Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2014 Apríl

23.04.2014 15:39

sumarið kemur á morgun


Einstök birta fylgdi sólarlaginu í gærkvöldi

Þá er þessi vetur senn á enda runninn og  sumarið kemur á morgun. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman þá boðar það gott sumar. Það hreint með ólíkindum hvað mannskepnan er óútreiknanleg og mótsagnakennd. Menn eru í ofvæni búnir að bíða eftir sumrinu og bölva snjó og kulda þegar líða tekur á vorið en biðja svo um frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta. En þessi síðasti miðvikudagur þessa vetrar er sólríkur, stilltur og hitinn kl 9 í morgun var 6 gráður yfir frostmarki. Húnaflóinn skartar sínu fegursta og Strandafjöllin í allri sinni dýrð ramma okkur inn í vestrinu. Í stuttu máli þá er dagurinn í dag fallegur vordagur, svona eins og þeir gerast bestir. Vetur sem hefur verið heldur leiðinlegur gerir hið eina rétta í stöðunni að kveðja með fegurð og birtu, vitandi það að við mennirnir erum ekki langminnugur og gætum álpast til að hugsa til hans með hlýju.


Mig langar miklu heldur að skrifa um vorið og fuglana en hinn kraumandi suðupott sem tengist hinu dularfulla og um leið furðulega "stóra- skiltamáli". Gæsirnar eru enn að skila sér og ég er þegar búin að sjá eina gæs sem merkt var sem ungi sumarið 2000 með fótamerki sem ber stafina AVP. Enn bíð ég eftir því að finna hina frægu gæs sem ber hálsmerkið SLN og var líka merkt sumarið 2000.  Ég er pínulítið farin að örvænta um örlög hennar því ég sá hana fyrst sl. vor þann 17. apríl þannig að hún er komin 6 daga fram yfir komutímann.  Ég veit að margir Blönduósingar munu koma til með að sakna hennar eftir 15 ára kynni, skili hún sér ekki frá Skotlandi í ár.


Þessi gæs AVP verður 15 ára í byrjun júní

Rúnar kom í sólskinsskapi og lék Bel Viso polka af hjartans list. Ég vatt mér að honum þar sem hann brosti mót komandi sumri og spurði hvort hann gæti ekki spilað fyrir mig "Fölungen Polka"  sem í lauslegri þýsingu er folaldapolki.  Með sama sólskinsbrosinu stilti hann geislaspilarann á lag nr. 17 og folaldið hljómaði út í sólbaðaða Aðalgötuna.

Það kraumar undir hér á Vesturbakkanum og stóra - skiltamálið er í miklum hnút. Gleggstu menn kunna enginn ráð í þessu máli svo sjá má að úr verulega vöndu er að ráða. Meðan málið er í þessum farveg þá er næsta víst að þeir sem um þjóðveginn fara  vita ekkert af Hótelinu eða Ljóni norðursins.  En samhengið þennan síðasta dag vetrar verður að finna og það gæti husanlega og allt eins verið með eftirfarandi hætti.

Hér er allt með kyrrum  kjörum

en kraumar undir.

En vandræðaskiltin á allra vörum

virðast um þessar mundir.

 

Um þetta viljum við alls ekki yrkja,

augunum  annað því beinum.

Lífsgleði og samheldni leitumst að styrkja

og losn´undan kvabbi og kveinum.

Gleðilegt sumar

16.04.2014 16:05

Ljónið mun klárlega krossfesta menn

Þessi miðvikudagur sem líka er Magnúsarmessa hin fyrri er grár yfir að líta. Fullt tungl var í gær og  sólin lyftir sér 34,6 gráður yfir sjóndeldarhringinn  og svipuð staða verður á sólinni þann 25 ágúst nk. Því nefni ég Magnúsarmessu hér, er vegna þess að Magnús mágur minn Sigsteinsson er sjötugur í dag og er hann líkt og Magnús Orkneyjajarl ( Magnús Erlendsson jarl af  Orkneyjum var höggvinn 1115 í átökum við bróðir sinn um  jarlsdæmið og lýstur helgur maður tveimur áratugum síðar. Hann virðist hafa verið dýrkaður á Íslandi þegar um 1200. Af lífshlaupi hans og jarteiknum segir í Orkneyinga sögu)   sem þessi dagur er kenndur við, kappi mikill og ekki síst drengur góður.


Nú líður að páskum, gæsunum fjölgar og enn glittir í veturinn þó sumarið sé handan við hornið. Dymbilvikan hálfnuð og Jónas á Ljóninu við það að renna í hlað á Blönduósi með alla sína útgerð. þ.e. leigubílinn og rútuna Sólu sem verið hefur á tjaldstæðinu í Laugardal í allan vetur. Já Jónas kemur í aðdraganda krossfestingarinnar og ef ég mér skjöplast ekki minnið þá stefnir Jónas einbeittur að því að krossfesta bæjaryfirvöld, sýslumann, lögregluna, 3 lögmenn, 2 tryggingafélög og 10 einstaklinga einhverja næstu daga. Grun hef ég um það þegar komið er að síðustu kvöldmáltíðinni þá verði Jónas búinn að skrúfa upp skiltin sín við þjóðveg 1 sem tekin voru niður fyrir nokkru og bæta að minnsta kosti einu við. Ég er nokkuð viss um að hann verður ekki búinn að þvo fætur þjóna sinna áður en óæskileg skilti verða tekin niður og hin nýju upp sett. Það er sem sagt tíðinda að vænta á vesturbakkanum og óvíst hvernig mál öll skipast þegar upp verður staðið.


Einn vitlausasti fugl landsins er mættur og þar á ég að sjálfsögðu við stelkinn. Það sem gerir hann svona vitlausan er hversu heimskulega hann hagar sér við vegi landsins og hávaðinn í honum er ekki nokkrum til yndisauka. Hann er hávaðasöm slysagildra en þar sem ég hef  reynt að fremsta megni gegnum tíðina að hallmæla sem allra fæstum  og allra síst málleysingjum, þá má stelkurinn eiga það að þegar ég heyri í honum fyrst á vorin þá er hann enn ein vísbendingin um það að jörðin hún snýst líkt og hún hefur gert um aldir alda með okkur öll innanborðs.

Glugginn er kominn og má þar finna mörg aðalfundarboð frá hinum ýmsu félögum. Aðalfundir eru svona eins og farfuglarnir , nokkurs konar vorboði.  Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps ætlar að fagna sumri síðasta vetrardag og á þeirri samkomu munu nokkrir hagyrtir kórfélagar sýna hvað í þeim býr undir styrkri stjórn Gísla á Mosfelli. Ég rak augun í, að ég taldi uppfyllingarmynd í Glugganum sem sýnir annarsvegar öskrandi ljón og hins vegar ljónynju dröslast áfram með bráð sína. Þegar ég fór að hugleiða þessar myndir frekar þá rann upp fyrir mér ljós. Þetta eru auðvitað skilaboð frá Ljóni norðursins sem eins og áður hefur komið fram er við það að koma á Blönduós. Skilboðin eru auðvitað þessi: Ljónið er mætt og leitar uppi bráðina. Þetta liggur í augum uppi þegar þetta er skoðað í ljósi raunveruleikans.   Vísa vikunnar er eins og stundum áður eftir Rúnar skáld á Skagaströnd og  fjallar hann um mikilvægi hlutverks stígvélaða kattarins . Undir það get ég tekið með Rúnari að þessi magnaði köttur var eitursnjall og leysti tröllaukin vandamál á einfaldan hátt. Kattardýrin skipa stóran sess í Glugga dagsins.

Það var grátt í morgun en hin rísandi sól hefur með krafti sínum afmáð gráman og varpað skýru ljósi á að aftur kemur vor í dal. Ég hef ekkert orðið var við Rúnar vin minn Agnarsson og verð ég og Aðalgatan að sætta okkur við harmonikkulausan dag.

En samhengið núna þegar líður að páskum verður að finna og einhvern veginn finnst mér það liggja í pínu Krists og þrautargögnu Jónasar á Ljóninu:

Karlar og konur minnast þess senn

að kristur lenti í háska.

Og Ljónið mun klárlega krossfesta menn

af krafti rétt fyrir páska.

Gleðilega páskahátíð

09.04.2014 15:00

líklega mun þetta hefna sín


Þú magnaði miðvikudagur, mikil er fegurð þín var það fyrsta sem kom upp í huga minn þegar ég ók til vinnu í morgun eftir vel heppnaða klippingu hjá henni Bryndísi. Eins og svo oft áður þá gafst mér ekkert tækifæri til að rýna í tímaritið  "Fáséð og fáheyrt" og hef ég það á tilfinningunni að Bryndísi sé ekkert um það gefið að ég sé með nefið ofan í koppum fræga og fína fólksins. Ég held að hún hafi mína sálarheill að leiðarljósi og telji best að ég einbeiti mér að einhverju öðru heldur en þessum þáttum mannlífsins. Þetta hefur reyndar komið mér illa því á flestum öðrum biðstofum sem maður kemur á er yfirleitt 3-4 ára gömul blöð(sem ég reyndar hef nýlega uppgötvað) og hefur maður verið að upplýsa fólk um löngu liðna atburði og þá eru nú sum samböndin farin úr böndunum.  Svona er nú það en það er engu logið að það er mikill friður og ró yfir Húnaflóanum og hafaldan heldur niðri í sér andanum svo við fáum betur heyrt í sífjölbreyttari fuglaflórunni. Það er góður gangur á vorinu og má segja að hann sé svo góður að maður er farinn að óttast að þetta eigi eftir að hefna sín.

Eitt það merkilegasta sem hefur hent mig undanfarna 7 daga er að ég hef bara ekkert heyrt í Ljóni norðursins. Mönnum sem ég hef hitt og greint frá þessu ber ekki saman hvað þessi tíðindi bera með sér. Þeir sem gleggst þekkja til Ljónsins segja þetta góðs viti, ljónið hvílist, er mett m.ö.o er ekki að eltast við bráð. Aðir segja þetta sé bara lognið á undan storminum og stutt sé að í harðbakkann slái hver svo sem þessi harðbakki er. En hvað sem öllum vangaveltum um þetta líður þá hefur Jónas á Ljóninu hægt um sig á heimaslóðum svona á yfirborðinu.


Óli Werners hótelstjóri sem að öllum líkindum er að hætta sem slíkur hér á Blönduósi hefur verið að sýna sig á svæðinu undanfarið því hann starfar sem framhaldsskólakennari og verkfall hjá þeim hefur ekki farið framhjá neinum. Hann var staddur í nágrenni við mig þegar skrifað var undir samninga um daginn og þá fékk ég að kynnast ómenguðum íslenskum orðaforða sem helst er notaður þegar menn eiga orðastað við andskotann sjálfan.  Ég er ekki frá því að tíkinni hans henni Lukku hafði verið jafn brugðið og mér en ég hafði það þó fram yfir tíkina, að ég held, að ég bað bara Guð að hjálpa mér og tiltók Óla líka  í framhjáhlaupi og fannst það engin ofrausn.

Glugginn er kominn og kennir þar ýmissa grasa. Samtök hrossabænda heldur sinn aðalfund í Búnaðarsambandssalnum en fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps verður með sinn aðalfund í sama húsnæði en kallar það " í Bændahöllinni á Blönduósi" Anna Árna á vísu vikunnar að þessu sinni og kemst að því að ekki sé sama Jón og Jón og er ég ekki í nokkrum vafa um að hún hefur eitthvað til síns máls því ég kannast við nafnið. Ég get staðfest það að Jón Sigurðsson hundur er ekki það sama og ég svo einhver dæmi séu nefnd í þessu sambandi. Fyrst Jón hund ber á góma þá er gaman að geta þess að hann er við góða heilsu og starfar við grunn atvinnuveginn ferðaþjónustu í Ölfusinu.


Ég hef lítið séð til Rúnars vinar míns undanfarið en sé svona tilsýndar að við heimili hans er Jobban (lítil grafa) hans Stebba Páls (Kallinn) og það segir mér að þar sé unnið að einhverju viðhaldi. En það get ég sagt með sanni að Rúnar er í góðum verkmannshöndum þar sem Kallin er mættur á hans vettvang.

En mikilvægi samhengisins hverfur ekkert þó svo ég sitji einn uppi með að finna það.

Fuglarnir synga um mela og móa,

úr mold vakna blóm og sólin á jörðina skín.

En farðu nú varlega litla mín lóa

því líklega mun þetta hefna sín.

02.04.2014 15:13

ef kærleikurinn myndi vísa veginn

 

Víða er vegurinn grýttur en aldrei svo að ekki megi ryðja brautina

Það er hægur vindur úr suðvestri sem leikur um Húnaþing í dag og hitinn er rétt ofan við frostmarkið. Þokan umlykur allt þannig að maður neyðist til að líta sér nær. Maður þakkar fyrir hægviðrið og rekjuna því ella væri ástandið líkt og hjá Betu og Pusa, mengað loft og sandfok frá Sahara. Það er mikið talað um mengun og afleiðingar hennar fyrir hana Versu. Menn tala mikið og er mikið niðri fyrir en það er eins og svo oft áður að það vill enginn gefa neitt eftir af sínum lífsgæðum til að koma til móts við að draga úr mengun. Það er alltaf þannig að einhver annar en maður sjálfur sem á að ganga fram fyrir skjöldu og draga úr sinni neyslu og hræddur er ég um að svo verði áfram því hver er sjálfum sér næstur.


Þegar þessir kappar þeir Bjössi Þóris og Valli Valla birtast á brautinni þá má heita að vorið sé komið

Maður rekst stundum á ýmislegt merkilegt þegar vafrað er um veraldarvefinn. Um daginn var ég að leita uppi orðið "prúnkinn", hvort það væri notað í íslensku máli. Það kom mér á óvart að ég fann bara eina tilvitnun í þetta orð en hana var að finna í frétt í  Tímanum sáluga sem birtist rúmum mánuði áður en ég fæddist og er svona orðrétt: "Kona ein á Mön hefir fyllzt réttlátri reiði yfir því, að jafnrétti kynjanna sé lítilsvirt..Hún hefir sent "Möns Folkeblad" grein um þetta mál. Hún segir meðal annars: ,;Sem kona fyllist ég jafnan gremju, þegar ég sé hina stóru, gulu flutningavagna eggjasölunnar, þar sem prúnkinn og vígalegur hani hreykir sér í gullnu litaskrúði. Má ég spyrja: Hefir svona auglýsing við rök að styðjast? Er það haninn, sem verpir? Skyldi það ekki vera hænan, og ætli hugmyndin um auglýsinguna og skreytinguna á bílunum hafi ekki fæðzt í karlmannsheila? Þessa vegsömun á karlkyninu get ég ekki þolað. Þess vegna burt með hanann, og hænu á bílana í staðinn eða að minnsta kosti bæði hænu og hana.Við lifum á tímum, þegar barizt er fyrir jafnrétti kynjanna - það fylgir því engin blessun að spyrna þar við broddunum." Svo mörg voru þau orð og í sjálfu sér litlu við að bæta. Þessi frétt hefði allt eins getað birst í dag en mikið held ég að haninn hafi verið flottur á gula eggjaflutningabílnum.

Það hefur ýmislegt gerst á Vesturbakkanum undanfarna daga og má þar helst nefna að gámarnir tveir sem voru búnir að vera um skamma hríð á Krúttplaninu er horfnir og kunnugir segja mér að þeir séu núna komnir í Holt á Ásum. Eitthvað hefur maður heyrt um sölu á hótelinu en ekkert sem teljast má naglfast og því algjörlega út í bláinn að vera að "fabúlera" eitthvað um það. Jónas á Ljóninu er en í leigubílaharkinu fyrir sunnan en gefur sér samt tíma til að velta fyrir sér ýmsu sem ekki viðkemur væntanlegu annasömu sumri hjá honum í ferðaþjónustunni.


Vorið er komið hjá kirkjuhöfðingjanum Sveini í Plúsfilm

Af farfuglunum er það að segja að gæsunum smá fjölgar og straumöndin er farin að láta sjá sig í Blöndu. Skógarþrösturinn brást ekki og hóf að syngja fyrir mig morgunsönginn þann 30. mars. Ég er svona farinn að svipast eftir vinkonu minni, grágæsinni merktu henni SLN en ég á nú ekki von á henni fyrr en svona 12. - 24. apríl.  Ef hún verður ekki komin í lok apríl fer ég að verða áhyggjufullur um afdrif hennar en hún hefur skilað sér á Blönduós að minnsta kosti í 15 ár þannig að þessi gæs er tekin að gamlast. Reyndar veit ég ekki hve gamlar grágæsir geta orðið en hef þó heyrt að eitt æviár hunds samsvari 7 árum hjá okkur mönnunum.

Glugginn er kominn og þar má meðal annars sjá að gamli Vísir er auglýstur til sölu á lækkuðu verði. Það eru margir sem eiga góðar minningar tengdar þeirri verslun sem þá var. Svo má líka átta sig á því að sveitastjórnakosningar standa fyrir dyrum og hún Bebbý á vísu vikunnar hvar fram kemur ósk um að vetur fari nú senn.

Rúnar er kominn með "Blekkingarpolka" eftir Garðar Olgeirssson og í flutningi hans. Þessi polki hefði kannski betur átt við í gær þegar leyfilegt að láta menn hlaupa apríl með öllum tiltækum ráðum.  Þetta var bara hressilegur polki og full ástæða til að birta mynd af dansfuglunum Önnu Gunnu og Kristófer svona til að fá réttan takt í pistilinn.

                           Anna Gunna og Kristófer Sverris

Rúnar var eins og oftast áður bara hress og lét þokuna ekkert á sig fá. Talandi um blekkingarpolka þá iðaði ég í skinninu í gær að koma með skilaboð frá Ljóni norðursins og birta þau t.d. á Feisbókinni og þau hefðu litið einhvern veginn svona út: "Í tilefni af því að ég hef nú tekið bæði Guð og menn og sýslumanninn í sátt býð ég gestum og gangandi til kaffisamsætis á Ljóninu milli kl 16 og 18. Með kristilegri kærleikskveðju, Ljón norðursins" En þar sem ég er kjarklaus eins t.d. Lárus B. Jónsson hefur bent á þá lét ekkert af þessu verða og þessvegna verður þetta bara áfram ágætis hugmynd.

En nú er komið að samhengi hlutanna og fyrst ég hef nú Rúnar mér við hlið hlýtur það að vera lítið mál að koma auga á það. Það má láta sér detta í hug að kærleiksálfur hefði lostið Jónas á Ljóninu töfrasprota sínum

 

 

Ef kærleikurinn myndi vísa veginn

og vefja ljónið mildum friðaranda.

Margur maður yrði fjarska feginn

en margir létu sér á sama standa.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56687
Samtals gestir: 10458
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:40:21