Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 September

28.09.2011 15:23

Um hvað snýst málið

     Mannskepnan er merkilegt fyrirbrigði hafi það farið fram hjá einhverjum. Við erum  veður- og árstíðatengd dýrategund sem hefur komið sér upp mynstri sem stuðlar að því að komast af gegn um árstíðirnar að minnsta kosti andlega á þessu landi ljóss og myrkurs, landi andstæðnanna í öllu tilliti. Þegar maður er búinn að þreyja þorrann og góuna þá er vorið á næstu grösum og við bíðum og bíðum eftir því og loksins þegar það kemur eftir dúk og disk er það allt í einu farið, sumarið staldrar aðeins við og haustið svo mætt á svæðið. Það má þó segja um haustið að það hefur undangengin ár verið til friðs og gefið okkur marga góða daga og morguninn í morgun lofar virkilega góðu. Í mínum huga byggist öll okkar árstíðatengda hegðun að því að gera veturinn sem allra stystan. Við sleppum seint hendinni af haustinu og erum snemma farin að fagna vorinu.

  Dreif mig út til að taka mynd af haustlitunum í Kvenfélagsgarðinum áður en rokið sem spáð er feykir burt öllum haustlaufunum 

     Þegar ég fór til vinnu í morgun heilsuðu mér tugir auðnutittlinga sem leituðu sér í morgunsólinni að fæðu í birkitrjánum í garðinum. Um þetta er svo sem ekkert fleira að segja annað en það að þessir litlu fuglar eru fallegir, kvikir og ótrúlega þrautseigir og gott að hafa þá í nágenni við sig. Það er gott að staldra við og horfa á þá fljúga með ánægjutísti á milli trjágreina og tína upp í sig birkifræin. Hjá þeim er mikið að gera án þess að það virki þreytandi á mann, hópurinn heldur saman þó hver sé sjálfum sér næstur. Þegar ég hugsa um þessa fallegu þrautseigu fugla sem láta sig hafa það að þrauka af veturinn með okkur hinum dettur mér í hug vísa sem vinur minn Hafþór Örn sendi mér í febrúar árið 2009:

Kominn er Jón í klára stuð
klókur styrkir varnir.
Á hann líta eins og guð
auðnutittlingarnir.

Ég kýs að túlka seinni part vísu þannig að auðnutittlingar og Guð líta til með mér og fyrir það er ég þakklátur.

     Jónas Skaftason sem rekur Ljón norðursins er búinn að bæta umboðsmanni Alþingis á lista yfir þá sem ekkert skilja í honum. Eins og kannski sumir vita þá hefur Jónas átt í stappi við bæjaryfirvöld og sýslumann um rekstrarleyfi fyrir kaffihúsi og sendi Jónas í sumar eða vor, umboðmanni kvörtun vegna þessara mála. Þrátt fyrir miklar annir og sumarfrí þá gaf umboðsmaður sér tíma til að líta á mál Jónasar og sagði m.a. þetta (ef það er rétt eftir honum haft) í bréfi til bæjarráðs Blönduóss: Umkvörtunarefnið er ekki nægjanlega tilgreint og ekki stutt nægjanlegum gögnum til að vera tækt til umfjöllunar af hálfu Umboðsmanns Alþingis.

     Hvað gera menn nú er spurning sem enn er ósvarað en hvað sem öðru líður þá hefur Jónas veitingaleyfi (það segir hann) og getur gert það sem honum sýnist innan ramma laganna. Ég segi nú eins og umboðsmaður Alþingis  "um hvað snýst málið".


Kunnir kappar þeir Kristján Kristófers, Guðmundur frá Finnstungu og Bjarni Páls fjarlægja feyskinn ljósastaurinn hennar Siggu Gríms.  Sigga var ekki skilin eftir í myrkri því hún fékk nýjan úr varanlegra efni

     Glugginn er kominn og hann hékk á hurðahúninum eins og hjálparvana köttur uppi í tré. Engin Rúnar, engir harmonikkutónar en ég heyrði í Atlantshafinu sem gældi við fjöruna við botn Húnafjarðar.  Ég sá Magga málara og vinnumann hans hanga utan á Þorsteinshúsi með málningarpensla og ég sá Magnús fasteignamiðlara með  mynadvél á lofti í og við Aðalgötu 8, greinilega í "söluferlisundirbúningsferð". En ég sá ekki Rúnar og það þótti mér verra því þessi jafnaldri Davíðs Oddssonar var víðs fjarri og ég veit ekki hvar.

     En Glugginn er kominn og í honum helstu tíðindi sem við hér þurfum að vita. Rétt er að árétta að Sölufélagið minnir fólk á slátursöluna. Það verður seint of brýnt fyrir fólki að taka slátur og leggja til heimilisins ódýran og hollan mat.

     Bebbý á vísu vikunnar og er í henni hreinræktuð hauststemning og maður finnur keiminn af neftóbaki og vasapelainnihaldi blandast saman við haustlitina.

     Samhengið situr um mig nú sem endranær og undan því verður ekki komist. Það er að sjálfsögðu um hina endalausu sögu "Barátta alþýðumanns  á bakka Blöndu"  sögu sem margir eru búnir að tapa þræðinum í og er álíka spennandi og Leitandinn á RÚV.

 

Þótt í ausuna komið sé kálið

og karlmenni brýni hvasst stálið.

Þá er Jónas í þrasi

og eintómu brasi,

en um hvað, það snýst heila málið.

 

21.09.2011 14:18

Sólin hún var hér í gær

     Haustdagarnir hafa liðið hægir og ljúfir og sýnt sumrinu hvernig það á að haga sér, þangað til í morgun. Þegar risið var úr rekkju og litið út þá var sólin sem settist svo fallega í gær gersamlega horfin. Við blasti einungis hinn grái hversdagsleiki umvafinn súld og 5 stiga hita. En það má þessi haustmorgun samt eiga að ekki var á honum asinn þannig að laufin sem eru við það að missa tengingu sína við trjástofninn fá að hanga örlítið lengur.


                    Sólin hún skein hér í gær

                    og sína fegurstu geisl´ okkur sendi.

                    En í dag er hún öllum hér fjær,

                    með hangandi  hendi ég á þetta bendi.

     Það hefur ýmislegt gerst hér á Vesturbakkanum undanfarna daga. Menn og dýr  hafa farið,komið og svo farið aftur. Það komu nýjir leigjendur hér á hæðina fyrir ofan mig á Aðalgötunni, ungt fólk með kornabarn og líkast til einhverja hunda. Ég var óskaplega lítið var við þetta unga fólk en tók eftir því einn morguninn að búið var að reisa þó nokkuð mastur við austurgafl hússins með margskonar tengingum inn um búr- og eldhúsgluggann. Grunnur mastursins hvíldi í ryðbrunnum bobbing sem grafinn var að hálfu í jörð. Ekki hef ég fengið skýringu á þessu mastri og tilgangi þess en það er kannski óþarfi því fólkið á hæðinni fyrir ofan er farið í Hreppshúsið hér rétt sunnan við. En mastrið"góða" er enn hér en liggur á hliðinni fyrir utan gluggann minn og malarskófla hallar sér makindalega að gulri girðinunni tilbúinn í hendur þess sem ætlar að ganga frá eftir jarðraskið sem þessu fylgdi.

     Maggi málari hefur  verið nokkuð fyrirferðamikill hér um slóðir undanfarna daga og er á því skýring og er hún einföld. Kappinn hefur verið að mála þakið á Þorsteinshúsi rautt. Það er nokkuð ljóst að hann klárar ekki verkið í dag því súldin hefur öll völd og raskar nokkuð útiverkum.

    Jónas verður ekki með Málbandið með sér á laugardag eins og sagt var frá í síðasta pistli vegna þess að harmonikkuleikarinn Jóhannes hyggur á suðurferð. Mun Jónas því vera ein á ferð með sinn tólf strengja gítar og kyrja sín lög í þjóðlagaballöðurytmastíl á sinn einstæða hátt. Má vera að hann laumi einni og einni bæjarstjórnarballöðu  út til alþýðunnar. Td. "Lánið elti Jón en lét í friði mig".  Auk þess að vera með þjóðlagakvöld á Ljóninu á laugardaginn þá hyggst hann funda með bæjarfulltrúum og þá einum í einu og kanna hve mikið þeir vita um málefni Ljónsins. Mér varð á að spyrja si svona "Ef þeir vita nú jafnmikið og Jóhanna forsætisráðherra veit almennt um hvað er að gerast í samfélaginu þá ertu á byrjunarreit í þinni baráttu". Með þessa athugasemd í farteskinu kvaddi Jónas með órætt bros á vör.

     Rúnar er mættur með Gluggann og þokan hangir í fjöllunum en tónlistin streymir úr Súkkunni hans Rúnars. Sveinn M Sveinsson kirkjueigandi átti leið hjá með hundinn sinn Úlf sér við hlið og tóku sig upp gamlir danstaktar hjá honum þegar hann heyrði tónlistina.  Nú eins og svo oft áður spilar Rúnar Strákabandið út í eitt og er rællinn danstakturinn eins og svo oft áður. Já Rúnar "ræfillin" (svo notað sé þekkt orðbragð af Alþingi) er kominn með Gluggan sem er frekar bragðdaufur með Farskólann á for- og baksíðu.

     Vísa vikunnar er á sínum stað og er eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar um Sigurð Jónsson landsþekktann hestamann frá Brún.

     En samhengið er það sem allt snýst um og það mun ekki standa á okkur félögum að koma því til skila út í samfélagið sem umlukið er miðvikudagsþoku .

          Í miðvikudags súldinni er málarinn fjarri,

          mastrið á lóðinni lárétt nú liggur.

          Laufið gulnar  í lyngi og kjarri

          Ljónið hann Jónas á vinninga hyggur.

 

 

 

14.09.2011 14:28

Sláturtíð

Haustið er handan við hornið og vetur í nánd. Um það vitna mörg atriði í daglega lífinu. Garg kríunnar er þagnað, lóurnar eru að hópa sig, gæsirnar gagga óvenju mikið og síðast en en ekki síst þá styttist sólargangur og sauðfé og hrossum er smalað til réttar. Annað sem ótvírætt vitnar um haustkomuna er að húsflugum fjölgar til mikilla muna innanhúss og geta truflað mann við lestur góðrar bókar svo eitthvað sé nefnt.

Kartöflurnar eru líka fyrirbrigði sem minna á haustið og til þess að halda því til haga var uppskeran hjá mínu fólki 88 kassar sem er einum kassa færra en  í fyrra og eru menn bara nokkuð sáttir miðað við hversu sumarið átti erfitt uppdráttar. En kartöflurnar eru komnar í hús og er verið að herða þær fyrir vetrargeymsluna.

Jónas Skaftason vertinn á Ljóninu sagði mér eins og svo oft áður í óspurðum fréttum að hann hyggði á suðurferð upp úr næstu mánaðarmótum og fylgir hann eins og venjulega ferðum grágæsanna. Kemur norður um mánaðarmót mars- apríl og fer suður í októberbyrjun. Annað sem Jónas sagði mér var það að næsta sumar ætlar hann að vera með matsölu á Ljóninu og síðast en ekki síst þá ætlar Jónas að vera með kvöldvöku á Ljóninu laugardaginn 24. sept. Þar munu koma fram snillingarnir í Málbandinu en óvíst er hvort Ívar Snorri fái að vera með því trommusettið hans tekur svo mikið pláss þó svo hann geri það ekki.


Friðrik á Kiljunni að viðra hundinn sinn í haustblíðunni

Rúnar rennir í hlað í dásemdar himinblíðu með "Suðurbæjarminni" undir geislanum í "Súkkunni" sinni. Þetta er harmonikkulag eftir Norðfirðinginn Bjarna Halldór Bjarnason. Þetta er notalegur ræll sem skemmir ekki sólskinsstundina í Aðalgötunni. Rúnar er rólegur og prúður í fasi líkt og veðrið utan dyra. Þetta flokkast undir notalega innkomu hjá Rúnari og rennir stoðum undir góðan dag.  Sem sagt Rúnar er kominn með Gluggann sem er fullur af sláturvörum, matvælum sem flestir ættu að huga að bæði heilsunnar og buddunnar vegna.

Glugginn er kominn en og aftur og kennir þar ýmissa grasa. Blóðbíllinn verður á ferðinni og ætti að vera óþarfi að benda þeim á sem teljast hæfir blóðgjafar á að gefa blóð.

Sölufélagið (SAH) er eins og venjulega með slátursölu í haust. Allir sem eru sæmilega læsir eiga að sjá að hægt er að gera hagstæð matarinnkaup hjá SAH og til dæmis hægt að fá 1 kg af lambslifur fyrir 170 kr kílóið. Steikt lifur í brúnni sósu og með nýjum kartöflum úr Selvík (mega vera annarsstaðar frá) og sultu er herramannsmatur.   Að taka slátur er góð búbót og ætti að vera bundið í stjórnarskrá. Hef reyndar ekki séð að hin þingkosna stjórnarskrárnefnd hafi sett þetta inn því fátt veit ég þjóðlegra, já eða jafn þjóðhagslega hagkvæmt og kæmu hinum margumtöluðu fjölskyldum í landinu eins vel og að taka slátur. Það er hægt að borða það nýtt, frysta það, steikja eða súrsa. Að taka slátur er ekki bara matargerð heldur má nánast flokka þessa athöfn undir félagslega samhjálp en ég fer ekki nánar út í það.

Í sláturtíðinni falla líka til afurðir sem nefnast hrútspungar og þegar þeir eru búnir að liggja í súr fram að þorra þá eru þeir orðnir slíkt sælgæti að ég á hreinlega erfitt meða að skrifa meira um þessa lostafullu afurð sem aðeins fellur til af karldýrum sauðfjárins. Bara við þessa tilhugsun eina er ég farinn að hlakka til þorrans og blótanna sem honum fylgja.

Öllu sauðfé fylgir haus og þarf ekki að fara í kyngreinaálit með það. Þegar búið er að svíða þessa hausa, breytast þeir í sælkerafæðu sem bragðast einkar vel ýmist heitir eða kaldir með rófustöppu. Reyndar er það smekksatriði og getur kartöflumús komið í staðinn fyrir rófustöppuna, nú eða þessar stöppur geta farið saman með sviðunum.  Nei! Neytendur góðir, látið ekki sláturtíðina fram hjá ykkur fara því þar gefst ykkur einstakt tækifæri að verða ykkur úti um ódýra, holla og síðast en ekki síst góða fæðu, fæðu sem hægt er og gott er að grípa til hvenær sem er yfir veturinn.  Látið ekki slátrið fram hjá ykkur fara.

Vísa vikunnar er á sínum stað og er að þessu sinni eftir Önnu Árnadóttur. Anna horfir eins og við fram á það að haustið er á næstu grösum og vefur hugrenningum sínum í ljóðrænt form.

En nú liggur það fyrir að koma þessum fræðilega matreiðsluþætti í samhengi við lífið og tilveruna og eins og flestir vita klikkum við Rúnar ekki á því.


Úr eldhúsum mæðranna kveður við hlátur

Kátína ríkir og langt er í grátur

Þar mörinn er skorinn

Í sælu fram borin

sviðakjammi og nýsoðið slátur

 

07.09.2011 15:07

Ég er kominn heim

Það er gott að fara í frí og það er gott að koma úr fríi. Þetta hef ég reynt sl. hálfa mánuðinn. Hér sit ég og get ekki annað, sólbrúnn og sætur en með kvef sem er við það að yfirgefa mig. Við hjóninn brugðum okkur suður á bóginn í sólina í þeim eina tilgangi að gera sem minnst. Þetta tókst ágætlega og ég held að ég hafi bara haft gott af þessu því ég fékk frí frá ryksugunni og því að búa um rúmið í heilmarga daga og er ég ekki frá því að konan hafi líka haft eitthvað gott af þessu fríi.


Loksins hitti Magga einhvern sem vildi hlusta á hana og var skemmtilegri en eiginmaðurinn. Ef myndin er skoðuð nánar þá er þessi stytta ekki ólík Steingrími Joð með betlidisk rétt hjá ESB torginu í Torremolinos

Við vorum á hóteli og í hálfu fæði. Þetta þýðir að við komum tvisvar á dag í stóran matsal þar sem saman voru komir mörg hundruð gestir og flestir á stuttbuxum. Það var svolítið sérstakt að vera í þessu samfélagi a.m.k. 30 mínútur tvisvar á dag. Ekki verður hjá því komist að maður fer að velta fólkinu fyrir sér og setja það í samhengi við samferðamenn sína hér uppi á Fróni. Það væri gaman að segja frá þessum tengingum en þar sem ég er friðelskandi og tillitsamur maður þá læt ég það vera en mikið andskoti væri það nú samt skemmtilegt.

Það er með hreinum ólíkindum hvað maður fer að velta vöngum yfir þegar maður er umvafin svona mörgu fólki í sömu stellingum í stórum matsal. "Hefurðu tekið eftir því hve margir draga fætur undir stólinn og tylla vinstri fæti aftur fyrir þann hægri meðan þeir snæða" spurði ég konu mína um leið og ég áttaði mig á því að minn vinstri fótur var fyrir aftan þann hægri undir stólnum. Mér fannst þetta merkileg uppgötvun og fór að leiða hugann að því hvort þeir sem þetta gerðu væru hamingjusamari en þeir sem krosslögðu fætur, sem sagt settu hægri fót upp á þann vinstri (eða öfugt) eða þeir sem höfðu fæturna samhliða á gólfinu. Hvað sem öðru leið þá uppgötvaði ég líka að kynjamunur í þessari fótavinnu við matarborðið var enginn og eins fannst mér þessi hegðun óháð þjóðerni. Sem sagt hér er um fjölþjóða, kynlausa atferlishegðun að ræða.  Aftur á móti fannst mér mikill kynjamunur í krossleggingu fóta og einnig hjá þeim sem höfðu báða fætur samsíða á gólfinu. Konur voru í miklum meirihluta hvað varðaði krosslegginguna en karlarnir mun fleiri í samsíða tengingu við gólfið. Engin varð niðurstaðan í þessum "pælingum" nema sú að ég tilheyri meirihluta hópi fólks sem er með sömu fótahegðun á veitingahúsum og túlka ég það þannig að ég er veitingahúsum hæfur. Það er rétt að skjóta því inn hér áður en ég læt lokið umfjöllum um sumafríið að það var alltaf veitt freyðivín með morgunmatnum og þá minnist ég þess að þegar ég bergði á því steingleymdi ég öllum fótaburði í matsalnum.

Mig langar að skjóta þeirri ánægjulegu frétt inn í þennan pistil að það sást til Stefáns og Nonna hunds á gangi í Fellunum í Reykjavík á mánudaginn var. Eins og þeir vita sem þessa pistla lesa þá fluttu þeir Stefán og Nonni hundur suður til Reykjavíkur í lok ágúst og hafði ekkert til þeirra spurst í lengri tíma og voru sumir satt best að segja farnir að hafa áhyggjur. Þetta er gleðifrétt fyrir okkur sem höfum taugar til þeirra feðga og eins er þetta gleðifrétt fyrir íbúa í efri byggðum Reykjavíkur að vera búnir að fá þessa sérstöku öðlinga í nágrennið.

Loksins hittumst við Rúnar á miðvikudegi eftir langan aðskilnað. Veðrið hefði mátt vera betra við þessa endurfundi. Grenjandi rigning og 5 gráðu hiti lögðust yfir " Bel Viso" eldfjörugan polka sem þeir Kristian og Jens Peter ásamt Czardas tríóinu fluttu í Súkkunni hans Rúnars. Til að leggja áherslu á tónlistarlegt gildi komu sinnar og yfirgnæfa byljandi regnið lagðist Rúnar á flautu bifreiðarinnar þannig að bæði regnið og tónlistin gleymdust augnabliksstund. Sem sagt Rúnar er kominn með Gluggann og það er skemmtilegt. Einu tók ég eftir þegar Rúnar settist í hornið hjá mér með Gluggann að hann krosslagði fæturna líkt og konur á veitingahúsi úti á Spáni en reyndar borðaði hann ekki neitt. Rúnar greindi mér frá því að farið hefði fram rannsókn fyrir mörgum árum hvaða persónu fólk hefði að geyma eftir því hvernig það væri í kyrrstöðu. Minnti Rúnar að þeir sem tylltu tá hægri fótar vinstra megin og framan við vinstri fót væru skemmtilegt fólk, meira mundi hann ekki.

Glugginn í dag er ekki þykkur en innihaldsríkur. Stóðsmölun og stóðrétt í Skarapatungurétt er forsíðuauglýsingin að þessu sinni og Domusgengið er á sínum stað. Ég segi nú bara "hvar væri Glugginn staddur ef ekki nyti við þeirra Stebba hrl, Sveinstaða-Magga og Ólöfu Pálma" ég segi nú ekki annað.

Vísa vikunnar er á sínum stað og er að þessu sinni eins og nánast alltaf eftir Rúnar á Skagaströnd og segir frá höfuðborgar hrokagikkjum sem við hér á landsbyggðinni eigum að hafa séð. Ég er nokkuð viss um að hrokagikki sé að finna allstaðar í samfélaginu og hef ég á tilfinningunni að hlutfallið sé nokkuð svipað því og hjá þeim sem krækja vinstri fót aftur fyrir þann hægri meðan þeir matast.                                   

Hér segir af ferð okkar hjóna, þó nokkuð frægri.

Sem heim komust aftur létttekin flensu vægri.

En ég verð allur betri

eins og sést hér á letri

Ef kræki ég vinstri fæti aftur fyrir þann hægri

 

Á mygluðum miðvikudegi,

mættumst við Rúnar á ný.

Ég muldra það hér með og segi,

mikið var gaman af því.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 15
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 60552
Samtals gestir: 10654
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 17:20:33