Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2015 Nóvember

25.11.2015 14:07

vöngum velt á Katrínarmessu


Enn dregur úr dagsbirtunni en máninn sendir alla þá birtu sem hann getur á okkur jarðarbúa í dag enda er hann fullur. Þessi 25. dagur nóvember mánaðar, Katrínarmessa er hægur og vindur berst okkur úr austri á hraðanum 1 metri á sekúndu. Frostið fer minnkandi með hverri klukkustund sem líður og orðið frostlaust um hádegið. Sem sagt, það er vart hægt að biðja um betri dag í byrjun Ýlis. Hrafnarnir eru áberandi þessa dagana og dvelja oft á ljósastaurum bæjarins og vaka yfir hverjum bita sem til fellur. Það er svolítið sérstakt að hrafnar eru mjög þaulsætnir á ljósastaurum við heimili forseta bæjarstjórnar Valgarðs Hilmarssonar svona eins og þar séu mestar líkur á að eitthvað falli til.

Það er orðið langt síðan ég hef heyrt frá Erlendi G. Eysteinssyni  frá Stóru-Giljá a.m.k. hvað kveðskap varðar. Á þennan kveðskap rakst ég á í nýjasta Glugga (aulýsingablað í A-Hún) Erlendur hafði smá formála að þessari ljóðagerð en það sem hér kemur er bein tilvísun í Erlend:"Ég var með Helgu [konu sinni] að versla í (SAH) Kjarnafæði til sláturgerðar 5. október 2015. Þar afgreiddi okkur falleg stúlka Rakel frá Svalbarðseyri. Ég hugsaði þannig, leit til hennar og gekk út.

Sullumbull og SAH

selt var Kjarnafæði.

Stjórendurnir ekkert sjá,

engin ljós sem græði.

 

Við Eyjafjörðinn austanverðann

eygja dömur eldfim ljós,

yfir fjörðinn fagurgjörðann

um fjöll og dali á Blönduós"

Erlendur er ekki dauður úr öllum æðum eins og glögglega má lesa út úr ljóðinu.


         Jónas á Ljóninu er eins og þeir vita sem þessi skrif lesa í leigubílaharki á höfuðborgarsvæðinu og er hann hugsi yfir nýjustu fréttum úr héraði.  Tíu milljónir króna í bíódísilframleiðslu á Blönduósi og áætlun að mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers við Hafursstaði í Skagabyggð liggur nú fyrir.   "Ef ekkert óvænt gerist tilkynnum við með vorinu að bygging álversins verði að veruleika," segir Ingvar Unnsteinn Skúlason, framkvæmdastjóri Klappa Development ehf. Ég er ekki frá því að fleiri en Jónas séu hugsi yfir þessu öllu saman og er ég nokkuð viss um að tekist verði á um þessi má og þá sérstaklega álver á hafurstöðum. Kannski að Blönduvirkjunarátaka "blætið" taki sig upp aftur og dagar undirskriftasafnanna gangi aftur í garð, hver veit.

         4. "Hugmynd að styrkumsókn til Minjaverndar vegna gamla bæjarins á Blönduósi - 1511028 Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkir að sækja um styrk til Minjastofnunar Íslands um framlag frá Húsafriðunarsjóði vegna skipulagsvinnu í elsta hluta byggðar Blönduósbæjar. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og byggingarfulltrúa að vinna styrkumsókn í samráði við Guðrúnu Jónsdóttir arkitekt." Afgreiðsla samþykkt með 7 atkvæðum. Svona hljóðaði fjórði dagskrárliður á fundi bæjarstjórnar Blönduóss sem haldinn var 18. þessa mánaðar. Þetta er málefni sem ætti að hressa okkur við sem hagsmuna höfum að gæta í gamla bænum. Guð láti gott á vita.


         Eins og áður hefur komið fram þá er Katrínarmessa í dag og því tilvalið að rifja upp það sem ég ritaði í pistil fyrir nákvæmlega 6 árum: "Messa til minningar um Katrínu píslarvott frá Alexandríu er haldin í dag þó ekki hér á Blönduósi. Margar sögur eru til um hana, en engar áreiðanlegar og óvíst hvort hún hefur verið til en það skiptir í sjálfu sér engu máli heldur það að sögur eru til um hana. Sem sagt Katrínarmessa er í dag 25 nóvember. Katrín þessi  var frá Alexandríu. Sagt er að Katrín hafði neitað að giftast Rómarkeisara því hún væri brúður Krists. Hún lagði svo fjörutíu heimsspekinga að velli í rökræðum um kristindóminn. Katrín var síðan sett í fangelsi eða dýflissu eins og það er stundum kallað. Dúfa kom á hverjum degi og færði henni mat. Katrín var síðan líflátin á hroðalegan hátt sem ég segi ekki frá því þetta er síða fyrir alla fjölskylduna. Svona geta miðvikudagar byrjað án þess að nokkuð sérstakt hafi gerst annað en maður vaknar les Moggann og rýnir örlítið í almanak Háskóla Íslands". Ofanritaður texti á að mér sýnist vel við í dag því þetta er líka  alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi til minningar um Mirabal-systurnar sem voru myrtar í Dóminíska lýðveldinu af útsendurum einræðisherrans Rafael Leónidas Trujillo. Svo mörg voru þau orð.

18.11.2015 15:19

Jesus og Jónas


Kvennaskólinn og Heimilisiðnaðarsafnið sóma sér vel á Blöndubakka og Blanda meðan sjávar leitar

Veturinn er loksins farinn að sýna sig og það í fjórðu viku vetrar eftir einstaklega gott haust. Frostið er mætt en þó er það hófstillt enn sem komið er og snjórinn fellur á fjöllum hjá útilegumönnum og tröllum. Þetta er 322. dagur ársins og eftir lifa 43 dagar og rétt mánuður þangað til sól fer að hækka á himni. Tunglið sem kviknaði fyrir viku í suðvestri hefur lifað fjórðung sinn Tíminn æðir semsagt áfram líkt og hann hefur gert gegn um tíðina og á vonandi eftir að gera enn um langan aldur.



Brúnblesi í stóískri ró við grátandi girðingu

Það eru svo sem ekki mikil tíðindi sem hægt er að segja frá á þessum degi og einhvern tímann var það sagt að engar fréttir væru góðar fréttir. En hvað er frétt? Svar við þessari spurningu er ekki einföld og sjálfsagt til við henni mörg svör og væri kannski affarasælast að svara bara eins og maðurinn gerði forðum þegar hann var beðinn um að skilgreina klám. " Þetta er loðið og teygjanlegt hugtak" og lét það svar duga og ætla ég líka að láta það duga.

Jesus var ánægður með að gististaður Jónasar verts á Ljóninu væri staðsettur á leiðinni norður,  eða eins og hann ritaði á Booking.com "Location. On the way to the north". Óþarfi er að tíunda það sem Jesus fann að Blöndubóli en megin málið er að hann gaf Jónasi 5 í einkunn, einkunn sem er fyrir ofan fall en ekki langt. Svo því sé haldið til haga þá er umræddur Jesus frá Spáni og er bara bjáni samkvæmt skilgreiningu Jónasar. En Jónas er farinn suður í Laugardalinn með trukkinn sinn og bláa leigubílinn með öllum matarauglýsingunum. Hann er farinn í "leigubílaharkið" og hann sagði í óspurðum fréttum "Það er ekkert að gera" og bætti við að það gerði ekkert til því þá gæfist meiri tími í að sinna hugðarefnunum. Sem dæmi þá er hann búinn að heimsækja Innanríkisráðuneytið og hitta þar nokkra málsmetandi menn og rætt við þá í gegnum gler um ranglæti heimsins. Rétt er að geta þess í þessari málsgrein að Sóla, langferðabifreið Jónasar er að öllum líkindum að hverfa úr eigu hans og flytjast í Bárðardalinn. Það verður sjónarsviptir af Sólu og er ég viss um að gangnamenn á Auðkúluheiði eiga eftir að sakna hennar.


Sóla séð að aftan hvar sjá má Jónas á Ljóninu arka niður Almannagjá með afastelpurnar sínar

Það er fábrotnara lífið hér í gamla bænum eftir að Ríkið fór en þess ber þó að geta að Margrét HU 22 hefur komið í "staðinn" og er staðsett norðaustur undir vegg hjá Ívari Snorra og bíður frekari aðhlynningar. Fyrst minnst er á "skip" þá er rétt að geta þess að Jóhannes Þórðarson (frá Sauðanesi og fékk snemma á sig viðurnefnið "sauður" vegna upprunans) hefur "selt" Jakann sinn til Akureyrar en síðast þegar ég vissi var hann ekki enn farinn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Jaki bátur sem lengi var í eigu Jóa Þórðar og um margt líkur áður nefndri Margréti. Jakinn var og er ekki búinn flóknum siglingatækjum en það var eins og báturinn væri með sál eða eðlisávísum sem kom honum ætíð til heimahafnar þrátt fyrir afleitt skyggni.


Við botn Húnafjarðar með hinar óviðjafnanlegu Strandir í baksýn

Það væri óviðeigandi að nefna það ekki hér að í dag er þjóðhátíðardagur Oman. Þetta ríki er í mynni Persaflóa og ekki langt frá heimsins vígaslóð og þar ríkir soldáninn Qaboos bin Said al Said sem einmitt á afmæli í dag.  

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 79
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 63926
Samtals gestir: 11345
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 01:49:02