Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Apríl

24.04.2013 15:45

síðustu andartök vetrar


Toppendur í toppformi til að næla sér í seiði

Ritæfingar þær sem ég hef haldið svona að mestu í heiðri á miðvikudögum  sl. 7 ár eru misjafnar eins og gefur auga leið og mótast svolítið eftir því hvernig andinn er hverju sinni. Eitt hefur verið nokkuð fastur liður en það er að böggla saman að minnsta kosti einni vísu í hverjum pistli. Ég hef ekki litið á mig sem hagyrðing heldur svona orðahnoðara sem hefur það að leiðarljósi að betra sé illt að gera en ekki neitt. Einu sinni  að ég held í september 2007 sýndi ég af mér töluverðan hroka og kallaði sjálfan mig hagyrðing. Hér á eftir fylgir frásögn af því hverjar afleiðingar þessa hroka urðu:

"Þeir koma miðvikudagarnir einn af öðrum og enginn er eins. Eftir morgunandakt, þá er ég hafði litið til himins, bauð ég sjálfum mér góðan dag. Það var eitthvað innan í mér sem þurfti að komast út og eftir þó nokkrar vangaveltur þá komst ég að því að það væri hagyrðingurinn í mér:

Hver er í sjálfu sér, sjálfum sér líkur
það segir sig sjálft eins og hver einn fær séð.
Ég eins og þú, mun víst vera einn slíkur
einstakur sauður innan um féð
.

Ég var bara déskoti ánægður með mig og þar sem ég er sjálfum mér líkur þá leyfði ég Rúnari Agnarssyni að heyra vísuna þegar hann kom með Gluggann. Honum varð á orði:

Þú ert með eina vísu hér
með einstæðum sauðabrag.
Svo enga vísu ætla ég mér
að yrkja um þig í dag
."

 

Á vegamótum í ýmsum skilningi. Veturinn hörfar undan sumrinu fram Langadalinn

Síðasta vetrardag 2008 var ástandið í sálartetrinu þetta sem hér má lesa :

"Lífið finnur sér ætíð farveg og er sá farvegur mótaður af lífsviðhorfum og reynslu hvers og eins. Við Rúnar höfum í vetur alltaf reynt að hafa hið góðlátlega í lífinu sem farveg fyrir okkur með svona hæfilegum "skepnuskap"  í bland. "Þeir einir eru barðir sem nógu eru harðir" hefur verið kjörorðið því ljúkum við þessum síðasta miðvikudagspistli þessa vetrar á mildu nótunum:

Við samtímann fært höfum saman í letur
sem sjálfsagt einhverjir gert hefðu betur.
En í auðmýkt við beygjum
okkar höfuð og segjum.
Eigið gleðilegt sumar og takk fyrir vetur."

 

Þessi færsla á alveg eins við í dag og fyrir 5 árum nema fyrir það að þá var þoka en nú er kaldi og kastar éljum svona af og til. En Rúnar er kominn með Gluggann og hitinn hangir eina gráðu fyrir ofan frostmarkið. En Rúnar má þó eiga það að hann gerði sitt til að bæta daginn með því að spila Ofärne valsen með Carl Jularbo. Við Rúnar vitum ekki alveg hvað þetta lag myndi heita upp á íslensku en datt helst í hug að þetta væri ófarni valsinn svona eins og ófarni veturinn. Til vara skýrðum við þennan vals bara ófærðar valsinn því þennan miðvikudag hristir vetur af sér snjóinn svona eins og hundur sem kemur upp úr vatni.


Heiðurgæsin hún SLN lætur ekki hraglanda vetrarloka trufla sig og horfir í stóískri ró til komandi sumars

Glugginn er óvenju þykkur þennan síðasta dag vetrar. Má m.a. þakka því að kosningar eru á laugardaginn. Á annað má benda eins og það að nokkrir galvaskir krakkar ætla að frumsýna kvikmynd sem ber nafnið Svart og hvítt í Blönduósbíói.  Myndin er bönnuð börnum yngri en 12 ára en þó mega 10 ára krakkar koma í fylgd með fullorðnum. Þetta er hasarmynd og geta áhugasamir kíkt á sýnishorn úr myndinni inni á YouTube. Þau eru ekki af baki dottin þessi ungmenni og verður  spennandi að sjá útkomuna.

Kárdalstungubóndinn hann Hjálmar kom aðeins í hornið til okkar Rúnars og var með ýmsar meiningar  sem að sjálfsögðu  var svarað af fullkominni einbeitni. Fékk hann meðal annars þær leiðbeiningar að lesa ævisögu Guðna Ágústssonar og baka nokkrar kökur fyrir verkalýðskaffið á 1. maí. Það hnussaði í Hjálmari um ævisögulesturinn en til var hann í að baka fyrir verkalýðinn.  Rúnar sat býsna hljóður meðan við tókumst á með orðum ég og Kárdalstungubóndinn. Sem betur fer notaði Hjálmar ekkert af þeim brögðum sem hann hefur tileinkað sér í júdóinu sem hann stundar núna af miklu kappi því þá hefði ég fljótlega orðið undir. Það vakti athygli mína þegar hann kvaddi okkur þá leit hann til Rúnars og sagði "sé þig fljólega berann í sturtu". Það tók Rúnar nokkrar mínútur til að skýra þetta fyrir mér og liggur skýringin í því að þeir Hjálmar og Rúnar hittast stundum í sundi en .................?

En vetri lýkur og sama gildir um þennan pistil og ekkert eftir nema skima eftir samhenginu sem getur verið hvað sem er.

 

Í vetrarlok viðruðu frelsi og höft,

vitringar, Hjálmar og Jón.

"Kústar þeir svínvirka ef hafa þeir sköft"

sagði Jón í sáttfúsum tón.

Og svona í lokin sjálfstyrkingarvísa:

Ég æðislega báða okkur tel

en erum hvorki verri eða betri.

Kostulegt hvað komum fjandi vel

kátir undan þessum langa vetri.

17.04.2013 14:45

Heiðursgæsin SLN komin

Frægasta gæs okkar Blönduósinga sem ber titilinn heiðursgæs og einkennisstafina SLN er komin í heimahagana við Héraðshælið á Blönduósi í það minnsta 14. sinn.  Þessi aldna grágæs var merkt árið 2000 við lögreglustöðina á Blönduósi ásamt 113 öðrum gæsum. SLN er sú síðasta úr þessum hópi sem enn skilar sér heim frá Bretlandseyjum það best er vitað og er mörgum afar kær. Síðast sást til hennar um 5. júlí í fyrra og var hún frekar tætingsleg og auk þess bæði afkvæma- og makalaus. Þótti mörgum þetta merki um það að hún væri á síðasta snúningi í veraldarvafstrinu en annað hefur komið á daginn. Heiðursgæsin SLN er mætt á sínum hefbundna tíma svona líka sældarleg með karl sér við hlið.

  Heiðursgæsin SLN er komin heim með maka sínum eftir vetrardvöl á Bretlandseyjum. Heimahagarnir tóku kuldalega á móti þessum eðalgæsum

En heimahagar SLN voru í morgun ekkert sérstaklega vinalegir í garð heiðursgæsarinnar né annarra fugla himinsins. Hagarnir eru nefnilega svolítið snjóblandaðir en þúfnakollarnir standa þó upp úr og þessi örlitli  hiti rétt fyrir ofan frostmarkið gerir hvað hann getur til að auka aðgengið að gróðurnálinni. Það er samt svolítið merkilegt að þrátt fyrir það við hinar breysku mannskepnur kvörtum og kveinum yfir hikinu á vorinu þá syngja fuglarnir hástöfum eins og ekkert sé.


A-húnvetnskir kúabændur heilsuðu upp á "kollega" sína í vestur-sýslunni á mánudaginn og komu meðal annars við hjá þeim heiðurshjónum Skúla og Ólöfu á Tannstaðabakka. Takið eftir bláu skóhlífunum

Rúnar er kominn með Gluggan og leiftrandi harmonikkutónar fylltu upp í Aðalgötuna og daginn sem telja má líkastan vori á þessu vori. Það voru þau Therése og Peter sem léku af fingrum fram hinn eldhressa " Raggies polka". Við Rúnar urðum svolítið forvitnir um þetta harmonikkupar og komumst að því að þetta fólk sem er fætt um 1970 eru hjón .  Pabbi hennar Therésu  hann Åke Blom leikur oft með þeim  skötuhjúunum og þá á bassa ef það varpar frekara ljósi á þetta. Vonandi hefur þessi fróðleikur verið ykkur til gagns og aukið þekkingu ykkar á sænskri harmonikkumenningu.


Therése og Peter hin geðþekku sænsku hjón hafa oft glatt eyru okkar Rúnars í gegn um tíðina og fyrir það erum við þakklátir

Gluggi dagsins ber þess merki að Alþingiskosningar eru í nánd. Glugginn sér til þess að enginn ætti að missa af þessum atburði sem lögum samkvæmt á að vera að lámarki fjórða hvert ár.  Rúnar skáld á Skagaströnd á vísu vikunnar að þessu sinni og er hann til muna hressari en fyrir viku þegar maður heyrði hið vonlitla klór í bakkann. Núna yrkir Rúnar um væntanlegar kosningar og loforð flokkanna sem hann telur vera stærri en stór og í stöðugum vexti.

Það vakti athygli mína eftir að hafa lesið þennan pistil yfir að hvergi er minnst á Jónas á Ljóninu og er hér með úr því bætt.

Samhengi dagsins er bara eitt og það er heimkoma heiðursgæsarinnar SLN sem sýnir fádæma átthagatryggð og kemur hingað ár eftir ár óháð því hver ríkir og ræður í samfélaginu.

Um kosningar, kannanir mikið er rætt,

að kjarnanum senn komast menn.

Nú hamingja ríkir því heim er mætt,
          heiðursgæsin SLN.

10.04.2013 14:38

Blanseflúr á 100. degi ársins


    
Svona leit Aðalgatan út um hádegisbil í dag

Í dag er 100. dagur ársins og sumartunglið kviknaði í morgun í suðaustri.  Það á að vita  á gott fyrir okkur hér á þessu horni landsins ef eitthvað er að marka forna speki. Ef tungl kviknar í suðaustri á það að þýða að vindar þennan tunglmánuðinn verða að mestu úr suðaustri en ef maður kíkir á langtíma veðurspár virðist annað vera uppi á teningnum. Norðaustan áttir með éljagangi og frekar svalar verða ríkjandi næstu daga. Um það bil sem tunglið kviknaði í morgun þá kastaði hann dimmu éli og vindurinn var í fyrstu hægur að norðan en fór vaxandi er leið á morguninn og jörð alhvít.   Þetta er svona heldur hráslagalegt fyrir fuglana sem nú streyma í heimahagana en þeir hafa svo sem kynnst þessu áður. Það er svolítið sérstakt við vorið að maður hefur beðið eftir því alveg frá því í haust og þegar það kemur loksins hagar það sér oft eins og illa upp alinn krakki og hefur í frammi allskonar kenjar.


Kiljukrumminn sveimar yfir skorsteininum á Aðalgötu 2 í kalsa í leit að einhverju bitastæðu

Upphefðin kemur að utan hefur einhver látið hafa eftir sér. Einhver annar lét þau orð falla að engin væri spámaður í eigin föðurlandi. Ýmsislegt hefur verið sagt um þessi mál og til hafa orðið  útrásarvíkingar sem náð hafa afar misjöfnum árangri en reyndar kom upphefð þeirra ekki að utan. Ég hef haft það að markmiði að skrifa á þessum vettvangi fyrst og fremst fyrir mjög þröngan hóp sem í fyrstu takmarkaðist við mitt eigið sjálf en einhverjir hafa síðan álpast inn á síðuna og kíkt á hugrenningar mínar um allt og ekki neitt. Reyndar hafa verið skráðar um 190.000 heimsóknir frá því ég fór að skrifa og nálgast það að vera góður helmingur þjóðarinnar. Gestabók er áföst minni heimasíðu og þar hafa nokkrir skráð heimsóknir sínar til mín. Hin síðustu ár hafa ekki margir skráð sig í þá ágætu bók sem í sjálfu sér er ekkert við að segja því líkast til er ekkert um þessi skrif að segja. En að undanförnu hafa orðið mikil umskifti sem nálgast sæmdarheitið vatnaskil, því ég er farin að fá heillaóskir og baráttukveðjur frá erlendum konum. Má þar nefna konur sem heita Kama (indversk ástargyðja), Kelly, Mabel( þýðir elskuleg), Madge, Blanche (líklega frönsk), Caroline, Charlotte, og Catherine. Þessar konur hafa að öllum líkindum notað Google þýðingarvélina til að öðlast  skilning á skrifum mínum en þær eru afar hvetjandi í gestabókinni og lyft mínu einfalda hjarta  í hæstu hæðir svo ekki sé talað um hégómagirndina. Reyndar finnst mér merkilegt að hún Blanche hafi skrifað mér því ég á alveg eftir að fjalla um kúna Blanseflúr frá Syðra-Hóli sem ég þekkti vel en sú kýr sem löngu er gengin hét í höfuðið á konu sem hét þessu nafni sem líkast til er dregið af franska kvenmansnafninu Blanche.  Þennan fróðleik fékk ég hjá Birni heitnum Magnússyni frá Syðra-Hóli og sýndi hann mér jafnframt minningargrein um Blanseflúr sem birtist í Íslendingaþáttum Tímans á sínum tíma þessu til staðfestingar. Þegar ég verð búinn að skrifa um kúna Blanseflúr er ég viss um að hin ágæta Blanche sendir mér aftur kveðju.


Það er kalt á þessum gæsum sem nýkomnar eru frá Bretlandseyjum

Helstu fréttir af Vesturbakkanum eru þær að Svenni í Plúsfilm fékk á dögunum styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra að upphæð kr 1.000.000 til þess að gera heimildarmynd um náttúruperlur við Húnaflóa. Sveinn var að vonum kátur yfir þessu og gerir honum kleyft að hefjast handa við verkefnið. 

Bæjarstjórnin hefur öll yfirgefið landið og til stendur að loka bæjarskrifstofunum á morgun og föstudag. Einhver velti því fyrir sér að þetta væri líkast til eina leiðin til þess að öðlast smáhvíld og hana kærkomna frá baráttuglöðum Jónasi á Ljóninu.


Það er kjörið að enda myndasyrpuna á þessum smáa og fallega fugli sem kenndur er við auðnuna sem okkur er svo dýrmæt.

Rúnar kom eins og norðan vindurinn með trukki og dýfu og skyndilega yfirgnæfði Arnt Haugen úr hljómkerfi Súkkunnar, veðurgnýinn í Aðalgötunni með Strekkbukse-polkanum sínum. Það get ég sagt með sanni að þessir hressilegu harmonikkutónar voru sannanlega Guðsgjöf á þessum kuldalega miðvikudegi  í 24. viku vetrar. Glugginn er kominn og Rúnar var með kollhúfu í tilefni dagsins.  

Glugginn er nánast einn aðalfundur yfir að líta nema hvað fyrir koma auglýsingar um tónleika og nálastungur fyrir húsdýr. Vísa vikunnar eins og svo oft áður er eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd.  Mér finnst tónninn hjá Rúnari þungur þessa vikuna  því niðurlag vísunnar er ekki beint upplífgandi þar sem hann segir: " Það tekur því varla að tóra,/ tilveran er svo stutt.  Vonandi hressist skáldið á Skagaströnd með hækkandi sól og minnkandi éljagangi.

Það getur verið snúið að koma auga á samhengið í tilverunni þegar veturinn knýr skyndilega dyra þegar vorið er farið að setjast að í sálinni.

 

Það er þyngra en tárum taki

og telst vera höfuðsynd.

Að vetur við vorinu blaki
          með vonsku og norðanvind.

 

Þó vetur við vorinu blaki,

með vonsku og norðanvind.

Þá verður hann bráðum að baki.
          Við blasir allt önnur mynd.

03.04.2013 15:03

Haukur og kettirnir þrír


Það er kannski óviðeigandi að byrja á því að birta hér bardagamynd en þar sem ég er nú stríðsfréttaritari á Vesturbakkanum er þetta í lagi

"Ég sit hér einn og læt mig dreyma um allt ekki neitt. Ei veit það nokkur maður, til hvers það getur leitt". Svona byrjar þessi fallegi miðvikudagur í byrjun apríl  og ég held bara að það sé þó nokkuð til í þessum orðum "skáldsins" því ef maður leggur ekki af stað þá gerist ekki neitt. En er það svo? Um þetta má deila eins og svo margt annað. Maður sem leggur upp í fjallgöngu og eyðir bæði tíma og orku í það og kemur svo aftur um síðir til baka á sama stað. Hann er staddur nákvæmlega á sama stað og hann byrjaði. Hefur hann skilað einhverju? Að enda á upphafreit, er það eitthvað til að tala um?  Það er líkast til það sem gerðist þarna á milli sem málið snýst um geri ég ráð fyrir. Ætli þessi orð Snorra Hjartasonar sem hann lét falla í ljóðinu "Ferð" árið sem ég fæddist:  "Hver vegur að heiman er vegurinn heim" eigi bara ekki vel við í þessari einræðu minni um ferðalag mannsins í torræðum heimi.


Herkúles heiti þessi og er einn þriggja katta sem heldur kór skógarþrasta í skefjum

Ekki er hægt að halda áfram án þess að minnast aðeins á veðrið. Í dag er það í einu orði dásamlegt líkt og það hefur verið undanfarið. Fyrir svona ber að þakka. En eitt er það sem ég sakna svolítið en það er fuglasöngurinn a.m.k í minni heimagötu sem hefur allt til að bera til að laða til sín söngelska fugla. Undangengin ár hafa skógarþrestirnir um þetta leiti verið farnir að vekja mig á morgnana með ljúfum söng. Nú ber svo við að enginn söngur heyrist, hvað hefur breyst. Við svona aðstæður lætur maður hugann reika í leit að hugsanlegum skýringum. Haukur nágranni minn hefur látið fella tvö stæðileg grenitré fyrir framan hús sitt, tré sem voru afar vinsæll söngstaður skógarþrasta. En það er nóg af öðrum trjám sem fuglarnir geta sungið í,  þessvegna er kannski ósanngjarnt að skella allri skuldinni á Hauk sem var hættur að sjá sólina fyrir trjám. Annar umhverfisþáttur gæti líka verið drjúgur áhrifavaldur. Við sem við búum við Árbrautina höfum átt því láni að fagna að búa í mörg ár, aðeins við einn kött hann Guðbrand. Ég hef marg oft sagt það að við Guðbrandur höfum báðir mikinn áhuga á fuglum en af misjöfnum ástæðum. Nú ber svo við að tveir kettir hafa bæst í hópinn og veit ég fyrir víst að annar þeirra heitir Herkúles og er svipaður Guðbrandi í útliti en hinn er er al grábröndóttur og veit ég ekkert um hann og er lítið um hann gefinn. Þetta þríeyki er mikið á ferðinni og af einhverjum ástæðum velja þeir oft lóðina mína sem samkomustað.  Ég tel það afar skiljanlegt að hinir vængjuðu vinir mínir velji sér búsvæði  sem eru fjarri þessum kumpánum því sama myndi ég gera í þeirra sporum. Niðurstaða mín í þessu vandamáli má segja í fáum orðum; Haukur og kettirnir þrír. Haukur 10% og kettirnir 90% svo mörg voru þau orð.



Þær eru að mættar þessar elskur og eiga eftir að setja mark sitt á samfélagið í sumar, sérstaklega göngustíga

Það ríkir mikill friður á Vesturbakkanum þessa dagana þó svo ég viti að undir niðri leynist neisti sem ef vilji stendur til getur orðið að báli. Frikki á Kiljunni klauf 60 ára múrinn á annan dag páska en skömmu áður hafði hann flutt úr Aðalgötunni í Bíbíarhús við Blöndubyggðina. Óli hótelstjóri er kominn til starfa eftir dvöl syðra. Ég hef ekki séð hann í allri sinni dýrð en bíllinn hans er fyrir utan hótelið og einhverjir ókunnir bílar sem táknar bara það að komnir eru gestir á hótelið.  Lítið fer fyrir Ívari Snorra og hundunum hans þeim Mola og kynbótahundinum sem ég man nú ekki lengur hvað heitir. Svenna í Plúsfilm hef ég lítið séð en Jónas Skafta á Ljóninu sagði mér í óspurðum fréttum að Svenni væri búinn að fá sér páfagauk sem spjallaði við þá sem fram hjá húsi hans gengu. Jónas er á sínum stað á Ljóninu rétt við bugtina í Blöndu þar sem stokkendurnar hafa vetursetu.

Glugginn er kominn og var hann eins og of oft undanfarið, skilinn eftir einn og umkomulaus á hurðahúninum hjá mér. Enginn Rúnar með Carl Jularbo eða Arnt Haugen með sér. Sem sagt engir harmonikkutónar sem svo sannalega myndu falla vel að þessum fallega degi sem ber í sér dýrðina eina. En hvað sem öllu líður þá er Glugginn kominn og er hin árlega kúabændaferð fyrirferðamest í hinum örþunna Glugga. Vísa vikunnar er eftir fasteignasalann, flugkapteininn, lífskúnstnerinn og bóndann á Litlu-Sveinsstöðum Magnús Ólafsson. Fjallar hann á sinn einfalda og látlausa hátt um að sumar er ekki sumar nema sumar sé.

   Mikið er um æðarfugl við botn Húnafjarðar

Reyndar sá ég rétt fyrir hádegið hér í Aðalgötunni tvo skógarþresti og tvo starra (sumir segja stara) sem sungu alveg eins og skógarþrestirnir. Starrarnir völdu sér stjörnuna á Krúttstrompnum sem áningarstað en skógarþrestirnir köstuðu mæðinni í loftneti á Aðalgötu 7.

Samhengið getur ekki verið einfaldara  

 

Þessir dásemdar, dásemdar dagar,

dúkk´ upp hvern einasta dag.

Fyrst sannlega svona til hagar
          er sjálfsagt að yrkj´um þá brag.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56679
Samtals gestir: 10458
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:52:07