Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2013 Desember

18.12.2013 16:22

alltaf koma blessuð jól


Máninn var fullur í gær í síðasta sinn á þessu ári. Hér er hann á leiðinni bak við Strandafjöllin

Það eru að koma jól, um það efast enginn sem á annað borð er með ráði og rænu. Þetta eru ekki nein ný sannindi því þessi hátíð er alltaf einu sinni á ári og henni fylgja ýmsir siðir og hefðir. Ein þessara hefða er að kaupa jólagjafir og koma þeim í viðeigandi búning og merkja þær rétt. Ég held að ég sé ekkert að ljóstra upp neinu leyndarmáli þegar ég viðurkenni það að ég lendi alltaf í vandræðum með einu jólagjöfina sem ég þarf að kaupa. Sú jólagjöfin sem um ræðir er handa eiginkonunni.  Það er löngu búið að venja mig af því að kaupa eldhúsáhöld og slíka hluti. Þetta gerði maður bara þegar Guðni Ágústsson var upp á sitt besta og sannfærði þjóðina að staða konunnar væri á bak við eldavélina en nú er öldin önnur. Nú er búið að sannfæra mann um að hlutverk konunnar er annað og meira en húsverk og uppeldi barna. Öll þessi sannindi hafa bara gert það að verkum að ég verð mjög óöruggur hvað sé rétt að gefa konunni.  Ef maður gefur henni "sjampó og ilmolíur þá er maður að gefa eitthvað til kynna. Svona má lengi upp telja en mönnum má ljóst vera að vandi minn er ærinn.  


Einmanna mávur flýgur mót stífum suðvestan vindinum en undiraldan úr norðri var þung í dag og segir okkur að úti fyrir er norðanáttin farin á kreik

Óli hótelstjóri kom hér í gær til þess að bregðast við áskorun ríkisstjórans um að setja upp jólaskreytingar í nokkra glugga hótelsins.  Hótelstjórinn setti upp skreytingar í fjóra glugga í Snorrabúð hótelsins og hanga þrjár þeirra upp þegar þetta er skrifað en ein hefur fallið niður í gluggakistuna.  Gott hjá Óla að varpa birtu á umhverfi sitt þó svo hann hafi svínað á mig í hádeginu þegar hann geystist á jeppa sínum þvert yfir Aðalgötuna, líklega á leið sinni suður yfir heiðar.

"Lýs milda ljós" eru orð sem koma upp í hugann þegar ég á leið framhjá gömlu kirkjunni okkar.   Matthías Jochumsson orti þennan sálm á sínum tíma og er hann oft sungin við útfarir. Þessi orð kvikna, því ekkert ljós logar í gömlu kirkjunni okkar nú á aðventunni. Þó kirkjan sé afhelguð þá væri samt notalegt að sjá ljós loga í kirkjunni þó  svo það væri ekki nema eitt og lítið. Eitt lítið ljós í glugga er tákn um líf og von. Ef kirkjuhöfðinginn í gamla bænum les þessi orð vona ég að hann bregðist við af ljúfmennsku og færi okkur ljós í þessa gömlu kirkju sem svo margir eiga góðar minningar um.

Ívar Snorri fyrrverandi útgerðarmaður hefur nú fyrir jólin til sölu á heimili sínu jólatré frá Erlingi skógarbónda á Hamri. Ég keypti reyndar af honum jólatré í fyrra en það komst aldrei inn í hús mitt fyrir þær sakir að ég var numin á brott til Kanarí yfir jól og áramót.  Allar líkur standa til þess að ég verði heima þessi jól og áramót en eins og svo oft hefur sannast þá ræður enginn sínum næturstað. Þrátt fyrir það þá keypti ég af honum tré úr Hamarsskógi.

Jónas á Ljóninu hefur lítið gert vart við sig síðustu 7 dagana og eru því engar fréttir af honum og ævintýrum hans á suðvestur horninu. Ég veit ekkert hvort hann sé búinn að draga sýslumann og bæjaryfirvöld fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en ég veit að hún Bella heimilskötturinn á Ljóninu hefur það gott. Villi Skafta bróðir Jónasar hugsar vel um kisu og færði henni á dögunum soðna ýsu sem var svo sannarlega vel þeginn.

Glugginn er kominn og var hann í gildara lagi því jólakveðjur fylla síður hans.  Gluggavísu vikunnar á að þessu sinni hinn skáldmælti Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd.  Sækir hann sér innblástur í anda jólanna og kemur auga á það líkt og ég að ljósið skiptir máli . Fyrir utan allar fallegu jólakveðjurnar er tvennt sem vekur sérstaka athygli mína en það er að kominn er nýr prestur á Skagaströnd og að hreppaþorrablótið verður að þessu sinni haldið á Húnavöllum. Hinn nýji prestur heitir Bryndís Valbjarnadóttir og kemur sögn kunnugra vel fyrir sjónir og býður af sér góðan þokka, ber höfuð hátt og lítur beint fram. Farnist henni vel með söfnuði sem nýlega er búinn að fá hitaveitu.

Ekki sést neitt til Rúnars vinar mín, mannsins sem dreift hefur harmonikku tónum um Aðalgötuna í allmörg ár samhliða Glugganum. Svo virðist sem hann ætli að bregðast mér enn einn miðvikudaginn en þar sem eru að koma jól er mér ljúft að fyrirgefa honum og sitja einn uppi með samhengið í hlutunum.

Ærinn vandi ávallt bíður,

á að kaupa bók eða kjól.

En hvað sem öllu öðru líður,

alltaf  koma blessuð jól.


Gleðileg jól !

11.12.2013 16:16

hið venjubundna líf


  Nyrsti hluti gamla bæjarhlutans. Gamli spítalinn, Sæmundsenhúsið, gamla Samkomuhúsið, Hreppshúsið og Hillebrandtshús svo einhver hús séu nefnd

   Það líður hratt að jólum og myrkrið að ná hámarki.  Á þessum fallega miðvikudegi á ellefta degi desembermánaðar leikur um okkur hægur sunnan vindur og inniber hvorki frost né hita. Það er hálka á götum og snjóhula yfir öllu sem kemur að gagni fyrir vaxandi tunglið til að varpa birtu á umhverfið. Lífið heldur sem sagt áfram eins og ekkert hafi í skorist og verð ég í fullri hreinskini að lýsa ánægju minni yfir því.


Gamla pósthúsið sem núna þjónar sem gistiheimili. Kvennaskólinn og Heimilisiðnaðarsafnið norðaustan við Blöndu.    

     Lífið á Vesturbakkanum er ekkert svo frábrugðið hinu venjubundna lífi svona almennt séð meðan svartasta skammdegið gengur yfir. Því veldur að sjálfsögðu fjarvera Jónasar á Ljóninu og stopul viðvera Óla hótelstjóra yfir háveturinn. Jónas er eins og áður hefur komið fram, farinn suður í Laugardalinn í Reykjavík á henni Sólu sinni og unir hag sínum vel að eigin sögn. Hann er enn að vasast í kærumálum á hendur bæjaryfirvöldum og sýslumanni og segir að brátt fari að bresta á með tíðindum. Ég spurði hann hver muni flytja hans mál fyrir dómskerfinu og tjáði hann mér að það myndi hann gera sjálfur. Jónas hafði samband við mig núna rétt áðan og sagði að málið hans færi líklega fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir jól "og alla leið í Hæstarétt ef með þarf" bætti hann við. "Ætli ég verði ekki að klæðast svörtu skykkjunni þegar í Hæstarétt er komið því ég flyt mál mitt sjálfur". " Þú þarft nú ekki að bera gráu hárkolluna því á þér er hún sjálfsprottinn" sagði ég svona til að leggja honum eitthvert lið í veraldarvafstrinu.

     Glugginn er kominn og hef ég aldrei séð hann jafn þunnan. Hann er eitt A4 blað brotið saman í miðju.  Þó svo Glugginn sé rýr þá má finna í honum auglýsingar frá Átaki, Domus-genginu og Sölufélaginu. Auk þess er vísa vikunnar á sínum stað og er eftir hana Önnu Árna. Og fyrir þá sem ekki vita þá má lesa í Glugganum að þriðji þátturinn af Sumarævintýri Húna verður sýndur í kvöld í sjónvarpinu. Er hér með lokið að telja upp efni úr Glugganum enda frá litlu öðru að segja.


Ystu húsin á Brimslóðinni (Pétursborg). Það sér yfir á Kvennaskólann sem stendur utan ár    

     Rúnar vinur minn hefur alveg látið hjá líða að líta til mín í hornið og lífga upp á Aðalgötuna með eldfjörugum harmonikkutónum.  Mér finnst gott að fá þennan brosmilda einhleypa hagyrðing til mín í heimsókn því hann hefur ætíð á takteinum hið sígilda upphafsstef, "Margt er það sem miður fer" og heldur stundum áfram ef vel liggur á honum með: "og mætti fara betur."  Já Rúnar kom ekki en Himmi Snorra leit hérna við og þáði hjá mér brjóstsykur og örsögur af Jónasi. Einnig komu hér við hjá mér "prestmaddaman " í Miklabæ, hann Agnar Gunnarsson og með honum í för var prestsonurinn og fyrrum stórbóndi í Glaumbæ ,Arnór Gunnarsson. Það lá vel á þeim félögum og voru þeir að koma frá því að leggja inn ull hjá Ístex.

     En nú er dagur að kveldi kominn og hefur verið stóráfallalaus fram að þessu og fyrir það þakka "stórbrotnir" menn. Mér hefur lærst það með árunum eftir að hafa horft framan í alvöru lífsins nokkrum sinnum að það er mikilvægt að þakka fyrir hvern dag. Nú er mál að linni og rétt að koma sér í hið andlega jafnvægi að þurfa að borða aleinn með sjálfum sér í kvöld en ætti ekki að vera erfitt því heimagerðar fiskbollur verða á kvöldverðarborðinu.

 

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 100
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56734
Samtals gestir: 10459
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 13:33:36