Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Apríl

25.04.2012 15:04

Óður til grágæsar


Eftirlætisgæs Blönduósinga er mætt enn og aftur frá Skotlandi. Jón Jóhannsson náði þessari mynd á laugardaginn. Ég hef leitað mikið en ekki enn fundið þessa eðalgæs

Vorið er komið, það er næsta víst því eftirlætis gæs Blönduósinga SLN er komin heim frá vetradvöl í Skotlandi. Nafni minn Jóhannsson (Jón Beini) kom auga á hana og náði af henni mynd. Ég var satt best að segja farin að verða vonlítill um að hún skilaði sér í vor því töluvert er liðið síðan fyrstu gæsir komu. Þetta er í það minnsta, 13. skiftið sem hún skilar sér heim en hún var merkt í júlí árið 2000 við lögreglustöðina á Blönduósi, þá fullorðinn fugl. Hugsið ykkur gæsin hefur flogið 26 sinnum yfir hafið og heim og mátt sæta skotárásum bæði á Íslands- og Skotlandsstöndum. Þessi gæs hefur sýnt einstakan hæfileka til að komast af og ef við gerum ráð fyrir því að hún hafi komið upp 5 ungum að meðaltali öll þessi ár þá hafa fylgt henni öll þessi sumur 65 ungar. Þessi eðalgæs hefur haft það fyrir vana að helga sér svæði í nágreni Héraðshælisins og hafa því eldri borgarar bæjarins haft að henni þokkalegt aðgengi og ég veit að þeir eru flestir elskir að henni. Mér hefur ekki enn tekist að sjá SLN í ár en ég fékk upphringingu í morgun þar sem sást til hennar á Héraðashælislóðinni beint fyrir neðan skrifstofuna hjá Valbirni forstjóra, en þegar ég kom á staðinn nokkrum mínútum síðar þá var hún horfin.


Það hefur fjölgað í Aðalgötunni. Hér má sjá Ylfu og Úlf með afkvæmi sín. Þessir hundar eru í eigu Sveins M Sveinssonar Plúsfilmforingja sem dvelur langdvölum í Aðalgötunni

Rúnar er kominn með Gluggann og undir geislanum í Súkkunni var Strákabandið enn og aftur og léku þeir félagar leiftrandi polka sem Kristófer og Anna Guðrún væru fullsæmd af að dansa. Veðrið sem fylgdi Rúnari var svona dæmigert veður fyrir apríldag árið 2012. Skýjað en sést annars slagið til sólar, hitinn í kringum 4-5 gráðurnar og smá snjókorn falla strjált og máttlítil til jarðar, varla að hægt sé að tala um þau. Rúnar er til þess að gera afslappaður og getur hann þakkað það að hafa ekki séð mig í hálfan mánuð. Reyndar er Rúnar enn í sumarfríi og getur það líka skýrt þessa miklu afslöppun en þessari sæluvist fer senn að ljúka sagði Rúnar mér því hann á að vera mættur til vinnu í fyrramálið.

 En hvað boðar blessaður Glugginn í dag?  Á þriðjudaginn verður 1. maí um allt land eins og svo glöggur Hafnarfjarðarkrati sagði einhvern tíman og þóttist hafa komist vel að orði og hitt naglann á höfuðið. Af tilefni þessara tímamóta ætlar stéttarfélagið Samstaða að efna til samkomu í Félagsheimilinu. Fermingar verða á Skagaströnd og í Bólstaðarhlíðrhreppi hinum forna og svo eru Skagfirðingar að minna á Sæluvikuna sína. Domusgengið er á sínum stað og býður eignir til sölu og hestamannafélagið Neisti verður með æskulýðssýningu.


Mikið líf og fjör einkennir hávellurnar sérstaklega síðla vetrar og fram á vor. Hávellur skipta þúsundum við botn Húnafjarðar um þessar mundir

Vísa vikunnar í Glugganum er eftir stórskáldið á Skagaströnd Rúnar Kristjánsson og fjallar um þá merku uppgötvun að konur hafa líka heila. Gaman að vita af því á þessum síðustu og verstu tímum.

En við Sólheima-Rúnar þurfum að koma samhenginu út til alþýðunnar og það felst í þessari litlu þakkarbæn fyrir að halda hlífiskyldi yfir bæjargæsinni okkar henni SLN.

Þinn blessaði bænarkraftur,

birtist oss aftur og  enn.

Glöð að gengin er aftur,

grágæsinn SLN

18.04.2012 15:19

Vandlega fyrir veturinn, auðmjúkur þakka

Nú er síðasti dagur vetrar runninn upp og framundan eru sumardagar sem enginn veit hvernig verða.  Þó höfum við yfir að ráða öflugum framtíðargreini sem felst í því hvernig vetur og sumar heilsast í veðurfarslegu tilliti og ræður þar hitastigð öllu. Ef frýs saman vetur og sumar þá á sumarið að vera gott og því þykkara sem skænið er á pollum, því betra. Hér við botn Húnafjarðar kveður vetur með sóma. Sólin heiðrar okkur með nærveru sinni og Húnafjörðurinn er sem spegill yfir að líta og æðarfuglinn í hundraða tali vaggar á dúnmjúkri undiröldunni við fjöruborðið. Það er friður yfir vetrarlokum líkt og vetur kveðji tilvist sína sáttur við Guð og menn.


Flóðið í Vatnsdal í vetrarlok

Fuglarnr hafa verið að streyma í heimahagana og eins og svo oft áður er það grágæsin sem er mest fyrirferðar. Ég er ekki frá því að gæsirnar séu fleiri í ár en í fyrra þannig að í sumar verða göngustígarnir með þykkari skítaskán og því meiri líkur á hálkublettum. Vinkona mín grágæsin SLN hefur enn ekki látið sjá sig og er farin að laumast smá kvíði inn í sálartetrið. Þessi ágæta gæs hefur látið sjá sig hvert einasta vor frá því sumarið 2000 þegar hún var merkt við lögreglustöðuna á Blönduósi það sama ár. Oftast hefur hún birst okkur við Héraðshælið og mjög oft í kringum vetrarlok. Ég bíð enn og vona og ég veit að eldri borgar sýslunnar sem búa í Flúðabakkanum bíða líka spenntir.


Helsingjarnir eru mættir í þúsundatali í Húnaþing. Gæsunum þykir grasið á Torfalæk gott. Spákonufell í baksýn

Þessi dagur er ákaflega þýðingarmikill í sögu íslenskra kvenna því þennan dag fyrir einhverjum hundruðum ára fékk kona ein austur undir Eyjafjöllum þá nýgift, lausn á nafnagátu sem hvíldi þungt á henni. Lausnina á hún eignmanni sínum að þakka og þessi lífsreynsla gerði þessa konu að iðju- og stjórnsamri konu. "Ekki vænti ég, að þú heitir Gilitrutt?" sagði þessi lánsama kona undir Eyjafjöllum á sumardaginn fyrsta og var laus allra mála.

Þetta hefur gerst áður og á sjálfsagt eftir að gerast aftur, Glugginn skilinn eftir umkomulaus á hurðarhúninum. Að vísu skein á hann sólin en hann var eins og hvítvoðungur sem skilinn hefur verið eftir á tröppunum sem ljósmóðirin á heima. Að sjálfsögðu bárum við hann inn og komum honum fyrir á þeim stað sem hann á að vera en umkomuleysið var algjört. Rúnar hefur nær alltaf fylgt Glugganum og haft í för með sér tónlist af ýmsum toga, oftast hamonikkutónlist sem familien Brix eða Arnt Haugen hafa borið ábyrgð á. Núna er sem sagt breyting á, það er asi á Rúnari sem er í hrópandi mótsögn við veðrið sem umvefur okkur ró og birtu.

En Glugginn er kominn með sínar upplýsingar um komandi daga. Það er keimur af sumri í Glugganum því forsíðuna prýðir aulýsing um sumarskemmtun krakkanna í Blönduskóla og á baksíðunni má sjá hvaða börn fermast á laugardaginn. Að öðru leiti er Glugginn uppfullur af aðalfundum en þó er rétt að minnast lítillega á hina árlegu vorferð kúabænda í A-Húnavatnssýslu en að þessu sinni ætla þeir að fara fyrir Tröllaskaga til Akureyrar. Og ef ég þekki mína menn rétt verður boðið upp á Hleðslu fyrir konur og karla meðan á ferð stendur.


Upp og niður svona eins og lífið. Grágæsir á flugi yfir Blöndu

Vísa vikunnar er komin til ára sinna og er að þessu sinni eftir Svein frá Elivogum og er svona: Hafðu ungur hóf við Svein/ Hreyfðu ei þungum nótum./ Eiturþrunginn á ég flein/ undir tungurótum. Ég er svolítið að velta því fyrir mér hversvegna þeir Gluggamenn kjósa að hafa þessa vísu frekar en eitthvert ljóð um sumarið og sólina. Hef ekki komist að niðurstöðu en velti enn vöngum.

En nú stend ég einn frammi fyrir samhenginu því eins og framan er ritað þá er Rúnar ekki til staðar þennan síðasta vetradag. Ef til vill er best að hafa samhengið eitthvað á þessum nótum:

 

Vandlega fyrir veturinn, auðmjúkur þakka,

í virðingu höfuð mitt bljúgur ég ljúflega hneigi

Á morgun svo opna ég sumarsins óræða pakka,

umvafin lífinu á sumarsins fyrsta degi.


Gleðilegt sumar!

 

 

11.04.2012 14:18

Treyja sem talandi er um

Ég er ósköp venjulegur íslenskur karlmaður á góðum miðjum aldri. Sanntrúaður í orðsins fyllstu merkingu og það getur farið í mínar fínustu ef mínu daglega lífi er ógnað á einhvern hátt.  Að fenginni reynslu veit ég hvernig ég bregst við hinum ýmsu hversdagslegu aðstæðum í umhverfinu. Oftast er þögnin besta vopnið við hlutum sem dynja á manni daglega. Það kemur fyrir að ég tek dágóða rökræðu við einhvern vitleysing sem tjáir sig í fjölmiðlum og það róar mig um stund. Hjátrú og hindurvitni er eitthvað sem ekki fellur að minni staðalímynd og hafa mínur nánustu stundum kynnst því með ákveðnu vandlætingarhnussi. Ég gæti lengi haldið áfram með mína persónugreiningu en þar sem ég geri ráð fyrir því að lesendur flestir geri sér fullkomna grein fyrir hinum venjulega íslenska karlmanni læt ég hér staðar numið.


Þröstur minn góði. Þessi fugl syngur dag og nótt fyrir utan húsið mitt. Hann svæfir mig á kvöldin og vekur mig á morgnana

Ástæðan fyrir þessum inngangi er í eðli sínu einföld, hinar hversdagslegu aðstæður hafa breyst. Hin áunna reynsla mín í gegn um tíðina hefur að einhverjum óskiljanlegum ástæðum orðið fyrir truflun. Málið er það að ég sem venjulegur íslenskur karlmaður á mitt uppáhaldslið í ensku knattspyrnunni og það vill svo skemmtilega til að það er Liverpool. Ég hef ekkert verið að safna að mér neinum minjagripum sem tengjast liðinu. Ég á einn kaffibolla, baksýnisspegilhengju og brjóstsykurdós sem leynivinur minn hún Bóta gaf mér fyrir nokkrum árum. Svo gerðist það þann 18. febrúar á afmælisdegi mínum að félagar mínir úr getraunaklúbbnum Árbakkbræðrum gáfu mér þessa líka forláta Liverpool-treyju með nafni mínu og tölunni 60 á bakinu. Ég klæddist treyjunni strax daginn eftir afmælisdaginn þegar Liverpool atti kappi við andstæðinga sína í bikarkeppninni. Mínir menn unnu  6:1. Svo kom annar leikur og enn unnu mínir menn og ég í treyjunni. Svo komu leikir sem ég kom því ekki við að klæðast treyjunni eða fylgjast með framgangi minna manna og brá svo við að Liverpool tapaði þeim leikjum. Einu sinni kom ég heim þegar svolítið var liðið á leik og þar sem ég er ekki áskrifandi að enska boltanum þá varð ég að fylgjast með leiknum í treyjunni á textavarpinu og sjá, Liverpool sigraði. Síðastliðin laugardag hélt ég mig heima við því í mér var smá flensuskítur. Ég vissi að Liverpool var að leika. Það leit ekki vel út fyrir mitt lið í hálfleik og smellti ég mér í treyjuna góðu og skömmu seinna kom hringing til mín og ég kallaður í treyjunni til að fylgjast með síðari hálfleik í húsi sunnar í götunni. Viti menn, Liverpool náði jafntefli og ég gat haldið aftur heim ósigraður í treyjunni. Í gærkvöldi tók svo steininn úr. Þannig var að ég þurfti að fara á fund og gat því ekki fylgst með mínum mönnum í treyjunni góðu. Konan mín var heima og fylgdist með því á mbl.is að það fór að syrta í álinn hjá mínu liði á móti Blackburn. Við svo búið mátti ekki standa þannig að mín ágæta kona hljóp til og sótti treyjuna góðu og breiddi úr henni á stólbaki beint á móti tölvuskjánum sem var stilltur á mbl.is. og sjá, Andy Carroll skoraði sigurmarkið í uppbótatíma fyrir framan treyjuna góðu. Ég þurfti ekki einu sinni að vera í treyjunni til að ná fram þessum árangri. Ef satt skal segja þá er þessi undramáttur treyjunnar farinn að skapa smá spennu innan fjölskyldunnar og er ég, þessi staðfasti maður farinn að efast um að allt eigi sér eðlilegar skýringar. Það er ekki eðlilegt að maður eins og ég sé farinn að trúa á treyju en hvað á maður til bragðs að taka þegar maður er lentur í svona aðstæðum. Hætta að brúka treyjuna í leikjum minna manna og horfa upp á tapleiki nú eða sýna skjánum hana og uppskera sigur. Úr vöndu er að ráða. Hvernig myndi ég bregðast við ef Liverpool tapaði leik og ég í treyjunni. Ég er í vanda, það getur hver maður séð.


Það getur nætt um húnvetnska strönd og sú var raunin annan dag páska

Rúnar kom fyrir hádegi með diskinn "Nýtt undir geislanum" og það get ég staðfest. Rúnar hefur aldrei fyrr komið með Gluggann til mín í Aðalgötuna eins rokkaður og nú og velti ég vöngum fram og til baka hver gæti verið ástæðan fyrir þessari tónlistarlegu áherslubreytingu. Reyndar hefur Rúnar aldrei komið með Gluggann til mín fyrir hádegi. Kannski er hann rokkaður fyrir hádegi en róist er líður á daginn.


Bardagamenn úr Vatnsdalnum birtust í íþróttahúsinu á Blönduósi á afmælishátíð USAH. Þessi í hvíta gallanum með Securitasmerkið er Hjálmar Ólafsson í Kárdalstungu en sá hinn er fjær stendur með svart belti er enginn annar en Haukur Suska í Hvammi

Glugginn er uppfullur af aðalfundum að þessu sinni og vísa vikunnar er á sínum stað og að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Fjallar hann um brjóstapúða og kallar Jens lækni sem komið hefur nálægt brjóstapúðum kvenþjóðarinnar, iðnaðarmann með hlý handtök.

En hér skal látið staðar numið og reynt að koma auga á samhengið í þessu öllu saman en það er ekki eins einfalt eins og svo oft áður, þegar maður er farin að bera óttablandna virðingu fyrir mætti treyju, jafnvel farinn að kalla hana töfratreyjuna

Ég gildishlaðinn var með trausta sýn á trúna,

trúði á Guð og fósturlandsins Freyju.

En hjá karlanganum komið er svo núna,

að kalla eftir hjáp frá rauðri treyju.

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63192
Samtals gestir: 11273
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 23:26:25