Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2007 Desember

28.12.2007 19:39

Að vera til staðar

    Að vera til staðar er mikilvægt! Að vera mikilvægur en ekki til staðar er eitthvað annað og að öllum líkindum mikilvægt því það skapar eftirvæntingu. Hver er munurinn? Er þessi vangavelta bara orðin tóm, svona hjal út í jólanóttina. Menn geta tengt þetta á ýmsa vegu en mig langar að tjá þetta frá mínum sjónarhóli með þremur myndum. Ég get fullvissað ykkur um að þessi fullyrðing sem að framan greinir á sér svo margar myndir að ógjörningur er að koma á þær tölu.

Skoðum fyrst þessa mynd sem sýnir Bjarna Páls vera að ryðja snjó af Aðalgötunni. Hann Bjarni hefði getað flutt suður í uppgripin sem þar eru en hann er enn að störfum meðal okkar bæjar- og sýslubúa og lætur sér þau auðæfi nægja. Hann er til staðar þegar á þarf að halda.

Tökum annað dæmi; það snjóar á þjóðvegina og færðin spillist. Við verðum smá framan við máttarvöldin. Snjóplógur birtist og leiðin verður greið. Þeir eru til staðar fyrir okkur Vegagerðarmenn á Íslandi.

Þriðja dæmið sem mætti nefna er það að flestir fuglar fara til suðlægari landa til að komast af og skila sér aftur að vori öllum til ómældrar gleði. Örfáir fuglar kjósa að halda kyrru fyrir og takast á við íslenskan vetur. Þessir fuglar eru til staðar þegar þú á köldum vetrardegi lítur til himins.

Niðurstaðan er þessi: Allir verða að vera til staðar, einhversstaðar en hvar, það veit enginn og að öllum líkindum, fæst aldrei við því svar en áramótin eru til staðar ár hvert og þau eru ávallt upphaf nýrra tíma og vona. Mig langar hrikalega að enda þetta með orðunum " Hittumst í Staðarskála" en læt það vera. En engu að síður. Gleðilegt ár og verum til staðar á nýju ári.

19.12.2007 16:16

Galnir kallar og gleðileg jól

    Jóla- og veðurkortin hafa verið nokkuð stór þáttur í jólaföstunni. Við Magga höfum það fyrir sið að senda nokkrum vinum og kunningjum jólakveðjur og biðja þau á pósthúsinu að koma þeim til skila gegn vægu gjaldi. Það kveikir alltaf upp allskonar minningar þegar maður les yfir jólakortin frá í fyrra til að sjá hverjum maður eigi að senda. Þó að þetta sé svolítil " rútína" þá fer maður að rifja upp sitthvað um þann sem maður er að fara að senda jólakort. " Heyrðu Magga! Hvaða póstnúmer er í Mosfellsbænum hjá þeim ...i og ....u. Eru þau örugglega enn í sambúð? Var ekki eitthvað vesen á elsta stráknum; tapaði hann ekki eitthvað í FL Group?" Svona veltir maður vöngum yfir hverjum og einum sem kveðjuna eiga að fá. Jafnframt veit maður að þeir sem senda manni kort hafa munað efir manni þó ekki sé nema örskotsstund en það er mikilvægt.
    
Jæja núna er Glugginn kominn og Rúnar með. Hann hefur heldur betur gildnað þ.e.a.s. Glugginn og stafar það fyrst og fremst af jólakveðjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þær eru athyglisverðar auglýsingarnar frá séra Fjölni á Skagaströnd þar sem hann markaðssetur sveitakirkjunar á hlýlegan og lifandi hátt. Það vekur óneitanlega athygli þegar séra Fjölnir skráir í auglýsingu um gamlársdagsmessu í Bergsstaðakirkju: "Nú árið er liðið í aldanna skaut og hvað er framundan? Guð einn veit það, en kannski að presturinn hafi einhverjar hugmyndir." Ég held að menn ( konur eru líka menn) ættu að fjölmenna í Bergstaði og heyra hvaða hugmyndir þeir feðgar hafa um framtíðina. 
    Anna Árnadóttir kveður dýrt í vísu vikunnar. Þegar maður sér svona fallega framsett orð í bundnu máli þá langar mann líka: Bjöllum öllum hringjum hátt./ Höllum trölla' upp ljúkum. /Sköllum höllum sæng´ á brátt. /Söllum mjöll á Hnjúkum.
    
Reyndar var þessi dagur frekar annasamur þannig að við Rúnar náðum ekki að lesa allan Gluggann almennilega yfir því margir komu í hornið til okkar. Má þar nefna, Helga stórsmið Gunnarsson á Skagaströnd og Hafþór Stíganda Sigurðsson stórskáld frá Hafursstöðum. Einnig rak hér inn nefið Vilhjálmur Stefánsson "politibetjent". Af þessum körlum höfðum við Rúnar misjafnt gagn en það er fyrir mestu að ekki hlaust af þeim tjón. Rúnar gat meira að segja gert sér mat úr þessu og orti:

Hafþór bæði og Helgi hér,
halda innreið nú í dag.
Alltaf Jón hér unir sér
við englasöng og jólalag.

    Það er rétt að geta þess að undurljúfir jólasálmar ómuðu undir á samverustundinni.

    Við Magnús Rúnar Agnarsson höfum safnast saman í kringum Gluggann á miðvikudögum undangengið ár og rýnt í auglýsingar, tilkynningar og vísu vikunnar og reynt að greina taktinn í sýslusálinni. Það er okkar mat að sýslusálin hafi verið svona á misjöfnum nótum eins og gengur og gerist í flestra sálum. En svona í heildina séð þá hefur hún (sýslusálin) bara haft það nokkuð gott. Nokkrir hafa rekist inn í Aðalgötuhornið meðan vangaveltur hafa átt sér stað eða verið þar fyrir þegar Gluggapósturinn kom. Þeir hafa undantekningalítið verið nýttir sem álitsgjafar eða bragbætingar og fyrir það viljum við þakka. Að lokum þetta:

Þeir sem hafa af gölnum köllum gaman,
góðar kveðjur fá með gleði tári.
Guð gefi ykkur vinir, öllum saman.
Gleðileg jól og farsæld á nýju ári.



14.12.2007 10:59

Mynd frá Blönduósi

    Jólagjafir E-listans er grein eftir Ágúst Þór sem birtist á Húnahorninu. Það sem vakti athygli mína var að með þessari grein fylgdi mynd eftir Jón nokkurn Sig hvar undir stóð "falleg mynd frá Blönduósi."


    
    Ég fór að velta ýmsu fyrir mér. Í fyrsta lagi : Er greinin á þann veg að hún dragi upp slæma mynd af Blönduósi þannig að myndin sé svona einhvers konar mótvægisaðgerð. 
    Í öðru lagi fór ég að velta fyrir mér myndatextanum svona einum og sér og gersamlega óháð skrifunum sem myndinni fylgdu. "Falleg mynd frá Blönduósi". Á þessum vandlifuðu tímum þegar lítið má hafa í frammi án þess að valda einhverjum pínu og kvöl saman ber " bleikt og blátt" "herra" og "Guð minn almáttugur" svo eitthvað sé nefnt, verður maður að gæta sín. Ég hefði lagt til að þeir Húnahornsmenn hefðu látið myndtextann " mynd frá Blönduósi" eða bara " mynd" duga og láta svo alþýðunni eftir að bæta við lýsingarorðum í huganum allt eftir femínískri, trúarlegri, pólitískri, andlegu eða bara einhverri skoðun sinni. Alls ekki segja neitt upphátt því það gæti stuðað einhvern. 
    Ef maður skoðar myndina og les yfir greinina þá gætu hugrenningartengslin orðið eitthvað á þessa leið. " Vissi ég ekki! Þeir kumpánar hafa lagt saman og þrá það heitast að gera bæinn bláan", eða þaðan af eitthvað verra. 
    En hvað sem öðru líður þá var myndin tekin algjörlega kynlaust þótt hún sé svolítið blá og hún hefur enga klámtengingu í huga höfundar þrátt fyrir litbrigðin. Einnig er rétt að geta þess að þrátt fyrir að sjáist í bláan himinn þá hefur þessi mynd heldur ekkert með Himnaföðurinn að gera þannig að þið sem á annað borð hafið tekið eftir myndinni getið skoðað hana án nokkurar hættu.     
    En ykkur að segja í trúnaði finnst mér myndin guðdómlega falleg með mildu karlmannlegu ívafi, hárfínu jafnvægi milli himins, láðs og lagar og stærsti kostur hennar er að ekki ein einasta mannskepna sést á henni. Þetta sjónarhorn er Guðsgjöf!

12.12.2007 15:24

Allt með kyrrum kjörum

    Ég var stoppaður um daginn af Blönduóslöggunni fyrir utan bankann og beðinn um að anda. Mér var hugsað til Halldóru Björnsdóttur en það er konan með morgunleikfimina í útvarpinu " Færum beinan hægri fótinn vel aftur og rólega til baka og hristum svo kálfana. Við slöppum af og hristum vinstri handlegginn og síðan öndum við að okkur og rólega frá okkur" Þarna kom það sér vel að hafa hlustað á Halldóru í gegn um tíðina. Þegar Kristmundur einkennisklæddur veifaði löggubláu luktinni sinni fyrir framan mig akandi norður Húnabrautina brá mér ögn. Ég var nefnilega að koma af barnum hjá honum Mumma og búinn að drekka þónokkuð af öli þ.e.a.s. jólaöli. Reyndar fékk ég með ölinu, graflax, nautatungur og annað smálegt góðgæti. " Viltu anda fyrir mig" sagði Kristmundur prúðmannlega. Ég greip andan á lofti og gleymdi Halldóru augnabliksstund en mundi svo allt einu eftir henni og andaði frá mér beint framan í Kristmund. Það glaðnaði yfir pilti og tjáði hann mér að út úr mér streymdi bara ómengaður jólaandi og ég mætti halda áfram ótrauður á vit föstudagskvöldsins. Þegar ég var að hugsa um þetta núna rétt í þessu rifjaðist upp fyrir mér vísa eftir Sigrúnu Harldsdóttur sem mun vera ættuð úr okkar ágætu sýslu:

Vökul, röggsöm, vakir glögg,
veldur skröggum kvíða.
Blönduóslöggan býsna snögg
bregður flöggum víða.

    Þetta undirstrikar í það minnsta hjá mér að rétt er að fara um sitt samfélag með aðgát og tillitssemi og þá einkum og sér í lagi í svartasta skammdeginu og gott til þess að vita að Blönduóslöggan bregði flöggum víða.

    Magga er búin að ljósaskreyta heimili okkar að utan og er ég afar stoltur af henni fyrir framtakið. Það hefur verið afar notalegt að vita af henni í garðinum allt í kringum húsið meðan ég hef getað horft með öryggi og ánægju á Liverpool leggja Marsei ( skrifað eitthvað öðruvísi) að velli með fjórum mörkum gegn engu. Svona leikir lýsa upp húsið að innan en Magga lýsir það upp að utan og saman lýsir þetta upp sálartetrið.

    Allt er með kyrrum kjörum á Aðalgötunni þessa dagana. Reyndar eru Lára og Árni flutt úr götunni og búin að koma sér fyrir í nýju húsi fyrir utan á. Ég sakna þeirra því það var notalegt að sjá til þeirra þegar þau óku hjá á Subaróinum sínum. Stundum rak Árni inn nefið og kíkti á mig í horninu mínu, sagði sögur og skellti upp úr á sinn einstæða hátt. Þeir félagar Stefán Hermannsson og Jón Sigurðsson hundur eru á sínum stað og Helgi Braga er bara nokkuð brattur þó svo að á hann hafi ráðist ruslatunna í vindganginum í fyrrinótt.

Horfðu á nafna þinn segir Stefán með stóískri ró.

    Ég hef alltaf gleymt að spyrja hvaða hlutverki gamla bakaríð eigi að gegna í
framtíðinni. Að minnsta kosti tvær bifreiðar eru komnar í hús og eitt hjólhýsi. Flestir ef ekki allir verkamenn Kráks eru horfnir frá breytingavinnu þannig að ég verð hreinlega að spyrja Lárus sjálfan hvað sé í pípunum. Og síðast en ekki síst þá eru allar innréttingar kyrrar á sínum stað hjá ÁTVR.

    Núna er maður farinn að kannast við Gluggann, Krákur farinn að auglýsa. Það er gleðilegt að sjá Gluggann gildna því það þýðir einfaldlega að það er eitthvað að gerast. Það er boðið upp á jólatré í skógi og innanhúss, jólatónleika og möndlugraut og hrossaeigendur eiga að vera búnir að fjarlægja hrossin sín úr kúagirðingunni fyrir 16. des. Potturinn og pannan er farin að örva bragðlauka fólks og búa það undir skötuna á Þorláksmessu. Vísa vikunnar er á sínum stað og segir okkur frá því að saman geta gengið lífsins veg þeir Megas og herra Sigurbjörn Einarsson með íslenskuna að vopni. Við Rúnar erum farnir að auglýsa eftir því hvort ekki finnist í sýslunni maður ( konur eru líka menn) sem getur ort eitthvað sem kveikir líflegar umræður í samfélaginu. Manni dettur alltaf í hug kveðskapurinn hans Valla heitins Ásgeirs. Vísur sem frá honum komu voru svo dæmalaust hugmyndaríkar og góð undirstaða fyrir frekari umræður og vangaveltur.

    Úr höfðum okkar Rúnars detta nú allar lýs og það dauðar. Birtist ekki dyrunum hjá okkur sendiherra Bótu í Danmörku hann Siggi Davíðs. Siggi fylgdist með gjörðum okkar í nokkurn tíma og yfirgaf okkur þegar hann taldi það víst að við færum ekki fram úr okkur. En það er engu að treysta í þessum málum og Rúnar gaukaði að mér vísu sem hann lærði af Hávarði á sínum tíma og gæti alveg átt heima á þessum stað og Rúnari fannst vísan vera svolítið í anda vísu Sigrúnar hér á undan:

Nú stormur hvass um hugann fer,
hérna skass eitt komið er.
Hrefna rassinn rétti að mér
og reyndi að passa hitt á sér.

    Líta ber á vísuna sem bragfræði fyrir byrjendur á öllum aldri en ekki neinar meiningar út í bæ. Rúnar var örlítuð smeykur við það að láta þessu vísu fjúka svona út í loftið og lét fylgja með sem mótvægisaðgerð, hlýlega vísu til Hrefnu sem hann orti fyrir margt löngu:

Þegar að Kiddi byggði bú,
brátt kom það á daginn.
Að þegar hann gerði þessa frú,
þá var hann býsna laginn

    Við Rúnar auglýsum hér með eftir brag- Hávum og -Völlum svo heimurinn verði örlítið léttari yfirferðar og endilega farið varlega í skammdeginu.

PS Eftir að ég birti þessa færslu kom á daginn að Lára og Árni eru enn á Aðalgötunni en þau eru næstum því flutt og ég sakna þeirra samt
js

05.12.2007 16:06

Bankabók lífsins og beri blómálfurinn

    "Lesskilningur nemenda á Norðurlandi vestra er marktækt betri en lesskilningur nemenda á Vesturlandi, Suðurnesjum og á Austurlandi. Það er áberandi að meðallesskilningur nemenda á Norðurlandi árið 2006 er 500 stig sem er meðaltal OECD, á meðan meðallesskilningur nemenda í öðrum landshlutum er fyrir neðan það. Munur á meðalfærni nemenda í stærðfræði eftir landshlutum er á sömu leið og munur á lesskilningi. Nemendur á Norðurlandi vestra og eystra standa sig best í stærðfræði, marktækt betur en nemendur í Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur, á Suðurlandi, Austurlandi og Suðurnesjum. Munurinn er 14-38 stig eftir landshlutum. Í náttúrufræði er meðalfærni nemenda marktækt betri á Norðurlandi vestra en í öðrum landshlutum, fyrir utan Norðurland eystra og Vestfirði." Þetta sem hér er á undan ritað er tekið beint upp úr svokallaðri Pisa skýrslu sem er námsmatsskýrsla þar sem borin eru saman mörg lönd sem og margir landshlutar. Í veraldarauðs samanburðarskýrslunni erum við á Norðurlandi vestra í neðsta sætinu en í andlegu skýrslunni erum við í því efsta, í landi sem trónir á veraldartoppnum hvar best er að búa. Það sannast hið fornkveða að ekki fara alltaf saman gæfa og gjörvileiki. Þetta minnir mig á það sem Kristján Sigurjónsson ágætur vinur minn sagði við mig á dögunum. " Það er ekki aðalatriði hvað mikið er inni á bankabókinni því það er bankabók lífsins sem er verðmætust". Við vorum nokkuð sammála um að inná síðarnefndu bankabókina geta allir lagt án þess að þurfa að muna allskonar aðgangsorð því lykilorðið inná þessa bók er aðeins eitt. "Allt sem að þú vilt að aðrir gjöri þér það skulið þér og þeim gjöra". Kristján hitti þarna naglann á höfuðið. Svo er líka hægt að taka út úr þessari bók og hafa allir frjálsan aðgang að henni. Hér með gefst öllum tækifæri að leggja inn á bankabók lífsins. Bankabók lífsins er í boði Gleðibankans.

    Jæja góðir lesendur!, birtist ekki Gluggapósturinn sjálfur í allri sinni mynd og var einhver órói í honum. Ég gekk á hann hvers vegna hann væri allur svona kvikur og tímalítill. Rúnar svaraði að bragði:

Ég kátur kem með Gluggann hér
sem kannski er engin mæða.
Þá birtist blómálfurinn ber
við Birnu Sól að ræða.

    Eftir þessa vísu skildi ég strax hvernig málum var háttað. Rúnar var að koma úr blómabúðinni og orðið fyrir einhverri opinberun við það að sjá Hrafnihildi og Birnu Lúkasar. Reyndar hringdi Rúnar löngu seinna og ræddi það við mig hvort ekki væri rétt að skipta út ber og setja í staðinn mér. Ég sagði Rúnari að hann væri allt of seinn með þessa tillögu og auk þess væri hún ekki eins upplýsandi og því ekki til bóta.

    Gluggarýnin í dag verður svona í styttri kantinum en það vekur samt athygli þetta mikla framboð af meindýraeyðum . Einnig vekur athygli það sem ekki kemur í Glugganum. Til dæmis sakna ég svolítið að sjá ekki WC auglýsinguna frá Hvöt. Eins er það afar athyglisvert að engin húseign er auglýst til sölu. Gæti það stafað af því að Stefán hrl. og gsm Magnús séu að reyna að finna starfsheiti á Ólöfu og Óla Blómkvist eða það að gsm Magnús selji orði Kráki húseignirnar þráðlaust. Þið takið eftir því að það er ekki ein einasta auglýsing frá Krák í þessum Glugga. Kvenfélagskonur hafa staðfest það endanlega að þorrablótið verði haldið laugardaginn 26. jan 2008. Rúnar Kristjánsson er með vísu vikunnar að þessu sinni og er þess fullviss að upp sé að koma aðalsstétt í þessu landi. Vel má vera að Rúnar hafi rétt fyrir sér en mér sýnast "útlitin dimm" hjá Hannesi Smárasyni. Kannski að niðurstaðan í pistli þessum verði eitthvað á þessa leið: Við erum fátæk í veraldlegu tilliti en bærilega læs á náttúruna og lífið. Munið að leggja inn í Gleðibankann. 
    
    Og síðast en ekki síst þá á sonardóttir mín hún Margrét Einarsdóttir 7 ára afmæli í dag og að sjálfsögðu fær hún blíðustu afmæliskveðjur frá afa og ömmu á Blönduósi.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63891
Samtals gestir: 11329
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 17:15:41