Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Janúar

30.01.2013 14:17

Gúggúl rekinn á gat

Lífsbókin ljót er hjá sumum,

Lánlausir  vaða þeir elg.
          Sjaldgæft hjá svona gumum,
         Sannleika að leggja í belg.

Ég fór að velta því fyrir mér hvernig það væri að leggja af stað inn í daginn með svona vísu í farteskinu. Er hjálp í svona byrjun?  Er þessi vísa líkleg til að vísa manni veginn að ánægjulegri kvöldstund. Ég bar þetta undir Jónas á Ljóninu sem sat hjá mér þegar þessari vísu skaut upp í kollinum hjá mér og spurði hann um leið hvort það væri ekki miklu sniðugra og betra veganesti að byrja bara á leiðara Morgunblaðsins til fara með inn í daginn. Ég lýg því ekki að þessi fánaberi réttlætis og alþýðuástar missti næstum því andlitið við þessar vangaveltur mínar.  Og svo var af honum dregið við þetta allt að hann kom varla upp orði til að tjá sig um þetta. Eina sem hann gat sagt að viti var "Æji Jón! Þú ert ekki með fullu viti". Svona geta menn haft ólíka sýn á það hvernig maður á að byrja daginn svo líkurnar á ánægjulegri kvöldstund aukist.


Hafið bláa hafið hugann dregur í lok janúar við botn Húnafjarðar það Herrans ár 2013

Sem dæmi um ánægjulega byrjun á degi þá kemst ég vart hjá að greina frá eftirfarandi. Í gær fékk ég sem svo oft áður ánægjulegt símtal og að þessu sinni frá henni Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli.  Við ræddum margt og komum víða við. Eitt var þó ofarlega í huga Sigríðar en það var vísa eða réttara sagt hver væri höfundur hennar. Hún var búin að leita svara  víða og nefndi marga þekkta vísnamenn og þar á meðal Árna Jónsson umsjónamann vísnahorns Bændablaðsins sem hún hefði leitað til án árangurs. Ég var svolítið upp með mér þegar hún spurði mig líka hvort ég kannaðist við eftirfarandi vísu og eftir hvern hún væri:

Samleik eru systurnar,
          sorg og gleði háðar.
          Ef þú leitar annarar,
          oft þú finnur báðar.

Ég sagði nú eins og var að ég kannaðist ekki við þessa vísu né vissi eftir hvern hún er. En meðan ég spjallaði við við Sigríði sló ég vísuna inn í hinn margrómaða leitarheila sem kallaður er Gúggúl. Og það get ég staðfest að Gúggúl var ekkert betri en við Árni og átti heldur ekkert svar. Ég tjáði Sigríði að það væri ekki nema von að við kynnum ekki við þessu svar þegar Gúggúl sjálfur vissi það ekki. Ég sagði henni að það væri ekki á hverjum degi sem Gúggúl gæti ekki svarað og fannst mikið til koma að húsfreyjur í Torfalækjarhreppi hinum forna gætu rekið Gúggúl á gat.  Nú er spurningin hvort einhver af dyggum lesendum þessarar síðu vita betur heldur en Gúggúl og við hin sem nefnd eru til þessarar sögu.


Feðginin þau Ívar Snorri og Dagbjört Henný með Mola og kynbótagripinn hann Bósa

Það sem svona helst er að frétta af Vesturbakkanum er að Ívar Snorri er kominn með kynbótagrip sem heitir Bósi og er austan af landi. Bósi er gulur smáhundur af sama kyni og varðhundurinn hans, hann Moli.   Ívar Snorri og dóttir hans hún Dagbjört Henný komu með nýja Vesturbakkabúann og kynntu hann fyrir mér. Bósi kynbótagripur var allur miklu rýrari  heldur en Moli og auk þess klæddur í hettupeysu líkt og sumir íbúar Vesturbakkans.  Mér finnst það svolítið svalt að eiga kynbótagrip og nefna hann Bósa. Reyndar sögðu þau feðgin að hann héti í höfuðið á teiknimyndapersónunni Bósa Ljósári en það má einu gilda. Það verður spennandi að sjá þegar Sveinn í plúsfilm og Ívar Snorri hittast á förnum vegi með alla smáhundana sína. Þá verður hægt að segja með sanni að þá hittast snillingar í hundaþvögu.

Rúnar er kominn og klukkan farin að halla verulega í  í tvö. Veðrið var orðið ljúft eins og það gerist best á miðvikudegi á miðjum vetri. Loksins, loksins hugsaði ég með mér þegar harmonikkutónarnir helltust yfir Aðalgötuna. Rúnar er búinn að finna Arnt Haugen og lék hann af fingrum fram bráðskemmtilegan ræl sem heitir því undursamlega nafni "over stokk og sten" . Yfir stokk og steina komu þeir Rúnar og Arnt og höfðu með sér Glugga dagsins. Veri þeir velkomnir.

Rúnar er farinn að hressast eftir fallið um daginn en það hvíldi þó dálítið þungt á honum vísnaskuld við tvær konur , þær Önnu Gunnu frá Skinnastöðum og Sigríði Svavarsdóttur frá Öxl. Sem sannur vinur lagði ég vini mínum Rúnari lið til að hann mætti eiga afslappaðan og gleðilegan dag og því koma þessar vísur sem afborgun á vísnaskuldinni.

           Fim á hnakka snýst og hæl,
                     heiðurkonan Anna G.    
                    Við karlinn Kristó dansar ræl,
                    kokhraust eins og ekkert sé.

Og svo þessi:

          Siggu ennþá skulda ég
                    sykusæta stöku.
                    Hún ætti að vera hugguleg
                    og hríf´ana í vöku.


Þorramáninn varð fullur á sunnudaginn en nú er hann farinn að ganga úr sér

Fjórða tölublað Gluggans er komið út og auglýsir allt það sem er efst á baugi í héraðinu næstu 7 daga eða svo. Ber þar hæst að hreppaþorrablótið er að bresta á þó ekki um næstu helgi. Það vekur athygli að Domusgengið birtir engar myndir af fasteignum sem eru til sölu á þeirra vegum heldur eru menn á þeim bæ farnir að yrkja. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart því vísa vikunnar er að þessu sinni sama vísan og var fyrir viku og er höfundur hennar, skáldið undir Borginni enn fast úti í geimi, hitt og þetta í friði að gera. En aftur að vísnasmíð þeirra Domus manna. Þar er engan bilbug að finna og mönnum blásinn baráttuandi í brjóst og lofa þeira að selja aðra fasteign bráðum og telja að gagnaver gæti komið sér vel núna á þessum síðustu og verstu. Vonandi gengur allt þetta eftir, Guð láti gott á vita.

En hvað sem öðru líður þá verður að finna samhengið á þessum blessaða miðvikudegi sem sendir okkur úrkomulausan hressandi norðaustan andvara sem ber í sér hita rétt yfir frostmarki.

Alvitur situr við spurningahlið,

svarandi gátum á róli.

En Gúggúl sjálfur sá ekki við,
          Sigríði á Kagaðarhóli.
 

 

PS. Fór rangt með vísuna frá Sigríði en nú er hún orðin rétt. Auðmjúkur biðst ég velvirðingar


23.01.2013 14:52

bæjaryfirvaldauppsigunnarvandinn

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga og þessi miðvikudagur í 13. viku vetrar er þar enginn undantekning.  Þó dagurinn sé ljúfur gildir ekki sama um veginn. Hann er illa farinn og honum blæðir sem er grafalvarlegt mál fyrir þá sem um veginn fara.  Í stuttu máli þá tala menn hér um slóðir um daginn og veginn og aldrei þessu vant þá eru menn á einu máli um þessa hluti, jafnvel menn sem hafa ekki getað komið sér saman um af hvað átt hann blási hverju sinni.


Blönduósbær utan ár, baðaður í janúarsólinni sem svo sannarlega lét sjá sig í dag. Núna finnur maður að sólin er farin að gera sig meira gildandi í hversdagnum

Það er ekki svo mikið að frétta af Vesturbakkanum þó einn og einn íbúinn hafi ratað í Landann hjá Gísla. Það virðast vera svolítið sammerkt með mörgum íbúum Vesturbakkans að vera uppsigað við bæjaryfirvöld.  Ekki hætti ég mér út í það að skilgreina ástæðuna en eflaust liggur hún í augum uppi og læt ég þeim sem áhuga á þessu það eftir af kafa dýpra í það mál. Reyndar hitti ég einn Vesturbakkabúann, Jónas á Ljóninu og spurði hann hvort það væri ekki rétt með þetta hvað varðar bæjaryfirvaldauppsigunarvandann og sagði hann það rétt vera. Reyndar fannst Jónasi full ástæða að fleiri hér um slóðir kæmust í Landann en nefndi  svo sem engin nöfn í því sambandi. Ég er ekki frá því að Jónas hafi þó nokkuð til síns máls.


Jónas Skaftason og Bella baða sig í morgunsólinni á tröppum Ljónsins

Rúnar kom með Gluggann fyrir hádegi og var heldur aumur. Hann hafði dottið og taldi líklegt að hann hefði brákað rif því sárt fannst honum að anda. Ég lagði það ekki á hann að nappa honum inn í hornið til mín því það er enn sárara að anda og hlægja í sömu andránni svo hann hvarf hið bráðasta til síns heima. Reyndar hafði hann þrek til að setja Strákabandið undir geislann í Súkkunni og streymdu  eldfjörugir harmonikkutónar út í stilltann janúarmorguninn og var takturinn slíkur að Kristófer og Anna hefðu verið fullsæmd að dansa eftir honum.

Þorrablót Vökukvenna verður á laugardaginn og er ég farinn að hlakka svo mikið til að ég ræð mér varla. En það styttist í bóndadaginn  og góan gengur einn daginn í garð eins og enginn þorri hafi verið. Allt fram streymir endalaust eins og skáldið sagði, þannig er það nú bara.

Bak við alla geimsins geima getur Rúnar skáld á Skagaströnd hugsað sér að vera. Það er stundum sagt að þar sem enginn þekkir mann þar sé gott að vera og eflaust er bara nokkuð til í þessu hjá Rúnari Kristjánssyni og þessum draumi kemur hann til skila í vísu vikunnar.

Samhengi þessa látlausa og ljúfa miðvikudags getur legið víða og getur flækst fyrir bestu mönnum að finna það  en í mínum huga er það einhvern veginn svona . Mönnum (minni enn og aftur á það að konur eru líka menn)  er frjálst að nota stóra og litla stafi að vild við lestur samhengisvísunnar.

Yfirvalda uppsigunnar vandann
          erfitt getur reynst að glíma við.
          Þá upplagt er að ylja sér við landann
          og öðlast með því ró og sálarfrið.

16.01.2013 15:44

Lífið er einstakt fyrirbæri

Veðrið er meinleysislegt þennan miðvikudagsmorguninn. Suð suð austan átt, hitinn rétt yfir frostmarkinu og vindhraðinn afar hófstilltur og himnarnir halda í sér. Ég er fullkomlega sáttur við svona miðvikudaga og þeir mættu gjarnan halda uppteknum hætti yfir þennan árstíma.


Báran brotnar við strönd Húnafjarðar þennan blessaða miðvikudag í miðjum janúar

Lífið er einsktakt fyrirbæri. Við fæðumst, lifum og deyjum. Það er ýmislegt sem gerist á milli þessara atburða og er mönnum gefinn mislangur tími til að skila sínu í heimssöguna. Lífssaga hvers og eins er misjöfn og veldur líkast til hver á heldur en um þetta er ég ekki alveg viss. Sumir setja mikið mark á mannkynssöguna en aðrir minna. Flestir lifa sínu lífi í sátt við Guð og menn og skilja eftir sig minningar í ranni þeirra sem til þekkja. Aðrir lifa hátt og skilja eftir sig spor sem eru á hvers manns vörum og verða frægir bæði að verðleikum sem og endemum. Hver er munurinn á þessum tveim hugtökum. Líkast til er hann enginn því helstu hugsjónamenn þessarar þjóðar eru jafngildir helstu skúrkum hennar og lifa jafn lengi í þjóðarsálinni. Lítillæti og hógværð eru ekki gildi sem skila miklu í minninga sjóð en öfgar og einbeittur brotavilji fanga söguritara samtímans. Svo er það einnig spurningin um það að slá í gegn á vafasömum forsendum hvort það sé það sem skipti máli þegar staðið er fyrir framan Pétur í Gullna hliðinu, það skal ósagt látið. Já lífið er einstakt fyrirbæri.

Ég fékk skemmtilegan tölvupóst frá honum Jóni Gunnarssyni flugkapteini sem hiklaust flokkast undir hina fræknu á Vesturbakkanum. Jón Gunnarsson sem jafnan er kallaður Jonni er lengst af búsettur í Jakarta sem flokkast undir Austurlönd fjær þannig að hans raunverulegi Vesturbakki er hér á Blönduósi. Það lá vel á nafna mínum og ég nánast heyrði hann sötra ginseng kaffið í gegnum skrif hans og hlakka til að fá smá skammt af því þegar hann kemur næst í sitt fyrirheitna land.  Reyndar sagði Jonni mér frá því að hann hefði vakið máls á því við Plúsfilm Svenna fyrir jól, hvort það væri ekki afbragðs hugmynd að efna til dansleikja í gömlu kirkjunni fyrir eldri borgara hér um slóðir. Ekki hef ég orðið mikið var við dansleikjahald í gömlu kirkjunni en ég veit ekki hvers vegna "dansinn í Hruna" kemur uppi í hugann í þessu sambandi. Hann á bara alls ekkert skylt við þessa hugmynd Jonna og þar að auki er kirkjan afhelguð , hugmyndin ágæt en ég hef grun um að hljómsveit Vesturbakkans sé ekki eins samstillt og hún var hér áður fyrr meir og takturinn sjálfsagt eftir því.

Rúnar er kominn með Gluggann, og eins og degi fylgir nótt fylgdu Rúnari harmonikkutónar. Hann var með einhver harmonikku partílög en sagði mér í trúnaði að hann hafi ætlað leika lög með meistara Arnt Haugen en hann hefði bara ekki fundið kallinn. Það gildir einu því það er alltaf jafn gaman að heyra harmonikkutónanna og "ain´t she sweet?" er alls ekki svo leiðinlegt lag, hressir frekar en hitt. Það vildi þannig til að þegar Rúnar kom þá var frú Margrét að skúra skrifstofuhornið mitt og ég hafði á orði að nú væri Magga að stinga út hjá mér. Rúnar setti upp svipinn sem segir manni það að hann sé farinn að hugsa og ef satt skal segja þá fer þessi svipur honum bara vel. Og sjá, hugsun Rúnars varð brátt skýr og kemur hér á eftir:

Margt er það sem miður fer

hjá mörgum hér á Fróni.

Stórt nú Magga stiklar hér

og stingur undan Jóni.

Annað tölublað Gluggans er komið í hús og á forsíðunni er sagt frá fyrsta þorrblóti héraðsins sem er eins og venjulega í höndum kvenfélagsins Vöku á Blönduósi.  Stórsveit Vökuvenna mun sjá um allan tónlistargjörning á Blótinu. Ég er nokkuð viss um að engin úr hljómsveit Vesturbakkans er meðlimur í stórsveit Vökukvenna, það er næsta víst.

Vísa vikunnar er eftir Ingibjörgu Eysteinsdóttur og segist í henni vera hætt saumaskap. Okkur Rúnar fannst það ekki gott en vonum að hún haldi áfram að sauma saman orð.


Ókunna konan með kragann sem gerði daginn þann svo skemmtilegan og upplífgandi.

Samhengið þessa vikuna er svo sem ekkert flókið og vel við ráðanlegt en það er bara einn galli á því að það er erfitt að finna það. En þessi mynd sem hér fylgir ætti að skýra þetta samhengi eitthvað. Þetta er myndin af konunni með kragann sem ég sá um daginn og setti fallegan og skemmtilegan svip á hann .

Sérhver maður markar sína slóð

Og metur sjálfur öll sín tækifæri

En meðan labb´um götur lagleg fljóð

Er lífið alveg einstakt fyrirbæri

09.01.2013 16:11

"down by the riverside"

Gleðilegt ár allir þeir sem þetta lesa og megi farsæld ykkur fylgja í leik og starfi á nýbyrjuðu ári. Það er einbeittur vilji minn að viðhalda þessum skrifum á miðvikudögum jafnvel þó ég hafi frá engu að segja og engin lesi því þessi sjálfskipaða pressa viðheldur bæði kynnum mínum af lyklaborðinu sem og að það er hverjum manni hollt að hafa á sér einhvern aga.

 Janúarsvanir við Hnausatjörn

Eins og kannski flestir vita sem heimsækja þessa síðu þá var ég staddur ásamt konu minni á eyju lengst suður í Atlantshafi sem kennd er við fugla sem hafðir eru í búri hér heima. Á þessa eyju skín sólin á daginn og fylgir henni oftast mis bærilegur hiti. Rétt er líka að geta þess að við höfum aldrei á okkar lífsfæddu ævi verið langt frá okkar heimahögum á þessum árstíma. Það er líka rétt að segja frá því að sjaldan eða aldrei hafa jafn blendnar tilfinningar verið með í utanlandsför. Til þess að gera langa sögu stutta þá véku þessar blendnu tilfinningar  á eðlilegan hátt og endirinn varð sá að maður lagðist fyrir rest samviskulaus út af á bekk baðaður sól bæði innra sem ytra.
Á sólbekkinn hafði maður oftast með sér eitthvað til aflestrar og ferðadagbókina góðu með þann einbeitta vilja til að færa eitthvað í dagbókina að lestri loknum. Oft fór það þó þannig eins og eftirfarandi lýsir glöggt:

Ég ætlaði að skrifa en sofnaði,
svo samband við umheiminn rofnaði.
Er ég vaknaði aftur
allur horfinn var kraftur
svo samhengið trosnaði  og klofnaði
.

En ég er kominn aftur heim á "klakann" í orðsins fyllstu merkingu og farinn að átta mig á veruleikanum sem kenndur er við hversdaginn. Dagarnir líða áfram hver öðrum líkir en þó hófstilltir í veðurfræðilegu tilliti.  

Sunnudagurinn 6. jan, síðasti dagur jóla rann upp líkt og aðrir dagar. Yfir þennan dag sem kenndur er við sólina lagðist skyndilega mikill skuggi þegar okkur hjónum barst sú fregn að Hafþór Örn Sigurðsson góðvinur okkar hefði látist eftir stutt en erfið veikindi á Borgarspítalanum í Reykjavík aðeins 67 ára að aldri.  Ég ætla ekki að hafa mörg orð á þessum vettvangi um vin minn Hafþór en vil bara aðeins segja það að stórt skarð er höggvið í vinahópinn og fallið er í valinn einstakt ljúfmenni sem bar með sér gáskann og gleðina og gerði heiminn betri. Blessuð sé minning Hafþórs og megi góður Guð styðja og styrkja alla þá sem syrgja góðan dreng.


Snillingarnir Rúnar Agnarsson (Gluggaberi) og Ívar Snorri og varðhundurinn Moli

Fréttir af Vesturbakkanum verða með minnsta móti að þessu sinni einfaldlega vegna þess að ég hef lítið verið þar síðasta hálfa mánuðinn. Þó ber að geta þess að Jónas Skaftason kom til mín í gærmorgun þá nýkominn úr höfuðborginni og tjáði hann mér að hann hefði byrjað á því að heilsa upp á köttinn sinn hana Bellu þegar hann kom og ég hefði síðan verið næstur í röðinni. Mér fannst vænt um þetta . Jónas sagði að Bella hefði verið lítil í sér og grátið heilmikið og taldi Jónas það stafa af því að viðvörunarkerfið í húsinu hans hefði farið í gang og raskað ró kisu.  Svenna í Plús-Film hef ég séð álengdar í hundastóði á ferð sinni um gamla bæinn og Birkir Freysson frá Höllustöðum er farinn að munda hamarinn á hæðinni fyrir ofan mig. Ívar Snorri kom hér áðan með varðhundinn sinn hann Mola og lá bara nokkuð vel á þeim félögum. Hann hvatti okkur Rúnar til að fara að yrkja en vildi sjálfur ekkert til málanna leggja, smásagnahöfundurinn og hvarf á braut svo okkur Rúnari gæfist næði til að klára verkefni dagsins.  Það er einng vert að geta þess að hann Lúðvík Blöndal flugmaður og bílstjóri sá svo yndislega fallegan regnboga í gær yfir Skagaströnd, alvegt frábært myndefni sagði hann mér. Hann ætlaði líka að segja mér frá honum en gerði það nú ekki fyrr en kl 14 í dag. Ég þakkaði honum af einlægni, hugulsemina en benti honum á í mesta bróðerni að seint verður regnbogi frá því í gærdag festur á mynd í dag.  

Rúnar er kominn með fyrsta Glugga ársins. Það urðu með okkur fagnaðarfundir enda komin allnokkur tími síðan við sáumst sísast. Undir geislanum hjá honum á fyrsta Gluggadegi ársins var einkar viðeigandi lag útsett fyrir harmonikku og ber hið viðeigandi nafn, "Down by the riverside" . Já árið er byrjað og verður sjálfsagt jafn óútreiknanlegt og öll fyrri ár og mikilvægt að stíga lífsdansinn í samræmi við það.


Borgarvirki í dulmagnaðri þoku gærdagsins, dagsins sem hafði að geyma regnbogann sem Lúðvík sá en gleymdi að segja frá

Enn fyrsti Gluggi þessa árs er kominn í hús eins og fyrr segir og ber með sér gleði- og sorgarfregnir eins og gengur og gerist í lífinu sjálfu. Þórir í Syðri Brekku ætlar að bjóða vandamönnum og vinum  til kaffidrykkju í tilefni  90 ára afmæli síns og á næsta bæ utan við Syðri-Brekku er móvindskjótt 3. vetra hryssa  í óskilum . Húnavökuritjórnarmenn eru einnig farnir að minna á sig og auglýsa eftir efni í næsta rit. Mér fannst rétt að halda þessu til haga en vísa að öðru leiti í Gluggann á huni.is

Samhengið þennan annan miðvikudag ársins verður á hófstilltum nótum og tengist því sem var en kemur aftur en engin veit hvenær.

Lúlli sá furðusýn, sem telst fágæt.
Fregnin af regnboga var hreint ágæt.
En það næst engin mynd
Af sýn sem er fyrnd
down by the riverside.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 872
Gestir í dag: 436
Flettingar í gær: 397
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 62153
Samtals gestir: 11206
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 18:14:41