Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

Færslur: 2014 Október

29.10.2014 14:14

eins og veruleikinn bak við veruleikann



Kvennaskólinn með Spákonufellið í baksýn

Það er merkilegt við miðvikudaga að þá ber nánast aldrei upp á neina merkilega daga í almanaki Háskólans svona eins og tveggja postula messu sem var í gær. Þrátt fyrir þennan annmarka á miðvikudögunum þá eru miðvikudagar í skammtímaminninu oftast stilltir og bjartir dagar nema í undantekningar tilvikum. Til dæmis er dagurinn í dag stilltur og bjartur en ber í sér -4 gráðu svala úr ASA. Reyndar er þetta ekki heppilegasta áttin hvað varðar gasið úr eldgosinu í Holuhrauni en þegar þetta er skrifað verður maður ekkert var við SO2 í andrúmsloftinu og fyrir það þakkar maður.


         Skuggi sólar varpar krossi á kirkjuvegginn

           Þó svo miðvikudaga beri ekki upp neina merkilega daga í almanaki Háskólans þá hefur Steinn Steinarr gert þennan dag ógleymanlegan með ljóðinu "Miðvikudagur"

 

 Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr'á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn
.

 

sem svo vel gæti hafa verið ort í dag þó svo ég viti ekki fyrir víst hvort Morgunblaðið fáist keypt niðri á Lækjartorgi . Gunnar Kristjánsson prófastur ritaði á sínum tíma í tilefni aldarafmælis Steins m.a. eftirfarandi: "Í ljóðum Steins er hvort tveggja að finna, annars vegar sterka afneitun á tilgangi lífsins en hins vegar sterka vitund um að lífið sé borið uppi af leyndardómi, af von, draumum og ást. Í "Stiganum" (Rauður loginn brann 1934) lýkur hugleiðingum ljóðsins um stigann með samanburði við lífið sjálft":

Svona undarlegur 

         er þessi stigi, ... 

         eins og lífið sjálft, 

         eins og veruleikinn 

          bak við veruleikann


Endur á flugi með kirkjuna og snævi þakið Langadalsfjallið í baksýn

         Svo skemmtilega vill til að ég rakst fyrir tilviljun á ljóð eftir Stein Steinarr sem ort var í húsi sem nú ber nafnið Blöndubyggð 9 og hýsir nú kaffihúsið "Ljón norðursins". Í þessu húsi hékk ljóðið í ramma uppi á vegg en  Steinn mun hafa gist í þessu húsi þegar Páll Geirmundsson og Hjálmfríður Anna Kristófersdóttir bjuggu þar og má segja að þau séu með þeim fyrstu sem voru með veitinga- og gistiþjónustu fyrir ferðamenn hér um slóðir. Kvæði þetta  er um stigann í þessu húsi sem enn stendur og hljóðar svo:

Þessi stigi er sjálfsagt eins

og aðrir stigar

í öðrum húsum.

Hann liggur niður í kjallara

og upp á efstu hæð,

svona auðmjúkur og kurteis

gagnvart öllum mönnum,

sem um hann fara.

Og hér hefur hann verið

frá því húsið var byggt,

í hálfa öld eða jafnvel lengur,

og heyrt og séð allt, sem gerðist

í þessu húsi,

bæði á sumri og vetri,

vori og hausti.

Svona þögull og alvarlegur

eins og hann er í dag

hefir hann alltaf verið,

hvort sem börn eða gamalmenni

gengu tröppur hans,

hvort sem íbúar hússins

héldu brúðkaup sitt

eða voru bornir til grafar.

Svona undarlegur

er þessi stigi,

svona óskiljanlegur

í sínum einfaldleika,

eins og lífið sjálft,

eins og veruleikinn

bak við veruleikann.  

Þetta ljóð um "Stigann" yrkir Steinn lögnu eftir að hann birti ljóð sitt um "Stigann" sem áður er getið og hann notar niðurlagið úr fyrra ljóðinu í þetta ljóð með smá viðbót. Sagan er allsstaðar og meinlaus miðvikudagur getur verið uppspretta einnar slíkrar.


 Fuglinn í fjörunni á flugi yfir ós Blöndu

Glugginn er kominn og  og ber þar hæst að "Drengjakór íslenska lýðveldisins" undir stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur mun skemmta á Pottinum um helgina og  Jooð Ess yrkir vísu vikunnar. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá mun þessi vísa vera eftir "undrabarnið" Jónas Skaftason á Ljóninu og mun vera 20 ára gömul og ort í tilefni þess að þá fór nýstofnuð vínbúð annað en til hans og Guðsteins í kaupfélaginu. Ekki ætla ég að birta þessa vísu hér því ég óttast að Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum gæti fengið nett bragfræðilegt áfall en bendi áhugasömum á vísuna inni á huni.is (http://www.huni.is/index.php?pid=1).

22.10.2014 16:26

styrktartónleikar og litur rjúpunnar


Loksins sást yfir á Standir eftir langan huliðshjálm náttúruaflanna.

Dagurinn byrjaði með hægri austlægri át og frostið var -3 gráður um klukkan níu. Í dag er meiri ró yfir veðrinu en verið hefur en ásýnd jarðar hefur breyst mikið því hinn hvíti litur rjúpunnar hefur náð yfirhöndinni. Þessi litur á jörðinni kemur sér vel fyrir hænsnfuglinn rjúpuna sem eignast nýjan óvin á föstudaginn.  Ég veit að á föstudaginn ef veður leyfir þá mun fjölmenni fara um fjöll og dali í leit að þessum eftirsótta jólamat , mat sem mér finnst ómissandi á aðfangadagskvöld. Hér áður fyrr meir þegar maður var ungur og sprækur þá gekk maður til rjúpna og oftast nær einn. Það voru ógleymanlegar stundir þegar rölt var um óbyggðir gersamlega aleinn með skapara sínum og bakpokanum sem hafði að geyma kaffibrúsa og samloku með þykkri lifrarpylsu á milli. Það var notalegt að tylla sér á stein og sötra kaffið og gæða sér á orkumikilli samlokunni, horfa yfir héraðið og skynja smæð sína í veröldinni. Eitt þoldi ég ekki í þessum ferðum þegar maður var búinn að leggja á sig stranga göngu í leit að fugli að allt í einu var brunað fram úr manni á vélsleða og skömmu síðar heyrðust skothvellir og snjósleðinn brunaði til baka en ávallt í nægilegri fjarlægð þannig að hann væri ekki í skotfæri eða hægt væri að hafa tal af sleðamanni. Vonandi hafa veiðimenn það í heiðri að ganga til rjúpna í sæmilegu veðri, virða bráð og umhverfi sitt og koma til byggða með hæfilegt samviskubit.


Hluti af gamla bænum á Blönduósi. Hreppshúsið, Samkomuhúsið og Kiljan svo eitthvað sé nefnt

Þegar Ljón norðursins fer að hugsa þá getur allur allt gerst. Núna þegar ferðamannatímabilinu fer að ljúka hjá Jónasi á Ljóninu þá gefst honum aukinn tími til að virkja hið skapandi afl hugans. Hann er "brandsjúr" á því að hann ætlar að stefna nánast öllum yfirvöldum sem finnast á svæðinu og þó víðar væri leitað. Hann gerir sér grein fyrir því að "svoddan"  umstangi fylgja allnokkur útgjöld og nú gengur hann  með þá hugmynd að efna til styrktartónleika sjálfum sér til stuðnings og mun hann koma fram og gefa alla sína vinnu í þágu verkefnisins.  Jónas hefur ekki enn gefið upp stað og stund varðandi þessa tónleika en hann hyggst nota afganginn af ágóðanum til að stofna styrktarsjóð sem ætlað er að nýta í að styrkja siðferðisvitund allra þeirra sem hann ætlar að lögsækja.  Hann reifaði þá hugmynd að sjóðurinn ætti að að heita "Hjálpum þeim" en þar sem það nafn hefur áður verið notað í göfugum tilgangi þá ákvað hann að nefna sjóðinn " Til hjálpar þeim". Ég er ekki í vafa um að hann mun flytja lögin "komdu inn í kofann minn", "Þrek og tár, Hjálpaðu mér upp og "Heyr mína bæn" að ógleymdu laginu "Fúll á móti". Þetta finnast mér tíðindi allnokkur og er þá vægt til orða tekið.


Haustlauf (birkilauf) í garðinum heima áður en litur rjúpunnar lagðist yfir 

Rúnar lét loksins sjá sig eftir allnokkra fjarveru og hafði mér til mikillar ánægju með sér harmonikkulagið "Strekkbuksepolka" með snillingnum Arnt Haugen. Þetta var vel til fundið hjá Rúnari þó svo hann sé ekki búinn  að yrkja neitt af viti. Hann gæti svo sem alveg hafa ort þetta:

Margt er það sem miður fer,

marinn af samviskubiti.

Næstum allur, október

og ekkert ort af viti.

Það er gaman að sjá Rúnar aftur eftir langan tíma því hann leyfir mér að hamast í sér (pönkast) án nokkurra eftirmála.


Horft yfir Húnafjörð með hestana hennar Huldu Leifs í forgrunni

Glugginn er líka kominn og þar er annar Rúnar sem yrkir um Svangrundar -Móra og Vatna - Jón. Ekkert kannast ég við þessar persónur en einasti Vatna - Jón sem mér kemur í hug er athafnamaðurinn í Ölfusi Jón Ólafsson vatnsútflytjandi.

15.10.2014 15:00

í lognkyrri blámóðu

    

    Blönduósinn seinni partinn í gær. Þá var mengunin ekki orðin eins mikil og í dag

     Það eru stilltir, bjartir og kaldir dagar umvafðir blámóðu úr eldgosinu í Holuhrauni sem umlykja okkur hér við botn Húnafjarðar þessa dagana.  Ég fagna þessu öllu nema blámóðunni sem skerðir sýn til fjalla og hafs og er ekki frá því að mér súrni örlítið í augum. Í gær var fyrsti dagurinn á þessu hausti sem ég þurfti að skafa hélu af bílrúðunni og held ég að þetta haust hafi til þess að gera verið óvenju milt.


     Langadalsfjallið var í móðu í dag

     Vertinn á Ljóninu hugsar óvenju mikið þessa dagana og ber mönnum ekki saman um það hvort það sé gott eða slæmt. T.d er gaman að geta þess að vertinn hugsar núna mikið um að bæta við gistihýsum á lóð sinni og næsta nágreni. Hann er afar veikur fyrir fyrir húsi sem er þannig hannað að hægt er að ganga upp á það og njóta þannig betur útsýnis yfir ánna og flóann. Þessi húsgerð er ekki svo ólík fuglaskoðunarhúsinu sem eigi er langt frá Blöndubóli Ljónsins. Já, Jónas á Ljóninu hugsar mikið þessa dagana og eins og kom hér fram áðan þá greinir menn á um það hvort það sé til góðs eður ei. Það er nú með það eins og svo margt annað að það er ekki sama hver og hvernig á þetta hugsanferli er litið. Það er reyndar algjörlega út í bláinn að reyna að "fabúlera" eitthvað frekar um það því maður gæti bara lent í helvítis klandri.


    Sólin umvafin gosmóðu 

     Glugginn er kominn svona eins og hann gerir á miðvikudögum og kennir þar ýmissa grasa. Það sem vakti sérstaka athygli mína var auglýsing um að Hreppaþorrablótið verður haldið 7. febrúar 2015.  Þetta finnst mér ráð í tíma tekið og munaði engu að þorrablótsauglýsingin hefði komið áður en ég setti hrútspungana og siðasultuna í súr. Rúnar á Skagaströnd á eins og oftast áður vísu vikunnar í Glugganum  og segir hann: "Víða er hroki í hjörtum til/ heims úr þoku gerður." Það býr margt í heimsþokunni og vandratað um þá misbreiðu krákustíga sem þar er að finna.

     Ég var á ferðinni um suðvestur hornið um helgina og hitti þar marga gamla og góða  félaga úr hinum ýmsu geirum landbúnaðarins. Ferðuðumst við samann um Ölfusið og  Flóann og snæddum saman kvöldverð á laugardagskvöldinu. Þetta var hin ánægjulegasta ferð í alla staði. Það væri að æra óstöðugann að segja frá allri ferðinni í stuttum pistli en við komum m.a. við í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi þar sem Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur og staðarhaldari tók á móti hópnum á sinn skemmtilega hátt. Þar komst ég að því að hópur eins og ég var í er gjörólikur hópi tyrkneskra garðyrkjumanna . Jafnframt upplýsti Guðríður eða Gurrý eins og hún er kölluð okkur um að hópur eins og ég tilheyrði hefði þægilegri nærveru við hlustun en tyrkneskir garðyrkjumenn því þeir væru mun nærgöngulli og stæðu nánast á tám hennar þegar hún segði frá auk þess skyldum við íslensku mun betur. Mér fannst gott að vita þetta, vita að ég væri betri í hóp en tyrkneskur garðyrkjumaður. Rétt er þó að geta þess að þessu gæti verið öfugt farið ef minn hópur hefði verið í heimsókn á tyrkneskum garðyrkjuskóla og Tyrki væri að skrifa um þetta.


   Rosknir landbúnaðarvísindamenn í fræðslu hjá Guðríði í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi 

    En og aftur þá sé ég ekkert til hans Rúnars á Súkkunni og engin harmonikkutónar hafa ómað um gosmengaða Aðalgötuna og allir sem þetta lesa vita að mér finnst það miður.

08.10.2014 16:00

að laðast að því sem tortímir manni


Gamla kirkjan á Blönduósi hefur tekið stakkaskiftum í sumar

Í dag er fallegur haustdagur og það má að skaðlausu þakka fyrir undanfarna daga sem bæði hafa verið mildir og hægir . Þrátt fyrir rólyndisdaga þá hefur  þung alda leikið við ströndina. Það er eitthvað seiðmagn við þessar öldur sem eru tignarlegar en ógnvænlegar. Sjálfsagt er það brennt í undirmeðvitundina að hrífast af ógnaröflum, öflum sem maður hefur ekki nokkur tök á að hemja. Það er merkilegt að laðast að því sem tortímir manni. Ætli þetta eigi eitthvað skylt við freistingarnar sem verða á vegi manns, falli maður þá er voðinn vís. Ég skal ekki segja.

Ég brá mér í hálfs mánaðar frí til sólarlanda til að upplifa þá mestu rigningu sem ég hef á minni lífsfæddri ævi séð. Göturnar breyttust í stórfljót á örskotsstundu og fengu mann til að hugsa lítillega um syndarflóðið. Kannski hefur þetta verið vísbending að ofan, góðlátlegt olnbogaskot frá æðri máttarvöldum en hvað veit ég syndugur maðurinn sem þrammar áfram hinn breiða veg en sveigi þó frá stærstu keldum sé þess nokkur kostur.



Auðugt fuglalíf við Blöndu ós

Nú er ég búinn að vera við störf á Vesturbakkanum í rétta viku eftir frí og farinn að átta mig á staðreyndum lífsins. Það er greinilegt á öllu að ferðamanna tímabilið þetta árið er að líða undir lok. Þetta skynja ég á Jónasi vert á Ljóninu sem segir mér daglega að hann viti bara ekkert hvað hann eigi að gera því gestum hjá honum hefur stórlega fækkað hina síðustu daga. Ef ég á að vera heiðarlegur þá fer um mig ónotatilfinning þegar ég heyri þetta frá Ljóninu því ljón sem veit ekki hvað það á að gera getur tekið upp á öllum fjandanum eins og til dæmis að eltast við allt stjórnsýslukerfið með kærur í hverjum vasa. Það er sem sagt þannig að verkefnalausir baráttumenn eiga bágt og geta tekið upp á ólíklegustu hlutum sem í einhverjum tilfellum væri betur ógerðir.

Það eru ýmsar blikur á lofti hér á vesturbakkanum þessa haustdaganna. Má þar nefna að Erlendur listamaður Magnússon hefur auglýst húsið sitt sem kallað er Hemmertshús og stendur við hafið rétt neðan við hótelið. Gamalt fallegt hús með stórkostlegu útsýni yfir Húnaflóann.  Einnig hefur ÁTVR auglýst eftir húsnæði fyrir verslun sína sem hefur verið við Aðalgötu 8 alla daga frá því að þeir hófu verslunarrekstur á Blönduósi. Sjálfsagt er eitthvað fleira í gerjun sem ég hef ekki hugmynd um en það sem upp er talið eru töluverð tíðindi.


Þessi hrafn er ekki málaður á vegginn heldur átti bara leið um

Hef eiginlega ekkert orðið var við Rúnar vin minn Agnarsson síðan ég kom til vinnu eftir frí og finnst mér það  líkt og áður, heldur miður. En Glugginn er kominn og er svo sem ekkert með neinn stór boðskap en þó mikilvægan þeim  þurfa á honum að halda.  Píanóstillingar, kirkjuskóli  og Hyundai Accent árgerð 1999 og er tekið fram í auglýsingu að honum fylgi lyklar.  Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd og yrkir hann að ég tel að þessu sinni um útilistaverkasýningu sem nú er í gangi á Skagaströnd. "Grundahóla hækka ris/ heiðursvistar merkin, /er þar róla rangsælis / ryðguð listaverkin !"


Mál er að linni á fullu tungli. Dagurinn fyrir utan flokkast undir fallegan haustdag og ég mun glaður  teyga  brennisteinslausa súrefnið eftir klukkustund eða svo þegar vinnu lýkur og ég kemst út.

  • 1

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 632
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 63882
Samtals gestir: 11326
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 13:23:42