Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Nóvember

28.11.2012 15:48

myndin af Þórunni

           Í dag er 333. dagur ársins í 48. viku ársins, nánast þrí heilagur
dagur og ýlir er byrjaður. Sem sagt við eigum bara eftir að þreyja ýli, mörsug,þorra og góu, og
þeir sem sjá mánan á lofti í dag verðar þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá hann fullann . Næstu 14 dagana eyðir hann tíma sínum í það að láta sig hverfa svo hægt sé að kveikja á jólatunglinu sem allir bíða spenntir eftir. Það hefur verið meiri ró yfir veðrinu undanfarið og eru flestir sem ég hitti nokkuð sáttir við það. Það er samdóma álit flestra sem eiga allt sitt undir veðri og vindum að tíðarfar fyrri hluta vetrar hafi verið á góðri íslensku einstaklega "hundleiðinlegt" án þess að  á nokkurn hund sé hallað.


 Blanda á lokaspretti sínum til sjávar


Auðnutittlingarnir þeytast þessa dagana á milli trjáa og háma í sig birkifræin sem norðanbálið náði ekki að blása í burtu í síðustu helgaráhlaupum. Þessir fuglar eru smáir en knáir og fara hratt yfir og virðast aldrei una sér hvíldar. Það var gaman að fylgjast með fuglunum í garðinum í hádeginu í dag. Svartþröstur hafði komið sér fyrir öspinni fyrir utan stofugluggan og var yfir honum stóísk ró.  Af og til tylltu sér hjá  honum örlyndir auðnutittlingar svona rétt til að skyggnast yfir birkitrén í garðinum og átta sig á hvar fræ væri að finna. Þetta minnir mig á að ég verð að fara að  gefa þröstunum epli til að maula. Það er allt í lagi að taka þátt í að létta þessum vængjuðu vinum lífsbaráttuna fyrst þeir leggja það á sig að vera með okkur yfir harðasta veturinn og stytta manni stundir ef svo ber undir.

Rjúpnaveiðitímabilinu er lokið þetta árið. Því lauk reyndar hjá mér fyrir 20 árum en minningarnar um gönguferðirnar um fjöll og fyrnindi í leit að þessum fallega, bragðgóða fugli lifa enn. Ég sá í gær á feisbókinni mynd sem einn vinur minn setti inn og var af dóttur hans sitjandi á steini að borða nestið sitt. Þau feðgin höfðu farið til rjúpna og ekkert veitt en voru engu að síður himinsæl. Þessi mynd kallaði fram í huga minn minningarbrot um liðna daga á fjöllum og sendi ég vini mínum það nánast ósjálfrátt ."Þegar ég sá Tótu litlu (Þórunn Erla Guðmundsdóttir) gæða sér á brauðinu úti blátærri náttúrinni þá birtist bara si svona dásamleg minning um það þegar ég eitt sinn, einn með Guði mínum á rjúpnaveiðum sat á steini í Litla-Skarði í Björnólfsstaðnúpnum og snæddi samloku  með dásamlegri lifrarpylsu á milli. Hellti kaffi í brúsalokið og horfði á hvítu fallegu fuglana allt í kringum mig og sá Blönduós sem litla mynd á landakorti. Þarna sá ég smæð okkar og stærð náttúrunnar. Það er gaman að vera einn örlítill dropi í heimsins hafi eina augnabliksmynd í veraldarsögunni."

Jónas vinur minn á Ljóninu á næstum örugglega eftir að segja við mig eftir að hafa lesið þennan pistil, "óttalegt væl og mærðarhjal er þetta og svo vita bitlaust að ekki er mönnum bjóðandi". Takið eftir því ég er að gera Jónasi þetta næstum því upp og er skýringin sú að ég hef bara ekkert heyrt í þessum langreynda baráttumanni í töluverða tíma svo þetta er eina leiðin til að koma honum að í þessum pistli. Af öðrum hér í gamla bæjarhlutanum er svo sem lítið að frétta annað en  að þeir fara reglulega í sund sér til heilsubótar og andlegrar upplyftingar. Reyndar kom Ívar Snorri og leit hér inn og er mikið að hugsa um að fara í smáskipanámið (gamla pungaprófið) svo hann geti siglt um höfin blá með próf upp á vasann.

Rúnar kom við annan mann með Gluggann að þessu sinni. Glugga-Óli var með honum í för og spiluðu þeir Strákabandið af miklum móð og hljómaði hið þekkta lag Rassmína um alla Aðalgötuna þegar þá bar að garði. Mér fannst þetta tíðindi mikil að það þyrfti tvo menn til að bera út Gluggann að þessu sinni og ekki var þykktinni fyrir að fara. Rúnar kom svo aftur skömmu síðar rétti mér blað með vísukorni sem kom upp í huga hans og ætlað mér eftir að hafa lesið síðasta pistil frá mér: Af því hef ég illan keim/ aldrei beitir vörnum. / Hann á út um allan heim/ hóp af merktum börnum.  Ég tók þessari vísu Rúnars af æðruleysi og karlmennsku og aldrei þessu vant svaraði ég nánast um hæl og skírskotaði til óhapps sem Rúnar varð fyrir í hálkunni um daginn og hefur tafið svolítið hans för (ekki að spyrja að kærleikanum hjá mér). Kallinn núna um kaupstað fer/krumpaður og lotinn./ Hann er núna í nóvember, /nánast samanbrotinn.


Svo það sé á hreinu þá eru þetta einu börnin sem merkt eru mér. Hjalti, Ásta Berglind og Einar Örn að skemmta föður sínum og gestum á afmæli mínu í febrúar.

Ingibjörg Eysteinsdóttir á Beinakeldu á vísu vikunnar í Glugganum og er hún að velta því fyrir sér hvernig það endar allt saman, þegar fara í hár saman skynvilla og þrjóska.

En hér skal settur punktur og þó fyrr hefði verið gæti einhverjum látið til hugar koma. Að þessu sinni verður amenið eftir efninu svona:

 

Nú gildir að glata ekki glórunni,

gleðinni og sjálfri líftórunni.

Því minnist ég þess

hve glaður og hress

ég varð við myndina af Þórunni.

 

 

21.11.2012 15:33

enginn órói í mér

Það kom upp sérstök staða á heimili mínu í gærkvöldi. Ég var í sakleysi mínu að horfa á meistaradeildina í knattspyrnu þegar eiginkonan sem sat þá stundina fyrir framan tölvuna með feisbókina opna, kallaði ákveðinni röddu. Nonni! Komdu hérna og sjáðu! Þar sem Tjélsí var í  vita vonlausri stöðu brást ég skjótt við kallinu  því líkast til myndi ég ekki missa af neinu merkilegu og eins var eitthvað í rödd konunnar . Ég stóð sem sagt upp úr hægindastólnum og rölti inn í tölvuherbergið og mætti þar strax torræðu augnaráði konu minnar. "Kannast þú við þetta barn" segir hún og sýnir mér mynd á skjánum af geðugri konu halda á litlu sveinbarni. Ég sá til þess að gera fljótt að konuna þekkti ég ekki en þar sem mörg lítil börn eru svo lík tók ég mér lengri tíma til að gaumgæfa barnað. "Nei" sagði ég. "Hversvegna spyrðu?". "Barnið er merkt þér" sagði mín umbúðalaust. Ég leit aftur á skjáinn og var engu nær. "Ég kannast ekkert við þetta gæfulega fólk" ítrekaði ég en það var rétt hjá konu minni að þetta barn var merkt (tagged) mér, um það var ekki að villast. Það tók mig til þess að gera ekki mjög langan tíma að sannfæra konu mína að ég væri ekkert viðriðinn þennan króga en það kitlaði samt svolítið hégómagirndina í mér að einhver úti í henni veröld, já og konan mín (smá stund) teldu að ég ætti hlut í litlu fallegu barni bara si svona. Síðast þegar ég vissi var ekki búið að leiðrétta þetta svo vinir mínir á feisbók geta séð þetta með eigin augum.


Listin stendur af sér öll veður

Í dag er nákvæmlega einn mánuður þar til sólin hættir að lækka á himinfestingunni og fer að birta upp norðurhvelið. Hugsið ykkur hvað tíminn er fljótur að líða, maður veit ekki fyrr til en allt í einu er komið vor. Ég hefði ef til vill átt að hafa þennan inngang eitthvað á þessa leið. Sólin er enn að lækka og maður þarf að bíða í heilan mánuð þar til þessum myrkraverkum lýkur. Og  núna er úti vetur og það býsna harður. Mikið andskoti er langt í birtuna og vorið. En þar sem þetta er ég sem stunda þessar ritæfingar þá varð inngangurinn ekki á þennan veg. Ég er nefnilega svolítill almanaksnörd og velti oft fyrir mér sólarhæð miðað við árstíma og yfirfæri sólarhæð frá einum tíma til annars. Til dæmis hvað sólin í dag er hátt á lofti og hvaða dag eftir áramót nær hún sambærilegri hæð. Ég held að þessi áráttuhegðun sé liður í því að stytta veturinn sem mest þó svo ég sé ákaflega elskur að þorranum og þá einkum og sér í lagi matnum sem honum fylgir. Ég hef trú á því að flestir finni sér einhverja leið til að komast sem notalegast í geng um skammdegið. Reyndar er það svo og kom fram í rannsókn að tíðni skammdegisþunglyndis var lægri hjá íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi á norðlægari breiddargráðu. Þetta skýra menn helst með því að orðið hafi einhverskonar náttúruval gegnum 1000 ára einangrun þjóðarinnar.

Það er lítið að gerast á Vesturbakkanum það ég best veit annað en að bakað er á nóttinni og vín selt á daginn. Ég hef lítið séð af íbúunum nema svona í fjarlægð og í Jónasi á Ljóninu hef ég bara ekki heyrt í hart nær viku. Kannski skýrist þetta af tíðarfarinu, menn eru ekki eins mikið á ferli þegar færðin er eins og hún er. Hundarnir í gamla bænum eru lítið á ferli enda hundi vart út sigandi en þó bregður stundum fyrir þýska fjárhundinum sem tilheyrir bakaríinu.


Hrafninn þarf að hafa úti allar klær til að komast af

Glugginn er kominn og það var enginn Rúnar sem kom með hann. Það var enginn Óli sem kom með hann. Það var hann Héddi (Skarphéðinn Ragnarsson) sem kom með Gluggann og hygg ég að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hann hafi borið hann út a.m.k. hér um slóðir. Það var engin harmonikkutónlist sem fylgdi Hédda heldur gnauðið í norðausanáttinni sem mér finnst svolítið undarlegt því þessi mæti maður er lúnkinn harmonikkuleikari. Héddi sagði "sæll" þegar hann kom og örskömmu síðar þegar hann fór "bless". Hvað skyldi hafa komið upp á fyrst hvorki Rúnar eða Óli komu ekki með Gluggann. Ég velti vöngum í smástund yfir þessu og leit síðan út um gluggann og sá veðrið og þá blasti svarið við. Það er fokið í flest skjól.

Gluggann geta menn nálgast í verslunum og ýmsum fleiri stöðum sem og inni á huni.is , svo það er óþarfi að tíunda efni hans. Vísa vikunnar er líka á sínum stað og eftir Rúnar á Skagaströnd. Rúnar fjallar um ástina og líkir henni við höfin sjö, hyldjúp  bæði og mikil. Það er með ástina líkt og svo margt annað að hún hefur mörg andlit og birtingarform.

En nú skal samhengið fundið og komið í það form að vit sé í og alþýðan skilji. Og auðvitað liggur þetta allt í augum uppi og einkar gaman að koma því á framfæri eftir að hafa fengið fyrir þremur vikum þennan dóm frá Hjálmari Jónssyni:

"Illa Jón í frosti fer,
feyskinn, beygður, loppinn.
Verst mun þó hann ófrjór er
og allur samanskroppinn."

Því sendi ég þetta frá mér með ómældri gleði:

Í mér er enginn órói,
          yfir engu því að kveljast.
         Á  feisbók mér kenndur er krógi
          sem kostulegt verður að teljast.

 

14.11.2012 14:57

lífið gengur sinn gang

Er vatn vatnshelt? Mér datt þetta í hug í gær þegar ég hafði ekkert annað með hugann að gera en láta mér detta þetta í hug. Búinn að fara á 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blönduósi og hitta þar fullt af fólki í hátíðarskapi. Hvað er þá eðlilegra heldur en að velta fyrir sér hvort að vatn sé vatnshelt. Mér finnst þessi spurning eiga fullkomnlega rétt á sér og allrar athygli verð. Því meira sem ég hugsa um þessa spurningu því minna hugsa ég um annað sem ég hefði kannski átt að gera og hafa meiri áhyggjur af .

  Fuglinn í fjörunni er líkast til vatnsheldur

Ég hef haft það fyrir sið að skrifa þessa pistla á miðvikudögum og þar sem ég er mikill aðdáandi Steins Steinars þá er kominn tími til að við sameinum krafta okkar . Ég með þessum skrifum og hann með því þar sem hann lýsir  afar vel í kvæðinu "miðvikudagur" hvernig þessir dagar ganga fyrir sig og hvernig lífið gengur fyrir sig. Þetta ljóð hefði getað verið ort í gær :

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr'á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn
.

 

Já, lífið hefur sinn gang og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn það er deginum ljósara. Þennan blessaða miðvikudag er veðrið stillt hér við botn Húnafjarðar og hitinn hangir rétt fyrir ofan frostmarkið. Þetta er svona dagur til að skapa ísingu á leiðum mannins um daginn og veginn og full ástæða til að hafa á sér allan vara í þessu tilliti. En hvað sem öllum hættum hinnar mögnuðu náttúru líður þá er full ástæða til að fara að orðum Halldóru Björnsdóttur og draga andann djúpt og anda hægt og rólega frá sér. Finna hinn máttuga loftstraum hríslast um loftvegi lungnana og fylla lungnablöðrurnar . Loft sem mettar blóðið súrefni og fær okkur til að gera allt sem okkur dettur hug. Fær okkur til að viðhalda gangi lífsins.


Að öllum líkindum Röðulshrossin á leiðinni heim eftir haustbeit á Björnólfsstöðum

 

Af Vesturbakkanum er til þess að gera lítið að frétta. Lífið hefur þar sinn gang eins og annarsstaðar. Það er bakað og maður sér Svein í +Film, Frikka vert og Óla hótelstjóra  annað slagið í mýflugumynd. Það er svolítið erfitt að skrifa mýflugumynd þegar þessir menn eru nefndir en ég læt mig nú hafa það að þessu sinni. Jónas hringir í mig endrum og eins svona til að segja mér helstu fréttir í baráttu sinni við lífið og tilveruna. Það gengur á ýmsu en eitt má þó segja að alltaf er Jónas sannfærður um sigur í þessari baráttu. En svona til þess að geta þess þá birtist Jónas hér aldeilis "óforvarendis" eftir að ég var búinn að rita þessi orð hér fyrir ofan og þurfti á loftlykli að halda sem hann og fékk lánaðan. Ívar Snorri kom hér líka fyrir hádegi með varðhundinn sinn smávaxna, Mola. Ég sagði honum að Moli gæti drepið hund bakaradrengsins. "Hvernig má það vera að smá hundur geti drepið stóran þýskan fjárhund" spurði Ívar forviða. "Jú Ívar minn, hann gæti staðið í honum".

 

Rúnar er kominn með Gluggann sem sannar bara það að lífið gengur sinn gang. Honum fylgdi eins og venjulega harmonikkutónar og nú eins og svo oft áður var það Strákabandið með fjörugan polka sem hljómaði vel í hæglætis veðrinu sem umlykur okkur í Aðalgötunni þessa stundina. Rúnar, sem kannski er óþarfi að segja frá var bara í góðu jafnvægi og spurði þær Brynju og Möggu hvernig þeim hefði liðið eftir kossinn frá sér síðasta miðvikudag. Þær báru sig vel og sögðust hafa komist frá honum (kossinum) að mestu óskaddaðar.

 

Eins og þeir vita sem lesa þessi skrif á kemur Glugginn, auglýsingablað okkar A-Húnvetninga ætíð út á miðvikudegi og Glugginn er kominn. Þar er margt að finna eins og það að hægt er að kaupa jólaseríur í heimabyggð, fá bílinn sinn þrifinn og síðast en ekki síst þá er von á Gísla Einarssyni (Landa-Gísli) a.m.k í þriðja skiptið í mánuðinum til mannamótsstýringar.

 

Gluggavísa vikunnar er nú sem svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson á Skagatrönd og fjallar um þá sem fallnir eru frá og hvernig minningin um þá lifir í hugum okkar eða eins og skáldið undir Borginni orðar það: Fólkið sem lifði og farið er/finn ég í hjartans málum./Það er í brjósti þér og mér,/það er í okkar sálum.

 

Nú skal settur punktur og samhengið leitað uppi

 

Þeir, sem mun þekkja á litla og stóra,

þykir skrýtið og kalla víst óra.

Og telja það synd

að mýflugumynd

sé til af Ólafi (hótel)stjóra.

 

En Samhengið gæti líka verið þetta:

 

Hálfnaður núna er nóvember

og nóttin  dagsbirtu malar.

Kyssand' um búðina kappinn nú fer

og kátur við stelpurnar hjalar.

07.11.2012 16:22

Heiðursmaðurinn Rúnar

Obama er víst maður dagsins um það er ekki að villast. En það er miðvikudagur engu að síður og dagurinn hefur sinn gang hvað sem öllu líður. Þetta er rólegur, þungbúinn dagur með frostúða sem gerir allar leiðir flughálar og um leið, kröfur til okkar að stíga varlega til jarðar og feta slóðina af festu og öryggi.


Verk Guðjóns Samúelssonar eftir veðuráhlaup síðustu helgar

Síðastliðnir dagar hafa ekki verið neitt sérstaklega spennandi til útivistir og ræður þar að mestu, færðin. Vegna þessa þá veit ég lítið um ástand fugla himinsins á mínum slóðum en ég sá hann Guðbrand nágranakött í gærkvöldi í garðinum mínum. Ég bankaði laust í stofugluggann til að vekja athygli hans á mér. Guðbrandur stöðvaði för sína og leit upp. Þá opnaði ég dyrnar út á pall og spjallaði lítilega við kappann. "Jæja Guðbrandur minn, ertu að svipast um eftir fuglunum mínum eða eru mýsnar verkefni kvöldsins" sagði ég si svona við köttinn. Guðbrandur settist, starði á mig og velti vöngum sitt á hvað en sagði ekki neitt. "Það er hrollkalt úti, þú ættir bara að fara heim og fá hita í kroppinn" bætti ég við og enn hélt Guðbrandur áfram að velta vöngum. "Kannski ætti ég að rifja upp söguna með kettinum Guðbrandi þegar hann kom um miðja nótt með lifandi önd inn um gluggann á heimili sínu fyrir nokkru, þá kannski hætti hann að velta vöngum" hugsaði ég með mér en bætti svo við í huganum, "það er líkast til tilgangslaust".  En hvað um það þá eru fyrir því nokkuð áræðanlegar heimildir að Guðbrandur köttur hafi komið með lifandi önd til síns heima um miðja nótt og valdi slíku fjaðrafoki að Árni Þorgilsson (Árni ekkert mál) er ekki enn búinn að jafna sig og er þá til þess að gera mikið sagt. Sagan af Árna og öndinni er svo efni í annan pistil.

Í síðasti mánuði var algjör sprenging í heimsóknum á heimasíðu mína. Að meðaltali voru um 110 tölvur á dag sem heimsóttu síðuna. Þetta hefur ekki gerst fyrr og ég var svona að velta því fyrir mér hvað olli þessu. En ég hætti mjög fljótt að velta vöngum og eyða tíma í þessar skyndilegu vinsældir þegar ég skoða heimsóknartölur í þessum mánuði. Það rétt slefar yfir 50 tölvur (IP-tölur) á dag og er það mikið fall frá síðasta mánuði. Ég hélt fyrst að vinsældir mínar hefðu vaxið við það að Jónas Skafta fór suður eða að mér hefði tekist svona vel upp í almennum skemmtilegheitum. Þetta er vissulega sterk rök en einhvern veginn hef ég ekki trú á því að ástæðan liggi þarna. En hver sem ástæðan er þá hlýtur líka að vera ástæða fyrir algjöru hruni í heimsóknum á síðuna mína í byrjun nóvember. Ég læt mér nægja að álykta út frá þessu að lífið sé bara svona upp og niður eins og gengur til hjá okkur flestum.

Seint koma sumir en koma þó. Þetta má segja um Rúnar sem kom með Gluggann langt gengin í þrjú.  Hann var svo himinsæll og hamingjusamur, það sáu allir sem urðu á vegi hans hér í Aðalgötunni. Hart var gengið að honum til að útskýra alla þessi gleði sem með honum bjó og fyrir rest kom svarið. Hann var að taka við viðurkenningu fyrir 25 ára farsæl störf hjá Samkaupum og Kaupfélaginu. Honum var umsvifalaust fyrirgefið  og hlóðum við á hann hamingjuóskum sem hann tók við af einlægni. Ég veit ekki hvort þið trúið því að það er eitthvað svo gefandi að hitta mann með sanna gleði í hjarta.  Þess ber þó að geta að harmonikkuhljómar streymdu úr Súkkunni hans en það fórst fyrir að spyrja hverjir stæðu á bak við þá. Grun hef ég þó um að enn einu sinni hafi Strákabandið ratað undir geislann. Rúnar hafði lítin tíma til að sinna mér að þessu sinni og bað mig vel að lifa og var stokkinn út þegar hann var búinn að kyssa Möggu og Brynju vel og rækilega. Ég komst frá þessum atburðum ókysstur en ég náði þó að smella af kappanum mynd með viðurkenningarskjalið.


Glugginn er kominn út í 40. sinn á þessu ári. Eins og venjulega er þar ýmsar upplýsingar að finna sem of langt mál væri upp að telja. Vert er þó að geta fjölskylduskemmtunar sem verður haldin í félagsheimilinu á laugardaginn til styrktar Guðjóni Óla og fjölskyldu hans.

Vísa vikunnar er eftir og haldið ykkur fast,  Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar um Kötu sem einhver mætti um kvöld eitt og bauð af sér góðan þokka og piltinn Þránd í Götu sem fáir hafa í hávegum (hér er ekki átt við hinn færeyska Þránd).

En nú er kominn tími á að koma auga á samhengið í hlutunum og það er svona að þessu sinni:

 

Hrærður með hlátrasköllum

hann kom eins og ofan af fjöllum.

Um strákinn Obama

mér stendur á sama,
          en samgleðst  Rúnari öllum.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56684
Samtals gestir: 10458
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:18:59