpari minn hann Rúnar Gluggaútburður hefði einfaldlega skilið Gluggann eftir á hurðarhúninum hjá mér á Aðalgötunni án þess láta nokkurn mann vita eða  gera grein fyrir fjarveru sinni. Með þessu háttarlagi Rúnars hefði hann skilið mig eftir einan og umkomulausan í algjöru tómarúmi. Enginn vals eða polki frá Familien Brix eða Arnt Haugen kæmi til með að líða út í Fullveldisdaginn. Óskar svaraði þessari beiðni minni á einfaldan hátt: "Nei"
    
    En Glugginn er kominn út. Þar má sjá auglýsingu frá Halla á Grund þar sem hann auglýsir til sölu 6 fengnar kvígur. Alveg er ég viss um það að einhver grunlaus ungur maður hugsar með sér. Hvar eru þessar kvígur fengnar, eru þær illa fengnar? Eða eitthvað í þessum dúr en það skal upplýst fyrir þá sem ekki vita að fengnar kvígur eru kvígur sem hafa fengið það og eru með fangi (sem sagt kálfur kominn í kusu).
    Kveikt verður á jólatrénu sem vinir okkar í Moss gefa okkur. Nú líkt og í fyrra er norska tréð úr Gunnfríðarstaðaskógi og er afar líklegt að Páll Ingþór konungur skóganna hafi farið með stutta kveðju áður en tréð var fellt og fellt síðan nokkur tár í leiðinni.

    Að þessu sinni og kemur ekki á óvart er vísa vikunnar eftir Rúnar stórskáld á Skagaströnd og fjallar um kerfis narra og Gnarrinn og telur líklegt að hann sé ekki einn um að vita lítið í sinn haus.
    En nú er mál að linni og komið að samhengi hlutanna sem ég einn og yfirgefinn þarf að koma auga á.

Ekki ég öfunda þann sem mér gleymir
eigi kom Rúnar á hugmyndafund.
En ákaft og stöðugt lífið fram streymir
því sex eru fengnar kvígur frá Grund.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 167
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 61004
Samtals gestir: 10728
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 06:54:23