Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Mars

28.03.2012 14:32

Ljón á miðvikudegi

Þeir koma miðvikudagarnir reglulega með jöfnu millibili allt árið um kring og hafa skapað sér sess í mínum huga sem fastur punktur tilverunnar. Miðvikudagar eru á margan hátt svolítið merkilegir. Til dæmis eru  þeir staðsettir nákvæmlega í miðri vinnuvikunni þannig að það er sama hvernig á þá er litið þá hefur maður lokið við tvo vinnudaga og tveir eru eftir.  Ég tel ekki miðvikudaginn með því hann er jafnvægispunkturinn sem allt miðast við. Miðvikudagur er svona dagur sem maður getur bæði litið um öxl og fram á við án þess að raska jafnvæginu. Miðvikudagar eru þessvegna gráupplagðir til að koma jafnvægi á líf sitt. Það er misjafnt hvernig menn horfa á hlutina og hvernig þeir vega þá og meta. Sumir eru glaðir yfir því að hafa komist í gegn um tvo fyrstu daga vinnuvikunnar og sjá glitta í helgina þar sem allt á að gerast t.d. eins og að slappa af, taka til í garðinum, þrífa húsið, taka á móti gestum, fara á "djammið" og vera í rosalegu stuði. Danir eru sérfræðingar í því að höndla dagana og vinna sig út úr vinnuvikunni. Sem dæmi má nefna að þeir kalla fimmtudaginn  " litla föstudag" af þeirri einföldu ástæðu að daginn eftir rennur upp föstudagur sem er síðasti dagur vinnuvikunnar og laugardagurinn með öllum sínum tækifærum, er næstur á eftir. Lífið er einfalt kjósi menn svo og nægir að vitna í hamingjudag Svantes ; "lífið er ekki það versta sem maður hefur".  


Gripahús Gríms Sæmundssen á förukambinum fyrir neðan gömlu kirkjuna lostin regnbogans töfrandi tónum

Það er svolítið merkilegt við þessa vinnuviku sem nú er hálfnuð að þeir bera ekki nein kirkjuleg nöfn eða höfða til einhverra merkilegra atburða í mannkynssögunni að minnsta kosti ef maður lítur yfir  almanak Háskóla Íslands.  Reyndar var mánudagurinn síðasti, þjóhátíðardagur Bangladesh og Lady Gaga og Maxim Gorkí eru fædd þennan 28. dag marsmánaðar. Þennan sama dag dóu m.a tónskáldið Sergej Rakhmanínov, Dwight D. Eisenhower 34. forseti Bandaríkjanna og síðast en ekki síst þá féll frá þennan dag árið 1978 okkar ástsæli söngvari Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Rúnar er mættur með Gluggann og dagurinn sem honum fylgir lifnar heilmikið þegar hann hleypti syrpu laga með Strákabandinu út í Aðalgötuna. "Det var brennevin í flasken då vi kom" og "Það var einu sinni kerling" í rífandi polkatakti láta engan sæmilega gerðan mann ósnortinn. Takturinn meitlaðist inn í sálina og var ekki laust við það að gráminn sem fylgdi þessum miðvikudegi með sína stífu suðvestan átt, lýstist nokkuð. Det var brennivin í flasken er einkar viðeigandi lag í Aðalgötu 8, einkum og sér í lagi þegar flaskan er tóm.


Hreiðrar sig blikinn og æðurin fer. Þessar ljóðlínur úr Vorvísu Jóns Thoroddssen þvældust lengi fyrir mér. Ég vissi aldrei hvert æðurinn var að fara.

Já Glugginn er kominn og Jónas Skaftason er kominn heim um það villast þeir ekki sem lesa Glugga vikunnar. "Vorboðin ljúfi" eins og hann kýs að kalla sig býður upp á ýmsar nýjungar í rekstri á Ljóni norðursins. Nægir þar að nefna að nú verður boðið upp á mat og einnig geta þeir sem vilja tekið með sér mat (take it away). Jónas ætlar með öðrum orðum að búa um rúm, sækja sjóinn með gesti, afla fanga úr sjónum til matargerðar og þeytast um í rútunni góðu og sýna gestum, fegurð Húnaþings. Ekki er allt upptalið því tjaldsvæðið Ból mun opna 1. maí og síðast en ekki síst þá verður Jónas á Ljóninu með upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Nú held ég að álagið á Glaðheima - Lárus B. Jónsson ferðamálafrömuð og umsjónamann sumarhúsanna í Brautarhvammi minnki til mikilla muna. Einnig hef ég grun um að ég sjálfur þurfi að segja mun færri ferðamönnum til vegar og fyrir bragðið mun ég líklega tapa niður enskunni. Setning eins og þessi sem ég hef marg oft sagt ferðamönnum á leið um gamla bæinn sem spurt hafa um kaffihúsið Ljón norðursins "You can pass his café on the west bank of Blanda river and if you see an elderly grey man witch could be the grandfather of the Beatles, the café is open. If not, it is closed" (Þið getið farið framhjá kaffihúsinu hans á vesturbakka Blöndu. Ef þið sjáið gráleitan mann á miðjum efri aldri sem hæglega gæti verið afi Bítlanna þá er kaffihúsið opið. Ef hann sést ekki þá er lokað). Það er kraftur í Jónasi og vona ég heitt og innilega að öll leyfi séu í lagi svo ekki skerist í odda milli Jónasar og yfirvalda.

Vísa vikunnar er eftir ókunnan höfund og er efni hennar þarft innleg í umræðu dagsins því stundum leynist flagð undir fögru skinni.

En nú er komið að því sem öllu máli skiptir en það er að koma auga á samhengi hlutanna. Við Rúnar höfum aldrei heykst á því og komið því óbrjáluðu út til alþýðunnar.

 

Aftur hann snýr eftir töluvert hlé,

í atvinnurekstraskyni.

Ég játa það strax að járnkarl sé

í Jónasi Skaftasyni.

 

Rúnar vildi leggja enn frekari áherslu á upprisu Jónasar og kvað af munni fram þessa vísu:

 

Ljónið hefur lifnað við

og lætur í sér heyra.

Nú er úti um allan frið

Ei við segjum fleira

 

 

 

21.03.2012 15:11

Að tækla, bæklaða brú og sitthvað fleira

Í dag er Benediksmessa og páskatungl kviknar á morgun í suð suð vestri og ku það vera nokkuð gott í veðurfarslegu tilliti næstu dægrin. En Benedikt þessi sem þessi dagur er kenndur við er kallaður faðir klaustranna á Vesturlöndum. Ekki af því að hann hafi verið fyrsti munkurinn þar, heldur af því að hann skipulagði klausturlífið með reglum er hann samdi.Með öðrum orðum hann er líklega fyrsti reglumaðurinn í hinum vestræna heimi.


Blönduós, bærinn á bökkum Blöndu. Í vestrinu dvelja éljaskýin

Það fer líkast til ekki fram hjá neinum að sól hækkar á lofti. Dagurinn í dag er sá fyrsti á árinu sem er lengri en nóttin. Það gerist margt með hækkandi sól sem óþarfi er að kynna fyrir fólki sem komið er til vits og ára. En það svolítið merkilegt að gleði tilfinning  brýst fram hvert einasta vor. Er maður ekki orðinn vanur þessu, lærir maður aldrei neitt. Eftir vetur kemur vor, þannig er það og hefur alltaf verið en samt getum við ekki gleymt því að fagna þessum sjálfsagða hlut. Í framhaldi af þessum orðum má velta vöngum fram og til baka en niðurstaðan verður alltaf sú að það er dýrmætt að geta borið fögnuð í brjósti sér og taka með gleði því sem aftur kemur til baka. Að geta fagnað, glaðst er eitthvað sem er hverjum manni mikilvægt og er hornsteinninn í því að þrauka og vera til.


Á bak við lúna girðingu á bakka Blöndu leynist gamalt fallegt hús

Að taka með gleði því sem kemur til baka leiðir hugann að því að bráðum kemur Jónas Skafta aftur til baka á heimaslóðir eftir vetursetu í höfuðborginni. Með honum í för verður hópferðabifreiðin  "Ég er þessi Jónas" og skemmtisnekkjan Skafti Fanndal. Jónas ætlar að opna kaffihúsið sitt Ljón norðursins þann 1. apríl líkt og hann gerði í fyrra en sú breyting verður á rekstrinum að nú mun Jónas hafa mat á borðum.  En Jónas verður ekki sá eini sem snýr til baka frá vetrarstöðvunum því von er á aragrúa grágæsa á næstu dögum og svo öllum hinum farfuglunum koll af kolli.

En til að komast heim þarf Jónas ekki að aka yfir Blöndubrúna. Þessi 50 ára gamla brú sem jafnframt er fyrsta strengjasteypubrú landsins er orðin býsna lúin og segja gárungar sem þurfa að ganga yfir brúna að öruggast sé að vera í flotgalla. Ég þarf  að lágmarki  að fara 4. yfir brúna ýmist akandi eða gangandi. Alltaf anda ég léttar þegar ég er kominn yfir og þakka skaparanum  oftast fyrir það. Þó hér sé gáleysilega talað þá er í þessu alvara og um leið hvatning til þeirra sem málið varða að grípa nú til einhverra aðgerða.

Rúnar á afmæli í dag og hefur hann náð Davíð Oddssyni í aldri 64. árið í röð.  Rúnar var glaður og sólin tók að hella geislum sínum yfir okkur í bland við eldfjörugan polka frá Strákabandinu sem barst frá Súkkunni hans. En Rúnar var ekkert að láta afmælið trufla sig og gekk inn um dyrnar með frekar þunnan Gluggann.

Glugginn er sem sagt  kominn með sínar upplýsingar. Ég rek strax augun í það að Jóhannes og Sigrún hafa sett húsið á Blöndubyggðinni á sölulista hjá Domusgenginu. Þar sem ég veit að þau eiga annað hús í næsta nágreni þá eru þau ekkert á förum. En þetta hús sem þau hjón eru að selja er smekklega endurgert gamalt hús og lóðin sem fylgir  því er mjög snyrtileg. Ekki veit ég hvernig húsið er að innan en oft lýsa ytri aðstæður innra rými.


Barmur Fjallkonunnar er tilkomumikill. Hér má sjá Nautaþúfu  og gilið heitir Hjálpargil (myndin er tekin úr Sauðadal).  Nautaþúfa er talsvert utar en Jörundarfell svona u.þ.b milli Bjarnastaða og Hnausa úr Vatnsdalnum séð.
(Takk fyrir ábendinguna Sigga á Hjallalandi) 

USAH er 100 ára um þessar mundir og ætlar að halda upp á tímamótin og karlakór hreppsins sem ekki er til (Bólstaðarhlíðarhreppur) ætlar að vera með tónleika sem þeir kalla " Ég skal vaka í nótt" víðsvegar á Norðurlandi í vor. Þeir félagar gerðu víst góða ferð suður yfir heiðar síðla vetrar og komu margir til að hlýða á kórinn .

Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd á öllum á óvart vísu vikunnar og yrkir bara laglega enda er Þórólfur kaupfélagsstjóri á Króknum víðsfjarri.

En nú er dagurinn lengri en nóttin og Rúnar á afmæli í dag og er hann um 14 árum eldri en brúin yfir Blöndu. Rúnar lítur mun betur út heldur en brúin og er ekki næstum því eins saman gengin og hún.

When I'm Sixty-Four er lag sem allir kannast við og ættu að raula með sjálfum sér, Rúnari og Bítlunum til heiðurs en samhengið gæti verið eitthvað á þessa leið og er af því tilefni boðið upp á nýsköpunarvísu.

Brúin er bækluð,

brátt kemur vor,

Rúnar á afmæli í dag.

Á þennan hátt verður stakan því tækluð

því "He is now just Sixty-Four".


Látum fylgja hér með enska þýðingu

The bridge is broken,
               soon come spring.
              Runar's birthday today.
              In this way, the poem will be performed,
              because he is 64 years.

15.03.2012 18:29

Miðdepill heimsins ert þú

Stundum ganga hlutirnir þannig fyrir sig að maður getur ekki gert það sem maður er vanur að gera á tilteknum tíma. Og svo undarlega er maður samansettur  að  halda að maður sé að svíkja heiminn bara við það eitt að skila ekki stílæfingu sem í rauninni er bara mín aðferð til að láta hugann reika út fyrir hið hversdagslega .  Hvað sem öðru líður þá ætla ég að þessu sinni að færa minn hefðbundna miðvikudag yfir á fimmtudag og sjá hvort veröldin haldi ekki bara áfram að snúast.
 

Gæfumenn á Laxárbökkum; Sigurður Smári, Pétur Arnar og Kári Kára

        Í gærkvöldi varð ég þeirrar hamingju aðnjótandi að hitta menn sem tókust á við dauðann og höfðu sigur. Þarna á ég að sjálfsögðu við gæfumennina Kára Kára, son hans Pétur Arnar og Sigurð Smára sem lenti í bíl sínum á hvolfi ofan í Laxá á Ásum á þriðjudaginn. Frásögn þeirra félaga er hægt að lesa á mbl.is eða í Morgunblaðinu í dag og því ekki farið nánar í lýsingu á atburðum. Það sem ég vildi sagt hafa var bara sú upplifun að vera með fólki sem hafði barist fyrir sínu lífi og annara. Skynja þessa hárfínu línu milli lífs og dauða, gleði og sorgar. Það jafnast ekkert á við það sem er ótækt í excel (Fyrir þá sem ekki vita hvað excel er þá er það reikniforrit sem byggt er á svo fyrirsjánlegum stærðum að hið mannlega hverfur í skuggann)
    

Hrafnarnir eru farnir að huga að hreiðurgerð. Þetta eru hyggnir  fuglar og yfirleitt búnir að koma upp ungum þegar aðrir fuglar hefja varp

        Ég er til þess að gera jarðbundinn maður og hefði seint talið mig hjátrúarfullann. Nú er ég farinn að efast stórlega og er þar um að kenna afmælisgjöf Árbakkabræðra (félagar sem setja saman getraunaseðil á föstudögum). Þessir bræður mínir gáfu mér forláta rauða treyju sem leikmenn  knattspyrnuliðsins Liverpool klæðast í kappleikjum á heimavelli sínum Anfield. Ég ákvað daginn eftir afmælið að klæðast þessari treyju meðan ég horfði á liðið leika við andstæðinga sína. Það var ekki sökum að spyrja, mínir lögðu andstæðingana að velli. Ég klæddist treyjunni aftur í næsta leik liðsins og fór á sama veg, mínir menn höfðu sigur. Nú kom að þriðja leik liðsins eftir að ég eignaðast treyjuna góðu. Nú brá svo við að ég kom því ekki við að sjá leikinn né klæðast treyjunni og hið óvænta gerðist, Liverpool tapaði leiknum. Í fjórða leik eftir treyju fór eins hjá mér að ég sá hvorki leik né klæddist treyju og Liverpool tapaði aftur. Ég er þannig settur að ég er ekki áskrifandi að stöðinni sem sýnir leikina í ensku úrvalsdeidinni þannig að ég er upp á aðra kominn til að sjá deildarleikina. Á þriðjudaginn þurfti ég á stuttan fund um kvöldið en kom heim þegar liðið var töluvert á fyrri hálfleik í leik grannaliðana í Liverpoolborg, Liverpool og Everton. Þar sem ég hafði ekki eins og áður greinir ekki möguleika á að horfa á leikinn í sjónvarpinu heima, brá ég á það ráð að klæðast treyjunni og stilla textavarpið á 390. Og viti menn, mínir menn sigruðu sannfærandi. Eftir þessa reynslu er ég farinn að halda að ég sé með örlög Liverpool í mínum höndum og dugar þá bara að klæðast hinni frábæru afmælisgjöf Árbakkabræðra og fylgjast með textavarpinu þegar mínir menn etja kappi við andstæðinga sína. Þetta er ekki einleikið, ég segi það satt.

Ég var ekki til staðar í gær þegar Rúnar kom með Gluggann þannig að ég veit ekkert hvernig  hann var í fasi eða hvaða tónlist var undir geislanum í Súkkunni hans. Ef það var Rúnar sem kom með Gluggann þá hefur hann örugglega látið "strekkbugsepolka" hljóma út yfir Aðalgötuna. Ef Óli Þorsteins hefur verið á ferðinni í bílnum hans Hédda þá hefur örugglega verið stillt á Rás 1 og gáfulegar umræður um allt milli himins og jarðar hafa borist  eyrum  íbúa  gamla bæjarhlutans .  En þar sem ég var ekki til frásagnar þá verður þetta ekki upplýst í þessu pistli


Tryggvi Björnsson er þekktur tamingamaður. Hér er hann með efnilegt unghross í tamningu


Glugginn kom þó svo ég væri ekki til staðar sem þýðir bara það að það er hægt að gera ýmislegt þó ég sé víðs fjarri. Ýmissa grasa kennir í Glugganum  og það kemur til þess að gera fáum á óvart að vísa vikunnar er eftir vísnasmiðinn, hagyrðinginn,  Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er aldrei þessu vant um að Þórólfur krafta- kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki getur legið milli hluta. Þetta er góðs viti og getum við samsýslungar hans vænst í framtíðinni að nú verði farið að yrkja um menn og málefni á A-Húnvetnskri grund.

En samhengið á þessum blessaða miðvikudegi sem dregist hefur fram á fimmtudag gæti verið eitthvað á þessa leið svona í ljósi þess að hver er sinnar gæfu smiður og engin veit sína ævina:

                Í lífinu takast  á skúrir og skin,

                skammgóður vermir og trú.

                Í mörkinni miklu er einstaka vin,

                en miðdepill heimsins ert þú.

 

07.03.2012 14:03

að hafa þýðingu, hvaða þýðingu hefur það

Það er frost í dag og hálfskýjað þennan fyrsta miðvikudag marsmánaðar og jörð hefur gránað aftur eftir drjúglangan hlákukafla. Ég sá ekki gæsirnar þrjár í morgun sem dvalið hafa á Blönduósi í allan vetur. Það er í sjálfu sér ekkert áhyggjuefni því þær geta brugðið sér á milli bæjarhluta með stuttum fyrirvara, þökk sé vængjunum. Maður skynjar að vorið er á næsta leiti því straumöndin er mætt í flæðarmálið og ein og ein önd hefur sést fljúga upp Blöndu.


Gamli bærinn með éljabakka í baksýn

Hundurinn Fúsi, sem stundum kom til langdvalar í Aðalgötuna á Blönduósi, er eða var að öllum líkindum elsti hundur landsins. Walter heitinn Jónsson, eigandi hans, sagði við mig í spjalli í ágúst 2009 að Fúsi væri á 24. aldursári. Hann væri orðinn nokkuð lúinn en þó enn við merkilega góða heilsu. Walter sagðist hafa eignast Fúsa þegar hann var orðinn nokkurra ára. Hann hafi fengið hann hjá vini sínum sem ekki mátti hafa hann í fjölbýlishúsi. Fúsi er blanda af labrador og collie-hundi sem menn kalla stundum Lassie-hund í höfuðið á frægasta sjónvarpshundi sögunnar. "Fúsi var orðinn ansi gigtveikur og slappur en ég fór með hann til dýralæknis sem gaf honum lyf sem hafa hresst hann mikið," sagði Walter á sínum tíma. Fúsi var hændur að börnum og tók þátt í leikjum við þau, einnig var hann duglegur við að sækja hluti. Stundum mátti sjá Fúsa á ferð um gamla bæinn á Blönduósi og velkist enginn í vafa um að þar fór gamall hundur því hárin voru farin að grána og augnsvipur hans bar merki mikillar reynslu.Til gamans má geta þess að menn hafa notað það sem þumalfingursreglu að eitt hundsár jafngildi sjö mannsárum og samkvæmt því lætur nærri að Fúsi hafi verið á 170. aldursári þegar viðtalið átti sér stað. Hvar er Fúsi núna? Er hann lífs eða liðinn, gaman væri að fá svör við því.

Annar hundur sem mikið hefur komið við sögu í gamla bænum á Blönduósi var Jón Sigurðsson, oftast kallaður Nonni hundur. Þessi hundur setti mjög svip sinn á gamla bæinn bæði einn og sér og í félagi með Stefáni Hermannssyni. Þeir Stefán og Nonni hundur fluttu suður í haust og fékk Nonni fljótlega heimili í Reykjanesbæ og undi hag sínum nokkuð vel í félagi með öðrum hundum. Núna er Nonni hundur kominn í Ölfusið og hefur  fengið heimili á ferðaþjónustubýlinu  Hjarðarbóli. Nonni og Fúsi voru um margt ólíkir og helgast það mjög líklega af uppeldi og aldursmun. Fúsi fór um bæinn af alvöruþunga ótruflaður af töfrum tíka (tíkna) en yfir nafna mínum var meiri galgopaháttur og var þróttur hans aldrei meiri en þegar hann uppgötvaði tík í fjölgunar hugleiðingum. Nonni var all oft handtekinn af bæjaryfirvöldum en ekki veit ég til þess að Fúsi hafi komist í kast við lögin.

Hun sidder pissed på sofaen røde
siger ikke et eneste varme ord
Læs om sorg sut og døde
sex, begær, kærlighed og mord
.

(situr hún fúl í sófanum rauða,

segir ei einasta hlýlegt orð.

Les um sorgir, sút og dauða,

samfarir, losta, ást og morð)

Svona hljómar ein vísa á dönsku sem ég orti á sínum tíma til konu minnar þegar ég kom þreyttur heim eftir erfiðan dag í vinnunni. Konan hafði hreiðrað um sig uppi í rauða sófanum sem við áttum þá og las um Ísfólkið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þessar bókmenntir fjölluðu annað en það sem ég hafði heyrt utan af (að) mér (Fagfólk hefur sagt mér að ég hafi hitt naglann á höfuðið um efni þessara bókmennta).  Þessi vísa er svo sem ekki aðalatriðið hér heldur þýðingarforritið Google

 

Hamraborgin rís há og fögur  (Hamraborgin mín há og fögur)

Hún minnir á ástir og álfasögur

Á ensku lítur þetta svona út:

Rocky cliffs so high and glory
reminds me of love and fairy story

Á spænsku svona

Acantilados rocosos tan alto y la gloria
me recuerdan el amor y el cuento de hadas

Og svo loks á ítölsku

Scogliere rocciose così in alto e la gloria
mi ricorda l'amore e la fiaba

Ég hjálpaði Google mikið með ensku þýðinguna en ég hef ekki hugmynd hvernig ítalska og spænska þýðingin hljómar í eyrum þeirra er málið skilja en mér finnst þetta hljóma svo fallega.


Éljabakki á norðurleið við það að éta upp Strandirnar

Rúnar er mættur með Gluggann og sól skín í heiði. Rúnar er kátur og vel upplagður og aldrei þessu vant hafði hann "Augnabliksmynd" undirritaðs undir geislanum. Ég er nú svolítið farin að sakna Arnt Haugen og Familien Brix en hann gæti svo sem verið með verra undir geislanum í Súkkunni sinni.

 

Glugginn er sem sagt kominn og kennir þar ýmissa grasa. Ekkert er nú þannig að um það þurfi sérstaklega að fjalla en mikið ber á aðalfundarboðum og sauðfjárbændur stefna að því að leggja land undir fót í lok mánaðar og kynnast lofti Þingeyinga.

 

Vísa vikunnar er eftir spurningamerkið og fjallar um skort á yrkisefni.

 

En okkur Rúnar skortir aldrei yrkisefni og erum glöggir á samhengi hlutanna eins og sjá má í eftirfarandi vísu

 

Ef þú yrkir um íslenska hunda

má eflaust láta allt flakka.

Pennann minn hugrakkur munda

og minnist horfinna rakka.

 

If you writes poetry about Icelandic dog
may undoubtedly tell everything
And now  I courageous draw with my pen,
memories of missing dogs.


svona af tilefninu

  

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 64
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56574
Samtals gestir: 10449
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 13:32:40