Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Nóvember

27.11.2013 15:35

að vita ekkert í sinn haus

Þeir eru dimmir dagarnar núna og það hvín í vindinum. Dagurinn í dag er bjartari en gærdagurinn en hvinurin í vindinum er síst minni. Heldur hefur létt yfir himninum sem hékk yfir okkur í gær og hélt aftur af því litla sem sólin hefur upp á bjóða og enn dregur úr birtu næstu 23 dagana þar til norðurendi jarðarinnar fer aftur að leita að sólinni að nýju.


Skýjabólstrarnir yfir Víðidalsfjalli skyggðu á vetrarsólina en geislar hennar reyna hvað þeir geta til að brjótast út. Vallholt og Fornastaðir á Blönduósi í forgrunni

27. nóvember er merkilegur dagur í marga staði og við það eitt að forvitnast svolítið inni á Wikipedia má komast að raun um það. Til dæmis gerðist það árið 1450Langaréttarbót  var gerð í Kaupmannahöfn af  Kristjáni konungi 1. Tilgangur hennar var að koma á friði og lögum í landinu og þar er bann lagt við ribbaldaskap, ránsferðum og gripdeildum, fjölmennum yfirreiðum valdsmanna og fleiru slíku og mönnum bannað að halda "manndrápara, biskupsdrápara, prestadrápara, kirknabrjóta og kirknaþjófa". Það má með sanni segja að þarna hafi veriðið á ferðinni mikil réttarbót.

Einnig var árið 1950 Flugbjörgunarsveitin (FBS) í Reykjavík  stofnuð í kjölfar Geysisslyssins. Þó þessi atburður hafi átt sér stað tveimur árum áður en ég fæddist þá tengist þessi atburður mér mikið. Faðir minn, Sigurður Móses Þorsteinsson kom að stofnun hennar og var tengdur henni afar náið meðan hann lifði og var formaður FBS um langt árabil.

Einnig er vert að geta þess að þennan dag árið 1942 fæddist gítarsnillingurinn Jimi Hendrix sem lést langt um aldur fram og listamaðurinn Sölvi Helgason lést þennan dag árið 1895. Af þessu má sjá að dagarnir hafa allir einhverja sögu að segja og skifta máli í lífi okkar en mismikið hver og einn.

Rúnar er kominn og lék hann að þessu sinni syrpu af léttum harmonikkulögum með "The Diamond Accordion Band" og lagið úr syrpunni sem var undir geislanum hét í íslenskri þýðingu "eitt sinn í borg Davíðs konungs". Þetta var að við teljum fjörugur mars en takturinn var slíkur að við hefðum alveg treyst Kristófer og Önnu til að dansa polka eða ræl eftir laginu. Rúnar var ekki með Gluggann með sér því eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt þá er hann hættur að bera út Gluggann, þess í stað kom hann Skarphéðinn Ragnars með hann rétt fyrir hádegið. Það lá vel á Rúnari en óskaplega hafði hann frá litlu að segja. Það er umhugsunarvert hvort það sé ekki samhengi á milli þess að líða vel, vera vel upplagður og þess að vita sem minnst og hafa frá sem minnstu að segja. Ef maður veit ekkert í sinn haus þá líður manni vel því hvernig er hægt að hafa áhyggjur af því sem maður veit ekki. "Ertu að segja að ég viti ekkert í minn haus" sagði Rúnar við nokkuð höstugur og setti mig í nokkra klípu. "Nei Rúnar minn en mér bara datt þetta í hug þegar ég sá þig" sagði ég til að segja eitthvað og lenti að sjálfsögðu í enn verri klípu og í henni sit ég.


Hafið var hryssingslegt í morgun við botn Húnafjarðar

Glugginn er kominn og hefur frá ýmsu að segja sem of langt væri upp að telja og geta menn lesið efni hans inni á huni.is. Gluggavísu vikunnar á hún Anna Árnadóttir og fjallar hún um ærnöfn en Rúnar hafði á orði að faðir hans hann Daddi Munda (Agnar Guðmundsson) heitinn hefði átt margar hryssur með sömu nöfnum.


Svona skrifaði maður í Morgunblaðið um miðjan janúar fyrir 16 árum.  Þessi frétt er um það að einn og sami atburðurinn getur haft bæði slæm og góð áhrif. Stóðbændur voru súrir en hrossin kát því Japansmarkaður fyrir hrossakjöt hafði hrunið

En það er hvasst úti og það fer kónandi en það hlýtt hér inni hjá okkur Rúnari en nú er kominn tími til að segja amen á eftir efninu og leita eftir hinu mikla samhengi. Rétt er þó að vekja á því athygli að ég hef ekkert minnst á Jónas á Ljóninu í þessum pistli  þó svo hann hafi brugðið sér norður yfir heiðar um helgina og bent RARIK á heitvatnsleka í Blöndubyggðinni , nánar tiltekið í heitavatnslögninni sem liggur að Ljóni norðursins . Núna er búið að laga lekann og nægt vatn leikur núna um Ljónið og Jónas.:

Að Ljóninu kominn var leki,

leitt var að heyra það.

Þó lekinn  þankana  veki

þarf Jónas að komast í bað.

20.11.2013 15:25

Hið einmana líf hins einhenta manns

Nú er ég loksins laus úr fjötrum gifsisins á hægri hendi og get slegið með fingrum beggja handa á lyklaborðið. Þetta er mikill léttir þó svo helstu liðir á handlegg frá handarbakki upp að öxl sé stirðir þá er mér sagt að þeir munu komast í gagnið með æfingu og tíma. En þetta er mikil frelsun því svona umbúðir á handlegg gera það að verkum að maður getur ekki klæðst hverju sem er á efri hluta líkamans. Stuttermabolur og ullarvesti voru helstu hlífarfötin og þegar maður þurfti að bregða sér milli húsa komst maður í aðra ermina á úlpunni og brá henni síðan yfir öxlina og hélt dauðahaldi í handleggslausa hægri ermina. En nú er ég frjáls og kemst orðið sæmilega til fara á mannamót og er það mikil blessun.

Skarphéðinn Ragnarsson (Héddi) kom með Gluggann að þessu sinni og var algjörlega aleinn við það verk. Glugga -Óli hefur oft verið með honum við dreifinguna því eins og flestir vita þá er Rúnar hættur útburði og það vita líka flestir að hann er tveggja manna maki. Já Héddi kom einn og lá bara sæmilega á kalli en mér láðist gersamlega að spyrja hann hvað hann væri að hlusta á í sínum fjallabíl þannig að þá fáum við líkast til aldrei að vita.


Fyrstu flugtökin. Í dag bítur frostið og þá er gott að ylja sér við minningar frá liðnu sumri. Þessar gæsir sem gista frá vori fram á haust á bökkum Blöndu eru flognar til Bretlandseyja. Arnór Þ. Sigfússon fuglafræðingur hefur sent út boð til gæsaáhugamanna að skyggnast eftir því hvort eitthvað sé eftir af gæsum hér á landi því nú stendur yfir talning á þessari fuglategund í Bretlandi. Allar gæsir sem gista Blönduós er fyrir löngu horfnar og við vitum að flestar þeirra fara til Skotlans og nokkrar alla leið yfir til Englands. Það verður spennandi að vita hvort heiðurgæs okkar Blönduósinga hún SLN kom fram í talningu Bretanna og þá hvar hún heldur sig. Þetta kemur allt í ljós og verður spennandi að fá um það upplýsingar.

Jónas á Ljóninu er farinn suður á bóginn á rútunni sinni Sólu alla leið til Reykjavíkur og mun búa í henni í vetur við hliðina á sundlauginni í Laugardalnum.  Jónas er sannur víkingur hvað viðkemur kröfum til gistingar fyrir sjálfan sig því þetta hefur hann "praktíserað" undanfarin ár og sér ekki á honum. Ef eitthvað er þá held ég að þetta hafi bara hert hann og gert hann hæfari að komast af. Einnig held ég að það sé ekki ólíklegt að það að gista ekki í of miklum hita valdi því að það hægi töluvert á öldrun, samanber  að betra er að geyma kjöt í frysti en við stofuhita. Að öðru leiti er lítið að frétta af vesturbakkanum og stóra sprengjumálið er enn óupplýst sem og girðingarmálið mikla hjá Siggu Gríms.

Rúnar leit þó við í Aðalgötunni hjá mér þó svo hann sé hættur Gluggaútburði og hann brá ekki af þeim vana að þenja geislaspilarann í "Súkkunni" sinni og lék hressilega harmonikkutónlist fyrir mig og nokkra hrafna sem leið áttu hjá.

         Flytjendur voru Milan koren sem ku vera þýskur og lék hann hressilegan ræl á harmonikkurnar sínar og dugði hann lítt til að slá á frostið í Aðalgötunni þó svo lagið bæri hið ítalska nafn "Bel viso"

Svona í lokin þá einhenti ég mér í að yrkja "heilræðavísu" að fenginni reynslu af fimm vikna "einangrun" mætti hún verða einhverjum til hugarhægðar sem er í svipuðum sporum.

Hið einmana líf hins einhenta manns

er alls ekki af hinu illa.

Það gildir að halda sinni og sanns

því sálarheill má ekki  spilla.

13.11.2013 15:23

Falla veggir, fölnar grund

Það gengur sífellt á dagsbirtuna og mun svo vera fram til 21. des. Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn muna og mun vera svo lengi sem jörðin   snýst.


Svona lítur sólpallur hins einhenta manns út þegar grundin fölnar. Auðvitað eiga sumarhúsgögn að vera komin í hús en skýringin á því að borðfætur vísa til himins er sú að vindurinn hefur minni möguleika

Það snjóar í logni þennan miðvikudaginn og smiðir gerðu innrás á heimili mitt fyrir allar aldir í morgun og þegar ég kom fram þegar minn fótaferðartími var kominn þá var eldhúsveggurinn sem snýr að gangi gersamlega horfin.  Þetta var veggurinn sem ég hafði á bak við mig við eldhúsborðið og núna finnst mér ég vera berskjaldaður gegn mínu nánasta umhverfi því það er núna hægt að koma aftan að mér í eldhúsinu.  Ég veit ekki hvað þetta kallast á sálfræðimáli en ég hef alltaf haft tilhneigingu til að velja mér sæti út í horni þar sem ekki er hægt að sækja að mér nema framan frá.  Sumir vilja helst koma sér fyrir í miðjum sal og hafa um margar flóttaleiðir að ræða en ég kann vel við að vera króaður af úti í horni. Svona eru menn misjafnir.


Síðasta stund fyrir framan sjónvarpið áður en umhverfi pistlahöfundar gjörbreytist

Fréttir af Vesturbakkanum eru ekki stórbrotnar þó svo að ég sé stórbrotinn. Jónas á Ljóninu er enn að strögla við yfirvöld og svo er hann fúll út í Húnahornið sem birtir ekki á huni.is svarbréf hans við eða frekar að segja andmæli hans við októbernöldri Nöldra, pistahöfundar á Húnahorninu. Jónasi finnst á sig hallað á mörgum sviðum og er óþreytandi í leit sinni að réttlætinu.  Sveinn í Púsfilm kom aðeins í heimsókn í morgun og mér til mikils léttis var hundaþvagan ekki með honum í för því  þegar þessu litlu dýr koma inn til mín þá hreiðra þau yfirleit um sig í gestasætum hjá mér og skilja yfirleitt eftir sig hálfan feldinn. Ívar Snorra sé ég varla og þegar ég hugsa það þá hef ég varla séð hann síðan dularfulla tunnusprengingin varð í ósnum fyrr í haust. Kiljufólkið er að færa út kvíarnar því það hefur fest kaup á gamla sýslumannshúsinu fremst á brekkunni en ég veit ekki hvort það hafi áttað sig á því að kvaðir fylgja því húsi. Á öllum tyllidögum þarf að flagga svo bæjarbúar geti áttað sig á því að eitthvað merkilegt sé á seiði.

Héddi kom með Gluggann í morgun og er hann óvenju þykkur að þessu sinni þ.e.a.s Glugginn. Kennir þar ýmissa grasa og má nefna að Textíllistamiðstöð á Blönduósi auglýsir eftir starfsmanni og hið sama gerir leikskólinn. Búgreinafélögin í A-Hún auglýsa uppskerhátíð sína í Húnaveri eftir rúma viku og rafmagnsverkstæðið Átak minnir á sig. Vísu vikunnar yrkir Ingólfur Ómar Ármannsson og er hún nokkuð dýr og fjallar um mjöll sem hylur fjöll og veðrasköll sem vekja vetrartröll. Ég veit ekki mikið um þennan höfund annað en að hann orti þetta á sínum tíma:

Skundar nú á skemmtifund
skagfirðingur glaður.
Sönghneigður með létta lund
ljúfur kvæðamaður.


Þessi indælu börn úr Blönduskóla komu um daginn og færðu okkur Brynju Birgisdóttur þessa fallegu vinargjöf. Lífið er ekki bara Brattabrekka

Það er enginn Rúnar í dag og engin harmonikka og verð ég líkt og síðustu miðvikudaga að leita einn og yfirgefinn að samhenginu sem er svo mikilvægt í lífinu.

Falla veggir, fölnar grund,

fýkur ört í skjólin.

Enn er létt mín þvera lund

þó lækki á himni sólin.

PS. Haldiði ekki að Rúnar hafi birst þegar ég var að hlaða inn pistlinum og var vinur okkar hann Arnt Haugen með honum í för og lék á harmonikku sína  hinn landsfræga Strekkebuksepolka. Ég varð bara að koma þessu að því satt best að segja gladdi þetta mitt litla harta sem horfir upp á veggi falla og grundina fölna með lækkandi sól.

06.11.2013 14:49

afplánun fyrir gróft brot



Þó Spákonufellið sé bæjarfjall Skagastrandar sýnir það Blönduósingum sínar fallegu hliðar

Núna er ég rúmlega hálfnaður með afplánun fyrir gróft brot, olnbogabrot. Það er með ólíkindum hvað maður getur lagað sig að breyttum aðstæðum og hef ég satt best að segja komið sjálfum mér á óvart því vandfundnari er maður sem jafn rækilega er bundinn í viðjum vanans en lengi má manninn reyna. 

Dagurinn er fallegur, bjartur, stilltur og frekar svalur og hefur allt til að prýða góðan miðvikudag í fyrstu viku nóvember.   Raunar get ég hér látið staðar numið því frá litlu öðru hef ég að segja öðru en raunum mínum en fáir hafa áhuga á sjálfvorkun annara en sinnar sjálfrar.


Í vestrinu rísa Strandafjöllin úr sæ og þegar þau sýna sig eru þau aldrei eins en alltaf töfrum líkust

Dagurinn er í veðurfræðilegu tilliti góður það hefur komið fram og sólin sem sífellt lækkar á himinfestingunni varpar skemmtilegu ljósi á allt umhverfið þá skömmu stund sem hún hefur  til þess. Þetta er allt og sumt fyrir utan það að Glugginn er kominn út og vísu vikunnar á Rúnar skáld á Skagaströnd og kveður hann sumar sem ekki kom en vonar að veðrið í vetur gleðji í staðinn.


Hafaldan brotnar við botn Húnafjarðar og æðarfuglinn heldur sig fyrir utan brimskaflana

Það er enginn Rúnar með harmonikkutóna þannig að hér sitt ég einn með sjálfum mér og harma minn hlut en nú skal hætt því allt stefnir þetta í eymd, volæði og væl. Góðar stundir!

Sit ég einn með sjálfum mér,

segi helst til lítið.

Svona er staðan eins og er,

svona er lífið skrítið.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63167
Samtals gestir: 11264
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 12:43:54