Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 Október

26.10.2011 14:33

Öðruvísi mér áður brá

Klukkan 9:28 skreið sólin yfir þakbrúnina á Krútt húsinu og skein inn um gluggann hjá mér. Hafið var stillt en undirtónnin  þungur svona til að minna á mátt sinn. Sá sem hefur heyrt niðinn (sinfóníuna eins og Kristján frá Hvíteyrum segir) frá Atlantshafinu  þegar það brotnar við ströndina við botn Húnafjarðar veit hvað  ég meina.


 Spákonufellið séð frá Blönduósi

Ég á von á símtali frá honum Stefáni Hermannssyni eiganda Nonna hunds en þeir "feðgar" eru eins og flestum er kunnugt, fluttir suður í Breiðholtið. Stefán hringdi í mig í gærkvöldi en þá var ég upptekin á fundi og varð að samkomulagi að hann hringdi í dag. Bara svo það komi fram þá heyrði ég í Nonna hundi í bakgrunni samtals okkar Stefáns í gærkvöldi. Það gladdi mig að heyra í nafna mínum hundi í símanum því ég greindi að hann var sjálfum sér líkur þó svo hann væri kominn suður á mölina í allskonar fyrir alla.

Annar vesturbakkabúi hringdi í mig í gær til að leita frétta jafnframt því að segja fréttir af sér. Þetta var enginn annar en Jónas Skaftason vert á Ljóninu sem hringdi á milli "túra" í leigubílaakstri  í höfuðborginni. Hann sagði mér og það var ekki í trúnaði að lítið væri upp úr harkinu að hafa en hann væri nægjusamur og þyldi enn við. Ég spurði hann um skemmtibátinn Skafta Fanndal, hvort hann væri ekki í góðu yfirlæti í Reykjavíkurhöfn. "Nei" sagði Jónas "ég var svo heppinn að fá inni fyrir bátinn og nú er ég og sonur minn að mála fleyið, þannig að hann verður flottur þegar hann (báturinn) kemur norður næsta sumar og fer á sjóstöngina". "Þú veist að ég ætla að vera með restúrant næsta sumar" sagði Jónas við mig "og svo ætla ég að fá meiri nýtingu á smáhýsin" bætti hann við. "Já Jónas, þú varst búinn að segja mér frá þessu og ég er búinn að skrifa um þetta í pistli hjá mér" sagði ég að bragði. "Ég verð að fara að gera skurk í því að lesa pistlana þína, það er svoldið síðan ég las síðast" sagði Jónas í framhaldi af þessari athugasemd minni um umfjöllun mína um framtíðaráform Jónasar. "Heyrðu! ég kem norður um helgina og ætla að kveikja á græna ljósinu vinstra meginn við aðalinnganginn. Það verður sem sagt opið" sagði Jónas í óspurðum fréttum og ég sagði si svona: "Á ég ekki að segja frá þessu í pistli dagsins og bæta við að allir séu velkomnir meðan að húsrúm leyfir". "Alveg endilega, það væri frábært" sagði Jónas og kvaddi.

Ég var vart búinn að skrá ofanritað þegar Stefán Hermannson hringdi. Það lá ágætlega á honum og bað hann fyrir kveðjur norður sem ég hef hér með komið á framfæri. Stefán sagði einnig ágætar fréttir af nafna mínum hundi. Þeir félagar búa á jarðhæð í blokk í Austurberginu og helsta vandamálið með Nonna hund er að hann geltir svolítið á morgnanna en öðru leiti gengur ágætlega.

Rúnar kom með Gluggann að þessu sinni og honum fylgdu harmonikkutónar. Mikið fannst mér það nú skemmtilegra að fá Gluggann með harmonikkutónum heldur en að hirða hann af hurðarhúninum umkomulausann og töfrum sviftann. Reyndar þurfti Rúnar að ná í mig niður í fjöru því ég var að horfa á öldurnar og hlusta á ölduniðinn en allt um það Rúnar er kominn og úr Súkkunni hljómar snúningslipur polki "Lättvindig polka" sem þeir Lasse og Marco flytja af mikilli lipurð.


Það er kominn tími á það að birta mynd af Gluggastráknum honum Rúnari. Hér er hann í harmonikkutrans á leið sinni að sækja mig niður í fjöru

Glugginn í dag er svolítið litaður af því að rjúpnaveiðin er að hefjast. Landeigendur eru farnir að benda veiðimönnum á hvar ekki má veiði án leyfis. Líf veiðimannsins hefur breyst töluvert frá því ég í gamla daga gekk til rjúpna. Víða var hægt að fara og vera einn með sjálfum sér á fjöllum uppi. Bara við að skrifa þetta ræðst fram á svið, fortíðin og minningin um það þegar maður horfði ofan af Langadalsfjallinu yfir byggðir A-Hún hve við mennirnir erum smáir gagnvart veröldinni.

Lionsklúbbur Blönduóss auglýsir sviðamessu þann 11.11.11 en það er herrakvöld þar sem eins og nafnið bendir til, aðeins karlar koma saman og borða svið og skemmta sér. Þessi siður Lionsmanna á Blönduósi er áratuga gamall hefur ætíð verið hin besta skemmtun og ekki leitt til hjónaskilnaða svo vitað sé.

Vísa vikunnar er á sínum stað og merkilegt "nokk" eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Vísan er um listamanninn hér á Vesturbakkanum sem ég hef gefið loforð að skrifa ekki um. En þar sem vísan er opinber þá tel ég mig geta fjallað um hana án þess að svíkja nein loforð. En vísan er aðeins fjórar línur og skýrir sig að mestu sjálf, vegna þessa þarf ég svo sem ekki að fjalla neitt meira um hana og læt því hér með lokið.

Samhengi hlutanna er ekki öllum gefið að sjá. Þegar sögupersónur hverfa af vettvangi vesturbakkans með einum eða öðrum hætti getur verið snúið að segja sögur af Vesturbakkanum. Því persónur eru oftlega nokkuð stór þáttur í atburðarásinni. Gefa henni lit og tilgang. Samhengisvísan verður því einfaldlega svona og lái mér hver sem vill.


Öðruvísi mér áður brá,

allt hverfur í tímans hafi.

Senn get ég aðeins sagt ykkur frá

sólinni  og öldunnar trafi

 

Af  Vesturbakka söguslóð

sannlega  minnka  líkur,

að sögð verði einhver saga góð.

Því söguslóðin er komin til Reykjavíkur.

19.10.2011 14:24

Í taumlausu tómi

Það er ótrúlega oft sem ég veit ekkert hvað á að færa í letur á miðvikudags ritæfingunum. Það kemur oft upp í huga mér á stundum sem þessum, eitt ágætt spakmæli: "Ef þú hefur ekkert að segja þá skaltu þegja og vera álitin vitleysingur, heldur en að tala og taka af öll tvímæli". Þrátt fyrir þetta spakmæli þá arka ég alltaf af stað út í óvissuna í von um að rekast á eitthvað óvænt á ritvellinum sem mér hefði aldrei dottið í hug að væri til. Það hefur líka verið sagt að oft ratist kjöftugum satt orð á munn en það er bara svo mikill vandi að vita hvenær það gerist. Það eru svo margir að skrifa um allt milli himins og jarðar og velta fyrir sér öllum hliðum mála  en ég réttlæti mín skrif með því að það séu ekki mjög margir sem eru að skrifa um lífið á Vesturbakka Blöndu. Vegna þessa held ég áfram og seilist stöku sinnum yfir á Austurbakkann þar sem fjöldinn er.


Það er ró yfir mannlífinu á Vesturbakkanum þessa dagana þó svo hafaldan hafi barið hér ströndina miskunarlaust. Æðarfuglinn haggast ekki í brimrótinu frekar en aðrir fuglar sem lifa á hafinu. Tvær gæsir eru enn á beit á túnunum vestan við Hnjúkabyggðina og er ekki að sjá á þeim neitt fararsnið.  Þetta er nú helst að frétta af vesturbakka slóðum. Ég sé Ívar Snorra til þess að gera lítið en oft sé ég Frikka vert sitjandi á steinbekknum á gatnamótum Aðalgötu og Hnjúkabyggðar með hundinn sinn sem ég man ekki hvað heitir. Jónas Skaftason á Ljóninu er floginn suður og er hann nánast ekkert með í sögunum af Vesturbakkanum yfir svartasta skammdegið. Svona er Vesturbakkinn í dag.

Glugginn er kominn. Hann beið eftir mér á hurðarhúninum á Aðalgötu 8 svona eins og munaðarlaust barn. Það var enginn Rúnar sem hélt með verndandi hendi á honum inn um dyrnar. Nei Glugginn hékk á hurðinni, þunnur á vangann en innihaldsríkur. Það fylgdi honum enginn, það voru engir harmonikkutónar í tengslum við hann. Glugginn bara var þarna og beið eftir því að vera settur í standinn sinn í ríkinu. Svona kom Glugginn í dag þegar örfáir daga lifa af sumri og veðrið svona með skaplegasta móti.

Hvað stendur svo í þessum munaðarlausa Glugga? Hið árlega styrktarsjóðsball verður haldið á laugardaginn og leikfélagið boðar til aðalfundar. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hefur vetrarstarfið  á morgun og fyrirtækið Rafsókn sækir að Tengli á rafmagnsmarkaðnum og síðast en ekki síst þá verður inflúensubólusetning í héraðinu á mánudaginn.

         Vísa vikunnar er sem fáum kemur á óvart, eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og hún er sem líka kemur fáum á óvart um Þórólf kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki. Þar segir Rúnar að Þórólfur sé fjögra manna maki og ætti því að heita Fjórólfur.

Ég er einn og yfirgefinn í mínu horni með Gluggann fyrir framan mig og annan glugga til hægri en út um hann sést ekkert nema ljótur gulmálaður bílskúrsgafl, örlítið brot af Húnafirði, Vatnsnesi og svo skúrinn hans Gríms Sæmundsen.


Oftar en ekki hittir maður hinar ýmsu dýrategundir þegar maður leggur leið sína með bökkum Blöndu. Þessi selur hvíldi lúin bein á neðstu klöppinni í ánni. Sjáið augun

En hvað sem þessu öllu líður þá verð ég að koma auga á samhengi hlutanna.  Það er auðvelt í einrúmi einn með sjálfum sér, laus við gagnrýni og skilningarvit annara.

Í taumlausu tómi ég ræði við sjálfan mig

og tel mér trú um að allt sé í góðu gengi.

Er sitja þeir saman ég og Jón nokkur Sig,

þá stendur á svari og það bara þó nokkuð lengi.

12.10.2011 21:23

Lífið er undarlegt

    Lífið er undarlegt! Dyrabjallan á mínu heimili er búin að vera biluð í þó nokkurn tíma og menn hafa þurft að banka upp á til að ná sambandi við heimilisfólk. Á fimmtudagskvöldið fyrir næstum því viku  hringdi dyrabjallan og við hjónin litum upp síðan hvort á annað upptekin við að hlusta og horfa á ekki nokkurn skapaðan hlut í sjónvarpinu og mátti lesa úr svip okkar beggja að hér hefði líkast til gerst kraftaverk. Konan fór til dyra til að sjá manninn (Ég er trúr þeirri skoðun að konur séu líka menn) sem kunni á dyrabjölluna og um leið og hún opnaði útidyrnar stóð á dyrapallinum heyrnalaus karlmaður að selja happdrættismiða. Heyrnarlaus maður sem  hringir bilaðri dyrabjöllu með árangri, selur að sjálfsögðu happdrættismiða. Ég er ekki kröfuharður maður og krefst ekki að fá vinning út á þetta en ég get ekki leynt því að déskoti væri það nú gaman bara svona til að hleypa lífi í drauminn um kraftaverkið. Ég er ekki sú manngerð sem trúir á kraftaverk í tíma og ótíma en innst inni blundar alltaf vonin. Hún bara blundar og ég sem er svona karlmaður á áliðnum sextugsaldri og hef kynnst ýmsu á lífsleiðnni viðurkenni seint kraftaverk, en svona í trúnaði þá er ég bara ósköp venjulegur meðalJón.


Þrútið var loft og þungur sjór við botn Húnafjarðar í gær   

     Jónas Skafta hringdi í mig í gær úr höfuðborginni til að leita frétta og svona minna á tilveru sína. Hann hvarf sporlaust úr bænum um helgina án þess að kveðja kóng né prest og hafði Himmi Snorra orð á þessu við mig í gær. Við Himmi vorum sammála um að brotthvarf Jónasar hafi borið brátt að og spurði ég því Jónas sjálfan hvað hafi valdið þessu skyndilega hrotthvarfi. Jónas sagði sem svo að yfir litlu væri að hanga á Vesturbakkanum og því væri bara best að drífa sig suður í harkið. Reyndar sagði Jónas í aðspurðum fréttum að lítið væri að gera í leigubílabransanum og fáir túrar í boði. Ef þið sjáið góðlegan grásíðhærðan eldri mann á Bens bifreið fyrir utan Kringluna þá er það hinn eini og sanni Jónas og efa ég ekki að hann mun koma ykkur á leiðarenda.

     Rúnar er kominn Glugga vikunnar. Eins og venjulega þá lék hann harmonikkutónlist fyrir mig og kannsi einhverja fleiri. Rúnar kom ekkert sérstaklega á óvart í tónlistarvali í dag því hann lék enn og aftur polka af Strákabands disk sínum. Hressilegt en ekki mjög frumlegt. Sem sagt íhaldsamt og gott og utan dyra leika ferskir vindar með 7 gráður í farteskinu.

     Styrktarsjóðsballið er í augsýn og Lionsmenn eru að leggja af stað með ljósaperurnar sínar. Maggi fasteignasali stefnir að því að selja ofan af mér á Aðalgötunni því Domusgengið er að reyna selja báðar íbúðirnar fyrir ofan mig.

     Á sunnudaginn stendur til að opna Þórsstofu í kvennaskólanum á Blönduósi. Þessi Þór sem um ræðir er enginn annar en Þór Jakobsson veðurfræðingur en hann hefur verið okkur hér á Blönduósi innan handar um ýmis málefni og nægir að nefna Hafíssetrið.

  Haustlitirnir í Fagrahvammi (kvenfélagsgarðinum) áður en rokið kom

     Þessi dagur í dag er svona í andlausari kantinum og helgast það meðal annars af því að konan hefur yfirgefið mig um stundarsakir til að bregðast við vetrarfrí í grunnskólum höfuðborgarinnar. Þ.e.a.s. hún fór suður til að vera með barnabörnum sínum þar sem foreldrar geta ekki tekið sér frí þessa daga.

     En samhengið verður að vera til staðar og kannski er því best lýst svona:

          Í október miðjum við andlausir erum,

          ekkert er við því að segja.

          Við lítið vitum og lítið gerum

          og lang best er því að þegja.

 


 


    

05.10.2011 13:46

Hundalógík

Jón hundur sá töfrandi tík
sem tæplega aldrei hann fær.
Þvílík var sorgin og slík
að sárlega grét hann í gær.

 

Þessi vísa var ort fyrr á árinu og eins og allir sjá, um Nonna hund. Tilefnið á líka að vera öllum ljóst og auk þess er Nonni ættlítill hundur úr Svínadalnum. Svoleiðis hundar eiga lítinn "séns" í fallegustu tíkina og þess vegna grét Nonni hundur sem nú er fluttur suður í Breiðholtið. Ég grét í hljóði með hundinum því mér fannst réttlætið í heiminum ekki til staðar fyrir vin minn Nonna. Svona eftir á að hyggja þá held ég að Nonni hundur hafi ekki tekið þetta eins nærri sér og ég. Eftir að þessi vísa var ort þá gerði nafni minn hundur margar atlögur að tíkum bæjarins og fer ekki sögum af því hvernig til tókst en oft var hann handsamaður af bæjarstarfsmönnum, tíkareigendum og mér einu sinni. Þó að hann væri ættlaus hundur úr Svínadalnum þá hætti hann ekki að kannast við eðli sitt og fylgdi því út í ystu æsar. Hvert skyldi maðurinn vera að fara með þessum "pælingum"  gæti einhver farið að hugsa? Ég er ekki alveg viss um það sjálfur en get tekið undir með Bjarti í Sumarhúsum: "Hundur er hundur".   

         Það er líka hundur í veðrinu, haustlægðirnar streyma hjá og ausa yfir mann vætu í ýmsu formi allt eftir því hve hátt maður er yfir sjávarmáli.

         Lífið á Vesturbakkanum er með allra rólegasta móti. Jónas á Ljóninu hef ég ekki séð í marga daga og dreg ég þá ályktun að hann sé kominn suður líkt og Nonni hundur.  Kirkjueigendurnir Sveinn og Atli hafa verið hér á ferðinni að líta eftir eignum sínum. Sveini fylgja venjulegast einn til tveir smáhundar sem gera það að verkum að Sveinn virðist tröll að burðum í samanburði við Ívar Snorra sem á hund í sama stærðarflokki og Sveinn. Sem sagt, hundur er hundur en mennirnir misjafnir svona eins og gengur.


      Sílamávurinn heldur sínu striki þrátt fyrir napra haustvinda og dægurþras af ýmsu tagi  

          Það er ekki beint hundur í mér, heldur frekar svona húðarklár og á þessu tvennu er töluverður munur. Ekki er ætlunin að fara út í orðaskýringar en þeir sem skilja fyrstu setninguna vita svona nokkurn veginn hvernig ég er stemmdur í dag.

Rúnar lét sjá sig í dag og lagði hann sig sérstaklega fram um að vera almennilegur við mig minnugur þess að hann var hvergi sjáanlegur fyrir nákvæmlega viku.  Og til að gera mér til geðs þá spilaði hann "Strekkbukse-Polka af disknum "Leve gammeldansen" og það var enginn annar en góðkunningi okkar Arnt Haugen sem þandi nikkuna. Þetta var bara sætt af Rúnari því "Strekkbuksepolkinn er svolítið "spes" og tengir okkur andlega hlýlegum böndum. Teygjubuxnapolkinn er gott innlegg inn í þennan afundna rakamettaða og kalda miðvikudag.  

Í Glugga dagsins er minnst á fyrirbrigðið "huggulegt haust". Ég ætlaði að fara inná heimasíðu huggulega haustsins og stimplaði inn huggulegthaust.is á lyklaborðið og sjá ég lenti inn á vefsíðu sem eitthvað Fjölnet hf hefur til umráða og ég var jafn nær um hvað málið snérist. En þegar ég "gúgglaði" þetta þá komst ég inn á heimasíðuna eftir krókaleiðum. Þetta mun vera átak sveitarfélaga á norðurlandi vestra til að vekja athygli á því sem er að gerast á svæðinu í haust.

Anna Árnadóttir á vísu vikunnar og virðist sem hún sjái von í Guðmundi Steingrímssyni þegar hann stígur á stokk með nýja lykla. Í mínum huga þá dugar lítt að nota nýja lykla á gamlar skrár nema þeir séu unnir eftir þeim gömlu í versluninni Brynju.

En það er mál að linni og samhengið verður að höndla þrátt fyrir allt á þessum grákalda miðvikudegi sem þó er ekki verri en það að hundi er út sigandi.

 

Það er margt sem þurfum að hugs' um,

og þarfagreiningu stundum.

Við tökum á teygjubuxum

og tannhvössum smágerðum hundum.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 826
Gestir í dag: 425
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 62107
Samtals gestir: 11195
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 03:44:16