Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2016 Janúar

20.01.2016 14:09

skýringa leitað (ekki um handbolta)

         Tíminn hraðspólar lífinu í átt að þorranum og það kann ég að meta því þá byrja þorrablótin og hreyfa má við súrmatnum úr fötunni úti í bílskúr. Þegar þorrinn er genginn í garð þá má lífstakturinn aftur fara í eðlilegt far.


        Kvennaskólinn og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi um miðjan janúar 2016

Þegar ég fer í huganum yfir genginn ár þá rennur upp fyrir mér að það eru um 10 ár síðan ég byrjaði á þessum skrifum á þessum vettvangi. Ég byrjaði rólega en færðist í aukana eftir því sem leið á og svo þegar ég lít yfir liðið ár sé ég að afköstin eru að nálgast byrjunarreitinn. Ég hef haft sem leiðarstef í mínum skrifum, Gluggann (auglýsingablað A-Hún) og daglegt líf í gamla bænum sem við köllum yfirleitt fyrir innan á en ég í ósvífni minni hef stunduð kallað Vesturbakkann. Á þessum tíu árum hefur margt breyst sem vonlegt er. Stefán og Nonni hundur sem voru mér mikill innblástur eru fluttir burt. Erlendur listamaður á Brimslóðinni baðst undan því að vera í hlutverki í skrifum mínum og síðast en ekki síst þá flutti Ríkið og öll mannlífsflóran sem því fylgdi á brott. Ef til vill er eitt sem ég gleymi í þessari upptalningu en það er ég sjálfur en fjandakornið að ég fari að viðurkenna það. En niðurstaðan er samt sú að eftir sit ég einn í mínu horni með mín veraldlegu verkefni og verð fyrir mun minna áfoki andlegrar upplyftingar. Reyndar hef ég verið mun verkmeiri en brandaramaðurinn á Húnahorninu (huni.is) sem hefur náð þeim einstæða árangri að koma með nýjan brandara eftir rúmlega eitt ár.  

         Því skal líka til haga haldið að stór hluti í skrifum mínum eru frásagnir af baráttu Jónasar á Ljóninu við máttarvöld lýðveldisins. Ég veit að hann hefur gefið sér tíma frá leigubílaharkinu í höfuðborginni til að heilsa upp á helstu stofnanir réttlætisins og nenni ég ekki að telja þær allar upp enda lítill tilgangur með því. Í hvert skipti sem Jónas nær taki á embættismanni réttlætisins þá færist hann allur í aukana og skynjar réttlæti sér til handa rétt handan við hornið. Ég hef haft orð á því þegar Jónas er sem bjartsýnastur að leiðin að réttlætinu gæti nú verið þyrnum stráð og fyrir horn sem er virðist í seilingarfjarlægð er ekki strax farið.  Fyrir þessar athugasemdir gerir Jónas lítið og segir líkt og einhver hefur sagt áður. "Minn tími mun koma og þú skalt fyrstur fá að heyra það"


   Ljón norðursins með Kambana í Langadalsfjalli í baksýn.  Jónas á Ljóninu er væntanlegur í heimahagana um páskana eftir vetursetu í Reykjavík       

En þorrinn er að ganga í garð og í dag er bræðramessa samkvæmt almanaki Háskólans og í sögu daganna eftir Árna Björnsson kemur þetta meðal annars fram: "Bræðramessa er kennd við tvo óskylda píslarvotta kaþólsku kirkjunnar: Annar er Sebastíanus (d.300) og er talinn rómverskur hermaður. Fyrst var hann skotinn örvum og síðan barinn til bana, grafinn í katakombunum við Via Appia utan Rómar. Hinn er Fabíanus páfi og píslarvottur sem valdist til embættis vegna þess að dúfa settist á höfuð hans á kjörfundinum. Varð helgur maður." Ekki meira um þessa bræður vora en það styttist í pungana, sviðasultuna og þorrablót kvenfélagsins Vöku á Blönduósi svo það er til einhvers að hlakka. 

06.01.2016 15:04

Minningar í kjölfari horfins tíma

Enn eitt árið liggur í valnum og aldrei það kemur til baka og enn ein jólin eru við það að kveðja. Þó enginn stöðvi tímans þunga nið þá liggja minningarnar í kjölfari horfins tíma. Árið sem nú er horfið og er á leið út í eilífðina hefur skilið eftir handa mér tvo litla afleggjara sem setja spor sín á eilífðargöngu mína og forfeðra minna.

Dóttir mín Ásta Berglind og kærasti hennar Jóhann Ingi Hjaltason eignuðust dóttur í febrúar sem seinna fékk, nánar tiltekið í veðurhvellinum í mars, nafnið Gróa Margrét. Árið leið og í lok nóvember keisarafæddist þeim Hjalta syni mínum og Láru Sóleyju Jóhannsdóttur sonur sem flestum kom á óvart og þá einkum og sér í lagi mér að var skírður Jón með Benedikt að eftirnafni á þriðja degi jóla. Það skal ekki dreginn dul á það að litla hjartað í mér meyrnaði í Akureyrarkirkju þegar ég heyrði nafnið á drengnum í fyrsta skipti.


Gróa Margrét Jóhannsdóttir

Þessi barnabörn mín þekki ég misvel því Gróa litla ólst upp með mér í sumar og er ég ekki frá því að hún beri þessi merki. Hún er kát og samkjaftar ekki. Jón litli á Akureyri er fíngerður fyrirburi með rólegt yfirbragð og afar fallegan svip. Ef ég á að vera heiðarlegur þá hef ég ekki enn haldið á honum einfaldlega vegna þess að mér finnst hann svo brothættur. Úr þessu ætla ég að bæta um helgina og taka einasta afkomanda minn sem ber nafn mitt í fangið.


Jón Benedikt Hjaltason í fangi móður sinnar á skírnardaginn

Það er af fleiru að taka en þessir tveir atburðir tróna svo á toppnum að nánast allt annað gleymist nema maður leggist yfir dagbókina. Reyndar veit ég að mér verður fyrirgefið þó ég tíni ekki fleiri atburði til því mér er legið á hálsi að vera afar gleyminn á flesta hluti.

Síðastliðið ár hefur verið mér í vinnulegu tilliti svolítið frábrugðið öðrum árum. Eftir að ég var sviftur Ríkinu þá hefur mannaferðum fækkað þó nokkuð. Margir hafa af mér áhyggjur og halda að ég höndli ekki einveruna í Aðalgötunni en það er algjör óþarfi. Ef það er einhver sem getur umborið mig til lengdar þá er það ég sjálfur og hef ég bráðum þurft að gera það í 64 ár.

Þetta sem hér er ritað er tilraun til að þakka fyrir farsælt ár sem horfið er. Hvað hið nýja ár ber í skauti sínu veit enginn. Ég veit ekki um neina fjölgun í minni nánustu fjölskyldu en upplýstir menn vita að meðgöngutími kvenna er í kringum 9 mánuðir svo margt getur breyst nú eða hefur gerst án þess að ég hafi um það vitneskju.  Já það er erfitt að spá og þá sérstaklega um framtíðina og margur smiðurinn hefur slegið á fingur sér þó gæfusmiður sé en það sakar ekki að reyna að vera almennileg manneskja og treysta á Guð og lukkuna. Með þessum orðum þakka ég fyrir liðið ár og óska öllum sem þetta lesa farsældar á árinu.

PS. Ekkert hefur verið minnst hér á Jónas á Ljóninu en hann á örugglega eftir að koma hér við sögu þegar hann kemur norður með grágæsunum í lok mars.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 83
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 63192
Samtals gestir: 11273
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 23:26:25