Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Júní

27.06.2012 16:38

Dagurinn þegar gráu hárin fuku

Í dag er sjösofendadagur og  segir í Sögu daganna" að hann sé helgaður og kenndur við sjö velættaða kristna grískættaða unglinga sem sváfu í tvær aldir til að losna undan ofsóknum Desíuar keisara um miðja 3. öld og leituðu hælis í helli einum í fjallinu Celius og voru múraðir inni. Guð lét svefn falla á þá og vöknuðu þeir ekki aftur fyrr en eftir nær tvær aldir. Þá var land þeirra orðið kristið, og þeir færðu Þeódósíusi keisara sönnun fyrir lífi eftir dauðann, en lögðust síðan aftur til svefns og sofa nú að eilífu. Dagurinn varð mikils metinn á dögum krossferðanna og á 17. öld var byrjað að heita á sjösofendur við svefnleysi og hitasótt.
       Helgisögninni fylgir veðurtrú á suðlægum slóðum, og á veður að haldast líkt sjö næstu daga eða vikur. Slíkrar þjóðtrúar verður vart hérlendis á síðari öldum en virðist aldrei hafa verið almenn, og ef til vill lífseigust á vesturhluta landsins".  Ég veit um nokkra hér á landi sem myndu þiggja það að sofa svona í tæpt eitt ár og vakna þegar ofsóknum lýkur hér á landi. Fer ekki nánar út í það því þetta eru skrif fyrir alla fjölskylduna.


Bærinn Kleifar á Blönduósi
        
    Dagur Ljóns norðursins var haldinn hátíðlegur á kaffihúsinu Ljóni norðursins. Jónas Skafta vert á Ljóninu hélt með eftirminnlegum hætti upp á 100 ára afmæli Leós Árnasonar sem gekk undir listamannsnafninu Ljón norðursins.  Boðið var upp á kaffi og vöflur í tilefni dagsins og komu margir vinir og vandamenn til að halda upp á þennan dag með Jónasi. Jónas lét skerða hár sitt í heiðurskyni fyrir Leó Árnason og er nú orðin nær óþekkjanlegur en myndir segja meira en mörg orð. Myndir af þessum atburði má nálgast inni í myndaalbúmi.


Svona lítur Jónas út í dag

Út er kominn bæklingur sem kallast "Blönduós, paradís við þjóðveg 1" Þar kennir ýmissa grasa og er þar m.a. að finna kafla sem ber nafnið 10 staðreyndir um Blönduós ferðamannsins.  Allar eru þessar  10 staðreyndir góðra gjalda verðar  nema fyrir það að þær eru ekki nema 9. Í þessum níu staðreyndum af tíu er að finna áður óþekktann listamann Erlend Inga Kolbeinsson sem að öllum líkindum er hinn sami og hinn geðþekki Erlendur bifreiðastjóri hjá Vörumiðlun. Það sannast enn og aftur að lífið er fullt af óvæntum hlutum eins og það að bæjargrillið á fimmtudegi í Húnavöku er óstaðsett í Húnavökudagskránni en ég efa það ekki að Erlendur listamaður mun vísa okkur veginn.

Í dag kom síðasti Gluggi fyrir sumarfrí og var hann eins og sá síðasti hangandi á hurðahúninum , einþykkur og ópersónulegur. Ég verð bara að segja það að fá Gluggann með hurðarhúnsaðferðinni er gerilsneytt fyrikomulag , óspennandi og ekki til þess fallandi að maður leggist í djúpar  pælingar um lífið og tilveruna hér við botn Húnafjarðar.
 
Jóhann Ingvi Hjaltason sonarsonur minn horfir til himins í ós Blöndu og virðir      fyrir sér almættið 

        Eitt er það þó sem gladdi mína lund í Glugganum var vísa vikunnar sem ég hélt fyrst að væri eftir Höska löggu en komst fljótlega að því að vísan er eftir Hafþór Örn Sigurðsson hennar Löggu. Autt og tómt er andans svið/ ég engu nenni þrasi./Sit hér móti sól með kvið/og sýp á rauðvínsglasi. Gaman er að sjá að Hafþór er kominn á kreik á ný með sína glettnislegu sýn á lífið og tilveruna.

Á sjösofendadegi þarf að koma auga samhengið líkt og aðra daga. Núna er enginn Rúnar mér til sáluhjálpar en þar sem ég er farinn að venjast því svolítið að berja samengið saman einn og óstuddur ætti það ekki að ríða mér á slig líkt og nafni minn frá Gilsbakka orti hér áður fyrr meir. Margt vill ríða mér á slig,/ mótgangs ber ég þvitann./ Ég held ég verði að hengja mig/ hérna upp um bitann

 

 

Nú skal punktur settur hér

Hér skal numið staðar.

Jónas bíður eftir mér

.

20.06.2012 14:03

það einasta sem ég býð



                   Austurbakkinn á Blönduósi séður frá vesturbakkanum.

Í dag eru sólstöður á sumri sem segir manni bara það eitt að sólin fer að halla sér hægt en örugglega að suðurhveli jarðarinnar og við það munu dagarnir styttast allt fram að 21. desember. Það má segja að á suðurhveli jarðarinnar sé núna að detta á með Þorláksmessu.  Skyldu andfætlingar okkar gera sér dagamun með skötu og tilheyrandi. Ég trúi nú ekki öðru að þeir fái sér að minnsta kosti saltfisk og rúgbrauð með smjöri.

                        Hópferðabifreiðin Sóla í eigu Jónas Travel Grop. Tilraun og húsin á Brekkunni speglast í framrúðu Sólu

           En hvað sem öðru líður þá er lengstur dagur í dag og veðurlýsing á Blönduósi var í morgun kl 9 VNV 3 hiti, 8 gráður. Það voru ekki mörg augnablik liðin frá þessari veðurlýsingu í útvarpinu að ég heyrði vélardyn mikinn fyrir utan og eins lög gera ráð fyrir þá gekk ég að glugganum til að sjá hvað væri á seyði. Og sjá, komin var hópferðabifreiðin Sóla í eigu Jónas Travel Group og var henni lagt framan við hótelið. Engan sá ég manninn sem ók þessari rútu en það kom á daginn nokkru síðar að undir stýri var hinn vaski Jónas Skaftason á Ljóninu. Hann hafði brugðið sér í kaffi til Óla á hótelinu. Jónas leit inn til mín eftir kaffið hjá Óla og eftir bollaleggingar nokkar kom í ljós hversvegna til væri fyrirtækið Jónas Travel Group. Mér fannst svona að óathugðu máli nokkuð stórt orð að nota "Group" á ekki stærra fyrirtæki en eina gamla rútu. Það er  jú stórt nafn, Hákot sagði maðurinn margfrægi og það var nákvæmlega þessi minnig sem fékk mig til að staldra við orðið "Group" hjá Jónasi. En eins og svo oft áður, ef maður spyr rétta aðila  þá fást oftast svör. Og svarið var einfaldlega þetta. Fyrir mörgum árum þegar Jónas var að aka með ferðamenn á Mývatni, komu eftirlitsmenn vegagerðarinnar að máli við Jónas að hann mætti ekki aka ferðmönnum í sundlaugina um kvöldið því hann væri kominn fram yfir leyfilegan aksturstíma þann daginn. Og meira kom í ljós við frekari eftirgrenslan. Jónas hafði merkt rútuna "Hópferðir Jónasar". Eftirlitsmenn vegagerðarinnar sögðu að þetta mætti hann alls ekki gera því Jónas var ekki orðin formlegur eigandi rútunnar því eigandaskifti rútunnar höfðu ekki enn gengið í gegn hjá Umferðarstofu. "Við munum fylgjast með þér í framtíðinni" sögðu eftirlitsmennirnir og það fannst Jónasi grábölvað og brá á það ráð að breyta nafninu á rútunni og því varð til þetta stórbrotna nafn sem fyrr er getið. Jónas kann á öllu ráð eða eins og hinn margfrægi sagði "alltaf stendur Jón Sig"


Hér eru samankomnir nánast allir "ferðaþjónustuaðilar" á    Blönduósi  í Aðalgötunni. Hótelið, Ljónið og Kiljan

         Sólin skein á einmanalegan Gluggann þar sem hann hékk umkomulaus á hurðarhúninum á Aðalgötu 8. Það var enginn Rúnar  í samhljómi  harmonikkutóna sem fylgdi honum á leiðarenda á þessum lengsta degi ársins. Líklega er Rúnar dauðuppgefinn eftir Noregsferðina með Bólstaðarhlíðarkórnum og ekki treyst sér að koma með næstsíðasta Glugga fyrir sumarfrí. Hvar sem þú ert Rúnar þá óska ég þér alls hins besta og vona að þú komir með síðasta Glugga fyrir sumarfrí.

  Sveinn M Sveinsson að þrífa skiltið sem segir til um hvar Skáksamband Íslands var stofnað en það var í Aðalgötu 5 þann 23. júní árið 1925

          Glugginn er kominn út, 25. tölublað 29. árgangs þessa ágæta auglýsingablaðs. Töluvert fer fyrir auglýsingum frá sveitarstjónum sem minna á kjörskrár og kjörfundi fyrir komandi forsetakosningar.  Blönduósbær minnir líka eigendur hunda og katta að ganga frá skráningu dýranna áður en þau (dýrin) skreppi af bæ. Þetta er hentugt því sum dýrin geta með engu móti sagt hvað þau heita eða hvar þau eigi heima. Bílskúrssala verður norðarlega á Mýrarbrautinni á föstudaginn  og þar gefst fólki tækifæri til að prútta.

Vísa vikunnar er blessunarlega ekki dauð og má þakka Önnu Árnadóttur fyrir það því hún sendir Glugganum  hugljúfa sumarvísu og staðfestir þar með að sumarið er komið fyrir alvöru.


Ágúst á Hafíssetrinu við það að draga niður fánann að loknum vinnudegi á setrinu

          Enn og aftur þarf  ég einn og yfirgefinn að varpa ljósinu á samhengi hlutanna, hluta sem ekki alltaf liggja í augum uppi. En það er mér bæði ljúft og skylt að gera því enginn á það skilið að ráfa um samhengislaus á lengsta degi ársins.

Í dag er lengstur dagur,

í dag skín sól á lýð.

Og því er þessi bragur

það einasta sem ég býð.

 

13.06.2012 16:03

vísa vikunnar er orðin tóm


Enn skín sólin, enn blæs hann af norðaustri og enn rignir ekki. Svona gengur þetta fyrir sig hér fyrir botni Húnafjarðar. Margt er að gerast í kring um mann og nægir bara að nefna að byrjað er að leggja nýja hitaveitulögn frá Reykjum og Helgi Gunnars og félagar eru 10 dögum á undan áætlun með byggingu dælustöðvar á Héraðshælislóðinni. Laxasetrið verður opnað á laugardaginn  og súpan er komin í hús hjá Jónasi á Ljóninu.


Þýski fánin blakti við hún á Brekkunni í dag. Líklega tengist þetta eitthvað EM í fótbolta

Gæsarungarnir braggast og gerast æ stórtækari í beitinni, merarnar kasta og menn kasta mæðinni undir vegg mót sólu. Svo var með þá Himma Snorra og Jóhann Viðar seinni partinn í gær. Ég hitti þá undir suðvesturvegg á Ljóninu þar sem þeir áttu ekki von á neinni truflun nema frá söng kríunnar í ósnum eða frá gaggi einstöku gæsar sem var að verja ungahópinn sinn .  Nei! Birtist þá ekki, hann ég, þarna. Og þarna tafði ég dágóða stund og umræðuefnið var svo fjölbreytt að ég man ekki helminginn af því. Eitthvað vorum við að ræða næturlífið í gamla bænum og byggingu dælustöðvar á túninu við Héraðshælið. Flóttaleiðir á Ljóninu komu til umræðu sem og margt annað sem óþarfi er að viðra á þessum vettvangi.


Dælustöðin rís á lóðinni við Héraðshælið. Húsið á eftir að hækka um um 1,5 m eða sem nemur þakinu

Farsíminn hringdi áðan og var sagt á hinum endanum " Hvar ertu?" "Nú, í vinnunni" svaraði ég. "Hver er þetta?, er þetta ekki Þórir?" var spurt. "Nei" svaraði ég og bætti því við að ég héti Jón. "Nei, hver andskotinn" sagði sá sem hringdi. " Nei "sagði ég; "ég er hvorki Þórir né andskotinn" . Sá sem hringdi, brosti, ég heyrði það og bað mig afsökunnar á því að hafa hringt í vitlaust númer. Svona getur nú gerst á bestu bæjum.

Rúnar kemur ekki með Gluggann í dag því hann fór með félögum sínum í Bólstaðarhlíðarkórnum til Noregs til að syngja fyrir þarlenda. Ég man að ég hafði á orði þegar Rúnar og kórinn fór til Finnlands að hann ætti að líta í kringum sig eftir konu. Ekki gekk það eftir og ég steingleymdi að minna Rúnar á það að líta í kringum sig í Noregi eftir "en norsk kvinne".


Einar Óli er frumkvöðull í knattspyrnu. Hér kynnir hann knattspyrnu fyrir nærsýna

Glugginn er kominn út og er þar margt að finna. Harmonikkuhátíðir á Laugabakka og í Húnaveri, Smábæjarleikarnir í nánd og Laxasetrið við það að komast á koppinn.  Glugginn minnir á að síðasti Gluggi fyrir sumarfrí er 27. júní og USAH auglýsir sundkeppni svo eitthvað sé nefnt.

Það sem vekur hvað mesta athygli í Glugga dagsins er að liðurinn vísa vikunnar  er til staðar en engin vísa. Er virkilega svo komið að engin vísa hafi verið ort í héraðinu í heila viku. Detta mér allar dauðar lýs úr höfði. Hvar er Skagastrandar-Rúnar eiginlega, hvar eru skáldin. Ég bara spyr og það í forundran. Reyndar, þegar ég fór að hugsa dýpra þá getur þetta verið afar snjöll hugmynd hjá þeim Gluggamönnum. Það er skilin eftir eyða í dálknum vísa vikunnar þannig að hver og einn getur skrifað inn sína eigin vísu vikunnar þannig að vísur vikunnar verða kannski mun fleiri en nokkru sinni.  

 

Einn og yfirgefin þarf ég að gera hið óhjákvæmilega en það er að koma auga á samhengi hlutanna.  

Með tímanum taktarnir breytast,

og  tíðindi til okkar berast.

Þegar vísnasmiðirnir þreytast

þurfum við eigin smiðir að gerast.

06.06.2012 14:12

Súpan á leiðinni í hús

Hver dagur er öðrum líkur í hversdagslegu tilliti eða svona hér um bil. Maður vaknar, skefur af sér morgunglígjuna og les Moggann með morgunmatnum. Kemur sér til vinnu og kemur sér oftast nær með þolanlegu móti gegnum daginn. Það eina sem  er breytilegt við dagana er veðrið og því ekkert skrýtið að fólk (Íslendingar) ræði helst um breytilega þáttinn í lífi sínu. Síðustu dagarnir fram að þessum degi hafa verið sólríkir og svo að segja alveg eins, svona eins og útlöndum. Að sjálfsögðu tala fólk um þetta sólríka tíðarfar og koma með ýmsar athugasemdir við það. Sumir hafa á orði að gott væri nú að fá svolitla rigningu, svona fyrir gróðurinn. Aðrir kvarta yfir brendum líkamspörtum og fagna Aloa Vera plöntusafanum  þegar honum er smurt á  sviðabletti. Það góða við veðrið að það er alltaf hægt að tala um það sama hvernig það er.


Stolt grágæsarmamma

En í dag er dagurinn í dag og hann er ákaflega merkilegur fyrir margra hluta sakir. Til dæmis á mín kæra mágkona hún Gróa María afmæli í dag og það er sko ekkert smávægis afmæli. Hún og hennar maður Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp sem ég kýs að kalla Guðmund svakasvila eru ekki heima á afmælisdaginn en ég vil nota tækifærið á þessum fyrsta miðvikudegi í júní að óska mágkonu minni hjartanlega til hamingju með daginn og þakka henni fyrir yndisleg kynni í gegnum tíðina. Bara þetta dæmi dugar til að sýna fram á að þessi dagur er ákaflega merkilegur. Annað dæmi gæti ég nefnt sem gerir þennan dag merkilegan en það er að heiðurskonan Sigríður Baldursdóttir á líka afmæli í dag. Til hamingju stelpur!


Fórnfúsir og gætnir foreldrar fara fyrir sínum börnum

Húnahornið er fyrirbrigði sem gerir sig gildandi á tölvuskjánum ef menn slá inn huni.is og ýta síðan á "enter". Á þessum héraðsfréttavef er álitsgjafi sem bendir á ýmislegt sem vel er gert eða betur mætti fara.  Þessi álitsgjafi kallar sig Nöldra og sendir frá sér skýrslur á mánaðar fresti. Nöldri þessi hefur haft það fyrir sið að berja pínulítið á vegagerðinni, Hjölla Júl, fíflum, kerflum og bíldruslum svo eitthvað sé nefnt. En nú bregður svo við í júnínöldrinu að það er ekki minnst á þessa fastagesti og þess í stað er nafn mitt dregið inn í umræðuna. Ég ætlaði satt best að segja að æsa mig rækilega og svara athugasemdum (áskorun reyndar) Nöldra af festu en þegar ég fór að skoða málið nánar ákvað ég að láta kyrrt liggja, en samt, Nöldri ætlar sér í sumarfrí en ætlast til þess að ég herði mig og skemmti honum og öðrum með myndum og máli, vikulega á meðan. Nöldri ætti til dæmis að setja þó ekki væri nema annan hnífillinn í spaugarann og húsfrúnna á Húnahorninu. Reyndar er húsfrúin farin að sækja í sig veðrið og hefur pistlum hennar fjölgað úr einum á ári í töluvert mikið fleiri. Já, maður er viðkvæmur svo ekki sé meira sagt.

"Tilkynning frá Ljóni norðursins: Súpan kemur í hús á föstudag. Alþýðu-prís á barnum. Þetta er bara byrjunin. Kveðja, vertinn."   Svona hljóðar ein auglýsing í Glugganum í dag og  ég veit ekki hvort það sé tilviljun eða ekki en beint fyrir neðan þessa auglýsingu er önnur auglýsing sem hljómar svona: "Tilkynning frá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Frá 1.júní 2012 skal hringja í síma 112 ......."  Ekki veit ég hvort það verði alþýðuprís á þjónustu á Heilbrigðisstofnunni (HSB)  en ég veit að súpan er fyrir löngu komin í hús hjá HSB.

 

"Skemmtiferð - þín hreyfing - þinn styrkur". eru kjörorð Snorra Más Snorrasonar sem lagði af stað á reiðhjóli frá Reykjavík á sunnudaginn og stefnir að því að hjóla hringinn. Snorri er Parkinsonsjúklingur og hjólar í þeim eina tilgangi að hvetja fólk til dáða að hreyfa sig sem það getur. Snorri lagði upp frá Blönduósi í morgun og stefnir á að komast í Varmahlíð í kvöld eða jafnvel lengra ef veðrið verður hagstæðara en í gær. Það var norðaustan strekkingur og 4 stiga hiti þegar Sorri lagði af stað frá Blönduósi í morgun og gránað hafði í efri hlíðum Langadalsfjalls.

 Rúnar er kominn með Gluggann. Hann spilaði af djöfulmóð lagið Fallerí eftir Gylfa Ægisson og ætlaði að lauma Glugganum á hurðarhúninn hjá mér en honum varð ekki kápan úr því klæðinu því ég gómaði kauða og fékk hann inn með mér. Hann sagðist vera að flýta sér sem var bara tóm vitleysa því hann hafði 45 mínútur uppi á að hlaupa og gæti alveg gefið sér smá tíma til að hjálpa agnarögn.

 En Glugginn er kominn og fyrir áhugasama þá er bara að slá finna hlekkinn inni á huni.is og sjá hvað er á seyði. Búið er að greina frá Ljóninu í súpunni og ábendingu HSB á símanúmerinu einn einn tveir.

 Vísa vikunnar er eftir Ósk Skarphéðinsdóttur og er um þá bjargföstu trú sem flest okkar bera í brjósi en það er eins og Ósk segir: Að búi í hvers manns eðli innst/ einhver góður neisti.

En eins og hverjum má ljóst vera þá þarf að vera amen á eftir efninu, samhengið sjálft og það er ekki sjálfgefið hvernig það er höndlað.

 

Í sérhverju  sinni er góður neisti,

sagði mér maður vitur.

En eitt mun þó gerast og á það ég treysti

að í súpunni Jónas ei situr.

 

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 101
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 56611
Samtals gestir: 10452
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 20:30:43