Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2014 Mars

26.03.2014 15:48

stóra - skiltamálið


Hvassviðri var við Húnaflóa í morgun og hitinn fór í 8 gráður

Það syngur og hvín í öllu og sunnanvindurinn æðir á ógnarhraða um grundir. Það skefur af bárum hafsins og fuglarnir hafa hægt um sig. Þó finnst mér líklegt að með svona öflugri sunnanátt fjúki farfuglarnir hreinlega á heimaslóðirnar.  Í gær á boðunardegi Maríu var fallegt veður fram til kl 16:30 en þá dimmdi í lofti. Ég var búinn að hlakka til þess allan daginn að eiga góðan eftirmiðdag  í björtu veðri og hægum vindi með minni myndavél á bökkum Blöndu. En eins og allir vita þá skipast oft veður skjótt í lofti og datt mér helst í hug að skaparinn hafi ákveðið á þessum boðunardegi að draga fyrir himnatjöldin meðan hann væri að skapa. Og mikið rétt, ég sá í hádeginu grágæsir hrekjast undan vindi en ná landi í Hrútey. Kunnugur segja að fyrstu grágæsirnar hafi komið í gær og má það satt vera. Nú verður spennandi að fylgjast með því hvort hin þrautseiga grágæs SLN skili sér nú í vor  á Blönduós í a.m.k. 15. sinn.


Stundum valda lítil skilti miklum vanda

Þó vindar blási hressilega á þessum degi þá næða líka snarpir vindar í samfélagslegu tilliti. Stóra skiltamálið sem hér hefur áður verið minnst á hefur náð áður óþekktun hæðum. Fyrir nokkru þá fjarlægði Jónas vert á Ljóninu vegamerki við þjóðveg eitt við innkomuna í bæinn sem vísaði veginn að hótel Blönduós. Þetta brotthvarf vakti ekki ánægju í samfélaginu og má geta þess að eigandi hótelsins var var enn svartari í andliti en venjulega  þó svo erfitt sé að greina húðlit á andliti hans fyrir svörtu skegginu.  Þetta mál hefur fengið dágóðan sess á æðstu stöðum og hverjum steini hefur verið velt við til að sýna fram að það að fullyrðing Jónasar um að hann eigi þetta skiltastæði sé ekki á rökum reist. Samkvæmt nýjustu fréttum þá hefur komið í ljós að hótelið eigi þetta skiltastæði  og mun Sölufelag A-Hún (SAH) sem á sínum tíma rak hótelið hafa fengið leyfi fyrir því og greitt fyrir það. Með þetta að leiðarljósi hefur það svo gerst að nú eru það fleiri en Jónas sem skrúfa niður skilti því búið er að fjarlægja öll verksummerki um Jónas á Ljóninu og meki hótelsins er komið aftur á sinn stað. Ég hef nú ekkert heyrt í Jónasi á Ljóninu eftir nýjustu atburðarásina en á nú ekki von á því að létt verði yfir kalli þegar hann fær fréttirnar. Ég hef aftur á móti hitt Óla hótelstjóra og verður að segjast eins og er að hann er assskoti prúnkinn með sig og telur sig hafa unnið fullnaðarsigur í stóra skiltamálinu og eins er það að hann telur miklar líkur á því að hótelið muni skipta um eigendur fljótlega ef það tekst að hnýta alla lausa enda á farsælan hátt. Í stuttu máli þá held ég að stóra - skiltamálinu sé ekki lokið því ef að líkum lætur mun Jónas á Ljóninu verða eins og grenjandi ljón við yfirvöld og telja að stórlega hafi verið gengið á hans hlut. Lítil skilti geta orðið stór standi til þess vilji. Reyndar þegar ég var búinn að skrifa framanritað þá hringdi Jónas í mig úr höfuðborginni og ég sagði honum helstu tíðindi af vesturbakkanum. Það get ég sagt með sanni líkt og  í storminum syngur og hvín að Jónasi var brugðið. Ekki var ég viss hvernig hann ætlaði að bregðast við þessum nýjustu tíðindum en eitt skynjaði ég að lögfræðingar voru honum ofarlega í huga. En ég endurtek bara að stóra - skiltamálinu er hvergi nærri lokið.


Fyrstu grágæsirnar komu á boðunardegi Maríu

Glugginn er kominn og er þar ýmislegt að finna eins og það að leikfélagið frumsýnir á föstudaginn leikverkið "dagbókin hans Dadda" . Krakkarnir í dreifnáminu (nafn sem ég er ekki alveg að "fíla") taka mikin þátt í uppsetningu þessa verks og ég veit að þau munu ásamt öðrum skila sínu hlutverki vel. Fergusonfélagið og  Landbúnaðarsafn Íslands verða með fund í Dalsmynni 1. Apríl og  austur- húnventskir kúbændur ætla suður í Borgarfjörð þar sem botninn ku leynast. Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson og ratast honum eins og stundum áður rétt orð á munn þegar hann segir: Djúpar lægðir landið plægja/ lognmolla er hvergi til.

En Rúnar vinur minn og harmonikkuunnandi er hvergi sjánlegur og allar líkur á því að ég verði án hressandi tóna frá harmonikku Arnt Haugen eða Familien Blix svo einhverjir séu nefndir. Auk þess sit ég einn uppi með samhengi hlutanna  sem eins allir vita er nauðsynlegt að koma auga á.

Lifa munum leiða tíð

og látlaust mundað stálið.

Ei mun standa um stutta hríð

stóra - skiltamálið.

20.03.2014 15:46

vindgangur og draumar

Það er stífur vindur  sem kemur úr norðaustri sem lemur á okkur á þessum degi þar sem dagur og nótt eru jafn löng. Það er ekki mikið úrfelli og skyggnið ágætt og hitinn eina til tvær gráður fyrir ofan frostmarkið.


Það hefur verið smá garg í dag en það er ekki allt grábölvað því sjá himins opnast hlið yfir Hnjúkum og Hauki á Röðli

Já, dagurinn hefur jafnað metin við nóttina og herðir tökin á henni fram til 21. júní. Þó svo nóttin sé farin að láta undan þá virðist veturinn ekkert vera að gefa sig og herðir tökin ef eitthvað er. Veturinn má þó eiga það að hann er heiðarlegur og gerir þetta með hækkandi sól svo sem flestir geti séð handbragð hans í dagsbirtu.

Það er gaman að rifja upp draum frá því um miðjan febrúar það herrans ár 2008. Þessi draumur var tilkominn vegna þess að ég lagði mig fram um að dreyma mig í grænum jakka því það er fyrir hlýnandi veðri segja mér reyndir draumaráðningamenn. Ég hafði nefnilega fyrr um þennan vetur dreymt að ég hefði verið við það að festa kaup á köflóttum jakka í S-Afríku og þótti það boða rysjótt tíðarfar sem svo gekk eftir. Lái mér hver sem vill að gera allt sem í mínu valdi stóð til að hafa áhrif á máttarvöldin  sem skömmtuðu okkur bara köflótt tíðarfar. En frásögnin af draumnum  sem ég ætla að rifja upp er á þessa leið: "Reyndar dreymdi mig fyrir ekki svo margt löngu að sonur minn og tilvonandi tengdadóttir hefðu eignast lítinn dreng, svona líka fallegan og ljúfan og fannst mér einhver segja "mikið er hann líkur afa Jóni á Blönduósi" og mér hlýnaði eitthvað svo innra með mér. Þetta indæla par á reyndar von á barni í lok mars og ég veit ekkert hvers kyns það er og hef óskað eftir því að vera ekkert upplýstur um það. Ég vil hafa eitthvað til að hlakka til. Það er svo spennandi þegar barnið kemur í heiminn og maður heyrir kannski. " Fæddur er lítill heilbrigður drengur 16 merkur og 54 cm alveg eins og afi á Blönduósi"" Það get ég sagt ykkur að þetta gekk eftir og er engu ofaukið nema þá helst samlíkingin við afa sinn og hugsanlega gæti fæðingarþyngd og lengd eitthvað verið önnur en hann Jóhann Ingvi Hjaltason verður 6 ára á laugardaginn.


Múkkinn (fýllinn) er mættur þrátt fyrir úfinn sjó

Þetta er svolítið stílbrot hjá mér að vera með skrif sem þessi á fimmtudegi en það stafar af því að ég þurfti að bregða mér af bæ í gær. Ég er mjög þakklátur fyrir það að hafa getað sinnt erindum í gær og þverað tvo fjallvegi án teljandi vandkvæða. Í dag er kolófært til höfuðstaðar Norðurlands og ef satt skal segja þá finnst mér alltaf betra að vera veðurtepptur heima hjá mér en að heiman. Þetta stílbrot er þess valdandi  að ég fæ líklega enga harmonikkutóna frá Rúnari og ég var líka víðsfjarri þegar Glugginn kom í hús með auglýsinu um laust húsnæði í Lönguvitleysu. Ekki kom fram hvort þetta húsnæði væri til leigu eða sölu eða hvort það þyrfti bara að festa það en Arnar Þór bæjarstjóri veitir allar upplýsingar um það.

En hvað sem öðru líður þá er dagurinn í dag, dagurinn sem mestu skiptir eins og ég hef margoft sagt og hann verður að höndla. Þó svo veðurspár geri ekki ráð fyrir því að vorið sé handan við hornið þá er sílamávurinn mættur  sem og múkkinn og sést hefur til álfta og samkvæmt öllu er ekki langt í fyrstu grágæsirnar frá Bretlandseyjum.


Sílamávurinn er einn af fyrstu vorboðunum

En best er að láta þessu jafndægrasproki lokið og vitna í vísu eftir Sigurjón Guðmundsson oft kenndur við Fossa í Svartádal en af hans vörum nam einhver þessa vísu þegar hann átti leið fram hjá brunarústunum á Blöndubyggð 13 á dögunum.

Á Einarsnesi áður stóð,

aldrað hús með sögu.

Horfið er í heitri glóð,

hver stjórnar svona lögu.

(Sigurjón Guðm)

12.03.2014 15:10

lífið það er sterkara en dauðinn


Þessi mynd var tekin fyrir nákvæmlega ári síðan en þá var straumöndin farin að sækja töluvert upp í ósinn en í vor hefur nánast ekkert borið á henni

Hann er meinlaus þessi miðvikuagur. Skýjað loft og hitinn þrjár gráður fyrir ofan frostmarkið og hægur suðlægur andvarinn leikur um vanga. Það er ekkert upp á þennan dag að klaga og það er fullkomlega í okkar valdi hvernig hann verður að öðru leiti. Á þessu eru undantekningar eins og gengur og er eftirfarandi saga bara lítið dæmi um það.

12. mars er í mínum huga einstakur dagur því þessi dagur hefur markað djúp för í mína sál. Fyrir 34 árum þá ól mín kona andvana tvíbura, sveinbörn á Landsspítalum í Reykjavík. Það þarf ekki að hafa mjög mörg orð um það hvernig slíkur atburður hefur áhrif á einstaklinga sem næst atburðinum standa. Á þessum tíma var lítið í boði sem hét áfallahjálp eða sálgæsla. Ég sá fyrir tilviljun þegar tveimur lífvana nýburum 8  og 10 merkur var ekið á litlum vagni út úr sjúkrastofunni sem konan mín ól þá.  Ég held að aldrei á minni lífsfæddri ævi hafi ég verið eins ráðalaus og hugstola og þá. Ég man bara að mér voru færð tíðindinn í biðstofu fyrir verðandi feður og ég ráfaði út í daginn upp á Skólavörðuholtið og hljóp niður allan Skólavörðustíginn og heim til foreldara minna sem þá bjuggu í danska sendiráðinu á Hverfisgötunni. Þetta var einsog gerst hefði í dag. En ég man líka jafnvel og þennan, annan atburð fyrir nákvæmlega 33 árum en þá fæddist okkur hjónum sonur á nákvæmlega á sama stað og í nákvæmlega sama rúmi. Þessi drengur er sem sagt 33 ára í dag og það merkilega er að líkast til hefur hann greint sálarháska föður síns því hann lagði fyrir sig sálfræðina og starfar við það í dag. Hjalti Jónsson tveggja barna faðir á Akureyri á afmæli í dag, dag sem kenndi mér það að lífið það er sterkari en dauðinn.

En aftur til nútímans, dagsins í dag sem eins og áður er getið er bara meinlaus hvað veður áhrærir. Hér á vesturbakkanum hefur verið til þess að gera tíðindalítið síðustu viku en ég efa það ekki að undir yfirborðinu kraumar eitthvað sem mun marka spor sín á söguna. Hótelið er til sölu og ég veit að einhverjir hafa sýnt því áhuga að eignast það. Það er til góð saga um Óla hótelstjóra þar sem hann á að hafa sagt við einn ágætan markaðsmann í ferðamálum og  það gersamlega í óspurðum fréttum. "Það er bara eitt sem ég þoli ekki en það eru þessir andskotans túristar".  Alveg get ég trúað því að Óli hafi látið þetta út úr sér bara til að stuða viðmælanda sinn því þeir sem þekkja til Óla vita að hann er "ólíkindatól".

Jónas á Ljóninu hefur haft hægt um sig upp á síðkastið en ég veit að ljónið vakir. Það fer nú að styttast í það að hann komi norður í hreiðrið líkt og hinir farfuglarnir því ég veit fyrir víst að Jónas hefur aldrei á sinni löngu ævi staðið frammi fyrir eins mörgum bókunum í gistingu þannig að hinn "elderly gray man" þarf að láta hendur standa fram úr ermum í sumar og einbeita sér eingöngu að því verkefni .


Aðalgatan í dag og gámarnir góðu við suðvestur gafl Aðalgötu 9. Myndin er frekar líflítil

Svo virðist að Aðalgatan sé orðin að einu helsta gámasvæði bæjarins. Athafnasvæðið fyrir framan Krútt-húsið hefur geymt tvo 40 feta gáma sl. 7 daga og hindrað alveg aðgengi að Aðalgötu 9.  Hvað skildi þetta ástand vara lengi?


Ívar Snorri í hlutverki gamals manns. Með honum á myndinni er Atli Einarsson (sonur Einars Kolbeins og Hafdísar Vilhjálms)

Að öðru leiti er allt í góðum farvegi og gaman að geta þess að sægreifinn Ívar Snorri er við æfingar á leikverki með leikfélagi Blönduóss. Reyndar hef ég lítið séð til Svenna í Plúsfilm og mér skilst að hann sé með hugmyndir að flytja sig aftur til höfuðborgarinnar.

Rúnar er kominn með harmonikkutónana og fylla þeir út í Aðalgötuna  þar sem gámar hafa ekki nú þegar fyllt. Það var góðvinur okkar hann Arnt Haugen sem lék af mikilli list polkann "yfir stokk og steina". Rúnar var glaður í bragði og ótrúlega létt yfir honum enda nýkominn úr klippingu.  Það hrökk svona út úr mér þegar ég sá þennan "margt er það sem miður fer" mann, hárléttan:


Af höfði Rúnars fokið er

hárið út í buskann.

Margt er það sem miður fer

og misjöfn undin tuskan.

En við þurfum að komast að samhengi hlutanna þennan miðvikudaginn sem er enn einn bautasteinn í veraldarsögunni og hverfur líkt og annað í aldanna skaut svo munið þetta á lifsgöngunni.

Margt er það sem miður  gæti talist,

margan má hér líta breyskan sauðinn.

Á lífsleiðinni margir hafa kvalist,

en lífið það er sterkara en dauðinn.

05.03.2014 16:24

Bakaríið, skiltið og húsið sem hvarf


Það er ýmislegt sem er að gerast hér á vesturbakkanum þessa daganna. Augýsingaskilti við þjóðveg 1 hafa verið fjarlægð, Sveitabakarí er hætt starfsemi í gamla Krúttbakaríinu og síðast en ekki síst þá var Blöndubyggð 13 brennd til kaldra kola í gærkvöldi. En hvað sem öllu líður þá er veðrið þennan miðvikudag bara sæmilegt. Vindur svona 5 - 6 metrar á sekúndu og kemur úr suðaustri. Skýjað en skyggni mjög gott og hitinn einni gráðu fyrir neðan frostmarkið. Og það sem er fyrir hvað mestu að töluvert hefur gengið á klakann.


Eins og fyrr segir þá er og hefur ýmislegt verið að gerast á vesturbakkanum að undanförnu og einmitt þessa stundina þá stendur yfir flutningur á tækjum úr bakaríinu. Menn rogast með stóra gáma og fylla þá af allskyns tækjum og tólum. Í stuttu máli þá er sögu Sveitabakarís lokið að minnsta kosti fyrst um sinn í Krútthúsinu.  Um ástæður þessa veit ég næsta lítið en þó það að leigusamningar milli eiganda Krútts og bakarís gengu ekki eftir.




Eins og þeir sem þessa síðu skoða vita þá kom Jónas á Ljóninu í heimsókn fyrir viku og lét hann það verða sitt síðasta verk áður en hann hélt suður að fjarlægja leiðbeiningarmerki við þjóðveg eitt hvar á stóð "Hótel Blönduós". Þetta merki var á sama standi  og fyrir voru merki sem vísuðu á Ljón Norðursins. Jónas fjarlægði Hótelmerkið á nokkurrar sektarkenndar því hann taldi sig eiga þennan stað sem merkin eru á og væri því í fullum rétti. Ég veit að margir hafa rekið upp stór augu yfir þessu öllu saman og sýnist sitt hverjum um þennan gjörning en enga hef ég heyrt niðurstöðu í máli þessu.


Flygildi með myndavél sveimaði yfir eldhafið og allt um kring

Svo gerðist það í gær að það fór að hitna vel undir  Jónasi á Ljóni norðursins því slökkviliðið kveikti í næsta húsi við hann, nánar tiltekið Blöndubyggð 13.  Það hefur lengi staðið til að fjarlægja þetta hús og hafði slökkvilið fengið leyfi til að kveikja í því og nota til æfinga. Það var eiginlega ekki fyrr en í gær að vindátt varð hagstæð til verksins og þá var blysum brugðið á loft. Reyndar gekk slökkviliðinu brösuglega  kveikja í og sögðu kunnugir að það stafaði af því að slökkviliðið væri ekki brunalið. Í morgun var svo Kristján Kristófers mættur til að fjarlægja brunarústirnar og skyndilega er komið þetta fína byggingasvæði fyrir Jónas á Ljóninu til að fjölga sumarhýsum. Vonandi ber honum gæfa til að ná samningum við bæjaryfirvöld um þessi mál. Og svo mun vonandi í vor þegar farfuglarnir fara að streyma til landsins  rísa þarna á Einarsnesinu rétt sunnan við, fuglaskoðunarhús hvar menn geta fylgst með hinu fjölskrúðuga fuglalífi á Blöndu.


Blöndubyggð 13 rjúkandi rúst

Í dag er öskudagur sem ég stundum kalla sníkjudýradaginn. Það er nú meira svona  í gamni sagt því krakkarnar ganga misskrautleg milli fyrirtækja og stofnana og syngja fyrir gjafar sem í lang flestum tilfellum er sælgæti. Sem sagt litlu "dýrin" ganga um og "sníkja" en þau lífga upp á tilveruna og mér þykir bara vænt um þessi "sníkjudýr".




Rúnar vinur minn Agnarsson hefur ekki enn komið til að létta mér miðvikudagstilveruna en Himmi Snorra kom og tjáði mér að skiltahreinsarinn hann Jónas á Ljóninu hafi tilkynnt komu sína á Blönduós á morgun. Ætli hann ætli ekki að setja nýtt skilti upp þar sem áður var hótelskiltið og upplýsa vegfarendur um að það séu um 600 metrar í gistihúsin hans sem opin eru frá 1. maí fram í byrjun október.


Já það gengur á ýmsu og í mörg horn að líta. Í gær  fékk ég  sendann diskling frá mínum góða vin á Akureyri honum Jóni Inga Einarssyni. Diskurinn hafði að geyma viðtöl við frambjóðendur í bæjarstjórnarkosningum á Blönduósi árið 1990. Við hjónin horfðum á þennan disk og það sem hann hafði að geyma okkur til mikillar ánægju og kann ég nafna mínum bestu þakkir fyrir sendinguna. Það kom mér skemmtilega á óvart að kona mín þekkti mig ekki og satt best að segja átti ég í mesta basli að bera kennsl á sjálfan mig en eins og fyrr greinir þá skemmtum við okkur konunglega yfir þessum mynddisk. Takk Jón Ingi!

En mál er að linni og hingað og ekki lengra.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63152
Samtals gestir: 11258
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 06:34:50