Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Febrúar

29.02.2012 16:09

bjartur í buxum

Svona dagar eins og dagurinn í dag koma bara á fjögurra ára fresti. Þessi einstaki dagur er bjartur  með suðveslægri átt og hitinn er svona um 3 gráður á berangri.  Í dag er sem sagt hlaupársdagur og sendi ég öllum sem eiga afmæli í dag mínar bestu óskir.


Svona var útsýnið yfir Blöndubakka og Spákonufellið þennan síðasta dag febrúar, hlaupársdag

"Þeir sem taka inn svefnlyf eru í mun meiri hættu á að deyja en þeir sem ekki taka slík lyf"  las ég á mbl.is núna rétt áðan. Mér létti mikið við að lesa þetta því samkvæmt þessu eru meiri líkur en minni að ég muni ekki deyja. Adam var samt ekki lengi í Paradís því mér varð hugsað til orða Flosa heitins Ólafssonar sem sagði eitthvað á þessa leið " Ég þekki engann sem lifað hefur af dauðann, a.m.k. ekki í mínum kunningjahópi".

Til mín kom í morgun geðþekk ung kona af erlendu bergi brotin, nánar tiltekið frá Slóvakíu. Við spjölluðum heilmikið saman og hún var m.a.  forvitin um uppruna okka Íslendinga. Ég sagði henni sem satt var að við karlarnir værum komnir frá Noregi en konurnar væru af Írlandi. Skýrði ég fyrir henni að Norðmennirnir hefðu komið við á Írlandi og rænt þar fallegustu konunum og komið með þær með sér. Þessvegna væru íslenskar konur fallegustu konur í heimi en karlarnir frekar grófir og þverir í lundu. Ég sagði henni að þessir þjóðflutningar frá Noregi hefðu verið vegna þess að menn hefðu verið að flýja ofríki og ofsköttun en svo virtist, núna síðustu árin  að þessir brottflúnu norðmenn væru farnir að snúa aftur til síns heima af sömu ástæðum og þeir flúðu Noreg á sínum tíma.  Ég er ekki viss um að hún hafi trúað þessu en þetta með kven- og karlýsingarnar getur vel verið satt.

Jónas hringdi í mig um daginn og bað um smá greiða sem ég gat orðið við. Samtalið var stutt en gagnort  og bara svona til að segja eitthvað um Jónas þá mun hann koma til starfa í ferðaþjónustu sinni þann 1. aprí um svipað leyti og fyrstu grágæsirnar koma í heimahagana.



Sveinn M Sveinsson kirkjuhöfðingi í gömlu kirkjunni á Blönduósi að messa af kórloftinu yfir ferðamálafrömuðum af höfuðborgarsvæðinu

Glugginn er kominn í hús og með honum fylgdi Rúnar með sólskinsbros á vör og lék hann hið ágæta lag eftir undirritaðan "Inn um Gluggan til þín". Þetta lag átti afar vel við því sólin skein inn um gluggann til mín þennan síðasta dag febrúarmánaðar. Já við Rúnar vorum báðir í sólskinsskapi og og Glugginn svona sæmilega á sig kominn, bara alveg eins og fyrir viku.

Hrafnhildur í Bæjarblóminu er greinlega að fara eitthvað með hann Ingimar sinn fyrst hún auglýsir svona "verð með lokað frá 5. - 20. mars." . Kannski þau séu að fara til Kanarí; ég segi nú svona. Ég man alltaf eftir því þegar ég hitti þau hjón forðum daga á sólskinseyjunni. Við nánast rákumt hvert á annað því við mættumst þar sem götur skerast og húshorn myndast. Ég man það svo vel hve Ingimar var bjartur yfirlitum á ljósu stuttbuxunum sínum með Dollarapípuna upp í sér. Ég var smá stund að átta mig, því ég hafði aldrei séð Árholtsbóndann í stuttbuxum áður en það var pípan sem tók af allan vafa og Hrafnhildur sem með honum var í för. Þetta var í þá gömlu og góðu daga.

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar um samskipti Skagfirðinga og Húnvetninga.

En við Rúnar verðum að koma auga á samhengið sem að sjálfsögðu er falið í góðbónda úr Torfalækjarhreppi hinum forna. Góðbændur í Torfalækjarhreppi hinum forna ganga aldrei í stuttbuxum heima við en þegar þeir bregða sér af bæ og til suðrænni landa þá getur verið erfitt að þekkja þá á götu.

Arkaði bjartur í buxunum sínum

og barasta í alls engri klípu.

Svo kom að þau urðu  á þvervegi mínum,

                   ég þekkti´hann af dollara pípu.

 

22.02.2012 15:51

Hvað get ég sagt

Já ! Hvað segir maður á svona degi þar sem lognið er allt um liggjandi og snjókornin hvít og hrein falla hljóðlaust til jarðar. Þessi sviðsmynd er eitthvað svo fullkomin fyrir þögnina og kjörin til að hvíla hugann. Þessi mikla kyrrð í upphafi dags er líka upphafið að miklum hreyfanleika og sönggleði æskunnar. Í dag er öskudagur (sníkjudýradagurinn), dagurinn þegar börnin fara dulbúin á milli stofnanna og fyrirtækja og syngja fyrir laun af ýmsu tagi.


Börnin mín Hjalti, Ásta Berglind og Einar Örn áttu stóran þátt í að gera afmælisdaginn minn ógleymanlegan. Hér flytja þau lagið "Það var ást þín" fyrir föður sinn og gesti í Ósbæ þann 18. febrúar

Fyrst ég er byrjaður að tala um daga þá er ekki úr vegi að minnast lítilega á daginn sem ég varð 60 ára. Sá dagur rann upp bjartur og fagur og stútfullur af óvæntum hlutum sem of langt mál væri upp að telja. Hafi ég ekki vitað það að ég ætti frábæra fjölskyldu þá fékk ég það rækilega staðfest þennan dag. Veislan um kvöldið var í mínum huga hreint út sagt stórkostleg og yndislegt að fá alla þessa vini og vandamenn í heimsókn og eiga með þeim ljúfa kvöldstund. 18. febrúar árið 2012 verður mér ætíð og ævinlega afar hjartfólgin.

Loksins kemur Rúnar og hefur í för með sér tónlist sem ég hef aldrei heyrt úr Súkkunni hans. "Þau heilla mig augun þín blá" barst yfir Aðalgötuna lag og texti eftir undirritaðan. Þetta er lag sem ég samdi um hana sonardóttur mína, Margréti Einarsdóttur. "Það er meira að segja harmonikka í laginu" sagði Rúnar glaður í bragði og stormaði inn í logninu með Gluggann.  Það er gaman að segja frá því að þessi sonardóttir mín var stödd á Aðalgötu 8 og heyrði þetta lag úr Súkkunni hans Rúnars með eigin eyrum og það sem skemmtilegra er að Rúnar hafði ekki hugmynd um að lagið væri um hana.  Rúnar var varla sestur í hornið sitt þegar að síminn hringdi. "Komdu blessaður og takk fyrir síðast" heyrðist úr símanum og kenndi ég þarna strax aðal stríðsmanninn á Vesturbakkanum Jónas Skaftason. "Takk sömuleiðis" svaraði ég að bragði og síðan skiptumst við á fréttum svona eins og gengur. Ég sagði honum að Rúnar væri kominn með Gluggann og við sætum og reyndum að efla andann fyrir hinn vikulega pistill. "Ég bið að heilsa Rúnari"  sagði Jónas og bætti við "vertu svo blessaður".



Í dag er öskudagur og þá fara börnin á milli stofnanna og fyrirtækja og syngja fyrir laun

Glugginn er er kominn og er hann ívið þykkari en síðast og er það vel. Það ber merki um að eitthvað meira sé um að vera. Það er verið að opna nýtt bifreiðaverkstæði og Héraðshælið leitar að nýjum móttökuritara.  "Er Sigrún Kristófers að hætta?" spurði ég Rúnar með nokkrum alvöruþunga. "Nei, ekki hef ég heyrt það" svaraði Rúnar brúnaþungur og hélt áfram að fletta Glugganum.

Vísa vikunnar er eins og við Rúnar höfum svo margoft sagt "aldrei þessu vant"  eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd (takk Rúnar fyrir hlý ljóðræn orð í minn garð). Það sem einkennir Rúnar á Skagaströnd er að hann situr sjaldnast á sér og setur ýmislegt skáldlegt í letur hvort sem um er að ræða sumar eða vetur. Að þessu sinni veltir Rúnar fyrir sér öllum setrum sem komið hefur verið á laggirnar og segir í lokin að hver stofnar  setur sem betur getur.

Nú er komið að því dásamlega við þennan pistil sem sumir bíða spenntir eftir en það er að honum ljúki með hinu þaulhugsaða samhengi hlutanna.

 

Á öskudegi æskublóminn  safnar

öllu því sem ærlegt bragð er að.

Af  ljósastaurum  líta á þau hrafnar

sem lifa af því sem fellur hverjum stað.

 

 

 

15.02.2012 13:52

Í eigin heimi

Við stöndum á hverjum degi frammi fyrir þeirri spurningu hvort það komi lífinu og tilverunni betur að þegja eða segja frá. Veldur hver á heldur og einhvern veginn læðist að mér sá grunur að hver sé sinnar gæfu smiður í þessum efnum sem og svo mörgum öðrum. Að ætla að koma með einhverjar algildar reglur í þessu er líkast því að taka sér alræðisvald og þykjast vita allt. Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að gæfan hefur hreinlega lagt mig í einelti. Þið takið eftir því að þessi síðasta setning er jákvæð lýsing á neikvæðu fyrirbrigði. Ég spyr nú eins og Adolf Ingi gerði á sínum tíma þegar íþróttamaður ársins sýndi frábæra varnartilburði í handboltaleik við Pólverja. " Hvaðan kom hann, hver er hann, hvert er hann að fara?" Þessum spurningum hvað mig varðar get ég svarað persónulega og "prívat".

Það er mjög líklegt að fyrsta lag sem mér hafi borist til eyrna í þessum heimi hafi verið lag Sigfúsar Halldórssonar "Litla flugan".  Þetta segi ég vegna þess að lagið var frumflutt í útvarpi þann 17. febrúar 1952 og daginn eftir var það á allra vörum. Það er mjög líklegt að móðir mín hafi raulað litlu fluguna líkt og aðrir landsmenn um leið og hún vaggaði nýfæddum  18 marka syni sínum þann 18. febrúar 1952. Ég kom sem sagt í heiminn um svipað leyti og "litla flugan" og það þykir mér vænt um. Elísabet Englandsdrottning komst til valda um svipað leyti og er hún enn við völd. Þannig er nú það, maður er næstum því búinn að lifa í 21.915 daga og er það bara all nokkuð.


Grágæsirnar 3 sem hafa verið hér í vetur rétt fyrir neðan Vegamót. Myndin er tekin fyrir nokkrum dögum.

Það er alltaf þannig að eitthvað hendir sérhvern mann á lífsgöngunni. Ævispor manna eru margvísleg og misjafnt sem á þá er lagt og hvernig þeir rísa undir því að vera ófullkominn manneskja í óræðum heimi. Líf mitt hefur að flestu leyti verið mér gott eins og komið hefur fram og skilað mér góðri konu, þremur farsælum börnum og fimm mannvænlegum barnabörnum (þið skuluð ekki láta ykkur detta í hug að ég hafi gleymt tengdabörnum mínum). Eins og fram hefur komið þá hófst þetta allt þann 18. febrúar 1952 í Reykjavík og sleit ég barnskónum í ævintýrum og öryggi í Laugarneshverfinu. Ég man ekki eftir öðru en sólskini og blíðu á mínum fyrstu uppvaxtarárum.   "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík" söng Ragnar Bjarnason áðan og það hélt ég líka lengi vel eða alveg þangað til ég settist að við botn Húnafjarðar seint á síðustu öld. Eftir að ég flutti úr Laugarneshverfinu og komst í kynni við Einar Má Guðmundsson (skáld), Jón Baldursson (Bermúdaskálin) og fleiri snillinga í Heimunum breytist veröldin töluvert. Þeir sem lesa "Engla Alheimsins" og "Vængjaslátt í þakrennum" geta skyggnst inn í þessa veröld.  Þetta voru skemmtilegir tímar og Hálogaland var nafli alheimsins á laugardögum yfir vetramánuðina. Rétt við Hálogaland var Teitssjoppa og þangað var fjölmennt eftir handboltaleiki og kom fyrir að þekkt persóna í Reykjavík hann "Dalli dómari" liti þar inn. Einhverju sinni fannst Teiti sjoppueiganda Dalli nokkuð ódæll og hringdi í Gest umsjónarmann á Hálogalandi og bað hann að koma vitinu fyrir Dalla. Gestur kom og áður en hann náði að segja orð sagði Dalli að bragði: "Enginn er verstur en einn er bestur, það er Gestur. Málið var leyst.


Bjarki á Breiðavaði í hlutverki Magnúsar á Hnjúki á Hreppblótinu um helgina. Magnús hélt um tíma að þetta væri hann sjálfur

Svo gerðist eitt af öðru. Ég kláraði námið á Hvanneyri, gifti mig og fékk vinnu hjá Búnaðarsambandi A-Hún. Fertugsafmælið hélt ég á Borgarspítalanum því Camelinn hafði náð að stífla nokkrar mikilvægar kransæðar en heim komst ég og bara déskoti brattur þangað til frönsk járnbrautarlest hreif mig með sér í lok ágúst 1999. Þetta óhapp tafði mig svolítið í 4 mánuði eða svo. En ég er líklega eini Íslendingurinn sem til Parísar hefur komið sem ekki hefur séð Effelturninn en ég sá Notre Dam kirkjunna og heyrði í hringjaranum á klukkutíma fresti í ellefu daga. Að öðru leiti er ég bara nokkuð góður þó svo hjarta mitt hafi fyrir sex árum aðeins ruglast í ríminu og talið það eðlilegt að slá 240 slög á mínútu í hvíld. Þetta uppátæki hjartans tafði mig í nokkrar vikur en í dag er ég þó ég segi sjálfur frá, til þess að gera dagfarsprúður maður í ágætis málum á áliðnu æviskeiði. Svona er ævisaga mín í stuttu máli og hér aðeins sögð vegna  tímamóta í mínu lífi.


Viðbragsaðilar á ferð um Aðalgötuna sl. föstudag. Þeir hafa reynst mér vel         

Það var enginn Rúnar sem kom með Gluggann, a.m.k. sá ég hann ekki. Glugginn hékk bara á hurðarhúninum einmanna og umkomulaus. Það fylgdu honum engir harmonikkutónar, hann bara kom, andlaus og hefðbundinn. Já Glugginn er hefðbundinn nema að því leyti að hann er aðeins þykkari en sá sem kom fyrir viku.  Er þar einkum fyrir að þakka að nú er að renna upp tími aðalfunda hina ýmsu félaga. Einnig er vert að geta þess að Hrafnhildur Pálma í Bæjarblóminu minnir á konudaginn.

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir hinn dularfulla E.L sem við Rúnar höldum að sé Eysteinn Lárusson án þess þó að vita það. "Yfir landi liggur föl/lengi andar vetur" segir E.L. Grun hef ég um að þessi vísa hafi verið ort í janúar þegar snjór var yfir öllu. Yfir landi hvílir lægð/í lofti vorið leynist, hefði betur átt við þessa dagana því lægðagangur er mikill og hitinn í loftinu er óvenju hár miðað við árstíma.

Samhengið er að þessu sinni sjálfhverft og er eitthvað á þessa leið:

Misjöfn er gatan og glóran,

glímt hef við ólíkan mórann.

Af þessu má sjá

sem vel að því gá

að seig er í kallinum tóran.

 

 

08.02.2012 13:59

Nú dreg ég andann djúpt

"Horfum beint fram og berum höfuðið hátt" sagði hinn ágæti morgunleikfimikennari Halldóra Björnsdóttir og bætti við "drögum djúpt inn andann og andið rólega frá ykkur". Ég hlýddi Halldóru, aldrei þessu vant og bara við það að draga andann djúpt og anda rólega frá sér er góð æfing. Það er eins og það losni um eitthvað í sálinni og augun opnast betur. Bara við það að anda  djúpt varð til þess að ég skrifaði þessar línur. Bara við það að draga andann nokkrum sinnum djúpt og telja upp að tíu hefur bjargað mörgum manninum og leyst ýmis mál. Takk Halldóra fyrir að benda mér á þessa einföldu aðferð til að rækta líkama og sál. Nú dreg ég andann djúpt og leiði hugann að Vesturbakkanum.


Það er dálítið af skarfi við botn Húnafjarðar

Það eina sem maður verður virkilega var við á Vesturbakkanum þessa dagana er vindurinn sem æðir úr suðri. Reyndar sá ég Friðrik á Kiljunni hvíla lúin bein sem og hundinn sinn á steinbekknum á horninu á Aðalgötu og Brimslóðinni í hádeginu í gær. Þetta er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Friðrik var íklæddur stutterma bol og vindhraðinn var einhversstaðar á bilinu 15 metrar á sekúndu  en reyndar var hitinn um sjö gráður.  Ef ég hefði ekki verið búinn að horfa á þáttinn um mannslíkamann í sjónvarpinu þá hefði ég rekið upp mun stærri augu því þar sá ég einn mann synda í ísköldu vatni í 15 mínútur og annan synda í 9 mínútur án súrefnis undir yfirborði sjávar. Þegar betur er að gáð þá hefði ég ekkert þurft að horfa á sjónvarpið til að uppgötva hina fjölþættu hæfileika mannsins til að laga sig að hinum margbreytilegu aðstæðum í heiminum. Nægir að nefna hann  Wayne frá Tasmaníu sem svaf eina nótt á tjaldsvæðinu fyrir jól í 10 gráðu frosti. Ekki má heldur gleyma Nýsjálendingunum, sérstaklega frumbyggjunum sem voru hér í sláturtíðinni og örkuðu um götur bæjarins berleggjaðir í hnésíðum buxum, sama hvernig viðraði.

Ég heyrði í Stefáni Hermannssyni sem lengi bjó á hæðinni fyrir ofan mig á Aðalgötu 8 í morgun. Við áttum gott spjall og lét hann bara nokkuð vel af sér í höfuðborginni. Ég spurði hann um nafna minn hund og sagði Stefán að hann væri í góðum höndum í Keflavíkurhluta Reykjanesbæjar. Nonni hundur er núna í lögsagnarumdæmi Árna Sigfússonar og elst upp með tveimur öðrum hundum. Nonni er sem sagt hamingjusamur og Stefán sáttur, það er bara heilmikið. Ég segi það satt að mér fannst gott að fá þetta símtal og fá fréttir af þessum gömlu nágrönnum og lífsgöngu þeirra.

Rúnar kom ekki með Gluggann í dag því hann þurfti að skreppa á Krókinn og sækja bílinn sinn á verkstæði KS. Í hans stað kom Ólafur Þorsteinsson Gluggamaður sem um margt er ólíkur Rúnari. Óla fylgdi engin tónlist heldur niður af fræðsluþætti á Rás 1. Það er í sjálfu sér allt í lagi að breyta um á miðvikudögum og hvíla sig svolítið á Strákabandinu og öllum hinum harmonikkuleikurum. Það verður bara skemmtilegra að fá að heyra í þeim næsta miðvikudag.


Horft í suðvestur frá Blönduósi og blasir við Borgarvirki og Vatnsnesfjöll handan við helkaldar bárur Húnafjarðar

Glugginn er mættur í hús og svona heldur rýr í roðinu og er þá vægt til orða tekið. Domus gengið er á sínum stað og auglýsir tvær húseignir til sölu. Ég sakna svolítið gömlu auglýsinganna frá genginu t.d. þegar þau birtu mynd af Ólöfu Pálma í strápilsi á Selvíkurströnd. Það eru svona auglýsingar sem selja! Viðbragðsaðilar auglýsa líka í Glugganum. Viðbragsaðilar er samnefnari fyrir alla þá sem eru í viðbragðsstöðu þegar vá ber að höndum. Ódýri WC pappírinn frá Hvöt er líka áberandi á Gluggapappírnum líkt og vísa vikunnar sem að þessu sinni er eftir Rúnar Skagastrandarrýni Kristjánsson. Við Sólheima-Rúnar veltum því fyrir okkur í síðasta pistli hvort Skagastrandar- Rúnar myndi ekki yrkja í næsta Glugga um hitaveituna sem á að leggja til Skagastrandar. Og sjá sú spá rættist:

Þó að heitur hamist sjálfur

höfuð sveitar kórallinn.

Sér ei fleytir hærra en hálfur

hitaveitu mórallinn !

Það er bara eitt í þessari vísu sem ég er ekki "brandsjúr" á ; hver er  Höfuðsveitarkórallinn sem kemst ekki í hálfkvisti við hitaveitumóralinn. Eru einhverjir Kalkhúnar (sjá færslu 14/12 2011) á ferðinni.


Spákonufellið rís tignarlegt austan við Skagaströnd en þangað mun heitt vatn bráðlega renna í gegn um Blönduós

"Nú dreg ég andann djúpt" kemur fyrir í upphafi þessa pistils og þessa setningu greip Sólheima-Rúnar á lofti þegar ég greindi honum frá innihaldinu í símanum. Við vorum sammála að þetta gæti verið upphafið að sálmi og veðruðumst upp.

Nú dreg ég andann djúpt

Drottinn minn svo ljúft.

Svo líður andinn út

með ergelsi og sút.

Morgunljóst! Þessi sálmur nær vel utan um samhengi hlutanna að þessu sinni.

 

  

01.02.2012 16:01

Skugga, maður sérhver ber

Það er með hreinum ólíkindum að þessi dagasnauði nýbyrjaði mánuður eigi sér 5 miðvikudaga en þetta er staðreynd sem ekki verður umflúinn og engin ástæða til að hafa um það fleiri orð.

Í gær ók ég sem leið lá til Reykjavíkur og heim aftur. Ástæða suðurfarar var sú að kominn var tími til að hlusta á hjarta mitt. Ég lét sem sagt hjarta ráða för. Í stuttu máli þá sagði hjartað frá hverri einustu mínútu í lífi mínu síðustu þrjá mánuði , þ.e.a.s. yfir svartasta skammdegið og hafði yfir engu að kvarta, það er kraftaverk.

 

Svona lítur Mosfell út fyrsta dag febrúarmánaðar árið 2012. Þetta hús var byggt árið 1912 og er því 100 ára. Það hýsir núna kaffihúsið "Ljón norðursins"


        Síðast liðnir sjö dagar hafa verið verið viðburðaríkir en svo til allir þeir viðburðir hafa verið annarsstaðar en á Vesturbakkanum. Ég hef ekki heyrt í Jónasi á Ljóninu og Svenna kirkjueiganda Sveins með smáhundana sína þrjá hef ég bara séð tilsýndar. Í þessum skrifuðu orðum birtist Sveinn í dyragættinni og inn stormuðu Sveinn og hundarnir þrír. Þetta varð bara svona komdu sæll og vertu blessaður því síminn hringdi og veraldarvafstrið kallaði.  Ívar Snorra hef ég ekki séð nema mánudaginn eftir leiksigurinn á þorrablótinu. Reyndar sá ég hann á mánudaginn, eitthvað vera að stússast í kringum Kiljusnekkjuna en það er svo sem ekkert í frásögur færandi þar sem Ívar er sjómaður dáðadrengur og honum eðlislægt að laðast að sjófærum skipum.

Rúnar er kominn með Gluggann á þessum milda og rólega miðvikudegi. Sólin lýsti upp húsin í Aðalgötunni en það kom engin tónlist úr Súkkunni.  Rúnar snarast út úr bifreiðinni og  ég sé það strax að ekki er allt með felldu og það kom í ljós að það var rétt mat. Við Rúnar ræddum vandann sem  hann var í og komumst fljótt að því að hann væri vel yfirstíganlegur og það get ég sagt með sanni sem sólin á himninum skín að hann fór frá mér miklu sáttari við tilveruna. Lífið er ekki alltaf hnökralaust en áfram höldum við þó. Bara svo það valdi ekki misskilningi þá bakkaði minn ágæti félagi á bifreið sem einhver Egill var á. Og það merkilega við þetta þegar Rúnar pantaði tíma fyrir bílinn sinn í tjónaskoðun þá var maður að nafni Egill  sem ætlar að þjóna Rúnari. Þetta er svona lítil Egilssaga.



Svona leit hús Gríms Sæmundsen og  himininn yfir því út fyrir nákvæmlega einu ári

    

        Glugginn er kominn og er þar greint frá Hreppaþorrablótinu,  fósturtalningum í ám og að sjálfsögðu er líka minnt á ódýra WC pappírinn frá Hvöt. Reyndar er einnig sagt frá karli sem fluttist ungur maður á Blönduós. Þessi karl er ég sjálfur og með tilvist minni í Glugganum er ég að greina vinum og vandamönnum frá því að senn eru liðin 60 ár frá því ég kom í þessa fjölbreyttu veröld. Konan vildi segja frá þessu í Glugganum svo hann (þ.e. Glugginn) væri ekki eins rýr í roðinu. Án mín hefði Glugginn orðið óttalegt þunnildi.

Vísa vikunnar í Glugganum er að þessu sinni aldrei þessu vant eftir  stórskáldið á Skagaströnd, Rúnar Kristjánsson og er svona:

Blönduósinga best ég þekki

bjartsýna á lífsins ferð.

Þó þeir reyndar þoli ekki

þjóðhagslega vegagerð.

Nú bíð ég spenntur eftir því að hann yrki um hitaveituna sem á að koma til Skagastrandar  með viðkomu á Blönduósi.  Einhverjir útreikningar sýna að þessi hitaveita sé ekki þjóðhagsleg en komi íbúum  bara nokkuð vel.

En Rúnar er farinn frá mér, reyndar með góðfúslegu leyfi um að þurfa ekkert að hugsa um samhengi hlutanna á þessum dulmagnaða miðvikudegi. Nú sit ég einn frammi fyrir skjánum og þarf að koma auga samhengið á þessum  samhengislausa miðvikudegi:

Skugga maður sérhver ber,

samvisku og flæðisker.

í Glugganum mín getið er

gráleitum sem hver einn sér.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56687
Samtals gestir: 10458
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:40:21