Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2011 Desember

28.12.2011 14:12

Lýs milda ljós

Í dag er barnadagur, minningardagur um börnin sem Herodes lét taka af lífi eftir að vitringarnir höfðu sagt fyrir um fæðingu Krists segir í sögu daganna. Það hefur mikið gengið á í henni Versu gegn um tíðina og gildir þá einu hvort í hlut eiga konur eða karlar, óháð aldri (reyndar kvarta konur yfir því að hlutur þeirra sé fyrir borð borinn í sögunni). En hvað sem sagan segir þá erum við stödd á þessum stað á þessum tíma og verðum, gjörið þið svo vel, að höndla staðinn og stundina.  Mönnum er það mislagið eins og gengur og getur einum þótt fallin orð eða framkoma óviðeigandi, meðan öðrum þykir mismikið til koma. Það er sem sagt með öðrum orðum, erfitt að gera öllum til hæfis.


Eyðibýli Gríms Sæmundsen undir Brekkunni

Fjórði í jólum er dagurinn sem skiptir máli, dagurinn í dag og jólasveinarnir farnir að snúa til síns heima og styttist í áramót. Það var um daginn í útvarpinu að tveir jólasveinar sátu fyrir svörum í beinni útsendingu. Lítill drengur spurði sveinana í einlægni hvort Grýla borðaði ennþá börn. Það kom fát á jólasveinana við þessari einföldu spurningu og svöruðu þeir eitthvað á þessa leið. "Um, ja, nei! hún er hætt að borða börn því hún er komin á "diet"" svöruðu þeir og önduðu léttar og fannst bara þeir hafa sloppið nokkuð vel frá þessari grunnspurningu. Ég held að næsta spyrjanda hafi verið hleypt að í kjölfar þessa svars. Ég var hugsi yfir þessu svari og ég held að ungi drengurinn hafi verið það líka án þess þó að vita það.  Það var ekki slettan "diet" sem truflaði mig heldur setti ég mig í spor umboðsmanns barna þegar ég heyrði þetta. Er þetta ekki frekleg aðför að æsku landsins, alhæfing á hæsta stigi að segja að grýla sé hætt að borða börn vegna þess að þau séu of feit. Hér á árum áður borðaði Grýla börn því þau voru holdrýr og ekki fituörðu að finna en núna er hún komin á "diet", sem sagt borðar ekki feitt kjöt. Söngli nú nikrar í neðra, hingað og ekki lengra. Í dag snýst allt lífið um kíló, staðalímyndir . Auðvitað á Grýla að halda í sínar venjur óháð einhverjum vel skipulögðum, markaðssettum tíðaranda.

Það koma oft menn til mín í hornið á Aðalgötunni  á ferð sinni um óravíddir veraldarvafstursins og hafa yfirleitt frá ýmsu að segja. Í gær kom til mín í smáspjall, snillingurinn og sögumaðurinn Magnús Sigurðsson frá Hnjúki (nú á Flögu) og hafði hann undir hendi hrásalatsdós sem reyndist full af peningum, íslenskri mynt í dós, sem sagt. Eftir frekari eftirgrenslan kom í ljós að í hrásalatsdósinni var hluti af sjóði Lomberklúbbsins í Húnaþingi. Þetta var sá hluti Lombersjóðsins sem var ætlaður til kaupa á ölföngum fyrir jólaspilakvöld klúbbsins sem verður haldið í Flóðvangi næst síðasta kvöld ársins. Þessi hrásalatdós var síðan uppspretta frekari umræða um hvernig menn geymdu peninga hér áður fyrr meir. Rifjaðist upp fyrir Magnúsi margt seðlabúntið í höndum bændahöfðingja í Vatndal fyrr á árum, þéttvafið með teygju. Það var notalegt að ræða um peninga við Magga og eitthvað svo manneskjulegt hvernig hann skaut augunum annað slagið á hrásalatsdósina yfir efri brún gleraugnanna. Maður fékk það á tilfinninguna að þarna færi maður sem hefði vit á peningum. En hvað sem öðru líður þá er alltaf gaman að fá Magnús frá Hnjúki í heimsókn því ekki fylgir honum þögnin.


Kjarni gamla bæjarhlutans á Blönduósi

Á Vesturbakkanum hefur ríkt mikill friður um hátíðarnar.  Hugsanlega getur það stafað af því að ég veit ekki betur vegna meiri fjarveru. Þegar ég skifa þessi orð þá rennur upp fyrir mér að ég hef ekki í langan tíma heyrt í Jónasi Skafta á Ljóninu en hann er eins og farfuglarnir enn fyrir sunnan okkur með söguna sína endalausu um baráttu Ljónsins við sýslumann og bæjaryfirvöld.

Það er enginn Gluggi í dag þannig að maður gefur sér bara tíma í staðinn til að lesa aftur yfir jólakveðjurnar í síðasta Glugga. Af því að ég ritaði hér fyrr um Jónas og stríð hans við yfirvöld  datt mér ekki annað í hug en að jólakveðjan frá Sýslumannsembættinu yrði svona:  Óskum öllum íbúum umdæmisins nema Jónasi Skafta o.s.frv. ............. Nei, nei lesendur góðir! Yfirvaldið var milt og var enginn skilinn útundan í jólakveðjunni. "Lýs milda ljós" var það fyrsta sem kom upp í huga mínum við þessa uppgötvun en mundi þá allt í einu að þetta voru upphafsorð í útfararsálmi.Þetta er ekki viðeigandi , hélt ég áfram að hugsa. En sem betur fer hélt ég áfram að hugsa. Það skyldi þó aldrei verða að þessi hugljómun hafi verið fyrirboði um það að allar deilur Jónasar við yfirvöld verði settar niður á árinu sem senn gengur í garð. Guð láti gott á vita.

Eitt er víst, árið hverfur  í bláinn,

öruggt  í aldanna skaut.

Og bjartsýn blundar þráin

um blessun og lausn á þraut.

 

Með þessum orðum lýkur 52. pistli ársins 2011

 

Gleðilegt ár þið öll sem lítið hér inn á síðuna og lesið ritæfingar mínar, það er notalegt að vita af ykkur.

 

 

21.12.2011 16:15

Við opinn glugga

Nú styttist í það að dag taki að lengja. Í nótt um fimm leitið breytist möndulhreyf ing jarðar og norðuhvelið fer að halla sér að sólu. Þetta þýðir í stuttu máli að allt er eðlilegt og maður fer að hugsa um sólina, vorið, land sitt og þjóð.


Aðalgata 8, Langadalsfjall og Þorsteinshús

Misjafnt hafast mennirnir að á lífsleiðinni  en eitt eigum við sameiginlegt með öllu því sem andan dregur, að hætta að anda. Hér á Vesturbakkanum hefur yfir svartasta skammdegið dvalið Indverji sem hefur fylgst með síðustu andartökum stórgripa  í sláturhúsi  Sölufélags A-Húnvetninga (SAH). Það síðasta sem dýrin sjá fyrir utan Guðmund Eyþórsson er Indverjinn. Hann hefur vakað yfir lífi dýranna með hitamæli þar til þau lenda í höndum Guðmundar  og mælt í þeim hitann rétt fyrir aftöku. Um tilgang þennan veit ég harla lítið en fyrst eftir að hann kom hér var hitinn í  kjallara Þorsteinshúss þar sem hann hefur athvarf, nokkuð hár og allir gluggar lokaðir. Má með sanni segja að húsið hafi grátið að innan af þeim sökum. Eftir stutta leiðsögn um að gott væri að hleypa inn lofti að utan, mætti ráða bót á þessu vandamáli. Indverjinn gerði meira en opna gluggann örlítið, hann galopnaði hann. Glugginn var svo opinn að íbúar á Vesturbakkanum hafa ekki orðið varir við mýs í langan tíma og telja sumir að hlýrra sé í Aðalgötunni en annarsstaðar í bænum. Steinn Steinarr sendi á sínum tíma frá sér smásagnasafn sem hét " Við opinn glugga"  en ég efa  að Indverjinn hafi lesið það.  Maðurinn sem áður lokaði hitann inni hleypti honum nánast öllum út. Um daginn kom þessi ágæti maður frá hinu fjölmenna ríki Indlandi inn um dyrnar á Aðalgötu 8 og sagði farir sínar ekki sléttar. "Ég hef lokað mig úti, getið þið fundið fyrir mig símnúmerið hjá  Sölufélags -Sigurði". Auðvitað fann Vignir í Vínbúðinni það fyrir hann og samband tókst milli þeirra. Ég komu örlítið seinna inn í þetta ferli og þá  kom sér vel að hafa verið ráðunautur bænda  í A-Hún í 25 ár. Ég sagði um leið og ég tók mér stöðu hjá Indverjanum við gluggann vitandi um vandræðin "Þú ferð bara inn um gluggann sem stendur upp á gátt og þá ertu hólpinn"  og bætti við " ef þú festist í glugganum þá munum við hringja eftir hjálp" Indverjinn hló og snaraði sér út og inn um gluggann á Þorsteinshúsi. Indverjinn komst inn en skömmu seinna kom Sölufélags-Siggi og hitti fyrir útilokaðan mann innandyra í Þorsteinshúsi. Hvað þeim fór a milli veit ég ekki en allt getur gerst á Vesturbakkanum


Fyrir tæpri viku var haldið fyrsta eiginlega menningarkvöldsamkoma í gömlu kirkjunni. Reyndar var ekkert jólatré frá bæjaryfirvöldum í næsta nágreni en það má skrifast á það að gamli bærinn er jaðarbyggð eða í besta falli úthverfi svo vitnað sé í gamla kosningaræðu.  En dagskráin var fjölbreytt og og mæting mjög góð að sögn Sveins M. Sveinssonar.  Jóhanna Atladóttir las upp úr bók sinni "Í nýjum heimi" (þetta er bókin með dónalegu kápumyndinni sagði einn ágætur íbúi á Vesturbakkanum), Guðríður Helgadóttir frá Austurhlíð las einnig úr bók sinni. Birgitta Hrönn skáldkona frá Syðri Löngumýri mun haf lesið úr smásagnasafninu "Lauf að norðan" og hið sama gerði víst Ívar Snorri en hann las smásögu sína um höfrungana. Það var sungið og spilað og sýnd kvikmynd um æðarvarpið á Hrauni. Sem sagt fjölbreytt dagskrá og hef ég heyrt að fólk hafi skemmt sér hið besta.

         Ég hef bara ekkert heyrt í Jónasi Skafta í meira en viku eða síðan hann fékk áheyrn hjá Ömma frænda í Innanríkisráðuneytinu.  Ég hef heldur ekki hitt hana Bellu, heimilisköttinn á Ljóninu þannig að það segir fátt af þessum einstaklingum í þessum síðasta pistli fyrir jól.

          Rúnar er kominn með Gluggann og hafði hann í frammi hávaða utan dyra þegar hann kom. Lá á flautunni og vildi reka í burtu bifreið sem lagt var fyrir framan dyrnar á Aðalgötu 8. Þetta var bifreið Kristjáns á Húnsstöðum sem hjá mér var í heimsókn og þegar þeir sáu hvern annan höfðu þeir í frammi viðeigandi orðbragð sem hentar þeim sem þekkja hvorn annan. Ég hefði aldrei fyrir mitt litla líf þorað að segja það sem þeim fór í milli en Rúnar og Kristján kvöddust sem kórdrengir væru. Rúnar varð að koma með Strákabandið inn til mín svo ég gæti heyrt hvað var undir geislanum hjá honum þegar hann kom. "Höfuð, herðar, hné og tær" hét lagið og var það útsett í polkatakti.

          Glugginn er þykkur í dag enda uppfullur af jólakveðjum og er bara slatti til mín. Ég þakka auðmjúkur fyrir þess kveðjur, gríp þær á lofti og sendi til baka með sama hlýhug og mér var sýndur.  Rúnar var ekki frá því að einhverjar kveðjur væru til hans. Jólamessur, skötuhlaðborð og úrvals hangilæri voru líka innan um jólakveðjurnar og björgunarfélagið Blanda minnir á flugeldasöluna og sýninguna sem haldin verður á gamlárskvöld.


          Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd og er dýrt kveðin. Fjallar hún um hjal barnsins og hversu mikil blessun það sé.

          Samhengið er einfallt að þessu sinni enda eigum við Rúnar erfitt með að yrkja í myrkri. Þessvegna segjum við bara:

 

               Á  dimmasta ársins degi,

               auðmjúkir yrkjum ljóð.

               Megi´ ykkar  mildast tregi,

               megi´ ykkur jól verða góð.


Gleðileg jól

14.12.2011 15:05

Þú ert nú meiri kalkhúnninn

Ég horfi á minnkandi tugl á vesturhimni og velti vöngum. Ég leit aðeins í dagatalið og sá að  Imbrudagar að vetri hefjast í dag.  Ekki ætla ég að dvelja lengi við Imbrudaga  að öðru leiti en því að þeir munu vera fjórum sinnum á ári og þrír í senn og er einhverskonar föstuinngangur.


Dagarnar halda áfram að styttast en það styttist líka í það að það breytist og nyrðri hluti jarðarinnar fari aftur að snúa sér til ljóssins. Það er merkilegt hvað þetta ljós hefur stórt hlutverk í lífi sérhvers manns og hve snjöll hugmynd það er að hafa myrkur á nóttinni og ljós á daginn. Það segir sig sjálft að maður hefur ekkert með ljós að gera á nóttinni því þá er maður hvort sem er með lokuð augum. Öðru máli gegnir á daginn þegar við þurfum birtu til að sjá hvað við erum að gera í hinu daglega amstri. Skaparanum er ekki fisjað saman hvað þetta snertir því þetta sá hann allt saman fyrir. Reyndar eru dagarnir langir yfir hásumarið en það er hægt að rökstyðja það með því að við sem norðlægar slóðir byggjum þurfum lengri birtutíma yfir há bjargræðistímann til að afla fanga fyrir veturinn. Þetta er allt þaulhugsað frá A-Ö og ef maður hefur vit og þroska þá hlusta menn eftir hjartslætti náttúrunnar og taka tillit til hans.


Þó öldurnar brjóti á ströndinni lætur Jónas ekki brjóta á sér þegjandi og hljóðalaust

En mennirnir eru misjafnir sem þeir eru margir og það sannast best á vertinum á Ljóninu honum Jónasi Skafta. Jónas hefur fengið áheyrn hjá Innanríkisráðuneyti Íslands sem mun vera undanfari stefnu gegn Blönduósbæ, sýslumanni og lögreglu. Jónas ætlar sem sé að hitta Ömma frænda eins og hann er kallaður hér í Húnaþingi. Ögmundur er eins og margir vita, ættaður frá Torfalæk og á mikinn frændgarð í Húnavatnssýslu. En Jónas hefur ekki sagt sitt síðasta í stríðinu við yfirvöld og hefur nú í hyggju að fá Ömma frænda til liðs við sig gegn bæjaryfirvöldum og sýslumanni og hans mönnum.  Ég vona bara að Bellu, grábröndóttu kisunni hans Jónasar verði ekki meint af þessu öllu saman en held þó ekki því Bella og Jónas eru lík að því leiti að þau fara sínar eigin leiðir.

Annað kvöld verður samkoma háð í gömlu kirkjunni þar sem sitt lítið af hverju verður á dagskrá. Ekki er að efa að þetta verði áhugaverð samkoma því það er einmitt hugmynd kirkjueigenda að gamla kirkan verði griðarstaður fyrir menningu af ýmsum toga. Af óviðráðanlegum ástæðum get ég ekki sótt þessa samkomu og þykir það miður. Svona er nú lífið einu sinni, maður verður að velja og hafna.


Þetta fallega hús sem kallað er Þorsteinshús lúrir undir brekkunni og hýsir um þessar mundir mann sem fylgist með stórgripum síðustu ævidaga þeirra. Glugginn lengst til hægri á austurgafli er oft opinn fyrir húnvetnsku lofti.


Rúnar kom að venju með Gluggann og nú í ljúfu vetrarveðri. Nú eins og svo oft áður hafði hann Strákabandið með í för. Þeir félagar léku við hvern sinn fingur hið þekkta lag "kveikjum eld" og það var engu líkara að þessir ágætu listamenn hefðu kveikt í Rúnari því hann lá á flautunni til að stugga við bíl sem stóð fyrir utan dyrnar hjá mér. Bíllinn haggaðist hvergi en ég spratt úr sæti og bauð Rúnar velkominn með ákveðinni handahreyfingu í dyragættinni. Rúnar kom um síðir með Gluggann en stoppaði stutt en nógu lengi til að gefa miðvikudeginum dýpri tilgang.

Gluggi dagsins er hófstilltur miðað við að jólin eru á næsta leiti. Flatskjáir, hangikjöt og kalkúnar og fleira góðmeti er auglýst. Páll Ingþór verður í Gunnfríðarstaðaskógi á sunnudaginn og sendir fólk inn í skóginn í leit að jólatré. Skrifstofa USAH og Hvatar er flutt á þann stað sem Kjalfell hafði áður sína verslun og þar verður tekið á móti jólapósti síðustu daga fyrir jólin. Gunna Ben verður í Eyvindarstofu með jólaskreytingar. Meðan ég man þá leist mér leist ansi vel á hátíðarsalatið sem Samkaup er með uppskrift að í Glugganum. Ég segi nú eins og þeir sem vitið hafa "þetta er svona ansi mikið ég".

Svona í blálokin þá staldraði ég aðeins við orðið kalkúnn. Fór að velta því fyrir mér hvort ætti kannski að skrifa það "kalkhúnn" . Eftir smá uppflettingar þá varð niðurstaðan sú að háinu skyldi sleppt en mætti ekki nota kalkhúninn um húnvetnskan þverhaus. Það hljómar óneitanlega betur að segja við húnvetning sem augljóslega er ekki með hýrri há, viðskotaillur og þverari en andskotinn: Þú ert nú meiri kalkhúnninn".

        Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er sú níunda í röðinni um happ skagfirðinga að eiga Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra að.

        Samhengið er eitthvað sem öllum er nauðsynlegt að hafa tiltækt þegar komast þarf að skynsamlegri niðurstöðu eftir vangaveltur út og suður.

 

            Bráðum koma blessuð jólin,

            bráðum fáum pakka í hönd.

            Svo hækkar á lofti heilög sólin,

           hægt við ystu sjónarrönd.

  

07.12.2011 13:55

"How are you today"

Ambrósíusmessa er í dag og er haldin í minningu eins merkasta manns í kristninni, Ambrosius biskups í Milano. Jafnframt er þetta 341. dagur ársins í 7. viku vetrar og 49. vika ársins. Fullt tugl verður á laugardag og sólin nær svona  um það bil 2 gráður yfir sjóndeildarhringinn. Þetta er nú það helsta um þennan frostkalda dag.

Það var fyrir viku að Lárus B. Jónsson hringdi í mig og sagði mér frá ferðamanni sem tjaldað hafði í 10 gráðu frosti á tjaldstæðinu. Símtalið var eitthvað á þessa leið. "Heyrðu Jón, það er ferðamaður á tjaldsvæðinu og hann svaf hér í nótt. Þú verður að koma og taka mynd af honum"  Í fyrstu ætlaði ég ekki að trúa þessu en lét mig þó. "Er hann íslenskur" spurði ég. "Nei" sagði Lárus; "hann er frá Tansaníu eða eitthvað svoleiðis". "Er hann svartur" sagði ég. "Ég sé það ekki" sagði Lárus. Þetta fór að verða spennandi og ég rauk út í bíl með myndavélina því það væri nú svolítið flott að ná mynd af þeldökkum manni í tjaldi í hvítum snjónum. Ég ók eins og leið lá upp á tjaldsvæði og hitti Lárus í þjónustumiðstöðinni. Saman fórum til móts við ferðamanninn sem við vorum vissir um að væri frá Tansaníu. Þegar við nálguðumst manninn kom í ljós að þetta var hvítur maður sem þess vegna gat verið ættaður úr Svínadalnum.  En þegar hann ávarpaði okkur með þessum orðum "how are you today" hvarf  hið Svíndælska yfirbragð og eftir frekari samræður við manninn kom í ljós að hann var frá Tasmaníu í Ástralíu en ekki Tansaníu.


En að allt öðru. Jónas var með opið á Ljóninu þann 1. des síðastliðinn og bauð upp á kaffi, kleinur og ýmislegt annað góðgæti. Bella heimilsköttur á Ljóninu tók einnig á móti gestum með sínu hlýlega viðmóti. Reyndar var ekki opið nema þennan eina dag hjá Jónasi því hann dreif sig strax daginn eftir suður í leigubílaharkið. En það var opið og meira að segja tóku menn lagið og lék Jónas undir á gítar. Framganga yngstu dóttur Ívars Snorra og Jóhönnu Atla í söngnum um Nínu og Geira vakti hrifningu. Sú stutta söng af mikilli innlifun og kunni textan upp á 10.


Svo maður haldi áfram að segja frá menningunni á Vesturbakkanum, þá er í vændum menningarkvöld í gömlu kirkjunni. Verður boðið upp á upplestur, bókakynningu, tónlistaratriði og kvikmyndasýningu.  Mér er efst í huga þegar síðast var kvikmyndasýning í gömlu kirkjunni þá var sýnd mynd frá Kúbu með rússneskum texta. Mér skilst að fáir hafi skilið myndina en framtakið þótti lofsvert  og var lengi í minnum haft. Ólíklegt má telja að þessi Kúbumynd verði endursýnd, heldur má búast við mynd frá kirkjueigandanum Sveini +Film, verði sýnd almenningi.

Þá er Rúnar kominn inn úr frostinu og suðvestan áttinni með Gluggann og ekki gleymdi hann polkanum. Reyndar voru þau Therése og Peter enn undir geislanum í Súkkunni og voru enn og aftur að spila Raggies polka. Held reyndar að diskurinn sé frosinn í spilaranum en það gerir ekkert til. Þau eru hreint ágæt,  Therése og Peter, sæt og gæðaleg í útliti og polkinn bara hinn hressilegasti. Rúnar var kappklæddur enda full ástæða til og hefði hann sómt sér vel með Tasmaníu Wayne, þessum á tjaldstæðinu.

Það kennir margra grasa í Glugganum. Tónleikar, upplestur, og svona jóla ýmislegt. Þetta eru svona auglýsingar sem eru dálítið "kósýlegar", notalegar með súkkulaði og piparkökubragði.

Vísa vikunnar er á sínum stað og er eftir Ingibjörgu á Beinakeldu.  Vísan er um veðrið sem var um miðjum nóvember og það þýðir bara eitt. Það er verið að yrkja um gott veður. En það er eins og kellingin sagði á sínum tíma í blíðunni: "Þetta á eftir að hefna sín" og það hefur nú komið í ljós

En núna verðum við Rúnar að þefa uppi samhengið í hlutunum og koma því óbrjáluðu til skila:

Utan dyra naprir vindar næða,

nóttin tekur til sín meiri völd.

Um annað er víst æskilegra´ að ræða

því upplestur úr bókum er í kvöld.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 79
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 63987
Samtals gestir: 11350
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:17:09