Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Október

31.10.2012 16:10

loppinn og ófrjór í vindinum

"Sköpunargáfa þín og ímyndunarafl eru einstaklega frjó. Hlustaðu á það sem aðrir hafa fram að færa og mundu að það er enginn sem vill eyðileggja þig." Svo segir mín stjörnuspá í Morgunblaðinu í dag. Satt best að segja fannst mér þessi spá svolítið mótsagnakennd.  Ef sköpunargáfa mín og ímyndunarafl eru einstaklega frjó hversvegna ætti ég að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa. Hinn frjói á að uppfræða hinn hugmyndasnauða, sem sagt fræða og upplýsa og gera allt til að bæta heiminn. Þetta finnst mér liggja alveg í augum uppi nema fyrir það eitt að sköpunargáfa mín og ímyndunarafl er einstaklega ófrjó í dag og ég hef mikla þörf fyrir að fá hugmyndir frá einhverjum sem hefur eitthvað uppbyggjandi fram að færa. Niðurstaða mín er einföld í þessu stjörnspármáli að spáin er bara góð. Bara að sjóða saman torræða spá og hafa hana að minnsta kosti tvíþætta þannig að ef hluti hennar er vitlaus þá geti seinni hlutinn verið réttur eða öfugt.  Svo skaðar ekki að hafa í spánni eitthvað fallegt um mann og ekki skemmir að von sé á því að maður auðgist eitthvað í náinni framtíð og ekki skaðar að ástin komi eitthvað við sögu.


Það er hvasst í dag og það er kominn smá snjór og spáin er slæm. Heita vatnið var tekið af okkur í gær og verkefni dagsins í dag er að koma hita aftur á ofnana og það gengur hægt. Hitinn hér á Aðalgötu 8 er ekki ásættanlegur eins og er en það stendur til bóta þegar maður er búinn að böggla þessum pistli frá sér krókloppinn á fingrum.

Rúnar er kominn með Gluggann og var hann heldur seinna á ferðinni en venjulega. Ástæðan er einföld því hann ekur enn um á sumardekkjum á splunkunýrri Súkkunni og hálkan er fljúgandi út um allt. Strákabandið var enn og aftur undir geislanum hjá honum og lék af fingrum fram polka sem hæfir vindhraðunum allt um kring. Það er verst að Rúnar veit ekkert hvað lögin heita á disknum því hann er þrælstolinn svo ég hef kosið að kalla þennan polka "Illa fenginn"

Glugginn hefur að geyma ýmsar upplýsingar eins og til dæmis það að Höddi Rikk er að fara í framboð  og myndarlegur rauðstjörnóttur hestur er í óskilum hjá fjallskilanefnd Bólstaðarhlíðarhrepps hins forna. Lionsmenn auglýsa herrakvöld sem venjulegast gengur undir nafninu Sviðamessa um miðjan  nóvember. Þar er eins og nafnið bendir til boðið upp á svið en að þessu sinni verður kjötsúpa einnig á boðstólum. Þetta er gert til að koma til móts við yngri karlmenn sem geta ekki borðað svið. Það verður eflaust ekki langt að bíða að á Sviðamessu Lions verði boðið upp á hamborgara og franskar svo æskumenn geti borðað sér til gagns (gikkir).

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Skagastrandarskáldið Rúnar Kristjánsson, Hjartarsonar.  Rúnar er að þessu sinni að rýna í samfélagið og greina vandann. Hann sér rottur ráfa um í siðleysi,  rótopnar af friðleysi. Það er annað en ég sem ráfa á milli ofna og reyni að koma í þá hita úr nýju hitaveitulögninni sem m.a. er ætlað að koma heitu út á Skagaströnd.

Rúnar var fljótur til þegar ég bað hann um vísu. Hann leit út um gluggann og sá að veður er farið að vernsa og þegar hann leit fram í búð sá hann þær Möggu og Brynju að störfum í vínúðinni og því liggur þetta í augum uppi:

Veður fer að versna hér,

veðurskeytin telja.

Brynja og Magga báðar hér

"blessað" vínið selja.

 

Samhengið er ekkert flóknara en þetta á þessum vindasama miðvikudegi þó svo hér og hér sé nú hér og hvar en hverju skiptir það.

24.10.2012 15:19

vandinn er ærin(n)

Við Rútsstaða Sigurjón erum búnir að innbyrða eitthvað á annað tonn af öli og brenndum drykkjum í morgun. Sigurjón var óvenju snemma á ferðinni þannig að ég rétt náði  að skrá mig inn á hin margvíslegu kerfi í tölvunni sem ég þarf á að halda yfir daginn áður en við fórum í ölföngin. Sigurjón var á frekar mikilli hraðferð þannig að ég hafði af honum til þess að gera lítið gagn í sagnfræðilegu tilliti en hann var samt nokkuð líkur sjálfum sér. Hann náði þó að segja mér að hann hafi séð hvíta tófu í morgun rétt á móts við Beinakeldu og hefur sú hvíta örugglega verið á leið í Sauðadalinn í leit að fenntu fé.


Veturinn er að hreiðra um sig í héraðinu. Stokkendurnar víkja sér fimlega undan fyrsta íshrönglinu í Blöndu á þessu hausti 

Talandi um hvíta tófu þá tók skaparinn upp á því í morgun að breiða hvíta slæðu á yfirborð jarðarinnar svo rétt til að minna okkur á að senn kemur vetur. Ég hef áður minnst á það að síðasti sumardagur er ekki hafður í eins miklum hávegum og síðasti dagur vetrar. Og vetradagurinn fyrsti er ekki sá dagur sem skátar arka um víðan völl und blaktandi fánum bláir af kulda líkt og á sumardaginn fyrsta. Hvað skyldi standa í veginum. Hitaveitur hafa fulla ástæðu til að halda upp á þessi tímamót sem og rafveitur, 66 gráður norður sem og félag umfelgunarmanna. Enski boltinn er allan veturinn og veit ég ekki betur en margir hlakki til að fylgjast með honum. Kvenfélög, kórar og ég veit ekki hvað og hvað hefja starfsemi sína af fullu. Jól, áramót og þorrablót eru yfirleitt á vetrum að minnsta kosti hér um slóðir. Hversvegna er ekki haldið upp á vetrardaginn fyrsta? Spyr sá sem ekki veit en ástæðan er ærinn.  Hér verður að vanda sig í stafsetningu og nægir að nefna í því sambandi  ályktun húsnæðisnefndar á þingi ASÍ fyrr í mánuðinum en þar hófst önnur málsgrein svona: "Vandi íslenskra heimila er ærin". Í þessu tilfelli skiptir eitt lítið ENN miklu máli nema að ASÍ hafi verið á sömu nótum og Herdís Þorvaldsdóttir í "heimildarmynd"  sinni um árásir sauðkindarinnar á Fjallkonuna.  En Ágúst Marinósson (Morgunblaðið 24/10 2012)  yrkir af þessu tilefni:

Skuldavandann skelfist ég

og skjálfa á mér lærin.

Þjóðin fetar vondan veg
          því veldur bannsett ærin.


Ró og friður er yfir hrossunum hans Kristjáns í Vatnsdalshólum, Jörunarfellið eitt af hæstu fjöllum A-Húnavatnssýslu gnæfir yfir

Bara svo Jónasi sé haldið til haga í pistli dagsins þá er von á honum í bæinn á morgun og mun eins og oft áður koma með strætó. Dvöl hans verður stutt nú sem fyrr og ekki líklegt að hann nái að hrella yfirvöld sem neinu nemur á þessum stutta tíma.

Mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því þó ekki væri fyrir annað en það að greina ríkisendurskoðanda frá,  að ég fékk í gærkvöldi  að gjöf stein einn lítinn og fallegan, fólgin í skjóðu í fánalitunum. Þessi steinn ber í sér töframátt að sögn gefanda sem eru engar aðrar en Töfrakonunar  í Blöndudalnum þær Birgitta Hrönn,  Jóhanna Helga og svo Þuríður sem í nokkur ár bjó í Hvammi í Vatnsdal. Töfrakonunnar kalla þennan stein heilunarstein og fylgir honum vísa sem byrjar svona: "Nú heilunarsteini þú heldur á / og hugsar um draumana rætast þá." Steinnin er silkimjúkur og honum fylgja góðar óskir , þetta góður steinn, gefin af góðum hug og fer vel í lófa. Takk

Þá er Rúnar blessaður mættur með Gluggann.  Maður skynjaði komu hans inn á Aðalgötuna í gegnum þungan bassatakt Strákabandsins sem lék eldfjörugan polka í nýju Súkkunni hans. Og sem fyrr þá sáum við í huganum helstu samkvæmisdansara héraðsins snúast um í hamslausri gleði í takt við tónlistina. Rúnari fylgdi úrkoma sem ekki var búin að ákveða sig hvort heldur ætti að vera snjókoma eða regn en vindurinn hafði hægt um sig.


Ólafur Blómkvist og kona hans hún Jóna Stefánsdóttir á tali við einn af starfsmönnum sláturhússins en sá er frá Nýja Sjálandi. Þegar Ólafur áttaði sig á því að maðurinn væri af kynstofni Maóría frumbyggja Nýja-Sjálands sagði Óli að það væri fallegt fólk sem glögglega má greina á látbragðinu

Glugginn er með öðrum orðum kominn í hús og má þar detta um ýmsar auglýsingar. Má þar m.a. nefna að um miðjan nóvember er hugmyndin að menn fari að kveða og syngja kvæða og tvísöngslög í gömlu kirkjunni á Blönduósi  sem tengjast Vatnsdalnum.  Þar verður örugglega sungið "Farðu vel með Vatnsdæling" og svo framvegis og aðrar merkar stemmur.

Vísa vikunnar er á sínum stað og Rúnar á Skagaströnd opinberar uppgötvun sína  sem okkur Rúnari á Blönduósi hafði lengi grunað að heimskingjar finnast líka hér á meðal okkar í Húnaþingi en sannast sagna eru þeir afar fáir.

En nú er mál að linni og komið að því að finna hið snúna samhengi hlutanna og er okkur Rúnari ærinn vandi á höndum.

Sumar er farið og sést ekki meir,

senn gengur vetur í garð.

Vandinn er ærin(n) segja víst þeir 
          sem vit' ekki hvað af því varð.

 

 

17.10.2012 15:57

úti að aka


                                                     Sjaldan er ein báran stök

    Upp er runninn miðvikudagur, fallegur dagur sem bar í sér mildi og birtu í morgun en heldur hefur hann kólnað þegar liðið hefur á daginn.  Í raun og veru gæti ég látið hér staðar numið því það er í rauninni ekkert við þessi upphafsorð að bæta en ég hef bara ekki vit á því.
 

Jónas Skafta á Ljóninu er alltaf að skreppa úr Reykjavík á Blönduós og notar til þess "strætó". Kemur að morgni og fer að kvöldi. Í síðustu ferð sinni þá sagði hann mér að hann væri gersamlega búinn að skipta um "kúrs" í lífinu. Hann sagði við mig fyrr í haust að hann hyggðist koma aftur norður 1. maí og bæta þá matargerð í ferðaþjónustu sína. En núna er ætlunin að koma um áramótin og hefja starfsemina.  Svona geta hlutirnir breyst hratt.  Ég held að hann hafi fyllst svo mikilli bjartsýni og eldmóði þegar að Valdimar Trausti í Sveitabakaríinu hóf  bakstur  í gamla Krútt bakaríinu við Aðalgötuna.

                                 Béin þrjú;  Bleiki bærinn Blönduós
        
    Það er fleira en þetta að frétta af athafnamönnum á Vesturbakkanum.  Bátur nokkur sem um allnokkuð skeið hefur staðið á þurru á hafnarsvæðinu og ber hið fallega nafn Jón forseti hefur fengið smá aðhlynningu. Eigendur bátsins sem eru Jónas Skafta og nokkrir bræðra hans ásamt Óla hótelstjóra tóku vélina úr bátnum fyrir skömmu og fóru með hana til Reykjavíkur til yfirhalningar. Vélin var í góðu lagi þannig að þeir félagr geta væntanlega gert hann út næsta sumar. Ég sé vel fyrir mér að Óli hótelstjóri verði kapteinn á Jón forseta því hann er ekki ósvipaður Kolbeini kapteini sem þekktur er úr Tinna bókunum.

Rúnar er ekki bara kominn, hann er kominn á splunkunýjan bíl , steingráa súkku. " Það er rosa gott að keyra hann" sagði Rúnar og ljómaði af gleði. "Ég hef aldrei átt nýjan bíl fyrr" bætti hann við um leið og hann lækkaði tónin í þeim Therése og Peter sænskum harmonikkutónlistarmönnum sem voru að flytja "Fingerklådan" af geisladisknum "Marsch pannkaka".

Glugginn er kominn út og kennir þar margra grasa eins og venjulega.  Styrktarsjóðsballið nálgast sem og þjóðaratkvæðagreiðslan. Kórarnir í héraðinu óska eftir röddum og ræða framtíð sína. Og síðast en ekki síst þá er svartur köttur í óskilum á Fornastöðum. Einnig er vísa vikunnar á sínum stað og sem oft áður er Rúnar á Skagaströnd höfundur vísu. Fjallar hún um stríðshörmungar úti í hinum stóra heimi.

En samhengið verður að vera á sínum stað og það getur ekki verið öðruvísi en svona: 

          Með strætó ferðast hann fram og til baka,

          frömuður Jónas og Trausti er að baka.

          Svo segir frá því

          Að Rúnar er í

          spánýrri súkku,  úti að aka.

10.10.2012 14:19

Nú verður hver að bjarga sér

"Það þýðir ekkert að spara og spara og spara svo ekki neitt" sagði Steingrímur heitin Davíðsson á sínum tíma. Þetta hefur skólastjórinn eflaust sagt þegar honum fannst ekki fara saman orð og efndir á hreppsnefndarfundi á Blönduósi fyrir margt löngu. Þessum orðum hef ég stundum velt fyrir mér hin síðari ár vegna þess að mér var innprentað í æsku að græddur væri geymdur eyrir (sjá myndir af sparimerkjabók).


Þessi merka bók var við lýði þegar ég var 7 ára og síðan eru liðin 53 ár

Þessi innræting frá æskuárunum hefur verið býsna lífseig í huga mínum og jaðrar á tíðum við flónsku. Þessi sparimerkjabók sem hér má sjá var sögð verðtryggð en var það bara alls ekki þegar á reyndi og þessi sparnaður æskunnar á árunum kringum 1960 var brenndur upp í verðbólgu og afhentur þeim sem tóku óverðtryggð lán á þeim sama tíma. Margir sem byggðu á sjöunda áratug síðustu aldar horfðu á lánin sín gufa upp í bankakerfinu og sparnaður okkar var notaður í það. Í dag eru í gangi svipuð vinnubrögð nema nú er bæði gengið á þá sem skulda og þá sem eiga inni sparnað þannig að niðurstaðan hlýtur að verða sú að það verður bráðum ekkert eftir inni í bönkunum til að lána út og hvað gerist þá? Reyndar er gengið harðar að þeim sem lagt hafa fyrir í gegnum tíðina og þeir rændir purkunarlaust allan sólarhringinn.  En þessi inngangur er svolítið stílbrot á þessum pistlum og læt ég honum lokið en ég er ekki sáttur við þróun mála.


Októbersólin hverfur ofan í gamla bæinn á Vesturbakkanum

Það gerðist hér á dögunum að Sigurður Ingi á S-Löngumýri setti dráttarvél sína á kaf í Blöndu og komst hvorki lönd né strönd. Með honum í vélinni voru hundurinn hans Glókollur og Sigurvaldi Sigurjónsson stundum kenndur við Kárastaði. Þegar þeir áttuðu sig á stöðu sinni, kölluðu þeir eftir hjálp úr landi, biðu í vélinni og var bjargað. Fyrir nokkrum árum lenti Björn bóndi í Ytri-Löngumýri líka í Blöndu á dráttarvél sinni. Hann hugðist stytta sér leið með því að fara Blöndu á ís en ísinn brotnaði undan vélinni. Með honum í för var hundurinn hans Lubbi, húsbóndaholl og vitur skepna. Þegar vatn nam við sæti dráttavélar áttar Björn bóndi  sig á alvarleika málsins  og lítur djúpt í augu hundsins og segir: "Jæja Lubbi minn nú verður hver að bjarga sér" og kastaði sér út í klakaruðninginn í ánni. Komst hann við illan leik heim að Ártúnum og fékk þar góða umönnun. Af hundinum Lubba er það að segja að hann horfði á eftir húsbónda sínum yfirgefa vélina og hverfa með jökulfljótinu. Hundurinn hugsaði með sér að best væri bara að bíða því vafalítið myndi Björn eða einhver annar koma  til bjarga vélinni. Þar reyndist Lubbi hafa rétt fyrir sér og sat hann rólegur í dráttarvélarsætinu þegar björgun barst. Björn sagði síðar að Lubba hefði orðið svo kalt á pungnum að hann hafi verið ófær að fara á milli bæja í nokkra daga. Þannig var nú það.


Lítil fjóla grær við fótspor mín. Þessar fjólur dafna vel við tröppurnar fyrir framan útidyrnar á heimili mínu

Það var suðaustan  hvassviðri með 8 stiga hita sem mætti manni í morgun. Ég varð samt ekkert var við stólbakið græna sem var staðsett langt fram eftir vikunni austast í Aðalgötunni. Ég sagði frá því í síðasta pistli og lét svona að því liggja að það væri ættað frá Kiljunni og að Friðrik vert hefði tekið bakföll í stólnum og skilið bak frá botni. Friðrik kom til mín í gær og bar af sér allar  sakir og sagði þetta vera verk Ný-Sjálendinga sem búa í Aðalgötunni meðan sláturtíð stendur. Ég tók Friðrik trúanlegan og hér með er stólbakið græna úr sögunni.

Rúnar kom ekki með Gluggann að þessu sinni heldur var það Óli Þorsteins sem birtist með aulýsingablaðið. Óli sagði mér að Rúnar lægi veikur heima og væri einhver flensa að hrjá hann. Sem sagt engir harmonikkutónar sem þenja sig mót sunnan vindinum þennan miðvikudaginn en ég sendi Rúnari mínar bestu batakveðjur. Já Glugginn er kominn og þeir sem ekki geta séð hann með eigin augum geta nálgast hann á huni.is.

Rúnar á Skagaströnd sendir hroka heimsins tóninn í vísu vikunnar og eitt er víst að hroki er leiðinda fyrirbrigði sem fer mönnum illa og getur komið óþægilega við þá sem ekki sjá í gegn um hann.

En samhengið verður að finna á þessum vindasama miðvikudegi og er nærtækast að sækja það í Guðslánið sem fylgir þeim Löngumýrar bændum. Það sem einnig réttlætir þá í þessum pistili er að þeir búa sömu megin við Blöndu og íbúar á Vesturbakkanum við ósinn.

Langt í frá hundurinn Lubbi var móður.
          Í lífháska lenti og varð ekki óður.
         Við Björn heyrðist klifa 
         "Mig langar að lifa,
         legg þú á djúpið, húsbóndi góður".

 

03.10.2012 14:30

að draga andann

Hún bregst ekki hún Halldóra Björnsdóttir landsþjálfari í leikfimi. Ég var búinn að sitja lengi í þungum þönkum og reyna að finna upp á einhverju til að fjalla um í ritæfingu dagsins þegar þess heilsubætandi kona kallaði til mín gegnum útvarpstækið. "Dragðu andann djúpt og andaðu hægt frá þér". Ég hlýddi og viti menn, það opnuðust allar gáttir hugans og ég fór að hamast á lyklaborðinu.  Þegar Halldóra benti mér og landsmönnum öllum á að rétta vel úr sér og vera bein í baki og snúa höfðinu til hægri og svo til vinstri var ekki hægt að komast hjá því að sjá að það var hryssingslegt veður utandyra. Hægra meginn við mig er glugginn og vinstra meginn eru útidyrnar.  Og hvað er þar fyrir utan? Nú veðrið auðvitað og ég segi nú eins og íþróttafréttamaðurinn sagði einhverju sinni þegar íslendingar voru að tapa leik en ekki svo að til háðungar væri: "Þetta lítur ekki allt of illa út"  Það sama má segja um veðrið í dag, það lítur ekki allt of illa út.


Það er komið haust í Húnaþing. Horft yfir til Þingeyra

Það er svo sem ekki frá svo miklu að segja af vesturbakkanum þessa vikuna. Um leið og ég sló þessi orð inn á skjáinn fyrir framan mig þá spratt upp fyrir framan mig mynd af hræringum í gamla bakarínu Krútt. Þar er allt komið á fullt og stefnir í það að Sveitabakaríð flytji þar inn með Valdimar Trausta í fararbroddi. Trésmíðavélarnar sem voru í húsnæðinu eru farnar og inn streyma tæki sem ætlað er að baka ofan í okkur góðgæti hverskonar. Það er sem sagt að færast enn meira líf í Aðalgötuna og spennandi tímar virðast vera framundan.

Þegar ég var á ferðinni áðan og beygði af (án þess að beygja af)  Hnjúkabyggðinni inn á Aðalgötuna varð á vegi mínum Sveinn M. Sveinsson kappklæddur með hundana sína þrjá. Þá uppgötvaði ég strax að það var hundi út sigandi í norðan rigningakaldann. Það er góð regla þegar maður stöðvar bifreið sína á gatnamótum að líta til beggja hliða og það gerði ég og eins og fyrr greinir þá sá ég Svein á vinstri hönd en brotið garðstólbak, líklega ættað frá Kiljunni á þeirri hægri. Þetta stólbak kallaði fram ýmis hugrenningatengsl og datt mér fyrst í hug að Frikki vert hefði hallað sér helst til harklega á þennan græna garðstól sem svo sem vel gæti hafa gerst en bara alls ekki víst. Grænt garðstólbak á götunni getur valdið heilbrotum og gráupplagt að taka það inn í söguna.


Það næðir um menn og málleysingja en þessi mávur heldur ótrauður áfram mót norðaustanáttinni

Jónas á Ljóninu kom hér um daginn með "strætó" að morgni og fór með "strætó að kveldi. Hann var að sækja bókhaldið  sitt. Hann sagði mér að senn færu "sprengjur" að falla og átti hann við málsókn gegn yfirvöldum bæjarins og sýslumanni.  Hann sagði mér líka í óspurðum fréttum að hann ætlaði að opna Ljónið 1. maí og þá verður auk fyrri þjónustu, matur í boði. Mig minnir að hann ætli að hafa kjörorð ljónsins á vori komandi "Matur, kaffi, gisting" Hugsanlega gæti uppröðun orðana verið öðruvísi en það kemur út á eitt.

Rúnar er kominn með Gluggann og enn spilar hann Rangæingana út í eitt. Nú hljómaði úr Súkkunni hans lag sem ber það hlýlega nafn "trimmað á góunni" og veitti ekki af til að mæta norðannepjunni af fullri hörku. Þetta lag er af hljómdisk sem Harmonikkufélag Rangæinga gaf út árið 1999 og hefur að geyma 16 lög eftir ýmsa höfunda bæði íslenska og erlenda.

Glugginn er þunnur í októberbyrjun en ber þó með sér ýmsar haldgóðar upplýsingar til alþýðunnar. Má þar sérstaklega nefna auglýsingu frá búð Sölufélagsins en þar má gera góð kaup á innmat og öðrum kjötvörum. Enn og aftur hvet ég fólk til að skoða þessi kjarakaup og undirbúa sig með ódýran mat fyrir veturinn. Sjálfur keypti ég 7 kíló af eistum í morgun og fór með þau til tengdamóður minnar sem sér um að koma þeim í girnilegan þorrablótsbúning.

Samhengið á þessum miðvikudegi sem lítur ekki allt of illa út, liggur ekki í augum uppi en það er hverjum manni hollt að leita og eins og segir einhversstaðar: "leitið og þér munið finna"

Nú er kominn október

sem allan fjandann í sér ber.

En mikilvægast ætíð er,
          andann draga vel að sér

 

Hleypa síðan anda út,

eyða þar með eymd og sút.

Binda á sorgarsekkinn hnút
          og súpa vel á gleðikút.

 

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63161
Samtals gestir: 11261
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 08:21:36