Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2015 Janúar

28.01.2015 14:43

aldurstengdar vangaveltur


Það snjóar á Blönduósi í dag. Fyrir tæpum 90 árum var Skáksamband Íslands stofnað fyrir innan þessa glugga

Þá er 28. dagur ársins runninn upp og þess sjást merki í umhverfinu. Einna skýrust er merkin sem sjá má á dvöl dagsbirtunnar meðal málleysingja og alþýðunnar. Ég er þeirrar gerðar að líka betur við birtu og yl en kulda og dimmu. Ég er ekki frábitinn  vetrinum ef hann er vetri líkur og býður upp á stillur og annað sem góðan vetur á prýða. Þessi endalausu umhleypingar með hálku og vindsperringi eru ekki að mínu skapi. Veturinn þarf að fara að gera það upp við sig hvort hann vill vera vetur, vor eða haust. Ég hef það á tilfinningunni að sumarið sé með svipaða áráttuhegðun og veturinn að geta ekki ákveðið sig fullkomlega hvort það eigi að vera sumar, vor eða haust. Kannski tengjast þessar vangaveltur aldri þess sem þetta ritar því í minningunni var alltaf sól og blíða á sumrum nema þegar farið var í girðingavinnu en snjór og stillur á vetrum.


Hús Helga Braga í muggunni í dag

Þorrinn er genginn í garð og eitt þorrablót að baki. Það tókst í alla staði vel og Vökukonum til sóma. Matur var góður, skemmtiatriði stóðust væntingar og hef ég ekki enn hitt neinn sem fór skaddaður frá þessu blóti þó stundum væri þjarmað að mönnum. Um tónlistina sá nokkrir ungir drengir úr héraði sem kalla sig Trukkana og tókst þeim að halda mönnum vel að söng og dansi og það eitt segir allt sem segja þarf um frammistöðu þeirra. Þetta var gott blótt þar sem góður andi sveif yfir vötnum.


Jóhanna Atla og Ívar Snorri viðra hunda sína. Dekkri hundurin hann Moli er allur að koma til eftir að hafa lamast í afturhluta um hátíðarnar

Jónas á Ljóninu kom á mánudaginn til að huga að fjallaeldhúsbílnum sínum. Það var rétt um hálf ellefu í gær sem ég heyrði þungan nið fyrir utan hjá mér og skömmu seinna gall við hávær flautuhlómur.  Við aðstæður sem þessar stendur maður eðlilega upp úr sínum stól og gægist út um glugga til að aðgæta hverju þetta sætir. Jú mikið rétt fyrir utan var Jónas kominn í hlað á fjallaeldhúsbílnum og ljómaði hann líkt og lítill drengur með heimasmíðaðann vörubíl í eftirdragi í sandkassa, vörubíl sem er þannig gerður að hann er með sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli; þeir voru flottastir. Hinn einlægi gleðisvipur leyndi sér ekki en hann baðst afsökunar á flautinu og bar því við að hann hefði verið að leita að rofa fyrir rúðuþurrkurnar. Frá mér hélt Jónas á Fjallaeldhúsbílnum áleiðis til Skagastrandar með viðkomu hjá Himma Snorra og saman ætluðu þeir í hádegismat á Borgina á Skagaströnd.

Glugginn er kominn og er auglýsing frá Hreppaþorrablótinu á forsíðu. Að þessu sinni verður það haldið í félagsheimilinu á Blönduósi 7. febrúar en þorrablót Bólhlíðinga og Svínhreppinga verður haldið í Húnaveri núna um helgina. Gluggavísa vikunnar er núna líkt og svo oft áður eftir Rúnar á Skagaströnd , skáldið undir Borginni og er hann að þessu sinni líkt og í síðasta Glugga með mannlífslýsingar frá Skagaströnd. Í síðustu viku fjallaði hann um Ásu póst frá Felli en í dag fjallar hann um þá hlýju sem felst í því að sjá leikskólabörnin fara um bæinn í halarófu.


Hrafn á sveimi yfir Kvennaskólanum í snjókomunni í dag. Það hafa margir "fuglar" sveimað þarna yfir og allt um kring hér áður fyrr meir

Það er annar Rúnar sem ég þyrfti að koma hér að en það er hann Rúnar hillufyllir í Samkaupum. Hann hefur ekkert ort fyrir mig né leyft mér að hlýða á harmonikkutóna úr geislaspilara Súkkunnar sinnar. Það er farið að fyrnast yfir Arnt Haugen, Famelien Flix og aðra góða listamenn. Snevalsen, strekkebuksepolka og fleiri gæðamelódíur eru við það að þurkast út úr minni mínu. Mér finnst það miður en hugga mig við að daginn er tekið að lengja.

21.01.2015 16:57

mörsugur kveður og þorrinn heilsar

     Það leika mildir suðaustlægir vindar um Húnaþing þessa dagana og hitinn er 2 - 3 gráður fyrir ofan frostmarkið. Síðustu tveir dagarnir hafa verið til friðs og vindsperringurinn sem gert hefur mönnum lífið leitt að undanförnu hefur hægar um sig. Mörsugur er að renna sitt skeið á enda og nú eigum við bara eftir að þreyja þorrann og góuna.


   Borgarvirki. Daginn er tekið að lengja 

     Aligæsirnar sem hafa haldið sig við fuglaskoðunarhúsið að undanförnu eru horfnar og einu fuglarnir sem maður verður hvað mest var við eru æðarfuglar, hrafnar, auðnu- og snjótittlingar sem og stöku starri og svartþröstur. Einn og einn mávur sést líka og ekki má gleyma stokköndunum sem dvelja vetrarlangt í ósi Blöndu.

     21. janúar er merkilegur dagur fyrir margra hluta sakir. Til dæmis má nefna að 120 ár eru liðin frá fæðingu Davíðas Stefánssonar og 91 ár er liðið frá dauða Leníns og hófst þá Stalín handa að brjótast til valda í Sovétríkjunum. Spaugstofan birtist landsmönnum í fyrsta sinn árið 1989 undir nafninu 89 af stöðinni og "Bláa höndin" varð laus í hendi Hallgríms Helgasonar í Morgunblaðinu árið 2003. Af þessu má ljóst vera að þessi dagur er tilvalinn til að skapa og tortíma og allt þar á milli.

     Jónas á Ljóninu dvelur enn fyrir sunnan og reynir að lifa af leigubílaharki. Hann sefur í Sólu sinni á tjaldsvæðinu í Laugardal. Hann sagði mér í morgun að sem dæmi um það hversu vel færi um hann í hópferðabílnum Sólu að hann hafi sofið yfir sig í morgun og vaknaði ekki fyrr en kl 7:15. Hann ætlaði að vera kominn mun fyrr á fætur til að veita árrisulum þjónustu sína. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann hyggði á norðurferð á mánudaginn meðal annars í þeim tilgangi að setja í gang fjalla- og eldhúsbensann sinn og taka einn "rúnt" á Skagaströnd.


     Bóndadagurinn er á föstudaginn og þar með gengur þorrinn í garð. Ég er orðinn spenntur að kíkja ofan í súrfötuna og er morgunljóst að þorramatur verður á borðum á mínu heimili á föstudagskvöldið. Svo verður haldið áfram á laugardagskvöldið á þorrablóti Vökukvenna.

     Laugardagurinn verður nokkuð sérstæður því þá verður til moldar borinn samstarfsmaður og vinur til þriggja áratuga, Guðbjartur Guðmundsson.  Ekki er ætlunin að rifja upp kynni mín við þennan einstaka mann sem hafði ungmennafélagsandann og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi svo eftir var tekið heldur einungis að nota tækifærið hér til að þakka fyrir löng og farsæl kynni. Eitt er það sem mjög er tengt samskiptum okkar Guðbjartar að þegar 20. janúar var genginn í garð þá brást það ekki að Guðbjartur sagði: "Þegar komið er framundir 20. janúar sér maður loksins að daginn er farið að lengja." Blessuð sé minning Guðbjartar Guðmundssonar.

14.01.2015 15:05

af væntanlegum einbúa og nöldurstuðli



Meðan grágæsir bæjarins gista Bretlandseyjar dvelja hér tvær aligæsir og hafa valið sér stað við nýja fuglaskoðunarhúsið

Vindur er norðaustlægur þennan miðvikudaginn og og fer yfir láð og lög  á 8 metra hraða á sekúndu og er frostið í honum um 3 gráður. Lítilega hefur snjóað í nótt en svo lítið að vart er orð á gerandi. Það er bjart að sjá inn til landsins en éljabakkarnir lúra úti fyrir og í vestrinu og laumast endrum og eins yfir okkur hér við botn Húnafjarðar. Þessi inngangur stendur fyllilega undir fullyrðingunni að það er vetur í Húnaþingi og líklega víðar. Sólin er farin að hækka á himni og maður greinir að dagurinn lengist í afturendann. Það dimmir seinna og seinna. Allt saman eru þetta tákn um að tíminn heldur sínu striki hvað sem brölti okkar mannanna líður. Þessu til áréttingar langar mig að birta hér með áramótavísu Rúnars Kristjánssonar á Skagaströnd: " Tíminn ekki seinn með svarið/ sýnir engin grið./ 2014 farið,/'15 tekur við.


Éljabakkar sækja að okkur úr norðri og vestri

Þegar maður er þátttakandi í samfélaginu með hóflegan nöldur- og  óánægjustuðul er hægt að umbera flest sem aflaga fer og skaðar fáa. Margir fara mikinn þessa dagana í fullvissu sinni um sannleika lífsins, kærleika og umburðarlyndi gagnvart öllu og öllum og þekkja vel slóðina um hinn vandrataða veg alls þess sem áður er talið.  Það er gott að hafa fullvissu en ég er þó ekki alveg viss. En Agnes biskup ritaði fyrir skömmu  grein á samskiptamiðlum "Hið illa veður víða uppi og við því verður ekki brugðist nema með kærleikann að vopni. Mt. 7:12; Lúk. 10:27."

Jónas á Ljóninu er baráttumaður og ekki síðri en Don Quijote (Don kíkóte) og er ég á því að þeir hafi náð svipuðum árangri í baráttu sinni við allt og alla. Hann er brattur og væntingar hans til komandi sumars eru miklar og má til sanns vegar færa því að töluvert hefur verið bókað í sumargistingu hjá honum. Sumargesta bíða bjartar Húnvetnskar sumarnætur, niður Blöndu og breim Bellu. Sumargesta bíður meira því að ógleymdum unglingi á áttræðisaldri með grátt sítt hár sem sumir kalla afa Bítlanna bíður nýtt eldhús sem er í formi  "boddýbíls" af Bensgerð og staðsettur rétt utan við gististaðinn. Atgervi gesta þarf að vera gott til að komast upp í bílinn en svangur maður kemst flest.

Nú fer að styttast í það að vínbúðin verði frá mér tekin og færð í höfuðstöðvar Arionbanka.  Eftir sit ég einn í kjallarhorni í gömlu húsi við Aðalgötu í gamla bænum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég á eftir að sakna margra sem leið hafa átt í vínbúðina og litið til mín í hornið til skrafas og ráðagerða. Gamli bærinn verður fátækari fyrir bragðið og einbúinn Jón verður að öllum líkindum með tímanum heimóttarlegur og undarlegur í háttum og upplagt efni í þjóðlegan þátt eins og Landann. Það er sem ég segi, "heimur versnandi fer".


Páll Ingþór aðstoðar hér Hauk bónda á Röðli við hrossasmölun

Glugginn, annað tölublað þessa árs er kominn út og á forsíðu er að sjá auglýsingu um að fyrsta þorrablótið í sýslunni verður á Blönduósi 24. jan.  Ég veit ekki hvað það er en ég hlakka alltaf til þorrablóts Vökukvenna og kemur það líkast til af því að maturinn er ávallt góður og skemmtiatriðin hafa sjaldnast brugðist. Einnig er það að andinn á þessum skemmtunum er góður og ungir sem aldnir koma saman og þurrka út hið margumtalaða kynslóðabil. Já, pungarnir og sviðasultan verða veidd innan skamms upp úr súrfötunni. Það er varla að maður geti skrifað vegna starfsemi munnvatnskirtlanna þannig að hér læt ég staðar numið í súrmetshjali sem og öðru hjali um allt og ekkert.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 100
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56734
Samtals gestir: 10459
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 13:33:36