Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2012 Desember

20.12.2012 17:34

Í sól og vetraryl

Lífið tekur stundum óvænta stefnu og sannar hið fornkveðna að engin ræður för nema kannski maður sjálfur. Hér sit ég úti á svölum hótels  á ensku ströndinni í 20 stiga og rifja upp daginn.

Við vöknuðum  kl 9 eftir um 8 tíma svefn. Ég, aldrei þessu vant var á undan fram úr. Ég horfði í smástund inn í tóman ísskápinn og áttaði mig fljótt á verkefni morgunsins. Íbúðin, sem við erum farin að átta okkur á er hönnuð af veitingahúseigendum. Það er þó huggun harmi gegn að það er hægt að sjóða allt sem hugur stendur til en bakarofninn er víðsfjarri. Hitinn sem sólinni fylgir er með miklum ágætum, og er þess valdandi að sólarvörnin er nauðsynleg.

Þegar við hjónin eftir velheppnaða verslunarferð í SPAR veslun í nágenninu vorum búin að smyrja brauðið og sjóða eggin þá smurðum við hvort annað með með sólarvörn á bakið.

Til að gera tiltölulega litla sögu enn minni þá fórum við í sólbað í eina klukkustund og fjörtíuog sjö mínútur. Rétt er að geta þess að á milli smurða brauðsins og sólbaðsins þá komum við internetinu í tölvuna.

Eftir þá sérstæðu upplifun að upplifa það  að sólin væri farin að þjaka húsmóðirina var ákveðið að fara í rannsóknarleiðangur um næsta nágenni. Við gengum og rifjuðum upp allan fjandann frá fyrri ferðum og  kom þá á daginn að glópurinn ég, sem ekkert man, mundi miklu meira.

Í raun er hægt að gera hér hlé en áður en það er gert er mikilvægt að leggja nafnið Guðrún Ólafsdóttir á minnið. Kona sem er 15 árum eldri en við, ættuð frá Akureyri óskaði okkur alls hins besta þegar við hittum hana í HyperDyno.
 

Þegar þessar línur eru skrifaðar, lækkar sólin á lofti og ef Guð lofar kemst hún á morgun ekki lægra nema þessi margumræddi heimsendir komi í heimsókn. 

12.12.2012 16:21

óvænt brottför að heiman

12.12.12 eru einkennistölur dagsins og það skemmtilega er að þær ber upp á miðvikudag. Þessi dagur er bjartur og stilltur hér við botn Húnafjarðar og ekkert sem bendir til þess að þann 21.12.12 verði heimsendir. Það eru einhverjir að spá þessu og kenna Maya indíánum um. Hvernig bregst maður við svona fréttum. Til þess að gera langa sögu stutta þá er svarið mjög einfallt. Ekki neitt.


Æðarfuglinn er þrautseigur fugl og heldur kyrru fyrir á landinu bláa allt árið

Það er gleðilegt að segja frá því að nú er farið að loga ljós í gömlu kirkjunni. Ég nefndi það af einfeldni minni um daginn að kirkjuhöfðinginn ætti nú að tendra á svo sem einni 40 kerta peru en hann hefur gert gott betur og streyma nú hlýjir ljósgeislar út í svartasta skammdegið í gamla bænum frá fjórum fjörutíu kerta perum. Sveinn í Plúsfilm (kirkjuhöfðinginn) fer oft á dag með geltandi hundkórinn sinn til að líta til með ljósunum í kirkjunni og vekur þessi hópganga oftast verðskuldaða athygli en hér er á ferðinni sérstæður kvintett.

Rúnar er kominn með Gluggann og enn er Strákabandið undir geislanum hjá honum. Það fer nú að koma tíma á hina gömlu listamenn eins og Arnt Haugen og Familien Blix. Ég benti honum á þessa augljósu staðreynd og hans svar  var einfallt. "Nú ! já!" og svo var það bara ekki rætt meir. Reyndar eru fleiri listamenn sem hann hefur sett út í horn og má þar m.a. nefna meistarann Carl Jularbo. En ekki ber að vanþakka það að Rúnar skuli á annað borð nenna að breiða út Gluggann og hressandi harmonikkutóna um sitt nánasta umhverfi og noti til til þess Strákabandið.


Spákonufellið sem er uppáhaldsfjall Skagstrendinga sem eru samkvæmt áræðanlegum heimildum Austur-Húnvetningar

Já Glugginn er kominn og er hann aðeins farinn að þykkna enda að koma jól. Það er farið að minna á þorrablótin og Rauði krossinn sem skiptist í tvær deildir hér í A-Hún, annarsvegar í Austur-Húnavatnssýsludeild og hinsvegar Skagastrandardeild minna líka á sig. Ég staldraði við þessa skiptingu Rauða krossins  smá stund og fór að velta vöngum yfir því hversvegna Skagstrendingar eru ekki í A-Húnavatnssýsludeildinni því samkvæmt mínum heimildum er Skagaströnd í A-Húnavatnssýslu. En höfuðskáld Skagstrendinga sem ég lít á sem A-Húnvetning á vísu vikunnar sem fjallar um það hvað tíminn líður hratt og jólin koma áður en maður veit af.


Hugur hins miðaldra manns er kominn á flug og skyldi engan undra

Þetta er síðasta ritæfingin fyrir jól, já á þessu ári, því mín ágæta eiginkona álpaðist til að taka þátt í einhverjum feisbókarleik hjá einni ferðaskrifstofunni og sat eftir hann uppi með tvo flugmiða til Kanarí yfir jólin.  Þessi vinningur sem kom svo óvænt  hefur kostað margar vangaveltur og ég sit m.a. uppi með ónotað jólatré úr Hamarsskógi. Eins hefur marg oft farið í gegnum hugann hvernig það sé að upplifa aðfangadagskvöld án rjúpnalyktarinnar og bragðsins. Missa af því þegar jólin eru hringd inn í útvarpinu. Missa af því að hafa ekki ættingja og vini fyrir augum. Það er svo margt sem tengist jólum og svo sterkar hefðir sem þeim fylgja að það getur verið erfið ákvörðun fyrir íhaldssaman karl á ofanveðum miðjum aldri að taka svo stóra og mikla skyndiákvörðun. En núna stend ég frammi fyrir þessari staðreynd og verð að fara að dusta rykið af stuttbuxunum og slæva gömlu góðu minningarnar sem tengjast jólunum. Það verður skrýtið að vera ekki með sínu fólki á gamlárskvöld og horfa á Skaupið og fagna nýju ári. Já þetta verður allt öðru vísi og án vafa bara skemmtilegt. Þið vitið ekki hvað hugur minn reikar um víðan völl en það hljóta bara að vera eðlileg viðbrögð við óvæntu spennandi áreiti.

En hér er mál að linni og samhengið bara eitt en bara eitt svona í lokin. Gleðleg jól og og megi farsæld ykkur fylgja sem þessar línur lesið:

Nú tíni ég saman öll sólartólin,

er sígur á himni vetrarsólin.

Nú er ég farinn

á Klörubarinn
          og verð þar yfir jólin.

05.12.2012 16:09

lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

       Sum orð eiga erfitt uppdráttar vegna þess hversu þversum þau eru í beygingarlegu tilliti. Gott dæmi um þetta er orðið "kýr" og hafa margir lærðir menn jafnt sem leikir fallið í þá gryfju að nota bara orðið "belja" í staðinn. Fyrir rúmum tuttugu árum skrifaði ég mjög áhrifamikla frétt um kúna Von frá Fremstagili sem lengdi líf sitt um sólarhring. Frétt þessi rataði meðal annars í "þjóðarsálina" þátt sem Stefán Jón Hafstein stjórnaði á sínum tíma á Rás 2 og var dráp kýrinnar harðlega gagnrýnt. Ég er lengi búinn að leita að þessari frétt í greinasafni Morgunblaðsins en finn hana bara ekki. Þykir mér það miður því fréttina má hiklaust nota sem kennsluefni  í íslensku hvernig  íslenska kýrin í eintölu beygist,  þó ég segi sjálfur frá. Vegna þess að ég held að þessi frétt sé að öllum líkindum horfin úr gagnasafni heimsins hef ég ákveðið að endurskrifa hana hér með:


"Blönduós

Kýr lengdi líf sitt um sólarhring

Einstæð lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

Kýrin Von frá Fremstagili í Langadal gerði sér lítið fyrir sl. fimmtudag og hljóp frá gæslumönnum sínum við sláturhúdyrnar á Blönduósi og hélt heim á leið. Rétt tæpur sólarhringur leið áður en kýrin náðist á ný og þurfti þá að skjóta hana á færi þar sem hún jórtraði undir barði á bænum Blöndubakka skammt norðan við Blönduós. Á þessum tæpa sólarhring hafði Von lagt að minnsta kosti 30 kílómetra að baki, brotið niður nokkrar girðingar, synt yfir vatn og farið yfir ótal skurði.

Eftir að kýrin skildi við eiganda sinn og sláturhúsfólk í dyrum sláturhússins stefndi hún vestur fjöruna og í átt að ósi Blöndu. Í fjörunn skammt fyrir neðan áhaldahús Pósts og síma lá leið Vonar upp á aðalgötu (Húnabraut) og fór hún þar yfir tvær lóðir og voru girðingar engin hindrun þegar átti að króa hana þar af. Eftir atganginn á lóðunum fór kýrin aftur niður í fjöru en hafði stuttan "stans" og fór aftur til baka og þá upp á Skúlabrautina , upp Klaufina og linnti ekki ferðinni fyrr en í nágenni við vatnstank Blönduósinga sem stendur um 3 kílómetra austur af bænum. Þegar hér var komið ferðum Vonar íhuguðu menn að skjóta kúna og var kallað eftir vopni. Var eins og kýrin skynjaði hvað til stóð því nú skipti engum togum, Von lagði aftur af stað og stefndi nú til fjalls og leit lengi vel út fyrir að það áform hennar heppnaðist. Seint og um síðir tókst að komast í veg fyrir kúna og á leið sinni til baka synti kýrin dágóðan spöl í Grafarvatni sem er skammt vestan við bæinn Breiðavað í Langadal. Upp úr vatninu hélt kýrin ferðinni áfram og fór þá yfir þjóðveg 1 og niður að Blöndu og þegar hér var komið sögu var Von ekki svo fjarri heimafjósi sínu að tilraun var gerð til að reka hana heim að Fremstagili aftur. Við Baslhaga, en svo kallast skúrbygging ein á Blöndubökkum frammi í Langadal, neitaði kýrin að fara lengra fram dalinn en þess í stað sameinaðist hún hrossastóði á Björnólfsstaðatúninu en þá var komið myrkur og var ákveðið að freista þess að ná kúnni í birtingu daginn eftir. En rétt fyrir miðnætti er hringt í eiganda kýrinnar og honum tilkynnt að hún væri aftur komin á Blönduós, nánar tiltekið á lóð sláturhússins. Hófst nú eltingaleikur að nýju en honum lauk tveimur klukkutímum síðar er kýrin hvarf leitarmönnum út í myrkrið rétt austan Blönduóss í svokölluðum Ennishvammi. Leit hófst síðan strax aftur um leið og birti og um hádegisbil fannst kýrin undir barði á bænum Blöndubakka og var þá kölluð til þekkt grenjaskytta og skömmu síðar féll kýrin Von í valinn fyrir skoti skyttunar. Þykir lífsviljinn með ólíkindum í Von því leið sú sem kýrin lagði að baki var að minnsta kosti þrjátíu kílómetra, ekki alltaf greið leið og voru vötn, skurðir og girðinar engin hindrun."  Þannig fór um sjóferð þá og allt gerðist þetta á einum sólarhring í miðjum október árið 1991.


     Fréttir af Vesturbakkanum verða að bíða betri tíma en þess ber þó að geta að Ívar Snorri og fjölskylda eru farin að selja jólatré úr Hamarsskógi og Jónas Skafta liggur í skriftum og viðar að sér efni sem ætlunin er að nota í blaðaviðtal í DV. Svo er annað sem vert er að vekja athygli á en það er að niðamyrkur er í gömlu kirkjunni þegar aðventan er gengin í garð. Ég trúi ekki öðru en að Sveinn í Plúsfilm splæsi í eina 40 kerta ljósperu sem fengi að varpa daufri birtu út í svartasta skammdegið.


 Birtan á undir högg að sækja þessa síðustu daga. Horft til birtunnar með Borgarvirki fyrir miðri mynd

     Rúnar er kominn og þar með Glugginn og að venju fylgdi honum eldfjörugur polki úr dragspilum Strákbandsins. Það var meiri ró yfir veðrinu en Strákabandinu en hálkan er allt um liggjandi og einn og einn
vegfarandi. Það er allt annað að sjá Rúnar í dag en fyrir viku. Þá hafði hann
Glugga-Óla með sér í för því hann gatt lítið annað gert en stýra og stíga á
bensíngjöf Súkkunar vegna hálkumeiðsla sem hann hlaut. En Rúnar er allur að hressast og meira segja svo að hann er farinn að safna skeggi á efri vörina.
Ekki svona skeggi eins og ég ber heldur nær skegg hans aðeins á milli
nasaholana , svona næstum eins og Chaplin sálugi hafði.

     Glugginn er kominn og hann geta menn skoðað inni á huni.is og vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Önnu Árnadóttur og fjallar um skammdegið og þá birtu sem kemur með blessuðum jólunum.

     En hér skal staðar numið og samhengið liggur í augum uppi þó von Vonar um líf hafi að engu orðið haustið 1991. En við lifum samt í voninni því brátt fer niðurgangi sólar að ljúka.

Ég varð þessa sögu að segja,

um skepnu sem stríð mátti heygja.
          Hún fjallar um Von
          sem átt´enga von
          um annað en þurfa að deyja

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63171
Samtals gestir: 11267
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:57:43