Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 Júní

29.06.2011 13:51

Ei þýðir að láta sem ekkert sé

   Það fer að verða svolítið þreytandi að tala sí og æ um veðrið en einhvern veginn verður bara öll hugsun og allar umræður um það fyrirbrigði. Síðdegis í gær kom ég inn í Kaupfélagið (Samkaup) til að kaupa mér sólskin í fljótandi formi og inni í versluninni voru nokkrir að versla. Flestir voru sæmilega búnir til að glíma við sumarið utan dyra. Sumir "burruðu" sér þegar þeir komu inn og létu vel valin orð falla um tíðina. Ekki var ég lengi búinn að ganga um verslunina þegar ég rakst á Njál Þórðarson minn gamla vin og fyrrum frjótækni. Njáll var eins og staddur  í öðrum heimshluta því hann var klæddur gallabuxum og net hlýrabol líkt og hann hefur ætíð gert á sumrin eins langt og ég man. Njáll fer ekki eftir veðri í fatavali heldur horfir hann til dagatalsins hvað það snertir og sagði hann mér að þetta hefði hann haft fyrir vana allt frá því hann var unglingur að alast upp í Arnarfirðinum. Ég benti "burrurum" á Njál  svo þeir mættu ná upp hita á sem skemmstum tíma.


                                   Hryssurnar eru flestar kastaðar


   En í alvöru, að vera með húfu á höfði og kappklæddur í lok júní mánaðar þegar maður fær sér göngutúr er með hreinum ólíkindum. Þetta væri sök sér einn og einn dag en þessi upplifun er viðvarandi hvern einasta dag.


  Nonni hundur slapp að heiman í vikunni og gómaði ég nafna minn í Fagrahvammi og fékk ég Mumma svila í lið með mér að koma honum aftur til síns heima


   Best er að hætta þessu væli og reyna að koma auga á hið skemmtilega í tilverunni. Á sunnudag fórum Mummi svili til veiða í Blöndu frammi í Blöndudal. Sá dagur var líkast til sá besti sem af er sumri í veðurfarslegu tilliti og vorum við þakklátir fyrir það. Á leiðinni á veiðisvæðið þarf að aka fram Langadalinn og virtum við fyrir okkur gras- og kornsprettu og fannst svo sem ekkert mikið til koma. Það er algengt að bændur komi fyrir fuglahræðum á kornökrunum til að bægja frá gæsum og álftum.  Fuglahræður eru af ýmsum gerðum en þennan ágæta sunnudag sáum við fuglahræðu sem við höfðum aldrei fyrr augum litið. Á miðjum kornakri hjá Holta á Holtastöðum blakti íslenski fáninn og hvergi var fugl að sjá. Var greinilegt á öllu að þjóðfáninn svínvirkar og fældi frá alla fugla sem komnir eru af  ESB svæðinu. Reyndar heyrðum við í fréttum þegar við ókum hjá að sumir fuglar væru farnir af landi brott, rétt nýkomnir. Holti bóndi er greinilega með allt á hreinu enda gamalreyndur og langt í frá fæddur í gær. En hvað veiðiferðina áhrærir þá veiddum við einn lax sem vó 5 kg. Ég afgreiddi tvo homma (tveir litlir bjórar) en ég frétti af veiðimönnum sem voru með okkur á svæðinu að þeir hefðu verið með "station" (stórir bjórar) og klárað vandræðalaust.

Það er til þess að gera lítið að frétta af Jónasi Skafta þessa köldu sumardaga. Þó er rétt að geta þess að hann kom í heimsókn til mín fyrir skömmu og hafði í för með sér tvær fallegar stúlkur og var tilgangur heimsóknarinnar að sína þeim manninn sem skrifar alltaf um afa. Þetta fannst mér vel til fundið og verðskulda myndatöku.


   Jónas Skafta kom með fallegu afastelpurnar sínar til að sýna þeim skrýtna kallinn sem væri alltaf að skrifa um hann. Stúlkurnar heita talið frá vinstri:Silja Marín og Sædís Sól


   Ívar Snorri, sægreifinn okkar er nýkominn heim frá Danmörku og lét hann vel af sér og sínum og sagði að það mætti vel heimsækja þetta dýra land ef maður verslaði þar sem ódýrast væri og léti það alveg eiga sig að heimsækja veitingastaði í Nýhöfninni og við Strikið. Best væri að kaupa sér bjór og samloku í kaupfélainu og setjast svo á skjólsælan stað og njóta kræsinganna.

   "Það sem bændurnir brugga í friði" hét lagið sem fylgdi Rúnari útburði í dag og Strákabandið sá um undirleik. Rúnar kom líkt og síðast fyrir hádegið, rétt fyrir hádegismatin þannig að við þurftum að hafa hraðar hendur svo pistill hefðist af fyrir hádegismatinn. Það tókst svona næstum því en ég benti honum á að hrykki út úr honum vísi í hádeginu þá gæti hann komið henni til mín.

   Glugginn er svona í slöku meðallagi hvað þykkt varðar en innihaldsríkur að vanda.  Domus-gengið er á sínum stað. Ég las Sveinsstaða Magnúsi fasteignasala pistilinn um daginn og ásakaði hann og allt Domus-gengið fyrir að hafa farið offari í fasteignasölu undanfarið. Afleiðingin væri sú að fasteignamat hefði hækkað mest á Norðurlandi vestra "off all places" og fyrir það yrði alþýðan að gjalda í hærri fasteignagjöldum. Ég taldi það rétt að Domus borgaði þessa hækkun sem íbúarnir verða fyrir. Ég get lofað ykkur því að Magnús svaraði fyrir sig með þó nokkrum orðum og til þess að vera heiðarlegur voru þau ekki á lægri nótunum. Við skildum sáttir og var öllu haldið opnu í máli þessu.

   Rauð hryssa er í óskilum og verður seld ef eigandi finnst ekki. Glugginn er bráðum að fara í mánaðarfrí og Þórdís í Flix ætlar að hætta að klippa á mánudögum. Þetta er svona helst í Glugganum .

   Vísa vikunnar er á sínum stað og eins og svo oft áður er hún eftir Rúnar á Skagaströnd og líka eins og svo oft áður fjallar hún um manninn sem stendur vörð um hagsmuni Skagfirðinga, hinn eina og sanna Þórólf kaupfélagsstjóra.  Ég segi það enn og aftur að mér finnst Rúnar alltaf bestur þegar hann yrkir um okkur hér fyrir botni Húnaflóa en smekkur er misjafn það hefur marg oft komið í ljós.

   En þennan súldarfulla og kalda miðvikudag þarf að koma samhengi hlutanna til skila því samhengislaus miðvikudagur er engum til góða.  

          Ei þýðir að láta sem ekkert sé

          og stara á vindinn í trjánum.

          Því andfuglarnir frá ESB

          amast við íslenskum fánum.

 

22.06.2011 15:08

Ég lít í anda liðna tíð

   Miðvikudagur og dagurinn gengur sinn gang. Í dag er sólin og vindurinn horfinn og dag tekið að stytta. Þetta hefur allt saman gerst áður og á líklega eftir að gerast aftur og aftur.
  Fjöldi fólks heimsótti Blönduós um helgina þegar Smábæjarleikarnir voru haldnir

   Þegar þessar línur eru skrifaðar er Jón Lárusson tenór og bóndi í Hlíð að kveða á Rás 1. Nafni minn hundur á hæðinni fyrir ofan gelti sem vitlaus væri meðan Jón kvað en hætti um leið og Jón tenór hætti. Sem sagt, það kváðu fyrir mig tveir Jónar samtímis og verð ég að segja að það var sérstök upplifun sem kom þessari  gömlu arfleið á eitthvað allt annað plan sem ég hef ekki  áður kynnst. Svona til gamans þá er það að segja að Jón Lárusson (1873-1959) fæddist í Holtastaðakoti í A-Húnavatnssýslu og varð síðar bóndi í Hlíð á Vatnsnesi  í  V-Húnavatnssýslu en Jón Sigurðsson  hundur er fæddur  á Snæringsstöðum í Svínadal.

 Gæsarungarnir sem fæddust í byrjun mánaðar eru orðnir ansi pattaralegir og eru duglegir að bíta gras, og skíta. Þegar maður gengur meðfram Blöndu þessa dagana er gott að vera í strigaskóm sem maður er ekki of upptekinn af. Þá getur maður haldið sínu striki en ef skórnir eru af dýrustu gerð og í miklu uppáhaldi er rétt að stikla á milli skítahrúga.


   Ég hef heyrt það að hann Landsvikjunar Snæi (maðurinn hennar Kristínar Guðjóns)  sé með á sínum snærum rafbíl einn merkilegan. Raffróður maður sagði mér að þessi undrabíll gæti ekið um 100 km á hleðslunni og að það tæki 10 klukkustundir að hlaða geyma bílsins. Samkvæmt þessu þá  tæki  það rétt um það bil 23 klst að aka til Reykjavíkur. Svona til að fólk geti betur áttað sig á þessu þá tekur það um 1 klst og 15 mín að aka fyrstu 100 km þá þyrfti að hlaða geyminn í 10 klst uppi á miðri Holtavörðuheiði. Þá væri  hægt að leggja í hann á ný og það tæki aðra klukkustund og 15 mín að komast í Melasveitina. Þá tæki við 10 klst hleðslu hvíld og að henni lokinni væri ekki eftir nema hálf tíma akstur í bæinn.  Það er rétt að halda því til haga að mannlegi þátturinn er ekki inni í þessu dæmi en varlega mætti áætla að hann væri svona um ein klukkustund, þannig að alveg mætti segja  að það tæki um sólarhring að skreppa í bæinn (Reykjavík). Þetta sem hér hefur verið ritað um þennan undrabíl er birt án ábyrgðar en mér skilst að áhugasamir geti skoðað bílinn uppi í Vélsmiðju Alla á föstudaginn eftir hádegið. Það skemmir ekki fyrir að bíllinn ber hið umhugsunarverða nafn "Think".

   Rúnar kom aldrei þessu vant fyrir hádegið með Gluggann og að venju var hann með hljómskrattann á fullu. Að þessu sinni var Strákabandið með honum í för og léku þeir syrpu af lögum úr ýmsum áttum.Ég spurði Rúnar af hvaða diski þetta væri og svaraði hann bara að þetta væri af diski. " Þetta er sam sagt eitthvað stolið sem þú ert með" sagði ég og jánkaði hann því til þess að gera rólegur.

   Forsíðuauglýsinginn er um rafbílinn sem ég minntist hér fyrr á í skrifum þessum. Bara svo ég gleymi því ekki þá er kom tilkynning frá Rarik um að straumlaust verður í sýslunni í nótt. Það hvarflaði að mér að þetta straumleysi stafaði af því að verið væri að hlaða rafbílinn en það gæti nú líka verið af öðrum orsökum.

   Stefnt er að því að halda stofnfund um Laxasetur Íslands á Blönduósi og hin árlega kvennareið verður á laugardaginn.

   Vísa vikunnar er að þessu sinni efir Önnu Árna og er um rjúpunu sem er á þessari mynd sem hér fylgir. Rjúpan er í umsjá Lárusar (Kráks) Jónssonar og veit ég að meðan hann gætir hennar mun ekkert henda hana.



   Og viti menn þegar ég við það að ljúka pistlinum , kemur þá Rúnar ekki í annað sinn á þessum degi og enn er Strákabandið með í för. Reyndar var þungbúnara yfir veðrinu og vindur hægari þegar hann kom fyrir hádegið en núna hefur hann rifið af sér og sýnt sitt rétta norðan andlit.

   En nú er komið að því óumflýjanlega en það er að smala saman samhenginu og koma því óbrjáluðu til skila:


          Í tímaþröng verður oss  syndugum sjaldnast rótt

          og stöðugt stríð við tíma er erfið glíma.

          Rafmagnsveiturnar slökkva á  straumnum í nótt,

          og senn tekur Suðurferð  24 tíma.

   Svona í blálokin þá er vert að geta þess að nýji léttadrengurinn í Vínbúðinni hann Þórhallur Barða fékk gest í heimsókn rétt í þessu og hófu þeir þegar upp raust sína og sungu raddað. "Ég lít í anda liðna tíð" og þar sem ég hef litið svolítið til liðinnr tíðar þegar það tók aðeins 3 klst að fara til Reykjavíkur er rétt að kalla bara pistilinn "Ég lít í anda liðna tíð"

15.06.2011 10:13

Lengi skal manninn reyna

   Á móti mér á veggnum hangir dagatal sem segir mér að í dag sé 15. júní. Samkvæmt þessum upplýsingum er komið sumar á Íslandi  og þennan dag ber að skila staðgreiðslu og tryggingagjaldi til skattsins. Skattinum skal skila satt er það, en það er þetta með sumarið sem er eitthvað allt annað mál sem þarfnast frekari umfjöllunnar . Ískaldir vindar næða um allt og Húnaflóinn er helblár og snjóhvítir öldutoppar skreyta hann. Asparlaufin sem reyna af veikum mætti að gera sig sýnileg eru gulleit og veikluleg. Hrossin setja rassinn upp í vindinn og vitlausasti fugl á Íslandi ,stelkurinn hefur vart þrek til að fljúga upp rétt fyrir framan bílinn hjá manni í tíma og ótíma. Þessi byrjun er ekki beint upplífgandi en þetta er bara svona og fyrir framan þetta stöndum við sem a.m.k búum norðan heiða. Það eina sem við heyrum af sumri eru fréttir í fjölmiðlum af veðrinu á suðvestur horninu. Það er alveg sama þó ég hlusti á hana Halldóru Björnsdóttur í morgunleikfiminni og reyni að halla undir flatt til hægri og vinstri og snúa síðan höfðinu, allt kemur fyrir ekki; norðannepjan heldur sínu striki og virðist að svo muni vera næstu vikuna í það minnsta.

   Þetta sem hér hefur verið ritað snýr nú bara að mér vesælum bæjarbúanum en hvað mega þeir segja sem eiga allt sitt undir sól og regni. Grasið á túnum bænda hefur hægt um sig og næsta víst að þeir sem sáð hafa korni í vor séu með svolítinn kvíðahnút í maga.

   Ég hafði orð á því fyrir nokkrum vikum að þeir feðgar Nonni hundur og Stefán Hermannson væru á förum úr bænum. Á því hefur orðið einhver töf og eru þeir hér enn og verða enn um sinn, mér og alveg örugglega mörgum öðrum til ánægju.

   Síðustu fréttir af Jónasi á Ljóninu eru þær helstar að hann, Jónas hefur haft samband við umboðsmann Alþingis og komið á framfæri við hann kvörtun á samskiptum sínum við bæjaryfirvöld og sýslumann. Samkvæmt Jónasi þá gat umboðsmaður gefið sér tíma til að líta upp úr sínum miklu verkum er snúa að uppgjörinu mikla við fortíðina og skipta sköpum í afkomu þjóðarbúsins til langrar framtíðar. Það var bara ekki að umboðsmaður liti upp heldur ætlar hann að ragast í bæjaryfirvöldum og sýslumanni og leita sannleikans í stóra veitingaleyfismálinu.

   Rúnar er enn sár eftir slysið sem hann lenti í fyrir viku. Ekki er hægt  að segja að hann sálaður á síðunni liggi en ekki er hann mikið á ferðinni. Mér finnst nú alveg að hann gæti komið og lagt mér lið í norðannepjunni, eflt með mér andann og komið mér á rétt skrið. Nei hann virðist ætla að liggja fyrir eins og mófugl á milli þúfna.

 En Glugginn kom þó engin væri Rúnar og nú eins og síðasta miðvikudag með Óla Þorsteins. Óli var á hraðferð og var lítið út úr honum að hafa að þessu sinni.

   Í Glugganum má sjá starfsauglýsingu frá golfklúbbnum þar sem leitað er að manni til að annast slátt á golfvellinum. Eins er auglýst vinnukvöld hjá skógræktarfélaginu þar sem megin áherslan er lögð á að planta stærri trjám. Ég skil þá auglýsingu mæta vel og er klókt hjá Páli Ingþóri að mæta minni trjásprettu með því að planta stærri trjám. Hinsvegar held ég að lítið þurfi að slá á golfvellinum þar sem sprettan er svo til engin.

   Ýmislegt annað má sjá í Glugga vikunnar svo sem hátíðardagskrá á 17. júní og að konur á Skaga ætla líkt og fyrir ári að vera með kaffihlaðborð í Skagabúð.

   Harmonikkuball og harmonikkuhátíð eru á næstu grösum og starfskraft vantar í leikskólann Vallaból og skrifstofumann á skrifstofu Húnavatnshrepps.

   Samkvæmt venju þá er vísa vikunnar að þessu sinni eftir skáldið Rúnar á Skagaströnd og fjallar hann á gráglettinn hátt um starf björgurgunarsveitarinnar í V-Hún.

   Í dag hef ég verið heldur niðurdreginn vegna tíðarfarsins og ég get lofað ykkur því að ég er ekki einn um það. Eins er ég frekar leiður yfir því að Rúnar skuli enn vera frá vegna vinnuslyss í baðherberginu en ég segi eins og Þorvaldur Þorsteinsson " Lengi skal manninn reyna". Til að enda þennan pistil á jákvæðu nótunum þá hefur köttum fjölgað um einn og hundum um tvo á skýrslum bæjaryfirvalda sl. viku og teljast nú kettir vera níu og hundar 23. Vegna þessa liggur einhvern veginn beint við að hafa samhengis vísuna eitthvað á þessa leið.

Þeir töldu að telja' ætti' að nýju

öll tiltæk heimilisdýr.

Húskettir hársbreidd frá tíu

og hundarnir tuttugu og þrír.



08.06.2011 09:19

8 kettir og 21 hundur

     Dagurinn í dag er dagurinn í dag og það er bjart en svalt. Svona hefur þetta verið býsna lengi og eru geðprúðustu menn (konur eru líka menn) farnir að láta á sjá. Á svona dögum er gott að eiga sér skjól undir suður vegg og leyfa sér að gleyma hvernig vindar blása handan við hornið. En það er samt svo að maður þarf að rífa sig upp á rassgatinu fyrr eða síðar og taka skref undan suðurveggnum.


.
 Læðan Bella sem býr á Ljóninu. Hún hefur fengið númerið níu í skráningarkerfi bæjarins þó svo kettirnir séu ekki fleiri en átta
    
     Þar sem suðurveggjarins nýtur ei, eru ýmsir á ferð og miðar þeim misvel.
Bakkstígur er sú gata sem er næst Vesturbakkanum og þar er ætíð skjól fyrir norðaustan áttinni. Þar er gott að ganga og jafnvel fá sér sæti og horfa út yfir ánna á Vesturbakkann eða yfir til Stranda og njóta. Um daginn flaug á undan mér hálfa leiðina maríuerla og gæddi sér á flugum sem dvöldu á þroskamiklum fíflum sem nóg er af á Bakkstígnum. Það var töfrum líkast hversu fim erlan var á flugi og á stundum líktist hún kólíbrífugli sem getur hangið kyrr í loftinu og sogið safa úr næringarríkum blómum.

           Éljabakki í norðri, húsin á Brimslóðinni í forgrunni 

     Þar sem kuldinn í loftinu er svolítið að trufla fuglalífið þá er gott til þess að hugsa að kettirnir eru lítið að trufla fuglana því það eru ekki nema átta kettir skráðir á Blönduósi. Þessa staðreynd má lesa inni á blonduos.is heimasíðu Blönduósbæjar og göggir lesendur sjá að þar hefur Jónas á Ljóninu skráð læðuna sína hana Bellu. Þetta sýnir bara að Jónas fer að minnsta kosti í þessu máli  eftir þeim leikreglum sem "bæjarapparatið" setur honum. Hundarnir í bænum eru samkvæmt sömu heimildum, 21 að tölu. Af þessu tölum geta menn glöggt séð hversu stór atburður það var þegar 9,5% hunda bæjarins hrakti 12,5% katta bæjarins upp í tré á Mýrarbrautinni fyrr í vor.
 
     Það er enginn Rúnar í dag því blessaður drengurinn mun hafa slasað sig lítillega, nóg til þess að Glugga-Óli kom sjálfur með Gluggann. Ég spurði Óla hvað tónlist hefði fylgt honum inn í Aðalgötuna. " Ég var nú bara að hlusta á Rás 2 og þar var verið að leika einhverja írska þjóðlagatónlist" sagði Óli og þar með var málið útrætt. Óli er ekki jafn klassískur og Rúnar í tónlistarvali því Rúnar hefur ætíð í liði með sér harmonikkusnillinga frá öllum Norðurlöndunum og nægir þar að nefna Arnt Haugen og Familien Brix.


 Hin árlegi fjölskyldudagur starfsfólks Héraðashælisins var í gær. Þrátt fyrir norðankaldann þá skein sólin glatt og fór vel um alla í skjólinu sunnan við Hælið
    
     En Glugginn er kominn og er svona í meðallagi að vöxtum en hefur mikilvæg tíðindi fram að færa. Séra Sveinbjörn ætlar að ferma þrjú ungmenni um Hvítasunnuna í þremur kirkjum.
     Hvítserkur á Sauðárkróki verður í hólfi, merum til gagns fyrir aðeins 50.000 kr með öllu. Dýrðardagar verða á Húnavöllum og hestamannafélagið Neisti verður með félagsmót.

     Linda og Steinar á Steinnýjarstöðum eiga forsíðuna á Glugganum að þessu sinni og bjóða fólk velkomið í sveitina í sumar. Það er kraftur í þessum krökkum og gaman að sjá að eitthvað er að gerast. Ég hvet sem flesta að heimsækja Fjallakaffi á Steinnýjarstöðum því það er alveg öruggt að þar verður engin svikinn og á góðum sumardegi þegar Húnaflóinn skartar sínu fegursta er ljúft að sitja úti á verönd, sötra súkkulaði og láta hugann reika. Reyndar þekki ég þessa tilfinningu, reyndar örlitlu sunnan Steinnýjarstaða, á Keldulandi hjá Óla bónda sem hin síðari ár kallaði sig snjótittlingabónda.

     Vísa vikunnar er á sínum stað og er eftir hinn kunna Rúnar á Skagaströnd. Að þessu sinni fjallar hann um fyrrum sveitunga sinn, Jónas Skafta og segir sögu hans fyrir og eftir rekstraleyfi. Ég fer ekki ofan af því að mér finnst Rúnari oftast takast vel upp þegar hann yrkir um okkur á Blönduósi og lætur Þórólf stjóra á Króknum lönd og leið.

     En nú er mál að linni og verð ég einn og óstuddur að koma auga á samhengi hlutanna því Rúnar er fjarri allri ábyrgð í þessu máli eins og fyrr greinir. Samhengið er augljóst að þessu sinni og má það þakka nákvæmu heimilsdýrabókhaldi bæjarins.

          Um hrossafjöld oftast menn þrátta
          efast um það ekki neinn.
          En húsketti höfum við átta
          og hundarnir tuttugu og einn.

     En viti menn þegar ég var við það að senda þennan pistil inn á vefinn, birtist þá ekki Rúnar kallinn í Aðalgötuna að koma beint frá lækni. Í farteskinu hjá Rúnari var sænskur listamaður Reymond Person að nafni og lék hann lagið "Vivacity" sem hljómaði hressandi út í miðvikudagskalsann. Það lá bara vel á mínum manni nýkominn frá geðugri konu sem sinnti bágindum hans. Í þakklætisskyni fyrir góða meðhöndlun á Héraðshælinu kastaði Rúnar fram þessari stöku:

          Margt hjá mér nú miður fer
          sem mér er ekki í hag.
          En Anna Lind nú ætlar sér
          því öllu að kippa í lag.

01.06.2011 09:23

Í dag er 1. júní um allt land

     Í dag er 1. júní um allt land svo vitnað sé í orð þekkts verkalýðsforingja sem á sínum tíma flutti ræðu í Hafnafirði og sagði þessi fleygu orð. " Í dag er 1. maí um allt land". Það er kominn júní, mánuðurinn sem sólin fer hæst á himinfestingunni. Alltaf líður mér betur þegar birtan er mest og hægt svona flesta daga með mörgum undantekningum að vera léttklæddur utan dyra.
     Ég náði því í gær að slá blettinn fyrsta sinni á þessu ári. Það er langt síðan ég hef verið svona seint á ferðinni með fyrsta slátt og kenni ég því alfarið hvað vorið og sumarið eru seint á ferðinni. Reyndar bar ég á lóðina viku seinna í ár og er þar um að kenna 1. maí hretinu.
     Jón hundur og Stefán eru ekki enn farnir en grun hef ég um að það styttist í þá stund. Ég hef séð úti á lóð hjá þeim, stofustól og hillusamstæðu. Allt saman hlutir sem segja manni að hugsað er til hreyfingar. Ég hef sagt það áður og get vel endurtekið það að ég sé eftir þeim feðgum því þeir setja svip á samfélagið. Þegar ég sit hér í Aðalgötunni og rita þessar línur þá tek ég allt í einu eftir því að ég hef ekkert heyrt í nafna í allan morgun og því síður hef ég séð þeim bregða fyrir gluggann minn. Kannski eru þeir farnir án þess að kveðja, farnir suður á bóginn þar sem Alþingi Íslendinga starfar; þar sem gróður er kominn lengra á leið en hér við botn Húnaflóa.

 

Þessar gæsir sem eru við það að lenda á Blöndu undirstrika það að það er hægt að lenda málum ef vel er staðið að verki og vilji fyrir hendi. Undir yfirborði árinnar synda nú upp stórlaxar sem verður byrjað að góma á sunnudag

     Það hefur verið nokkuð föst regla í þessum miðvikudagsskrifum að segja eitthvað en mismikið þó, frá stríðsmanninum Jónasi Skafta vert á Ljóninu. Nú horfir svo við það best ég veit að skollinn er á friður á Vesturbakkanum. Jónas er kátur, gæsirnar stoltar með unga sína en samt svolítið spenntar ef maður fer of nærri. Já, á Vesturbakkanum ríkir himneskur friður sem smitar út um allt.
Það hefur verið töluvert líf á hótelinu og hafa þar sést iðnaðarmenn og öflugar ungar stúlkur hafa tekið til hendinni á lóðinni og gert hótelgarðinn fínan. Óli Vernerson hótelstjóri hefur vart við að hagræða axlaböndunum á öxlum sér því í mörg horn hefur verið að líta. Gestir koma og fara ! Vonandi iðar Aðalgatan af lífi í sumar, ferðamenn á hverju strái spyrjandi um "camping place" og "café" eða Guð má vita hvað.



Þessi sómahjón sem ég mætti á Blöndubökkum fyrir skömmu eru engin önnur en þau Gróa María Einarsdóttir mágkona mín og Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp (kallaður svakasvili)

     Rúnar er mættur núna þegar klukkan er farinn að halla í tvö og hitinn á mæli sýnir 11 gráður. Hann beið mín fyrir utan Aðalgötu 8. Ég ók sem leið lá bak við hús og ætlaði að vera snöggur á Rúnars fund en tafðist aðeins því þegar ég beygði fyrir hornið á Aðalgötunni inn á Brimslóðina rak ég augun í hval sem svamlaði rétt fyrir utan. Ég ók sem leið lá niður að brimvarnargarði til að sjá hvalinn betur og gerði hann mér þann greiða að sletta sporði einu sinni án þess þó að gefa mér tækifæri á að mynda sig. En aftur að Rúnari. Hann beið mín rólegur og þegar ég nálgaðist bíl hans heyrði ég leifttrandi harmonikkuhljóma úr hljóðfæri listamanns sem ég man ekki eftir að Rúnar hafi verið að þvælast með í bílnum. Hafði hann fundið geisladisk með bráð geðugri konu Anniku Andersson úr svíaríki hvar býr kóngur sem smekk hefur fyrir konum. Lagið sem hið sænska fljóð flutti heitir því einfalda nafni " Kila slinken" sem við höldum að þýði löðrungur einfaldlega vegna þess að þegar maður er kýldur þá kemur slinkur á mann sbr. Kila slinken.

    Þegar við Rúnar vorum við það að setja okkur í anlegar yrkinga stellingar birtist í dyrunum hjá okkur Þorsteinn nokkur stórveiðimaður Hafþórsson og tilkynnti okkur að laxinn væri mættur í Blöndu. Sagði hann okkur nákvæmlega hvar þeir lágu og sagði hann að sá stærsti lægi í hyl sem kallast spítalinn. Sá stóri var ekki minni en 17 pund. Nokkrir 12 pundarar væru aðeins neðar í svokallaðri holu. Þorsteinn ljómaði eins og skóladrengur sem fundið hefur aftur vetlingana sína sem hann týndi deginum áður.

    Gluggi vikunnar er kominn út og má þar finna auglýsingar um sitt af hverju. Heimilisiðnaðarsafnið opnar á laugardag og tónleikar verða í Þingeyraklausturskirkju. Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Skagaströnd, reyndar deginum áður en hinn raunverilegi sjómannadagur er.
  Vísa vikunnar er á sínum stað og er skemmtileg bæjarlífsmynd frá Skagaströnd eftir Rúnar bæjarlistamann á Skagaströnd og lýsir daglegum ferðum konu til móður sinnar.


    Það ríkti gleði í sál okkars Rúnars þegar við lögðum af stað í samhengisleitina og þetta sem hér er fyrir neðan er uppskeran:

       Á vesturbakkanum ræður hin stóíska ró,
       róstur og galskap lagt hafa menn til hliðar.
       Hitinn hækkar og fuglar syngja í mó
       Hótellífinu núna, áfram vel miðar.

       Vernerson vertinn á hóteli axlabönd lagar,
       veturinn líkast til horfinn er alveg á braut.
       Seppi sægreifans Ívars, beinin sín nagar,
       um stórlaxa Þorsteinn í Blöndu glaðbeittur hnaut.

 
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56716
Samtals gestir: 10459
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 11:18:47