Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Júní

26.06.2013 15:19

allt er í heiminum hverfult

Sveinn í Plúsfilm kom til mín í morgun og ég skynjaði strax að mikið var í vændum á Vesturbakkanum, undirtónninn var slíkur, látbragðið sjálfsprottið og engin leið að átta sig á hallamálinu sem hann bar. "Jón ! Það eru að koma 30 manns í súpu í hádeginu til Jónasar á Ljóninu" sagði Sveinn um leið og hann vingsaði hallamálinu sem sem hann handlék og sussaði á hundinn sinn. " Þú flytur mikil tíðindi" sagði ég si svona og spurði um leið hvort hann þyrfti að rétta af lýðræðishallann á vesturbakkanum með hallarmálinu vegna þess arna.  Að sögn Sveins var hallarmálið ætlað í annað en hann var á leið til kirkju sinnar til að ljúka upp kyrjudyrum svo matargestir Jónasar gætu litið gömlu kirkjuna sem á einni öld hefur einungis haft þrjá þjónandi presta.

Allt var þetta satt og rétt hjá Sveini og og sannreyndum við Hilmar Snorrason það því okkur var boðið til að að bragða á afgöngum um kaffileytið. Og það get ég sagt með sanni sem sólin á himninum skín að súpan hjá Jónasi Skafta var matarmikil og fín. 


Það er gaman af því hve auðvelt er að vera ósáttur við það sem maður var ósáttur með að var ekki í fyrra. Nú vill svo "óheppilega til að það hefur verið frekar hægstæð sprettutíð upp á síðkastið, hiti með gróðraskúrum. Heyrst hefur að sumir bændur kvarta undan þessu því þeir séu ekki hreinlega tilbúnir undir svona gott sumar. Ágæt berjatínslukona hafði á orði að hún hefði ekki í langan tíma séð jafn marga sætukoppa á bláberjalynginu og í ár sem segir þeim sem til þekkja að bláberjauppskeran í ár a.m.k. hér í Húnaþingi verður góð í haust að öllu óbreyttu. Raunsæismaður sem þessi orð heyrði var fljótur til svars: "Það á margur maður eftir að fá í bakið í haust".


Rúnar kom í gær eins og vindurinn og regnið sem þá hamðist fyrir utan gluggann hjá mér. Hann var með tónlist við hæfi því Arnt Haugen þandi nikkunna og flutti lagið "Med nikkers og pluggstøvler" sem við höldum að þýði á brókinni á hælaháum stígvélum og eitt var þá víst að þörf var á stígvélum hyggðu menn á einhverja útiveru þessa augnabliksstundina.

Og eins og venjulega þá fylgir Glugginn Rúnari eins og skugginn. Gluggi vikunnar er sá síðasti fyrir sumarfríið hans og kemur ekki aftur út fyrr en 7. ágúst. Eins og venjulega er ýmislegt að finna í Glugganum  og að þessu sinni var vísa vikunnar ekki eftir Rúnar á Skagaströnd  heldur hana Önnu okkar Árna


Við Rúnar ortum fyrir hádegið í gær þessa samhengisvísu sem var orðin samhengislaus hálftíma eftir tilurð hennar.

Nú er gott að gæta sín

og gott að vera inni.

Og ekki skæra sólin mín

skín í rigningunni.

En þar sem tímarnir eru fljótir að breytast frá miðvikudegi til fimmtudags þá hverfur stundum samhengið út í veður og vind sem er bara allt í lagi og undirstrikar það að allt er í heiminum hverfult.

Í heiminum hverfult er allt

og hér um bil allt á kúpu.

Í soðningu Jónas á salt

og serverar frábæra súpu.

19.06.2013 15:46

sólin í hæstum hæðum


Grágæsin SLN ásamt hvæsandi maka á vesturbakka Blöndu

Nú eru ekki nema tæpir tveir dagar í það að sólin fari að lækka á lofti en það breytir ekki gangi Gluggans. Reyndar breytti Rúnar gangi sínum töluvert í dag því hann kom fyrir hádegið með Gluggann. Hann kvartaði sáran yfir því hversu margir bílar væru fyrir utan hjá mér því hann komst ekki nálægt aðaldyrunum með félaga sinn hann Arnt Haugen svo hann gæti flutt mér hinn eldfjöruga ræl "Over stokk og sten". En þar sem fjallið kom ekki til mín varð ég að fara til fjallsins og inntaka harmonikkutónana austar í Aðalgötunni á móts við innganginn á hótelinu. Og eins og fyrri daginn þá klikkar Arnt gamli ekki. Rúnar sagði mér líka í óspurðum fréttum að hann hefði tekið eina skák við forstöðumann sundlaugarinnar (Róbert Daníel Jónsson)  í morgun og unnið hann í nokkrum leikjum. Þegar ég benti Rúnari á að það sé nú ekki fallega gert að leika Liverpoolmenn grátt þá treysti hann mér fyrir því að hann hefði taugar til Liverpool. Það get ég svarið að þetta gladdi mig mikið á þessum fyrsta miðvikudegi eftir þjóðhátíð.

Forsíða Gluggans að þessu sinni er litlaus en á miðopnu færist litur yfir Gluggann. Skýringin á þessu er sú að þar er að finna tímamótagrein frá Skarphéðni Ragnarssyni umboðsmanni VÍS (Hédda) en hann lætur af störfum eftir áratuga störf fyrir VÍS í A-Húnavatnssýslu og umboðið flytur á Sauðárkrók.


Ýmislegt verður á vegi manns á Blöndubökkum þegar maður labbar heim eftir vinnu

Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd á eins og svo oft áður vísu vikunnar í Glugganum og er eins og honum finnist sumarið koma af fullmikilli hægð því hann yrkir:

 

Á betri tíð er enginn asi

en áfram samt ég hlýt að þrá

að finna ilm úr grænu grasi

góðum sumardegi á.

Við Blönduós Rúnar litum hvor á annan spurnaraugum og komu upp í hugann þekktar línur úr dægurlagi: "Bráðum kemur ekki betri tíð því betri getur tíðin ekki orðið".

19. júní er hátíðisdagur þar sem þvi er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi , 40 ára og eldri, kosningarétt.  Það eru ekki nema 98 ár síðan konur á Íslandi fengu að kjósa , þetta er svolítið sérstakt.

Samhengið í dag getur verið hvað sem er en einhversstaðar þarf að grípa niður og finna eitthvað til að festa á hönd:

Nú sumar  í hæstum hæðum

 hærra varla það fer.

Högnarnir læðast að læðum

og lækirnir leika sér.

12.06.2013 14:54

áfram heldur lífið endalaust




Mynd af fíflum

Rúnar er kominn með Gluggann og að þessu sinni leyfði hann góðvini okkar honum Arnt Haugen að þenja nikkuna sína af lífs og sálar kröftum yfir lognkyrra Aðalgötuna. GO´BLONKEN heitir lagið sem hann flutti og er svo eldfjörugur polki að fáir fá hann staðist en verst þykir okkur að vita ekki hvað titill lagsins þýðir og meðan svo er göngum við blankir hvað þetta varðar.

Glugginn er kominn með sínar upplýsingar og við Blönduós-Rúnar tökum heilshugar undir með skáldinu Rúnari á Skagaströnd þegar hann tjáir sig í Gluggavísu vikunnar :

Fyrir gefinn gleðibrunn

góð er sagan bæði og kunn.

Orða má fyrir allra munn :

,,Ástarþakkir - Hemmi Gunn ! "

Annar góður drengur hann Jón Gunnarsson sem við löngum kölluðum flugkaftein hér á þessum síðum er líka fallinn frá langt um aldur fram. Jón sem átti sér athvarf  á Aðalgötu 7 á sumrum fjarri flugi í austurlöndum fjær var í huga þess er þetta ritar afar ljúfur og geðfelldur maður sem gerði heiminn betri. Hans verður sárt saknað hér um slóðir og fylgja honum góðar óskir um góða ferð síðasta spölinn. Guð blessi minningu Jóns Gunnarssonar.

Lífið heldur  áfram þrátt fyrir allt og það má glöggt sjá á bökkum Blöndu  þar sem gæsarungarnir hamast við að koma í heiminn. Ekki mun líða langur tími þar til þessir litlu og sætu ungar verða orðnir stálpaðir og munu leggja sitt til á göngustígum bæjarbúa.


Hitaveitulögnin til Skagastrandar á leið sinni yfir Húnabrautina, aðalgötu bæjarins

Við Rúnar vorum alveg mátulega upplagðir til til að finna samhengið þessa vikunna þó svo Rúnar hafi ort eina vísu til Önnu Gunnu á sýsluskrifstofunni í morgun. Við vorum svona frekar meyrir og á mjúku nótunum þennan lognkyrra, meinlausa miðvikudag og sendum því þetta út í loftið:

Sumir leita sátta og friðar,

sumar vetur vor og haust
En lífið hefur ótal hliðar
og heldur áfram endalaust
.

05.06.2013 14:50

Sumarið er komið


Laxveiði hófst í Blöndu í morgun en áin var mjög lituð af leysingum

Sumarið er komið og það með hvelli. Ég skil það vel því það hefur beðið svo lengi eftir því að komast norður og orðið óþreyjufullt.  Það er samt miklu minni asi á því í dag heldur en í gær þegar það fór yfir á miklum hraða. Þegar sumar kemur með svona miklum látum þá kikna snjóskaflar og bráðna fyrir töfrum hins ærslafulla sumars og verða að mórauðum taumum í öllum fjallshlíðum og sameinast í ám sem leita sjávar. Þetta er stókostlegt á að líta en reyndar er misjafnt hvernig menn líta þetta. Hinn óbreytti alþýðumaður með einfalda sýn á lífið álpast til að segja "je minn eini hvað þessi lækjarspræna er orðin stór og mikil" . Hinn vel búni laxveiðimaður á bökkum Blöndu lætur út úr sér " Það er ekki mikil veiðivon  í fljóti yfirfullu af kakósúpu" Yppir öxlum og fer í kaffi upp á N1því óneitanlega er skemmtilegra að drekka kaffi en stara á kaffilitað jökulfljót. Reyndar eru menn búnir að krækja í einn lax úr Blöndu þegar hér er komið sögu , já svona er Húnavatnssýsla í dag.

Já sumarið er komið með öllum sínum töfrum. Ungviði af ýmsu tagi lítur dagsins ljós, laufin og grasið teygir anga sína mót birtunni og teigar ylinn í loftinu. Ég man eftir einu sumri sem við hér norðan heiða bölvuðum ekki norðanáttinni en það var sumarið sem Eyjafjallajökull gaus og sendi ösku sínu um næsta nágreni sem og víða um Evrópu. En núna þegar suðaustan áttin náði sér á strik er eins og dreggjar frá þessu mikla eldgosi hafi borist norður yfir hálendið því skyggnið í Langadal var ekkert sérstakt í gær eins og þessi mynd sýnir en þetta getur líka bara verið moldrok ofan af Auðkúluheiði.


Moldrok eða leifar af ösku í framanverðum Langadal í gær

Það færist meira líf í Gamla bæinn þegar sumarið kemur. Sem dæmi um það þá er búið að opna "hafíssetrið" með sinni Hraunsbirnu og Óli hótelstjóri er mættur og segja sumir að hann sé nú svolítið bangsalegur. 


Vindskafin ský yfir Svínadalsfjöllum

Svo það sé nú endurtekið þá er sumarið komið með öll sín fögru fyrirheit, sólin skín og sálin tendrast. Glugginn er komin líkt og sumarið en það fylgdi honum enginn Rúnar og harmonikkutónar þannig að ég geymi ljóðið um fegurð heimsins  í brjósti mínu og segi þrastarmömmu það þegar ég hitti hana á eftir við að mata ungann sinn.

 

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 826
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 63092
Samtals gestir: 11242
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 09:57:01