Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2014 Júní

25.06.2014 15:11

Óli er farinn og sumarið stendur sig

Þetta eru mildir júnídagar sem ganga yfir Húnaþing þessa dagana. Grasið sprettur og ungviðið dafnar um allar grundir. Þessi miðvikudagur er með rólyndis yfirbragði. Vindur er hægur af suðaustri og ber með sér 16 gráðu hita.  Það má vel sætta sig við þetta veðurlag en sjálfsagt má finna að því standi til þess vilji.


Unglingavinnan slakar á við höfuðstöðvar Stjórnsýslunnar á Blönduósi

Það er í sjálfu sér frá litlu að segja þennan meinlausa miðvikudag en það væri alveg hægt að krydda þennan pistil með lögreglumálum sem eru í gangi hér á Vesturbakkanum en það er einhvern veginn úr svo miklum takti við andrúmið í náttúrunni að ég læt það ógert. Rétt er þó að geta þess og gaman að segja frá því að Svenni í Plúsfilm er farinn að klæða norðurhlið gömlu kirkjunnar og koma þar upp hreinlætisaðstöðu.

Óli hótelstjóri kvaddi vini sína á Blönduósi í gær og er þar með lokið Blönduósævintýri hans  sem varað hefur í 10 ár. Óli var og er sérstæður persónuleiki sem setti mark sitt á umhverfið og svoleiðis menn eru nauðsynlegir hverju samfélagi og gera litríkara og áhugaverðara. Óla tókst ýmislegt sem fáum hefur tekist og má nefna "brundbragðið" sem hann kom á framfæri í matreiðsluþætti á ÍNN og gerði margar vammlausar húsmæður miður sín í tvo daga eða svo. Fræg er setningin sem hann hafði uppi við ferðamálafrömuð nokkurn þegar hann sagði si svona við hann um vandamálin sem við væri að glíma. "Það eitt við þennan ferðamannabransa sem ég þoli ekki en það eru þessir andskotans ferðamenn". Svona manna saknar maður en það kemur víst maður í manns stað sagði einhver.


Óli hótelstjóri, núna fyrrverandi við það að yfirgefa hótelið í gærdag eftir 10 ára vist á Blönduósi

Það er enginn Rúnar í dag nema Rúnar, skáldið undir Borginni sem yrkir Gluggavísu vikunnar og fjallar að þessu sinni um þá sem sýnast aldrei þurfa að þrífa sig af einu né neinu en sækjast í valdastólana. 

En þessi dagur er ekki sérlega vel fallinn til skrifa af minni hálfu og læt ég því hér staðar numið.  

18.06.2014 15:10

af legsnyrti og engum vilja


Himininn yfir oss Húnvetningum í dag

Nú fer að styttast í það að sólin fari að lækka á himni. Það sannast hið fornkveðna að allt sem fer upp kemur niður aftur. Þjóðhátíðardagur að baki og haldinn í þvílíkri rjómablíðu að lengi þarf að leita að samjöfnuði en reyndar kólnaði er á daginn leið og rigningin sýndi sig upp úr miðjum degi. En dagurinn í dag er dagurinn sem skiptir máli og hann heilsaði okkur með suðsuð vestan 5 metrum á sekúndu, 11 stiga hita og skýjuðu veðri en þurru.


Gamlir vinnufélagar til margra ára hittast eftir allnokkra fjarveru á þjóðhátíðardegi. Páll Svavarsson fyrrv. mjólkurbústjóri og Guðmundur Theódórsson (Lilli Tedd)

Sýslumannsbrekkan er en lokuð vegna framkvæmda en mér sýnist vera ágætur gangur á þessu hjá honum Júlla frá Holtastöðum.  Ég hef reyndar í tvígang farið rangt með nafn hans og sagt hann heita Jónatan sem reyndar er nafnið á bróður hans ,bónda á Holtastöðum en þeir eiga það þó sameiginlegt að vera þrautseigir dugnaðarforkar.


Snillingurinn Hávarður Sigurjónsson (Hávi eða Hái) sem fékk á sínum tíma titilinn "Legsnyrtir" vegna starfa sinna sem umsjónamaður kirkjugarðsins. Held að Sigurður Sigurðarson moggabloggari hafi verið smiður þessa starfsheitis.

Glugginn er kominn og nú líkt og að undanförnu bar hann í hús Skarphéðinn Ragnarsson ábyrgðarmaður.  Það er ekki fjölbreytt efni þar að finna en því áhrifameira  því auglýst er þar breyting á aðalskipulagi Húnavatnshrepps. Um er að ræða breytingar vegna áforma Landsvirkjunar um að reisa þrjár virkjanir á núverandi veituleið Blönduvirkjunar frá Frá Blöndulóni að Gilsárlóni. Samanlagt afl þessarra þriggja virkjana er 31 MW en það þýðir um það bil 21% aukna  nýtingu á vatnsafli Blöndu frá því sem nú er. Þessum áformum ber að fagna því með þessu er verið að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í landinu og leggja örlítið lóð á vogarskál til minnkandi mengunnar í heiminum. Gluggavísu vikunnar að  þessu sinni á eins og oft áður Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Fjallar Rúnar um þroskaþráð Húnvetninga og segir hann framlag hans gott í þjóðarsjóð. Þetta rímar ágætlega við þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra sem talaði um að jafna betur þjóðarsjóðnum um landið.

Ég hef lítið fjallað um stóra - skiltamálið upp á síðkastið en svo "skemmtilega" vildi til að ég rakst á alla deiluaðila í því máli í morgun og er nokkuð ljóst að þetta mál er mun erfiðara að leysa heldur en vandamál á öðrum Vesturbakka langt suður í höfum þó alvarleiki þessara tveggja mála sé á engan hátt sambærilegur. Eina raunverulega niðurstaðan í þessu leiðindamáli eins og málin standa er sú að hvorki Ljón norðursins né hótel Blönduós geta auglýst sig við hringveg nr 1 í gegnum bæinn. Enginn vilji er allt sem þarf til að ekkert gerist.


Trommuslagarar í skrúðgöngu á þjóðhátíðardaginn. Guðbjartur Sindri og Kristófer Skúli. Þeir sem glöggt rýna í myndina sjá að stóra bassatromman er fóðruð með minningagreinum úr Mogganum

Rúnar vinur minn í Sólheimum hefur ekkert látið sjá sig og engir harmonikkutónar úr Súkkunni hans hafa flætt yfir Aðalgötuna í dag og er ég satt að segja bara pínu leiður yfir því . Hvað er betra en hressilegur polki eða stormandi mars til að létta sálarterið á gráum miðvikudegi. En ekkert vol eða væl því nú er sumar að ná hámarki, fuglar í önnum við að fæða unga sína og sólin á þrátt fyrir allt enn eftir að hækka á lofti næstu tvo dagana.

 

11.06.2014 15:23

sparðatíningur á Barnabasmessu


Töfrabirta á Húnaflóa í gær

Enn einn miðvikudagurinn er runninn upp og þessi hefur yfir sér rólyndisblæ. Áttin er norðlæg og vindhraðinn kl 9 náði 2 metrum á sekúndu og hitinn er kominn í 11 gráður.  Það er frekar hægt að segja um daginn í dag að það sé skýjað veður en að það sé þokuloft en það gildir einu því upphaf þessa dags er grátt. Það ríkir kyrrð og friður hér í gamla bænum og lítið fór fyrir Jónatan í Sýslumannsbrekkunni í morgun en þegar liðið hefur á daginn hefur hann gert sig heldur betur gildandi og má segja að jörðin skjálfi undan honum. Það má eiginlega segja líkt og Björn á Löngumýri sagði forðum daga er hann átti erindi í Vatnsdalinn.  "Nú skelfur Vatnsdalur allur" , nú skelfur Aðlagatan öll.


Stokkandarkolla með unga á Blöndu, Hófsóleyjarnar eru í blóma

Kristján Pálsson oft kenndur við Hvíteyrar í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði beið mín þegar ég kom til vinnu eftir hádegi. Þegar ég sá  eðalvagninn sem hann var í og  stóð  fyrir utan hjá mér hélt  ég í fyrstu að kominn væri sjálfur forsetinn að greina mér frá því að forsetaembættið væri laust eftir tvö ár. Fljótlega koma hið sanna í ljós en ég orðaði þetta við Kristján sem er reyndar aðalpersónan í lagi Magnúsar Eiríkssonar " Kiddi Kadílakk"  og vildi hann þá ólmur taka mynd af mér við bílinn og því honum fannst nafn mitt og bíll hæfa, "Jón Sigurðsson forseti við forsetabílinn, ekki ónýtt það". Af þessari myndatöku varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum.


Kristján Pálsson við Lincolninn sinn H-2. Kristján sem kann því vel að vera kallaður Stjáni blái eins og Kristján Þ. Júlíusson, er fyrirmyndin í lagi Magnúsar Eiríkssonar "Kiddi Kadílakk".

Glugginn er kominn og  er þar ýmislegt að finna líkt og jafnan. Hátíðarhöld verða á Blönduósi 17. júní  eins og venja er og harmonikkuhátíð verður í Húnaveri Jónsmessuhelgina. Gluggavísu vikunnar á að þessu sinni skáldið undir Borginni hann Rúnar og kastar fram þessari byrjun: "Yfirljósa opin dýrð/ á sér stöðu sanna. " Þar sem ég er bæði einfaldur og hugmyndasnauður þá datt mér fyrst í hug hvort hér væri verið að yrkja um háu ljósin á bifreiðum.


Ljós á Bakkastíg

Rúnar vinur minn Agnarsson hefur ekkert látið sjá sig í dag en hann staldraði við hjá mér í gær þá nýkominn í heillangt sumarfrí. Hann kastaði fram einhverri vísu sem byrjaði eins og honum er tamt. "Margt er það sem miður fer" en þó ég ætti líf mitt að leysa þá get ég ekki rifjað hana upp.

04.06.2014 15:45

starrinn og lífstíðarbaslið


Aðalgatan í dag með öllum sínum kostum og göllum

Dagarnir halda áfram hver af öðrum og ef þeir eru nógu margir þá þá ná þeir að mynda ár. Árin verða að tugum og þegar þessum tugum  er safnað saman þá verða þeir að að öldum. Það hefur gengið á ýmsu frá því menn vissu fyrst af sér á þessu skeri, skeri sem við elskum mismikið allt eftir því hversu meðvituð erum um  landið og miðin og hvernig þessi ást eða ástleysi er túlkað í samfélaginu. Á mínu lífstíðar basli hef ég lært að ekkert er fullkomið nema ég sjálfur og með þá niðurstöðu er ég mjög sáttur þó svo ég sé ekki alveg sáttur við allar niðurstöður lífsins.  Loka niðurstaðan  hjá öllum er ætíð sú sama og þeir sem á undan mér eru farnir þekkja hana líklega út í hörgul. Þar sem ég er enn á meðal vor þá get ég tjáð mig um það að ég ætla svo sannarlega að vona þegar  ég  verð allur, muni ég ekki trufla neinn í jarðlífinu, hvorki á Facebook eða athugasemdakerfi DV. Maður fer og skilur eftir sig svæði fyrir komandi kynslóðir sem tala saman með vinstri höndina á neðri hluta snjallsímans og hægri á skjánum með taktföstum hreyfingum frá hægri til vinstri nema menn vilji snúa til baka.  Svona er ástandið á mér í byrjun júní það herrans ár 2014.





Saga starrans (stari) í Aðalgötu 8. Mikið að gera í fæðuöflun fyrir ungana sem leynast í þakskegginu

Rúnar kom loksins til að heilsa upp á mig og var kominn tími til. Hann var með Garðar Olgeirsson undir geislanum og lék hann eldfjörugun polka á harmonikkuna sem  í lauslegri þýðingu gæti heitið " stóbrotið valhopp". Við Rúnar sáum svo til um leið í huganum hjónakornin Kristófer og Önnu í stórbrotnu valhoppi á velheppnuðu þorrablóti.  Það lá vel á Rúnari enda lét sólin loksins sjá sig eftir töluverða fjarveru.  Já sólin skein og vindur kom af hafi með 7 km hraða á sekúndu og hitinn var vel yfir gluggaveðurskalanum. Já það er full ástæða til að gleðjast með hækkandi sól og afstöðnum kosningum.

Glugginn er kominn og  er hann fullur af þakklæti frá framboðum þeim sem buðu fram hér á Blönduósi en minna fer fyrir þakklætinu í nágrana sveitarfélögunum en ég trúi því að það eigi nú eftir að koma þegar fram líða stundir.


Júlíus verktaki ættaður frá Holtastöðum og Bjarni Pálsson gröfumaður ræða málin eftir að Sýslumannsbrekkunni hafði verið ekið á braut

Rétt er að geta þess að ég þurfti að snúa til baka eftir lyklum að vinnustaðnum okkar því konan hafði einungis tekið bíllyklana  úr lyklageymslunni heima en skilið lyklana að búðinni eftir.  Á meðan ég var að sækja lyklana þá bar Rúnar að garði og komst að þessu og kastaði fram þessari vísu með þeirri byrjun sem flestir þekkja  sem þessi skrif lesa.

Margt er það sem miður fer

með Möggu þína einu.

Ung og fersk hún ætíð er

og aldrei gleymir neinu. 

Það er rétt að geta þess að frú Margrét var sátt við þessa vísu Rúnars þó svo ég að fenginni reynslu hafi vit á því að hnussa í hljóði yfir þessari gleymsku í konunni og þeim óþarfa snúningum sem henni fylgdu.

Að gefnu tilefni skal þess sérstaklega getið að ég nenni ekki að skrifa neitt um stóra- skiltamálið.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 826
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 63121
Samtals gestir: 11251
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 22:36:47