Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

18.08.2018 21:19

Gassinn Arnór á Engihlíðarslóðum


Gæsir eru til margra hluta nytsamlegar. Þær éta t.d. gras og skila því hálfmeltu með trefjum út í umhverfið án tillits til geðslags íbúa bæjarins  en auka vafalítið lífræna ræktun bæði á gangstéttum og grasflötum. Þar sem gæsir safnast saman í þéttbýli þá verða þær með tímanum heimaríkar, sumir segja óforskammaðar og hvæsa á fólk eða stöðva umferð í tíma og ótíma. Þetta gætu þær hugsanlega hafa lært af Blönduóslöggunni því mikið er af gæs kringum höfuðstöðvar hennar. Ekki hef ég heyrt af því að Blönduóslöggan hvæsi en þekkt eru dæmi um umferðastöðvun. Þetta er aðeins inngangur að því  að um miðjan júlí var merkt gæs á Blönduósi með gervihnattarsendi og var þetta þriðja árið í röð sem það er reynt. Arnór Þórir Sigfússon fuglafræðingur hjá Verkís er afar vakandi yfir sérkennum gæsa almennt  og hvers vegna þær hafa valið Blönduós sem sérstakt uppvaxtarsvæði fyrir grágæsir. Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna Arnór hefur staðið að merkingum á Blönduósi sl. 3 ár en það hefur hvarflað að mér að hann geri þetta af umhyggju fyrir mér sem fylgst hefur með grágæsunum frá því ég flutti til Blönduóss. En hvað sem alla umhyggju snertir þá hafa þær tvær gæsir sem fengið hafa gervihnattarsendi látið lífið áður en þær náðu aftur í heimahaganna. Blanda sem fyrst var merkt í júlí 2016 dó á slóðum Auðar Djúpúðgu á Katanesi um jólaleytið sama ár. Hún flaug líklega ein síns liðs á flótta undan kappsömum skyttum á Melgerðismelum það árið.

 Arnór sem átti til merki af gæs sem skotin var á Melgerðismelum árið 2016 hélt merkinu á lífi fyrir tilstilli heiðarlegra skotveiðimanna og dagsbirtu og merkti aðra gæs á Blönduósi sumarið 2017 með merki föllnu Skagafjarðargæsarinnar. Sú gæs fékk nafnið Linda Björk og var merkt á Blönduósi. Maki hennar og sonur þeirra Lindu féllu í skotárás í landi Strjúgsstaða sl. haust og var af þeim mikill harmur. Daginn eftir fall þeirra feðga fór að bera á miklu hreyfingarleysi Lindu því GPS mælingar sýndu alltaf sama staðinn dag eftir dag. Til að kanna þessa kyrrsetu Lindu var gerður út leiðangur sem saman stóð að Höska Löggu og Robba sundlaugarstjóra og myndasmiðs. Skemmst er frá að segja að þeir félagar fundu merkið og komu því til Arnórs fuglafræðings sem áður er getið. Sendirinn var í umsjá Arnórs í vetur og var haldið á lífi með ljósi og yl. Til að gera langa sögu stutta þá birtist Arnór Þórir hér fyrir norðan með merkið góða og merkti eina gæs um miðjan júlí í nágeni við blokkina. Ekki lét hann mig vita fyrr en langt var gengið á júlímánuð að þessi atburður hefði átt sér stað. Ég var víðsfjarri heimahögum þegar ég fékk fréttirnar og kom ekki heim fyrr en viku eftir fréttirnar. Arnór sagði mér að hann hefði nefnt gæsina Arnór sem að þessu sinni var gassi . 



Ég sendi honum skeyti eigi alls fyrir  löngu og tjáði honum að það hefði nú verið gráupplagt að nefna gassann Jón Arnór í höfuðið á landskunnum körfuboltamanni. Fékk þessi hugmynd mín góðan hljómgrunn hjá fuglafræðingnum en það sem verra var þá réði hann ekki för í þessu máli.  Fljótlega eftir merkingu kom Arnór gassi sér út fyrir þéttbýlismörk og hefur haldið sig í landi Engihlíðar en austast farið í landareign Gústa á Skarði. Gæsaveiðitímabilið fer að hefjast og vil ég fara þess á leit við gæsaveiðimenn sem reyndar hafa ruglast á kúm og gæsum í landi Geitaskarðs að hafa auga með Arnóri gassa og gefa honum tækifæri til að leggja í Skotlandsferð í haust.

23.11.2016 13:50

Hugsað upphátt á Vesturbakkanum


Á Vesturbakkanum voru menn sem gerðu út en liggja nú í útgerðardvala. Bátar vélarvana eða hreinlega horfnir

Langt er um liðið að sögur af Vesturbakkanum hafa litið dagsins ljós hér á þessum vettvangi. Við erum enn hérna nokkur sem drögum andann, sum allan sólarhringinn en aðrir bara 8 tíma eða bara endrum og eins.  Hér áður fyrr meir voru hér umhverfis allt umlykjandi einstaklingar sem óhugsandi var að verða ekki var við og  stundum oft á dag. Menn kunnu hér ráð til að afmá brundbragð úr hrútaketi. Hér voru hundar sem ólu upp menn og menn sem reyndu að koma skikki á opinbera starfsmenn ríkis og bæjarins. Listamenn sem m.a. löðuðu til sín auðnutittlinga með verkum sínum. Vissulega er hér enn fólk sem hefur margt til brunns að bera og má þar nefna einstaklinga sem lögðu hinn forna skjáleik í sjónvarpinu á hliðina. Eplaræktendur, útsjónarsama gistihúsa- og guðshúsaeigendur svo einhverjir séu nefndir. Svo er hér hundur sem styggir stundum göngufólk sem leið á um Aðalgötuna og er þess valdandi að heimsóknum til mín fækkar enn frekar en orðið er frá brotthvarfi ÁTVR úr mínu ranni.   

         

Oft þarf að reisa múra til að halda aftur af náttúruöflunum

Það er einhvern veginn þannig að þegar maður eldist og þroskast að kjarkurinn til að segja sögur af samferðamönnum minnkar. Kann það að vera vegna aukinnar þekkingar á mannlegu eðli. Óttinn við að særa einhvern alveg óvart án þess að einhver brotavilji sé að baki. Kannski er þetta óþarfa viðkvæmni í mér að brölta um með óþarfa sektarkennd um eitthvað sem ekki hefur átt sér stað. Maður kemst ekki að því hvort þeir sem um er skrifað móðgist nema að láta á það reyna. En, samt sækir efinn að. Væri ekki ráð að senda þeim sem fyrir pennanum gætu orðið bréf um það hvort þeir væru hæfilega harðir til að verða barðir.

         Ég er ekki í nokkrum vafa um það að margir hefðu gaman að því að heyra frá því hvernig ein manneskja getur lagt heila sjónvarpsdagskrá á hliðina með símann einn að vopni og viss er ég um að einhverjir hefðu áhuga á eplarækt við ós Blöndu fyrir opnum Húnaflóanum.

         

Horft af Vesturbakkanum

Af þessum skrifum geta menn lesið að mér úr greipum hafa gengið margir áhugaverðir einstaklingar úr dýraríkinu. Hafa horfið úr mínu nágreni, holdgervingar hinna óhjákvæmilegu breytinga.  Jónas vert á Ljóninu sést hér þó af og til en hann fer líkt og farfuglarnir suður á bóginn yfir vetrartímann. Ég heyri reglulega frá honum og veit það fyrir víst að hann er ekki frábitinn því að eltast við "kerfið" sem hann segir að hafi leikið sig grátt. Þessi eltingaleikur hefur staðið nokkuð lengi yfir og sér ekki fyrir endann á honum.

         Reyndar er einn einstaklingur sem sannanlega tilheyrir Vesturbakkanum og er mér einkar kær farinn til vetrardvalar í Skotlandi. Þetta er að sjálfsögðu grágæsin Blanda sem þeir sem fylgjast með á "facebook" þekkja. Á þessum fugli er lengi hægt að nærast andlega, a.m.k. meðan hún lifir og hagar sér skynsamlega á Katanesi hvar forsetafrúin á ættir að rekja.    

13.04.2016 16:26

Púðurtunnur og gæsamerkingar


Mávarnir í loðnu í Blönduósnum

Dagarnir líða, sól hækkar á himni og farfuglarnir streyma í heimahagana. Allt fram streymir endalaust. Skýin skyggja lítt á sólina  og vindurinn heldur sig til hlés þessa dagana. Það má segja að veturinn skilji við af hógværð og vorið laumast inn í líf okkar án vandræða.  Þannig hefur þetta verið frá páskum en reynslan hefur sýnt það að dag skal að kveldi lofa og mey að morgni.


Hlíf (Sigurðardóttir) og Lagga (Ragnheiður Þorsteinsdóttir) að leggja upp í göngu frá Fjörulallastíg á Bakkastíginn

Vorboðarnir eru margir og misjafnt hvað það er sem vekur vorið í brjóstum manna. Sumum finnst að vorið sé komið þegar þrestirnir hefja upp ástarsöngva sína fyrir allar aldir í lok mars. Vorboðinn ljúfi, lóan hefur lengi átt stóran sess í sálinni og þeir allra vorþyrstustu fagna sílamávinum sem vorboða í lok febrúar. Krían hefur verið einkennisfugl vorsins hjá þeim sem einna mesta hafa þolinmæðina en hún fer að koma í Ósinn allt frá 3. til 15. maí.  Einn er þó hér á staðnum sem hreinlega auglýsir sig sem vorboðan ljúfa og er það enginn annar en Jónas á Ljóninu. Já það er misjafnt hvar menn hýsa í huganum sinn vorboða.


Þó ríki friður er rétt að hafa varan á

Á Vesturbakkanum ríkir til þess að gera góður friður og hefur gert það í allan vetur en það gæti breyst þegar sumarsólstöður nálgast. Áður nefndur vorboði Jónas á Ljóninu hefur í hyggju að reisa þrjú tunnuhús á lendu sinni og leigja þær ferðamönnum sem athvarf frá og með 15. júní. Ekki ætla ég að fullyrða neitt um áhrifamátt þessara tunnuhúsa á skipulagsyfirvöld en reynslan hefur kennt mér að blandan Jónas og yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast geta á einni nóttu breyst í efni sem geta gert saklausa tunnu að púðurtunnu.

         
    Þetta er síðasta gæsin sem er er á lífi  frá síðustu gæsamerkingum á Blönduósi árið 2000    
         Ég hef reynt að koma því til skila að grágæsin AVP sem merkt var sem ungi sumarið 2000 við sýsluskrifstofuna á Blönduósi sé komin í heimahagana í sextánda sinn. Arnór Þ. Sigfússon fuglafræðingur stóð fyrir þessum merkingum á sínum tíma  ásamt fólki frá fuglaverndarsamtökum á Bretlandi. Ekkert hefur verið merkingar hér um slóðir sínan þá en Arnór hefur mikinn áhuga á því að merkja gæsir í sumar og koma fyrir á að minnsta kosti einni gæs gervihnattarsendi svo fylgjast megi með henni daglega. Þessi merki kosta 1.700 evrur og það væri gráupplagt fyrir nokkur fyrirtæki og stofnanir að slá saman fyrir einum sendi og koma sér saman um nafn á gæsina sem sendinn fengi. Tilvalið verkefni fyrir áhugasama í gæsabænum Blönduósi.

30.03.2016 15:51

búinn að þegja þorrann og góuna

Það var löngum sagt að menn yrðu að þreyja þorrann og góuna en ég get með sanni sagt að ég sé búinn að þegja þorrann og góuna og þess vegna er ég hér og hættur að þegja.


Eyjólfur farinn að hressast þó hress sé

Vorið er handan við hornið því "vorboðinn ljúfi" Ljón norðursins sem reynir að þrengja sér fram fyrir lóuna var á forsíðu Gluggans fyrir skömmu (auglýsingablað A-Hún)  með alls konar tilboð um  næringu og afþreyingu sem og nokkrar vísur ortar undir höfundarnafninu Joð Ess. Jónas vert hefur gert lóunni erfitt fyrir hin síðari ár því vorauglýsingar hans hafa gjörsamlega skyggt á þennan vinsæla matfugl frakka. Meira um Jónas vert á Ljóninu síðar.


Bella, köttur Jónasar á eigin styrk

Í dag og undanfarna daga hefur verið bjart, kalt og stillt veður, veður sem sumir kalla gluggaveður. Hið góða við veðurminnið sem ég hef yfir að ráða þá er það gloppótt því ég var  búinn að gleyma Húnaflóaþokunni. Fyrir skömmu rétt um  hádegisbil leit ég glaður til himins og þakkaði þeim sem nokkrum er í nöp við fyrir fegurð heimsins. Sólin skein og það var sannkallað vor í lofti Eftir hádegi sinnti ég ýmsum verkefnum sem dæma mig til setu í stól en þegar færi gafst til stóð ég upp og leit út um gluggann og þá sá ég það sem ég hef svo oft séð áður og hefur oft skyggt á sólríkan dag við botn Húnaflóa. Þokan var mætt. Hvernig er hægt að gleyma svona mikilvirku náttúrufyrirbrigði á einum vetri. Mín tilfinning er sú að allt sem manni finnst óþægilegt gleymist til þess að gera fljótt en hið góða safnast í minnið. Ef þessi eigind væri ekki til staðar þá væri geðheilbrigðið mun lakara en það er. Húnaflóaþokan er enn við líði og meðan svo er þá minnka áhyggjur mínar af loftlagsbreytingum. Húnaflóaþokan er merki þess að aftur kemur vor og aftur kemur afturkippur í vorið sem er forveri sumarsins sem kemur þrátt fyrir mismunandi  misheppnuð vor.


Gæsir voru mættar í dag á túnið norðvestan við blokkina

Gæsirnar sem nokkrir elska að hata eru farnar að láta sjá sig og gaman að segja frá því að fyrsta gæsaparið kom í gærkvöldi þremur dögum seinna en í fyrra og í dag sáust þrjár gæsir á túninu norðvestan við blokkina. Það styttist í það að gæsirnar fari að skíta á slóða og stíga bæjarins, gangandi til mismikillar ánægju.  Skógarþrestirnir sem vanir eru að hefja ástarljóð sín í lok þessa mánaðar eru farnir að syngja fyrir nokkru. Þetta eru tíðindi í mínu einkalífi því þessu er ég ekki vanur en " þröstur minn góður" því fyrr því betra. Af vorinu og farfuglum er miklu meira að segja því tjaldurinn er kominn  og fyrsti farfuglinn sem sílamávur kallast er löngu kominn. Hrafninn er þessa dagana ofurseldur kynhvötinni því hann veit að kjörið er að vera búinn að koma upp ungum þegar varp farfuglana hefst. Fersk egg fyrir nýklakta unga er kjarnafæða. Merki vorsins eru farin að birtast þó enn sé kalt í lofti.


Glugginn, 13. tölublað kom út í dag og fer töluvert mikið fyrir vísu eða frekar vísum vikunnar og er tilfinning mín sú að Jónas á Ljóninu hafi verið þó nokkur orsakavaldur að gerð þeirra. Ein er þarna vísa sem ég álít vera eftir Sigurjón Guðmundsson oft kenndan við Fossa í Svartárdal. Hann var einmitt hjá mér þegar Jónas á ljóninu var að sjóða saman stökur til birtingar í Glugganum. Sigurjón segir á sinn hógværa hátt. Fann ég eigi orðin þá/ er ég segja vildi./ Var þó feginn eftir á/ að ég þegja skyldi. E.K. sem ég held að sé Einar Kristmundsson í Grænuhlíð lætur frá sér nokkra stökur sem allar enda á "eins og fyrri daginn" og er hann vafalítið að skírskota til Rúnar vinar míns sem þekktur er fyrir "Margt er það sem miður fer" vísurnar. Einar segir meðal annars og vitnar í einkunnarorð Jónasar á ljóninu: "á eigin styrk": Bjartsýnin er býsna virk,/ býr hann sér í haginn./ Jónas er á eigin styrk/ eins og fyrri daginn. Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að prentuðum Glugga er hægt að sjá vísur Einars inni á huni.is

20.01.2016 14:09

skýringa leitað (ekki um handbolta)

         Tíminn hraðspólar lífinu í átt að þorranum og það kann ég að meta því þá byrja þorrablótin og hreyfa má við súrmatnum úr fötunni úti í bílskúr. Þegar þorrinn er genginn í garð þá má lífstakturinn aftur fara í eðlilegt far.


        Kvennaskólinn og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi um miðjan janúar 2016

Þegar ég fer í huganum yfir genginn ár þá rennur upp fyrir mér að það eru um 10 ár síðan ég byrjaði á þessum skrifum á þessum vettvangi. Ég byrjaði rólega en færðist í aukana eftir því sem leið á og svo þegar ég lít yfir liðið ár sé ég að afköstin eru að nálgast byrjunarreitinn. Ég hef haft sem leiðarstef í mínum skrifum, Gluggann (auglýsingablað A-Hún) og daglegt líf í gamla bænum sem við köllum yfirleitt fyrir innan á en ég í ósvífni minni hef stunduð kallað Vesturbakkann. Á þessum tíu árum hefur margt breyst sem vonlegt er. Stefán og Nonni hundur sem voru mér mikill innblástur eru fluttir burt. Erlendur listamaður á Brimslóðinni baðst undan því að vera í hlutverki í skrifum mínum og síðast en ekki síst þá flutti Ríkið og öll mannlífsflóran sem því fylgdi á brott. Ef til vill er eitt sem ég gleymi í þessari upptalningu en það er ég sjálfur en fjandakornið að ég fari að viðurkenna það. En niðurstaðan er samt sú að eftir sit ég einn í mínu horni með mín veraldlegu verkefni og verð fyrir mun minna áfoki andlegrar upplyftingar. Reyndar hef ég verið mun verkmeiri en brandaramaðurinn á Húnahorninu (huni.is) sem hefur náð þeim einstæða árangri að koma með nýjan brandara eftir rúmlega eitt ár.  

         Því skal líka til haga haldið að stór hluti í skrifum mínum eru frásagnir af baráttu Jónasar á Ljóninu við máttarvöld lýðveldisins. Ég veit að hann hefur gefið sér tíma frá leigubílaharkinu í höfuðborginni til að heilsa upp á helstu stofnanir réttlætisins og nenni ég ekki að telja þær allar upp enda lítill tilgangur með því. Í hvert skipti sem Jónas nær taki á embættismanni réttlætisins þá færist hann allur í aukana og skynjar réttlæti sér til handa rétt handan við hornið. Ég hef haft orð á því þegar Jónas er sem bjartsýnastur að leiðin að réttlætinu gæti nú verið þyrnum stráð og fyrir horn sem er virðist í seilingarfjarlægð er ekki strax farið.  Fyrir þessar athugasemdir gerir Jónas lítið og segir líkt og einhver hefur sagt áður. "Minn tími mun koma og þú skalt fyrstur fá að heyra það"


   Ljón norðursins með Kambana í Langadalsfjalli í baksýn.  Jónas á Ljóninu er væntanlegur í heimahagana um páskana eftir vetursetu í Reykjavík       

En þorrinn er að ganga í garð og í dag er bræðramessa samkvæmt almanaki Háskólans og í sögu daganna eftir Árna Björnsson kemur þetta meðal annars fram: "Bræðramessa er kennd við tvo óskylda píslarvotta kaþólsku kirkjunnar: Annar er Sebastíanus (d.300) og er talinn rómverskur hermaður. Fyrst var hann skotinn örvum og síðan barinn til bana, grafinn í katakombunum við Via Appia utan Rómar. Hinn er Fabíanus páfi og píslarvottur sem valdist til embættis vegna þess að dúfa settist á höfuð hans á kjörfundinum. Varð helgur maður." Ekki meira um þessa bræður vora en það styttist í pungana, sviðasultuna og þorrablót kvenfélagsins Vöku á Blönduósi svo það er til einhvers að hlakka. 

06.01.2016 15:04

Minningar í kjölfari horfins tíma

Enn eitt árið liggur í valnum og aldrei það kemur til baka og enn ein jólin eru við það að kveðja. Þó enginn stöðvi tímans þunga nið þá liggja minningarnar í kjölfari horfins tíma. Árið sem nú er horfið og er á leið út í eilífðina hefur skilið eftir handa mér tvo litla afleggjara sem setja spor sín á eilífðargöngu mína og forfeðra minna.

Dóttir mín Ásta Berglind og kærasti hennar Jóhann Ingi Hjaltason eignuðust dóttur í febrúar sem seinna fékk, nánar tiltekið í veðurhvellinum í mars, nafnið Gróa Margrét. Árið leið og í lok nóvember keisarafæddist þeim Hjalta syni mínum og Láru Sóleyju Jóhannsdóttur sonur sem flestum kom á óvart og þá einkum og sér í lagi mér að var skírður Jón með Benedikt að eftirnafni á þriðja degi jóla. Það skal ekki dreginn dul á það að litla hjartað í mér meyrnaði í Akureyrarkirkju þegar ég heyrði nafnið á drengnum í fyrsta skipti.


Gróa Margrét Jóhannsdóttir

Þessi barnabörn mín þekki ég misvel því Gróa litla ólst upp með mér í sumar og er ég ekki frá því að hún beri þessi merki. Hún er kát og samkjaftar ekki. Jón litli á Akureyri er fíngerður fyrirburi með rólegt yfirbragð og afar fallegan svip. Ef ég á að vera heiðarlegur þá hef ég ekki enn haldið á honum einfaldlega vegna þess að mér finnst hann svo brothættur. Úr þessu ætla ég að bæta um helgina og taka einasta afkomanda minn sem ber nafn mitt í fangið.


Jón Benedikt Hjaltason í fangi móður sinnar á skírnardaginn

Það er af fleiru að taka en þessir tveir atburðir tróna svo á toppnum að nánast allt annað gleymist nema maður leggist yfir dagbókina. Reyndar veit ég að mér verður fyrirgefið þó ég tíni ekki fleiri atburði til því mér er legið á hálsi að vera afar gleyminn á flesta hluti.

Síðastliðið ár hefur verið mér í vinnulegu tilliti svolítið frábrugðið öðrum árum. Eftir að ég var sviftur Ríkinu þá hefur mannaferðum fækkað þó nokkuð. Margir hafa af mér áhyggjur og halda að ég höndli ekki einveruna í Aðalgötunni en það er algjör óþarfi. Ef það er einhver sem getur umborið mig til lengdar þá er það ég sjálfur og hef ég bráðum þurft að gera það í 64 ár.

Þetta sem hér er ritað er tilraun til að þakka fyrir farsælt ár sem horfið er. Hvað hið nýja ár ber í skauti sínu veit enginn. Ég veit ekki um neina fjölgun í minni nánustu fjölskyldu en upplýstir menn vita að meðgöngutími kvenna er í kringum 9 mánuðir svo margt getur breyst nú eða hefur gerst án þess að ég hafi um það vitneskju.  Já það er erfitt að spá og þá sérstaklega um framtíðina og margur smiðurinn hefur slegið á fingur sér þó gæfusmiður sé en það sakar ekki að reyna að vera almennileg manneskja og treysta á Guð og lukkuna. Með þessum orðum þakka ég fyrir liðið ár og óska öllum sem þetta lesa farsældar á árinu.

PS. Ekkert hefur verið minnst hér á Jónas á Ljóninu en hann á örugglega eftir að koma hér við sögu þegar hann kemur norður með grágæsunum í lok mars.

25.11.2015 14:07

vöngum velt á Katrínarmessu


Enn dregur úr dagsbirtunni en máninn sendir alla þá birtu sem hann getur á okkur jarðarbúa í dag enda er hann fullur. Þessi 25. dagur nóvember mánaðar, Katrínarmessa er hægur og vindur berst okkur úr austri á hraðanum 1 metri á sekúndu. Frostið fer minnkandi með hverri klukkustund sem líður og orðið frostlaust um hádegið. Sem sagt, það er vart hægt að biðja um betri dag í byrjun Ýlis. Hrafnarnir eru áberandi þessa dagana og dvelja oft á ljósastaurum bæjarins og vaka yfir hverjum bita sem til fellur. Það er svolítið sérstakt að hrafnar eru mjög þaulsætnir á ljósastaurum við heimili forseta bæjarstjórnar Valgarðs Hilmarssonar svona eins og þar séu mestar líkur á að eitthvað falli til.

Það er orðið langt síðan ég hef heyrt frá Erlendi G. Eysteinssyni  frá Stóru-Giljá a.m.k. hvað kveðskap varðar. Á þennan kveðskap rakst ég á í nýjasta Glugga (aulýsingablað í A-Hún) Erlendur hafði smá formála að þessari ljóðagerð en það sem hér kemur er bein tilvísun í Erlend:"Ég var með Helgu [konu sinni] að versla í (SAH) Kjarnafæði til sláturgerðar 5. október 2015. Þar afgreiddi okkur falleg stúlka Rakel frá Svalbarðseyri. Ég hugsaði þannig, leit til hennar og gekk út.

Sullumbull og SAH

selt var Kjarnafæði.

Stjórendurnir ekkert sjá,

engin ljós sem græði.

 

Við Eyjafjörðinn austanverðann

eygja dömur eldfim ljós,

yfir fjörðinn fagurgjörðann

um fjöll og dali á Blönduós"

Erlendur er ekki dauður úr öllum æðum eins og glögglega má lesa út úr ljóðinu.


         Jónas á Ljóninu er eins og þeir vita sem þessi skrif lesa í leigubílaharki á höfuðborgarsvæðinu og er hann hugsi yfir nýjustu fréttum úr héraði.  Tíu milljónir króna í bíódísilframleiðslu á Blönduósi og áætlun að mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers við Hafursstaði í Skagabyggð liggur nú fyrir.   "Ef ekkert óvænt gerist tilkynnum við með vorinu að bygging álversins verði að veruleika," segir Ingvar Unnsteinn Skúlason, framkvæmdastjóri Klappa Development ehf. Ég er ekki frá því að fleiri en Jónas séu hugsi yfir þessu öllu saman og er ég nokkuð viss um að tekist verði á um þessi má og þá sérstaklega álver á hafurstöðum. Kannski að Blönduvirkjunarátaka "blætið" taki sig upp aftur og dagar undirskriftasafnanna gangi aftur í garð, hver veit.

         4. "Hugmynd að styrkumsókn til Minjaverndar vegna gamla bæjarins á Blönduósi - 1511028 Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkir að sækja um styrk til Minjastofnunar Íslands um framlag frá Húsafriðunarsjóði vegna skipulagsvinnu í elsta hluta byggðar Blönduósbæjar. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og byggingarfulltrúa að vinna styrkumsókn í samráði við Guðrúnu Jónsdóttir arkitekt." Afgreiðsla samþykkt með 7 atkvæðum. Svona hljóðaði fjórði dagskrárliður á fundi bæjarstjórnar Blönduóss sem haldinn var 18. þessa mánaðar. Þetta er málefni sem ætti að hressa okkur við sem hagsmuna höfum að gæta í gamla bænum. Guð láti gott á vita.


         Eins og áður hefur komið fram þá er Katrínarmessa í dag og því tilvalið að rifja upp það sem ég ritaði í pistil fyrir nákvæmlega 6 árum: "Messa til minningar um Katrínu píslarvott frá Alexandríu er haldin í dag þó ekki hér á Blönduósi. Margar sögur eru til um hana, en engar áreiðanlegar og óvíst hvort hún hefur verið til en það skiptir í sjálfu sér engu máli heldur það að sögur eru til um hana. Sem sagt Katrínarmessa er í dag 25 nóvember. Katrín þessi  var frá Alexandríu. Sagt er að Katrín hafði neitað að giftast Rómarkeisara því hún væri brúður Krists. Hún lagði svo fjörutíu heimsspekinga að velli í rökræðum um kristindóminn. Katrín var síðan sett í fangelsi eða dýflissu eins og það er stundum kallað. Dúfa kom á hverjum degi og færði henni mat. Katrín var síðan líflátin á hroðalegan hátt sem ég segi ekki frá því þetta er síða fyrir alla fjölskylduna. Svona geta miðvikudagar byrjað án þess að nokkuð sérstakt hafi gerst annað en maður vaknar les Moggann og rýnir örlítið í almanak Háskóla Íslands". Ofanritaður texti á að mér sýnist vel við í dag því þetta er líka  alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi til minningar um Mirabal-systurnar sem voru myrtar í Dóminíska lýðveldinu af útsendurum einræðisherrans Rafael Leónidas Trujillo. Svo mörg voru þau orð.

18.11.2015 15:19

Jesus og Jónas


Kvennaskólinn og Heimilisiðnaðarsafnið sóma sér vel á Blöndubakka og Blanda meðan sjávar leitar

Veturinn er loksins farinn að sýna sig og það í fjórðu viku vetrar eftir einstaklega gott haust. Frostið er mætt en þó er það hófstillt enn sem komið er og snjórinn fellur á fjöllum hjá útilegumönnum og tröllum. Þetta er 322. dagur ársins og eftir lifa 43 dagar og rétt mánuður þangað til sól fer að hækka á himni. Tunglið sem kviknaði fyrir viku í suðvestri hefur lifað fjórðung sinn Tíminn æðir semsagt áfram líkt og hann hefur gert gegn um tíðina og á vonandi eftir að gera enn um langan aldur.



Brúnblesi í stóískri ró við grátandi girðingu

Það eru svo sem ekki mikil tíðindi sem hægt er að segja frá á þessum degi og einhvern tímann var það sagt að engar fréttir væru góðar fréttir. En hvað er frétt? Svar við þessari spurningu er ekki einföld og sjálfsagt til við henni mörg svör og væri kannski affarasælast að svara bara eins og maðurinn gerði forðum þegar hann var beðinn um að skilgreina klám. " Þetta er loðið og teygjanlegt hugtak" og lét það svar duga og ætla ég líka að láta það duga.

Jesus var ánægður með að gististaður Jónasar verts á Ljóninu væri staðsettur á leiðinni norður,  eða eins og hann ritaði á Booking.com "Location. On the way to the north". Óþarfi er að tíunda það sem Jesus fann að Blöndubóli en megin málið er að hann gaf Jónasi 5 í einkunn, einkunn sem er fyrir ofan fall en ekki langt. Svo því sé haldið til haga þá er umræddur Jesus frá Spáni og er bara bjáni samkvæmt skilgreiningu Jónasar. En Jónas er farinn suður í Laugardalinn með trukkinn sinn og bláa leigubílinn með öllum matarauglýsingunum. Hann er farinn í "leigubílaharkið" og hann sagði í óspurðum fréttum "Það er ekkert að gera" og bætti við að það gerði ekkert til því þá gæfist meiri tími í að sinna hugðarefnunum. Sem dæmi þá er hann búinn að heimsækja Innanríkisráðuneytið og hitta þar nokkra málsmetandi menn og rætt við þá í gegnum gler um ranglæti heimsins. Rétt er að geta þess í þessari málsgrein að Sóla, langferðabifreið Jónasar er að öllum líkindum að hverfa úr eigu hans og flytjast í Bárðardalinn. Það verður sjónarsviptir af Sólu og er ég viss um að gangnamenn á Auðkúluheiði eiga eftir að sakna hennar.


Sóla séð að aftan hvar sjá má Jónas á Ljóninu arka niður Almannagjá með afastelpurnar sínar

Það er fábrotnara lífið hér í gamla bænum eftir að Ríkið fór en þess ber þó að geta að Margrét HU 22 hefur komið í "staðinn" og er staðsett norðaustur undir vegg hjá Ívari Snorra og bíður frekari aðhlynningar. Fyrst minnst er á "skip" þá er rétt að geta þess að Jóhannes Þórðarson (frá Sauðanesi og fékk snemma á sig viðurnefnið "sauður" vegna upprunans) hefur "selt" Jakann sinn til Akureyrar en síðast þegar ég vissi var hann ekki enn farinn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Jaki bátur sem lengi var í eigu Jóa Þórðar og um margt líkur áður nefndri Margréti. Jakinn var og er ekki búinn flóknum siglingatækjum en það var eins og báturinn væri með sál eða eðlisávísum sem kom honum ætíð til heimahafnar þrátt fyrir afleitt skyggni.


Við botn Húnafjarðar með hinar óviðjafnanlegu Strandir í baksýn

Það væri óviðeigandi að nefna það ekki hér að í dag er þjóðhátíðardagur Oman. Þetta ríki er í mynni Persaflóa og ekki langt frá heimsins vígaslóð og þar ríkir soldáninn Qaboos bin Said al Said sem einmitt á afmæli í dag.  

21.10.2015 09:50

margt er það sem miður fer og eitthvað fleira

Húnafjörðurinn var stilltur í morgun og ró yfir mávinum og Vatnsnesinu

Þessi miðvikudagsmogun er stilltur, nokkuð bjartur og lofar góðu. Það var smá skæni á bílrúðum þegar haldið var til vinnu í morgun sem að öllu jöfnu kallar á að maður þurfi að skafa. Það gat ég ekki gert því rúðuskafan mín er ónýt og ég hef ekki komið því í verk að fjárfesta í nýrri. Ég fékk smá samviskubit yfir þessu því ég varð að eyða svolítið meira jarðefnaeldsneyti í það eitt að bræða klakann af rúðunum. Reyndar hafði ég lesið það fyrr í morgun í Mogganum mínum að bensín hefði ekki verði ódýrara síðan 2009. Auk þess las ég það á netinu að loftslagsskýrslur SÞ væru ólæsilegar þannig að mér  leið snökktum betur eftir að hafa rifjað þetta tvennt upp.


Á kaffihúsi Ljóns norðursins er vikilega þörf fyrir Grágás
Hér á Vesturbakkanum er til þess að gera friður um þessar mundir og mávarnir í ósnum una glaðir við sitt. Jónas á Ljóninu hef náð þeim merka áfanga að geta skrifað nokkur orð í ritvinnsluforritið Word. Og það sem meira er þá hefur hann uppgötvað "print" skipunina sem gerir honum kleift að koma hugsununum sínum á prent. Þessi nýja uppgötvun Ljónsins hefur leitt til þess að Jónas hefur til muna fjölgað ferðum sínum á pósthúsið með bréf til helstu embætta ríkisins sem og bæjaryfirvalda. Reyndar held ég að Jónas spari sér burðargjaldið þegar hann sendir bæjaryfirvöldum bréf og afhendir þau bara í eigin persónu á bæjarskrifstofunni. Af framansögðu má sjá að framþróun á sér stað á Vesturbakkanum þrátt fyrir allt. 

Hluti gamla bæjarhlutans á Blönduósi. Gamla Samkomuhúsið fyrir miðri mynd er til sölu
Rjúpnaveiðitímabilið er að hefjast. Það kom mér á óvart að einungis ein auglýsing í Glugga fjallaði um bann við rjúpnaveiði á tilteknu svæði. Venjulega hefur Gluggin á þessum árstíma verið þakin í rjúpnabannsauglýsingum. Getur verið að rjúpur séu hættar að halda sig í lyngmóum frá fjöru til fjallatoppa. Það sem maður heyrir um tilvist þessa fugls þetta haustið er það að hann haldi sig helst í húsagörðum og hesthúsahverfum. Vonandi freistast enginn til að ná sér í jólarjúpuna innan um hross bæjarbúa því þá væri veruleg hætta á því að eitthvað verði um hrossakjöt á jólaborðum


Seint þreytist ég á því að lofa gildi Kvennaskólans á Blönduósi fyrir mannbætandi áhrif á umhverfið
Ég lét einhvern tíma hafa eftir mér að minnsta kosti ein vísa birtist með hverjum pistli. Þetta hef ég svikið markvisst í langan tíma og kenni þar einkum um hversu vinur minn Rúnar Agnarsson í Sólheimum er orðin latur að koma til mín með "margt er það sem miður fer" vísurnar sínar. Já ég hika ekki við það kenna öðrum um því það er afar hentug leið til að þurfa ekki að horfast í augu við eigin vandamál. Þetta loforð rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá Rúnar aka fram hjá skrifstofu minni í gær með ærandi harmonikkutóna og veifa mér svona í kurteisisskyni með aðra hönd á stýri. Honum til hróss er mér skylt að segja frá því að hann hægði ferðina á Súkkunni meðan hann ók hjá. Til að sameina þetta sem hér er ritað læt ég þessa litlu vísu líða út í heiminn í þeirri einlægu von að tölvuþrjótar allra landa steli henni og hafi af henni skaða. Allt annað skikkanlegt fólk getur látið hana sem vind um eyru þjóta

Langt er síðan lætt hef hér
litlu vísukorni.
Margt er það sem miður fer
í mínu þrönga horni.


14.10.2015 09:45

Lengi má manninn reyna



Haustið er komið
"Þó fátt eitt þú megnir og flest sé tál og frækorn þín hnjóti um steina, Þá mundu að lífið er leyndamál. Lengi má manninn reyna." orti Þorvaldur Þorsteinsson á sínum tíma og Megas gerði við textann lag. Ég veit ekki allveg hvort þetta séu réttu inngangsorðin að því sem eftir kemur en lengi má manninn reyna. Þannig er að ég varð fyrir heldur nöturlegri lífsreynslu fyrir helgi. Þessi reynsla tengist á engan hátt heilsufarinu eða lífi og dauða en nöturleg var hún samt. Brotist var inn í mína vinnutölvu og öll gögn sem tengjast mínu persónulega aðgengi voru hlekkjuð á stað sem ég gat á engan hátt nálgast og frelsað. Þegar þessari gíslatöku var lokið af einhverjum þarna úti í óravíddum netheima fékk ég skýr skilaboð. Ef þú vilt sjá sköpunarverk þín aftur skaltu vinsamlegast greiða með gjaldmiðlinum bitcoin sem svarar til 75.000 kr fyrir þriðjudaginn 13. okt 2015. Ef ekki þá tvöfaldast lausnargjaldið. Það var sem sagt rænt frá mér afar kærum hlutum (gögnum) og ég krafinn um lausnargjald. Fjárkúgun sem er með öllu órekjanleg. Ef satt skal segja þá líður manni ekki mjög vel með þetta og má líkja þessu við að brotist sé inn hjá manni og hafðir á braut hlutir sem eru manni afar kærir og ómetanlegir. Þar sem ég þverari en allt sem þvert er þá hvarflaði það ekki að mér að greiða glæpamönnum lausnargjald þó það sé mun lægra en verðmætin sem numin voru í gíslingu. Það er margt á kreiki þarna út í ómælisvídd netheima og allra bragða neitt til að klekkja á þér og mér. Ég hef grun um að þessir glæpamenn hafi laumast inn í tölvuna mína í gegnum um uppfærslu á netöryggisforriti. Þessi lífsreynsla kennir mér það að ekkert er til svo verjast megi svona árásum nema góð öryggisafritun á gögnum í tölvunni. Af þessari reynslu hef ég uppgötvað í mér eiginleika eða eðlishvöt sem ég hét að ég ætti ekki til en það er hefndarþorsti. Þegar gert er á hlut þinn sem stendur þér nærri þá kviknar þessi hvöt. Ég var líka rændur því að bjóða hina kinnina. 
Síðustu grágæsirnar á Blönduósi þetta sumarið

Jónas á Ljóninu er samur við sig og slær hvergi af. Í nýjasta Glugga auglýsir hann að Blönduból sem er gistiþjónustuhluti starfsemi hans muni fjölga smáhýsum úr þremur í sex. Já brattur er bóndinn á Blöndubóli. Þessi nýju hús sem ýmist eru kölluð saunatunnur eða smáhýsi eiga að vera tilbúin þann 1. apríl á næsta ári. Ef mér skjöplast ekki minni eða vit þá hef ég grun um að þessi nýju hús eigi eftir að hljóta náð hjá skipulagsyfirvöldum á Blönduósi. Það er þetta með minnið og vitið og það litla sem eftir er af því í mér, segir að kærleikar með Jónasi á Ljóninu og Bæjaryfirvöldum séu ekki þeir mestu sem þekkjast hér um slóðir. Hræddur er ég um að stóra saunatunnumálið sem mér sýnist að sé í uppsiglingu sé ekki á lokametrunum. Hræddur er ég um að tunnan eigi eftir að rúlla fram og til baka á Vesturbakkanum í allan vetur og líkast til langt fram á vor. "Tunnan valt og úr henni allt/ ofan í djúpa keldu./ Skulfu lönd og brustu bönd/ en botngjarðirnar héldu." orti séra Jón Þorláksson á sínum tíma. Vesturbakkinn er tunna, saunatunna eða bara púðartunna.



En dagurinn í dag er til þess að gera bjartur en maður finnur vel fyrir suðvestan áttinni, reki maður nefið fyrir horn. Þeir félagar Ívar Snorri sem nýlega hefur fest kaup á Margréti HU-22 og Jóhannes Þórðarson láta ekki smá kælu hindra sig í að velta vöngum yfir gömlum trillum sem þeir hafa mikla ást á. Páll bróðir Jóhannesar auglýsir á huni.is 
Ókeypis veiðileyfi
Í túninu hjá mér eru þrjár flekkóttar ullargæsir. Vilji einhver skjóta þær í matinn, þá er það mér að meinalausu.
Páll Þórðarson

Svona er A-Húnavatnssýsla í dag.
 
 

30.09.2015 15:13

Guðbrandur köttur, minningarorð


Haustið sækir á

Upp er runninn síðasti dagur september þessa árs. Þessi dagur kemur ekki til baka líkt og gengnir dagar. Vindur kemur á 12 metra hraða á sekúndu úr suð suð vestri. Það er til þess að gera bjart að horfa til vesturs en þungt er yfir norðrinu og virðist sá þungi færast í aukana. En síðasta septembersól þessa árs er risin og aldrei hún kemur til baka. Rétt er líka að að geta þess að það gránaði í efstu toppa á Langadalsfjalli í gærmorgun og er það líklega fyrsti grámi haustsins.


Langadalsfjallið gránaði í toppinn í gærmorgun

Það er alltaf  eitthvað sem er á síðasta snúningi. Þetta gildir um dagana, árin, og líftíma allra sem byggja þessa jörð. September er við það að kveðja en einn er sá köttur sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir hefur yfirgefið þessa jarðvist. Ég er að tala um hann Guðbrand kött á Árbraut 16. Þessi högni var afar sérstæður og til af honum nokkrar ótrúlegar sögur. Hann hefur komið með lifandi önd til húsbænda sinna um miðja nótt í gegnum þröngan eldhúsglugga sem olli miklu fjaðrafoki. Auk þess kom hann með í vor spriklandi silung sömu leið og skildi hann eftir á eldhúsgólfinu. Húsbændur héldu að Guðbrandur hefði náð þessum fiski úr heimilistjörn eins af forsvarsmönnum Laxasetursins en við nákvæma rannsókn á því máli er það ekki rétt heldur var hér um vænan Blöndusilung að ræða. Guðbrandur kom stundum óboðin í heimsókn til okkar hjóna að næturlagi. Þegar maður mætti honum á svefnherbergisganginum , hann á útleið en ég sjálfur á leið í eldhúsið  var ekki um annað að ræða en víkja úr vegi og fylgja honum eftir inn í svefnherbergi og draga gluggatjöldin frá svo hann kæmist óhindrað út. Þess skal getið að hann þakkaði aldrei fyrir næturgistingu en kettir með sömu stöðu í virðingarstiganum og Guðbrandur  þurfa ekki að standa í slíkum smámunum.


Það fór vel á með þeim Guðbrandi og Elísu dótturdótturdóttur hennar Bebe (Elísabet Finnsdóttir) í sumar

Vesturbakkinn er enn á sínum stað og mannlífið þar er með svipuðum hætti frá degi til dags. Eitt er þó aðeins að breytast  en það er að hinir erlendu gestir sem hafa gist á gisthúsunum hér allt um kring í sumar fer nú fækkandi með lækkandi sól.  Gæsum fer ört fækkandi úr bæjarlandinu og eru líkast til búnar að finna sér næringarríka bithaga á óþoskuðum kornökrum bænda í nágrenninu. Mávarnar , a.m.k. nokkrar tegundir þeirra eru ekki á förum og virðast hafa nægt æti í ósnum.

Ívar Snorri sem nýlega festi kaup á bátnum Margréti HU-22 hefur flutt bátinn frá Hvammstanga landleiðina því eins og greint var frá í síðasta pistli þá leist Ívari ekki á að sigla út Miðfjörðin vopnaður þeim siglingatækjum sem báturinn hafði að geyma. Margrét HU-22 er semsagt komin á Blönduós og nú getur Ívar tekið til óspilltra málanna við að gera bátinn klárann fyrir átök næsta sumars. Ekki veit ég hvort hann hyggi á strandveiðar en kunnugir sæfarar segja mér að Ívar verði ætíð hálfnaður á miðin þegar hinn hefðbundni strandveiðibátur mæti honum með leyfilegan hámarksafla á leið í land. Ástæðan er einföld og bláköld, ganghraði. En Ívar Snorri er kominn með bát og vonandi fáum við sem fyrst að heyra notalegt tvígengishljóð berast inn yfir ósinn og smá dofna með aukinni nálægð við miðin.

Eins og kom hér fram fyrr í þessum skrifum þá fækkar ferðamönnum þá líður á haustið. Þetta veit Jónas vert á Ljóninu og mun gistiþjónusta hans taka sér hvíld frá byrjun nóvember fram í byrjun apríl á næsta ári. Sumir hafa af því nokkrar áhyggjur að hann fái fimm mánuði til þess að hugsa upp fleiri aðgerðir gegn hinu opinbera í allra víðasta skilningi þess orðs. Ég veit að hann hefur boðað komu sína í héraðsdóm Vesturlands í næsta mánuði hvort sem mönnum þar líkar betur eða verr. Það verður fróðlegt að sjá hverning varðmenn réttlætis á vesturhelmingi landsins taka þessum gráleita hárprúða manni á hálfgengnum áttræðisaldri.  Kannski bjóða þeir honum í kaffi og kleinur og hlusta á umkvörtunarefni Jónasar sem eru svo mörg að þau komast ekki fyrir í þessum pistli eða afþakka nærveru hans og benda honum í fullri vinsemd á Geirakaffi í Borgarnesi. Þetta á allt eftir að koma í ljós sem og hvenær nýji olíutankurinn undir eldhústrukkinn verður fullsmíðaður og kominn í gagnið. Það eins með smíði olíutanka og  framgang réttlætisins að erfitt er að spá um framvinduna.

Glugginn er kominn út og gat ég þess í síðasta pistli að ég sé hættur að fá hann í einhverju upplagi viku hverja eftir að Ríkið var numið frá mér. Rétt er að geta þess að fyrir viku þá gerði Skarphéðinn (Héddi), faðir Gluggans sérstaka ferð til að afhenda mér eitt eintak. Mér þótti vænt um þetta þó svo eintakið væri bara eitt og við Héddi eyddum sæmilegum tíma í spjall sem náði að spanna nánast allt milli himins og jarðar og jafnvel út fyrir gufuhvolfið. Einn Gluggi þó þunnur sé getur haft drjúg áhrif.


Auk systranna Emmu Karenar og Söru Bjargar Jónsdætra eru á myndinni Þór Jakobsson og eiginkona hans Jóhanna Jóhannesdóttir . Tilefnið var afhjúpun minnisvarða um Sigurð Jónasson frá Eyjólfsstöðum sl. sunnudag.

Og svona í blálokin þá ók hann Rúnar rétt áðan framhjá með hliðarrúðu farþegameginn niðurskrúfaða og lék fyrir alþýðuna taktfastan polka sem Kristófer  mjólkufræðingur og Anna frá Skinnastöðum væru fullsæmd  að fylgja eftir.

23.09.2015 14:16

Það er líkast til líf eftir Ríkið!


Balaskarð í Laxárdal

Nú er nokkuð um liðið  síðan ég setti nokkur orð á blað um lífið og tilveruna hér á Vesturbakkanum og nánasta umhverfi.  Um ástæðuna er erfitt að segja en ég held nú að leti hafi ráðið þar mestu en nokkur fleiri atriði mætti tilgreina eins og brottnám Ríkisins úr mínum húsakynnum og breytingar á atvinnu háttum hjá eiginkonunni. Það má hverjum manni vera ljóst að þegar maður er sviptur aðgengi að fjölda manns á einni nóttu þá hlýtur eitthvað að breytast. Þegar Ríkið hvarf þá hvarf líka gríðarlega stór upplýsingaveita sem var mér oftast til mikilar sáluhjálpar. Sögur af mönnum og málefnum fækkaði mikið og ég sat hálfpartinn eftir í tómarúmi. Vissulega hafa nokkrir góðir menn (konur eru líka menn) kíkt á mig stöku sinnum svona til að kanna sálarástand mitt og hressa upp á það með mis gáfulegum hætti. Og svona til að benda á það hversu alvarlegar afleiðingar fylgdu brotthvarfi Ríkisins þá var hætt að koma með eintök af Glugganum í Aðalgötuna og allt samband mitt við flutningabílstjóra Vörumiðlunar sem komu reglulega með birgðir í vínbúðina rofnaði. Eitt er svo  mikilvægt  að nefna að við hjónin hættum að vinna í sama húsi og fer ég núna einn á bílnum til vinnu og kem heim á bílnum eftir vinnu. Þetta þýddi einfaldlega það að nú er ég hættur að ganga daglega meðfram bökkum Blöndu og fylgjast með tilbrigðum lífríkisins á þeim slóðum. Allir sanngjarnir menn sjá af þessu að soddan breytingar hljóta að hafa einhver áhrif á vanafastann mann á bernskum sjötugsaldri. Líklega segja margir að skrásetjari geti sjálfum sér um kennt og einfaldlega breytt um lífsstíl í samræmi við breytingar. En það er marg sannað að hægara er um að tala en í að komast eða eftir fara.




Aldursforsetinn í Laxárdals hrossasmölun Haukur Pálsson ásamt vinkonu sinn henni Guðlaugu M. Jónsdóttur

Ég ákvað í morgun að líta svolítið í eigin barm og gera smá tilraun til að rífa mig upp á rassgatinu og hverfa aftur til fyrri tíma og segja örlítið frá lífinu í kringum mig.

Jónas vert á Ljóninu er alltaf til staðar og engar verulegar breytingar hafa orðið á honum og hans lífsviðhorfum frá því síðast var hér um hann ritað. Hann berst enn gegn kerfinu og má segja að ekkert sé honum óviðkomandi. Hann hefur bætt Landsvikjun inn á átakasvæði sitt en lítur þá stofnun enn jákvæðum augum og Vegagerðin sem stundum hefur að hans mati verið Þrándur í götu er nú orðin honum vinsamleg þannig að það er nú ekki allt að fara til fjandans. Eldhústrukkurinn sem hann festi kaup á í vetur er honum afar kær þó svo að vatn hafi komist í olíutankinn og hafi  trukkur af  þeim sökum harðneitað að fara í gang. Yfir þetta vandmál komst Jónas í gær sem ég m.a. gat greint af lyktinni af honum þegar hann kom til mín að viðgerð lokinni og nú  malar gamli Bensinn líkt og forðum.


Hallur Hilmarsson bílstjóri að leiða fáka milli beitarhólfa

Eina stórfrétt er líka hægt að segja af Vesturbakkanum en hún er sú að útgerðrmaðurinn bátlausi hann Ívar Snorri hefur fest kaup á bát. Um er að ræða trébát sem staðsettur er á Hvammstanga og ber nafnið Margrét HU-022. Skrokkurinn er smíðaður árið 1974 úr furu og eik, er 4,55 brúttótonn og gengur 5-6 mílur. Það stendur svolítið í Ívari Snorra að sigla honum fyrir Vatnsnesið og til heimahafnar vegna ótta við skerin í Miðfirði. Mér kunnugir sjómenn segja líka að þegar Margréti verði siglt út úr höfninni á Hvammstanga muni fylgja henni allur botngróður í höfninni. En eitt er víst að undanfarnir dagar með smá undantekningum hafa hentað mjög vel til siglinga fyrir skip að þessari stærðargráðu. Eitt er það í þessu máli sem ég er afar hugsi yfir en það er að Ívar ætlar að breyta nafni bátsins og nefna hann Addy II. Hvers á Margét að gjalda.


Margrét HU-022 bíður þess að komast í heimahöfn á Blönduósi

En sólin skín í dag og enn eru nokkrar gæsir á túnum bæjarins. Rúnar vinur minn í Sólheimum keyrir stundum framhjá með sína hressandi harmonikkutóna og gladdi mig um daginn með því að spila hinn eldfjöruga Strekkebukspolka".

Það er líkast til líf eftir Ríkið!  

     Fuglar í ætisleit í ósnum. Það viðrar vel til skipasiglinga í dag

17.06.2015 16:27

Til hamingju Ísland


 Skrúðgangan frá Sölufélaginu í Félagsheimilið fór fram utan dyra. Fyrir göngunni fer Kristján Þorbjörnsson lögreglumaður. Hátíðarhöld fóru friðsamlega fram þó trommur hefðu verið slegnar 

Nú er17. júní um land allt eins og Hafnfirðingurinn sagði forðum og hafði hann mikið til síns máls. Í stuttu máli þá er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga í dag. Í dag fögnum við sjálfstæði þjóðarinnar og menn slíðra sverðin og fagna saman. Það er afar mikilvægt að eiga einn dag á ári þar sem fólk getur sameinast og glaðst saman yfir tiltölulega nýfengnu sjálfstæði. Það er ekki ofílagt að eiga einn dag á ári til þessara hluta því í 364 daga eða svo getum við nært sundurlyndisfjandann og skemmt þeð því föður hans, fjandanum sjálfum. "Til hamingju Ísland" sagði Silvía Nótt á sínum tíma og get ég svo sannarlega tekið undir orð hennar.

Það var eins og við manninn mælt að þegar nýtt tungl kviknaði í gær í hásuðri þá fór hann að blása úr suðri og senda okkur yl sem svo sárlega hefur vantað. Gróðurinn hreinlega drekkur hann í sig og laufin ryðjast úr brumum sínum og grasið æðir upp úr jörðinni. En þrátt fyrir þessa gróskumiklu náttúrulýsingu hér að framan þá flykktust þjóðhátíðargestir á Blönduósi inn í Félagsheimilið í skjól undan logni, skýjuðum himni og 14 gráðu hita. Skipuleggjendur hátíðarhalda tóku ekki þá áhættu að hann myndi hanga þurr meðan presturinn, Fjallkonan og Bæjarstjórinn fluttu mál sitt að ógleymdum ballethópi ungra meyja sem sýndi dans af mikilli innlifun. Ef ég á að vera hreinskilinn þá fannst mér þessi ráðagerð að flytja hátíðarhöldin inn ekki vera sérlega vel til fundna og minnist þess ekki að slíkt hafi gerst áður en það kann þó að vera. Mig rekur minni til að það hafi áður rignt á hátíðargesti án þess að þeir hafi hlotið mikinn skaða af. En sem betur fer var skrúðgangan utandyra og var ekki annað að sjá en að göngumenn væru nokkuð glaðir bragði og meira að segja nokkrir höfðu á orði hve veðrið væri einstaklega gott og hentugt til hátíðarhalda.


Þjóðhátíðargestir á Blönduósi gengu beint inn í Félagsheimilið úr blíðunni

Ferðasumarið er komið í fullan gang í gamla bænum er og ekki annað að sjá en það fari ágætlega af stað. Vertinn á Ljóninu hann Jónas virðist samt ekki láta þær annir trufla sig verulega því hann auglýsti á dögunum í Morgunblaðinu eftir löglærðum manni (konur eru líka menn) sem helst má ekki vinna á lögmannstofu en hafa málflutningréttindi. Er skemmst frá því að segja að 7 lögfróðir menn höfðu við hann samband til að kanna hvað fyrir Jónasi liggi. Í stuttu máli þá eru það bæjaryfirvöld, lögreglan á Blönduósi, sýlumaður á sama stað, byggingafulltrúar, innaríkisráðuneyti, umboðsmaður, Alþingis, nokkrir lögfræðingar svo eitthvað sé nefnt sem hann ætlar að lögsækja. Þetta mikið verkefni sem bíður þess sem tekur að sér verkið fyrir Jónas vert. 


Vegna fjölda áskoranna þá birti ég hér með mynd af þjónustubifreið Jónasar á Ljóninu

Ég hitti einn þjóðhátíðargest utandyra  og sagði hann mér í óspurðum fréttum að eitthvað væri að gerast í sjónum því hann hefði séð nokkra seli á sundi við ós Blöndu og krían var önnum kafin í ætisleit rétt við ströndina. Til fróðleiks er rétt að geta þess að mun minna hefur verið af sel og hvölum fyrir botni Húnafjarðar undanfarin ár og eru því þessar fréttir sannarlega gleðilegar. 

13.05.2015 14:23

krían komin og vorið öslar áfram


Krían er komin í ósinn og eru það ávallt gleðitíðindi. Og krían kom með ríflegt vor í farteskinu. Þögnin við ósinn er rofin  með komu þessa langförula fugls. Ég hef verið að skyggnast eftir þessum fugli undanfarna daga og sýndist ég sjá eina kríu á flugi í fyrradag en get ekki fullyrt það með vissu en í dag er vafinn enginn. Einnig sá ég spóa og heyrði í hrossagauk í suðaustri svo varla verður á betra kosið. Í stuttu máli þá hefur norðanáttin með sinn kalda andardrátt vikið um stundarsakir.


Það er ýmislegt um að vera á Vesturbakkanum þessa dagana. Svo ég nefni eitthvað þá hafa verið sett upp skilti og þau numin á brott í skjóli nætur en hafa nú verið endurheimt á lögreglustöðinni á Blönduósi. Þessi atburðarás í skiltamálinu mikla varð til þess að það rifjaðist upp gamalt spakmæli sem ég man ekkert hvar ég heyrði en hljóðar einhvern veginn svona: "Mælikvarði á velgengni er ekki hvernig þér gengur að glíma við erfið vandamál, heldur hvort það eru sömu vandamálin og í fyrra".


 Straumendur á hraðferð frá hafi upp Blöndu

Ívar Snorri ætlar að reisa upp  vegg til varnar ferðamönnum sem eiga það til gægjast inn um glugga hjá honum á leið sinni í leit að hafinu og stundum Kiljunni (gistihús í nágreninu). Það hefur komið fyrir að sögn Ívars að ferðamenn hafi komið inn til hans með GPS tæki í höndum og spurt á misgóðri ensku, Kiljan? Svo virðist vera að hnitin fyrir Kiljuna hafi ratað svona um það bil 20 - 30 metrum norðan við tilsettan stað. Hún er mögnuð þessi tækni en aumingja Ívar Snorri virðist vera orðinn fórnarlamb hennar og neyðist núna til að reisa varnagarð neðan við íbúðarhús sitt á sjávarkambinum fyrir neðan Kiljuna.


Ívar Snorri ásamt öðrum varðhunda sinna

Gluggin er kominn á helstu dreifingarstaði í bænum og varð ég mér úti um eitt eintak í apótekinu í morgun. Á forsíðu er sagt frá væntanlegu landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið verður á Blönduósi dagana 26. - 28. júní. Jafnframt er óskað eftir aðila til að sjá um veitingar á meðan mótinu stendur. Meðal grasa í Glugganum eru stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu og ennfremur að kartöflugarðarnir í Selvík verð brátt tilbúnir að taka á móti útsæðinu. Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd á Gluggavísu vikunnar og þakkar gengnum fyrir fjölmargt og endar með þessu: "Undir jörð er margt sem mér/ mesta elsku hefur sýnt".


Hreinsað til í Blönduósnum

06.05.2015 16:18

Ég asnaðist þetta nú bara að gamni mínu".


Sílamávur og straumendur við Kastionsklöpp í Blöndu

Þurr, bjartur, kaldur og norðaustanstæður eru þau orð sem eiga við dagana sem líða hjá einn af öðrum. Einhver hafði á orði að þetta væri ósköp eðlilegt því í allan vetur hafi vindur staðið af suðvesti og það eru takmörk fyrir því hversu miklu magni af vindi norðrið getur tekið við. Nú sé mælirinn einfaldlega fullur og norðið sendir allan hinn uppsafnaða vind til föðurhúsanna í suðri og þessvegna er þetta eins og það er.


Æðarfuglinn hugar senn að hreiðurgerð

Gulur er litur kaffihúsanna á Blönduósi. Þessa dagana er Bláa húsið að fá gulan lit alveg eins og kaffihús Ljóns norðurins.  Bláa húsið sem einu sinni hét "Við árbakkann" hefur nú fengið nýtt nafn og heitir nú "Ömmukafi" og eru þær stöllur Birna Fúsa og Bryndís Sig við það að opna staðinn fyrir gestum og gangandi. Ef þær jafna við þau Erlu og Mumma sem ráku staðinn á sínum tíma í þjónustu og veitingum á hóflegu verði verður enginn svikinn.


Gula húsið á Blönduósi sem heitir núna Ömmukaffi og verður brátt opið gestum

Það er þessi guli litur sem ég velti aðeins vöngum yfir því þessi guli litur er aðalsmerki Ljónsins  líkt og "Stál og hnífur"  er merki farandsverkamanna. Það verður gaman að heyra viðbrögð Jónasar Skafta hvernig hann lítur á þetta. Lítur hann á þetta að hann sé leiðandi litahönnuður veitingahúsa á staðnum eða hvort hér hafi hugmynd verið rænt. Þegar ég velti vöngum aðeins betur í þessu máli þá rekur mig minni til að Jónas hafi lokið upp lofsorði á framtak þeirra Birnu og Bryndísar þannig að litur sólarinnar verður vonandi grunnur að uppgangi ferðaþjónustu á svæðinu. Svona til gamans í framhaldi af framanrituðum þankagangi  þá gaf Girðir Elíasson út árið 2000, smásagnasafn sem ber heitið "Gula húsið"  Þetta verk Gyrðis geymir safn fjölbreyttra og einkar vel skrifaðra smásagna segir í umsögn Forlagsins . "Í sumum sagnanna renna saman draumur og veruleiki með áhrifamiklum hætti, þannig að allt virðist mögulegt, og í öðrum vinnur höfundur eftirminnilega úr íslenskri þjóðtrú. Á stundum vekja smásögurnar óhugnað með lesandanum, en aðrar einkennast af lágstemmdri kímni".


Þessi mynd hæfir því sem fyrir neðan stendur

Það er  af mér að frétta í "einsemdinni" á Vesturbakkanum að ég lifi en þolanlegu lífi og þakka ég það traustum vinum sem líta til með mér og segja mér helstu tíðindi. Til dæmis frétti ég í morgun en því miður ekki eftir traustustu heimildum að Erlendur F. Magnússon væri búinn að selja húsið sitt einhverjum fyrir sunnan og þeir hyggðust  breyta húsinu í gistihús. Ég segi nú bara eins og Jón í Gautsdal sagði fyrir skömmu þegar hann fór í afmælihóf sem haldið var í Héraðshælinu fyrir skömmu. "Ég asnaðist þetta nú bara að gamni mínu".

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 686
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 54852
Samtals gestir: 10162
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 08:57:47