Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 Janúar

26.01.2011 10:03

Á Sölvabakkamel er sælan falin

    

    Það er vor í lofti þessa dagana og gæsirnar 7 sem halda sig á túnunum vestan Hnjúkabyggðar hafa það bara bærilegt. Auðnutitlingarnir (Carduelis flammea) eru afslappaðir og hrafninn er svolítið ruglaður eftir að urðun á sorpi hefur verið hætt í Draugagili. Hann flýgur á milli ljósastaura og húsmæna og skimar eftir æti og gefur frá sér ýmis furðuhljóð.


    Þorrablót kvenfélagsins var haldið síðastliðinn laugardag og tókst mjög vel. Aðalnúmerið í skemmtiatriðunum var Jónas nokkur Skaftason kenndur við Ljón norðursins. Ekki var hann þarna í raun heldur í anda og var greinilegt á öllu að hann var með undirtökin í samskiftum við bæjaryfirvöld og sýslumannsemmbættið eins og svo margoft hefur komið fram í pistlum hér. Það er ekki ætlunin að segja meira frá þorrablóti annað en það að maturinn var að þessu sinni mjög góður og var súrmetið súrt í alvöru og þeir sem þess nutu, himinsælir eins og komið hefur fram.
    Þegar ég lít svona í fljótheitum yfir liðna viku þá kemur það mér svolítið á óvart að Jónas hefur ekkert haft samband við mig þó ekki væri til annars en spyrja hvernig til hefði tekist á þorrablótinu. Sem sagt, ég hef ekkert heyrt í Jónasi en vil bara ítreka það að hann ætlar að opna Ljónið fyrir alþýðunni þann 1. apríl. 
    Þar sem heldur fátt er að frétta af Vesturbakkanum þessa síðustu daga er freistandi að gægjast svolítið yfir á Austurbakkann. Fyrir utan það að hún Bóta (Bóthildur Halldórsdóttir) var  valin af lesendum Húnahornsins, maður ársins í Húnaþingi 2010 er einnig heldur fátt af þeim bakka að frétta. En það er langt síðan ég skrifaði á þessum vettvangi að Bóta væri til bóta og það hefur svo sannarlega sannað sig.
Þetta er samt allt svo skrýtið þegar maður fer virkilega að hugsa um hlutina. Getur verið að það sé lítið að frétta eða getur skýringin verið sú að undirritaður sé svona utanveltu í samfélaginu að allt hið fréttnæma skondrist framhjá án þes að ég veiti því eftirtekt. Það skyldi þó aldrei vera að það sé ég sem er aðal vandamálið í þessu öllu saman en hvort er þá er þetta bara svona.
    Mikið væri nú gaman að frétta eitthvað af gagnaveri og stöðu þess á ákvarðanatökuborði þeirra sem um véla. Er gagnaverið á leiðinni út af borðinu á framkvæmdastig eða í ruslakörfuna eða er enn verið að bíða og hvað veldur þeirri bið?
Fyrst maður hefur ekkert fréttnæmt að segja þá er alveg tilvalið að varpa fram annari spurningu út í loftið. Skiltið við Norðurlandsveg vestan Blöndubrúar sem vísar á tjaldsvæði sem ekkert er; verður það enn til staðar í sumar til þess eins að rugla saklausa ferðamenn? En núna fer Rúnar bráðum að koma með Gluggann þannig að best er að hætta þessum heimskulegu spurningum og fara að huga að innihaldi Gluggans.

    Og viti menn; Rúnar er bara mættur og bíður eftir mér fyrir utan Aðalgötu 8 þegar ég kem úr hádegismat.
 

    Veðrið er gott og valsinn "Við fjörðinn" eftir Bjarna Halldór Bjarnason, einkar viðeigandi, hljómði undur vel út yfir Aðalgötuna og nánast umhverfi. Nonni hundur á hæðinni fyrir ofan og hrafnarnir í gamla bænum steinþögðu.
    Glugginn er þorrablót í bak og fyrir. Annarsvegar er minnt á Hreppablótið og hinsvegar á þorrblót þeirra Bólhlíðinga og Svínvetninga í Húnaveri. 
    Vísa vikunnar er á sínum stað og er líkast til eftir Óskar skáld í Meðalheimi þar sem hann veltir vöngum yfir því hversvegna þjóð sem skapar svona mikil verðmæti virðist samt sem áður alltaf vera að tapa. Kannski að skýringin felist í þeim fleygu orðum Steingríms heitins Davíðssonar skólastóra sem hann lét falla á á sínum tíma. "Það þýðir ekkert að spara og spara og spara svo aldrei neitt".

    En nú er komið að hinni sjálfskipuðu píslargöngu okkar félaganna að finna hið óborganlega samhengi hlutanna sem allsstaðar leynist og á sér margar birtingarmyndir.

        Auðnutittlingarnir eru spakir
        ekkert getur truflað þeirra frið.
        Og yfir hverjum bita hrafninn vakir.
        Hverfult reynist stundum lífsins svið.

        Á Sölvabakkamel er sælan  falin
        sækja þangað bráðum hrafnar þeir
        Í lífsbjörgina leitar sá er kvalinn
        og líður ekki hungurverki meir.

19.01.2011 13:22

Sviðasulta og súrir pungar

    Handboltinn hefur heltekið þjóðina og þar sem ég er víst hluti af henni fell ég undir þessa skilgreiningu. Leikurinn í gærkvöldi á móti Austurríki var vægast sagt taugatrekkjandi og ef ég segi satt þá hafði ég alltaf trú á Okkar mönnum en mín kona var í mun meiri vafa. Það var ekki fyrr en ég var búinn að veita henni nokkrar tveggja mínútna brottvísnir úr stofunni að eitthvað fór að ganga og að lokum lönduðum við sigri eins og efni stóðu til og þjóðin veit. Það skaust svona upp í huga mér eftir leikinn hve það er ljúft fyrir þjóðina að eiga eitthvað sem hún getur sameinast um.

    Jónas Skaftason húsbóndi á Ljóninu kom til mín í byrjun viku til að greina mér frá gangi mála á samskiptum hans og helstu embættismanna í héraði. Var á Jónasi að  heyra að hann hefði nú orðið nokkuð góð undirtök í þeim leik og sagði mér í óspurðum fréttum að hann ætlaði að hefja starfsemi á Ljóninu þann 1. apríl, mánuði fyrr en í fyrra. "Er þetta bara ekki aprílgabb hjá þér" sagði ég si svona og fékk skýrt andsvar: "Nei! Jón, hér er ekki um aprígabb að ræða". "Jæja" sagði ég og bætti við: "Það verður þá um svipað leiti í vor sem þú og grágæsirnar fara að gleðja bæjarbúa". "Já, það má segja að nokkuð sé til í því", samsinnti Jónas.
Annars er það eina sem kemst að í mínu fábreytta höfði þessa dagana fyrir utan handboltann er að það styttist í þorrann og á föstudaginn hef ég fullt leyfi til að veiða upp úr súrtunnunni minni ýmislegt góðgæti og  snæða það með rófustöppu, ísköldu brennivíni og þorrabjór. Er ekki tilveran dásamleg

Í framhaldi af þessu síðastnefnda er tilvalið að birta þessa mynd
  
    
    Þetta er hún Jóhanna Bjarnadóttir frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal að sinna hannyrðum með vinum sínum í félagsaðstöðu aldraðra í Hnitbjörgum. Hún sagði þegar ég tók myndina: "'Ég myndast alltaf svo illa." Ég læt öðrum eftir að dæma hvort hún hafi rétt fyrir sér.
    
    Rúnar er kominn með Gluggann og það lekur af honum lífsgleðin umvafin eldfjörugum Plazapolka í flutningi skoskra listamanna. Það er allt í lagi að leika fjörugan polka í dag því nú er hægt að dansa á gangstéttum eftir hlákuna sem kom í nótt.
    Forsíðu auglýsingin er eitthvað svo upplífgandi, gefandi, hjartastyrkjandi og alltumgleðjanleg. Þorrablót kvenfélagsins Vöku verður á laugardaginn. Góður matur, góðir félagar og vinir, gott skemmtiefni og vonandi góð tónlist. Það þarf bara ekki að hafa um þetta fleiri orð því þetta er spennandi og tilhlökkunarvert.
    Það kennir ýmissa grasa í Glugganum eins og gefur að skilja. Sölufélagið minnir á þorramatinn, sýnikennsla verður fyrir reiðmenn og ritnefnd Húnavöku er farin að minna á sig.
    Vísa vikunnar er á sínum stað og er um hvað margir skagfirskir stórólfar hafa horfið af sjónarsviðinu og nú sitja þeir eingöngu uppi með einn Þórólf eða það segir Rúnar Kristjánsson frá Skagaströnd að minnsta kosti

Rúnar vinur minn hinn Blönduóski er ekki eins upptendraður og ég af handboltanum og íþróttagjálfri almennt og það hrökk út úr honum þessi staka svona til þess að leggja létta áherslu á tilfinningar sínar:

Hjá flestum fer hér allt í sport
handbolta og fleira
Enga vísu ég hef ort
er bara úti að keyra.

    Þá er bara eftir að finna samhengi hlutanna sem svo oft eru samhengislausir og ósamræmanlegir að það er ekki á færi annara en einstakra manna að koma böndum á hið óræða samhengi þeirra.

Hamingjustuðull er nú með hæsta móti.
Hækkandi sól og óveiddur byggðakvóti.
Og á laugardagskvöld
eignar gleðin sér völd
á geggjuðu þorrablóti.

12.01.2011 17:12

Á Morgunblaðsgöngu orti hann Erlendur ljóð

    Við stöndum á hverjum degi frammi fyrir þeirri spurningu hvort það komi lífinu og tilverunni betur að þegja eða segja frá. Veldur hver á heldur og einhvern veginn læðist að mér sá grunur að hver sé sinnar gæfu smiður í þessum efnum sem og svo mörgum öðrum. Að ætla að koma með einhverjar algildar reglur í þessu er líkast því að taka sér alræðisvald og þykjast vita allt. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að gæfan hefur hreinlega lagt mig í einelti. Þið takið eftir því að þessi síðasta setning er jákvæð lýsing á neikvæðu fyrirbrigði. Ég segi nú eins og Adolf Ingi lýsti á sínum tíma þegar íþróttamaður ársins sýndi frábæra varnartilburði í handboltaleik við Pólverja. " Hvaðan kom hann, hver er hann, hvert er hann að fara?" Þessum spurningum get ég svarað fyrir mig persónulega og "prívat". 
    Ég er alinn upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík þar sem ég komst aldrei í tengsl við orðasambandið einelti þó maður yrði fyrir barðinu á hinu og þessu í þeim tilgangi einum að auka þroskann. Ég var svo heppinn að eiga að heimavinnandi móður sem var alltaf til staðar þegar mikið lá við og tiltölulega flókin mál í huga barns voru einföld gerð á örskotsstundu. 
    Þegar þessi ár voru að baki og gelgjan tók við þá hófst tímabil sem var allt öðruvísi en ég átti að venjast. En ég vandist því og þegar ég áttaði mig loks á því  hvert ég ætlaði að fara þá var gamli Jón kvaddur og sá nýji tók við. Hér er ég og get bara ekkert að því gert. Þetta er ævisaga mín í stórum dráttum. 

    Af Vesturbakkanum eru fáar fréttir en góðar en hótelið var opnað fyrir veðurtepptum ferðamönnum á dögunum og jólaljósin loga enn á Kiljunni.  Í nokkra daga hafa logað ljós í trésmíðaverkstæði Kráks sem er til húsa í gamla Krútt bakaríi. Það eru ekki bara ljós sem þar hafa lifað heldur hefur sést til mannaferða þannig að eitthvað er um að vera. Einnig er gaman að segja frá því að Stígandamenn eru byrjaðir að þokast upp á við í Þorsteinshúsi undir stryrkri stjórn Doktorsins (Helgi Braga) og farnir að styrkja burðarvirki á fyrstu hæðinni. Já lífið þokast hér áfram á sínum jafna og góða hraða.

    Núna kemur Rúnar og er með Gluggann eins og venjulega með sér og hittir mig fyrir og frú Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli í þungum þönkum. Ég heyrði óminn af hinum ómótstæðilega Snevals berast inn um gættina með honum. Nú eins og alltaf áður voru það blessuðu Harmonikdrengene sem fluttu þennan velviðeigandi vals.
    Annað tölublað Gluggans er komið út og hefur það þynnst mikið frá jólum. Þar er helst að frétta að fasteigna Magnús og Stefán hrl eru núna farnir að vinna fyrir Motus sem áður hét Intrum og Jón Bjarna og Ásmundur Einar úr órólegu deild Vg ætla að reyna að sannfæra kjósendur sína að þeir séu enn á móti inngöngu í ESB og að allt sé með kyrrum kjörum á stjórnarheimilinu.
    Fyrir utan auglýsingu kvenfélagsins Vöku á þorrablótinu þann 22. jan þá er einna skemmtilegast að sjá í Glugga að vísa vikunnar er eftir hinn galvaska snilling Erlend G Eysteinsson og er sögð vera drauma vísa ; þ.e.a.s. vísan er ort í draumi og er ég viss um  að hún er ort í vöku á dimmum vetrarmorgni þegar hann ferðast um bæinn og ber Morgunblaðið til lesenda. Það er kannski réttara að segja að vísan sé ort að nóttu því Erlendur er ætíð á ferð með blaðið svo snemma að enginn bæjarbúa er vaknaður þegar blað er komið í hús. Ég er viss um það að íbúar á höfuðborgarsvæðinu fá ekki Morgunblaðið sitt á fyrr en við hér á Blönduósi, slík er þjónustan hjá Erlendi.  
    En samhengislausir getum við ekki verið því fyrir það erum við ekki þekktir. Þessvegna er samhengið eitthvað á þessa leið og fjallar að sjálfsögðu um Jón ráðherra og Erlend:

Jón sagði það, þar sem hann stóð:
"Staðan í flokknum er góð."
Og á  Morgunblaðsgöngu
ei alls fyrir löngu
Orti hann Erlendur ljóð.

05.01.2011 10:47

Örlagadagur í lok litlu jóla

    Á morgun renna litlu jólin sitt skeið á enda. Ekki það að þau hafi verið neitt minni í hátíðleika eða gleði en önnur jól, heldur vegna þess að það voru svo margir virkir dagar sem fóru til spillis í vinnu.  Hjálmar Freysteinsson orðar þetta skemmtilega í Morgunblaðinu í dag:

Bensín og brennivín hækkar,
í buddunni stöðugt lækkar,
samt er það verst
sem hefur gerst
að frídögum stórlega fækkar.

Svo ég vitni svolítið meira í Moggann þá er ekki úr vegi áður en lengra er haldið að renna yfir stjörnuspánna mína fyrir daginn:
Vatnsberi Þú ert í vafa með áframhaldið, áttu að stökkva eða hrökkva? Settu vandamálið
bak við eyrað í nokkra daga og svarið kemur. Ég er með tvö, þrjú mál sem ég er í vafa um hvernig eigi að höndla en mitt mottó hefur nú oft verið að hika sé það sama og að tapa. En þar sem Mogginn lýgur ekki þá ætla ég aðeins að doka við.

   
     "Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, kunningjar og velunnarar sérstaklega, Blönduóssbær og sýslumannsembættið. Ljón Norðursins, Blönduból og Jónas Travel group. Á eigin styrk" Svona hljómar ein nýjárskveðja í Glugganum í dag. Fyrir mig sem tíðindamann af Vesturbakkanum þá er þessi auglýsing gleðifrétt því ósjaldan hef ég greint frá núningi milli Ljónsins og embættanna tveggja sem hafa aðsetur á Hnjúkabyggð 33. Af framansögðu má greina að mér leiðast leiðindi. Rétt er að greina frá því að Jónas sjálfur greindi mér frá því á mánudaginn að Blönduósbær og sýslumaður væru á hröðu undanhaldi í málum sem varða hann og það sæist brátt fyrir endann á stóra leyfisveitingamálinu.
    Það var einhver vís maður hér í bæ sem lét þau orð falla fyrir jól að dagurinn í dag yrði mikil örlagadagur fyrir Blönduós. Ekki var ljóst í hverju þetta lá en 5. janúar 2011 verður dagurinn sem skiptir sköpum fyrir fyrir okkar litla og notalega samfélag. Samfélag sem hefur upp á allt að bjóða sem velgerður bæjarbúi hefur þörf fyrir. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist eða verður tekin ákvörðun um varðandi bæinn okkar. Margir hafa látið sér detta í hug að ákvörðun verði tekin um gagnaver. Auðvitað er margt sem kemur til greina en eitt er víst að eitthvað gerist en það er bara óljóst hvað það er. Kannski verður gefið út leyfisbréf fyrir rekstur á Ljóni norðursins.
    Þegar þessi orð eru skrifuð þá rennur jafnframt upp bjartur og kaldur dagur og bíllinn minn er í smurningu uppi í Kjalfelli. Eftir að hafa rætt við einn af starfsmönnum Kjalfells sem ók mér til vinnu frá verkstæði, um bensínverðið og að sólin hækkaði stöðugt á himni fór ég að skoða Gluggann á netinu. Ég var fljótur að átta mig á því að vísa vikunnar var einkar vel gerð og svo merkilega sönn.

Í lífinu býrðu við súrt og við sætt
því samblandi af slíku er alls staðar mætt.
Og alltaf er ljóst að við ýmsu er hætt
en ef þú ert tryggður þá færðu það bætt !

    Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd hittir þarna naglann á höfuðið eins og svo oft áður og gaman að segja frá því að lokaorð vísunnar eru einmitt einkennisorð þessarar síðu.
    Ég get vart með orðum lýst hvað ég varð óumræðilega glaður í sálinni þegar ég sá auglýsingu frá kvenfélaginu Vöku á Blönduósi að þorrblótið yrði 22. janúar. Það er nefnilega alltaf það fyrsta sem ég geri þegar jólin eru búinn að ég fer að hlakka til þorrans og matarins sem honum fylgir. Það er eitthvað svo viðeigandi að byrja þessa gleði í Félagsheimilinu á Blönduósi með vinum og kunningjum. Það fer um mig sæluhrollur bara við að skrifa þetta.
Eitthvað er það sem tefur vin minn og andlega framlengingu, Magnús Rúnar Agnarsson. Hann er vanur að vera kominn um þetta leiti með Gluggann í prentuðu formi. Það vantar einhvern polka eða vals inn í þennan fyrsta miðvikudag ársins 2011. Inn í daginn sem á að verða svo örlagaríkur fyrir samfélagið. Kannski situr hann heima á óðali sínu og hlustar einn og sjálfum sér nægur á hinn óútreiknanlega örlagvals. Hver veit? Ekki ég.
En ég veit að æðarfuglinn, ein og ein brimdúfa ásamt nokkrum skörfum og einmana mávum synda í sjónum við botn Húnafjarðar innan um klakahröngl úr Blöndu. Og ég veit líka að um tíu gæsir hafa ekki nennt til Bretlandseyja í haust og halda sig á túninu fyrir neðan Brautarholt. 
En núna þegar klukkan er rétt að renna í tvö kemur karlinn Rúnar og með þennan líka fína polka eftir Bjarna Halldór Bjarnason. Þið vitið ekki hvað það er gott að hafa góðan polka í sálarfarteskinu. Vals er líka góður og skottís stendur alltaf fyrir sínu. En Rúnar er mættur og það er aðalatriðið og þá er ekkert annað eftir en að finna samhengið í þessu öllu og það munum við finna. Þetta gæti verið tilraun til þess.

Nú stundin er komin sem kveðinn skal bragur 
á kalsömum degi sem hreinn er og fagur.
En frægt er með daga
þeim fylgir oft saga
og því verður þess´einnig örlagadagur.

02.01.2011 16:16

Gleðilegt ár

    Dagur tvö er að renna sitt skeið. Dagur tvö á nýju ári sem er nánast óskrifað blað í hinu miskunarlausu gangverki tímans sem engu eirir en æðir bara áfram sama hvað hver segir. Þó svo tíminn sýni enga miskun þá er mjög hollt að að staldra við og líta um öxl. Ekki í þeim tilgangi að dæma heldur til að þakka. Þegar maður hefur þakkað þá er ekki úr vegi að líta fram á við og vona hið besta. 
    Hversu nálægt maður er sjálfum sér liggur svona að flestra mati í hlutarins eðli og því óska ég öllum og öllu sem standa mér næst velfarnaðar á þessu nýbyrjaða ári. En ég er ekki svo skyni skroppinn að þó hver maður sé sjálfum sér næstur þá er loka niðurstaðan í mínum huga sú að Guð sé oss næstur. Og að þeirri niðurstöðu fenginni þá liggur það beint við að óska öllum velfarnaðar á nýju ári þó svo ég viti að það er lífsins ómögulegt að gera öllum til hæfis. En það er vonin, þakklætið og örugglega eitthvað annað sem er gangverkið í því að vera til, finna til og halda áfram. Þessi fátæklegu orð eru tilraun mín til að segja á einfaldan hátt "GLEÐILEGT ÁR"



Þessi mynd á vel við á nýju ári því það er svo margt sem í þessu höfði býr og á eftir að koma í ljós á nýju ári

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63167
Samtals gestir: 11264
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 12:43:54