Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Maí

30.05.2012 15:57

Bekkurinn og allt hitt

Friðrik á Kiljunni situr á bekknum sem staðsettur er á krossgötum Aðalgötunnar. Með honum er guli hundurinn hans. Það eru smá gárur innst á Húnafirði en þar fyrir utan eins langt og augað eygir ríkir ládeyðan ein. Meðan ég er að fylla skottið á bílnum mínum með pappakössum úr ríkinu heyri ég að Sveinn í +Film er kominn á kreik með hundana sína því þeir heilsa hundinum hans Friðriks með töluverðum látum. Stuttu seinna þegar hundarnir eru þagnaðir heyri ég að Sveinn er búinn að ná sambandi við Friðrik á bekknum og ég heyri líka í mávunum sem sveima meðfram ströndinni í leit að æti. Spói einn lætur vel í sér heyra og túnfíflarnir sem teygja sig upp úr sprungnum gangstéttunum teyga að sér sólina. Svona byrjaði morguninn hjá mér, bjartur, fagur, stilltur og með þeim hljóðum sem hæfa.


Elín Sigurðardóttir forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir listamaður  við opnun sýningar hinnar síðastnefndu í safninu á Blönduósi um Hvítasunnuna
 
"Slökum á og réttum úr okkur, drögum andann djúpt og öndum hægt frá okkur". Ég held að þetta sé einhver besta leikfimiæfing sem til er. Þegar ég heyrði þessi orð Halldóru Björnsdóttur í morgunleikfimini áðan og fór eftir þeim þá var eins og sálin opnaðist og kyrrð kom yfir mig. Það er hreint með ólíkindum hvað djúpur andardráttur getur gert mikið fyrir mann.


Íris ásamt eiginanni sínum honum Hjörleifi Hjartarsyni sungu sýninguna inn í hjörtu gesta
    
    Eftir smá stund með sjálfum mér og önduninni, áhyggjulaus og slakur fór alvara lífins aftur að segja til sín án þess þó að tröllríða öllu. Ég veit ekki hvað veldur en þegar ég var hætur að anda af viti reikaði hugurinn augnabliksstund til Jónasar á Ljóninu. Ég staldraði við hjá honum á leið minni heim úr vinnu í gær og þáði hjá honum kaffi og kleinu. Við sátum úti í skjóli fyrir norðaustan áttinni og létum hugann reika. Jónas sagði mér eitt og annað og sýndi mér meira að segja nýjustu flóttaleiðina út úr kaffihúsinu. Það verður ekki upp á Jónas logið að hægt er að flýja hann með ýmsu móti. Já Jónas sagði mér margt sem ég veit ekki hvort megi hafa eftir á opinberum vettvangi en hann sagði mér að ég mætti segja frá því að hann hafi um daginn fengið aðstoð úr óvæntri átt. Hann sagði mér hvaðan aðstoðin barst og í hverju hún var fólgin en hann bað mig um að segja ekki meira um þetta að sinni en vel má vera að meira verði sagt er fram líða stundir.


Þessir tveir létu sig ekki vanta við opnun sýningar á Heimilisiðnaðarsafninu um Hvítasunnuna. Ágúst Þór Bragason forseti bæjarstjórnar Blönduóss og Adolf H. Berndsen oddviti á Skagaströnd

    Rúnar kom með Gluggann á nýbónaðri Súkkunni og voru allar hliðarrúður niðri svo blíðan mætti koma inn og tónlistin út. Þegar ég opnaði mínar dyr fyrir honum helltist yfir mig sprengfjörugur polki sem þeir Kristian og Jens Peter fluttu og ber það fallega nafn "Coquette polka" sem við vitum ekkert hvað þýðir. Líklega er þessi polki tileinkaður einhverju suðrænu fljóði. En Rúnar var spakur og sæll og munaði engu að við færum á mis við hvorn annan því ég var að taka á móti vörum fyrir hana Margréti í ríkinu en ég gómaði kauða og urðu með okkur fagnaðarfundir.

22. tölublað Gluggans er komið út og kennir þar margra grasa. Má þar nefna að Skagstrendingar ætla eins og venjulega að halda sjómannadaginn hátíðlegan daginn fyrir sjómannadag. Sundlaugin á Blönduósi auglýsir sumaropnun sína en frá og með 1. júní lengist opnunartíminn. Í Glugganum má líka sjá að Húnavökuritið er komið út. Kvennareið stendur fyrir dyrum og ég sé líka að Sigurjón Guðmundsson ættaður frá Rútsstöðum er að auglýsa húsið sitt til sölu. Margt annað er að finna í Glugganum og greið leið er að sjá það með því að fara inn á huni.is og finna Gluggahlekkinn.


Þessi stúlka fann fegurðina á Blöndubökkum

Rúnar Kristjánsson er kominn með heila kvenna á heilann en er þó eitthvað að reyna að bakka út úr þessu máli með því að draga heila karla inn í umræðuna og lýkur vísu vikunnar á þessum orðum: Það tekur ekki að tala um það/ sem týnt hefur sínu gildi. Þessar vísur Rúnars má með sanni kalla heilabrot.

Lífið hefur vaknað á ný eftir langan vetur á Blöndu. Næstu daga á grágæsarungum eftir að fjölga svo um munar og gleðja þá sem æskunni unna


    Þá er bara eftir að höndla samhengið í þessu öllu saman. En áður en það er gert er gaman að segja frá því að rétt áður en við Rúnar vorum að loka þessum pistli þá þeyttist með miklum galsa inn í hornið til okkar Jón Ragnar Gíslason og lét okkur í té auglýsingu á A4 blaði hvar segir frá stofnun hestaleigu á Blönduósi sem ber hið frísklega nafn hestaleigan Galsi. Og varla var ég búinn að rita þessa línur er Jónas á Ljóninu stormaði inn og vildi fá að vera með í leitinni að samhenginu. Nú eru góð ráð dýr:

Veturinn hefur nú vikið af braut,

vorsólin töfrar fram polka og valsa.

         Við höfnum allri hörmung og þraut,

         nú höfum við hestaleiguna Galsa.


23.05.2012 15:17

veðrið það er voða gott

Skuggarnir styttast og dagarnir lengjast og hitinn mjakast upp á við og bara nokkuð skart síðustu tvo daga.  Þetta er staðan í dag og frammi fyrir henni stöndum við og getum ekki annað.


Baldur Einarsson er frísklegur sómadrengur sem svo skemmtilega vill til að er sonarsonur minn. Við fórum á laugardaginn í Laxárvatn til veiða og sáum álftir, milljónir mýflugna, og Tryggva Björnsson í hrossarekstri

Ég skaust suður yfir heiðar í gær til að láta hlusta á mitt litla hjarta. Ferðin gekk vel og með mér í för suður var sonarsonur minn hann Baldur Einarsson en hann hafði verið í heimsókn síðan á fimmtudag. Það var gaman að hafa Baldur í heimsókn því það er svo mikið líf í honum og aðlögunarhæfileikar hans að nýju umhverfi er með afbrigðum góðir.

Jónas á Ljóninu er alltaf að bíða eftir einhverjum viðbrögðum frá "bæjarapparatinu" eins og hann orðaði það. "Ég heyri ekki orð frá þeim síðan ég fundaði með þeim fyrr í vor" sagði Jónas og bætti við; "Það er engu líkara en þeir hafi gengið í björg og öllum horfnir". Þar sem ég er nú þannig úr garði gerður að vilja leggja mönnum lið ef lítið liggur við sagði ég si svona: "Það væri kannski ráð fyrir þig að tala við Árna Johnsen, hann á svo létt með að ná álfum út úr björgum". Það hýrnaði yfir Jónasi við þessa ábendingu og fór hann við svo búið með lítið ráð í farteskinu.


Álftir á leið til lendingar á Laxárvatni

Rúnar er kominn með Gluggann og sól í sinni. Í dag fylgdi honum óvenju mikil gleði enda margt sem hægt er að gleðjast yfir. Nægir bara að nefna veðrið sem er eins og venjulega á miðvikudögum bara gott miðað við aðstæður. Tónlistin sem fylgdi Rúnari að þessu sinni var ekki af verri endanum. Þeir Kristian, Jens Peter og Czardas Trioen fluttu hið eldfjöruga lag Bel Viso sem gæti þýtt ef það er ættað úr ítölsku, fallegt andlit eða snoppufríður.

Glugginn í dag er óvenju efnisríkur, svo ríkur að okkur Rúnari fallast nánast hendur. Hvar á að byrja og hvar á að enda. Til að leysa þetta vandamál er bara að fara inn á huni.is og smella á Gluggahlekkinn.


Enn fleiri álftir á flugi og eru á sömu leið og álftirnar tvær sem fyrr eru nefndar

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar á Skagaströnd og fjallar enn og aftur um heilalausar konur. Ekki vitum við Blönduós-Rúnar hvað honum gengur til eða af hvað rótum þessi umræða um heilalausar konur er sprottin en þetta fer að verða einhver áráttuhegðun sem nálgast Þórólfsheilkennið sem skotið hefur upp kollinum við og við hjá Skagastrandar-Rúnari


Sveinsstaðaálftin, líklega karlfuglinn að snurfusa sig áður en hann heilsar upp á kellu sína sem liggur á eggjum rétt hjá

En veðrið er gott og mikið að gera á lagernum í Ríki Margrétar þannig að lítill tími gefst til frekari skrifa en samhengið verður að finna hvað sem öllu líður:

 

 

Veðrið það er voða gott,

verð ég að segja.

Það er very, very hot,

er við það að deyja.

16.05.2012 14:26

vorhretin verða oft í maí

Hvað ég hef fundið til með fuglum himinsins síðustu daga og ég get varla lýst því hve glaður ég var þegar ég heyrði skógarþröstinn hefja upp raust sína í gærmorgunn og syngja batnandi tíð, söngva sína. Það var nöturlegt að horfa upp á vorboðann ljúfa og marga frændur hans halda sig sem mest á malbikinu á mánudaginn því það var eini staðurinn sem snjórinn náði ekki algjörum völdum. Móinn var hulinn snjó og ekki fuglum bjóðandi, gerði ekkert annað en að kæla niður lífsgleði fuglanna. En nú er snjórinn og kuldinn á undanhaldi og sólin hitar í skjóli.




Jónatan á Holtastöðum er búinn að tæta upp kartöflugarðana í Selvík þannig að þegar snjóa leysir og Auðunn er búinn að merkja Jóni Kr. og tengdapabba garðana sína þá er ekkert því til fyrirstöðu að pota niður útsæðinu. Talandi um Jónatan á Holtastöðum þá kemur alltaf upp í huga mér þegar ég tók það upp hjá sjálfum mér að vera í fyrirstöðu sunnan megið við hliðið á túninu sem liggur að Blöndu í Holtastaðapartinum þegar þeir Holtastaðmenn voru að smala geldneytum eitt haustið. Það gekk greiðlega að reka geldneytin úr túninu en þessi ágætu dýr stöðvuðu öll þegar þau sáu mig og nálguðust mig síðan með hægð til að skoða þennan ókunna mann. Eftir smá könnum héldu nautgripir áfram sína leið að réttinni þegar Holtastaðamenn nálguðust. Ég var ráðunautur bænda í A-Húnavatnssýslu þegar þessir atburðir áttu sér stað. En hvað um það, þegar Jónatan komst í gott kallfæri við mig sagði hann stundar hátt: "Ég er ekki hissa á því að geldneytin stoppi og skoði þig, þau hafa aldrei séð ráðunaut fyrr" Ég skildi sneiðina en gat ekki annað en skellihlegið. Jónatan er oft hnyttinn í orðum og næmur á umhverfi sitt.

Ég hef lítið heyrt í Jónasi á Ljóninu síðustu daga en þó hringdi hann í mig um daginn. Erindið var að hann fékk svo litla mynd upp þegar hann ræsti ritvinnsluforittið Word. Ég reyndi með ýmsum hætti að leiðbeina Jónasi en allt kom fyrir ekki, þar til ég sagði honum að fara út úr foritinu og inn í það aftur. "Komið! Þakka þér kærlaega fyrir, vertu blessaður." Sagði Jónas. Word og Jónas þýðir bara eitt í mínum huga. Hann er að skrifa bæjarstjórinni bréf , nú eða Stefáni byggingafulltrúa. Hugsanlega gæti Bjarni sýslumaður átt von á bréfi eða þá Ögmundur Innanríkisráðherra nema vera skyldi að hann væri að senda umboðsmanni Alþingis nokkrar línur og rifja upp frammistöðu hans í málefnum Ljónsins gegn yfirvöldum. Hvað er betra en skrifa bréf  þegar hret bankar á glugga og lítið hægt að hafast að utan dyra.


Bjart- eða hvítmávar ásamt sílamáv, grágæs og rauðhöfðaönd á eyrinni í Blönduós

Glugginn sem kemur út á miðvikudögum er kominn í hús og kennir þar nokkura grasa. Blönduósbær segir frá hitaveitulögninni sem á að flytja heita vatnið til Skagastrandar, hvar hún eigi að fara í gegn um Blönduósbæ og óskar eftir athugasemdum þeirra sem næstir búa. Skólinn auglýsir sýningu á verkum nemenda sem og skólaslit í lok mánaðar og Guðsþjónusta verður á morgun á kirkjudegi aldraðra sem jafnframt er uppstigningardagur og þjóðhátíðardagur Norðmanna. Þegar ég sé hvað margir atburðir falla á morgundaginn þá er það afar merkilegt hvað miðvikudagar í maí eru lítt merkilegir í kirkju- og veraldlegu tilliti. Það er engin Jónsmessa að vori, dagur þverhaussins, vitrun Jónasar eða eldmessa Ívars sem ber upp á miðvikudag. Skrýtið! En þó er rétt að geta þess að Ólafur Ragnar kvæntist Dorit sinni þennan dag árið 2003 og ekki má heldur gleyma að Sarkozy tók við embætti forseta Frakklands 2007 og Jóhanna Guðrún endaði í öðru sæti Eurovision þennan dag árið 2009.

Vísa vikunnar er um Strandafjöllin en ekki er vitað um höfund en óskað eftir því að einhver gefi sig fram sem veit hver orti.

Hretið er vonandi að baki, sólin skín í heiði og veðurspáin er hagstæð þannig að samhengið getur ekki verið augljósara:

Vorhretin verð´ oft  í maí

og veitast að sunnanblæ.

Svo vermir sólin á ný

Og skelfingin er fyrir bí

Svo gæti það aftur gerst

sem grunlausum þætti verst.

Að hretið hundskist til baka,

með harðindum, vindi og klaka.

 

09.05.2012 15:10

á dýrðlegum sólskinsdegi

Sólin er allsráðandi í dag og hellir sér yfir Húnvetninga. Það er heldur enginn asi á vindinum því hann þverneitar að hreyfa sig. Allt þetta er þess valdandi að Húnaflóinn er spegilsléttur og vetrarströndin í vestri, Strandirnar, kalla á augað. Það er örugglega gaman að vera á sjó í dag þó lofthiti sé ekki hár, fjarri skarkala lífsins og horfa á sjálfan sig í haffletinum og einn og einn þorsk sem kemur úr djúpinu og vita ekki hver er hvor. En eitt er víst að sá sem úr djúpinu kemur er á leið um óravíddir fiskmarkaðanna og veit ekki uppí hvaða kjafti hann lendir.


Héraðshælið á Blönduósi með Strandirnar í baksýn

Það er tregi í sálinni á Jónasi vert á Ljóninu þessa dagana. Hann er búinn að setja bátinn sinn Skafta Fanndal á skrá yfir báta sem eru til sölu. "Ég á eftir að sjá mikið eftir þessum bát" sagði Jónas við mig um daginn og svolítill sársauki í röddinni. Ég sagði ekki neitt en ég skildi hann. Þetta er víst annað og meira en selja bara bát, þetta er líkast því að selja part af sjálfum sér. En maður verður að passa sig á því að sökkva ekki niður í tregafulla umræðu á þessum bjarta og fallega degi. Sá hinn sami Jónas og fyrr er greint frá, brá sér á dögunum bæjarleið til að vera viðstaddur opnum hins nýja vöruhúss Bauhaus. Það fór ekki fram hjá neinum því hann var fremstur meðal jafningja á mynd sem birtist á mbl.is daginn sem opnað var. Alltaf er Jónas þar sem eitthvað er um að vera. Annað en maður sjálfur sem hvergi getur verið annarsstaðar en heima hjá sér, já það fara fáir í spor Jónasar enda liggja þau víða og þær slóðir sem hann fetar eru líkar vegum Drottins, órannsakanlegir.

Gæsirnar eru óðum að hverfa af yfirborði jarðarinnar enda eðlilegt því þær eru farnar að verpa og þessvegna komnar í hvarf. En því get ég lofað verði tíðarfarið ekki því verra meðan gæsirnar liggja á, að í byrjun júní verður náttúrusprenging þegar gæsirnar streyma með unga sína út á Blöndu.


Guðmundur Paul Scheel Jónsson, þessi sem setur inn gömlu myndirnar úr A-Hún inn á facebook á spjalli í Aðalgötunni

Mig langar til þess að segja frá einni minningu um Ingibjörgu Steinþórsdóttur, Ingibjörgu í Skólahúsinu eins og hún var oftast kölluð, sem verður kvödd frá Þingeyrakirkju á laugardaginn. Mig langar til þess að rifja upp þegar hún átti kisuna Dísu sem hún ætíð hafði í bandi þegar þær fóru út að ganga. Þetta hafði ég aldrei séð og einhvern daginn er ég mætti henni á ferð með kisu þá smellti ég af þeim mynd og spurði Ingibjörgu í framhaldinu hversvegna hún hefði köttinn í bandi. Á sinn ljúfa hátt svaraði hún mér eitthvað á þessa leið " Hún Dísa mín er heyrnalaus og heyrir ekki í bílunum og getur þar af leiðandi ekki varað sig á þeim" Ingibjörg verndaði sína kisu og ég stóð uppi með eina fallega mannlífsfrétt sem birtist á sínum tíma í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni "Köttur í bandi, norður í landi". Takk fyrir þetta Ingibjörg, blessuð sé minning þín.

Óli kom með Gluggann eins og hann gerði síðast. Þetta gerir Óli meðan Rúnar er að jafna sig eftir aðgerðina um daginn. Ég heyrði óljóst innan úr Exsplorernum hans Óla, tónlist og greindi ég þar hið fallega lag "Lítill drengur" og ósjálfrátt fór í gegn um huga minn hvað við öll erum lítil frammi fyrir sköpunarverkinu.

Rúnar kom líka rétt eftir að Óli var farinn en nú var hann Gluggalaus og á tveimur jafnfljótum. Rúnar var kátur en honum fylgdi engin tónlist að þessu sinni. Hann hefði svo sem getað raulað Óla Skans eða trallað skorska dansinn en það gerði hann ekki en ég er þannig gerður að alltaf þegar ég sé Rúnar á hljómar tónlist í hjarta mínu. Meðan við Rúnar vorum að ræða málin kom Pétur Þorláksson í heimsókn til okkar. Þuldi hann upp vísur eftir Runólf Björnsson á Kornsá. Vísurnar voru þess eðlis að við ákváðum að birta þær ekki að sinni en mikið assskoti voru þær vel gerðar. Það getur vel verið að þær birtist hér síðar ef efni og aðstæður leyfa.

Glugginn er kominn og það sem vekur hvað mesta athygli hjá mér er auglýsing um að brátt verða kartöflugarðlöndin í Selvík tilbúin að taka á móti útsæðinu. Þessi auglýsing er tvímælalaust ein af vorboðunum næst á eftir, lóunni, kríunni og gæsinni SLN.

Vísa vikunnar er á sínum stað og enn sendir Skagastrandar-Rúnar dýrt kveðna vísu, hringhendu sem fjallar um heila kvenna sem  í skáldsins huga  er efi  hvort sé til. Rúnar veit betur því líkast til sækir hann yrkisefni sitt í einhver ummæli sem fallið hafa í dægurþrasinu.


Bærinn við botn Húnafjarðar. Örlítið farið að kula

En samhengið sem alltaf er að finna í tilverunni, hversu samhengislaust sem það getur verið er nauðsynlegt að skilgreina og svona lítur það út á þessum blessaða Drottins dýrðardegi:

 

Með Drottni í för, á dýrðlegum sólskinsdegi,

dönsum við áfram held ég að segja megi.

En eitt skyggir þó á

er lesa hér má,

í Jónasi er tölverður tregi.

02.05.2012 16:54

Ó hve dýrlegt er að sjá

Ég má til með að halda örlítið áfram gæsatali, þar sem frá var horfið í síðasta pistli. Ástæðan er sú að ég stóð augliti til auglitis við heiðursgæs Blönduóss, hana SLN og náði af henni myndum. Og það var engin tilviljun að þessi aldraða gæs var á vappi á bílastæðinu fyrir suðvestan Hnitbjörg þar sem er heimili fyrir aldraða og greip hún í græn grös sunnan undir veggnum. Kallinn hennar er ekki eins lystugur því hann þarf jú ekki að verpa en hann var vel á verði og passaði upp á sína eðalgæs. Ég bara varð að segja frá þessu því við höfum hittst hvert einasta vor í 13 ár og ég var ekki frá því að Sigurvon Lánsama Nonnadóttir (SLN) hafi sagt við mig með augunum " Sæll gamli gæsapabbi, mikið að þú látir sjá þig"


SLN á rölti með maka sínum á bílastæðinu við Hnitbjörg



Hér er hefðargæs Blönduósinga í öllu sínu veldi hún Sigurvon Lánsama Nonnadóttir (SLN). Hún er komin á sinn stað í það minnsta í 13. sinn við Héraðshælið

Jónas á Ljóninu er mikill baráttumaður, það vita þeir sem þessa pistla lesa. Þessi maður sem kennir kaffihúsið sitt við Ljón norðursins hinn eina sanna Leó Árnason frá Víkum átti fund með bæjarráði fyrir helgi. Hann sagði að ráðsmenn hefðu verið svona heldur "tens" og viljað ljúka erindi hans sem fyrst. "Rólegir drengir, rólegir " sagði Jónas og bætti við " liggur eitthvað á". "Við þurfum að afgreiða 7 erindi á fundinum" sagði Jónas að Kári Kára bæjarráðsformaður hefði sagt. "Menn verða að ganga fumlaust og ákveðið til verka eigi þeir að ljúka fundi á kristilegum tíma " sagði ég, bæjarráði til varnar. "Hvað kom svo út úr fundinum" sagði ég si svona til þess að segja eitthvað. "Það á eftir að koma í ljós" svaraði Jónas. " Nú er ég búinn að setja dyr á gamla fjósið þannig að opnuð hefur verið ný flóttaleið úr kaffihúsinu" sagði Jónas og bætti því við að nú væru öll skilyrði um flóttaleiðir uppfyllt. Við veltum töluverðum vöngum um öll þessi mál sem tengjast Ljóninu og yfirvöldum svona almennt, allt frá Innanríkisráðuneyti niður í sýslumanninn. Við veltum meira að segja vöngum hvort hann fengi ekki leyfi til að starfrækja flóttamannabúðir fyrst búið væri sinna hinum ströngu kröfum um flóttaleiðir. Við vorum sammála um það að það gætu allir flúið Ljón norðursins þeir sem á annað borð væru með meðvitund. Niðurstaðan er einfaldlega sú að menn geta óhræddir komið til Jónasar í hvaða erindagjörðum sem er því það er öruggt að þeir geta flúið, hvort heldur eld, vonda kjötsúpu nú eða skoðanir Jónasar á kvótakerfinu. Nú verða flóttaleiðirnar ekki lengur flúnar á Ljóninu hjá Jónasi.

Vorið hefur verið nokkuð þægilegt svona á heildina litið og hvergi snjó að sjá á láglendi. Þetta snjóleysi getur valdið eina villta hænsfuglinum á Íslandi vandræðum því hann á erfiðara með að fela sig fyrir frænda sínum fálkanum. En það er einhvern veginn svo að hin villta náttúra er ótrúlega nösk á það að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Það vildi svo til að ég fjárfesti fyrir skömmu í hvítum bíl og rjúpurnar sem þvælast stundum um garðinn minn áttuðu sig á því að hvítur bíll getur komið í staðinn fyrir snjóskafl. Hinn hvíti bíll smellpassar sem felustaður rjúpu sem ekki er komin úr vetrarham.


Rúnar vinur minn kom ekki með Gluggann í dag vegna þess að hann þurfti að gangast undir aðgerð (ekkert hættulegt) á sjúkrahúsinu á Akureyri í dag. Ég heyrði í honum eftir aðgerð og var hann bara nokkuð hress og sagðist koma aftur heim á föstudag.  Ég sagði honum að nú hefði hann nægan tíma til að yrkja og var hann sammála mér um það en það er ekki tíminn sem málið snýst um heldur andann sem kemur yfir mann, minnir mig að Rúnar hafi sagt.

En Glugginn kom og var enginn annar en Óli Þorsteins sem kom með hann. Í Glugganum er ýmislegt sem menn geta lesið með því að fara inná huni.is og þefa upp tenginguna á Gluggann. Innihald Gluggans er fjölbreytt og rak ég augun í sérstaklega í tvær auglýsingar á sömu síðunni en sú fyrri er um útboð á jarðvegsskiptum en hin síðari er um aðalfund kirkjugarðs Blönduóss. Á kirkjugarðsfundinn eru íbúar sóknarinnar hvattir til að mæta. Þar sem ég hef aldrei farið á kirkjugarðsfund þá veit ég ekkert um þá en maður má svo sem velta vöngum því í kirkjugarði enda víst flestir. Ég ætla bara að láta þetta nægja og leyfa lesendum að virkja hugann um þessi mál.

Gluggavísa vikunnar er líkt og svo oft áður eftir hinn kunna hagyrðing á Skagaströnd Rúnar Kristjánsson. Þetta er vorvísa um hundaskít á bæjarstétt. Rúnar ætti að yrkja um það þegar gæsirnar á Blönduósi hafa fjölgað sér svo um munar í sumar og öll hersinginn ásamt bæjarhundunum fer að skíta á stéttar og stræti, það yrði sko vísa í lagi.

Einn sit ég uppi með samhengið að þessu sinni og sendi ég Rúnari vini mínum hlýja strauma til Akureyrar um leið og ég varpa þessu hér hugsunarlaust út í vorið.

Ó hve dýrlegt er að sjá

eðalgæs með eigin augum.

Fýrinn Jónas fór á stjá

og fyrirmenninn fóru á taugum.

  

  

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 421
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 63624
Samtals gestir: 11304
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:11:06