Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2015 Október

21.10.2015 09:50

margt er það sem miður fer og eitthvað fleira

Húnafjörðurinn var stilltur í morgun og ró yfir mávinum og Vatnsnesinu

Þessi miðvikudagsmogun er stilltur, nokkuð bjartur og lofar góðu. Það var smá skæni á bílrúðum þegar haldið var til vinnu í morgun sem að öllu jöfnu kallar á að maður þurfi að skafa. Það gat ég ekki gert því rúðuskafan mín er ónýt og ég hef ekki komið því í verk að fjárfesta í nýrri. Ég fékk smá samviskubit yfir þessu því ég varð að eyða svolítið meira jarðefnaeldsneyti í það eitt að bræða klakann af rúðunum. Reyndar hafði ég lesið það fyrr í morgun í Mogganum mínum að bensín hefði ekki verði ódýrara síðan 2009. Auk þess las ég það á netinu að loftslagsskýrslur SÞ væru ólæsilegar þannig að mér  leið snökktum betur eftir að hafa rifjað þetta tvennt upp.


Á kaffihúsi Ljóns norðursins er vikilega þörf fyrir Grágás
Hér á Vesturbakkanum er til þess að gera friður um þessar mundir og mávarnir í ósnum una glaðir við sitt. Jónas á Ljóninu hef náð þeim merka áfanga að geta skrifað nokkur orð í ritvinnsluforritið Word. Og það sem meira er þá hefur hann uppgötvað "print" skipunina sem gerir honum kleift að koma hugsununum sínum á prent. Þessi nýja uppgötvun Ljónsins hefur leitt til þess að Jónas hefur til muna fjölgað ferðum sínum á pósthúsið með bréf til helstu embætta ríkisins sem og bæjaryfirvalda. Reyndar held ég að Jónas spari sér burðargjaldið þegar hann sendir bæjaryfirvöldum bréf og afhendir þau bara í eigin persónu á bæjarskrifstofunni. Af framansögðu má sjá að framþróun á sér stað á Vesturbakkanum þrátt fyrir allt. 

Hluti gamla bæjarhlutans á Blönduósi. Gamla Samkomuhúsið fyrir miðri mynd er til sölu
Rjúpnaveiðitímabilið er að hefjast. Það kom mér á óvart að einungis ein auglýsing í Glugga fjallaði um bann við rjúpnaveiði á tilteknu svæði. Venjulega hefur Gluggin á þessum árstíma verið þakin í rjúpnabannsauglýsingum. Getur verið að rjúpur séu hættar að halda sig í lyngmóum frá fjöru til fjallatoppa. Það sem maður heyrir um tilvist þessa fugls þetta haustið er það að hann haldi sig helst í húsagörðum og hesthúsahverfum. Vonandi freistast enginn til að ná sér í jólarjúpuna innan um hross bæjarbúa því þá væri veruleg hætta á því að eitthvað verði um hrossakjöt á jólaborðum


Seint þreytist ég á því að lofa gildi Kvennaskólans á Blönduósi fyrir mannbætandi áhrif á umhverfið
Ég lét einhvern tíma hafa eftir mér að minnsta kosti ein vísa birtist með hverjum pistli. Þetta hef ég svikið markvisst í langan tíma og kenni þar einkum um hversu vinur minn Rúnar Agnarsson í Sólheimum er orðin latur að koma til mín með "margt er það sem miður fer" vísurnar sínar. Já ég hika ekki við það kenna öðrum um því það er afar hentug leið til að þurfa ekki að horfast í augu við eigin vandamál. Þetta loforð rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá Rúnar aka fram hjá skrifstofu minni í gær með ærandi harmonikkutóna og veifa mér svona í kurteisisskyni með aðra hönd á stýri. Honum til hróss er mér skylt að segja frá því að hann hægði ferðina á Súkkunni meðan hann ók hjá. Til að sameina þetta sem hér er ritað læt ég þessa litlu vísu líða út í heiminn í þeirri einlægu von að tölvuþrjótar allra landa steli henni og hafi af henni skaða. Allt annað skikkanlegt fólk getur látið hana sem vind um eyru þjóta

Langt er síðan lætt hef hér
litlu vísukorni.
Margt er það sem miður fer
í mínu þrönga horni.


14.10.2015 09:45

Lengi má manninn reyna



Haustið er komið
"Þó fátt eitt þú megnir og flest sé tál og frækorn þín hnjóti um steina, Þá mundu að lífið er leyndamál. Lengi má manninn reyna." orti Þorvaldur Þorsteinsson á sínum tíma og Megas gerði við textann lag. Ég veit ekki allveg hvort þetta séu réttu inngangsorðin að því sem eftir kemur en lengi má manninn reyna. Þannig er að ég varð fyrir heldur nöturlegri lífsreynslu fyrir helgi. Þessi reynsla tengist á engan hátt heilsufarinu eða lífi og dauða en nöturleg var hún samt. Brotist var inn í mína vinnutölvu og öll gögn sem tengjast mínu persónulega aðgengi voru hlekkjuð á stað sem ég gat á engan hátt nálgast og frelsað. Þegar þessari gíslatöku var lokið af einhverjum þarna úti í óravíddum netheima fékk ég skýr skilaboð. Ef þú vilt sjá sköpunarverk þín aftur skaltu vinsamlegast greiða með gjaldmiðlinum bitcoin sem svarar til 75.000 kr fyrir þriðjudaginn 13. okt 2015. Ef ekki þá tvöfaldast lausnargjaldið. Það var sem sagt rænt frá mér afar kærum hlutum (gögnum) og ég krafinn um lausnargjald. Fjárkúgun sem er með öllu órekjanleg. Ef satt skal segja þá líður manni ekki mjög vel með þetta og má líkja þessu við að brotist sé inn hjá manni og hafðir á braut hlutir sem eru manni afar kærir og ómetanlegir. Þar sem ég þverari en allt sem þvert er þá hvarflaði það ekki að mér að greiða glæpamönnum lausnargjald þó það sé mun lægra en verðmætin sem numin voru í gíslingu. Það er margt á kreiki þarna út í ómælisvídd netheima og allra bragða neitt til að klekkja á þér og mér. Ég hef grun um að þessir glæpamenn hafi laumast inn í tölvuna mína í gegnum um uppfærslu á netöryggisforriti. Þessi lífsreynsla kennir mér það að ekkert er til svo verjast megi svona árásum nema góð öryggisafritun á gögnum í tölvunni. Af þessari reynslu hef ég uppgötvað í mér eiginleika eða eðlishvöt sem ég hét að ég ætti ekki til en það er hefndarþorsti. Þegar gert er á hlut þinn sem stendur þér nærri þá kviknar þessi hvöt. Ég var líka rændur því að bjóða hina kinnina. 
Síðustu grágæsirnar á Blönduósi þetta sumarið

Jónas á Ljóninu er samur við sig og slær hvergi af. Í nýjasta Glugga auglýsir hann að Blönduból sem er gistiþjónustuhluti starfsemi hans muni fjölga smáhýsum úr þremur í sex. Já brattur er bóndinn á Blöndubóli. Þessi nýju hús sem ýmist eru kölluð saunatunnur eða smáhýsi eiga að vera tilbúin þann 1. apríl á næsta ári. Ef mér skjöplast ekki minni eða vit þá hef ég grun um að þessi nýju hús eigi eftir að hljóta náð hjá skipulagsyfirvöldum á Blönduósi. Það er þetta með minnið og vitið og það litla sem eftir er af því í mér, segir að kærleikar með Jónasi á Ljóninu og Bæjaryfirvöldum séu ekki þeir mestu sem þekkjast hér um slóðir. Hræddur er ég um að stóra saunatunnumálið sem mér sýnist að sé í uppsiglingu sé ekki á lokametrunum. Hræddur er ég um að tunnan eigi eftir að rúlla fram og til baka á Vesturbakkanum í allan vetur og líkast til langt fram á vor. "Tunnan valt og úr henni allt/ ofan í djúpa keldu./ Skulfu lönd og brustu bönd/ en botngjarðirnar héldu." orti séra Jón Þorláksson á sínum tíma. Vesturbakkinn er tunna, saunatunna eða bara púðartunna.



En dagurinn í dag er til þess að gera bjartur en maður finnur vel fyrir suðvestan áttinni, reki maður nefið fyrir horn. Þeir félagar Ívar Snorri sem nýlega hefur fest kaup á Margréti HU-22 og Jóhannes Þórðarson láta ekki smá kælu hindra sig í að velta vöngum yfir gömlum trillum sem þeir hafa mikla ást á. Páll bróðir Jóhannesar auglýsir á huni.is 
Ókeypis veiðileyfi
Í túninu hjá mér eru þrjár flekkóttar ullargæsir. Vilji einhver skjóta þær í matinn, þá er það mér að meinalausu.
Páll Þórðarson

Svona er A-Húnavatnssýsla í dag.
 
 
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 124
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 56756
Samtals gestir: 10461
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:27:54