Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 Apríl

27.04.2011 09:53

Á einhvern hátt hefur það verið

    "Hvort sem það hefur nú verið eins og það var eða var ekki, á einhvern hátt hefur það verið. Og aldrei hefur það verið þannig að það væri ekki á einhvern hátt." Þetta eru orð manns sem beðin var að staðfesta hvort rétt væri eftir honum haft í skýrslutöku samkvæmt frásögn góða dátans Svejk. Sagan um góða dátann Svejk er hreint út sagt dásamleg og ætti að vera skyldulesning fyrir fólk sem er komið með snert af þunglyndi vegna neikvæðra strauma í nútíma samfélagi. Á tímum sem þessum er mikilvægt að rifja upp heimspeki Svejks, hið fádæma æðruleysi hans en hann lætur sér fátt um finnast hvað sem á dynur. 


Þessi fugl hefur stundum ruglað saklausa íbúa í ríminu og þeir hringt í fréttastofu RÚV og sagt að krían væri komin. Þetta er að sjálfsögðu hettumávur
    
    Nú eru páskar að baki og sumar gengið í garð og framundan tóm sæla og gleði eða það skyldum við ætla. Gæsirnar eru flestar komnar í heimahagana og farnar að gera stykki sín á vegum og slóðum. Þessvegna var gaman að lesa í Morgunblaðinu í morgun vísur eftir Pétur Stefánsson sem fékk sér göngutúr í Elliðiðaárdalnum fyrir skömmu. Þessi vísa sem er ein af nokkrum, gæti allt eins átt við nokkrar gönguleiðir í mínum heimabæ:

                Í Elliðaárdal ég arka stíga. 
                Útivistar þeirrar nýt. 
                Horfi þar á hunda míga 
                og hauga af volgum gæsaskít.

    En það er gömul saga og ný að menn skiptast í  tvo hópa sem annað hvort elska að hata gæsirnar eða hreinlega elska þær. Þessi fugl sem er einkennisfugl bæjarins er ótrúlega líkur okkur mönnum í hegðun. Hann brúkar munn og hvæsir og gargar svo lengi sem stætt er en hörfar undan ef honum er mætt af ákveðni og festu. Svo er eitt merkilegt við þennan fugl að hann virðir ekki umferðalögin og getur líkt og Blönduóslöggann stöðvað umferð fyrirvaralaust.


                    Þröstur minn góði, líkt og lóan er farinn að syngja inn sumarið

    Jónas á Ljóninu unir núna glaður við sitt og verður ekki fyrir neinu áreiti að hálfu yfirvalda. Jónas er ekki alveg viss hvort þessi friður sé svikalogn eða að raunverulegur friður sé dottinn á. En það eitt er öruggt að sögn Jónasar að báturinn Skafti Fanndal verður sjósettur næsta blíðviðrisdag. Til þessa verks hefur hann fengið sér til stuðnings þá miklu snilldar- og heiðursmenn Hilmar Snorrason og Ívar Snorra einn fremsta útgerðarmann bæjarins.

    Núna heyri ég hressilega harmonikkutóna óma út yfir Aðalgötuna og segir mér bara eitt að Rúnar er á leiðinni. Og viti menn fyrir utan hjá mér stöðvar Rúnar Súkkuna sína svo ég megi betur heyra í skoskum listamönnum flytja hinn eldfjöruga Plaza Polka. En Rúnar kemur með fleira heldur en Plaza Polka því hann er að sjálfsögðu með Glugga vikunnar.

    Glugginn er frekar rýr í roðinu en þar leynist ýmislegt eins og til dæmis vísa vikunnar sem aldrei þessu vant er eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Hið ágæta skáld þeirra Skagstrendinga bregður út af vananum að þessu sinni og lætur sem Þórólfur kaupfélagsstjóri sé ekki til og fer að yrkja um tjaldinn, lóuna og mig. Tilefnið var það að Rúnar hinn skagstrendski las viðtal við Arnar Þór bæjarstjóra á Blönduósi í héraðsfréttablaðinu Feyki og kom það fram hjá honum að ég sé á svipuðum stalli og lóan og tjaldurinn þegar kemur að því að tjá sig um vorkomuna. vísan er svona:

                Vaknar á Ósnum vorsins kór,
                vottar það stjórinn Arnar Þór :
                "Með lifandi tjáningu töfra mig,
                tjaldurinn,lóan og Nonni Sig


    Ég er hræður og sæll í sálu að vera kominn á stall með sjálfri lóunni og vera félagi í vorsins kór en innst inn veit ég að við verðum aldrei jafngild ég og lóan því hún mun ætíð verða mér fremri í að kveða burt leiðindin og snjóinn. 
    Það er best að hætta þessu hjali um mig velta örlitlum vöngum yfir æskulýðsýningu hestamannfélagsins Neista en þar munu koma fram 30 krakkar á öllum aldri. Þar sem þetta er nú hestamannfélag þá drögum við Rúnar þá ályktun að einhver hross verði í spilinu en erum þó ekki alveg vissir.
    Svo er rétt að árétta það að 1. maí er á sunnudegi og er þar enn einum frídeginum rænt af alþýðunni því ekki er langt síðan að sumardeginum fyrsta var rænt af okkur. Það væri kannski rétt að þessi mál væru tekin til alvarlegrar athugunar hjá verkalýðsfélögunum.  

    En hið gullna samhengi verður að koma og ekki síðar en núna, því yrkjum við vísu um ekki neitt.

                Á einhvern hátt hefur verið
                Hvort  hefur nú verið sem var.
                Á Austfjörðum eta menn skerið
                með endemum er þetta svar.

20.04.2011 13:19

AVP komin í bæinn

    Nú verður lítið skrifað en stiklað á stóru í lýsingu á vorkomunni. Helsta fréttin er sú að gæs sem fædd er á Blönduósi árið 2000 og ber einkennisstafina AVP á fótum er kominn og það sem meira er hún kom fyrst í heimsókn til Jónasar á Ljóninu. Jónas segir að þessi gæs sé feit og pattaraleg og sómi sér vel sem eðalgæs bæjarins. Ég er mikið búin að skima eftir aðal eðalgæsininni SLN sem hefur komið hér árlega síðan árið 2000. Það er kominn smá kvíði í sálina um að hún hafi nú orðið fyrir einhverju því sem óhollt er hverju lífi en ég vona enn hið besta.


Gæsirnar streyma núna í stórum hópum til heimahaganna en svona var tekið á móti þessum gæsum í gær
    Jónas sagði mér í óspurðum fréttum um leið og hann sagði mér frá merktu gæsinni að hann ætlaði að hafa opið um helgina eins og engin væri til sýslumaðurinn eða bæjaryfirvöld. 

    Rúnar vinur minn skildi Gluggann eftir á hurðarhúninum og hringdi svo skömmu seinna og sagðist vera upptekinn. Mér leið svona eins og munaðarlausum páskaunga sem ekkert á sér eggið við þessi tíðindi. Engir harmonikkutónar, engin polki eða vals eða andlegur stuðningur við vísnagerðina. Þó svo nokkur snjókorn hafi fallið í morgun þá er komin þvílík himnablíða núna eftir hádegið og Húnaflóinn svo stilltur að það er líkast því að skaparinn haldi niðri í sér andanum
.


        Bragginn á Sólvangi er á sínum stað líkt og vorið sem leynist undir snjónum
   
     En Glugginn er kominn með sín tíðindi og upplýsingar. Þar rek ég augun í það að Ólafur Reimar ætlar að opna ljósmyndasýningu á Pottinum á laugardaginn. Frábært framtak hjá Ólafi og er næsta víst að ég komi einhvern daginn til að fara á þá sýningu.
    Árni Jóns, Páll Þórðar, Einar Kolbeins og Þórður Pálsson ætla að kveðast á í kvöld í harmonikkuhöllinni. Reyndar er þetta kynnt þannig að þeir ætli að takast á með kviðlingum og kvikindisskap og gæti ég best trúað því að það væri nálægt sannleikanum.
    Þar sem páskarnir eru að bresta á og í mörgu að snúast er rétt að hafa þetta ekki mikið lengra að þessu sinni. Samhengið verður því að vera eitthvað á þessa leið.


            Erfitt er að yrkja ljóð
            ef andans hverfur kraftur.
            En ekki skal ég  missa móð
            og mun því reyna aftur.
 

    Rétt áður en ég ýtti á entar og sendi þennan pistil út í loftið ók hér fram hjá Rúnar nokkur og lék líka þennan fína polka svona rétt til að senda ykkur hugheilar óskir um gæfuríka páska.

                                                                                GLEÐILEGA PÁSKA

13.04.2011 11:13

Grár, andlítill miðvikudagur

    
                    Hundur, hús, fólk og hestakerra á gráum miðvikudegi

    Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að vorið komi núna hægar norður en það hefur gert undafarin ár. Mér finnst eins og gæsirnar komi seinna í ár sem og skógarþrestirnir. Ég hef getað skrifað með nokkru öryggi  í dagbókina ár hvert "þann 31. mars vakti skógarþrösturinn mig með sinni fallegu röddu með söng sem barst úr stóra grenitrénu hjá henni Bebe nágrannakonu minni". En í ár stendur eitthvað á söngnum og maður sér bara þröst og þröst á stangli. 
    Stundum þegar maður er algjörlega hugmyndasnauður og andlaus þá er eins og maður fá sendingu að ofan til að losa um þetta vesældarástand. Þegar ég fór heim í hádegismat þá rak ég augun í bók sem lá á gangstéttinni fyrir framan skrifstofuna. "Hvað er það sem fellur svona af himnum ofan" ortu Stuðmenn á sínum tíma og áttu við íslensku fönnina. En þetta var bók eins og fyrr greinir sem líkast til hefur fallið af himnum  og heitir því einfalda nafni "Pósturinn hringir alltaf tvisar" eftir James M. Cain. Ég las þessa bók á sínum tíma en er búinn að gleyma henni en minnir að hún fjalli um ástir, losta og morð og jafnvel eitthvað fleira.Mig minnir að þetta sé fræg bók og að það hafi verið gerð kvikmynd eftir henni. En bókin kom að himnum ofan líkt og skóhornið sem ég fann á svipuðum slóðum fyrir rúmu ári. Líklega er hún í eigu Stefáns á hæðinni fyrir ofan og hann misst hana út svona alveg óvart.

    Jónas rak hér inn nefið meðan við Rúnar vorum að reyna berja saman miðvikudagspistil og líkt og fyrir viku þá kastaði hann fram vísu sem við birtum ekki hér en leyfum ykkur hinsvegar að sjá niðurstöðuna eftir að við félagarnir höfðum farið um hana höndum og gert hana Sveinsstaða-Manga helda 

            Fækkar hárum hausnum á
            og herðist buxnastrengur.
            Engan víxil er að fá
            ei nenni þessu  lengur.

    Það er töluverður blús í þessari vísu og er hún mjög óræð í túlkun. Við Rúnar erum samt vissir um að Jónas sé ekki búinn að gefast upp fyrir yfirvöldum bæjarins svo mikið er víst.

Gamli bærinn með Kiljuna sem er gráa húsið til hægri við miðju myndar. Hillebrandtshús er þarna einnig og er eitt elsta hús landsins og dvelur bak við Ljósvakan sem er gula húsið á myndinni 

    Rúnar vinur minn er mættur og enn og aftur kynnir hann til sögunnar nýjan harmonikkusnilling. Jimmy Shand Jnr. Jimmy þessi lék af mikilli snilld Auchtermuchty gala march af mikilli næmni og gæddi miðvikudaginn í Aðalgötunni töluverðu lífi. 

    Rúnar er sem sagt kominn og þar af leiðandi Glugginn líka. Fermingar verða hér um helgina og verða 15 ungmenni fermd

    Harmonikkuunnendur minna á hagyrðingakvöld síðasta vetrardag. Þar verða fremstir í flokki þeir Árni Jónsson þekktur orðhákur og bragi, ættaður úr S-Þing og heimamenninnirnir Páll Þórðarson í Sauðanesi og Einar Kolbeinsson úr Bólstaðarhlíð. Á þessu kvöldi verður kynntur til sögunnar nýr hagyrðingur kallaður nýliðinn og er hann að öllum líkindum undan Páli og Ingibjörgu í Sauðanesi og gegnir nafninu Þórður.
    Það verður mikið um að vera á Kiljunniá laugardaginn. Joe Dúbíus og Gíllon verða með tónleika. það verður eitthvað tilboð í gangi fyrir þá sem koma milli 22 og 23 sem nefnist 5 í fötu. Það er greinilegt að þeir Kiljumenn eru í útrás því boðið verður upp á rútuferðir frá Sauðárkróki 

En samhengið, já samhengið, já samhengið er ekkert grín en hér kemur það í allri sinni fátækt og lítillæti:

            Á síðvetrardegi við andlausir erum
            en reynum samt báðir að vona.
            Að getum við kveikt á geislandi perum
            en Guð minn,  vísan er svona
 

06.04.2011 09:35

Eldhurð og einræðistilburðir

    Mig langar til að vera svo vitur og snjall að allt sem ég segi verði lýðnum leiðarljós og hann fylgi því hiklaus og óhræddur. Ég er líka farinn að velta því fyrir mér hve há mánaðarlaun ég ætti að þyggja fyrir þetta göfuga verkefni. Þegar ég hugsa launamálin aðeins lengra þá er það morgunljóst að svona göfugt hlutverk er óborganlegt og rúmast ekki innan nokkurs launaramma þannig að óvíst er að nokkur geti greitt mér sem mér bæri. Það er í raun bara óráð og heimska að hugsa í einhverjum launatöxtum. Maður ætti að spyrja sig fyrst að því hvað er það sem ég þarf til að vera sæmilega sáttur í lífinu hvað veraldleg gæði snertir. -Fyrir það fyrsta þá vildi ég eiga góðan bát sem hægt væri að sigla hvert sem er í þægilegu veðri. Hvað væri yndislegra en leggja  frá bryggju í lognkyrru veðri og sigla yfir á Strandir, veiða sér í matinn og hvílast í bátnum og láta öldurnar vagga sér í svefn. -Svo vildi ég fá húshjálp fyrir konuna svona eins og tvisvar viku því það sjá allir að það myndi létta verulega undir með henni í húsverkunum. Það eru einnig aðrir smáhlutir sem hægt væri að nefna í þessu sambandi  en þeir eru svo smáir hver um sig að of langt mál væri upp að telja en slöguðu svona hátt upp í kostnað við húshjálp. 
    Sumir geta eflaust sagt að svona hugsanir flokkuðust undir "Messíasarkomplex" en það stenst engan veginn því það voru ekki allir sem trúðu Kristi og boðskap hans. Þegar ég hugsa þetta þá spyr ég bara: Hvar á byggðu bóli væri hægt að fá mann í svona stórbrotið verkefni fyrir einn bát, húshjálp og slatta af allskonar. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því að ég reikna aða sjálfsögðu með því að grunnþörfum mínum verð fullnægt og að ég geti haldið sómasamlega upp á sextugsafmælið.

Þetta er sólarlagsbíllinn þeirra Hafþórs og Löggu. Myndina tók ég og er allur á lofti yfir því að sólarlagið mitt muni fara um land allt í næstu framtíð 

    Ég þekki mann sem býr hér á Vesturbakkanum og á bát sem hann getur siglt út á hið himinbláa haf. Hann er stríðsmaður af Guðsnáð og hefur háð orustur við bæjaryfirvöld og sýslumann um langa hríð. Hér á ég að sjálfsögðu við hinn þjóðþekkta Jónas Skaftason húsbónda á Ljóninu. Hann hefur háð baráttu við yfirvöld um að fá veitingaleyfi og hefur gengið á ýmsu svo vægt sé til orða tekið. 
    Það nýjasta í þeim málum er það að hann þarf að koma upp eldvarnarhurð í veitingahúsinu til að uppfylla brunavarnarkröfur. Þetta er allt saman gott blessað svo langt sem það nær. Ef svo illa vildi til að það kviknaði í Ljóninu, allir farnir út og eldvarnarhurðinni skellt á eftir síðasta gesti, þá gerðist tvennt. 1. Jói Brandmeister og kappar hans væru mættir á augabragði og slökktu eldinn fljótt og vel. 2. Jói og félagar kæmu of seint og húsið brynni og eldvarnarhurðin ein stæði upp úr rústunum. Skýringin á því að eldvarnarhurðin ein stæði eftir er sú að byggingarefni hússins er allt eldfimara en eldvarnarhurðinn. 

    Rúnar er mættur með Gluggann og í fylgd með honum er nýr listamaður sem ég hef aldrei heyrt í áður en hann heitir Kim Bernt Jensen og að öllum líkindum dani. Þetta er svona gæðalegur maður á sjá með yfirvaraskegg og gleraugu. En lagið sem streymdi úr hans nikku gegnum geislaspilarann í Súkkunni hans Rúnars var þið heimsþekkta lag "Hello Mary Lou".  Þetta lag smellpassaði inn í vorið sem heldur áfram för sinni hér við botn Húnafjarðar eins og ekkert sé.
 
Vor við Húnaflóa. Hreiðrar sig blikinn og æðurinn fer (var lengi að skilja þessa setningu)

    Glugginn er sem sagt mættur og greinir frá helstu atburðum sem bíða okkar í nánustu framtíð.  Má þar nefna fermingar og sumarskemmtun hjá yngri nemendum Blönduskóla.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og er hún eftir Rúnar skáld á Skagaströnd. Hann heldur áfram að öfundast svoldið út í Skagfirðinga fyrir að eiga hinn öfluga Þórólf að. 

            Eflaust þú ferð til andskotans
            þegar hérvist lýkur.
            Þú ert einn af þjónum hans,
            lýgur stelur og svíkur. 

    Þessi vísa hraut af vörum Jónasar þegar hann leit hér inn eftir hádegið til að grenslast fyrir um hvernig hann yrði meðhöndlaður af okkur þessa vikuna. Þegar hann lauk vísunni sagði hann skýrt: "Dæmið nú".  Við Rúnar settumst hljóðir yfir vísuna og rótuðum aðeins í henni og hrósuðum síðan Jónasi og sendum honum eigin vísu til baka með þessari bragabót. 

            Þú eflaust ferð til andskotans
            er hérvist þinni lýkur.
            Þú ert einn af þjónum hans,
            þversum, lýgur , svíkur.

    Svona lá á Jónasi upp úr klukkan 2 í dag og þessi vísa ofarlega í huga. 

    En við Rúnar verðum að ljúka þessum pistli eins og venjulega á því að finna samhengið sem ætíð er á næsta leiti. 

            Einræðistilburði elur með sér,
            öllum fallast því hendur.
            Ef eldurinn Ljónið illa með fer,
            þá eldhurðin ein eftir stendur.
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 862
Gestir í dag: 434
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 62143
Samtals gestir: 11204
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 15:52:45