Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2007 Maí

23.05.2007 22:54

Svolítið sár

    "Þú ert aldrei einn á ferð" söng Óskar Pétursson ættaður frá Álftagerði ekki fyrir svo margt löngu og glæddi baráttuandann. AC Milan vann en Liverpool tapaði. Ég er örlítið sár en ég er ekki einn um það og sannast hið fornkveðna, " þú ert aldrei einn á ferð" hvort heldur í sigri eða tapi. Ekki ætla ég að fara að velta mér upp úr úrslitinum að öðru leiti en því að þýski dómarinn var óþolandi hlutdrægur og átti aldrei að dæma þessa aukaspyrnu í fyrri hálfleik sem AC Milan menn skoruðu úr með hálfri hönd Guðs. Nei ég er ekkert sár nema þá helst yfir tapinu. En fyrst Liverpool þurfti endilega að tapa þrátt fyrir að hafa verið betra liðið á vellinum þá verður maður að hugga sig við það að þeir komust lengst enskra liða í meistaradeildinni. Svo getur maður líka huggað sig við það að núna ætlar Hvöt að fara að koma upp stúkusætum á íþróttavellinum og þá verður maður fljótur að gleyma þessu ósanngjarna tapi Liverpool fyrir AC Milan þegar maður getur í hægindum sínum horft á liðið sitt á Blönduósi berja á andstæðingum sínum á knattspyrnuvellinum og sótt hratt fram til efri deilda. Það sannast alltaf hið  fornkveðna að það er enginn einn nema að hann haldi með Leeds eða einhverju svipuðu liði og þá eru margir tilbúnir að leggja þessum eina hjálparhönd ef hún er rétt fram. Og ég er nokkuð viss um það að ég er ekki einn um það að vera svekktur í kvöld, kveldi sem átti að vera uppspretta sigursöngva og uppörvunar. En það kemur dagur eftir þennan dag og það fennir yfir knattspyrnusöguna og áður en maður veit af er maður aftur farinn að borða spagetti Bolónes.

19.05.2007 20:12

Laugardagur til lukku og bænadagar til bóta

    Það er ekkert auðvelt að standa frammi fyrir vanda. Það er ekkert auðvelt að standa frammi fyrir því að gerðir manns geti sært aðra þó svo hugur manns standi til annars. Ég hef staðið frammi fyrir þessu öllu og hægt og bítandi hefur mér tekist að greina rangt frá réttu og þess vegna mun hér koma fram á sjónarsviðið mynd sem ég ber enga ábyrgð á aðra en að hafa áhuga á því að birta hana. Þeir sem fylgst hafa með mínum skrifum og þankagangi vita það að yfir einni ágætri konu hér í bæ hefur vofað sú hótun að af henni verði birt mynd sem tengdadóttir hennar tók. Þessi tengdadóttir sem tók myndina hefði fyrir það fyrsta aldrei vitað hver ég var nema fyrir það eitt að tengdamóðir hennar hafði lýst mér af slíkri næmni að veslings stúlan komst ekki hjá því að þekkja mig. Og þar sem ég er þekktur fyrir að skrifa og taka myndir fannst þessari ágæti stúlku eftir nákvæma lýsingu frá sinni ágætu tengdamóður tilvalið að senda mér mynd sem sýnir svo ekki verður efast um að Bóthildur Halldórsdóttir er í í syngjandi sveiflu með lífsdansinn á hreinu. Myndina kalla ég " Í syngjandi sveiflu á vesturbakkanum" höfundur myndar er "Jæja hér kemur þessi fína mynd sem ég lofaði þér, ég vona að þér finnist hún jafn skemmtileg og mér, þetta er nú í óþökk Frú Bóthildar (hún er ekki mikið fyrir myndatökur) en við vonum það besta.... hún hlýtur að fyrirgefa okkur einn daginn *hahahaha* Kveðja Þórhildur Gísladóttir" ( afsakið hér kom óvart tölvupóstur til mín inn í þessa grein, en tölvupóstur sem engin á að sjá hefur nú fyrr birst alþjóð) Þórhildur Gísladóttir. 
    Sem álitsgjafi sem hefur bæði reynslu af því að búa á austurbakkanum og vinna á vesturbakkanum get ég auðveldlega sett mig í spor þessarar konu sem dansar um gamla bæinn í fullkomnu sakleysi og einlægri gleði. Menn dansa þegar þeir eru glaðir og gleðina ber okkur að breiða út og hin óborganlega Bóthildur er boðberi lífsdansins þetta meinlausa laugardagskvöld.

15.05.2007 21:53

Blóm og kransar afþakkaðir




    Þær eru loksins komnar í ósinn blessaðar kríurnar og hafa látið bíða eftir sér í töluverðan tíma. 

    En það sem varð til þess að ég set inn nokkrar línur í þankasafnið er einfaldlega Bóthildur fyrrum úthverfakona. Mér varð á að segja Bóthildi í sjúkraþjálfun í dag að nú væri Inga Mæja einfaldlega að ganga frá mér. " Þá veit ég hvað hefur skeð ef þú skrifar ekkert í dag" sagði þá Bóthildur að bragði. Mér varð á að svara ef að ekkert heyrðist frá mér þá væri ég líklega allur en ég afþakkaði blóm og kransa. Þetta sem hér er að framan er ritað er einfaldlega ástæðan fyrir því að þessi orð urðu til. Allt Bóthildi að kenna og því að ég er ekki allur. Reyndar er ég ekki búin að fá myndina af henni frá tengdadótturinni, mynd sem að kunnugra manna sögn segir meira en mörg orð. Ég bíð rólegur eftir myndinni.

14.05.2007 22:14

"Þeim fannst ég vera myndalegastur"

    Þá er þessi annasama helgi um garð gengin hjá mér og mínum. Það sem markaði dýpstu sporin í tilveru okkar hjónanna á Árbraut 12 var heimsókn barnabarnanna þriggja frá fimmtudegi til dagsins í dag. Það er ansi mikið sem getur gengið á og hrært upp í vanabundnu lífi hjóna á sextugsaldri þegar þrjú börn á aldrinum tveggja til sjö ára koma í heimsókn. Veröldin breytir um svip, það sem áður var sjálfsagt og maður gat gengið að vísu var ekki lengur sjálfgefið. Til að mynda þá hef ég haft af því nokkuð gaman og jafnvel hvíld að setjast fyrir framan lyklaborðið og látið hugann reika. Aðgengi mitt að tölvunni minnkaði til mikilla muna. Samkeppnin um tölvuna jókst mikið og var svo komið málum að ég var komin í röðina hjá ömmu ( Möggu) hvenær ég mætti fara í tölvuna því barnabörnin voru búin að vera svo lengi. Amma sagði auðvitað " þið eigið skiptast jafnt á , afi verður líka að fá að vera í tölvunni". Ef satt skal segja þá var veröld okkar ekki öll fyrir framan tölvuna því þessi yndislegu kríli sem ég á dálitla hlutdeild í eiga líka frábæra frænku og hálffrænda (Mumma faktor) langömmu og afa að. Þetta samband mannvera sem spannar svona langt árabil er alveg kjörið til góðra verka og ætti hreinlega að lögleiða gömlu baðstofumenninguna aftur og trúi ég ekki öðru en "félagslegu" öflin komi okkur sem fyrst í torfbæina aftur. 

    Eitthvað rámar mig í að alþingiskosningar hafi verið haldnar á laugardag og þegar fólkið í mínu kjördæmi sem þurfti að telja fæst atkvæði hafði loksis lokið við að telja þá hafi Ellert karlinn komist á þing. Einnig rámar mig í það að allir nema framsóknarmenn hafi unnið þessar kosningar og stjórnin hélt velli. 

    Og síðast en ekki síst þá gerðu Eggertsmenn í West Ham sér lítið fyrir og sigruðu MU og tryggðu tilveru sína í efstu deild knattspyrnunnar á Englandi. 

    Þegar ég sit hér einn fyrir framan skjáinn, sólin er að setjast, barnabörnin farin til síns heima, já og Hjalti, Lára og Ásta Berglind líka en þau komu í heimsókn á sunnudag, þá finn ég fyrir svolitlum söknuði en fyrst og fremst þakklæti fyrir að eiga allt þetta yndislega fólk að. " Þeim fannst ég vera myndalegastur " sagði Baldur litli fjögura ára einbeittur og með áherslu, þegar tryppin í Lækjardal höfðu umkringt hann um daginn. Svona líður mér einmitt núna.

09.05.2007 15:23

Krían er komin

    Krían er komin í Ósinn, sá hana í gærkvöldi eftir þó nokkra viðveru. Hún var ein á ferð eins og Sunna Gests á kosningaskrifstofu D-listans. Reyndar leit ég líka við hjá framsóknarmönnum og nóteraði bak við eyrað kosningaspá Stefáns Hafsteinssonar með kaffibolla í hendi en hann sagði að framsókn fengi 14,2 %. Þegar Stefán lét þessa kvöldspá frá sér fara voru " útlitin heldur dimm" fyrir framsókn í kosningaspádómum og höfðu félagar hans litla trú á spádómsgáfu Stefáns. En það er margsannað að þegar maður vaknar að morgni þá er kominn allt annar dagur. Ég komst að því líka í morgun að ég hefði betur fylgst með því sem auglýst var í kosningabaráttunni því ég missti af því að líta til með þeim á hæðinni fyrir ofan framsókn. En það góða við þetta allt saman er að kríunum kemur til með að fjölga með hverjum degi en framboðsræðum að fækka.

08.05.2007 18:17

Félagslegur!

    Félagslegur! Hvað er eiginlega átt við með því? Menn geta svo sem velt sér upp úr því fram og til baka og komist að svo mörgum niðurstöðum að þær jaðra við holu- grjót- og samgönguvanda Brekkubúa. Já og ekki bara Brekkubúa því við hin sem ekki höfum hreiðrað um okkur í grennd við kirkjugarðinn þurfum stundum að fara í Draugagilið. Félagslegur! Er það einhver kona sem lítur út fyrir að vera í kvenfélaginu eða karl með Lions " feis" Í rauninni veit ég ekkert hvert ég er að fara en þetta orð félagslegur hefur svo oft komið inn í umræðu síðustu daga að full ástæða er að velta því fyrir sér. Ég sem þetta rita er frekar einstrengislegur en samt með taugar til þeirra sem í kringum mig eru og hef gaman af félagsskap í hófi. Hér áður fyrr meir fannst mér félagsskapur í óhófi alveg frábær en þetta hefur breyst með árunum. Ég hef rennt yfir félagatal mitt og reynt að skoða og skilgreina hvað þetta félagslega eiginlega þýðir á alþýðumáli. Jafnvel hef ég reynt að tengja það við einhverjar pólitískar skoðanir en alltaf strandað, því pólitískar skoðanir og félagsleg þörf er ekki auðtengd í mínum huga. Rammasti íhaldsmaður getur haft bara hina mestu skemmtun af því að vera í félagi og félagshyggjumaður að eigin áliti og innan gæsalappa getur verið einrænn og hreint út sagt ekki passað inn í samfélagið. 
    Það sem varð til þess að ég fór að gera tilraun til að koma þessari hugsun minni á prent var það að ég sá eina ágæta konu, íbúa á Brekkunni vera að fylla upp í holur í Sýslumannsbrekkunni í dag og gera sér leiðina heim og að heiman auðveldari. Ég er nokkuð viss um það að hún gerði þetta fyrst og fremst í eiginhagsmunaskyni en frumkvæði hennar kemur öllum til góða. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvort orðið félagslegur hefur einhverja pólitíska skírskotun eða er hugtakið félagslegur einvörðungu starf sem þarf að vinna og er unnið af þeim sem fyrstur gefast upp á því að tekið verði á hlutunum félagslega.

06.05.2007 20:39

Sunnudagar eru til sælu þrátt fyrir allt

    Sunnudagar eiga að vera til sælu og eru það oftast. Dagurinn í dag hefur einkennst nokkuð af óhöppum sem blessunarlega hafa endað betur þó " útlitin hafi verið dimm" Þessi dagur byrjaði með því að ég vaknaði og eftir það fór ýmislegt á daginn að drífa. Fyrsta málið sem truflaði sunnudagsleti mína var það að tengivagn frá Vörumiðlun yfirgaf heimaslóðir og stöðvast á væntanlegu veitingahúsi Björns Þórs á Húnsstöðum ( gamla Vélsmiðjan). Það verður að segjast eins og er að fyrst þetta þurfti að gerast þá gat það vart endað betur. Ef slóð tengivagsins er fylgt eftir þá er það ekkert annað en kraftaverk að vagnin skyldi ekki valta yfir menn, bíla og bensíndælur á leið sinni. Það er hægt að bæta hús og bíla.

Þegar klukkan var farin að halla í sex (18) þá gerðist það á örskotsstundu á Breiðavaðheiðinni að vindur rauk upp og urðu tveir bílstjórar með hjólhýsi í eftirdragi fyrir barði vindsins. Hjólhýsin fuku útaf veginum og annað hjólhýsið náði að svifta sínu drifkrafti út af veginum og gjöreyðileggja hann. Þarna urðu einhver slys á fólki en ekki meiriháttar það maður heyrir samkvæmt fyrstu fréttum og er vonandi að rétt reynist. Þegar ég kom á vettvang hjólhýsaslyssins á var svo hvasst að það var varla stætt og þakkaði ég í hljóði fyrir æfingarnar á Sjálfsbjargarbrettinu í vetur því líklega hefði ég fokið út í veður og vind.
     
    Þó ég sé ekki neinn sérstakur MU aðdándi þá gladdi það mig að þeir hömpuðu Englandsmeistaratitlinum frekar en Tjélsí. En eins og alltaf þá gengur þú aldrei einn og það styttist í Júróvision, kosningar og úrslitaleik Liverpool og AC-Milan þannig að það er alltaf eitthvað framundan.

04.05.2007 18:55

Betri er hóll í baki en fjall

    Hjartað hamast áfram á 118 slögum á mínútu, brekkan er erfið og hálftíminn er að verða búinn. Skyndilega er ég kominn niður á jafnsléttu og dóla mér á 4,5 km hraða á klukkustund. Hjartað bregst við með því að hægja á sér en eigandin kvartar örlítið. "Er einhver hér inni sem getur tekið mig hálstaki og hnykkt á?" Það voru nokkrir sem kváðust geta það og bara með ánægju.   Þetta er svona stuttur inngangur manns sem hamast hvað hann getur innan hóflegra marka til að halda sönsum og lifa örlítið lengur en lög gera ráð fyrir. Þetta með hálstakið var hróp manns sem var að reyna að koma því til skila að fyrir fjölda mörgum árum hefði maður sem kallast "kírópraktor" tekið pistlahöfund hálstaki og hnykkt á svo í brakaði með þeim árangri að vöðvabólga og ýmsi fylgikvillar hennar hurfu gersamlega. 
    Hún Inga María sem skilur orðið mitt hjartalag brást við þessu ákalli með því að draga mig afsíðis og biðja mig um að fara úr þ.e.a.s að ofan. Eftir að hafa farið um mig höndum sagði þessi geðugi sjúkraþjálfaravöðvaeftirlitsmaður minn  ( sjúkraþjálfari) við mig. " Þú ert vöðvafjall". Getur það verið að ég sé svona andskoti glæsilegur að kona á besta aldri segi svona nokkuð við mig. 
    Inga María var afar snögg að koma mér niður á jörðina.  "Sjáðu til, það er þannig komið fyrir þér að vöðvarnir í öxlinni hafa allir safnast fyrir á einum stað og mynda vöðvafjall." Þar með hrundi sjálfsmyndin augnabliksstund en þar sem ég er frekar "jákvæður" maður (um það eru reyndar deildar meiningar) komst ég fljótt að því að fjall í þessu samhengi er ekki eftirsóknarvert. Eftir 15 mínútna handartök var Inga Mæja búinn að breyta fjalli í hól. Inga Mæja á hól skilið, jafnvel Syðra-Hól og niðurstaða mín eftir að hafa hlustað á brestina berast til heilans eftir meðferðina er ég sannfærður um að betri er hóll í baki en fjall.
  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63905
Samtals gestir: 11339
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:09:25