Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Ágúst

29.08.2013 21:24

allt er í heiminum hverfult

         Stundum breytast  miðvikudagarnir hjá manni vegna ytri aðstæðna. Mínir miðvikudagar hafa oftast verið notaðir  í að hreinsa sálina og koma einhverju á prent einkum og sér í lagi mér til sáluhjálpar. Ég komst upp á þessi vinnubrögð þegar ég komst í kynni við járnbrautarlest í París í ágúst árið 1999.  Ég ætla ekki að rifja þá sögu upp núna en hún er til. En í ágúst 1999 uppgötvaði ég það hvað einföld stílabók og penni eru mikils virði í lífi manns sem getur bæði notað hönd og huga á erfiðum stundum.


        Norðanáttin læðist að en ennþá helst veður kyrrt og keimur af hausti er farinn að laumast inn í vitin.

Síðustu dagar hafa einkennst af vondri veðurspá og bændur um gjörvallt Norðurland eru að smala fé sínu til að mæta válegum tíðindum veðurspánna. Það er athyglsvert að fylgjast með atburðarrásinni og skynja það hversu menn verða samhentir þegar á þarf að halda. Með stuttum fyrirvara var hægt að manna göngur og þrátt fyrir efasemdir um gang mála varð niðurstaðan sú að skollaeyrunum var lokað og sameigileg niðurstaða náðist. Spá um vonsku veðursins vék fyrir vafanum og í þessum skrifuðu orðum er flest fé A-Húnvetninga komið niður fyri snælínu veðurspáa. Ég er stoltur af mínu fólki sem brást við sem einn maður og veit að náttúran  lætur ekki að sér hæða og spyr ekki um aldur, menntun né fyrri störf.

         Óli vinur minn á hótelinu hefur verið mikið í sviðsljósinu að undanförnu og hefur komið fram í tveimur meistarakokksþáttum á ÍNN og gert stormandi lukku hjá þeim sem kalla ekki allt ömmu sína. Jafnvel þeir sem það ekki gera hafa haft bæði gagn og gaman af þessum þáttum og lært ýmislegt um áhrif karrýs á matreiðslu lambakjöts. Jónas á Ljóninu blómstrar eftir að hann komst inn á booking. com og Sveinn í Plúsfilm er búinn að ráða tvær erlendar stúlkur til að mála gömlu kirkjuna næsta sumar. Í fyrra réð hann tvo tveggja metra háa þjóðverja til sömu verka og sparaði við það stiga til verksins.


        Aðalgatan á Blönduósi. Þar gerast hlutirnir og svo margt ,margt annað

Ég var ekki til staðar  í gær þegar Rúnar vinur minn bar út Gluggann í síðasta sinn á sinni lífsfæddri ævi. Þessi fullyrðing er sett fram samkvæmt hans eiginn sögn og menn geta lesið um í fyrri skrifum á þessum vettvangi.  Ég missti af harmonikkutónunum, ég missti af góðri miðvikudagsnærveru við Rúnar en von mín er sú að þessi höfuð útburður Gluggans haldi áfram að koma til mín í hornið og láta sér detta eitthvað eða ekki neitt í hug.


         Vísa vikunnar er eftir golfvallahrellinn Rúnar Kristjánsson og fjallar eitthvað um tattóveraða tilveru. Vel ort , mörgum skrefum framar mínum yrkingum en ég var bara ekki alveg viss um hvert hann var að fara en það skiftir bara engu máli ef maður er ekki að fara neitt.


        Skýin hrannast upp við Húnaflóa líkt og þau gera annarsstaðar en alltaf birtir upp að nýju 

Börnin mín þau Lára Sóley (tengdadóttir)  og Hjalti Jónsson auglýsa útgáfutónleika sína í Blönduóskirkju á laugardaginn í Glugganum.  Einu get ég lofað og byggi það á eigin reynslu og hlutdrægu mati, þau eru einlæg og yndisleg og það dugar mér.

         Samhengi hlutanna er eftir og eins og flestir vita þá getur verið erfitt að koma auga á það. Í mínum huga er það einfalt og er eitthvað á þessa leið. Allt er í heiminum hverfult eins og Jónas Hallgrímsson orðaði svo vel á sínum tíma. 

21.08.2013 15:20

ótímabær haustvísa á fullu tungli

Það er haustlegt þessa dagana og minnir mann á að sumri hallar og sól lækkar á himni.  Það eina sem vekur sérstaka athygli þessa stundina að í dag er tunglið fullt og þá getur ýmislegt gerst í mannheimum.  Má þar nefna að sumir sofa illa og aðrir ærast og allt þar á milli.


Þessi mynd lýsir alveg deginum í dag og eru fleiri orð óþörf

Óli hótelstjóri er búinn að "brillera" í sjónvarpinu hjá Ingva Hrafni, eldað gómsætt lamb og sett ærlegar húsmæður út af laginu með kyngimögnuðu orðavali yfir hrútabrað í lambakjöti.

Jónas blómstrar aldrei sem fyrr eftir að hann kom sér fyrir í bókunarkerfinu booking.com.  Fólk hvaðanæva úr veröld allri streymir nú til hans í næturgistingu svo nú er lítill friður fyrir þær gæsir sem enn eru ófleygar til að eiga næðissama beitarstund á lóðinni hans.

Rúnar er kominn með Glugga vikunnar og var þungt í honum við Fannar sem var fyrir í fleti hjá mér. "Það er algjörlega óheimilt að leggja bílum í bílastæðið fyrir utan hjá Jóni á miðvikudögum" sagði Rúnar við Fannar. "Hversvegna" varð Fannari á að spyrja. "Nú þetta stæði tilheyrir mér og mínum harmonikkutónum" svaraði Rúnar að bragði og þá var eins og blessuð skepnan skildi.  Um leið og Fannar var farinn færði Rúnar bílinn sinn í stæðið fyrir utan dyrnar hjá mér og það hljómaði líka þessi dásamlegi vals úr hljómtækjum "Súkkunnar". Mér fannst valsin vera í takt við gráu skýjin sem liðu hjá á leið sinni norður yfir Húnaflóann mishlaðin regndropum. Undir geislanum hjá Rúnari var enginn annar en Carl Jularbo að leika "Rackarberg-valsen"  Valsin mýkti grámann í loftinu og hleypti örlítið meiri birtu inn í hversdaginn og fyrir það ber að þakka.  Þegar ég píkti á forsíðuna á diskahulstrinu uan um diskinn með Carli þá sá ég mynd af karlinum og gladdi það mig að við Carl erum báðir með sama smekk fyrir yfirvaraskeggi.


Vísitölusveppafjölskyldan en sumir segja að þessir sveppir sem vaxa á lóð lögregluyfirvalda í sýslunni sé uppskera góðkunningja lögreglunnar sem losa sig við sönnunargögn fyrir yfirheyrslu.

Glugginn segir það á forsíðu að skólinn sé að byrja. Við Rúnar vorum sammála um það að okkur fyndist nú þetta helst til snemmt að skella blessuðum börnunum á skólabekk. Það mætti nú sækja fé á fjall áður en börnunum er smalað saman til að setjast yfir skólabækurnar. En  við fáum víst liltu um þetta ráðið og getum bara það sem gerum best, þusað. Vísa vikunnar er eftir golfvallarskelfinn á Skagaströnd hann Rúnar Kristjánsson og fjallar eitthvað um að rækta land og faðmlag við góða konu.

En við Rúnar eigum alveg eftir að faðma augnablikið þó svo við höfum gert heiðarlega tilraun til að rækta sálartetrið þennan gráa en alls ekki kalda miðvikudag. Því er við hæfi að koma kyrrð á hugann og yrkja ótímabæra haustvísu á fullu tungli í þriðju viku ágústmánaðar.

Hófstillt okkar hugarþel,

haust við hornið bíður.

Lóur út um móa og mel,

markvisst tíminn líður.

14.08.2013 16:02

svo mörg voru þau orð


Sólarlag við Húnaflóa

Dagurinn í dag er grár en hitinn er 14 gráður , vindurinn fer ekki mjög hratt yfir og hann hangir þurr. Sveinn í Plúsfilm er búinn að fara með hundana í morgungöngu og viðra þá. Jónas á Ljóninu er búinn að líta inn og kanna stöðu sína í innritunarkerfi booking.com  og líkt og ég rakst hann á ÍNN bílinn fyrir utan hótelið hjá Óla. Þetta atvik kom af stað ýmsum hugrenningum og var Jónas alveg hissa á því að Ingvi Hrafn hefði ekki kíkt í heimsókn til sín á Ljónið.  En Ólafur Wernersson hótelstjóri er kátur og hefur mikið verið að gerast kringum hann síðustu daga.


Eins og fyrr greinir þá hefur ÍNN verið í heimsókn hjá Óla og tekið upp tvo matreiðsluþætti. Það er hinn frægi Magnús í "Eldhúsi meistaranna" sem verður með Óla í matreiðsluþætti á ÍNN á mánudagskvöldið kl 21 og svo aftur viku síðar. Ingvi Hrafn  hefur líka verið á ferðinni hér um slóðir undanfarna daga að gera þátt um meðal annars Blönduós. Það verður spennandi af fylgjast með útkomunni og ekki er ég  í vafa um að Óla hótelstjóra takist vel upp.



Mikið um að vera á hótelinu hjá Óla Werners. Ingvi Hrafn mætti með sitt lið og tók upp tvo matreiðsluþætti

Rúnar, maður sem ég hélt að væri hættur að koma með Gluggann, kom með Gluggann í dag. "Hvað ertu ekki hættur að bera út Gluggann" sagði ég svona nokkuð snöggur upp á lagið. "Þeim tókst að semja við mig að dreifa honum út þennan mánuðinn" sagði hann um leið og hann lækkaði í Carli Jularbo þar sem hann lék hin skemmtilega vals " Ofärne valsen". Það var einmitt það" sagði ég og bætti við, "mikið var það nú skemmtilegt."

Glugginn er "slank og fitt" en greinir, þó rýr sé frá merkum atburðum eins og skólasetningu grunnskólans og týndri brúnlitföróttri 5 vetra hryssu.  Eldri borgarar stefna að því að fara í skemmtiferð í Kerlingafjöll í lok þessa mánaðar og vísa vikunnar er eftir Jóa í Stapa og fjallar um hughrif  sem hann varð fyrir í Bjarmanesi á Skagaströnd.

Lífið er til þess að gera friðsælt hér um slóðir en alltaf er þó eitthvað um að vera til lita tilveruna. Þegar ég var búinn að lesa ofanritaðan texta fyrir Rúnar varð honum að orði:

Sólarlaust er sumar nú,

sama gamla tuggan.

Mér um hug hjarta nú,

hætti brátt með Gluggann.

Svo mörg voru þau orð og verða ekki fleiri í dag

07.08.2013 14:49

bjargað úr sálarháska

Einatt skrýtna pistla skrifa, skrökva aldrei neinu um neinn. Þetta gæti hæglega verið upphaf þessa pistils því þetta er svo satt þó ég segi sjálfur frá. Eflaust eru einhverjir mér ósammála og er lítið við því að segja því misjafnt er hvernig menn sjá heiminn og sannleikurinn er margbrotið fyrirbrigði svo mikið er víst.


Traustar stoðir samfélagsins, Blöndubrú og Héraðshælið

Vesturbakkinn er á sínum stað og er allt með kyrrum kjörum. Kjörin eru reyndar svo kyrr að þau eru farin að líkjast logninu á undan storminum. Reyndar hef ég ekkert fyrir mér í þessu annað en það sem þau í veðurklúbbnum í Dalbæ hafa fyrir sér við gerð veðurspáa.


Nýtt tungl kviknaði í gær og það var eins og við manninn mælt; lognið datt á og sólin fór að skína . Þau gera svo mikið þessu nýju tungl sem kvikna svona um það bil 12 sinnum á ári og ekki er minna um að vera þegar tunglið fyllist fjórtán dögum seinna.


Kyrrlátt kvöld við ósinn

Glugginn, okkar ástsæla auglýsingablað Austur- Húnvetninga er kominn úr sumarfríi. Glugginn er svona eins og syndlaus harðjaxl sem nýtir  sumfríið til að taka til í sínum ranni , æfa af kappi, borða hollan mat og léttast og grennast. Glugginn hefur svo sannarlega léttst og er að mínu mati kominn að þeim mörkum að ekki megi hann við meiru.  Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd á vísu vikunnar eins og svo oft áður. Hann þvælist með málefnunum  í þoku og reyk og minnist eitthvað á loforðaleik  en er eitthvað hræddur að langt sé í efndir.  Domusgengið er á sínum stað og ekki klikkar Hvöt á WC pappírnum þannig að kjölfestan er enn til staðar í Glugganum. Hinir föstu punktar tilverunnar eru svo mikilvægir svo hægt sé að halda áttum á þessum síðustu og svo framvegis.

Eins og svo oft áður þá kom hann Rúnar með Gluggann til mín og lék á spilarann sinn foxtrott með Carli Jularbo. Lagið sem hljómaði þennan miðvikudag yfir Aðalgötuna bar hið angurværa nafn "Till hemmet tanken går"  sem í lauslegri þýðingu gæti verið hugurinn leitar heim. Við könnuðumst eitthvað  við þetta lag og fannst endilega að í íslenska textanum kæmi fyrir setningin: "ég er þreyttur, ég þreyttur og þrái svefnisins fró. Kom draumanótt með  ...........". Mikið rétt þetta er hið eina og sanna lag sem margir kannast við undir heitinu  "Húmar að kveldi" . Þetta lag sem Rúnar spilaði var þegar málið var kannað nánar einskonar kveðjusöngur því hann tjáði mér að hann ætlaði að hætta að bera út Gluggann því hann nennti því ekki lengur (orðinn þreyttur). Eðlilega var mér nokkuð brugðið og sagði si svona að svona lagað gæti hann bara ekki gert mér því mér væri það algjör lífsnauðsyn að hafa hann sem fastan punkt í minni miðvikudagstilveru. Við sjáum hvað setur en vonandi heldur hann áfram að koma með harmonikkutónana til mín á hvaða tíma sem er svona til að lyfta upp sálinni.

Meðan við sátum í okkar náttúrulegu þungu þönkum litu nokkrir við í horninu hjá okkur og má þar nefna Guðbjarta tvo. Annar fyrrum ráðunautur og hinn fyrrverandi byggingafulltrúi og eigandi Ljósvakans. Það lá vel á Björtunum tveim og hrökk út úr Rúnari.:

Þó margt sé það sem miður fer

þá margur heyrist hlátur.

Guðbjartur nú gengur hér

glaður hress og kátur.

Þessa vísu orti Rúnar til ráðunautsins en þegar Ljósvaka-Bjartur birtist minnkaði galsinn ekki hætis hót og jókst ef eitthvað var og þar sem við vorum búnir að vera í sálarháska varðandi ákvörðun Rúnars um að hætta útburði Gluggans varð þetta til:

Birtast hérna Bjartar tveir,

báðir  fullir gáska.

Björguðu okkur báðir þeir

úr bráðum sálaháska.


Dagurinn er ekki búinn fyrr en hann er búinn. Birtist ekki rétt um kl 16 hann Stefán Hermannsson sem um langt árabil bjó á hæðini fyrir ofan minn vinnustað. Stefán var ekki einn á ferð því með honum í för var Hildur Jónsdóttir frá Hjaltabakka eigandi íbúðarinnar. Það eina sem vantaði var Nonni hundur. Mér skilst að þau séu komin til að vera a.m.k. hún Hildur. En myndir segja meira en mörg orð


  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 207
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 167
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 61091
Samtals gestir: 10747
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:38:17